• Lykilorð:
  • Líkamsárás
  • Skilorð

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Vestfjarða 8. október 2018 í máli nr. S-30/2018:

Ákæruvaldið

(Bryndís Ósk Jónsdóttir fulltrúi)

gegn:

Þorbirni Gísla Magnússyni

(Ingólfur Vignir Guðmundsson hdl.)

 

I

Mál þetta, sem dómtekið var miðvikudaginn 3. október 2018 sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Vestfjörðum þann 19. júní sl., á hendur „Þorbirni Gísla Magnússyni, kennitala [...], [...], [...],

 

fyrir líkamsárás og barnaverndarlagabrot, með því að hafa sunnudaginn 18. mars 2018, í Sundhöllinni á Ísafirði, Austurvegi 9, ráðist að barninu [...], kt. [...], sýnt henni yfirgang og ruddalega framkomu, með því að grípa undir handleggi hennar og kasta henni nauðugri ofan í kaldan pott, sem stendur á bakka sundlaugarinnar, með þeim afleiðingum að hún hlaut mar fyrir framan og neðan við bæði hné, og húðrispu fyrir neðan hægra hné.

 

Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

II

Ákærði og skipaður verjandi hans sóttu ekki þing við fyrirtöku málsins og höfðu ekki boðað forföll, þrátt fyrir lögmæta birtingu ákæru þann 28. ágúst sl., ásamt fyrirkalli þar sem þess var getið að málið kynni að verða dæmt að ákærða fjarstöddum. Málið var því tekið til dóms samkvæmt 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

 

Með vísan til framanritaðs og til rannsóknargagna málsins telst framangreind háttsemi sönnuð og er hún rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

 

III

Samkvæmt framlögðu sakarvottorði hefur ákærði ekki áður sætt refsingu sem hefur áhrif á ákvörðun refsingar í þessu máli. Ákærði er nú sakfelldur fyrir líkamsárás og brot gegn barnaverndarlögum og beindist brot hans að [...] barni að því er virðist af litlu eða engu tilefni. Hins vegar ber og til þess að líta að afleiðingar brotsins virðast ekki hafa verið miklar.  Ber því að líta til 1., 2. og 3. tl. 70. gr. almennra hegningarlaga í þessu sambandi. Með vísan til framangreinds þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga, eftir atvikum þykir rétt að fresta fullnustu refsingar hans og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Engan sakarkostnað leiddi af máli þessu.

Dóm þennan kveður upp Bergþóra Ingólfsdóttir héraðsdómari

 

DÓMSORÐ:

Ákærði, Þorbjörn Gísli Magnússon, sæti fangelsi í 30 daga en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

                             Bergþóra Ingólfsdóttir