• Lykilorð:
  • Ítrekun
  • Fangelsi
  • Umferðarlagabrot

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Vestfjarða 14. desember 2018 í máli nr. S-52/2018:

Ákæruvaldið

(Bryndís Ósk Jónsdóttir fulltrúi)

gegn:

Óla Jóhanni Ólasyni

 

I

Mál þetta, sem dómtekið var 12. desember 2018, höfðaði lögreglustjórinn á Vestfjörðum með ákæru 12. nóvember 2018 á hendur Óla Jóhanni Ólasyni, kennitala [...], [...], [...], fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa fimmtudaginn 8. nóvember 2018, ekið bifreiðinni [...], um Krók á Ísafirði til norðurs, sviptur ökurétti, þar til lögregla stöðvaði akstur hans við hús að [...].

 

Telst þetta varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. síðari breytingar.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. „

 

II

Ákærði mætti við þingfestingu málsins og lýsti því yfir að hann óskaði ekki eftir skipun verjanda. Ákærði viðurkenndi skýlaust að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Farið var með málið samkvæmt ákvæðum 164. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu eftir að sækjandi og ákærði höfðu tjáð sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. Játning ákærða fær fulla stoð í gögnum málsins. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði hefur gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og er brot hans rétt heimfært til refsiákvæða í ákæru.

 

III

Ákærði er fæddur árið [...]. Samkvæmt framlögðu sakavottorði var ákærði dæmdur fyrir brot gegn 48 gr. umferðarlaga nr. 50/1987 í febrúar síðastliðnum og gekkst undir sátt fyrir sama brot í aprílmánuði síðastliðnum. Með broti því sem ákærði er nú sakfelldur fyrir hefur hann því í annað sinn ítrekað verið sakfelldur fyrir akstur sviptur ökuleyfi. Að virtum þessum sakarferli þykir refsing ákærða nú hæfilega ákveðin 30 daga fangelsi. Með vísan til dómvenju þykja ekki efni til að skilorðsbinda refsinguna.

Engan sakarkostnað leiddi af máli þessu.

Bergþóra Ingólfsdóttir dómstjóri kveður upp dóminn.

 

 

 

D Ó M S O R Ð:

 

Ákærði, Óli Jóhann Ólason sæti 30 daga fangelsi.

                                                Bergþóra Ingólfsdóttir