• Lykilorð:
  • Sönnun
  • Ölvunarakstur

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Vestfjarða 7. nóvember 2018 í máli nr. S-38/2018:

Ákæruvaldið

(Bryndís Ósk Jónsdóttir fulltrúi)

gegn:

X

(Elín Árnadóttir hdl.)

 

I

Mál þetta, sem dómtekið var 9. október 2018, að loknum munnlegum málflutningi, höfðaði lögreglustjórinn á Vestfjörðum með ákæru útgefinni 10. júlí sl. á hendur X, kt. [...], [...], [...], „fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa að kvöldi föstudagsins 30. mars 2018, stjórnað bifreiðinni [...], undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði mældist allt að 2,3‰), þar sem hún sat föst í snjóskafli, utan vegar við gatnamót [...] og [...] í [...], með því að reyna að losa hana úr snjóskaflinum.

 

Telst þetta varða við 1., sbr. 3. mgr. 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. síðari breytingar.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. síðari breytingar, og greiðslu alls sakarkostnaðar.“

           

Ákærði neitar sök og krefst sýknu af kröfum ákæruvalds og að málskostnaður verði greiddur úr ríkissjóði.

 

II

Samkvæmt skýrslu lögreglu fékk lögregla tilkynningu, að kvöldi 30. mars 2018, um umferðaróhapp í [...]  og að ökumaður væri að öllum líkindum ölvaður. Þegar að var komið var bifreiðin [...] utan vegar og sneru framljós hennar í norður. Vitni á vettvangi benti á ökumanninn, ákærða, X, sem samkvæmt skýrslunni reyndist ölvaður og með kvikjuláslykla bifreiðarinnar í buxnavasa sínum. Ákærði kvaðst á vettvangi ekki hafa verið að aka bifreiðinni en hann hefði verið í gleðskap [...] rétt hjá þeim stað er bifreiðin var utan vegar.

Meðal gagna málsins eru niðurstöður Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði en þar kemur fram að 2,04‰ áfengis hafi fundist í blóði ákærða kl. 00:19 31. mars 2018. Þá liggur og fyrir mat rannsóknastofunnar á ölvunarstigi ákærða, kl. 23:21 þetta kvöld, sem er 2,3 til 2,4‰ af áfengi í blóði.

 

III

Fyrir dómi neitaði ákærði að hafa ekið bifreið sinni undir áhrifum áfengis. Ákærði greindi svo frá að hann hefði komið í gleðskap [...] á [...] um klukkan hálfsjö þetta kvöld. Fjöldi bíla hefði þá verið á staðnum og hann lagt bifreið sinni út í kant, farið aðeins út af og bifreiðin þá setið föst. Hann hefði drepið á bílnum og farið í gleðskapinn. Þar hefði hann verið fram eftir kvöldi í mikilli drykkju. Hann hefði svo farið að huga að brottför, kannski um ellefuleytið, og hugmyndin hefði verið að fara niður í bæ á „Aldrei fór ég suður“ og svo heim að sofa. Áður hefði hann farið að huga að bifreiðinni, ætlað að sækja veski sitt í bílinn. Hann hefði ætlað að rölta áleiðis eða hringja á leigubíl. Ákærði kvaðst ekki hafa startað bifreiðinni, en bifreiðin væri þeirrar gerðar að aðeins þurfi að snerta hurðarhún hennar til að öll ljós bifreiðarinnar kvikni, að því tilskildu að maður sé með lykil að bifreiðinni á sér. Ákærði kvaðst ekki hafa reynt að hreyfa bifreiðina úr þessum skafli. Þá kvað ákærði fólk hafa borið að og boðið sér aðstoð og sig minnti að þau hefðu boðist til að draga bifreiðina. Sér hefði fundist það góð hugmynd á þeim tíma, og hann hefði sett krók á bifreiðina með aðstoð A, sem kom á vettvang.

            Í skýrslutöku hjá lögreglu kvaðst ákærði lítt eða ekkert muna eftir atvikum. Hann hefði farið út að kanna með bílinn, sem var í skafli fyrir utan veginn. Þá hefði komið að fólk sem hefði boðist til að draga bifreiðina fyrir hann. Það hafi honum fundist snilldarhugmynd á þeim tímapunkti. Þeir hefðu svo sett krók á en svo hefði það ekki náð lengra. Hann hefði farið að vesenast í bílnum, sem var fastur, sparkað í dekkin en myndi ekki hvort hann hefði sett bílinn í gang eða ekki. Ákærði kunni í skýrslu hjá lögreglu ekki skýringu á því hvers vegna bakkljós hefðu verið á bifreiðinni eða hún í gangi þegar fólkið kom að honum. Þá kvaðst ákærði ekki geta fullyrt að hann hefði ekki setið í bifreiðinni eða sett hana í gang en kvaðst ekki reka minni til þess að svo hefði verið.

Vitnið A kom fyrir dóm og kvaðst hafa verið farþegi í bifreið á leið frá [...]. Þau hefðu séð bíl úti í skurði, þar hefði maður setið undir stýri og bifreiðin hefði verið í gangi. Hann hefði farið til að athuga hvort allt væri í lagi. Ökumaðurinn hefði komið á móti sér og vitnið þá séð að sá sem setið hafði undir stýri væri ölvaður. Vitnið kvaðst ekki vera visst um hvort hugmyndin um að draga bifreiðina upp á veg hefði verið sín eða ákærða, en kvaðst hafa haldið ákærða uppi á spjalli þar til lögregla kom á vettvang. Vitnið kvaðst hafa sagt ákærða að þau myndu bara kippa honum upp á veg, en það hefði aldrei staðið til að draga hann. Aðspurt kvaðst vitnið ekki visst um það hvenær ákærði drap á bifreiðinni.

B kom fyrir dóm og greindi frá því að hún og samferðafólk hennar hefðu séð bifreið ákærða utan vegar. Ljós hefðu verið á bifreiðinni, bæði framljós og afturljós. Þau hefðu staðnæmst og A, samferðamaður hennar, hefði farið að bifreiðinni og ökumaðurinn komið út úr bifreiðinni á móti honum. Hún hefði séð að maðurinn var ölvaður og hringt í lögreglu, sem hefði verið komin á staðinn eftir 3-4 mínútur og handtekið ökumanninn. Vitnið kvaðst ekki hafa rætt við ákærða. Henni hefði virst bifreiðin í gangi en vildi ekki fullyrða að svo hefði verið. Hún hefði komið akandi að og fundist eins og bifreiðin juggaði, líkt og verið væri að reyna að koma bílnum upp úr dældinni sem hann var í. Ákærði hefði klárlega setið undir stýri og snúið því og dekkin á bifreiðinni hefðu hreyfst. Vitnið kvaðst ekki hafa séð reyk frá bifreiðinni og var ekki fullvisst um að bifreiðin hefði verið í gangi. Þá kvað vitnið lögreglu hafa spurt sig á vettvangi hvort hún hefði séð einhvern annan á svæðinu, og að tilefni þess hefði verið að ákærði hefði sagt lögreglu að vinur sinn hefði verið að keyra. Því hefði hún svarað neitandi enda enginn annar á svæðinu. Vitnið kvað ölvun ákærða hafa verið augljósa, hann hefði verið mjög reikull í spori og þurft að styðja sig við bílinn. 

F, lögreglumaður [...], staðfesti skýrslu sína í málinu. Vitnið kvað lögreglu hafa fengið tilkynningu um umferðaróhapp í [...] og að ökumaður væri mögulega ölvaður. Hún hefði ásamt fleiri lögreglumönnum farið á vettvang. Ákærði hefði angað af áfengi og verið með lykil að bifreiðinni í vinstri buxnavasa sínum. Aðspurður hefði ákærði sagt vin sinn hafa verið að aka bifreiðinni. Ákærði hefði svo horfið frá þeim framburði í lögreglubifreiðinni og sagst óviss um hver hefði ekið bifreiðinni. Vitnið kvað ákærða hafa verið svo ölvaðan að tæpast hefði verið hægt að halda uppi samræðum við hann. Vitnið mundi ekki hvort ljós hefðu verið á bílnum þegar að var komið.

Aðspurt kvað vitnið lögreglu hafa komið á vettvang innan tveggja mínútna frá tilkynningu. Við fyrstu sýn hefði þetta litið út eins og bílnum hefði verið ekið út af. Annar lögreglumaður hefði kannað vélarhlífina, sem hafi verið köld. 

G, lögreglumaður [...], kvaðst hafa farið á vettvang, rætt við vitni og tekið ljósmyndir. Vitnið upplýsti að rætt hefði verið við tvo af fimm farþegum bifreiðarinnar sem komu á staðinn. Hann kvað vitni á vettvangi hafa greint svo frá að þau hefðu séð bíl utan vegar og ljós á honum og því hringt í neyðarlínu. Vitnið kvaðst hafa séð greinileg för eftir bifreiðina niður í dældina þar sem hann var. Hann hefði séð móta fyrir spólförum, en ekki eins og bifreiðin hefði hreyfst eftir að hún var komin út fyrir veg. Vitnið kvaðst ekki hafa áttað sig á því hvort þau spólför voru ný eða gömul. Þá kvaðst vitnið hafa kannað vélarhlíf bifreiðarinnar, sem hafi verið köld viðkomu.

            H, deildarstjóri Rannsóknastofu HÍ, gaf símaskýrslu og staðfesti niðurstöður blóðrannsókna úr ákærða sem og álitsgerð sína.

            Símaskýrsla var tekin af C sem kom að vettvangi þetta kvöld. Hún kvaðst hafa verið undir áhrifum áfengis þetta kvöld. Þau hefðu séð ljós á bíl sem hefði verið ekið grunsamlega. Þau hefðu ákveðið að kanna málið og séð mann fyrir utan bílinn þar sem hann sat fastur í snjó. Vitnið kvaðst ekki geta fullyrt að hún hefði séð bílinn aka út af. Ljós hefðu verið á bifeiðinni og þá taldi vitnið sig hafa séð útblástur úr pústinu. Vitnið kvað bifreiðina ekki hafa hreyfst eftir að þau komu að en svartamyrkur hafa verið á staðnum. Vitnið kvað ákærða hafa sagt að hann þyrfti að fá þau til að draga bifreiðina upp á veg.

            D gaf símaskýrslu við aðalmeðferð málsins og kvaðst hafa verið farþegi í bílnum sem kom að ákærða þetta kvöld. Þau hefðu séð ljós og að bifreið hefði ekið út af. Þegar að var komið hefði maður verið þar fyrir utan að horfa á bifreiðina. Vitnið kvað þetta sér ekki ferskt í minni og hún hefði verið búin að fá sér í glas þetta kvöld. Vitnið kvaðst þó halda að það hefðu verið ljós á bílnum, enda sáu þau hann fljótt, en hún hefði ekki tekið eftir pústreyk. Vitnið mundi ekki til þess að ákærði hefði sest inn í bílinn.

            Auk þessara vitna gáfu lögreglumenn nr. [...] og [...] skýrslu fyrir dómi.

 

IV

            Eins og rakið hefur verið í framburði vitna sáu farþegar í bifreið á leið frá [...] að kvöldi 30. mars 2018 ljós á bifreið utan vegar og fóru því að til að kanna hvort óhapp hefði orðið. Þegar að var komið var ákærði þar staddur og greinilega undir áhrifum áfengis. Ljós voru á bifreiðinni og ákærði sat inni í bifreiðinni en gekk til móts við aðkomumenn þegar þá bar að. Vitnið A taldi að bifreiðin hefði verið í gangi þegar að var komið, en vitnið B kvaðst fyrir dómi ekki visst um að svo hefði verið, ljós hefðu verið á bílnum en ekki sést reykur frá pústi. Vitnið A kvaðst hafa sagt ákærða að hann skyldi kippa bifreið hans upp á veg, en var ekki visst um það hver hefði átt frumkvæði að þeirri hugmynd, ákærði eða vitnið sjálft. Lögreglumenn, sem komu að innan örfárra mínútna frá tilkynningu, kváðu ákærða hafa verið svo ölvaðan að hann hefði vart verið samræðuhæfur og ákærði verið með bíllyklana í vasa sínum. Spólför hefðu sést þar sem bifreiðin var, en ekki hefði mátt ráða hvort þau væru ný eða gömul. Þá hefði vélarhlíf bifreiðarinnar verið köld.

            Framburður annarra vitna, sem gáfu skýrslur í málinu fyrst fyrir dómi, meira en hálfu ári eftir atvikin, var misvísandi um það hvort bifreið ákærða hefði verið í gangi eða ekki þegar að var komið.

            Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður ekki litið svo á að ákæruvaldinu hafi tekist að sanna gegn neitun ákærða, svo ekki verði vefengt með skynsamlegum rökum, sbr. 108. og 109. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, að ákærði hafi stjórnað eða reynt að stjórna bifreiðinni [...] að kvöldi föstudagsins 30. mars 2018 undir áhrifum áfengis. Verður ákærði því sýknaður af öllum kröfum ákæruvalds í málinu.

            Með vísan til 2. mgr. 235 gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 greiðist allur sakarkostnaður úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Elínar Árnadóttur lögmanns, sem þykja hæfilega ákveðin 276.760 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum auk útlagðs kostnaðar lögmannsins vegna ferða, samtals 39.195 krónur.

            Fyrir uppkvaðningu dómsins var gætt ákvæða 1. mgr. 184 gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, en uppkvaðning dómsins hefur dregist lítillega vegna starfsanna dómara.

            Dóm þennan kveður upp Bergþóra Ingólfsdóttir héraðsdómari.

 

DÓMSORÐ:

 

Ákærði, X, skal sýkn af kröfum ákæruvalds í málinu.

Allur sakarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Elínar Árnadóttur lögmanns, 276.760 krónur, auk útlagðs kostnaðar lögmannsins, 39.195 krónur.

                                                            Bergþóra Ingólfsdóttir