• Lykilorð:
  • Ógilding
  • Viðurkenningardómur
  • Eignarréttarmál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Vestfjarða 16. apríl 2019 í máli nr. E-17/2018:

Orkubú Vestfjarða ohf.

(Jónas A. Aðalsteinsson hrl.)

gegn

Ísafjarðarbæ

(Andri Árnason hrl.)

og

AB - Fasteignum ehf.

(Jóhannes Bjarni Björnsson hrl.)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 11. mars 2019, var höfðað 17. apríl 2018 af Orkubúi Vestfjarða ohf. á hendur Ísafjarðarbæ og AB-Fasteignum ehf.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru:

Að viðurkenndur verði með dómi að allur réttur til virkjunar vatnsafls, fallvatns, í Úlfsá í Dagverðardal, Ísafirði, Ísafjarðarbæ, sé eign Orkubús Vestfjarða ohf.

Að samningur á milli Ísafjarðarbæjar og AB-Fasteigna ehf. um rannsóknar- og virkjunarleyfi í Úlfsá á Dagverðardal, dags. 24. janúar 2018, verði ógiltur.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda Ísafjarðarbæjar að mati dómsins.

Stefndi Ísafjarðarbær krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.

Við aðalmeðferð málsins varð útivist af hálfu stefnda AB-Fasteigna ehf., sem hefur kosið að láta málið ekki til sín taka.

 

I

Helstu ágreiningsefni og yfirlit yfir málsatvik

Orkubú Vestfjarða var sett á stofn með lögum nr. 66/1976. Félagið var sameignarfélag, í eigu sveitarfélaga að 60% hlut en 40% í eigu ríkisins. Tilgangur fyrirtækisins samkvæmt 2. gr. laganna var að virkja vatnsafl og jarðhita á Vestfjörðum, þar sem hagkvæmt þætti. Í 5. gr. laganna sagði að Rafmagnsveitur ríkisins og ríkissjóður, svo og orkuveitur sveitarfélaga á Vestfjörðum, skyldu afhenda Orkubúi Vestfjarða til eignar sem stofnframlag öll mannvirki sín á Vestfjörðum í raforkuverum, rafstöðvum, kyndistöðvum og jarðvarmavirkjunum ásamt tilheyrandi flutnings- og dreifikerfi, enda yfirtæki fyrirtækið samkvæmt samkomulagi skuldir vegna þeirra mannvirkja sem það tæki við. Í 6. gr. laganna sagði enn fremur að iðnaðarráðherra veitti Orkubúi Vestfjarða einkaleyfi til þeirrar starfsemi sem fælist í tilgangi félagsins.

Í lok desember 1977 gerðu Orkubú Vestfjarða og Ísafjarðarbær með sér samning, með vísan til fyrrgreindra laga, um yfirtöku Orkubús Vestfjarða á rekstri Rafveitu Ísafjarðar, afhendingu eigna, réttinda og skyldna aðila í því sambandi. Eignaðist Ísafjarðarbær þá hlut í Orkubúi Vestfjarða í hlutfalli við íbúatölu sveitarfélagsins, í samræmi við 3. gr. laga nr. 66/1976. Með afsali, útgefnu 1. desember 1978, afsalaði bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar Orkubúi Vestfjarða m.a. borholum sínum í Tungudal, með tilheyrandi hitaréttindum og öllum rétti til virkjunar vatnsafls, jarðhita og fallsvatns, sem kaupstaðurinn átti eða kynni að eiga í löndum sínum eða annars staðar og hann kynni að hafa samið um, jafnt þekktra sem óþekktra réttinda. Jafnframt var Orkubúi Vestfjarða veittur réttur til hvers konar rannsókna og tilraunaborana í löndum Ísafjarðarkaupstaðar og hagnýtingar upplýsinga sem við það fengjust, en gefa skyldi bæjarstjórn kost á að fylgjast með rannsóknum og niðurstöðum þeirra.

Með samkomulagi Ísafjarðarbæjar og Orkubúsins frá ágúst 1984 var Ísafjarðarbæ heimiluð nýting á jarðhita í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp til starfsemi er tengdist fiskeldi, ylrækt eð annarri álíka notkun. Samkomulagið var tímabundið og háð ákveðnum skilyrðum. 

Orkubúi Vestfjarða var breytt úr sameignarfélagi í hlutafélag með lögum nr. 40/2001. Í kjölfar þess keypti ríkið hlut Ísafjarðarbæjar í félaginu og nam kaupverðið 1.430.600.000 krónum. Á sama tíma greiddi ríkið alls 4.600.000.000 króna fyrir eignarhluti sveitarfélaganna í Orkubúi Vestfjarða og lýsti sig eina eiganda þess.

Í janúar 2018 heimilaði stefndi Ísafjarðarbær með samningi AB-Fasteignum ehf. að rannsaka vatnasvið og hagkvæmni hugsanlegrar vikjunar í Úlfsá og nýta  vatnsréttindi þau sem Ísafjarðarbær ætti í Úlfsá tilvirkunar í Úlfsá og reka Úlfsárvirkjun. AB-Fasteignum ehf. voru þá leigð vatnsréttindi og landnot til 25 ára eftir að Úlfsárvirkjun tæki til starfa, með forleigurétti að þeim tíma loknum, en gera skyldi sérstakan lóðarleigusamning vegna landnota kæmi til virkjunar. AB-Fasteignum ehf. var veitt virkunarleyfi fyrir Úlfsárvirkjun af Orkustofnun í maí 2018.

Þessi samningur Ísafjarðarbæjar og AB-Fasteigna er tilefni þessa máls, en stefnandi telur sig lögmætan eiganda þeirra vatnsréttinda í Úlfsá sem voru í eigu stefnda Ísafjarðarbæjar við stofnun Orkubús Vestfjarða. Samningur stefnda við AB-Fasteignir geti því ekki tekið til þeirra réttinda. Hverfist ágreiningur aðila málsins um það hvort Ísafjarðarbær hafi, með nefndum samningum og afsali árin 1977 og 1978, afsalað sér eignarrétti að réttindum til virkjunar vatnsafls, jarðhita og fallvatns í löndum kaupstaðarins, jafnt þekktra sem óþekktra réttinda. Í því sambandi er ágreiningur um það hvort umræddir gerningar hafi annars vegar verið í samræmi við lög, sérstaklega lög nr. 66/1976 við stofnun Orkubús Vestfjarða, tilgang þeirra og markmið og hins vegar hvort sú ráðstöfun sem í þessu fólst hafi verið utan heimilda sveitarstjórnar.

 

II

Helstu málsástæður stefnanda

Stefnandi byggir kröfur sínar á því að Orkubú Vestfjarða eigi óskoraðan rétt til virkjunar vatnsafls í Úlfsá í Dagverðardal. Kveðst stefnandi byggja þann rétt sinn aðallega á samningi milli Orkubús Vestfjarða og Ísafjarðarbæjar frá 30. desember 1977 og afsali dagsettu 1. desember 1978. Þar með hafi bæjarstjórn Ísafjarðar afsalað öllum rétti til virkjunar vatnsafls í löndum bæjarfélagsins til stefnanda. Frá þeim tíma er afsalið var gefið út hafi stefndi Ísafjarðarbær aldrei gefið til kynna að Ísafjarðarbær liti svo á að afsalið hafi ekki öðlast gildi eftir efni sínu. Þvert á móti hafi öll háttsemi stefnda Ísafjarðarbæjar verið í þá átt að í afsalinu hafi falist gilt framsal vatnsréttinda, jarðhitaréttinda og fallvatnsréttinda til stefnanda. Stefndi geti ekki nú, 40 árum síðar, veitt stefnda AB-Fasteignum ehf. rétt til að nýta þau réttindi.

            Hvað þá ráðstöfun varðar kveðst stefndandi byggja á því að um sé að ræða vanheimild í skilningi laga. Stefndi Ísafjarðarbær hafi með samningi við AB-Fasteignir ráðstafað víðtækari rétti en hann átti sjálfur. Vanheimild stefnda sé bæði fullkomin og upprunaleg. Stefndi AB-Fasteignir ehf. hafi því ekki öðlast réttarstöðu samkvæmt samningi félagsins við Ísafjarðarbæ frá 24. janúar 2018. Þá beri 3. gr. þess samnings með sér að báðum stefndu hafi verið fullkomlega ljóst um vanheimildina við samningsgerðina.

            Þá byggir stefnandi og á meginreglunni um kaupfox, sbr. 14. kapítula Jónsbókar, en samkvæmt henni skulu löglegir gerningar á milli aðila haldast þegar eign er ráðstafað til tveggja aðila með þeim hætti að sá sem fyrr fékk eigninni ráðstafað til sín fái eignina. Um beitingu kaupfox sé vísað þegar engar traustfangsreglur styðja rétt seinni viðsemjanda. Stefndi AB-Fasteignir ehf. hafi við undirritun samnings við Ísafjarðarbæ verið grandsamur um betri rétt Orkubús Vestfjarða til réttinda þeirra er samningar stefndu lúta að.

            Stefnandi kveður afsalið frá 1978 skýrt að efni til um eignarréttindi Orkubús Vestfjarða. Ágreiningslaust sé með aðilum að Ísafjarðarbær hafi verið eigandi vatnsréttindanna fyrir afsalsgerðina. Þá sé og óumdeilt að heimilt hafi verið að láta af hendi vatnsréttindi án þess að eignarréttur að landi fylgdi, samkvæmt þágildandi ákvæðum vatnalaga nr. 15/1923. Bæjarstjórn Ísafjarðar hafi samþykkt afsalið efnislega og veitt bæjarstjóra heimild til útgáfu þess. Báðir stefndu hafi verið grandsamir um efni skjalsins við gerð þess samnings sem er tilefni þessa máls. Þá hafi stefndi Ísafjaðarbær ekki aðhafst neitt í 40 ár til vefengingar afsalinu fyrr en nú. Afsalinu hafi hvorki verið hnekkt né breytt frá öndverðu og því eigi stefnandi rétt samkvæmt því.

Þá kveður stefnandi túlkun Ísafjarðarbæjar á 5. gr. laga nr. 66/1976 fráleita. Tilgangur og markmið með stofnun Orkubús Vestfjarða hafi verið að virkja vatnsafl og jarðhita á Vestfjörðum, þar sem hagkvæmt þætti. Þ.e. ekki aðeins að starfrækja veitur sem þegar væru til staðar. Rafmagnsveitur ríkisins og ríkissjóður hafi lagt fram sem stofnfé öll mannvirki og dreifikerfi á Vestfjörðum, meðal annars Mjólkárvirkjun, Þverárvirkjun og Reiðihjallavirkun ásamt vatnsréttindum. Hefðu þær eignir er ríkið lagði til numið 59% af höfuðstól efnahagsreiknings Orkubús Vestfjarða eftir að áhvílandi skuldir hefðu verið dregnar frá. Eignir sveitarfélaganna hefðu numið um 41% af efnahagsreikningi. Þrátt fyrir það hefðu sveitarfélögin eignast 60% hlut í Orkubúi Vestfjarða en ríkið 40%. Sá munur kæmi til af því að þau réttindi sem afhent voru fyrirtækinu sem stofnframlag hafi verið áætluð virði þess mismunar þótt þau væru utan efnahagsreiknings á þeim tíma. Þar sé um að ræða rétt til virkjunar vatnsafls, jarðhita og fallvatns til framtíðar.

Stefnandi byggir til vara rétt sinn á því að hefð hafi verið fullnuð í merkingu hefðarlaga nr. 46/1905. Frá því að umrætt afsal var undirritað árið 1978 hafi stefnandi haft óslitið eignarhald yfir vatnsréttindum Úlfsár. Stefnandi hafi ávallt vitað af virkjunarmöguleika Úlfsár, en hafi hingað til ekki talið ána vera fjárhagslega hagkvæman virkjunarkost. Engu að síður haft stefnandi unnið og kostað til rannsókna á vatnasviði Úlfsár í gegnum árin, ekki síst á síðari árum. Í þau 40 ár sem stefnandi hefur talið til réttindanna hafi stefndi Ísafjarðarbær aldrei gefið til kynna með neinum hætti að orðalag afsalsins væri óljóst og það hefði því ekki þýðingu gagnvart stefnda Ísafjarðarbæ.

Ótvíræð huglæg afstaða hefðanda, stefnanda Orkubús Vestfjarða, um að réttindunum hafi verið afsalað með afsali frá 1. desember 1978 get ekki haft aðra þýðingu en að stefnandi sé eigandi réttindanna.

 

III

Helstu málsástæður stefnda Ísafjarðarbæjar

Stefndi Ísafjarðarbær byggir málatilbúnað sinn á því aðallega að í 5. gr. samnings aðila frá 30. desember 1977, sbr. og afsal frá 1. desember 1978, hafi ekki falist bindandi ráðstöfun eignarréttinda sem stefnandi byggir á. 

Til vara byggir stefndi á því að sú ráðstöfun hafi verið ógild, eða ógildanleg, þar sem hún hafi verið utan heimilda sveitarstjórnar, án endurgjalds og ekki til samræmis við ákvæði laga nr. 66/1976, sbr. og til hliðsjónar ákvæði 13. gr. orkulaga nr. 58/1967. 

Málsástæður sínar grundvallar stefndi á því að við túlkun 5. gr. samningsins og afsals verði að líta til tilgangs og og markmiða með stofnun Orkubús Vestfjarða og forsögu þeirrar ráðstöfunar. Orkubú Vestfjarða skyldi vera þjónustufyrirtæki gagnvart íbúum Vestfjarða og í samræmi við það hafi framlag sveitarfélaga til Orkubúsins falist í yfirtöku félagsins á rekstri, eignum og skyldum orkuveitna sveitarfélaga á Vestfjörðum en ekki öðrum réttindum. Orðalag 5. gr. samnings aðila og afsals hafi ekki verið í samræmi við 5. gr. laga nr. 66/1976. Tilgangur aðila samkvæmt þeim samningi sé óljós og allan óskýrleika í því efni beri að túlka stefnanda í óhag, sem hafi samið samninginn einhliða. Þau réttindi sem málið varðar hafi ekki talist til stofnframlags í skilningi ákvæðis 5. gr. laga um Orkubú Vestfjarða. Ekki hafi verið kveðið á um neina sérstaka greiðslu fyrir þau réttindi og ekki ráðgert að eignarhlutdeild stefnda Ísafjarðarbæjar í Orkubúi Vestfjarða myndi aukast við afhendingu meintra réttinda.

Þá byggir stefndi á því að meint ráðstöfun „þekktra sem óþekktra réttinda“ í skilningi nefnds samnings og afsals uppfylli ekki kröfur sem gera verði til ráðstöfunar fasteignaréttinda, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 15/1923, sem kveði á um að ráðstöfun vatnsréttinda fari eftir reglum um landkaup. Ráðstöfun sú sem stefnandi byggi meint eignarréttindi á hafi ekki falið í sér bindandi ráðstöfun tiltekinna afmarkaðra fasteignaréttinda, svo sem í Úlfsá.

Stefndi byggir einnig á því að hafi umræddum réttindum verið ráðstafað með þeim hætti sem stefnandi byggir á, hafi átt að skrá slík réttindi í fasteignaskrá og vísar stefndi í því efni til dóma Hæstaréttar í málum nr. 562/2008 og nr. 22/2015. Umrædd ráðstöfun hafi ekki falið í sér neina breytingu á eignarhaldi, skráningu fasteignaréttinda eða þ.u.l., sem staðfesti að ekki hafi verið um bindandi ráðstöfun slíkra réttinda að ræða.

Þá telur stefndi að stefnandi hafi sönnunarbyrði fyrir því að félagið sé eigandi meintra réttinda, án þess að þau hafi komið fram í stofngögnum félagsins, eða þeirra hafi verið getið sérstaklega í ársskýrslum og ársreikningum þess um árabil. Í því samhengi bendir stefndi á að stefnandi hafa ekki gert neinar ráðstafanir til að tryggja meint eignarréttindi, svo sem með þinglýstri kvöð á jarðir og landsvæði í eigu stefnda Ísafjarðarbæjar, sbr. og til hliðsjónar 29. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978, eins og verður að telja eðlilegt ef um raunveruleg eignarréttindi hafi verið að ræða. Beri stefnandi allan halla af þessu verulega tómlæti sínu. 

Þá byggir stefnandi á því að ráðstöfun sú, sem stefnandi byggir á að hafi falist í afsali frá 1. desember 1978, geti ekki talist gild og bindandi fyrir stefnda þar sem ráðstöfunin, þannig skýrð, hafi ekki rúmast innan heimilda bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar til ráðstöfunar á réttindum og eignum sveitarfélagsins. Ráðstöfun sú er um ræðir hafi ekki verið innan heimildar 5. gr. laga nr. 66/1976 um Orkubú Vestfjarða. Á þá ráðstöfun verði að líta sem ólögbundið verkefni sveitarfélagsins í skilningi 10. gr. þágildandi sveitarstjórnarlaga nr. 58/1961. Endurgjaldslaus ráðstöfun meintra virkjunarréttinda, þekktra sem óþekktra, og án skilyrða, hafi ekki rúmast innan þeirra heimilda. Þá gildi sú meginregla um meðferð fjármuna sveitarfélaga að óheimilt er að láta fjármuni eða fjárhagsleg réttindi sveitarfélags af hendi eða ráðstafa slíkum réttindum án viðeigandi endurgjalds. Hafi því skort lagaheimild fyrir sveitarstjórn til ráðstöfunar á nefndum réttindum, eins og hér stóð á og á þann veg sem stefnandi byggir á, og tejist ráðstöfunin því ipso jure nullum.

Þá byggir stefndi á því að þó svo að sveitarfélögin hafi fengið hærri eignarhlut í Orkubúinu þá hafi það í sjálfu sér ekki falið í sér endurgjald fyrir téð réttindi. Sú skipting eignarhluta ríkisins og sveitarfélaga hafi verið lögbundin, sbr. 3. gr. laga nr. 66/1976, sem og innbyrðis skipting sveitarfélaganna, og því algjörlega óháð verðmæti þeirra stofnframlaga sem aðilar lögðu til.

Þá kveðst stefndi byggja á því til vara að ákvæði 5. gr. samnings aðila verði einungis skilið á þann veg að um hafi verið að ræða rétt til nýtingar orkuréttinda til handa Orkubúi Vestfjarða, og eftir atvikum forgangsréttur að því leyti til, en eignarrétturinn sem slíkur hafi hins vegar átt að vera áfram á hendi stefnda og því bæri Orkubúi Vestfjarða að greiða endurgjald vegna nýtingar þeirra réttinda kæmi til hennar. Ákvæðið verði að túlka þröngt með hliðsjón af grunnsjónarmiðum sveitarstjórnarréttar og eignarréttar, og beri stefnandi allan halla af óskýrleika í þessum efnum.

Hvers kyns forgangsréttur til nýtingar hafi hins vegar fallið niður við gildistöku laga nr. 57/1998, þar sem fyrirkomulag á nýtingu auðlinda var breytt og það gert háð leyfi Orkustofnunar. Ætla verði að ákvæði gildandi laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu gangi framar tilvísuðum samningsákvæðum í samningi Orkubús Vestfjarða og stefnda og að nýting framangreindra réttinda í dag lúti fyrst og fremst því fyrirkomulagi sem kveðið er á um í gildandi lögum.

Þá kveður stefndi að í kjölfar laga nr. 40/2001 hafi endanlega brostið forsendur fyrir hinni umþrættu ráðstöfun. Stefnandi starfi í dag sem hlutafélag á almennum markaði og telur stefndi að ekki fái staðist að umrædd meint tilfærsla réttinda geti talist vera félaginu til frjálsrar ráðstöfunar við slíkar aðstæður.

Loks byggir stefndi á því að 5. gr. tilvísaðra löggerninga, að því er varðar meint framsal orkuréttinda sem dómkrafa stefnanda lýtur að, sé ógild á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936, með síðari breytingum, þ.m.t. að því er varðar rétt til virkjunar vatnsafls í Úlfsá.  Efni þeirra sé verulega ósanngjarnt og óeðlilegt í garð stefnda sem sveitarfélags og íbúa sveitarfélagsins enda umfram það sem leiðir af lögum nr. 66/1976, framsalið sé án endurgjalds úr hendi Orkubús Vestfjarða og byggt á þeirri forsendu að um væri að ræða hagnýtingu réttinda til hagsbóta fyrir íbúa stefnda, og eftir atvikum umrædd sveitarfélög til framtíðar.

Að því er varðar málsástæðu stefnanda til vara um að stefnandi hafi frá árinu 1978 haft óslitið eignarhald yfir vatnsréttindum Úlfsár, þá byggir stefndi á því að skilyrði fyrir hefð séu ekki uppfyllt. 

IV

Forsendur og niðurstaða

Við aðalmeðferð málsins gaf Elías Jónatansson, orkubússtjóri Orkubús Vestfjarða, skýrslu.

Stefnandi tók til starfa á árinu 1978 á grundvelli laga nr. 66/1976 um Orkubú Vestfjarða. Félagið var þá sameignarfélag í eigu ríkisins og sveitarfélaga á Vestfjörðum. Samkvæmt 2. gr. laga nr. 66/1976 var tilgangur félagins m.a. að virkja vatnsafl og jarðhita á Vestfjörðum, eiga og reka orkuver og raforkustöðvar til raforkuframleiðslu, ásamt nauðsynlegum mannvirkjum til raforkuflutnings og raforkudreifingar. Í 5. gr. laganna var kveðið á um það að Rafmagnsveitur ríkisins og ríkissjóður svo og orkuveitur sveitarfélaga á Vestfjörðum skyldu afhenda Orkubúi Vestfjarða til eignar sem stofnframlag öll mannvirki sín á Vestfjörðum í raforkuverum, rafstöðvum, kyndistöðvum og jarðvarmavirkjunum ásamt tilheyrandi flutnings- og dreifikerfi, enda yfirtæki fyrirtækið, samkvæmt samkomulagi, skuldir vegna þeirra mannvirkja sem það tæki við. Í 6. gr. laganna var kveðið á um einkaleyfi félagsins til þeirrar starfsemi sem fælist í tilgangi félagsins, með tilgreindum undantekningum þó.

Í samræmi við ákvæði laganna lagði stefndi Ísafjarðarbær allar eignir Rafveitu Ísafjarðar inn í hið nýja sameignarfélag, sem yfirtók þá allar skuldbindingar rafveitunnar. Því til staðfestu gaf stefndi út afsal, dagsett 1. desember 1978, þar sem Orkubúi Vestfjarða var afsalað m.a., eins og segir í 5. gr. afsalsins, „… borholum sínum í Tungudal með tilheyrandi hitaréttindum og öllum rétti til virkjunar vatnsafls, jarðhita og fallvatns, sem kaupstaðurinn á eða kann að eiga í löndum sínum eða annars staðar og hann kann að hafa samið um. Nær þetta jafnt til þekkra sem óþekktra réttinda. Jafnframt er Orkubúi Vestfjarða veittur réttur til hvers konar rannsókna og tilraunaborana í löndum Ísafjarðarkaupstaðar og hagnýtingar þeirra upplýsinga, sem við það fást, en gefa skal bæjarstjórninni kost á að fylgjast með rannsóknum og niðurstöðum þeirra.“

Stefnandi byggir rétt sinn í máli þessu aðallega á nefndu afsali sem ekki hafi verið hnekkt né því breytt á nokkurn hátt. Stefndi Ísafjaðarbær byggir hins vegar á því að tilvitnað ákvæði 5. gr. afsalsins sé óskýrt að efni til og í ósamræmi við 5. gr. laga nr. 66/1976 um Orkubú Vestfjarða. Þau réttindi sem um er þrætt hafi ekki verið hluti þess stofnframlags sem stefndi hafi látið af hendi og ekki hafi verið kveðið á um greiðslu fyrir þessi réttindi. Þá hafi ekki verið þinglýst kvöð í samræmi við efni þess né hafi þessi eignarréttindi verið skráð með öðrum þeim hætti sem vera ber þegar um ráðstöfun fasteignaréttinda er að ræða.

Við mat á því hvort efnisleg samstaða sé með nefndum ákvæðum afsalsins og lögum nr. 66/1976 verður að líta sérstaklega til tilgangs laganna, eins og stefndi hefur sjálfur lagt áherslu á í málflutningi sínum. Eins og áður gat var tilgangur félagsins sá að virkja vatnsafl og jarðhita á Vestfjörðum þar sem hægkvæmt þótti, og annast virkjunarrannsóknir og aðrar undirbúningsrannsóknir, sbr. 2. gr. laganna. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 66/1967 kemur fram m.a. að hugmyndin að Orkubúi Vestfjarða byggðist á hagkvæmnissjónarmiðum fyrir þjóðarheildina. Gert væri ráð fyrir því að fyrirtækið yrði sameign ríkisins og sveitarfélaga þar sem hvor um sig gegndi veigamiklu hlutverki. Orkuframleiðsla á Vestfjörðum væri staðbundið verkefni og því eðlilegt að staðarþekking sveitarstjórna kæmi til við stjórn þessara mála, sem svo mjög varði hag fólksins og framtíð byggðar í þessum landshluta. Hins vegar krefjist orkuver mikils stofnfjármagns og mikilla fjárhagslegra skuldbindinga og ábyrgðar sem ríkið eitt megni að láta í té. Þess vegna væri það eðlilegt að ríkisvaldið með sína fjármálalegu ábyrgð, heildastjórn og yfirsýn yfir orkumál landsins yrði sameignaraðili að Orkubúi Vestfjarða, enda yrði eignaraðild að fyrirtækinu eigi að síður miðuð við markaðshlutdeild. Gerðu lögin ráð fyrir því að eignarhluti ríkisins skyldi nema 40% en sveitarfélaganna samtals 60%.

Það er mat dómsins að lög nr. 66/1976 og greinargerð með frumvarpi að þeim lögum beri með sér að að tilgangur með stofnun félagsins hafi frá öndverðu lotið að orkuöflun ekki síður en orkudreifingu á Vestfjörðum. Þeim tilgangi verður að mati dómsins ekki náð nema orkuréttindi séu til staðar, t.d. sem vatnsréttindi. Þá bera gögn málsins með sér að stefndi Ísafjarðarbær og stofnanir bæjarins hafa, allt þar til í aðdraganda þess samnings er varð tilefni þessa máls, litið svo á að stefnandi væri eigandi þeirra réttinda sem þrætt er um. Þegar og ef hugmyndir um annað hafi komið fram hafi stefndi ævinlega hafnað því. Réttindin og nýting þeirra hafa verið virk frá öndverðu og engin breyting orðið á því frá 1978, án þess að stefndi Ísafjarðarbær hafi hreyft við því andmælum. Er það mat dómsins að stefndi Ísafjarðarbær hafi þannig frá öndverðu verið grandsamur um þau réttindi stefnanda sem um er þrætt.  

Það er óumdeilt að í stað þeirra eigna sem runnu til Orkubús Vestfjarða við stofnun sameignarfélagsins eignaðist stefndi hlutdeild í félaginu, í samræmi við íbúafjölda sveitarfélagsins, sbr. 3. mgr. 3. gr. laga 66/1976. Sá eignarhlutur var síðar metinn stefnda til fjár, við stofnun hlutafélags um rekstur stefnanda, með lögum nr. 40/2001, en stefndi seldi þá ríkinu hlut sinn í félaginu. Verður því ekki litið svo á að engin verðmæti hafi komið í stað þeirra verðmæta sem stefndi lagði í té.

Sem fyrr segir bera gögn málsins með sér að stefndi Ísafjarðarbær hafi hingað til virt umrætt afsal og samning við stefnanda, samkvæmt efni sínu, athugasemdalaust um 40 ára skeið. Þá verður ekki annað ráðið af þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu, er varða aðdraganda samningsgerðar stefnda Ísafjarðarbæjar og AB-Fasteigna ehf. sem er tilefni þessa máls, en að báðir stefndu hafi við undirritun þess samnings verið grandsamir um mögulegan betri rétt stefnanda en stefnda Ísafjarðarbæjar hvað varðar vatnsréttindi í Úlfsá á Dagverðardal. Að því virtu verður ekki á það fallist að skortur á þinglýsingu afsalsins eða skráning þeirra réttinda í fasteignaskrá breyti nokkru um rétt aðila málsins þannig að þeim gerningum sem stefnandi byggir á verði hnekkt, eins og ágreiningur þessi er lagður fyrir dóminn.

Stefndi hefur auk annars byggt á því að ráðstöfun vatnsréttinda Ísafjarðarbæjar á sínum tíma hafi verið ógild eða ógildanleg, m.a. þar sem hún hafi verið í ósamræmi við lög og utan heimilda sveitarstjórnar og án endurgjalds. Í málflutningi sínum lagði stefndi áherslu á að ólögbundin verkefni sveitarfélags yrðu að uppfylla tiltekin skilyrði. Slík verkefni yrðu að teljast sameiginlegt velferðarmál íbúa viðkomandi sveitarfélags og við afmörkun á því hugtaki yrði m.a. að líta til þess að verkefnið gagnaðist íbúum sveitarfélagsins almennt en ekki afmörkuðum hluta þeirra. Þá þurfi að vera fyrir hendi raunveruleg þörf fyrir það að verkefninu sé sinnt.

Sem fyrr segir var í greinargerð með frumvarpi að lögum nr. 66/1976 fjallað um þann tilgang laganna að tryggja Vestfirðingum orku til framtíðar, með hagkvæmisstjónarmið að leiðarljósi, en það skipulag uppbyggingar Orkubúsins var þá talið besta tryggingin fyrir hagkvæmri skipan orkumála í þessum landshluta. Þá var auk þess að því stefnt að orkuverð á veitusvæðinu yrði sambærilegt því sem best gerðist annars staðar á landinu.

Dómurinn hefur þegar tekið afstöðu til þess að ráðstöfun þeirra réttinda sem málið varði hafi verið innan heimildar laga og að eignarhlutur sveitarfélagsins í hinu nýja sameignarfélagi hafi verið endurgjald fyrir innlögð réttindi. Hvað varðar málsástæður stefnda er lúta að heimildum sveitarfélagsins endranær til ráðstöfunar þessara réttinda,  þá er það mat dómsins að tilgangur laga nr. 66/1976, eins og hann er skýrður í lögunum sjálfum og greinargerð með þeim, hafi fyrst og síðast verið sá að tryggja íbúum sveitarfélagsins orku til framtíðar á sambærilegu verði og annars staðar á landinu. Það væri forsenda byggðar á svæðinu. Að mati dómsins falla þau markmið vel að þeim skilyrðum sem uppfylla þarf svo að sveitarfélagi sé heimilt að sinna verkefni umfram sérstakar lagaskyldur. Verður því ekki fallist á þær málsástæður stefnda sem lúta að ógildingu þessara ráðstafana.

Hvað varðar málsástæður stefnda, til vara, þess efnis að rétt sé að skýra 5. gr. afsalsins þannig að réttur stefnanda hafi aðeins verið til nýtingar orkuréttindanna gegn endurgjaldi ef til þess kæmi, og eftir atvikum forgangsréttur,  er óhjákvæmilegt að líta til þess sem áður sagði að stefndi hefur ekki fyrr en nú í aðdraganda þessa máls dregið þessar ráðstafanir í efa né haft uppi kröfur um endurgjald úr hendi stefnanda vegna slíkra réttinda. Verður að meta stefnda það til tómlætis að hafa ekki áður haft slíkar kröfur uppi á þeim langa tíma sem liðinn er frá gerð samninganna. Verður að ætla að stefndi hafi haft til þess bæði ítrekuð tækifæri og tilefni. Hvað varðar þá málsástæðu stefnda að sá meinti forgangsréttur hafi fallið niður við gildistöku laga nr. 57/1998 er það mat dómsins að sú breyting sem þá var gerð á fyrirkomulagi rannsókna og nýtingu auðlinda, með því að sérstakri opinberri stofnun var fengið vald til leyfisveitinga í því sambandi, breyti í engu um þann ágreining sem er til meðferðar. Verður þeirri málsástæðu stefnda því hafnað.

Á sama hátt er það mat dómsins að málsástæða stefnda þess efnis að forsendur samnings aðila hafi endanlega brostið í kjölfar laga nr. 40/2001 hafi ekki efnisleg né lögfræðileg áhrif á niðurstöðu máls þessa. Í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 40/2001 kemur fram að hugmyndin að stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða hafi orðið til í viðræðum fulltrúa stjórnvalda og sveitarfélaga á Vestfjörðum um lausn á fjárhagsvanda sveitarfélaganna. Með kaupum ríkisins á hlut sveitarfélaganna í félaginu mætti gera þeim kleift, m.a. stefnda, að grynnka á skuldum sínum. Mun stefndi þá hafa fengið 1.430.600.000 krónur fyrir eignarhlut sinn í félaginu. Að mati dómsins verður ekki séð að stefndi hafi þá eða síðar haft hug á því að leysa til sín þau réttindi sem hann átti í félaginu. Verður þessari málsástæðu stefnda því hafnað.

Með vísan til alls ofanritaðs verður fallist á það með stefnanda að stefndi Ísafjarðarbær hafi ekki haft heimild til þess að ráðstafa með samningi þeim rétti sem samningur Ísafjarðarbæjar við AB-Fasteignir ehf. varðar. Afsali því sem til grundvallar réttindum stefnanda í því efni liggur hafi ekki verið hnekkt.

Að öllu ofanrituðu virtu verður fallist á kröfur stefnanda eins og rakið er í dómsorði.

Með hliðsjón af niðurstöðu málsins ber stefnda Ísafjarðarbæ að greiða stefnanda málskostnað, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hvorugur aðila málsins hefur lagt fram tímaskýrslur til hliðsjónar við ákvörðun málskostnaðar. Að því virtu, umfangi málsins og framlögðum gögnum þykir málskostnaður hæfilega ákveðinn 1.500.000 krónur.

     Dóm þennan kveður upp Bergþóra Ingólfsdóttir héraðsdómari. Fyrir uppkvaðningu dómsins var gætt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Dómsorð:

Viðurkennt er að allur réttur til virkjunar vatnsafls, fallvatns, í Úlfsá í Dagverðardal, Ísafirði, Ísafjarðarbæ, sé eign Orkubús Vestfjarða ohf.

Ógiltur er samningur á milli Ísafjarðarbæjar og AB-Fasteigna ehf. um rannsóknar- og virkjunarleyfi í Úlfsá á Dagverðardal, dags. 24. janúar 2018.

Stefndi Ísafjarðarbær greiði stefnanda, Orkubúi Vestfjarða, 1.500.000 krónur í málskostnað.

 

Bergþóra Ingólfsdóttir