• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Fangelsi
  • Skilorð
  • Upptaka

D Ó M U R

Héraðsdóms Vestfjarða 12. júní 2017 í máli nr. S-8/2017:

Ákæruvaldið

(Karl Ingi Vilbergsson lögreglustjóri)

gegn

Daníel Guðna Guðmundssyni og

(Snorri Sturluson hdl.)

Kristni Orra Hjaltasyni

 

I

Mál þetta, sem dómtekið var 8. júní sl., höfðaði lögreglustjórinn á Vestfjörðum með ákæru 1. apríl 2017 á hendur ákærðu: „[...], Daníel Guðna Guðmundssyni, kt. [...], [...], [...], og Kristni Orra Hjaltasyni, kt. [...], [...], [...].

I.

Á hendur ákærðu öllum fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa laugardaginn 8. október 2016, haft í vörslum sínum 191,03 grömm af amfetamíni, sem ætluð voru til söludreifingar. Ákærðu [...] og Daníel Guðni sóttu efnin til Reykjavíkur, og fluttu þau umræddan dag, á bifreiðinni [...], sem [...] ók, vestur í [...] við Ísafjarðardjúp, þar sem ákærði Kristinn Orri tók við þeim úr hendi ákærða Daníels Guðna, og geymdi í frystikistu í húsnæði [...], en Kristinn Orri framvísaði efnunum við leit lögreglu í umrætt sinn. [...]

 

II.

Á hendur [...] og Kristni Orra, fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa í ofangreint sinn, haft í fórum sínum 7,8 grömm af maríhú[a]na, sem [...] átti og afhenti Kristni Orra til geymslu í frystikistu í ofangreindu húsnæði [...], en Kristinn Orri framvísaði efnunum við leit lögreglu í umrætt sinn. [...]

 

III.

[...]

 

IV.

[...]

 

Háttsemi ákærðu samkvæmt I. og II. ákærulið telst varða við 2., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 1. og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 789/2010 og 513/2012. [...]

 

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er krafist upptöku á ofangreindum fíkniefnum, þ.e. 191,18 grömm af amfetamíni, 11,98 grömm af maríhú[a]na og 0,55 grömm af tóbaksblönduðum kannabisefnum, með vísan til 6. og 7. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, um ávana- og fíkniefni, og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001, ásamt síðari breytingum. [...]“

   Af hálfu ákæruvalds var fallið frá þeim þætti fyrsta ákæruliðar að þau fíkniefni sem þar eru tilgreind hafi verið ætluð til söludreifingar. Þá er þess krafist að upptökukrafa taki mið að þeim fíkniefnum sem greint er frá í I. og II. ákærulið og haldlögð voru, þ.e. 191,03 g af amfetamíni, 7,8 g af maríhúana.

 

II

Ákærðu hafa viðurkennt þá háttsemi sem þeim er gefin að sök í ákæru. Farið var með málið samkvæmt ákvæðum 164. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu eftir að sækjandi og ákærði höfðu tjáð sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. Málsatvikum er lýst í ákæru. Það er mat dómsins að játning ákærðu samræmist rannsóknargögnum málsins og verða þeir því sakfelldir fyrir þá háttsemi sem þeim er gefin að sök í ákæru og eru brot þeirra þar rétt heimfærð til refsiákvæða.

Ákærði Daníel er fæddur árið [...]. Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins á hann nokkurn sakarferill að baki sem nær aftur til ársins 2004 og hefur hann þar á meðal fjórum sinnum sætt refsingu vegna brota gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Ákærði hefur síðan árið 2009, auk brota gegn lögum um ávana- og fíkniefni, einungis gerst sekur um umferðarlagabrot. Við ákvörðun refsingar ákærða er litið til þess að hann játaði brot sitt skýlaust fyrir dómi. Þá er litið til magns og styrkeika efna en samkvæmt framlagðri greinargerð rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði hefði mátt þynna efnið út með óvirku efni þannig að úr því yrði um 600 g af efni til neyslu. Þá er litið til þess að brotið var skipulagt og að ákærði vann það í félagi við meðákærða og þriðja mann. Með hliðsjón af þeirri háttsemi sem ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í átta mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að tveimur árum liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði Kristinn er fæddur árið [...]. Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins hefur hann ekki sætt refsingu. Við ákvörðun refsingar ákærða er litið til þess að hann játaði brot sitt skýlaust fyrir dómi. Þá er litið til magns og styrkeika efna sem tilgreind eru í fyrsta ákærulið og þess að brot það sem lýst er þar var skipulagt og ákærði vann það í félagi við meðákærða og þriðja mann og það brot sem lýst er í öðrum ákærulið í félagi við annan mann. Með hliðsjón af þeirri háttsemi sem ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir og með vísan til 77. gr. almennra hegningarlaga þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í átta mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að tveimur árum liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Upptæk eru gerð í ríkissjóð 191,03 g af amfetamíni og 7,8 g af maríhúana.

Þá eru ákærðu dæmdir til að greiða óskipt allan sakarkostnað málsins, samtals 94.606 krónur.

Dóm þennan kveður upp Sigríður Elsa Kjartansdóttir dómstjóri.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Daníel Guðni Guðmundsson, sæti fangelsi í átta mánuði en  fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að tveimur árum liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði, Kristinn Orri Hjaltason, sæti fangelsi í átta mánuði en  fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að tveimur árum liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Upptæk eru gerð í ríkissjóð 191,03 g af amfetamíni, 7,8 g af maríhúana.

Ákærðu greiði í óskipt allan sakarkostnað málsins, 94.606 krónur.

 

Sigríður Elsa Kjartansdóttir