• Lykilorð:
  • Eignaspjöll
  • Fangelsi
  • Skaðabætur
  • Skilorð

D Ó M U R

Héraðsdóms Vestfjarða 24. febrúar 2017 í máli nr. S-48/2016:

Ákæruvaldið

(Karl Ingi Vilbergsson lögreglustjóri)

gegn

Valdimar Lúðvík Gíslasyni

(Tryggvi Guðmundsson hdl.)

 

I

Mál þetta, sem dómtekið var 2. febrúar sl., höfðaði héraðssaksóknari, með ákæru 20. september 2016 á hendur ákærða; „Valdimar Lúðvík Gíslasyni, kennitala [...], [...], [...], [f]yrir stórfelld eignaspjöll, brot gegn hagsmunum almennings og brot á lögum um menningarminjar, með því að hafa aðfaranótt mánudagsins 7. júlí 2014 tekið þátt í að brjóta niður þak, veggi og skorstein að hluta til á norðanverðum hluta húsnæðisins að Aðalstræti 16 í Bolungarvík sem er einbýlishús byggt árið 1909 og hafði verið friðað frá 1. janúar 2010 samkvæmt ákvæðum laga um menningarminjar. Við háttsemina var notast við óþekkta vinnuvél og voru afleiðingarnar þær að stórfellt tjón varð á húsnæðinu.

Telst þetta varða við 177. gr. og 2. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 2. mgr. 29. gr., sbr. 56. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Af hálfu Bolungarvíkurkaupstaðar, kennitala [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða skaðabætur að fjárhæð 5.551.082 krónur auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 7. júlí 2014 þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar, en síðan dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Af hálfu ákærða er þess aðallega krafist að hann verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvalds en til vara að hann verði dæmdur til vægustu refsingar er lög leyfa. Þá gerir ákærði kröfu um að bótakröfu verði aðallega vísað frá dómi en til vara að hann verði sýknaður af henni. Þá gerir skipaður verjandi ákærða kröfu um hæfileg málsvarnarlaun sér til handa, að mati dómsins, er greiðist úr ríkissjóði.

 

II

            Í skýrslu lögreglu er atvikum lýst svo að henni hafi borist tilkynning 7. júlí 2014 um skemmdir á húsi við Aðalstræti 16, Bolungarvík. Þar kemur fram að við skoðun á vettvangi hafi sést miklar skemmdir á húsinu ofanverðu, norðanmegin. Hjólför eftir traktorsgröfu voru sýnileg í grasinu við húsið og mátti sjá hvar skóflan hafði verið lögð niður og hvar afturfætur vélarinnar höfðu sokkið í jarðveginn.          Bolungarvíkurkaupstaður lagði fram kæru vegna málsins með bréfi dagsettu 9. júlí 2014 og fylgdi henni fundargerð bæjarráðs þar sem samþykkt er að kæra atvikið til lögreglu og leggja fram bótakröfu. Þar kemur fram að húsið sé upphaflega byggt 1909 að Látrum í Aðalvík en flutt til Bolungarvíkur 1919. Bolungarvíkurkaupstaður hafi keypt húsið í júní 2010 og hafi þá síðast verið búið í því haustið 2009. Einnig kemur þar fram að á fundi umhverfismálaráðs Bolungarvíkur 10. júlí 2012 var tekið fyrir erindi bæjarstjóra þar sem óskað var eftir leyfi til að færa húsið af lóð sinni eða öðrum kosti rífa það. Var þá ákveðið að óska eftir umsögn Húsafriðunarnefndar um erindið. Nefndin svaraði með bréfi dagsettu 13. ágúst 2012 og kom þar fram að hún legðist gegn niðurrifi eða flutningi hússins. Þá var af hálfu Bolungarvíkurkaupstaðar óskað eftir úttekt Minjastofnunar á húsinu og varðveislugildi þess. Svar Minjastofnunar barst í september 2013 og kemur þar fram að stofnunin leggi áherslu á að húsið verði varðveitt og gert upp þar sem það hafi umtalsvert varðveislugildi en ekki gerð athugasemd við að húsinu verði hliðrað um fáeina metra. Þá kemur fram í kærunni að í drögum að deiluskipulagi sem sé í vinnslu sé gert ráð fyrir að húsið standi áfram á sama stað.

Með bréfi Minjastofnunar er barst lögreglu 1. september 2014 var lögð fram kæra á hendur ákærða vegna atviksins. Þar kemur fram að húsið hafi samkvæmt fasteignaskrá verið byggt árið 1909. Þá segir í kærunni að samkvæmt 1. mgr. 29. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar séu öll hús og mannvirki sem eru eldri en hundrað ára friðuð og því sé ljóst að húsið sé sjálfkrafa friðað fyrir aldurs sakir. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins sé óheimilt að raska friðuðum húsum án leyfis Minjastofnunar.

            Í skýrslutöku hjá lögreglu 7. júlí 2014 sagði ákærði að húsið hefði verið skemmt nóttina áður. Það væri slysagildra fyrir eldri borgara sem þurfi að fara í ráðhúsið og þyrfti þá að fara út á götuna og setja sig í stórhættu. Hann kvaðst meta mannslíf meira en dauða hluti og séu það mikil óþægindi fyrir fólk, t.d. í hjólastól, að fara niður af háum kanti og út á götu vegna þess að húsið stendur fyrir. Hann kvaðst ekki vilja vera meðsekur ef slys verði og hafi því ákveðið að taka málið í sínar hendur.

Ákærði gaf á ný skýrslu vegna málsins hjá lögreglu 28. maí 2015. Ákærði ítrekaði að húsið væri búið að vera til mikillar óþurftar lengi þar sem það standi út í miðja götu og af því sé mikil slysahætta. Það hafi fyllt mælinn hjá honum þegar [...] hans hafi næstum orðið fyrir bifreið við húsið, þegar hann fór þar um, seinfær og með göngugrind, og féll til jarðar. Bærinn hafi keypt húsið í þeim tilgangi að láta fjarlægja það en það hafi ekki verið gert. Ákærði kvaðst hafa litið svo á að ef húsið yrði skemmt yrði það rifið eða fært. Honum sé sama hvað sé gert við það ef það verður tekið af þessum stað. Það sé ónýtt og skapi hættu. Hann kvaðst margoft hafa komið þessari skoðun sinni á framfæri við bæjaryfirvöld með óformlegum hætti. Ákærði kvaðst hafa staðið einn að því að skemma húsið og ekki skipti máli hvernig það var gert, skemmdirnar væru á hans ábyrgð. Við þetta hafi hann notað vinnuvél sem hann eigi ekki sjálfur og geti ekki lýst vélinni. Ákærði kvaðst líta á verknað sinn sem neyðarrétt. Það sé alvarlegt mál þegar yfirvöld bregðist ekki við fyrr en ósköp hafi dunið yfir og oft þurfi alvarleg slys til að eitthvað verði gert. Ákærði kvaðst telja það ósannað að húsið sé menningarminjar. Um sé að ræða kofaræksni norðan úr Aðalvík sem var reist þarna og byggt við tvívegis. Ekkert finnist um húsið fyrir 1930. Ákærði kvaðst ekki hafa kynnt sér aldur hússins áður en hann olli skemmdunum. Búið hafi verið að dæma húsið ónýtt af byggingafulltrúa og aðilum sem ætluðu að kaupa húsið á sínum tíma.

Fyrir liggur ljósrit úr ritinu „Með hug og orði, af blöðum Vilmundar Jónssonar landlæknis“, fyrra bindi. Þar er á bls. 266-267 fjallað um hús í Aðalvík er F hreppstjóri hafi átt. Veturinn 1917-1918 hafi það verið í eigu ekkju F og G kennara. Þar er herbergjaskipan lýst svo:

Á miðri norðurhlið var gengið inn í húsið og inn í litla forstofukytru. Til hægri lágu dyr úr forstofu inn í dagstofu í vesturgaflinn er vissi að brekkubrún og sjó, sem fyrr segir. Inn af stofunni, einnig við vesturgafl, var lítið herbergi, og var það svefnherbergi gömlu konunnar, þegar hún var á heimilinu. Til vinstri handar úr forstofunni var gengið inn í örlítið svefnherbergi þeirra hjóna. Bak við svefnherbergið í norðvesturhorni hússins var eldhús og út úr því bíslag við austurgafl og útidyr á bíslaginu til austurs. Við endilanga suðurhlið hússins var byggður skúr og í honum íbúðarherbergi [H] í austurenda við hlið eldhússins, en smíðahús hans fram af því og útidyr á vesturenda. Innangengt var úr herbergi [H] í eldhúsið og úr eldhúsinu í herbergið inn af stofunni.

Meðal þeirra gagna sem lögð hafa verið fram vegna málsins eru ljósrit af fasteignamati vegna hússins frá 18. ágúst 1969, og kemur þar fram að húsið hafi verið byggt árið 1909, útprentun úr fasteignaskrá Þjóðskrár þar sem fram kemur sama byggingarár hússins og að fasteignamat þess árið 2016 hafi verið 5.260.000 krónur, fjórar ljósmyndir af húsinu sem sýna skemmdir á því, útprentun úr fasteignaskrá yfir eigendasögu hússins og gögn er sýna fjölmiðlaumfjöllun vegna málsins, m.a. frá 14. ágúst 2013, af visir.is, þar sem fjallað er um sölutilboð í húsið og kemur þar fram að það sé friðað og frá 29. ágúst 2012, af ruv.is, þar sem fram kemur að Húsafriðunarnefnd hafi hafnað beiðni bæjarstjórans í Bolungarvík um að húsið yrði fært eða rifið.

 

III

Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna við aðalmeðferð málsins.

Ákærði sagði það rétt að hann hafi brotið niður þak, veggi og skorstein á norðanverðu húsinu að Aðalstræti 16 í Bolungarvík. Hann kvaðst ekki vilja lýsa því í neinum smáatriðum en staðfesti þann framburð sem hafður var eftir honum í lögregluskýrslu 6. maí 2015 að hann hafi notað vinnuvél við verkið og þá vél hafi hann ekki átt sjálfur og að hann hafi verið einn á staðnum þegar atvik gerðust. Um ástæðu þess að hann gerði þetta sagði ákærði að í Bolungarvík hafi verið búið að tala lengi um þá gríðarlegu hættu sem þarna er. Bærinn hafi keypt húsið fyrir fjórum eða fimm árum og ætlað að færa það svo að hægt væri að setja gangstétt meðfram því en það sé enn þarna úti í miðri götu og 50 km hámarkshraði í götunni. Í „hvíta húsinu“ svokallaða í Bolungarvík búi 30 til 40 eldri borgarar. Þeir þurfi oft að fara út í stjórnsýsluhús en þar er banki o.fl. Þau séu í misjöfnu ástandi, með hækjur, staf, o.fl. og eru hægfara. Það var alltaf talað um að færa húsið eins og það væri sjálfsagt, til að auka öryggi, en það var aldrei gert. Ákærði kvaðst telja það mjög vítavert að það hafi dregist í öll þessi ár. [...], A, sem þá var aldraður, hafi lent þarna í mjög alvarlegu slysi, það hafi raunverulega verið dauðaslys þar sem hann lést vegna afleiðinga þess, en ekið var á hann. Ákærði kvaðst hafa orðið vitni að því. Bifreið var bakkað á A sem hnaut við og datt í götuna. Bifreiðin var svo stöðvuð með hjólin við höfuðið á manninum. Þetta hafi snortið ákærða mikið og hann hafi hugsað um það hver yrði næstur. Honum finnist vera vítavert að mannslíf séu minna metin en grautfúið ónýtt hús sem eigi enga sögulega skírskotun í Bolungarvík. Því hafi hann gripið til neyðarréttar. Erfitt sé fyrir venjulegt fólk að skilja hvers vegna Húsafriðunarnefnd stóð í vegi fyrir því að fjarlægja eða rífa húsið. Ákærði kvaðst ekki, þegar atvik gerðust, hafa vitað að húsið væri þá friðað, það hafi ekki verið neitt merki á húsinu um það. Ekki sé hægt að friða þetta hús þar sem það fyrsta sem hægt er segja um aldur hússins sé að það var árið 1920 í Bolungarvík. Aðspurður hvort hann hafi vitað að bænum hafi verið bannað að færa húsið þar sem það hafi verið friðað og að um það hafi verið fjallað í fjölmiðlum sagði ákærði að allir í Bolungarvík hafi vitað að húsið hafi ekki verið friðað. Það voru fluttar spýtur úr Aðalvík til Bolungarvíkur. Úr þeim var smíðaður hluti af þessu húsi og sé ekki nema helmingurinn af húsinu þaðan. Hitt var byggt við húsið, skúrinn sennilega um svipað leyti en kvisturinn þó nokkuð seinna. Þetta vissu allir í Bolungarvík og þar hafi aldrei verið litið á þetta sem fornminjar. Ástæða fyrir því að hann tók þátt í að skemma húsið hafi verið sú að hann hafi ætlað að bjarga mannslífum og hafi ekki getað horft á þetta gerast aftur. Þetta hafi verið neyðarréttur sem hann hafi gripið til þegar Húsafriðunarnefnd er að segja þeim vestur á fjörðum að þeir eigi ekkert að hugsa um gamla fólkið fyrir fúaspýtum sem Húsafriðunarnefnd hefur áhuga á. Ákærði kvaðst hafa talið að þetta myndi hreyfa við málinu en það var löngu búið að dæma húsið ónýtt. Ákærði sagði að E hafi verið áhugamaður um friðun þessa húss og jafnvel telja að hann hafi komið eitthvað að því að byggingarár hússins var árið 1969 skráð 1909. Hann hafi oft talað við E um þessi mál og voru þeir ekki sammála um það. E taldi þetta vera gimstein en ekki hann. Ákærði sagði að utan þess tilviks sem hann nefndi varðandi A muni oft litlu þegar fólk hrasar í hálku og bifreið er ekið framhjá.

Vitnið B, starfsmaður Minjastofnunar, kvaðst hafa skoðað húsið 6. september 2013 ásamt C bæjarstjóra, D og E sem sé fæddur og uppalinn í þessu húsi. Það hafi borist erindi varðandi það hvort bærinn mætti færa húsið og til skoðunar var hvert væri varðveislugildi þess. Þeir hafi bæði verið að spá í ástand hússins og upprunalega gerð þess. E þekkti húsið mjög vel og gat lýst því hvernig það var. Könnuðu þeir m.a. klæðningar á húsinu og E lýsti því hvernig það hefði verið í upphafi og reifaði líka sögu þess og uppruna. Þeir hafi rofið gat á múrhúð hússins og þá kom í ljós hvernig klæðningin var undir. Þá sagði E sögu, sem einnig er rakin í bók Vilmundar Jónssonar landlæknis, að afi hans, F, hreppstjóri að Látrum í Aðalvík, hefði byggt þetta hús. Hann lést snemma árs 1915, samkvæmt Íslendingabók. Þá bjó dóttir hans þarna í stuttan tíma, til 1919. Þá eignaðist húsið faðir E, H, smiður og seinna símstöðvarstjóri í Bolungarvík. Hann tók húsið í sundur og flutti það til Bolungarvíkur og endurreisti þar á nýjum undirstöðum. Vitnið sagði að hann hafi skilið það svo að á sínum tíma hafi það verið deilumál hvað ætti að gera við húsið. Bærinn var að leggja drög að skipulagi fyrir þennan reit og var óskað eftir því að þeir mundu skoða húsið og festa eitthvað á blað um varðveislugildi þess og hvaða valkostir væru í stöðunni. Vitnið sagði að ekki hafi farið fram sjálfstæð könnun á því hvort byggingarárið 1909 í fasteignaskrá væri rétt. Þeirra verklag sé að miða við það ártal sem gefið er upp í Þjóðskrá nema að fyrir liggi skjallegar heimildir eða aðrar óyggjandi heimildir fyrir öðru eldra byggingarári, til dæmis úr húsakönnunum, sem er miklu ýtarlegri söguleg skráning, þá sé miðað við það. Það sé vitað að húsið var byggt að Látrum í Aðalvík af F og hafi hann búið um eitthvert árabil í húsinu. Hvenær það var nákvæmlega reist sé ekki vitað en þetta ártal standi nema að sýnt verði fram á eitthvað annað.

Vitnið sagði að dálítið misræmi væri varðandi aldursskráningu húsa sem eru rifin niður og endurbyggð annars staðar á nýjum grunni. Ýmist er miðað við upprunalegt byggingarár eða þegar húsin eru endurbyggð og því sé ekki hægt að segja að það sé ein einhlít regla um þetta. Þá sé ekki gerður munur á því hvort hús eru flutt í heilu lagi af grunni og sett annars staðar á nýjan grunn eða rifin niður spýtu fyrir spýtu og endurbyggð. Hvað varðar Aðalstræti 16 þá líti Minjastofnun til frásagnarinnar í bók Vilmundar. Þar sé því lýst hverjir bjuggu í húsinu í kringum 1918 og lýst herbergjaskipan og nokkuð nákvæm lýsing á gerð hússins sem þá var einlyft án kjallara. Innra skipulag hússins og öll gerð þess komi heim og saman við húsið eins og það var endurbyggt í Bolungarvík. Hún er höfð frá fyrstu hendi og segir þar að G hafi sagt skrásetjara frá þrjátíu árum fyrr en frásögnin var fest á blað 1953. Þannig að það var örugglega búið að byggja húsið árið 1914 og talað um að þetta hafi verið hús þeirra hjóna og af því má ætla að þau hafi búið í húsinu einhvern tíma og hafi það ekki verið alveg nýreist þegar hann féll frá. Mögulega gæti húsið verið eldra. Vitnið kvaðst engar heimildir hafa fyrir því hvort viðbyggingin sem snýr að Aðalstræti hafi verið á húsinu í Aðalvík eða ekki. Hvað varðar skúrbygginguna að ofanverðu þá sé henni lýst í bók Vilmundar en vera kunni að inngangi hafi verið breytt í Bolungarvík. Telji hann að húsið hafi í aðalatriðum verið byggt í Bolungarvík í þeirri mynd sem það var í Aðalvík. Vitnið sagði að vilji þeirra væri að skipulagsyfirvöld í Bolungarvík finni heppilegustu lausnina til að varðveita húsið þannig að það samrýmist þeirra áherslum í skipulagi. Vitnið kvaðst ekki fallast á það að afstaða þeirra í upphafi hafi verið ósveigjanleg og orðið til þess að ekkert hafi gerst með húsið allan þennan tíma. Húsafriðunarnefnd gat ekki tekið afstöðu til erindisins fyrr en fram hefði farið húsakönnun fyrir Bolungarvík. Afgreiðsla málsins hafi svo strandað á því að þeir hafi ekki fengið endanlega tillögu frá bænum um það hvar þeir vildu helst hafa húsið.

Vitnið C, fyrrverandi bæjarstjóri í Bolungarvík, sagði bæjarstjórn Bolungarvíkur hafa á sínum tíma gert greinargerð sem liggur fyrir í málinu og var send Minjastofnun í tölvupósti, 1. ágúst 2013. Vitnið sagði að húsið hafi gengið kaupum og sölum á árum áður. Opinberir aðilar hafi svo eignast húsið í gegnum uppboð og þá hafi bærinn boðið í það og eignast. Tilgangurinn þá var sá að hafa stjórn á því hvað yrði um húsið. Það hafi verið fyrir í skipulagi en ekki hafi verið búið að taka neina ákvörðun um framtíð þess. Óskað hafi verið eftir að fá að flytja húsið eða rífa það en þá var komin fram hugmynd um það hvernig ætti að hafa aðgengi fyrir hreyfihamlaða að ráðhúsinu. Augljóst var að húsið, eins og það er staðsett, skapaði jafnvel talsverða hættu vegna blindhorns þegar farið væri að ráðhúsinu. Bæjarstjóra var falið að skrifa umhverfismálaráði bréf til að fá heimild til að færa húsið eða rífa það. Byggingafulltrúi hafi svo tekið yfir þau samskipti og unnið málið áfram. Þá var tekin ákvörðun um það í umhverfismálaráði að bera þetta undir Minjastofnun sem svo lagðist gegn því að húsið yrði rifið eða fært og var seinna ákveðið að fara í húsakönnun í Bolungarvík. Fulltrúar Minjastofnunar hafi komið til að skoða húsið og hafi vitnið hitt þá og m.a. E frá [...]. Skoðað var hvernig húsið væri og ásigkomulag þess. Húsið sé forskalað og var brotinn múrinn til að skoða hvernig það væri undir honum. Var það mat manna að fótstykki og efniviðir hússins væru það veikir að það væri ekki hægt að færa það í þessu ásigkomulagi og heldur ekkert hægt að byggja það upp öðruvísi en að skipta um þessa viði og styrkja grindina. Varðandi viðbyggingarnar þá kom það síðar fram hjá Minjastofnun að þeir gerðu engar kröfur varðandi þær og væru þær ekki sá hluti hússins sem þyrfti að varðveita. Upphafleg afstaða stofnunarinnar hafi verið sú að leggjast bæði gegn því að húsið yrði rifið og að það yrði fært til en síðar samþykkti hún að húsið yrði fært á annan stað utar í bænum. Vitnið sagði ákærða hafa löngu fyrir atvikið, í sín eyru og annarra í hans viðurvist, lýst yfir áhyggjum sínum af staðsetningu hússins. Kvaðst vitnið halda að ákærði hafi haft raunverulegar áhyggjur af því að þetta væri slysagildra og lýsti ákærði því að hann hefði orðið viti að atburði þar sem lá við stórslysi. Öll samskipti hans við ákærða vegna hússins hafi verið óformleg en hann kom aldrei með erindi til bæjarins. Vitnið kvaðst hafa sagt ákærða í hvaða farvegi málið væri.

Vitnið I, tæknifræðingur og byggingafulltrúi í Bolungarvík, kvaðst ekki vita til þess að einhvern tímann hafi farið fram einhver sjálfstæð skoðun á því hjá Bolungarvíkurkaupstað hvort skráning byggingarárs í fasteignaskrá vegna Aðalstrætis 16, 1909, væri rétt. Það hafi hins vegar verið farið í gegnum tiltæk skjöl eftir að fyrirspurn kom frá lögreglustjóra en engin gögn fundust um annað ártal. Vitnið kvaðst ekki þekkja dæmi þess að nýting efnis úr eldra húsi til að byggja annað leiði til þess að nýrra húsið teljist byggt sama ár og það eldra. Hann kvaðst ekki geta sagt til um það hve mikið af því efni sem notað var í húsið hafi komið frá húsinu í Aðalvík. Vitnið staðfesti að skjal sem hefur að geyma samantekt á endurbyggingarkostnaði og lokun hússins sem tekinn var saman í maí 2015 stafi frá honum. Þá sagði hann að þeir reikningar sem hafi nú verið lagðir fram með bótakröfu séu vegna lokunar hússins og frágangs til bráðabirgða eins og húsið er nú. Í samantektinni sé gerð grein fyrir kostnaði við að gera við húsið endanlega, laga veggi, einangrun og þak. Yrði gert við húsið yrðu þeir veggir sem brotnir voru væntanlega traustari en áður. Nýtt efni kæmi í staðinn fyrir gamalt, einnig í hluta af þaki.

Vitnið K kvaðst vera [...] og hafi hann unnið fyrir J, fyrrum eiganda hússins, í kringum árið 2000 við viðgerð á þaki hússins. Ekki hafi verið hægt að fara upp á þakið til viðgerða án þess að það kæmu fleiri göt í járnplöturnar og hafi því þurft að gera sérstakar ráðstafanir. Líklega hafi timbrið verið orðið fúið undir þar sem svona gerist ekki nema annaðhvort naglarnir séu ryðgaðir í sundur eða timbrið orðið fúið. Í ljós hafi komið síðar að húsið lak enn þrátt fyrir viðgerðina. Vitnið kvaðst hafa heyrt að faðir E hafi átt húsið og það hafi verið rifið spýtu fyrir spýtu í Aðalvík og flutt til Bolungarvíkur, að hann haldi í kringum 1930. Þá hafi verið settur upp kvisturinn sem snýr að götunni og bíslag sem er ofan til við húsið hafi verið byggt þá eða aðeins seinna. Þá viti hann til þess að einhverjar viðgerðir vegna skólplagna hafi verið gerðar á húsinu eftir að hann gerði við þakið. Síðasti eigandi hússins á undan Íbúðalánasjóði hafi hafi á endanum flúið úr því þar sem það hafi m.a. verið pöddur þar og ólykt.

Vitnið L, tæknifræðingur hjá Fasteignamati ríkisins, staðfesti í skýrslu sinni fyrir dómi framlagðan tölvupóst sinn til verjanda frá 8. nóvember 2016 þar sem fram kemur að byggingarárið 1909 hafi fyrst verið skráð á húsið árið 1969. Fram kom hjá vitninu að í elstu fasteignabókunum hafi byggingarár ekki verið skráð. Vitnið kvaðst ekki vita til þess að einhver regla gildi um aldursskráningu húsa sem rifin eru niður og endurbyggð á nýjum grunni annars staðar. Sé hús flutt í heilu lagi af grunni og sett upp annars staðar á nýjum grunni þá haldi yfirleitt byggingarárið. Það fari hins vegar nokkuð eftir atvikum og skipti þá máli hvað grunnurinn er orðinn stór hluti af húsinu. Vitnið sagði að ártalið 1909, sem fyrst hafi verið fært á húsið árið 1969, komi úr skýrslu frá gömlu fasteignamatsnefndunum sem þá voru starfandi en þau hafi engin önnur gögn varðandi þetta. Í fasteignamati frá 1957 hafi ekkert ártal verið skráð á húsið.

Vitnið M, starfsmaður Minjastofnunar og minjavörður á [...], kvaðst hafa farið á vettvang og skoðað húsið 15. júlí 2014. Tilgangur ferðarinnar var að afla gagna um húsið, skoða skemmdirnar og meta ástand þess bæði með tilliti til skemmda, upprunaleika hússins og viða í húsinu. Á vettvangi hafi hann m.a. hitt I byggingafulltrúa og E frá [...], sem fæddur var í húsinu árið 1922 og þekkti sögu þess mjög vel. Vegna skemmdanna var hægt að sjá viðina í húsinu og hafi hann séð upprunalegu klæðninguna undir múrhúðinni og að það hafi verið forskalað á einhverjum tímapunkti. Af skoðun sinni mat hann það svo að húsið hafi á tímabili verið einungis timburhús. Viðirnir hafi verið í þokkalegu ástandi utan þess að þeir hafi verið farnir að fúna dálítið neðst við fótstykkið. Svolítill fúi hafi einnig verið kominn í viði utanhúss. Vitnið kvaðst hafa séð, undir viðarplötunum, kúlupanel sem hafi verið algengur í byggingum frá aldamótum. E hafi talað um að húsið hafi upprunalega verið flutt frá Látrum. Vitnið hafi séð lýsingu á húsinu í bók Vilmundar Jónssonar landlæknis sem sé að mörgu leyti áþekk því eins og húsið er núna. Verið gæti að útbygging sem snýr að götu væri viðbót. Einnig var hlaðinn kjallari og byggður skortsteinn eftir að húsið kom í Bolungarvík og eflaust breytt herbergjaskipan. Í bók Vilmundar kemur fram að H, faðir E, hafi eignast húsið. Hann hafið rifið það 1919 og byggt upp úr því símstöðvar- og íbúðarhús í Bolungarvík 1919 eða 1920 og segir í bókinni að það muni enn vera uppistandandi. Heimildarmaður Vilmundar er G, [...] H. Vitnið sagði að hans niðurstaða hafi verið sú að viðirnir gætu alveg verið frá aldamótum. Þá voru talsverðar skemmdir á norðvesturhorni hússins. Vitnið kvaðst lesa það úr lýsingu Vilmundar að skúrbyggingin hafi verið á húsinu frá upphafi og segir þar að H hafi búið þar. Ef húsið er borið saman við lýsingu Vilmundar á húsinu að Látrum þá er það sambærilegt hús og viðirnir mjög líklega einungis úr því húsi. Vitnið sagði að ártalið 1909 sem byggingarár hússins væri fengið úr fasteignamati og sé það í raun eina ártalið sem þau hafi. Einnig hafi þeir þær upplýsingar sem komu fram á vettvangi um að húsið hafi verið flutt frá Látrum og endurbyggt í Bolungarvík. Hann hafi reynt að afla frekari upplýsinga en engin gögn fundist. Vitnið kvaðst ekki vita hvernig ártalið 1909 kom inn í skrár þeirra. Hann viti dæmi þess að byggingarár húss sé skráð árið sem það er flutt á nýjan stað þótt að stofni til sé það miklu eldra. Yfirleitt sé það þannig í fasteignaskrám að hús beri yngri ártöl heldur en reyndin er. Í bók Vilmundar komi fram að F, hreppstjóri á Látrum, afi E, hafi dáið 1915 og því hafi húsið væntanlega verið byggt einhverjum árum fyrir árið 1915. Vitnið sagðist ekki vita til þess að það væri einhver föst regla um aldursskráningar húsa sem eru rifin niður og endurbyggð annars staðar á nýjum grunni eða flutt. Ef skoða þarf hvenær hús er raunverulega byggt þá skoði þau gögn til að rekja sig aftur í tíma. Ef þau hafa sannanir fyrir því að húsið sé að stofni til eldra þá mundu þau taka það ártal fram yfir.

Vitnið N kvaðst hafa skrifað grein sem birt var á vikari.is 11. júlí 2014 þar sem lýst er herbergjaskipan þess húss sem stóð að Látrum og tekið þá lýsingu upp úr bók Vilmundar Jónssonar landlæknis. Þar hafi hún skrifað að húsið hafi að geyma sömu herbergjaskipan og húsið sem stóð að Látrum og það hafi hún eftir E sem hafi búið í þessu húsi.

 

IV

Niðurstaða

Ákærði er ákærður fyrir að hafa tekið þátt í að brjóta niður þak, veggi og skorstein að hluta á húsinu að Aðalstræti 19, Bolungarvík. Ákærði hefur viðurkennt að hafa einn skemmt húsið á þann hátt sem lýst er í ákæru en krefst sýknu af öllum kröfum ákæruvalds. Þá kröfu byggir ákærði á því að ósannað sé að húsið hafi verið orðið hundrað ára gamalt þegar atvik gerðust og falli það því ekki undir 1. mgr. 29. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012 og 177. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Einnig byggir ákærði á því að húsið hafi verið ónýtt og því verðlaust og því beri að sýkna hann af broti gegn 257. gr. almennra hegningarlaga, og loks að sýkna beri hann vegna neyðarréttar, sbr. 13. gr. sömu laga.

Eins og rakið hefur verið hefur ákærði viðurkennt þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og kom skýrt fram í framburði hans fyrir dómi að ásetningur hans stóð til þess að valda skemmdum á húsinu. Fyrir liggur framburður ákærða og m.a. vitnanna K og M um ástand hússins áður og eftir að ætlað brot átti sér stað og má af þeim ætla að endurbóta hafi verið þörf á húsinu. Þá liggja ekki fyrir aðrar upplýsingar sem geta gefið vísbendingar um verðmæti hússins en þær að húsið hafi seinast verið selt árið 2010, og þá á eina og hálfa milljón króna, og að fasteignamat hússins árið 2016 hafi verið 5.260.000 krónur. Með vísan til þessara upplýsinga er ekki fallist á að sýkna beri ákærða þar sem um verðlausa eign hafi verið að ræða. Ákærði braut niður eitt horn hússins og olli þar með umtalsverðu tjóni á því. Með verknaði sínum olli ákærði því eiganda hússins fjárhagstjóni. Með hliðsjón af framangreindu er það mat dómsins að tjónið hafi verið svo yfirgripsmikið að eignaspjöllin teljist vera stórfelld samkvæmt 2. mgr. 257. gr. almennra hengingarlaga.

Samkvæmt 1. mgr. 29. gr. laga um menningarminjar eru öll hús og mannvirki sem eru 100 ára eða eldri friðuð. Fram kemur í fasteignaskrá að húsið var reist árið 1909 og byggir ákæruvaldið aldur þess á þeim upplýsingum og telur það því vera friðað á grundvelli laga um menningarminjar. Ekki liggur fyrir hvaða gögn urðu til þess að þetta ártal var skráð sem byggingarár hússins í fasteignaskrá. Með hliðsjón af frásögn af húsinu í bók Vilmundar Jónssonar og framburði B fyrir dómi um að sá einstaklingur sem byggði húsið, F, hafi látist 1915, má ráða að a.m.k. hundrað ár hafi verið liðin frá því að húsið var byggt í Aðalvík þegar atvik gerðust. Þá hafi m.a. með framburði vitnanna B og L verið sýnt fram á að misræmi sé milli þess hvernig aldur húsa sem flutt hafa verið á milli staða sé skráður, hvort sem um er að ræða hús sem flutt hafa verið í einu lagi eða þau endurbyggð á nýjum stað. Óyggjandi upplýsingar liggja ekki fyrir um það hvernig húsið var flutt til Bolungarvíkur. Samkvæmt lögum um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001 verður upplýsingum um fasteign breytt að ákveðnum skilyrðum fullnægðum en engin gögn liggja fyrir um að það hafi verið reynt hvað varðar byggingarár hússins. Þá er ekkert fram komið sem bendir til þess að skráð ártal í fasteignamati sé rangt m.v. upphaflegt byggingarár hússins og verður niðurstaða málsins því byggð á þeim upplýsingum. Með vísan til þess er það niðurstaða dómsins að húsið sé friðað á grundvelli 1. mgr. 29. gr. laga um menningarminjar.

Ákærði er ákærður fyrir brot gegn 177. gr. almennra hegningarlaga og 2. mgr. 29. gr. laga um menningarminjar. Í 2. mgr. 29. gr. segir að óheimilt sé að raska friðuðum húsum og mannvirkjum, spilla þeim eða breyta, rífa þau eða flytja úr stað nema með leyfi Minjastofnunar Íslands. Ákvæði 177. gr. almennra hegningarlaga lýsir refsivert að taka burtu, ónýta eða skemma m.a. hluti sem eru sérstaklega friðaðir. Samkvæmt 1. mgr. 56. gr. sömu laga verður einungis refsað fyrir brot gegn 2. mgr. 29. gr. að þyngri refsing verði ekki dæmd samkvæmt 177. gr.

Ákærði bar um það í framburði sínum fyrir dómi að hann hafi, þegar atvik gerðust, ekki vitað að húsið væri friðað og dró í efa að liðin hafi verið hundrað ár frá því að það var reist. Jafnframt kom fram hjá ákærða að ástæða þess að húsið hafði ekki þegar verið fært hafi verið afstaða Húsafriðunarnefndar og því hafi hann gripið til þess ráðs að skemma húsið. Fyrir liggur að áður en atvik gerðust var fjallað um húsið í fjölmiðlum, m.a. 14. ágúst 2013 og kom þá fram að húsið væri friðað og 29. ágúst 2012 en þá kom fram að leyfi Húsafriðunarnefndar þyrfti til að færa húsið. Með vísan til framangreinds, útlits hússins, ástands þess og þeirrar óvissu sem var um framtíð þess verður að telja að ákærði hafi engu að síður a.m.k. mátt vita að húsið væri friðað þegar atvik gerðust.

Í lögum um menningarminjar er fjallað bæði um friðun húsa og friðlýsingu þeirra. Í greinargerð sem fylgdi frumvarpi sem varð að lögunum segir að þar sé gerður greinarmunur á sjálfkrafa friðun mannvirkja vegna aldurs og friðlýsingu sem sé sérstök ákvörðun ráðherra. Húsið að Aðalstræti 16 er friðað á grundvelli almenns ákvæðis í 1. mgr. 29. gr. laga um menningarminjar en ákvæði 177. gr. almennra hegningarlaga tekur einungis til sérstakrar friðunar. Allan vafa um refsinæmi verknaðar ber að túlka ákærða í hag, sbr. 108. gr. laga nr. 88/2008, og verður því á grundvelli orðalags ákvæðisins og framangreindrar athugasemdar með frumvarpinu að telja að ákvæðið taki ekki til almennrar friðunar á grundvelli lagaákvæða. Verður ákærði því sýknaður af broti gegn 177. gr. almennra hegningarlaga en brot hans talið varða við 2. mgr. 29. gr. laga um menningarminjar.

Þá byggir ákærði sýknukröfu sína á því að um neyðarrétt hafi verið að ræða. Samkvæmt 13. gr. almennra hegningarlaga er það verk refsilaust, sem nauðsyn bar til að unnið væri í þeim tilgangi að vernda lögmæta hagsmuni fyrir yfirvofandi hættu, þótt með því séu skertir aðrir hagsmunir, sem telja verður að miklum mun minni. Ljóst er af framburði ákærða og vitnisins C að ákærði óttaðist verulega um þá samborgara sína sem þarna fóru um. Þá liggur fyrir að slys varð í nágrenni hússins, eins og ákærði lýsti fyrir dómi, þó ekki verði hér fullyrt að þessum aðstæðum hafi verið um að kenna. Þá má ætla að staðsetning hússins geti skapað hættu fyrir vegfarendur en ekkert liggur fyrir um að á þeim tíma sem verkið var unnið hafi verið sérstök hætta yfirvofandi. Þá er ljóst að verkið, eins og það var unnið, var ekki til þess fallið að varna því varanlega að einstaklingar sem færu gangandi framhjá húsinu yrðu ekki fyrir tjóni vegna umferðar bifreiða eða tryggja að bætt yrði úr þessum aðstæðum til að tryggja öryggi vegfarenda. Með hliðsjón af framangreindu verður því ekki talið að skilyrði séu til að sýkna ákærða af háttseminni á grundvelli neyðarréttar.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða dómsins að sannað sé að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem lýst er í ákæru, að undanskildu broti gegn 177. gr. almennra hegningarlaga, og er brot hans rétt heimfært til refsiákvæða í ákæru.

Ákærði er fæddur árið 1939. Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins hefur hann ekki verið dæmdur til refsingar og er litið til þess við ákvörðun refsingar. Þá lítur dómurinn til þess ákærða til málsbóta, að hann vann verkið af óeigingjörnum hvötum og taldi sig vera að verja líf og heilsu aldraðra og veikra samborgara sinna og reyna að knýja fram breytingar á aðstæðum innan sveitarfélagsins sem hann taldi hættulegar, sbr. 7. tölulið 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Loks lítur dómurinn til aldurs ákærða og þess tjóns sem háttsemi hans olli, sbr. 2. og 4. tölulið sama ákvæðis. Með vísan til umfangs og eðlis brotsins og þeirra refsiákvörðunarástæðna sem að framan hafa verið raktar þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í þrjá mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Í ákæru er getið um einkaréttarkröfu Bolungarvíkurkaupstaðar, eiganda hússins, samtals að fjárhæð 5.551.082 krónur. Kröfugerðin uppfyllir skilyrði 173. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og verður henni því ekki vísað frá dómi eins og ákærði gerir kröfu um. Samkvæmt fylgiskjali með henni er áætlaður kostnaður við endanlega viðgerð hússins 4.512.530 krónur og kostnaður við að loka húsinu til bráðabirgða 1.038.552 krónur. Kröfu sína byggir bótakrefjandi á hinni almennu sakarreglu íslensks réttar. Með vísan til niðurstöðu dómsins hvað varðar refsiþátt málsins er skilyrðum bótaskyldu ákærða fullnægt. Einungis liggur fyrir eigin áætlun byggingafulltrúa bótakrefjanda um kostnað vegna endanlegrar viðgerðar hússins. Verður það ekki talið vera fullnægjandi gagn til að sýna fram á fjárhæð tjónsins. Telst því bótakrafan vera vanreifuð að þessu leyti, sbr. 173. gr. laga nr. 88/2008, og ber því að vísa henni frá dómi hvað varðar kröfu um greiðslu á 4.512.530 krónum. Bótakrefjandi lagði fram reikninga vegna bráðabirgðaviðgerðar á húsinu sem styðja kröfu hans og verður ákærði því dæmdur til að greiða bótakrefjanda 1.038.552 krónur auk vaxta og dráttarvaxta eins og nánar greinir í dómsorði. Við munnlegan flutning málsins gerði lögmaður bótakrefjanda kröfu um greiðslu málskostnaðar úr hendi ákærða. Í greinargerð er fylgdi frumvarpi er varð að lögum nr. 88/2008 kemur fram í athugasemd við 3. mgr. 176. gr. að málskostnaður verður ekki dæmdur nema þeirrar kröfu hafi verið getið í greinargerð bótakrefjanda. Ekki var gerð slík krafa í greinargerð og verður ákærða því ekki gert að greiða þann kostnað.

Eftir úrslitum málsins, sbr. 1. mgr. 218. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, er ákærði dæmdur til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Tryggva Guðmundssonar hdl., er ákvarðast 600.000 krónur að teknu tilliti til virðisaukaskatts. Annan sakarkostnað leiddi ekki af meðferð málsins.

Af hálfu ákæruvalds flutti mál þetta Karl Ingi Vilbergsson lögreglustjóri.

Dóm þennan kveður upp Sigríður Elsa Kjartansdóttir dómstjóri.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Valdimar Lúðvík Gíslason, sæti fangelsi í þrjá mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði Bolungarvíkurkaupstað 1.038.552 krónur auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 7. júlí 2014 en síðan dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga frá 22. júlí 2015 til greiðsludags.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Tryggva Guðmundssonar hdl., sem ákveðin eru 600.000 krónur.

 

Sigríður Elsa Kjartansdóttir