• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Svipting ökuréttar
  • Sektir
  • Vörslur

D Ó M U R

Héraðsdóms Vestfjarða 4. ágúst 2017 í máli nr. S-18/2017:

Ákæruvaldið

(Karl Ingi Vilbergsson lögreglustjóri)

gegn

X

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

 

I

Mál þetta, sem dómtekið var 28. júlí sl., höfðaði lögreglustjórinn á Vestfjörðum með ákæru 1. apríl 2017 á hendur ákærða: „X, kt. [...], [...], [...], A, kt.  [...], [...], [...], og B, kt. [...], [...], [...].

 

I.

Á hendur ákærðu öllum fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa laugardaginn 8. október 2016, haft í vörslum sínum 191,03 grömm af amfetamíni, sem ætluð voru til söludreifingar. Ákærðu X og A sóttu efnin til Reykjavíkur, og fluttu þau umræddan dag, á bifreiðinni [...], sem X ók, vestur í [...] við Ísafjarðardjúp, þar sem ákærði B tók við þeim úr hendi ákærða A, og geymdi í frystikistu í húsnæði [...], en B framvísaði efnunum við leit lögreglu í umrætt sinn. [...]

 

II.

Á hendur X og B, fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa í ofangreint sinn, haft í fórum sínum 7,8 grömm af maríhú[a]na, sem X átti og afhenti B til geymslu í frystikistu í ofangreindu húsnæði [...], en B framvísaði efnunum við leit lögreglu í umrætt sinn. [...]

 

III.

Á hendur ákærða X fyrir umferðarlaga- og fíkniefnalagabrot, með því að hafa í ofangreint sinn, ekið bifreiðinni [...], vestur Djúpveg, óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist tetrahýdrókannabínól 3,7 ng/ml og amfetamín 160 ng/ml), uns lögregla stöðvaði akstur hans við Svarthamar í Álftafirði og haft í fórum sínum sínum 0,55 grömm af tóbaksblönduðum kannabisefnum, sem fundust í buxnavasa hans, 4,18 grömm af marrih[ú]ana og 0,15 grömm af amfetamíni sem fannst skammt frá bifreið hans. [...]

 

IV.

Á hendur ákærða X fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa miðvikudaginn 12. október 2016, ekið bifreiðinni [...] no[r]ður Skutulsfjarðarbraut á Ísafirði, óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist tetrahýdrókannabínól 2,8 ng/ml og í þvagi mældist einnig amfetamín), uns lögreglan stöðvaði akstur hans við hús nr. 8 við Hrannargötu. [...]

Háttsemin ákærðu skv. I.-III. ákæruliða telst varða við 2., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 1. og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 789/2010 og 513/2012, hið sama á við brot ákærða skv. IV. lið, en að auki við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a og sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. síðari breytingar.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er krafist upptöku á ofangreindum fíkniefnum, þ.e. 191,18 grömm af amfetamíni, 11,98 grömm af maríhú[a]na og 0,55 grömm af tóbaksblönduðum kannabisefnum, með vísan til 6. og 7. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, um ávana- og fíkniefni, og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001, ásamt síðari breytingum. Að lokum er þess krafist að ákærði verði sviptur ökuréttindum samkvæmt 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 2. gr. laga nr. 23/1998.“

Í þinghaldi í máli þessu 3. maí sl. var þáttur ákærða klofinn frá þætti meðákærðu, A og B, sbr. 2. mgr. 169. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, sem var áfram rekinn undir málsnúmerinu S-8/2017 og var kveðinn upp dómur í því máli 12. júní 2017. Mál ákærða var rekið áfram undir málsnúmerinu S-18/2017.

Ákærði krefst þess að hann verði sýknaður af I. ákærulið en dæmdur til vægustu refsingar er lög leyfa vegna II.-IV. ákæruliðar. Þá samþykkir ákærði upptökukröfu og gerir þá kröfu að málsvarnarlaun og útlagður kostnaður verjanda ákærða verði greidd úr ríkissjóði.

Í þinghaldi vegna málsins 19. júní 2017 féll sækjandi frá þeim hluta I. ákæruliðar er varðar það að efnið hafi verið ætlað til söludreifingar. Þá leiðrétti hann einnig heimfærslu brota ákærða til refsiákvæða í ákæru á þann hátt að brot ákærða samkvæmt IV. ákærulið verði ekki talið varða við lög nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni eins og brot samkvæmt I.-III. ákærulið. Þá varði brot ákærða samkvæmt III. ákærulið jafnframt við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a, sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með síðari breytingum og brot hans samkvæmt IV. ákærulið við sömu ákvæði umferðarlaga.

 

II

            Upphaf málsins má, samkvæmt skýrslu lögreglu, rekja til þess að lögreglu bárust upplýsingar um hugsanlega sendingu á ólöglegum fíkniefnum til Ísafjarðar laugardaginn 8. október 2016. Kom þar fram að ætlun aðila væri að skilja efnið eftir á [...] við Ísafjarðardjúp hjá starfsmanni [...]. Fylgdist lögregla með því þegar ákærði ók í hlað á [...]i á bifreiðinni [...] ásamt vitninu A. Þar hafi A farið út úr bifreiðinni með plastpoka og gengið með hann í átt að húsnæði [...]. Þangað hafi ákærði einnig ekið bifreiðinni. Ákærði og A hafi 30-45 mínútum síðar haldið af stað áleiðis til Ísafjarðar en voru stöðvaðir af lögreglu í Álftafirði og handteknir. Sást farþegi bifreiðarinnar kasta einhverju út úr bifreiðinni eftir að lögregla gaf stöðvunarmerki og áður en bifreiðin var stöðvuð. Síðar kom í ljós að um amfetamín og maríhúana reyndist vera að ræða. Í kjölfar framangreinds fór lögregla á ný að [...] á [...]. Þar innandyra voru vitnin B og C og vísaði B lögreglu á fíkniefni í frystikistu.

            Við rannsókn málsins var tekin skýrsla af ákærða. Kvaðst hann þá ekkert vita um amfetamínið sem fannst í frystikistunni og ekki hafa beðið vitnið B um að geyma það. Vitnið A gaf tvisvar skýrslu við rannsókn málsins hjá lögreglu. Í þeirri fyrri kvaðst hann hafa farið til Reykjavíkur ásamt ákærða til að sækja amfetamínið. Kvaðst hann halda að ákærði hafi tekið amfetamín úr krukkunni og sett í poka og hafi það efni verið í krukkunni sem vitnið henti út úr bifreiðinni. Í seinni skýrslunni kom fram að hann hafi bragðað á amfetamíninu á leiðinni vestur. Þá gáfu vitnin B og C einnig skýrslu hjá lögreglu við rannsókn málsins en ekki er ástæða til að rekja framburð þeirra.

            Samkvæmt skýrslu lögreglu fannst amfetamínið í frystinum hjá [...] og var þá í rauðri og svartri krukku sem var í hvítum poka. Í framlagðri skýrslu tæknideildar kemur fram að amfetamínið reyndist vera 191,03 g að þyngd. Þá liggur fyrir skýrsla Rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði, dagsett 4. nóvember 2016, þar sem fram kemur að styrkur amfetamínsbasa í sýni sem tekið var úr efninu reyndist vera 32% og samsvari það 44% amfetamínsúlfati. Í annarri matsgerð rannsóknarstofunnar sem dagsett er 16. nóvember 2016 kemur fram að hægt sé að fá 605 g af efni með 5,8% styrk með því að blanda óvirku dufti við efnið.

 

III

Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

Ákærði kvaðst í skýrslu sinni fyrir dómi kannast við að hafa farið með A til Reykjavíkur í umrætt sinn. Þegar þeir komu til Reykjavíkur hafi hann skilið A eftir í vesturbænum hjá KR-vellinum og farið að sinna erindum sínum, m.a. að ná í gras sem hann átti. Þeir hafi stoppað í fimm til sex klukkustundir í Reykjavík. Hann hafi hringt í A þegar hann var búinn og síðan sótt hann á sama stað. A hafi hent einhverju drasli aftur í bifreiðina, poka sem hann setti fyrir aftan sætið. Svo hafi ákærði ekið áleiðis til Ísafjarðar. Þeir hafi stöðvað á [...] en A hafi sagt honum að þar ætlaði hann að hitta félaga sína. Þar hafi A farið út úr bifreiðinni en fyrst hafi hann beðið ákærða að keyra eitthvað „niður fyrir“. Ákærði hafi hins vegar bara ekið „utan um þennan skála“ og svo ekið upp að hótelinu. A hafi þá teygt sig aftur í en svo farið út úr bifreiðinni og farið aftur í og náð í pokann og farið svo í burtu. Ákærði hafi farið inn og fengið sér kaffi. Að því loknu hafi hann hringt í A sem hafi þá sagt honum hvar hann væri. Ákærði hafi þá ekið niður eftir og farið inn í húsnæðið. Þar hafi B tekið á móti honum. A var þá að ganga frá krukkunni í frystinn og þá hafi hann séð krukkuna í fyrsta sinn. Þar hafi A fengið sér úr krukkunni. Ákærði hafi þá ákveðið að skilja eftir hjá B hluta af grasinu sem hann var með þar sem hann hafi orðið hræddur um að þeir yrði stoppaður „fyrst þetta var svona“. Síðan hafi þeir ekið af stað aftur og þá verið teknir á leiðinni. Ákærði kvaðst ekki hafa vitað að A var að sækja amfetamín suður. Þeir hafi ekki rætt það á leiðinni suður og heldur ekki á bakaleiðinni. A hafi beðið hann um far suður en ákærði hafi þá búið fyrir vestan en oft farið suður þar sem kærasta hans var í námi í Reykjavík. A hafi spurt hann um þetta tveimur eða þremur dögum áður en þeir fóru og hafi hann ekki spurt A hvað hann ætlaði að gera í Reykjavík.

Ákærði kvaðst ekki vita annað en að pokinn hafi verið aftur í allan tímann en þeir hafi stoppað nokkrum sinnum á leiðinni. Þá kvaðst hann ekki hafa neina skýringu á því hvers vegna það mældist amfetamín í blóði hans þegar hann var stöðvaður af lögreglu á leið frá [...]. Hann hafi reykt í Reykjavík en ekki fengið sér neitt amfetamín. Nefndi ákærði að hann vissi ekki hvort hann hefði drukkið eitthvað með efninu í en það hafi þá ekki verið vísvitandi gert. Þá sagði ákærði að sá framburður A að hann hafi sagt ákærða frá því að hann væri að fara að sækja amfetamín væri ekki réttur. Þá sé heldur ekki rétt að A hafi geymt krukkuna á milli fóta sér á leiðinni vestur. Hann kvaðst ekki vita til þess að A hafi opnað krukkuna, hvorki í vesturbænum né heldur við Borgarnes, eða að A hafi bragðað á efninu í krukkunni á leiðinni. Einnig sagði ákærði að framburður lögreglumanns um að A hafi stigið út úr bifreiðinni með plastpokann sé ekki réttur, hann hafi sótt pokann aftur í. Ákærði kvaðst ekki hafa spurt A neitt um krukkuna þegar hann sá hana á [...]i. Hann hafi strax fundið lyktina þegar krukkan var opnuð, hún leyni sér ekki.

Vitnið C kvaðst hafa verið í vinnunni hjá [...] í umrætt sinn þegar tveir menn, „[...]“, hafi komið til að hitta B. Þeir hafi spjallað og spilað tölvuleiki en svo spurt hvort þeir mættu geyma dunk af „einhverju drasli“ í frystinum. Annar þeirra hafi spurt að þessu en hann muni ekki hvor. Þetta hafi verið dolla, sem hann minni að hafi verið svört, úr plasti með skrúfuðu loki og í henni var eitthvað duft. Hann hafi ákveðið að vera ekkert að skipta sér af þessu þar sem hann var að fara heim næsta dag og þetta yrði farið þegar hann kæmi næst. Mennirnir hafi farið og einum til tveimur klukkustundum seinna kom lögreglan. Hann vissi að mennirnir voru að koma frá Reykjavík og heldur að þeir hafi verið að ferðast saman. Vitnið kvaðst ekki vita hvor þeirra hafi átt dunkinn. Hann hafi verið í kjallaranum þegar þeir komu þangað báðir á sama tíma en annar þeirra hafi farið til baka til að sækja dunkinn.

Vitnið B kvaðst minna að A hafi hringt í hann, jafnvel nokkrum dögum fyrr, og spurt hvort þeir mættu koma með „eitthvað“ og hafi hann verið tilbúinn til að hjálpa honum. A hafi hringt oftar í vitnið og seinna þegar þeir voru komnir á [...] hafi hann hringt þegar þeir voru í erfiðleikum með að finna staðinn en vitnið kvaðst ekki muna hvort hann hafi þá hringt úr síma ákærða. Þegar þeir komu var A með krukku, sem hann minni að hafi verið með rautt „teip“ og var krukkan í plastpoka. Ákærði hafi svo farið og náð í aðra krukku. Kvaðst hann halda að þeir hafi komið saman. Þeir hafi farið spilað tölvuleik og hafi hann sagt A að setja krukkuna í frysti. Ákærði hafi þá viljað fá að geyma líka það sem hann var með og hafi vitnið þá sagt honum að fara og ná í það og hafi ákærði þá náð í grasið. Vitnið kvaðst ekki vita af hverju þeir voru að geyma þetta þarna en halda að þeir hafi verið hræddir um að vera teknir á leiðinni. Þeir hafi annað hvort ætlað að sækja efnið seinna eða vitnið kæmi með það. Hann kvaðst ekki muna hvort eitthvað hafi verið rætt um það hvað væri í krukkunni sem A var með en honum hafi sterklega grunað að þetta væri amfetamín. Þetta hafi verið dálítið stór krukka þannig að hann var hræddur um að það væri mikið í henni. Þá staðfesti vitnið þann framburð sem hafður var eftir honum í skýrslu hans hjá lögreglu að þeir hafi báðir boðið honum greiðslu fyrir að geyma efni en hann hafi hafnað því. Öðrum þeirra hafi dottið þetta í hug og hinn hafi þá líka boðið greiðslu. Vitnið kvaðst minna að báðar krukkunnar hafi verið opnaðar og þeir hafi tekið eitthvað amfetamín með sér.

Vitnið D, lögreglumaður kvaðst hafa farið til [...] eftir að lögregla fékk upplýsingar um að fíkniefni væru á leiðinni vestur með viðkomu á [...]. Hann kvaðst hafa verið þar í bifreið á bifreiðastæðinu þegar annarri bifreið var lagt við hlið hans og A steig út úr bifreiðinni með poka í hendi. Honum hafi virst sem eitthvað þungt hafi verið í pokanum hjá A. Hann hafi haldið á pokanum með annarri hendi og hafi verið með hann í fanginu þegar hann steig út úr bifreiðinni. Vitnið kvaðst ekki hafa séð að hann væri að leyna pokanum. A hafi farið frá tröppunum við móttökuna á [...] og fyrir hornið þar sem hann hvarf út í myrkrið í átt að [...]. Ákærði var ökumaður bifreiðarinnar og hafi hann stigið út úr henni og farið að reykja. Vitnið hafi þá ekið bifreið sinni í burtu og lagt henni afsíðis þar sem hann hafi séð bæði ákærða og [...]. Ákærði hafi verið á bifreiðastæðinu í kannski hálftíma og reykt örugglega tvær sígarettur og svo farið inn í bifreiðina og ekið henni að [...]. Hann hafi svo farið inn í [...] þar sem hann hafi einnig verið í kannski hálftíma. Þeir hafi svo báðir komið til baka og ekið af stað og vitnið ekið á eftir þeim ásamt fleiri lögreglumönnum. Þeir hafi stöðvað bifreið ákærða og A hjá Svarthamri þá hafi hann séð eitthvað koma fljúgandi út úr glugga bifreiðarinnar, farþegamegin.

Vitnið A sagði hann og ákærða hafa farið saman akandi til Reykjavíkur að sækja amfetamín fyrir þriðja aðila og ákærði hafi einnig sótt gras fyrir sig. Þeir hafi hitt einhvern og sótt efnið og svo farið til baka og afhent B efnið og voru svo handteknir í Súðavík. Ákærði hafi vitað að hann var að sækja amfetamín en var ekki með honum þegar hann sótti efnið heldur hafi hann fyrst séð það þegar vitnið kom með það inn í bifreiðina. Hann hafi beðið ákærða um að skutla sér og sagt honum hvað hann væri að fara að gera. Á leiðinni frá Reykjavík að [...] hafi grasið sem ákærði var með verið í krukku en vitnið hafi geymt amfetamínið í krukku milli fóta sér og krukkan var í plastpoka sem hún var í þegar hann fékk hana afhenta. Krukkan hafi verið opnuð á [...] og einnig á leiðinni í bifreiðinni. Fyrst í vesturbænum þar hafi hann fengið sér aðeins úr krukkunni þar sem hún var á gólfinu hjá honum. Síðan hafi hann opnað hana aftur og fengið sér úr henni þegar þeir voru rétt farnir framhjá Borgarnesi. Hann viti þó ekki hvort ákærði var að horfa á hann þegar hann fékk sér úr krukkunni. Ákærði hafi tekið sér eitthvað úr krukkunni á [...] en lögregla hafi tekið það efnið. Vitnið hafi sett amfetamín á disk en ekki tekið neitt af því með sér frá [...] en svo hafi eitthvað af efninu verið komið í „selló“ þegar lögreglan tók þá og þá var ákærði með það á sér. Ákærði hafi oft verið búinn að sjá amfetamínið. Það var í stórri krukku, kannski um 30 sm hárri, sem var gagnsæ og vitnið hafði tekið krukkuna úr pokanum en einnig hafi sést í gegnum pokann. Þeir hafi ekkert talað um krukkuna en vitnið kvaðst vera alveg viss um að ákærði hafi séð krukkuna, kannski ekki í vesturbænum en þetta hafi verið margra klukkustunda akstur vestur. Þegar þeir komu að [...] hafi hann farið út úr bifreiðinni með krukkuna og gengið niður eftir til B og afhent B krukkuna og hann hafi sett hana í frystinn. Diskurinn með amfetamíninu hafi enn verið á borðinu þegar ákærði kom inn. Þeir hafi rætt að amfetamíninu yrði að koma til Ísafjarðar og átti B að fara með það þangað. Þá kvaðst hann halda að hann hafi rætt í síma við B áður en þeir komu. Ekki hafi staðið til að ákærði fengi greitt fyrir að aka honum til Reykjavíkur að ná í efnið heldur hafi hann verið að fara til að ná sér í gras. Hann og ákærði hafi ekki rætt um magn efnisins. Þá sagði vitnið að það kæmi alltaf lykt af amfetamíni en taldi að ekki hafi verið hægt að sjá í gegnum krukkuna og pokann hversu mikið magn væri í krukkunni. Þá sagði vitnið að aldrei hafi verið rætt við B um það hvort hann ætti að fá eitthvað greitt fyrir sinn þátt.

 

IV

Niðurstaða.

Ákærði neitar sök samkvæmt fyrsta ákærulið. Hann kannast við að hafa ekið vitninu A í umrætt sinn en kveðst ekki hafa vitað af því að amfetamín var í bifreiðinni fyrr en þeir voru komnir á [...].

Einungis ákærði og vitnið A eru til frásagnar um vitneskju ákærða um amfetamínið en A var með dómi héraðsdóms 12. júní 2017 dæmdur til refsingar vegna síns þáttar í málinu. Hann sagði í skýrslu sinni fyrir dómi að hann væri viss um að ákærði hafi vitað af amfetamíninu en kvaðst ekki hafa sagt honum magn þess né heldur taldi hann að ákærði hafi átt þess kost, í bifreiðinni á leiðinni frá Reykjavík, að sjá hversu mikið magn amfetamíns var í krukkunni. Hann kvaðst hafa beðið ákærða að skutla sér til Reykjavíkur til að sækja amfetamínið og hafi ákærði beðið í bifreiðinni á meðan hann sótti efnið og hafi ákærði séð pokann með krukkunni sem efnið var í þegar hann kom aftur í bifreiðina. Þá lýsti hann því að hann hefði fengið sér amfetamín tvisvar á leiðinni og sagði lykt af amfetamíni hafa komið frá krukkunni þegar hann opnaði hana.

Ákærði hefur alfarið neitað því að hafa vitað af amfetamíninu í bifreiðinni á leiðinni frá Reykjavík að [...]. Framburður ákærða fær að hluta stuðning í framburði D lögreglumanns sem sagði ákærða hafa beðið einan í um hálftíma á bifreiðastæðinu við [...] áður en hann ók áfram niður að húsnæði [...] og fór þar inn. Framburðir þeirra eru hins vegar ekki samhljóða hvað það varðar hvort A hafi haldið á pokanum þegar hann kom út úr bifreiðinni en D sagði svo hafa verið en ákærði sagði hann hafa sótt pokann aftur í. Er framburður vitnisins A í samræmi við framburð D svo langt sem framburður lögreglumannsins nær. Verður því einungis talið sannað með framburðum þeirra að A hafi tekið pokann með efninu með sér út úr farþegasætinu frammí en ekki hvar pokinn var geymdur á leiðinni vestur. Þá er að hluta til samræmi milli framburðar ákærða og A varðandi það sem gerðist á [...], að efnið hafi verið sett í frysti og að A hafi fengið sér af því. Ákærði neitar því hins vegar að hafa tekið sér efni úr krukkunni, eins og A bar um, og að hafa neytt efnisins en viðurkenndi að hafa haft 0,15 g af amfetamíni í fórum sínum, þegar lögregla stöðvaði hann, eins og lýst er í III. ákærulið, auk þess sem þá mældist m.a. amfetamín í blóði hans. Þá sagði vitnið B í sínum framburði að ákærði og A hefðu tekið efni úr krukkunni á [...] en bar ekki um hvort það hafi verið annar þeirra eða báðir.

Þá er misræmi í framburði ákærða og A varðandi atvik í Reykjavík. Ákærði bar um að hafa skilið A eftir og sótt hann eftir fimm til sex klukkustundir en A sagði ákærða hafa beðið á meðan hann sótti efnið. Ákærði var handtekinn um klukkan 22.30 um kvöldið við Svarthamar í Álftafirði. Í skýrslum sínum hjá lögreglu sögðu ákærði og A að þeir hafi lagt af stað suður, frá Ísafirði, um klukkan tíu um morguninn. Miðað við þessi tímamörk, eðlilegan aksturstíma og 30-60 mínútna stopp á [...] er ljóst að ákærði og A höfðu ekki svigrúm til að dvelja fimm til sex tíma í Reykjavík en það útilokar þó ekki að ákærði hafi haft tíma til sinna einhverjum erindum og hafa þá skilið A eftir í vesturbænum á meðan.

Sönnunarbyrði um sekt ákærða og atvik sem telja má honum í óhag hvílir á ákæruvaldinu og metur dómari hverju sinni hvort nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sé fram komin um hvert það atriði sem varðar sekt og ákvörðun viðurlaga við broti, sbr. 108. og 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Einungis ákærði og A gátu borið um atvik frá því A kom inn í bifreiðina með efnið og þar til þeir komu á [...]. Við mat á framburði A er til þess að líta að hann var einnig sakborningur í málinu og hefur hlotið dóm fyrir og að hann játaði þátt sinn í málinu skýlaust. Eins og rakið hefur verið er hvorki framburður ákærða né framburður A í fullu samræmi við annað sem fram er komið í málinu. Þá lýsti A umbúðum efnanna svo að ákærði átti þess ekki kost á að sjá nákvæmlega hvað var í krukkunni en í rannsóknargögnum kemur fram að krukkan hafi verið svört og rauð og í hvítum plastpoka. Loks er ekkert fram komið sem bendir til þess að ákærði hafi skoðað í pokann, a.m.k. ekki áður en þeir komu að [...]. Um vitneskju ákærða um að efnið væri í bifreiðinni á leiðinni á [...] liggja því fyrir orð ákærða gegn orðum A. Ekkert er annað fram komið sem styður framburð A um vitneskju ákærða um að efnið væri í bifreiðinni fremur en framburð ákærða og verður sakfelling ákærða því ekki byggð á framburði A. Með vísan til þess verður því ekki talið að fram sé komin lögfull sönnun þess að ákærði hafi framið það brot sem lýst er í fyrsta ákærulið og verður hann því sýknaður af því broti.

Ákærði játaði skýlaust þau brot sem honum eru gefin að sök í II., III. og IV. ákærulið. Málsatvikum er lýst í ákæru. Það er mat dómsins að játning ákærða samræmist rannsóknargögnum málsins og verður hann því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í þeim ákæruliðum og eru brot hans þar rétt heimfærð til refsiákvæða.

 

V

Ákærði er fæddur árið [...]. Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins hefur hann ekki áður sætt refsingu. Með hliðsjón af þeirri háttsemi sem ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir og með vísan til 77. gr. almennra hegningarlaga þykir refsing hans hæfilega ákveðin sekt til ríkissjóðs að fjárhæð 446.000 krónur og komi 26 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja.

Ákærði er sviptur ökurétti í 18 mánuði frá birtingu dómsins að telja.

Upptæk eru gerð í ríkissjóð 0,15 g af amfetamíni, 11,98 g af maríhúana og 0,55 g af tóbaksblönduðu kannabisefnum.

Eftir úrslitum málsins, sbr. 218. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, er ákærði dæmdur til að greiða 1/4 hluta málsvarnarlauna skipaðs verjanda ákærða, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hrl., sem þykja hæfilega ákveðin 700.000 krónur, og útlagðs kostnaðar verjandans, 95.410 krónur. Við ákvörðun málsvarnarlauna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Þá er ákærði dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar vegna II., III. og IV. ákæruliðar, samtals 307.252 krónur samkvæmt framlögðum reikningum ákæruvalds. Annar sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti mál þetta Karl Ingi Vilbergsson lögreglustjóri.

Dóm þennan kveður upp Sigríður Elsa Kjartansdóttir dómstjóri.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, X, greiði sekt til ríkissjóðs að fjárhæð 446.000 krónur og komi 26 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja.

Ákærði er sviptur ökurétti í 18 mánuði frá birtingu dómsins að telja.

Upptæk eru gerð í ríkissjóð 0,15 g af amfetamíni, 11,98 g af maríhúana og 0,55 g af tóbaksblönduðu kannabisefnum.

Ákærði greiði 1/4 hluta málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hrl., sem þykja hæfilega ákveðin 700.000 krónur, og útlagðan kostnað verjandans 95.410 krónur. Þá greiði ákærði sakarkostnað að fjárhæð 307.252 krónur. Annar sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði.

 

Sigríður Elsa Kjartansdóttir