• Lykilorð:
  • Akstur án ökuréttar
  • Ítrekun
  • Fangelsi

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Vestfjarða 31. janúar 2018 í máli nr. S-51/2017:

Ákæruvaldið

(Bryndís Ósk Jónsdóttir fulltrúi)

gegn:

Valdimar Hermanni Hannessyni

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 17. janúar 2018, er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum á Vestfjörðum 13. nóvember 2017, á hendur ákærða Valdimar Hermanni Hannessyni, Lambeyri, Tálknafirði, fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa mánudaginn 6. nóvember 2017, ekið bifreiðinni […], út af bifreiðastæði við hús nr. […] að […], og í vesturátt, sviptur ökuréttindum, þar til lögregla stöðvaði aksturinn.

Telst þetta varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, ásamt síðari breytingum.

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“

            Ákærði sótti ekki þing við þingfestingu málsins þann 17. janúar 2018. Verður málið því dæmt samkvæmt heimild í a-lið 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála enda var þess getið í fyrirkallinu að þannig gæti farið um meðferð málsins.

            Með vísan til framanritaðs og til rannsóknargagna málsins telst framangreind háttsemi sönnuð og er hún rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

            Ákærði er fæddur í […]. Samkvæmt framlögðu sakavottorði var ákærði sviptur ökuréttindum í 12 mánuði frá 6. apríl 2017 vegna brots gegn 45. gr. umfl. Með broti því sem ákærði er nú sakfelldur fyrir hefur hann nú í annað sinn ítrekað verið sakfelldur fyrir akstur sviptur ökuleyfi. Að virtum þessum sakarferli þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin 30 daga fangelsi.

Engan sakarkostnað leiddi af máli þessu.

            Bergþóra Ingólfsdóttir dómstjóri kveður upp dóminn.

 

D Ó M S O R Ð:

 

Ákærði, Valdimar Hermann Hannesson sæti 30 daga fangelsi.

                                                                        Bergþóra Ingólfsdóttir