• Lykilorð:
  • Akstur án ökuréttar
  • Brot gegn valdstjórninni
  • Ítrekun
  • Fangelsi
  • Svipting ökuréttar

D Ó M U R

Héraðsdóms Vestfjarða 26. október 2016 í máli nr. S-47/2016:

Ákæruvaldið

(Bryndís Ósk Jónsdóttir fulltrúi)

gegn

Stefáni Óla Baldurssyni

 

I

Mál þetta, sem dómtekið var 19. október sl., höfðaði lögreglustjórinn á Vestfjörðum með ákæru 5. september 2016 á hendur ákærða: „Stefáni Óla Baldurssyni, kennitala [...], [...], [...], fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 28. ágúst 2016, ekið bifreiðinni [...], um bifreiðastæði við [...] í [...], undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði mældist 0,92‰), auk þess að vera sviptur ökuréttindum, uns lögregla stöðvaði akstur hans.

Telst þetta varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. síðari breytingar. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. síðari breytingar, og greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

II

Fyrirkall í máli þessu var gefið út 21. september 2016 og birt fyrir ákærða 29. sama mánaðar. Við þingfestingu málsins 19. október sl. sótti ákærði ekki þing og var málið þá að kröfu sækjanda dómtekið á grundvelli 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Samkvæmt framansögðu og með vísan til 1. mgr. 161. gr., sbr. 1. mgr. 155. gr. laga nr. 88/2008, verður dómur lagður á málið þrátt fyrir útivist ákærða þar sem framlögð gögn þykja nægileg til sakfellingar. Telst sannað að ákærði hafi gerst sekur um brot þau sem honum eru gefin að sök í ákæru og eru þau þar réttilega heimfærð til refsiákvæða.

 

III

Ákærði er fæddur árið [...]. Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins hefur hann tvisvar gengist undir greiðslu sektar með sektargerð lögreglustjóra. Fyrri sektargerðina, sem var vegna aksturs undir áhrifum ávana- og fíkniefna og aksturs án þess að endurnýja ökuskírteini, sbr. 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og brots gegn 2., sbr. 5. og 6. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni, undirritaði ákærði 17. desember 2009. Síðari sektargerðina undirritaði hann 13. mars 2014 og var hún vegna brota gegn 1., sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga og 2., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni. Hafa framangreindar sektargerðir ítrekunaráhrif við ákvörðun refsingar nú. Að virtu framangreindu og með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þykir refsing ákærða nú hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga.

Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt frá birtingu dómsins að telja.

Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins, 38.101 krónu.

Dóm þennan kveður upp Sigríður Elsa Kjartansdóttir dómstjóri.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Stefán Óli Baldursson, sæti fangelsi í 30 daga.

Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt frá birtingu dómsins að telja.

Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins, samtals 38.101 krónu.

 

Sigríður Elsa Kjartansdóttir