• Lykilorð:
  • Bókhaldsbrot
  • Fangelsi
  • Sektir
  • Skattar
  • Skilorð
  • Tekjuskattur
  • Virðisaukaskattur

D Ó M U R

Héraðsdóms Vestfjarða 4. júlí 2017 í máli nr. S-56/2016:

Ákæruvaldið

(Matthea Oddsdóttir saksóknarfulltrúi)

gegn

Hauki Vagnssyni

(Bragi Dór Hafþórsson hdl.)

 

I

Mál þetta, sem dómtekið var 24. maí sl., höfðaði héraðssaksóknari með ákæru 30. nóvember 2016 á hendur ákærða; „Hauki Vagnssyni, kt. [...], [...], [...] [,] fyrir meiri háttar brot gegn skatta– og bókhaldslögum, sem framkvæmdastjóra og stjórnarmanni einkahlutafélagsins [...], kt. [...] (nú þrotabú), með því að hafa:

 

1.                  Eigi staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum einkahlutafélagsins vegna uppgjörstímabilanna janúar – febrúar rekstrarárið 2008 til og með nóvember – desember rekstrarárið 2010 á lögmæltum tíma og hafa eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri einkahlutafélagsins vegna uppgjörstímabilanna janúar – febrúar og nóvember – desember rekstrarárið 2008, og uppgjörstímabilanna janúar – febrúar til og með nóvember – desember rekstrarárið 2009, í samræmi við fyrirmæli IX. kafla laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, samtals að fjárhæð kr. 4.204.924, og er sú fjárhæð að teknu tilliti til inneignar uppgjörstímabilanna mars – apríl, maí – júní, júlí – ágúst og september – október rekstrarárið 2008, sem sundurliðast sem hér greinir:

Uppgjörstímabil:                                 Vangoldinn VSK:

Árið 2008

Janúar – febrúar                                  kr. 19.383

Mars – apríl                                         kr. -14.083

Maí – júní                                            kr. -221.510

Júlí – ágúst                                          kr. -64.412

September – október                           kr. -251.660

Nóvember – desember                        kr. 964.048

Samtals                                               kr. 431.766

 

Árið 2009

Janúar - febrúar                                   kr. 738.963     

Mars - apríl                                          kr. 716.320     

Maí – júní                                            kr. 923.036     

Júlí – ágúst                                          kr. 592.693     

September - október                            kr. 640.808     

Nóvember - desember                         kr. 161.338

Samtals                                               kr. 3.773.158

 

2.                  Eigi staðið skil á skattframtölum einkahlutafélagsins gjaldárin 2009, 2010 og 2011, vegna rekstraráranna 2008, 2009 og 2010. Með þessu vanframtaldi ákærði rekstrartekjur félagsins um samtals kr. 76.764.151 og kom sér undan greiðslu tekjuskatts að fjárhæð samtals kr. 1.337.987 fyrir rekstrarárið 2009, sem sundurliðast sem hér greinir:

 

 

3.      Látið undir höfuð leggjast að færa lögboðið bókhald og vanrækt að varðveita fylgiskjöl og önnur bókhaldsgögn vegna einkahlutafélagsins, rekstrarárin 2008, 2009 og 2010, með fullnægjandi hætti.

 

Framangreind brot ákærða Hauks samkvæmt ákæru teljast varða við 1. og 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig:

 

a)      1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 og 3. gr. laga nr. 134/2005, að því er varðar 1. tölulið ákæru.

b)      2. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að því er varðar 2. tl. ákæru.

c)      1. og 2. tölulið. 37. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 145/1994, um bókhald, sbr. 1. gr. laga nr. 37/1995, að því er varðar 3. tölulið ákæru.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvalds en til vara að hann verði dæmdur til vægustu refsingar er lög leyfa og að þær fjárhæðir sem tilgreindar eru í fyrsta og öðrum ákærulið verði þá lækkaðar verulega. Þá gerir verjandi ákærða kröfu um greiðslu málsvarnarlauna og útlagðs kostnaðar úr ríkissjóði.

Ákærði krafðist einnig frávísunar málsins en með úrskurði héraðsdóms 24. febrúar sl. var þeirri kröfu hans hafnað.

 

II

Samkvæmt vottorði úr fyrirtækjaskrá var ákærði stjórnarmaður [...] ehf., í framkvæmdastjórn félagsins og með prókúruumboð. Tilgangur félagsins var, samkvæmt sama vottorði, kaup og sala eigna, rekstur fasteigna, lánastarfsemi og skyldur rekstur.

Ríkisskattstjóri vísaði máli [...] ehf. til skattrannsóknarstjóra ríkisins með bréfi dagsettu 23. ágúst 2010. Með bréfi skattrannsóknarstjóra til ákærða, dagsettu 16. maí 2011, var ákærða tilkynnt að rannsókn væri hafin á bókhaldi og skattskilum félagsins vegna rekstrartímabilsins janúar 2005 til og með desember 2010. Þá var þess óskað að skattrannsóknarstjóra yrði afhent bókhald félagsins og fylgigögn þess svo og önnur gögn er varða reksturinn framangreint tímabil.

Ákærði gaf skýrslu við rannsókn málsins hjá skattrannsóknarstjóra 29. maí 2013. Hann staðfesti þá að hann væri framkvæmdastjóri félagsins, stjórnarmaður og eini eigandi þess og með prókúru fyrir félagið. Hann sagði félagið hafa átt eina fasteign í [...] sem hafi verið í mjög slæmu ástandi og illa hafi gengið að koma starfsemi félagsins í gang. Vegna erfiðrar stöðu félagsins hafi bókhaldshlutanum ekki verið sinnt nægilega í upphafi en nú væri verið að vinna í því að klára bókhaldið. Ákærði kvaðst hafa eignast félagið árið 2005 og búið sé að færa bókhald vegna áranna 2005 og 2006 og lítið sé eftir vegna 2007 og 2008. Kvaðst hann halda að þegar upp væri staðið ætti hann frekar virðisaukaskatt inni. Félagið hafi rekið hálfgert mötuneyti á tímabili en síðan hafi verið reynt að halda úti ferðaþjónustu. Á því tímabili sem var til rannsóknar hafi [...] verið stærsti kaupandi þjónustu af [...] ehf. Þá kvaðst ákærði hafa haldið utan um öll gögn félagsins en síðan hafi hann ráðið starfsmann til þess sem hafi unnið undir handleiðslu A endurskoðanda. Allar greiðslur til félagsins hafi farið í gegnum bankareikninga, annars vegar nr. [...] í Búnaðarbankanum og hins vegar [...] í Sparisjóði Bolungarvíkur. Þá séu einhverjar upphæðir útistandandi. Ákærði kvaðst telja að kostnaður, sérstaklega vegna áranna 2009 og 2010, eigi að vera miklu meiri en þau gögn sem lágu fyrir við skýrslutökuna sýni.

Samkvæmt framlagðri skýrslu skattrannsóknarstjóra, dagsettri 29. ágúst 2013, leiddi rannsókn hans í ljós að ekki hafi verið staðin skil á skattframtölum og ársreikningum vegna rekstraráranna 2008 til og með 2010, ekki hafi verið staðin skil á virðisaukaskattsskýrslum vegna sömu ára, að færslu bókhalds væri ekki lokið, ekki hafi verið afhent öll bókhaldsgögn, varðveislu bókhaldsgagna væri áfátt, skattskyld og undanþegin velta væri vantalin, útskattur væri vantalinn og rekstrartekjur vantaldar. Mögulegur innskattur væri 12.410.065 krónur og möguleg rekstrargjöld 82.236.688 krónur. Samkvæmt skýrslunni byggist hún einkum á upplýsingum frá ákærða, sölureikningum skattaðila, bókhaldi og bókhaldsgögnum skattaðila, gögnum frá fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra og upplýsingakerfum skattyfirvalda. Málinu var vísað til rannsóknar lögreglu með bréfi skattrannsóknarstjóra, dagsettu 18. febrúar 2014, auk þess sem ríkisskattstjóri kvað upp úrskurð 5. desember 2013 um álagningu [...] ehf. vegna rekstraráranna 2008 til 2009, á grundvelli niðurstöðu skattrannsóknarstjóra.

            Skýrsla var tekin af ákærða, vegna rannsóknar málsins, 17. mars 2014. Þá staðfesti ákærði að hann hafi frá 30. mars 2005 verið aðalmaður í stjórn félagsins og framkvæmdastjóri þess. Þá kvaðst hann hafa annast daglega fjármálastjórn félagsins og þ.m.t. borið ábyrgð á skattskilum vegna rekstraráranna 2008 til og með 2010. Um sé að ræða fyrirtæki í ferðaþjónustu. Árin 2009 og 2010 hafi verið ágætis ár en síðan hafi þetta verið vonlítill rekstur. Hann sagði að A endurskoðandi væri að vinna í því að ljúka færslu bókhalds vegna áranna 2008 til 2010 og að verið væri að afla gjaldareikninga sem ekki hafi fundist í fyrirliggjandi bókhaldsgögnum.

            Þann 22. júní 2015 gaf sérstakur saksóknari út ákæru á hendur ákærða og [...] ehf. Félagið var úrskurðað gjaldþrota 30. september 2015 og í kjölfar þess, eða 7. september 2015, var ákæra á hendur félaginu afturkölluð. Þá var ákæra á hendur ákærða einnig afturkölluð, eftir að hann lagði fram frekari gögn vegna málsins. Ný ákæra var gefin út á hendur ákærða 30. nóvember 2016 og er ákærði þar ákærður fyrir að hafa ekki skilað virðisaukaskattsskýrslum einkahlutafélagsins fyrir sömu tímabil og tilgreind voru í eldri ákæru. Sú fjárhæð virðisaukaskatts sem ákærði var ákærður fyrir að standa ekki skil á hafði þá verið lækkuð úr 5.724.163 krónum í 3.773.158 krónur og varðar vegna sömu tímabil og í eldri ákæru utan þess að nú er ákært fyrir tímabilið janúar-febrúar 2008 í stað september-október 2008 í eldri ákæru, ekki er ákært vegna ársins 2010 og nú er tekið tillit til inneignar á tímabilunum mars–apríl, maí–júní, júlí–ágúst og september–október rekstrarárið 2008. Þá var öðrum ákærulið breytt á þann hátt að sú fjárhæð sem ákærði var talinn hafa vantalið fram er 76.764.151 króna í stað 137.174.910 króna í eldri ákæru og að með því hafi ákærði komið sér undan greiðslu tekjuskatts að fjárhæð 1.337.987 krónur vegna rekstrarársins 2009 í stað 8.139.440 króna í eldri ákæru vegna þriggja framangreindra rekstrarárana 2008-2010. Þriðji ákæruliður er óbreyttur frá eldri ákæru.

Þá var tekin skýrsla af ákærða á ný 15. september 2016 eftir að fyrri ákæran á hendur honum hafði verið afturkölluð. Ákærði kvaðst þá telja að enn vantaði frekari gögn þar sem kostnaður hafi verið meiri. Nefndi hann að verktaki hafi verið að vinna hjá félaginu sem ekki hafi skilað inn reikningum og kvaðst minna að félagið hafi heitið X. Í því tilviki sé um að ræða virðisauka sem ganga átti upp í þá tölu sem eftir stendur. Þessi verktaki hafi séð um framkvæmdir á fasteign félagsins árið 2009. Kvaðst ákærði gera ráð fyrir að verktakanum hafi verið greitt í gegnum banka en að hluta með tækjum, t.d. með einum hraðbát.

            Í málinu liggur fyrir samanburður á niðurstöðu skattrannsóknarstjóra og bókhaldi [...] ehf. fyrir árin 2008-2010, sem unninn var af A, endurskoðanda ákærða. Þar kemur fram að fjárhæðir bókhalds 2008 séu samkvæmt ársreikningi og skattframtali sem séu tilbúin til innsendingar. Einnig segir þar að fjárhæðir bókhalds 2009 séu samkvæmt bráðabirgðatölum rekstrar en eftir sé að gera grein fyrir á annan tug bankagreiðslna sem líklegast séu viðbótargjöld, um þrjár milljónir króna, og verið sé að vinna í því að fá skýringar hjá viðskiptabanka. Einnig liggja m.a. fyrir yfirlit yfir niðurstöðu ársreikninga vegna framangreindra ára, yfirlit yfir færslur á bankareikninga [...] ehf., nr. [...], vegna 1. janúar 2009 til 21. desember 2010, og útprentun yfir hreyfingar fjárhags í bókhaldi [...] ehf. vegna áranna 2009 og 2010.

Við aðalmeðferð málsins lagði ákærði fram yfirlit yfir 22 reikninga X og afrit af reikningunum sem eru samtals að fjárhæð 4.903.239 krónur og er samanlögð fjárhæð virðisaukaskatts samkvæmt þeim 996.239 krónur. Þá lagði hann fram yfirlit yfir verktakagreiðslur þar sem m.a. koma fram greiðslur til X og samantekt virðisaukaskatts 2008-2010 þar sem borin er saman niðurstaða framangreinda þriggja ára samkvæmt skýrslu skattrannsóknarstjóra og samkvæmt bókhaldi. Er þar sérstaklega tilgreint, vegna ársins 2010, að: „Debetstöður á lánadrottnum með vsk númer þar sem augljóslega á eftir að færa reikninga á móti (aðeins stærri fjárhæðir teknar)...“ og er þar tilgreindur innskattur upp á rúmar þrjár milljónir króna til viðbótar.

 

III

Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

Ákærði, Haukur Vagnsson, kvaðst hafa verið framkvæmdastjóri og stjórnarmaður í [...] ehf. á því tímabili sem ákæran tekur til og prókúruhafi á reikningi félagsins. Ákærði kvaðst hafa kynnt sér eins og hann gat þær skyldur sem hvíla á stjórnarmönnum og framkvæmdastjórum lögum samkvæmt. Hann hafi sem framkvæmdastjóri séð um daglegan rekstur félagsins og stýrt því og séð um fjármál félagsins. Hann hafi verið með bókara í vinnu, sem hafi séð um að færa bókhald, og með endurskoðanda, sem hafi séð um endurskoðun þess.

Ákærði kvaðst hafa vitað að honum hafi borið að skila virðisaukaskattsskýrslum á tveggja mánaða fresti. Ástæðu þess að skýrslum vegna ársins 2008 hafi ekki verið skilað á réttum tíma megi rekja til þess að félagið hafi byrjað í stórri skuld og ekki hafi verið til peningar til að ráða einhvern til að sjá um þetta. Þegar hann tók við húsnæði félagsins hafði það ekki verið notað í mörg ár. Reksturinn hafi verið mjög erfiður framan af en rættist örlítið úr honum árið 2009 þegar stór verkefni komu inn í félagið, tímabundið, en þá hafi félagið verið orðið langt á eftir með bókhaldið og mikill tími hafi farið í það að vinna úr gömlum gögnum. Um leið og það fóru að koma inn tekjur hafi hann ráðið manneskju til að sjá um bókhaldið og koma því „up to date“. Það hafi svo þurft að fara til endurskoðanda. Þetta gekk mjög hægt og það hafi vantað mikið af reikningum og ekki verið hægt að loka neinu.

Ákærði kvaðst telja að þau gögn frá endurskoðanda sem ákæra byggist á séu rétt miðað við þau gögn sem endurskoðandinn hafði þá. Ítrekaði ákærði að enn vanti mikið af gögnum og endurskoðandinn hafi vitað það líka. Kvaðst ákærði telja að hefði hann aðstæður til að klára bókhaldið yrði niðurstaðan sú að engin skuld yrði eftir í þessu máli. Hann hafi hins vegar ekki fjármagn til þess og sé í mjög erfiðri aðstöðu. Hann hafi engan aðgang að sínum gögnum því að þau voru tekin af honum, læst inni hjá endurskoðanda, sem hann skuldaði pening og hafi því ekki treyst sér til að vinna meira fyrir ákærða. Ákærði sagði að aldrei hafi verið tekin ákvörðun um að skila ekki virðisaukaskatti á lögboðnum tíma.

Hvað varðar annan ákærulið þá sagði ákærði að þegar framtöl vegna rekstraráranna 2008, 2009 og 2010 voru nánast tilbúin þá hafi félagið verið úrskurðað gjaldþrota haustið 2015, byggt á áætlunum sem eigi sér enga stoð í raunveruleikanum. Hann hafi verið að vinna að því að skila framtölunum. Hann kvaðst gera ráð fyrir að hann sem framkvæmdastjóri beri ábyrgð á því að skila skattframtali og ársreikningum af hálfu félagsins. Þeim ársskýrslum sem hafi verið skilað var skilað af endurskoðanda hans, 2014 eða 2015, fyrir árin 2005, 2006 og 2007. Það hafi verið gert stuttu áður en félagið var sett í þrot. Þá sagði ákærði að það vantaði gögn, sérstaklega vegna ársins 2009, þar vanti inn stóra reikninga sem þeim hafi ekki tekist að útvega og það hafi endurskoðandi hans staðfest. Ákærði kvaðst ekki vita hvort yfirlit yfir verktakagreiðslur sem hann lagði fram væri tæmandi.

Varðandi athugasemdir ákæruvalds vegna reikninga X sagði ákærði að um sé að ræða einstakling, sem noti heitið X sem hjánefni, sem hafi verið með nokkra menn í vinnu við að breyta húsnæðinu hjá ákærða. Verktakinn hafi ætlað að gera heildaruppgjör fyrir ákærða en hafi einungis sent vinnuskýrslur og hann hafi greitt eftir þeim. Greiðslurnar komi allar fram á bankayfirliti. Varðandi reikningana sjálfa þá sjái hann ekkert athugavert við þá. Þeir séu allir númeraðir og í númeraröð og hafi verktakinn eingöngu verið að vinna fyrir félagið í nokkra mánuði. Þar komi fram verksali og virðisaukaskattsnúmer. Þá kvaðst hann ekki vita hvaða bókhaldsforrit verktakinn hafi notað þegar hann gerði reikningana. Hann hafi í langan tíma verið búinn að ganga eftir því að fá afrit af reikningunum en maðurinn hafi verið búinn að vera erlendis í langan tíma og hafi þeir ekki fundið hann. Kvað ákærði sig minna að hann hafi greitt 25,5% í virðisaukaskatt þetta ár. Greiðslur til verktakans hafi hann lagt inn á reikning C þar sem hann var verksali og hans kennitala á reikningunum.

Ákærði sagði ástæðu þess að færslu bókhalds hafi ekki verið lokið þegar rannsókn skattrannsóknarstjóra hófst hafi verið sú að hann hafi verið að vinna upp eldri ár í bókhaldinu. Það hafi ekki verið fært á lögboðnum tíma þar sem hann hafi ekki verið í aðstöðu til að gera það fyrr, en hann gerði ráð fyrir að það hafi verið á hans ábyrgð að færa lögboðið bókhald. Það sé rétt að bókhaldið var ekki tilbúið á þeim tíma sem það átti að vera tilbúið og það var óreiða á bókhaldinu. Allar tekjur hafi verið taldar fram en það vanti gögn um það sem þau hafi greitt. Auk ársins 2009 vanti einnig gögn vegna 2010. Einungis sé ákært fyrir eina árið þegar reksturinn var þokkalegur. Ef hann hefði fengið að klára allt dæmið þá ætti hann inni virðisauka. Ákærði sagði að í samantekt endurskoðanda vegna virðisaukaskatts 2008 til 2010 komi fram að það vanti reikninga á móti. Það vanti gögn vegna kostnaðar upp á þrjár milljónir króna, hann sé meiri en komi fram í bókhaldinu. Greiðslur til X vegna þeirra reikninga sem nú hafi verið lagðir fram hafi ekki verið inni í þessum tölum.

          Ákærði sagði að eftir skýrslutökuna 16. september 2016 hafi ekkert verið haft samband við hann af hálfu rannsakenda og viti hann ekki til þess að nein rannsókn hafi farið fram.

Vitnið A, endurskoðandi, sagði í framburði sínum við aðalmeðferð málsins að bókhald [...] ehf. hafi að mestu verið fært af starfsmanni félagsins en hann hafi gert upp. Þegar hann fékk gögnin til úrvinnslu, sem hafi verið árið 2012 eða 2013, hafi vantað svolítið upp á bókhaldið. Hann hafi fengið gögnin frá ákærða en eitthvað af þeim hafi verið haldlagt af skattstofunni, um tíma a.m.k. Vitninu er kynnt að ákæra málsins byggist á samanburði á niðurstöðu skattrannsóknarstjóra og bókhaldi [...] ehf. fyrir árin 2008-2010 og niðurstöðum úr ársskýrslum vegna sama tímabils. Staðfesti vitnið að þessi gögn stafi frá honum og hafi hann tekið þetta saman og unnið framangreindan samanburð. Vitnið staðfesti að þær tölur sem ákæra byggist á séu í samræmi við framangreinda niðurstöðu hans. Vitnið sagði að síðan hann vann þetta skjal væri hann búinn að vinna meira í málinu. Hann kvaðst hafa vitað að það hafi vantað fullt af reikningum, kostnaðarnótur. Hann kvaðst kannast við að það hafi vantað reikninga frá X. Samkvæmt bankayfirliti [...] ehf. fóru greiðslur til þess aðila en það hafi vantað reikninga og því hafi ekki sést hvað var greitt fyrir.

Kynnt var fyrir vitninu að á framangreindu skjali, þar sem fram kemur samanburður á niðurstöðum skattrannsóknarstjóra og bókhaldi [...] ehf., komi fram að hagnaður ársins 2009 hafi verið 23.322.290 krónur. Einnig komi fram á skjalinu að fjárhæðir bókhalds séu samkvæmt bráðabirgðatölum rekstrar en eftir sé að gera grein fyrir á annan tug bankagreiðslna sem líklegast eru viðbótargjöld, um þrjár milljónir. Vitnið var spurt hvort það teldi að þessi hagnaður væri réttur ef allir reikningar lægju fyrir og ítrekaði vitnið þá að það vantaði frekari reikninga, t.d. þessar verktakagreiðslur og þar munaði mest um árið 2009. Almennt geti hann sagt að það hafi vantað fullt af reikningum þarna inn. [...] ehf. hafi staðið í endurbótum á gistihúsnæði og það hafi vantað svolítið upp á að tilgreina innskatt til frádráttar en vitnið kvaðst ekki geta sagt til um það hvort það mundi dekka þessar tölur. Þá sagði vitnið að eitthvað hafi dregist hjá honum að vinna fyrir [...] ehf. þar sem oft hafi dregist að hann fengi greiðslur frá félaginu. Þá sagði vitnið að í samantekt virðisaukaskatts 2008-2010 sé hann vegna ársins 2009 greinilega að áætla óinnheimtan virðisaukaskatt en þar hafi m.a. X staðið út af. Þá sagði vitnið að eflaust ætti eitthvað af reikningum eftir að dúkka upp vegna ársins 2009 en stóra málið væri 2010 og því hafi verið tekin saman sérstök sundurliðun vegna þess.

            Vitnið sagði starfsmann skattrannsóknarstjóra hafa talað um að klára þetta og vera ekki að hanga á því að það vantaði einhverja reikninga ef það kæmi skýrt fram á bankayfirlitum að þetta væri sá aðili sem um ræðir sem hafi fengið greiðsluna. Það hafi hins vegar ekki getað gilt fyrir alla reikninga heldur varð að skoða hvers eðlis viðskiptin væru en það hafi að mestu átt við um þær greiðslur sem hann sá á bankayfirlitunum. Það hafi alltaf staðið vilji til þess af hálfu [...] ehf. að skila framtölum en það dróst að fá upplýsingar og gögn sem skiptu máli. Svo hafi þeir verið að fá eilífa fresti hjá skattrannsóknarstjóra.

            Vitnið C, fyrirsvarsmaður X, kvaðst kannast við þá reikninga frá X sem lagðir hafa verið fram í málinu og kannast við að hafa sjálfur gefið þá út vegna vinnu fyrir [...] ehf. Hans vinna hafi falist í því að endurbyggja hús, líklega 2009 eða 2010. Hann hafi fengið greitt fyrir vinnuna inn á sinn reikning. Vitnið sagði reikningana hafa verið gefna út á þeim tíma sem þeir eru dagsettir á og kvaðst hann halda að hann hafi fengið greitt árið 2009 vegna þeirra en sagði síðan að hann hefði fengið greitt árið 2010 vegna reikninga frá 2009 þar sem ákærði hafi verið lélegur „borgandi“. Hann hafi ekki fengið fyrirframgreidd laun og hafi alltaf verið í erfiðleikum með að fá greitt. Hann hafi lokað virðisaukaskattsnúmeri sínu eftir hrunið en muni ekki hvenær.

 

IV

Niðurstaða.

Brot þau sem ákærði er hér ákærður fyrir eru samkvæmt ákæru framin í starfsemi einkahlutafélagsins [...] ehf. á árunum 2008 til 2010. Ákærði neitar sök hvað varðar alla þrjá ákæruliðina. Byggir hann vörn sína á því að kostnaður félagsins hafi verið meiri en byggt er á í ákæru og meiri en þau gögn sem þegar hafi verið lögð fram bendi til. Þessu til stuðnings bendir ákærði á framburð A endurskoðanda og þau gögn sem lögð hafa verið fram í málinu og stafa frá A. Byggir ákærði á því að væru öll gögn til staðar ættu þær fjárhæðir sem ákært er fyrir í fyrsta og öðrum ákærulið að vera á núlli. Varakrafa ákærða byggist á því að um lægri fjárhæðir sé a.m.k. að ræða. Þá byggir ákærði á því að engin rannsókn hafi farið fram vegna málsins frá því fyrri ákæran var afturkölluð þar til ný var gefin út og hafi því af hálfu ákæruvalds ekki verið sinnt þeirri skyldu sem á því hvílir að rannsaka jafnt það sem horfir til sektar og sýknu ákærða. Ekki hafi m.a. verið reynt að rannsaka hvort kostnaður hafi verið meiri eins og ákærði heldur fram. Þá telur ákærði að fjárhæðir samkvæmt ákæru séu óljósar og því beri að sýkna hann. Loks komi fram í málsgögnum að félagið eigi inneign vegna tekjuskatts vegna ársins 2010 að fjárhæð um ein og hálf milljón króna. Þessa fjárhæð beri að draga frá skuld vegna ársins 2009 þannig að hún falli niður.

Ákærði var stjórnarmaður, framkvæmdastjóri félagsins og prókúruhafi á þeim tíma sem ákæra tekur til. Staðfesti ákærði þetta í framburði sínum fyrir dómi auk þess sem ráða má það af framlögðum gögnum, m.a. vottorði hlutafélagaskrár. Sem stjórnarmanni og framkvæmdastjóra félagsins hvíldi sú skylda á ákærða að skila skattsskýrslum og standa skil á sköttum, sbr. 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög.

Ákæra málsins byggist á ársreikningum félagsins og bókhaldi og er þar um að ræða gögn sem unnin voru af framangreindum endurskoðanda ákærða.

Í fyrsta ákærulið er ákærði ákærður fyrir að hafa ekki skilað virðisaukaskattsskýrslum [...] ehf. vegna uppgjörstímabilanna janúar-febrúar rekstrarárið 2008 til og með nóvember-desember 2010 og að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti vegna áranna 2008 til 2009, samtals að fjárhæð 4.204.924 krónur. Í skýrslu sinni fyrir dómi viðurkenndi ákærði að hafa ekki staðið skil á skýrslunum framangreind tímabil á lögmæltum tíma eins og hann er ákærður fyrir. Jafnframt verður af gögnum málsins ráðið að ekki var skilað virðisaukaskattsskýrslum vegna félagsins nefnd tímabil. Þó að ákærði hafi falið öðrum færslu bókhalds og gerð skattframtala leysir það hann ekki undan ábyrgð á skyldu til framtals og skattskilum.

Einu athugasemdirnar sem fram hafa komið af hálfu ákærða við þær tölur sem ákæra byggir á varða það að þær ættu að vera lægri vegna meiri kostnaðar og telur ákærði að frekari rannsókn hefði getað leitt það í ljós. Verður ekki fallist á það með ákærða að rannsókn málsins sé áfátt enda eiga að mestu við sömu gögn og lögð voru fram með eldri ákæru. Þá liggur fyrir að tekið var tillit til þeirra gagna sem ákærði lagði fram, sem voru m.a. frá endurskoðanda hans og ákæra málsins grundvallast á, og að m.a. var tekin skýrsla af ákærða á ný áður en ný ákæra var gefin út. Ákærði hefur frá upphafi rannsóknar málsins haft alla möguleika á að leggja fram og vísa til gagna varðandi rekstur félagsins. Í þeim efnum ber að hafa í huga skyldur hans samkvæmt viðeigandi lögum til að skila skýrslum, byggðum á réttum reikningum og gögnum.

Af gögnum endurskoðanda ákærða og framburði hans fyrir dómi má ráða að gögn hafi enn vantað varðandi kostnað þegar þær tölur voru teknar saman sem ákæran byggist á, eins og ákærði hefur haldið fram. Þá staðfesti endurskoðandinn í skýrslu sinni fyrir dómi að X hefði fengið greiðslur frá félaginu en reikninga hafi vantað á móti. Þeir reikningar voru lagðir fram af ákærða í upphafi aðalmeðferðar málsins og staðfestu C, fyrirsvarsmaður X, og ákærði að C hefði unnið að endurbótum á húsnæði fyrir [...] ehf. á árinu 2009. Heildargreiðsla [...] ehf. vegna reikninga X er 4.903.239 krónur og byggir ákærði vörn sína á því að líta beri til þessara reikninga til lækkunar á ákærufjárhæð. Af hálfu ákæruvalds er á því byggt að reikningar X séu ekki í samræmi við lög og að um tilhæfulausa reikninga sé að ræða sem lagðir hafi verið fram í því skyni að draga úr alvarleika ákærunnar, þ.e. til lækkunar ákærufjárhæð. Er vísað m.a. til þess að ótrúverðugt sé að reikningarnir séu allir í númeraröð þrátt fyrir að X hafi unnið verkið yfir nokkurra mánaða tímabil, að heitið X sé notað á reikningnum þrátt fyrir að greiðslur eigi að renna inn á persónulegan reikning C, ekkert liggi fyrir um að innheimtum virðisaukaskatti samkvæmt reikningunum hafi verið skilað og að röng virðisaukaskattsprósenta um 25,5% hafi verið notuð á þessum reikningum í stað 24,5%. Samkvæmt reikningunum var X rekin á kennitölu C og samkvæmt framlagðri útprentun frá skattrannsóknarstjóra var það virðisaukaskattsnúmer C sem fram kemur á reikningunum opið á árinu 2009 þegar reikningarnir voru gefnir út. Af yfirliti yfir bankareikning [...] ehf. má sjá að á árinu 2010 voru greiddar fjárhæðir af reikningi [...] ehf. inn á reikning C sem samsvara að mestu leyti fjárhæðum reikninganna. Í framburði ákærða og C kom einnig fram að dregist hafi að greiða reikningana. Á grundvelli framangreinds má ráða að félagið greiddi C þær fjárhæðir sem reikningarnir hljóða á um og verður ákærði ekki látinn bera hallann af því kunni að koma í ljós að misbrestur hafi verið á skattskilum eða reikningsgerð hjá C, sbr. 108. og 109. gr. laga nr. 88/2008. Af reikningum X má ráða að reiknaður virðisaukaskattur samkvæmt þeim hafi verið um 25,5%. Skattprósenta virðisaukaskatts var hins vegar 24,5% á árinu 2009 og bar félaginu því að greiða það hlutfall af fjárhæð reikninganna í virðisaukaskatt, eða 957.215 krónur. Þrátt fyrir að félagið hafi samkvæmt reikningum greitt hærri fjárhæð verður ekki hægt að líta til þeirrar fjárhæðar þegar umfang brots ákærða er metið með hliðsjón af fjárhæð vangoldins virðisaukaskatts. Þá byggir ákærði á því að kostnaður til lækkunar sé meiri en sem nemur reikningum X, en engin gögn hafa verið lögð fram því til staðfestingar og ekki hefur verið bent á ákveðin viðskipti í því samhengi. Kemur því ekki til skoðunar að byggja niðurstöðu málsins á því. Með vísan til framangreinds telur dómurinn að ákærði hafi ekki staðið skil á virðisaukaskatti sem nam samtals 3.247.709 krónum, á því tímabili sem tilgreint er í ákæru. Með því að skila ekki á lögmæltum tíma virðisaukaskattsskýrslum og virðisaukaskatti, sem bar að innheimta í starfsemi félagsins hefur ákærði gerst brotlegur við 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt með síðari breytingum. Brot gegn ákvæðinu var fullframið þegar skýrslum var ekki skilað á lögboðunum tíma og greiðsla ekki innt af hendi á réttum tíma.

Í öðrum ákærulið er ákærði ákærður fyrir að standa ekki skil á skattframtölum gjaldárin 2009, 2010 og 2011, og vantelja tekjuskattsstofn að fjárhæð 23.322.290 krónur fyrir rekstrarárið 2009, og hafa þannig vangreitt tekjuskatt sem nemur 1.337.978 krónum vegna þess árs. Ákærði byggir sýknukröfu sína hvað þennan ákærulið varðar á sömu forsendum og hvað varðar fyrsta ákærulið, að kostnaður félagsins hafi verið meiri og því beri a.m.k. að lækka fjárhæð vangoldins tekjuskatts.

Í framburði sínum fyrir dómi og í skýrslum sem ákærði gaf vegna rannsóknar málsins viðurkenndi hann að hafa ekki staðið skil á þeim skattframtölum [...] ehf. sem tilgreind eru í öðrum ákærulið, og að það hafi verið á hans ábyrgð sem framkvæmdastjóra að skila framtölunum. Þá má af málsgögnum ráða að framtölunum hafi ekki verið skilað á réttum tíma.

Við mat á umfangi brots ákærða verður að líta til þess að við útreikning valdgoldins tekjuskatts vegna ársins 2009 er ekki litið til kostnaðar vegna reikninga vegna X sem ákærði lagði fram við aðalmeðferð málsins. Þá bera þau gögn sem ákæruvald byggir málatilbúnað sinn á, þ.e. gögn frá endurskoðanda ákærða, með sér að um inneign sé að ræða vegna ársins 2010, og ákærði byggir á því að hann eigi að koma til móts við þann tekjuskatt sem sagður er vangoldinn í ákæru. Eins og ákært er í máli þessu telur dómurinn óhjákvæmilegt að líta til niðurstöðu endurskoðanda hvað árið 2010 varðar, þar sem ákæruvald byggir ákæruna á gögnum hans. Verður því að telja að með vísan til framangreinds og af framlögðum gögnum megi ráða að skynsamlegur vafi sé um það hver fjárhæð vangoldins tekjuskatts er. Samkvæmt 109. gr. laga nr. 88/2008 verður að túlka allan vafa ákærða í hag og verður því að telja ósannað að ákærði hafi með háttsemi sinni vanframtalið þá fjárhæð sem tilgreind er í ákæru og að ekki hafi verið sýnt fram á að um tiltekna lægri fjárhæð hafi verið að ræða. Verður ákærði því sýknaður af þeim þætti þessa ákæruliðar að hafa þannig vangreitt tekjuskatt sem nemur 1.337.978 krónum. Engu að síður verður ákærði sakfelldur hvað varðar þá háttsemi að hafa ekki staðið skil á skattframtölum félagsins og þannig ekki talið fram til skatts tekjuskattskyldar tekjur framangreind þrjú ár.

Þá byggir ákærði á því að ekki séu forsendur til að telja að um stórfellt brot sé að ræða samkvæmt fyrsta og öðrum ákærulið sem verði talin falla undir 1. og 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með vísan til umfangs brota ákærða, sem lét hjá líða að sinna lögboðunum skilum á skattframtölum, virðisaukaskattsskýrslum og skattgreiðslum á lögboðunum tíma vegna fyrirtækis sem var í rekstri, og með hliðsjón af fjárhæð vangoldins virðisaukaskatts og fordæmum Hæstaréttar er það mat dómsins að brot ákærða séu stórfelld og varði við 1. mgr. 262. gr. laga nr. 19/1940. Með vísan til framangreinds verður ákærði því sakfelldur fyrir brot þau sem lýst er í fyrsta og öðrum ákærulið á þann hátt sem áður hefur verið rakið og eru þau rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru utan þess að 2. mgr. 262. gr. laga nr. 19/1940 verður ekki talin eiga við um háttsemi hans.

Þrátt fyrir að neita sök hvað varðar þriðja ákærulið hefur ákærði engu að síður viðurkennt í framburði sínum við aðalmeðferð málsins háttsemi sem samræmist því sem hann er hér ákærður fyrir. Þá bera málsgögn með sér að ákærði hafi ekki fært bókhald með viðhlítandi hætti og að hann hafi látið undir höfuð leggjast að varðveita bókhaldsgögn og hefur meðferð málsins dregist nokkuð vegna tilrauna ákærða til að afla bókhaldsgagnanna. Ákærða bar samkvæmt stöðu sinni sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður félagsins að sjá um að bókhald félagsins væri fært í samræmi við lög og venjur og það varðveitt, sbr. 3. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994, og samkvæmt því telst slík vanræksla fyrirsvarsmanns lögaðila ætíð meiri háttar brot gegn lögum, sbr. 1. og 2. tölulið 1. mgr. 37., sbr. 36. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald, með síðari breytingum, og telst því brot ákærða samkvæmt þriðja ákærulið jafnframt varða við 2. mgr. 262. gr. laga nr. 19/1940. Verður ákærði því sakfelldur fyrir brot það sem lýst er í þriðja ákærulið og er það rétt heimfært til refsiákvæða í ákæru utan þess að 1. mgr. 262. gr. laga nr. 19/1940 verður ekki talin eiga við um háttsemi hans.

Ákærði Haukur er fæddur árið [...]. Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur hann fjórum sinnum verið dæmdur til refsingar. Það sem hér skiptir máli er að hann var með dómi héraðsdóms 16. júlí 2013 dæmdur í tveggja mánaða fangelsi skilorðsbundið í tvö ár vegna brota gegn 233. gr. laga nr. 19/1940, siglingalögum nr. 34/1985, lögum nr. 47/2003 um eftirlit með skipum og lögum nr. 30/2007 um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa. Þá var hann með dómi héraðsdóms 24. september 2013 dæmdur til greiðslu sektar og sviptur ökurétti vegna brota gegn umferðarlögum. Loks var ákærði með dómi héraðsdóms 15. júlí 2016 dæmdur til greiðslu sektar vegna brots gegn lögum um lögskráningu sjómanna, lögum um stjórn fiskveiða og reglugerð nr. 662/2013 um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 2013/2014. Með dómnum var ákærði talinn hafa rofið skilorð dóms frá 16. júlí 2016 en refsing var ekki dæmd upp. Brot þau sem ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir voru framin á árunum 2008 til 2010 og teljast þau því vera hegningarauki, sbr. 78. gr. laga nr. 19/1940, vegna framangreindra þriggja dóma.

Með hliðsjón af þeirri háttsemi sem ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir og með vísan til 77. og 78. gr. laga nr. 19/1940 þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í fjóra mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að tveimur árum liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. sömu laga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Brot ákærða eru stórfelld og þykir ekki fært að miða við fésektarlágmark samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 heldur verður miðað við þrefalda fjárhæð vanskila. Samkvæmt því verður ákærði dæmdur til að greiða 9.750.000 krónur í sekt til ríkissjóðs og komi fimm mánaða fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa.

Eftir úrslitum málsins, sbr. 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008, ber að dæma ákærða til greiðslu 2/3 hluta alls sakarkostnaðar, sem er samtals 1.391.510 krónur. Til hans teljast málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Braga Dórs Hafþórssonar hdl., sem eru hæfilega ákveðin 1.300.000 krónur og hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts, og útlagður kostnaður verjandans, 91.510 krónur.

Vegna anna dómara hefur uppkvaðning dómsins dregist fram yfir frest samkvæmt 1. mgr. 184. gr. laga 88/2008. Af hálfu dómara og málflytjenda var ekki talin þörf á að málið yrði flutt að nýju.

Af hálfu ákæruvalds flutti mál þetta Matthea Oddsdóttir saksóknarfulltrúi.

Dóm þennan kveður upp Sigríður Elsa Kjartansdóttir dómstjóri.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Haukur Vagnsson, sæti fangelsi í fjóra mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að tveimur árum liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði 9.750.000 krónur í sekt til ríkissjóðs og komi fimm mánaða fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa.

Ákærði greiði 2/3 hluta alls sakarkostnaðar málsins, 1.391.510 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Braga Dórs Hafþórssonar hdl., 1.300.000 krónur, og útlagðan kostnað verjandans, 91.510 krónur.

 

Sigríður Elsa Kjartansdóttir