• Lykilorð:
  • Fangelsi
  • Umferðarlagabrot

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Vestfjarða 1. október 2018 í máli nr. S-1/2018:

Ákæruvaldið

(Bryndís Ósk Jónsdóttir fulltrúi)

gegn

Reyni Björgvinssyni

(Halldór Hrannar Halldórsson hdl.)

 

I

Mál þetta, sem dómtekið var 10. september 2018, höfðaði lögreglustjórinn á Vestfjörðum með ákæru útgefinni 8. janúar 2018 á hendur

 

„Reyni Björgvinssyni, [...], [...], fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa mánudaginn 7. ágúst 2017, ekið bifreiðinni [...], suður Steingrímsfjarðarheiði (Djúpvegur nr. 61), ófær um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóðsýni mældist 320 ng/ml af [...] og 4,8 ng/ml af tetrahýdrókannabínól), allt þar til bifreiðin fór út af veginum.

 

Telst þetta varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a, sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. síðari breytingar.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. síðari breytingar, og greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

II

Mál þetta var þingfest 7. febrúar 2018. Ákærði mætti ekki við þingfestingu málsins þrátt fyrir lögmæta birtingu ákæru og fyrirkalls. Var málið því dómtekið samkvæmt heimild 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og kveðinn upp dómur 9. febrúar sama ár, þar sem ákærði var dæmdur til 30 daga fangelsisvistar, auk þess sem ákærði var sviptur ökurétti ævilangt frá birtingu dómsins að telja, auk greiðslu 37.629 króna í sakarkostnað.

Með beiðni dagsettri 22. maí 2018 fór Halldór Hrannar Halldórsson lögmaður þess á leit, fyrir hönd ákærða, að málið yrði endurupptekið, með vísan til heimildar 1. mgr. 187. gr. laga um meðferð sakamála. Var til þess vísað að dómurinn hefði ekki verið birtur fyrir dómfellda fyrr en 11. maí 2018 og því væri beiðni um endurupptöku komin fram innan áskilins frests.

            Ákæruvaldið hélt ekki uppi andmælum við kröfu um endurupptöku málsins og var mál ákærða endurupptekið þann 7. júní sl. Að kröfu ákæranda var ákvörðun dómsins um réttaráhrif ökuleyfissviptingar ákærða látin standa óhögguð. 

 

Kröfur ákærða:

     Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvalds samkvæmt ákæru útgefinni 8. janúar 2018, en til vara vægustu refsingar sem lög heimila. Þá krefst ákærði þess að sakarkostnaður verði lagður á ríkissjóð, þar með talin þóknun skipaðs verjanda ákærða.

 

III

Samkvæmt frumskýrslu lögreglu barst tilkynning frá Fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra um umferðarslys á Steingrímsfjarðarheiði kl. 12:59, 7. ágúst 2017, þar sem einn aðili hefði kastast út úr bifreið sem hefði oltið út fyrir veg. Lögreglumaður frá Hólmavík fór á vettvang auk þess sem tveir lögreglumenn, sem staddir voru við Reykjanes, komu á staðinn. Þegar lögregla kom á vettvang var brak úr bifreið fyrir utan veg og fólk á veginum, þar á meðal ákærði, samferðamaður hans og fólk úr öðrum bíl, sem hafði átt aðild að slysinu. Ákærði og samferðamaður hans báru merki um meiðsli eftir áreksturinn.

Í skýrslunni sagði enn fremur að ákærði hefði verið í ójafnvægi. Ákærði hefði sagst þurfa að finna lyf sem hefðu verið í bifreið hans. [...], sem hann tæki að læknisráði. Ákærði hefði rokið að bílflakinu og ekki verið fáanlegur til að leyfa lögreglumönnum að aðstoða sig við leitina. 

Ákærði og samferðamaður hans voru fluttir með þyrlu á sjúkrahús í Reykjavík, eftir skoðun læknis á staðnum. Þá var þess óskað að blóðsýni yrði tekið úr ákærða þegar komið væri á slysadeild í Reykjavík.

Ákærða var dregið blóð til rannsóknar kl. 15:40 þann 7. ágúst, þegar komið var með hann á sjúkrahús í Reykjavík.

Í bréfi Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði 5. september 2017 segir að í blóðsýni ákærða hafi mælst 320 ng/ml [...] og 4,8 ng/ml tetrahýdrókannabínóls. Samkvæmt vottorði heimilislæknis ákærða skyldi ákærði taka   [...] daglega. Af því tilefni óskaði lögregla frekari upplýsinga frá Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði um læknisfræðilegan styrk [...] í blóði. Samkvæmt svarbréfi Rannsóknastofunnar við því erindi frá 14. september 2017 hefur slíkum styrk verið lýst á bilinu 30-150 ng/ml. Í þessu tilviki hefði ökumaður greinst með 320 ng/ml [...] í blóði, sem teldist langt yfir læknisfræðilegum styrk og benti til misnotkunar.

Þá liggur fyrir í málinu læknisvottorð E sérfræðilæknis. Þar kemur fram að ákærði hafi verið hjá lækninum fyrir nokkrum árum vegna [...], en ekki komið nýlega til læknisins. Ákærði sé með talsvert [...], [...]. Í vottorðinu segir enn fremur að ákærði hafi fengið ávísað [...] í lækningalegum tilgangi vegna [...]. Það [...] skiljist að miklu leyti út um nýru og því megi reikna með að helmingunartími þess sé lengri og blóðstyrkur hærri þegar [...]. Þá segir og í vottorðinu að cannabinoidar skiljist einnig út um nýru að hluta til og því megi reikna með að þeir skiljist hægar út við [...].

Í málinu nýtur einnig yfirlits yfir lyfjakaup ákærða á tímabilinu frá 1. janúar til 12. september 2017. Þá liggur einnig fyrir myndband af akstri bifreiðar, sem samkvæmt meðfylgjandi bréfi var afhent lögreglu af Sjóvá tryggingarfélagi. Af myndbandinu verður ekki ráðið hvenær upptakan var gerð, þar sem dagsetning upptökunnar er 1.1.2014. Þá sést hvorki né heyrist til ökumanns eða farþega og myndbandið sýnir ekki slysatilvikið er málið varðar.

 

III

Ákærði neitar sök. Fyrir dómi lýsti ákærði atvikum með þeim hætti að hann hefði verið að aka Steingrímsfjarðarheiði um kl. 13:00 þegar ekið hafi verið á bifreið hans svo að hún hafnaði utan vegar. Kvaðst ákærði hafa séð hina bifreiðina um tuttugu mínútum fyrr, við brú en ekki síðan. Ákærði taldi aksturslag sitt hafa verið gott, en mundi lítið eftir samskiptum við lögreglu á vettvangi. Hann hafi þó verið „útúrreiður“, aleiga hans verið úti um allt. Hann hefði viljað finna lyfin sín, sem hann hefði þurft á að halda til að ná sér niður eftir þetta slys. Kvaðst ákærði hafa tekið tvær töflur af [...] í sjúkrabíl á staðnum og tvær til viðbótar í þyrlunni á leiðinni til Reykjavíkur. Þá kvaðst hann hafa tekið tvær töflur um kl. 7 um morguninn, áður en hann ók af stað um hádegi.

Aðspurður um niðurstöðu úr blóðsýni sem tekið var úr ákærða eftir slysið kvað ákærði niðurstöðu þess hvað [...] varðaði vera vegna þess að hann tæki það sem lyf. Hvað kannabisefnið varðaði hefði hann fengið sér jónu kvöldið áður, þar sem þeir félagar hefðu lagt bifreiðinni fyrir nóttina. Ákærði kvaðst reyna að reykja ekki mikið, vera innan marka, og hann hefði haldið að það myndi ekki mælast í sér eftir þennan tíma. Ákærði kvaðst ekki finna til áhrifa frá kannabisefnum eftir tvo og hálfan tíma frá neyslu, og sagði að hann væri ekki undir áhrifum fjórum til sex tímum eftir neyslu. Ákærði viðurkenndi að hann reykti jónur af og til, kannski þrisvar í mánuði. Það gerði hann við verkjum þar sem hann þyldi ekki verkjalyf [...]. Ákærði upplýsti að hann hefði verið mjög lengi [...] og því þyrfti hann töluvert magn til að það hefði áhrif á hann. Þá upplýsti ákærði af hvaða ástæðum honum hefur verið ávísað [...] af lækni.

Nánar aðspurður um neyslu sína á kannabisefni fyrir aksturinn í umrætt sinn kvaðst ákærði ekki hafa klárað jónuna kvöldið áður, þar sem til stóð að aka daginn eftir. Hann hefði svo lagt af stað um hádegi og ekki fundist hann vera undir áhrifum. Þá upplýsti ákærði að hann hefði þá um morguninn tekið lyf sín sem endranær að læknisráði, þar á meðal tvær töflur af [...], en svo lagt sig aftur fram til hádegis.

Hjónin C og D gáfu símaskýrslur við aðalmeðferð málsins og staðfestu það sem fram kemur í lögregluskýrslum, sem teknar voru af þeim vegna áreksturs bifreiðanna. Bæði kváðu þau aksturslag bifreiðar ákærða hafa verið reikult og einkennilegt, bifreiðin hefði ýmist verið á hægri eða vinstri vegarkanti. Þá báru þau bæði að ákærði hefði verið mjög æstur á vettvangi.

H lögreglumaður kvaðst hafa komið á vettvang og hitt ákærða og samferðamann hans á veginum. Ákærði hefði verið ör. Engu tauti hefði verið við hann komið og hann ekki fylgt fyrirmælum lögreglu fyrr en [...] ákærða var komin í leitirnar. Ákærði hefði ekki viljað þiggja aðstoð við leitina, en framvísað [...] þar sem fram kom að ákærði [...].

I lögreglumaður kvaðst hafa komið að vettvangi slyssins. Þar hefði hún séð ákærða og fundist hegðun hans þannig að hann hefði mögulega verið undir áhrifum.

J lögreglumaður, sem einnig kom á vettvang slyssins, bar fyrir dómi að ákærði hefði þá verið mjög ör og æstur, legið hátt rómur og viljað fá [...] [...] sem væri sterkara en þau [...] sem hann fengi [...]. Ekki fyrr en ákærði hefði fundið [...] sína hefði hann verið til í að koma með lögreglu. Ákærði hefði virst undir áhrifum og því hefðu verið gerðar ráðstafanir til að tekið yrði blóðsýni af ákærða þegar hann kæmi á sjúkrahús. Lögreglumaðurinn kvaðst allan tímann hafa litið svo á að ákærði væri undir áhrifum.

B upplýsti dóminn um að hann og ákærði hefðu verið á ferðalagi frá [...] til [...]. Hann taldi að þeir hefðu verið við [...] um kvöldmatarleytið daginn fyrir slysið. Þurrkur bifreiðarinnar hefðu verið bilaðar og þeir félagar ákveðið að gista þar um nóttina. Aðspurður hvort hann hefði séð ákærða neyta fíkniefna, spurði vitnið á móti: „Ertu að meina þessa jónu?“ Kvaðst vitnið í framhaldi af því hafa séð ákærða reykja „einhverja sígarettu“ áður en þeir fóru að sofa. Þeir félagar hefðu svo sofið um nóttina. Ákærði hefði [...] snemma morguns daginn eftir og lagt sig aftur fram að hádegi, er þeir hefðu lagt í hann til [...]. Vitnið kvaðst ekki hafa séð ákærða neyta fíkniefna fyrir aksturinn. Aðspurður um það hvort hann teldi reykingar kannabisefnsins hafa haft áhrif á hæfni ákærða til að aka kvaðst vitnið ekki hafa merkt á ákærða að hann hefði verið undir áhrifum þess þegar að morgni ferðadags.

G, lyfjafræðingur og deildarstjóri Rannsóknastofu í lyfja og eiturefnafræði, staðfesti matsgerðir sínar í málinu. Hún upplýsti að rannsóknir sýndu að útskilnaður kannabisefna úr líkama væri hálfur sólarhringur eða innan við það, en það væri þó einstaklingsbundið, færi eftir magni þess sem neytt væri og neyslumynstri. Einstakur skammtur notanda, sem ekki væri neytandi, ætti að skiljast út á 12 tímum. Hún upplýsti þó að það tíðkaðist ekki að reikna áhrif annarra efna en áfengis til baka í tíma, það væri ekki hægt. Aðspurð staðfesti hún að ef efni mældust í blóði einstaklings þá væri viðkomandi undir áhrifum efnisins. 

F heimilislæknir staðfesti vottorð sem frá honum stafar í málinu og skýrði frá því hvernig notkun ákærða á [...], hefur verið og vegna hvers það er gefið. Kvað hann ákærða hafa tekið það að fengnu sérstöku leyfi frá árinu 2000, og sennilega lengur. Efninu væri ætlað að [...].

E, sérfræðingur í lyflækningum og nýrnasjúkdómum, staðfesti vottorð sitt í málinu. Hann upplýsti að ákærði hefði komið til sín fyrir mörgum árum [...]. Síðast hefði hann heyrt frá ákærða eftir slysið, þá hefði [...]. Niðurstaða þeirrar mælingar hefði sýnt að [...]. Það kynni að vera bráð versnun í kjölfar slyssins. Hann kvað ákærða [...]. Læknirinn upplýsti að fíkniefni sem skildust út um nýru héldust lengur í blóði þeirra sem [...], þ.e. mældust hátt og áhrif þeirra vöruðu lengur af hverjum skammti. Upplýsti læknirinn að [...] skildist út um nýru og það mætti ætla að [...] væri helmingunartími efnisins lengri hjá ákærða, efnið væri því lengur í líkama ákærða og áhrif af hverjum skammti þess myndu vara lengur en ef hann [...]. Aðspurður um kannabisefni kvað vitnið það um talað að þau skildust út um nýru að hluta til en kvaðst ekki þekkja það nægilega vel.

 

IV

Ákærða er gefið að sök umferðarlagabrot, með því að hafa ekið bifreiðinni [...] suður Steingrímsfjarðarheiði, mánudaginn 7. ágúst 2017, undir áhrifum ávana- og fíkniefna, þar til bifreiðin fór út af veginum.

Ákærði hefur viðurkennt að hafa ekið bifreiðinni í umrætt sinn og sömuleiðis að hafa að kvöldi sunnudagsins 6. ágúst 2017 reykt kannabisefni. Þá hefur ákærði sömuleiðis viðurkennt að hafa neytt [...] áður en hann lagði í aksturinn, en það hafi hann gert að læknisráði [...]. Ákærði upplýsti að hann hefði verið mjög lengi [...] og þyrfti því töluvert af efninu til að það hefði áhrif á hann. Ákærði hefur hins vegar borið því við að hann hafi talið sér óhætt að aka, áhrif þeirra efna sem hann hafi neytt hafi verið liðin hjá. Er framburður ákærða í samræmi við skýrslu hans hjá lögreglu.

Samferðamaður ákærða, B, hefur sömuleiðis staðfest að ákærði hafi neytt kannabisefna að kvöldi 6. ágúst 2017.

Samkvæmt 1. mgr. 45. gr. a í umferðarlögum, sbr. 6. gr. laga nr. 66/2006, má enginn stjórna vélknúnu ökutæki ef hann er undir áhrifum ávana- og fíkniefna sem bönnuð eru á íslensku yfirráðasvæði samkvæmt lögum um ávana og fíkniefni og reglugerðum settum samkvæmt því.  Þá segir í 2. mgr. sama ákvæðis að mælist ávana- eða fíkniefni skv. 1. mgr. í blóði eða þvagi ökumanns teljist hann vera undir áhrifum ávana- og fíkniefna og óhæfur til að stjóra ökutæki örugglega.

Í málinu liggur fyrir skriflegt álit Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði vegna rannsóknar á blóðsýni sem tekið var úr ákærða á LHS, þangað sem hann var fluttur eftir umferðarslysið er batt enda á akstur hans þann 7. ágúst 2017. Samkvæmt því mældust 320 ng/ml af [...] í blóði ákærða síðdegis þann sama dag og 4,6 ng/ml af tetrahýdrókannabínóli.

Hvort tveggja þessara efna teljast til ávana- og fíkniefna skv. 6. gr. laga nr. 65/1974. Telst því sannað að ákærði hafi verið undir áhrifum þeirra efna er bifreið sem hann ók lenti utan vegar þann 7. ágúst 2017.

Ákærði hefur byggt á því að upp á saknæmi verknaðar hans skorti, hann hafi hvorki ekið undir áhrifum af ásetningi eða gáleysi í umrætt sinn. Að mati dómsins verður ekki á það fallist. Fyrir það fyrsta hefur ákærði viðurkennt fyrir dómi að hafa neytt kannabisefna af ásetningi, af og til, og sérstaklega kvöldið áður en þau atvik urðu er leiddu til rannsóknar á þessu máli. Þá má ákærða vera það kunnugt að kannabisefni eru ólögmæt, enda hefur hann ekki fengið þeim efnum ávísað af lækni, né keypt þau á almennum eða opnum markaði. Kom það enda skýrlega fram í framburði ákærða að hann væri þess meðvitaður að sú væri raunin og að akstur undir áhrifum kannabisefna væri ólögmætur, en ákærði kvaðst reyna að reykja ekki mikið, vera innan marka.

Ákærði hefur auk þess lagt áherslu á það í vörn sinni að sakir [...] skiljist ýmis efni hægar úr blóði hans og af þeim sökum mælist þau lengur í honum. Hefur það verið staðfest af læknum fyrir dómi, og að sakir þessa [...] sé ákærði lengur undir áhrifum lyfja og eiturefna en [...]. Að öllu þessu virtu er það niðurstaða dómsins að ákærði hafi sýnt af sér ásetning með háttsemi sinni og refsiskilyrðum sé því fullnægt. Með vísan til framangreinds telur dómurinn sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og brot hans þar réttilega heimfært til refsiákvæða.

V

Í gögnum málsins liggur fyrir að handhöfn og neysla ákærða á [...] var að læknisráði og samkvæmt lyfseðli. Verður ákærði því ekki beittur viðurlögum vegna þess, sbr. a-lið 7. mgr. 102. gr. ufl. nr. 50/1987. Hið sama á ekki við um neyslu ákærða á kannabisefni.

Ákærði er fæddur árið [...]. Samkvæmt sakavottorði hefur ákærði í tvígang áður ítrekað gerst brotlegur við 1., sbr. 2., mgr. 45. gr. a í umferðarlögum. Brot það sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir nú er því þriðja ítrekun ákærða á því ákvæði. Að því gættu þykir samkvæmt dómvenju refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga auk þess sem svipta ber hann ökurétti ævilangt.

Þá ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, sbr. 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008. Sakarkostnaður á rannsóknarstigi samkvæmt yfirliti lögreglu nemur 37.629 krónum. Auk þess greiði ákærði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Halldórs Hrannars Halldórssonar lögmanns, 1.205.280 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, auk útlagðs kostnaðar lögmannsins af ferðum samkvæmt reikningi, 72.438 krónur.

Dóm þennan kveður upp Bergþóra Ingólfsdóttir dómstjóri.

 

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Reynir Björgvinsson, sæti fangelsi í 30 daga.

Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt frá birtingu dóms þessa að telja.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Halldórs Hrannars Halldórssonar lögmanns, 1.205.280 krónur, auk útlagðs kostnaðar lögmannsins, 72.438 krónur, og 37.629 krónur í annan sakarkostnað.

 

Bergþóra Ingólfsdóttir