• Lykilorð:
  • Kynferðisbrot
  • Skilorð

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Vestfjarða 23. apríl í máli nr. S-5/2019:

Ákæruvaldið

(Katrín Hilmarsdóttir saksóknarfulltrú)

gegn:

Michael Antony Soden Smith

                                                (Kristján Óskar Ásvaldsson lögmaður)

 

 

Mál þetta, sem dómtekið var 17. apríl, s.l., höfðaði héraðssaksóknari með ákæru 28. mars 2019 á hendur ákærða  Michael Antony Soden Smith, kennitala 000000-0000, […][…], fyrir kynferðisbrot, með því að hafa laugardaginn 24. febrúar 2018, að […], smeygt farsíma sínum undir hurð að sturtu sem er í húsinu þar sem […], fædd […], var að baða sig og tekið tvær ljósmyndir af henni nakinni, en með þessari háttsemi sinni særði ákærði blygðunarsemi hennar.

 

Telst þetta varða við 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

II

 

Fyrirkall í máli þessu var gefið út 1. apríl 2019 og birt fyrir ákærða
þann sama dag. Við þingfestingu málsins 11. apríl s.l. sótti ákærði ekki þing en fyrir hans hönd sótti þing Kristján Óskar Ásvaldsson lögmaður og lagði fram umboð ákærða og var lögmaðurinn skipaður verjandi ákærða samkvæmt ósk hans þar um. Var málinu frestað til 17. apríl. Hvorki ákærði né verjandi hans mættu þá til fyrirtöku málsins og var málið þá, að kröfu sækjanda, dómtekið á grundvelli 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Samkvæmt framansögðu og með vísan til 1. mgr. 161. gr., sbr. 1. mgr. 155. gr. laga nr. 88/2008 verður dómur lagður á málið þrátt fyrir útivist ákærða þar sem framlögð gögn þykja nægileg til sakfellingar. Telst sannað að ákærði hafi gerst sekur um það brot sem honum er gefið að sök í ákæru og það þar réttilega heimfært til refsiákvæða.

 

III

Ákærði er fæddur árið […]. Samkvæmt vottorði sakaskrár hefur hann ekki áður sætt refsingu. Með vísan til þess og að virtu broti ákærða þykir refsing hans, sbr. 1., 2., 6., og 7., tl. 1. mgr. 70 gr. almennra hegningarlaga, hæfilega ákveðin fangelsi í tvo mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að tveimur árum liðnum frá dómsuppsögu haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði greiði allan sakarkostnað, sem er þóknun skipaðs verjanda ákærða, Kristjáns Óskars Ásvaldssonar lögmanns 256.544 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.

Bergþóra Ingólfsdóttir dómstjóri kveður upp dóminn.

 

D Ó M S O R Ð:

Ákærði Michael Antony Soden Smith, sæti fangelsi í tvo mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að tveimur árum liðnum frá dómsuppsögu haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði samtals 256.544 krónur í sakarkostnað sem er þóknun skipaðs verjanda hans Kristjáns Óskars Ásvaldssonar lögmanns, að meðtöldum virðisaukaskatti.

Bergþóra Ingólfsdóttir