• Lykilorð:
  • Galli
  • Lausafjárkaup
  • Riftun
  • Skoðunarskylda
  • Sönnun
  • Sönnunarbyrði

D Ó M U R

Héraðsdóms Vestfjarða 4. apríl 2017 í máli nr. E-59/2016:

Jón Örn Arnarson

(Elín Árnadóttir hdl.)

gegn

Þórhalli B. Snædal

(Eva Dóra Kolbrúnardóttir hdl.)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 10. mars sl., er höfðað af Jóni Erni Arnarsyni, [...], [...], gegn Þórhalli B. Snædal, [...], [...], með stefnu birtri 15. október 2016.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.700.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. október 2016 til greiðsludags, gegn því að fá afhenta bifreiðina Nissan Patrol með skráningarnúmerið [...]. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi.

Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda en til vara að stefnufjárhæð verði stórlega lækkuð. Þá krefst stefndi þess í báðum tilvikum að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi og að tekið verði tillit til þess að stefndi er ekki virðisaukaskattsskyldur.

 

Málsatvik

Stefnandi og stefndi gerðu með sér samning 28. apríl 2016 um skipti á bifreiðum. Stefnandi seldi stefnda bifreiðina [...] af gerðinni Land Rover Defender, árgerð 2004, og stefndi seldi stefnanda bifreiðina [...] af gerðinni Nissan Patrol, árgerð 1999. Kaupverð beggja bifreiðanna var 1.700.000 krónur og fóru því ekki peningagreiðslur á milli aðila og fór afhending bifreiðanna strax fram.

Í kaupsamningi vegna bifreiðarinnar [...] segir m.a.:

Ástandslýsing seljanda: Mjög gott ástand.

Athugasemdir aðila: Nei.

Seljandi hefur vakið athygli kaupanda á þeim rétti sínum að láta óháðan aðila meta ástand ökutækis, sem staðfestist hér með: Já.

Þá segir í samningnum: Ökutæki selst í núverandi ástandi sem kaupandi hefur kynnt sér og sættir sig við.

            Fyrir liggur að hraðamælir og snúningshraðamælir voru bilaðir þegar kaupin áttu sér stað og að stefndi greiddi kostnað vegna viðgerðar á mælunum, auk viðgerðar á pústkerfi. Þá liggur fyrir að stefndi hafi við kaupin fullyrt að bifreiðin væri í ágætu ástandi og að bifreiðin var ekki söluskoðuð fyrir kaupin en að öðru leyti greinir aðila á um málsatvik. Stefnandi lýsir atvikum svo í stefnu að stefndi hafi haft bifreiðina [...] til skoðunar frá 22. apríl og þar til samningur komst á en hann hafi ekki haft bifreið stefnda [...] til skoðunar með sama hætti. Stefndi hafi fullyrt við stefnanda að eitthvað þyrfti að lagafæra og að stefndi mundi sjá um það. Fljótlega hafi komið í ljós að bifreiðin var haldin verulegum göllum. Stefnandi hafi gert stefnda viðvart um það og fór að frumkvæði stefnda með bifreiðina á verkstæði þar sem stefndi starfaði og þar var gert við bifreiðina. Viðgerðin reyndist með öllu ófullnægjandi og hafi hann gert stefnda viðvart um það. Var þá farið með bifreiðina á verkstæði í Reykjavík 13. maí 2016 og þar gert við púst og hraðamæli. Í kjölfarið var bifreiðin ástandsskoðuð og gefin út um það skoðunarskýrsla, dagsett 2. júní 2016. Síðan þá hafi bifreiðin verið óökufær og hafi hún ekki verið hreyfð.

Stefndi lýsir málsatvikum í greinargerð svo að í júní, þegar stefnandi vildi láta gera við bifreiðina, hafi stefnandi verið búinn að aka henni um 3.000 kílómetra en þegar eigandaskipti voru tilkynnt hafi hann verið búinn að aka bifreiðinni um 500 kílómetra. Þegar salan fór fram hafi stefndi verið búinn að eiga bifreiðina frá því í febrúar 2016 en hann keypti hana þá fyrir 1.790.000 krónur og var slegið af verðinu þar sem hraðamælir var bilaður. Síðan þá hafi stefndi látið laga og betrumbæta bifreiðina en hún hafði varla verið hreyfð frá 15. febrúar 2016. Frumkvæði að viðskiptunum hafi komið frá stefnanda sem hafi gengið talsvert hart að stefnda að skipta á bifreiðum.

Meðal framlagðra skjala er tölvupóstur stefnanda til stefnda, dagsettur 27. júní 2016, en þar segir:

Þar sem staðfesting hefur fengist frá mörgum óvilhöllum aðilum á að bifreið sú sem þú seldir mér, bifreiðin Nissan Patrol GR með númerið [...], standist engan vegin[n] fullyrðingar þínar í kaupsamningi um „MJÖG GOTT ÁSTAND“, endurtek ég boð mitt um tvo kosti:

Kaupin (bifreiðaskiptin) gangi til baka. Þú skilar [...] og ég afhendi þér [...] til baka.

Greidd verði bifreiðin [...] eins og getið er um í kaupsamningi og ég afhendi þér [...] til baka.

Þá liggur fyrir tölvupóstur stefnda, dagsettur 29. júní 2016, þar sem hann mótmælti riftuninni.

Einnig liggur fyrir bréf lögmanns stefnanda, dagsett 15. september 2016, þar sem lýst var yfir riftun vegna skiptanna og þess krafist að þau gangi til baka en til vara að stefndi greiði stefnanda kaupverðið, 1.700.000 krónur. Riftunina byggi stefnandi á því að bifreiðin hafi verið haldin verulegum göllum í skilningi 17., sbr. 25., gr. laga nr. 50/2000 sem stefnandi beri ekki ábyrgð á. Við mat á gallanum sé miðað við það tímamark þegar áhættan af söluhlut flyst yfir til kaupanda, jafnvel þótt gallinn komi ekki fram fyrr en síðar, sbr. 21. gr. sömu laga.

Þá liggur fyrir tölvupóstur stefnda, dagsettur 16. september 2016, þar sem báðum framangreindum kostum var hafnað, og yfirlit yfir feril bifreiðarinnar [...] í ökutækjaskrá Samgöngustofu þar sem fram kemur að bifreiðin var skoðuð 28. janúar 2016. Þar kemur fram að athugasemd hafi verið gerð við númersljós og að staða ökumælis hafi þá verið 295.577 kílómetrar.

Meðal framlagðra gagna er ástandsskoðunarskýrsla X sem dagsett er 2. júní 2016. Þar kemur fram að skoðunarmaður hafi verið B og eru þar rakin neðangreind 24 atriði sem skoðun bifreiðarinnar leiddi í ljós. Einnig kemur þar fram að kílómetrastaða bifreiðarinnar hafi, þegar skoðunin var framkvæmd, verið 295.576 kílómetrar.

1.      Framlás virkar ekki.

2.      Afturlás virkar ekki

3.      Bilun í ABS kerfi

4.      Framrúða brotin

5.      Hvinur frá Turbinu

6.      Hraðamælir virkar ekki

7.      Snúningshraðamælir virkar ekki

8.      Forðabúr fyrir kælivatn tómt vantar líka á vatnskassa!! verður að skoðast betur

9.      Liðhúspakkdós v/m framan lekur

10.  Leki á motor, með olíupönnu og jafnvel á fleiri stöðum

11.  Púst í sundur fyrir framan gírkassabita

12.  Ballansstangir framan og aftan ekki til staðar

13.  Bremsudiskar aftan orðnir ryðgaðir

14.  Búið að kítta í hjólskálar b/m aftan

15.  Ryðgat á síls h/m aftast

16.  Grind illa farin af ryði við olíutank v/m

17.  Leguhljóð í gírkassa, heyrist í 2. og 3. gír

18.  Ryðgöt í gólfi undir bílstjórasæti

19.  Raki í stöðuljósi v/m

20.  Þverbiti fyrir framan vatnskassa mikið ryðgaður, komin stór göt

21.  Slag í hjólalegu v/m framan

22.  Víbringur í stýri á 60 km/h

23.  Svampur í sætisáklæði v/m framan ónýtur

24.  Hurðstrekkjari í hægra gaflhurð laus

            Við aðalmeðferð málsins gáfu aðilaskýrslu stefnandi, Jón Örn Arnarson, og stefndi, Þórhallur B. Snædal. Þá gaf D, starfsmaður Y vitnaskýrslu.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir kröfu sína á því að bifreiðin [...] hafi verið haldin verulegum göllum sem kaupandi beri ekki ábyrgð á í skilningi 17., sbr. 25., gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Um sé að ræða verulega galla sem stefnda hafi verið eða hafi mátt vera kunnugt um. Stefndi hafi átt bifreiðina í langan tíma og hafi því ekki getað verið ókunnugt um þá miklu ágalla sem eru á ástandi bifreiðarinnar. Gallarnir hafi komið í ljós fljótlega eftir afhendingu bifreiðarinnar og hafi stefnandi lítið sem ekkert getað notað hana til aksturs. Þá séu ágallarnir þess eðlis að stefnandi gat ekki orðið þeirra var við venjulega skoðun. Stefnandi hafi átt að geta treyst því að lýsingar stefnda á bifreiðinni væru réttar og hún í mjög góðu ástandi.

Þá telur stefnandi að stefnda hafi ekki getað dulist þeir ágallar sem voru á bifreiðinni. Stefndi hafi fullyrt að bifreiðin væri í mjög góðu ástandi og taldi stefnandi því að ekki væri þörf á sérstakri ástandsskoðun þrátt fyrir aldur ökutækisins. Með því að fullyrða í kaupsamningi að bifreiðin væri í mjög góðu ástandi hafi stefndi tekið ábyrgð á því, með bindandi hætti, að svo væri. Stefnandi hafi óskað sérstaklega eftir því að fá bifreiðina til prufuaksturs en stefndi hafi hafnað því og lagt hart að honum að ljúka kaupunum. Stefndi hafi hins vegar ábyrgst að láta gera við þá ágalla sem kynnu að vera á bifreiðinni til þess að hún væri sannarlega í því ástandi sem stefndi ábyrgðist.

Stefnandi byggir á því að það verði ekki túlkað gegn honum að hafa ekki rannsakað söluhlutinn með fyllilegum hætti fyrir kaupin í skilningi 20. gr. laga nr. 50/2000. Bæði hafi hann haft gildar ástæður til þess að gera það ekki þar sem hann hafi mátt treysta ábyrgðaryfirlýsingu stefnda og megi, með tilliti til ábyrgðaryfirlýsingarinnar og raunverulegs ástands bifreiðarinnar, segja að stefndi hafi sýnt af sér vítavert gáleysi og framferði hans verið andstætt heiðarleika og góðri trú, sbr. 20. gr. laga nr. 50/2000.

Þá telur stefnandi engu skipta þótt gallanna hafi orðið vart eftir afhendingu bifreiðarinnar. Yfirlýsingar stefnda fyrir samningsgerðina og í kaupsamningnum sjálfum verði að meta sem sérstakar ábyrgðaryfirlýsingar af hálfu stefnda í skilningi 2. mgr. 21. gr. laga nr. 50/2000. Stefndi hafi þannig sérstaklega ábyrgst að hin selda bifreið væri í „mjög góðu“ ástandi. Verði því að líta svo á að stefndi beri alfarið ábyrgð á öllum þeim göllum sem sannarlega eru á hinni seldu bifreið.

Stefnandi segir að varakrafa sín, sem nú er orðin aðalkrafa, sé sú að stefnda verði gert að greiða stefnanda fjárhæð sem samsvarar umsömdu verðmæti þeirrar bifreiðar sem stefnandi lét af hendi, þar sem umsamið kaupverð bifreiðarinnar Land Rover Defender sé ógreitt, verði ekki fallist á að stefndi verði að skila framangreindri bifreið eða honum það ekki kleift af öðrum ástæðum. Krafan byggist á þeirri málsástæðu að stefnda verði gert að greiða stefnanda skaðabætur sem samsvara umsömdu kaupverði, sbr. 27. gr. laga nr. 50/2000. Stefnandi sé í þeirri stöðu að hafa látið af hendi bifreið sem samsvarar að fullu því verðmæti sem samið var um án þess að hafa fengið í hendur neina greiðslu fyrir.

Hvað varðar lagarök þá byggir stefnandi mál sitt á meginreglum laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, einkum IV. kafla um eiginleika söluhlutar, galla, o.fl. og kröfu um riftun á 37. og 39. gr. Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi hafnar því að bifreiðin [...] hafi verið haldin verulegum galla sem honum hafi verið eða mátt vera kunnugt um, sem hann beri ábyrgð á, og hafnar því að bifreiðin hafi verið gölluð í skilningi 17., sbr. 25., gr. laga nr. 50/2000. Algerlega sé ósannað að bifreiðin hafi verið haldin galla frá upphafi og þá séu fullyrðingar stefnanda um hið meinta tjón ósannaðar. Þá hafnar stefndi því að hann hafi gefið sérstaka ábyrgðaryfirlýsingu í skilningi 2. mgr. 21. gr. laga nr. 50/2000.

Einnig hafnar stefndi sem rangri þeirri fullyrðingu stefnanda að honum hafi ekki getað verið ókunnugt um gallana þar sem hann hafi átt bifreiðina í langan tíma en hann hafi einungis verið búinn að eiga bifreiðina í um þrjá mánuði og hafi ekið henni u.þ.b. 400-600 kílómetra. Stefndi vísar til þess að stefnandi byggi á því að hinir meintu gallar hafi komið í ljós fljótlega eftir afhendingu bifreiðarinnar en sú fullyrðing sé röng. Stefndi hafi ekki heyrt stefnanda minnast á neinar bilanir í bifreiðinni fyrr en um tveimur mánuðum eftir afhendingu. Þá hafi stefnandi verið búinn að aka bifreiðinni a.m.k. 3.000 kílómetra auk þess að hafa prufuekið henni í nokkra daga fyrir kaupin. Hafi meintir gallar komið í ljós strax eftir afhendingu hefði stefnandi eðli máls samkvæmt átt að tilkynna stefnda það án ástæðulauss dráttar en það hafi hann ekki gert. Þá hafnar stefndi þeirri fullyrðingu stefnanda að hann hafi lítið sem ekkert getað ekið bifreiðinni sem rangri og ósannaðri. Stefnandi hafi m.a. ekið bifreiðinni í nokkur skipti frá Mjólkárvirkjun til Reykjavíkur og til baka.

Stefndi byggir á því að stefnandi hafi vanrækt skoðunarskyldu sína, sbr. 20. gr. laga nr. 50/2000. Skoðunar- og aðgæsluskylda kaupanda verði að teljast sérstaklega rík þegar viðskipti eiga sér stað með notaða hluti og hvað þá með 17 ára gamlar bifreiðar. Stefnandi hafi algerlega vanrækt þessa skyldu sína við kaupin. Hann hafi átt að gera sér grein fyrir því að notuðum bifreiðum fylgir ávallt eitthvert slit og þá sé notkun og meðferð fyrri eigenda misjöfn.

Stefndi hafnar því að meintir gallar á bifreiðinni hafi verið þess eðlis að stefnandi hafi ekki getað orðið þeirra var við venjulega skoðun. Stefnandi hafi verið búinn að prufukeyra bifreiðina í nokkur skipti fyrir kaupsamningsgerðina. Í stefnu haldi stefnandi því ranglega fram að hann hafi óskað sérstaklega eftir prufuakstri en stefndi neitað því.

Þá bendir stefndi á að stefnandi hafi einnig ekið bifreiðinni til Reykjavíkur, um 400 kílómetra leið, eftir afhendingu auk þess að aka um á henni í Reykjavík í nokkra daga áður en hann lagði inn eigandatilkynningu til Samgöngustofu. Stefnandi hafi því haft mikla möguleika til að grandskoða bifreiðina og var einnig beinlínis hvattur til þess af stefnda en kaus að gera það ekki. Byggir stefndi í þessu sambandi einnig á skorti á rannsókn kaupanda eftir afhendingu, þ.e. samkvæmt 31. gr. laga nr. 50/2000. Þá veki það athygli stefnda að stefnandi fór ekki með bifreiðina á verkstæði til að láta laga hraðamæli fyrr en um tveimur mánuðum eftir afhendingu.

Jafnframt byggir stefndi á því að stefnandi hafi verið hvattur til þess af stefnda við undirritun kaupsamnings að láta óháðan aðila skoða bifreiðina fyrir kaupin. Staðfesti stefnandi í kaupsamningi, með undirritun sinni, að honum hafi verið kynntur þessi réttur. Þrátt fyrir það kaus stefnandi að láta slíkt undir höfuð leggjast. Stefnandi réttlæti skort á skoðun sinni á bifreiðinni einnig með skírskotun til yfirlýsingar stefnda í kaupsamningi þess efnis að ástand bifreiðarinnar væri mjög gott og af þeim sökum hafi hann ekki þurft að skoða bifreiðina nánar. Þessu mótmæli stefndi og hafnar því að með þessu orðalagi hafi hann tekið á sig bindandi ábyrgð á öllum hugsanlegum göllum. Ennfremur hafni stefndi alfarið þeirri málsástæðu stefnanda að með tilliti til ábyrgðaryfirlýsingar hans og raunverulegs ástands bifreiðarinnar hafi hann sýnt af sér vítavert gáleysi og framferði hans verið andstætt heiðarleika og góðri trú í skilningi 2. mgr. 20. gr. laga nr. 50/2000. Stefndi vísar á bug öllum ásökunum stefnanda um að um einhvers konar svik hafi verið að ræða af hans hálfu og bendir á að sönnunarbyrðin um slíkt hvíli á stefnanda en ekkert sé fram komið því til sönnunar.

Þá hafni stefndi þeirri málstæðu stefnanda að byggja málatilbúnað sinn að miklu leyti á yfirlýsingu stefnda um mjög gott ástand bifreiðarinnar og að með henni hafi stefndi tekið á sig sérstaka samningsskuldbindingu. Um sé að ræða mjög almenna yfirlýsingu andstætt sérstakri yfirlýsingu þar sem einhverju er lofað. Yfirlýsinguna bar eðli máls samkvæmt að skoða að teknu tilliti til aldurs, útlits og aksturs bifreiðarinnar. Stefndi hafi átt við að ástand bifreiðarinnar væri almennt séð mjög gott miðað við aldur, notkun, slit, o.s.frv., enda hafi bifreiðin verið vel útlítandi. Yfirlýsingin hafi verið gefin eftir bestu vitund stefnda í góðri trú um ágæti bifreiðarinnar og eðli máls samkvæmt miðaðist hún við ástand bifreiðarinnar við skiptin. Ekki sé hægt að líta á slíka yfirlýsingu sem bindandi allsherjaryfirlýsingu um að stefndi beri í framtíðinni ábyrgð á hverju því sem geti verið að bifreiðinni. Hvað þá í ljósi þess að stefnandi hafði notað bifreiðina í nokkra mánuði og hafði ekið henni a.m.k. 3.000 kílómetra vegalengd. Þá verði að líta til þess að umrædd bifreið var 17 ára gömul á kaupsamningsdegi og er stefnandi 13. eigandi hennar. Þá sé í samningi aðila ákvæði þar sem kveðið er á um að ökutækið seljist í núverandi ástandi sem kaupandi hafi kynnt sér og sætt sig við.

Stefndi hafnar þeirri málsástæðu stefnanda að engu skipti þótt meintra galla hafi orðið vart eftir afhendingu þar sem yfirlýsingu stefnda verði að meta sem sérstaka ábyrgðaryfirlýsingu í skilningi 2. mgr. 21. gr. laga nr. 50/2000. Einnig hafnar stefndi því að með því hafi hann ábyrgst sérstaklega að bifreiðin væri í mjög góðu ástandi og verði af þeim sökum að líta svo á að stefndi beri alfarið ábyrgð á öllum þeim göllum sem sannarlega séu á bifreiðinni. Yfirlýsinguna sé ekki hægt að túlka með svo víðtækum hætti. Stefndi telur að allir þeir gallar sem stefnandi telur að séu á bifreiðinni séu í raun ósannaðir þrátt fyrir skýrslu X þar sem nefnd eru 24 atriði. Þegar skýrslan var gerð hafði bifreiðinni verið ekið í rúman mánuð og tengja megi flest þessara atriða við almenna notkun og slit á bifreiðinni. Fullyrðing um að bifreiðin hafi þá verið nánast ónýt sé röng og ósönnuð.

Stefndi byggir jafnframt á því að hann hafi að öllu leyti uppfyllt upplýsingaskyldu sína. Hann hafi gefið stefnanda allar þær upplýsingar sem hann hafði undir höndum en þá hafi hann einungis verið búinn að eiga bifreiðina í þrjá mánuði. Þá byggi stefndi jafnframt á því að því ríkari sem aðgæsluskylda kaupanda sé, því takmarkaðri upplýsingaskyldu beri seljandi. Þá bendir stefndi á að stefnandi hafi, hvað sem öðru líður, ekki uppfyllt skyldur sínar um tilkynningu til stefnda án ástæðulauss dráttar í skilningi 32. gr. laga nr. 50/2000. Þá sé það ótækt að meðferð stefnanda á bifreiðinni eigi að valda því að stefndi eigi að bera tjón.

Verði fallist að einhverju leyti á dómkröfur stefnanda krefst stefndi þess til vara að þær verði lækkaðar verulega. Er þá einnig byggt á þeim útgjöldum sem stefndi hefur sjálfur orðið fyrir vegna viðgerða á bifreiðinni [...].

Hvað lagarök varðar vísar stefndi til meginreglna samninga- og kröfuréttar um loforð og efndir samningskuldbindinga, laga um lausafjárkaup nr. 50/2000, einkum 17., 18., 19., 20., 21., 31. og 32. gr. og ákvæða laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Málskostnaðarkrafa stefnda styðst við 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988 en stefndi er ekki virðisaukaskattsskyldur.

 

Forsendur og niðurstaða

Í máli þessu var upphaflega gerð krafa um riftun kaupa stefnanda á bifreiðinni [...] af gerðinni Nissan Patrol, árgerð 1999, með kaupsamningi dagsettum 28. apríl 2016. Við aðalmeðferð málsins var upplýst að stefndi væri búinn að selja bifreiðina [...] er hann fékk í skiptum fyrir bifreiðina [...]. Í ljósi þess lýsti stefnandi því yfir að hann félli frá aðalkröfu sinni. Á grundvelli varakröfu sinnar gerir stefnandi því kröfu um að stefndi greiði honum sem skaðabætur fjárhæð sem svarar til kaupverðs bifreiðarinnar sem hann lét af hendi sem greiðslu fyrir bifreiðina [...] gegn því að hann skilaði stefnda bifreiðinni. Eins og hvað varðar upphaflega aðalkröfu byggir stefnandi á því að skilyrði riftunar séu fyrir hendi, bifreiðin hafi verið haldin verulegum göllum sem stefnda hafi verið kunnugt um og að gallarnir hafi komið í ljós fljótlega eftir afhendingu bifreiðarinnar.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga um lausafjárkaup nr. 50/2000, sem óumdeilt er að gilda um kaup stefnanda á bifreiðinni, skal söluhlutur, hvað varðar tegund, magn, gæði, aðra eiginleika og innpökkun, fullnægja þeim kröfum sem leiða af samningi. Samkvæmt a-lið 2. mgr. ákvæðisins skal söluhlutur, ef annað leiðir ekki af samningi, henta í þeim tilgangi sem sambærilegri hlutir eru venjulega notaðir til. Í 4. mgr. 17. gr. kemur fram að söluhlutur telst gallaður ef hann er ekki í samræmi við þær kröfur sem fram koma í 1. og 2. mgr. ákvæðisins. Samkvæmt 39. gr. laga nr. 50/2000 getur kaupandi rift kaupum ef meta má galla til verulegra vanefnda. Við mat á því hvort söluhlutur er gallaður skal miðað við það tímamark þegar áhættan af söluhlut flyst yfir til kaupanda, jafnvel þótt gallinn komi ekki fram fyrr en síðar, sbr. 21. gr. laga nr. 50/2000.

Stefnandi ber sönnunarbyrði fyrir því að bifreiðin hafi verið haldin göllum þegar kaupin áttu sér stað. Byggir hann kröfu sína á ástandsskoðunarskýrslu X, sem dagsett er 2. júní 2016. Í skýrslunni eru rakin 24 atriði sem skoðun bifreiðarinnar leiddi í ljós en einnig kemur þar fram að kílómetrastaða bifreiðarinnar hafi, þegar skoðunin var framkvæmd, verið 295.576 kílómetrar. Af yfirliti frá ökutækjaskrá má ráða að mælirinn hafi verið í sömu stöðu skömmu áður en stefndi keypti bifreiðina. Stefndi byggir á því að þrátt fyrir framangreinda skýrslu X séu gallar ósannaðir og að þegar skoðunin fór fram hafi bifreiðinni verið ekið í um mánuð eftir að kaupin áttu sér stað og tengja megi flest atriðin sem nefnd eru þar við almenna notkun eða slit á bifreiðinni.

Framburður málsaðila í skýrslum þeirra fyrir dómi við aðalmeðferð málsins er misvísandi um bifreiðina. Aðilar eru sammála um að hraðamælir og snúningshraðamælir voru í ólagi þegar stefnandi fékk bifreiðina afhenta og að þeir voru síðar, auk pústs, lagfærðir á kostnað stefnda. Þá voru þeir sammála um að skjálfti gæti komið í hjólabúnað á um 60 kílómetra hraða og að bifreiðinni hafi verið ekið a.m.k. 1.500 kílómetra áður en skoðunin var framkvæmd. Í framburði stefnanda kom fram að hann hafi vitað að búið var að skipta um vél í bifreiðinni og það hafi verið ástæða þess að hraða- og snúningshraðamælir virkuðu ekki. Hann hafi skoðað undir vélarhlífina og séð að mikið verk var eftir þar en honum hafi verið sagt að það yrði unnið. Þá bar hann um að honum hafi verið sagt, þegar hann fór með bifreiðina í skoðun, að vélin sem var sett í hana hefði verið ónýt. Sú málsástæða stefnanda að skipt hafi verið um vél í bifreiðinni kom ekki fram fyrr en við aðalmeðferð málsins. Samkvæmt 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skulu málsástæður koma fram jafnskjótt og tilefni verður til. Að öðrum kosti má ekki taka slíkar yfirlýsingar til greina nema með samþykki gagnaðila. Gegn andmælum stefnda kemur hún því ekki til álita. Um önnur atriði sem koma fram í skýrslu frá 2. júní 2016 sagði stefnandi að stór hluti þess sem þar komi fram sé eðlilegur miðað við aldur bifreiðarinnar, eins og ryðblettir hér og þar. Hann hafi hins vegar ekki getað séð bilun í ABS-kerfi eða ryðgat undir sæti bifreiðar. Þá hafi verið steingat á rúðu þegar hann skoðaði bifreiðina og hafi hann látið skipta um rúðuna.

Stefnandi byggir á því að stefndi hafi átt bifreiðina í langan tíma og því hafi honum átt að vera ljósir gallarnir en sjálfur hafi stefnandi fljótlega orðið var við þá. Einnig byggir stefnandi á því að stefndi hafi tekið á sig ábyrgð á ástandi bifreiðarinnar með því að lýsa henni svo í kaupsamningi að ástand hennar sé mjög gott og hafi með því verið að taka á sig ábyrgð á öllu því sem kynni að vera að bifreiðinni og ábyrgst að hún væri í lagi. Stefndi byggir á því að hann hafi átt bifreiðina í um þrjá mánuði sem samrýmist yfirliti í ökutækjaskrá yfir feril bifreiðarinnar. Þá kvaðst stefndi í framburði sínum fyrir dómi hafa lýst ástandi bifreiðarinnar svona í kaupsamningi vegna alls þess aukabúnaðar sem var í bifreiðinni og hann telur að sé mikilvægur í breyttri bifreið. Í greinargerð stefnda er hins vegar á því byggt að stefndi hafi hér átt við að ástand bifreiðarinnar væri almennt séð mjög gott miðað við aldur, notkun, slit, o.s.frv. Auk þess sem áður hefur verið rakið um vitneskju stefnda um galla sagði stefndi í framburði sínum að ballansstangir væru oft teknar úr breyttum bifreiðum. Engin gögn hafa verið lögð fram sem staðfesta að stefndi hafi haft eða hafi mátt hafa upplýsingar um fleiri af þeim atriðum sem tilgreind eru í skýrslunni frá 2. júní 2016. Ekkert er heldur fram komið sem styður það að með yfirlýsingunni í kaupsamningnum hafi stefndi verið að taka eins víðtæka ábyrgð á sig á ástandi bifreiðarinnar og stefnandi byggir á og verður það ekki ráðið af orðalagi hennar. Er það mat dómsins að ósannað sé að stefndi hafi vitað af öllum göllunum þegar kaupin áttu sér stað og að stefnanda bar að meta yfirlýsingu stefnda með hliðsjón af aldri bifreiðarinnar og þeim upplýsingum sem hann hafði um hana.

Þá byggir stefnandi á því að stefndi hafi hafnað beiðni hans um prufuakstur bifreiðarinnar og einnig kom fram í framburði hans að hann hafi viljað láta söluskoða bifreiðina í Reykjavík en stefndi hafi ekki heimilað honum að fara suður á bifreiðinni án þess að ganga fyrst frá kaupunum. Þá byggir stefnandi á því að hann hafi haft gildar ástæður til að fara ekki með bifreiðina í skoðun þar sem hann hafi talið að hann gæti treyst áðurnefndri ábyrgðaryfirlýsingu stefnda og lýsingu hans á ástandi bifreiðarinnar. Þessu hafnar stefndi og byggir á því að hann hafi skorað á stefnanda að láta ástandsskoða bifreiðina áður en hann keypti hana og byggir sýknukröfu sína m.a. á því að stefnandi hafi vanrækt skoðunarskyldu sína. Í kaupsamningi sem undirritaður var af aðilum var vakin athygli kaupanda á rétti hans til að fara með bifreiðina í söluskoðun. Fullyrðingu stefnanda um að þrátt fyrir það hafi það í raun ekki staðið til boða vegna afstöðu stefnda verður því að telja ósannaða. Stefnandi vissi að um var að ræða 17 ára gamla bifreið sem vegna aldurs mátti gera ráð fyrir að væri farin að gefa sig auk þess sem hann mátti ætla að henni hefði verið ekið a.m.k. um 300.000 kílómetra. Þá verður einnig að líta til þess að stefnandi bar sjálfur um það í framburði sínum að skoðun hans undir vélarhlíf bifreiðarinnar hafi leitt í ljós að þar væru atriði sem þyrfti að lagfæra og að hann ritaði undir samning aðila sem innihélt ákvæði þar sem kveðið er á um að ökutækið seljist í núverandi ástandi sem kaupandi, þ.e. stefnandi, hafi kynnt sér og sætt sig við. Með vísan til framangreinds er það mat dómsins að ekki verði talið að vegna yfirlýsingar stefnda í kaupsamningi um ástand bifreiðarinnar hafi stefnandi mátt láta hjá líða að láta óháðan aðila skoða bifreiðina heldur gaf þetta honum sérstaka ástæðu til að láta skoða hana þrátt fyrir yfirlýsingu stefnanda.

Jafnframt byggir stefnandi á því að stefndi hafi sýnt af sér vítavert gáleysi með framangreindri lýsingu á ástandi bifreiðarinnar sem hafi verið andstæð heiðarleika og góðri trú, sbr. 20. gr. laga nr. 50/2000, en því hafnar stefndi alfarið. Með hliðsjón af þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu verður að telja að þessi fullyrðing stefnanda sé ósönnuð og verður niðurstaða málsins því ekki byggð á þessari málsástæðu stefnanda.

Skýrsla X er dagsett 2. júní 2016, fimm vikum eftir að kaupsamningur var gerður. Þá hafði bifreiðinni, samkvæmt framburðum aðila við aðalmeðferð málsins, verið ekið a.m.k. 1.500 kílómetra frá 28. apríl 2016. Samkvæmt skýrslunni, sem er óundirrituð, framkvæmdi B skoðunina. Skýrslan var fengin einhliða af hálfu stefnanda og hefur stefndi mótmælt henni. Þar koma fram, eins og rakið hefur verið, athugasemdir í 24 liðum. Af skýrslunni verður ekkert ráðið um ástand bifreiðarinnar við afhendingu eða orsök þeirra galla sem þar eru tilgreindir. Þá hafa engin gögn verið lögð fram sem sýna fram á hvaða áhrif þessi 24 atriði hafi haft á verðmæti bifreiðarinnar og er því ósannað hvort eða hve mikið verðmæti bifreiðarinnar hafi rýrnað vegna þeirra. Upplýst hefur verið að hraðamælir, snúningshraðamælir og framrúða hafa þegar verið lagfærð án kostnaðar fyrir stefnanda. Þá bar stefnandi um það í framburði sínum að hluti þeirra atriða sem þar eru tiltekin væri vegna ryðs sem væri ekki óeðlilegt miðað við aldur bifreiðarinnar. Framburður stefnanda hefur ekki orðið til þess að skýra frekar þá ágalla sem hann telur að hafi verið á bifreiðinni og samrýmist að sumu leyti ekki málatilbúnaði hans í stefnu, t.d. framburður hans um vélaskipti og framangreindur framburður um ryð. Þó verður ekki talið að málið sé vegna þess það vanreifað að varði frávísun þess. Héraðsdómur, sem skipaður er tveimur sérfróðum meðdómendum telur, með vísan til framangreinds, að stefnanda hafi ekki, með þeim gögnum sem hann lagði fyrir dóminn, tekist að sanna að bifreiðin hafi verið haldin þeim göllum sem tilgreindir eru í skýrslunni þegar kaupin áttu sér stað 28. apríl 2016. Þó verði að telja að líkur séu á því að sum þeirra atriða sem þar er lýst hafi þá verið til staðar og hafi mátt sjá við skoðun. Verður stefnandi því að bera hallann af því að hafa ekki tryggt sér fullnægjandi sönnun um ætlaða galla og því að hafa látið fyrir farast að láta skoða bifreiðina vegna kaupana. Verður stefndi því sýknaður af kröfu stefnanda.

Eftir atvikum þykir rétt að málsaðilar beri hvor sinn kostnað af málinu.

Af hálfu stefnanda flutti málið Elín Árnadóttir hdl. og af hálfu stefnda flutti málið Eva Dóra Kolbrúnardóttir hdl.

Dóm þennan kveður upp Sigríður Elsa Kjartansdóttir dómstjóri ásamt sérfróðu meðdómsmönnunum Kristjáni Grétari Tryggvasyni og Valgarði Zophoníassyni bifvélavirkjameisturum.

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, Þórhallur B. Snædal, er sýkn af öllum kröfum stefnanda Jóns Arnar Arnarsonar.

Málskostnaður fellur niður.

                                                            Sigríður Elsa Kjartansdóttir

                                                            Kristján Gr. Tryggvason

                                                            Valgarður Zophoníasson