• Lykilorð:
  • Brot gegn valdstjórninni
  • Líkamsárás
  • Skilorð

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Vestfjarða 20. mars 2018 í máli nr. S-5/2018:

Ákæruvaldið

(Dagmar Ösp Vésteinsdóttir saksóknarfulltrúi)

gegn:

Baldri Ingimar Aðalsteinssyni

(Kristján Óskar Ásvaldsson lögmaður)

 

I

Mál þetta sem dómtekið var 7. mars 2018 höfðaði héraðssaksóknari með ákæru 1. febrúar 2018 á hendur ákærða „Baldri Ingimar Aðalsteinssyni, Aðalstræti 20, Ísafirði,

 

fyrir eftirgreind brot framin á Ísafirði á árinu 2017:

 

I

Líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 1. október framan við skemmtistaðinn Edinborg við Aðalstræti 7, Pollgötumegin, veist að […], með því að skvetta áfengum vökva úr stóru bjórglasi framan í andlit hennar og því næst kasta bjórglasinu til hennar þannig að það lenti á bringu hennar og brotnaði síðan í götunni.

[…]

 

Telst brot þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981.

 

II

Brot gegn valdstjórninni, með því að hafa að morgni laugardagsins 7. október inni á gangi framan við fangageymslu á lögreglustöðinni á Ísafirði við Hafnarstræti 1, veitt lögreglumanninum […], sem var þar við skyldustörf, hnéspark í efsta hluta hægri sköflungs, með þeim afleiðingum að hann hlaut þreifieymsli á fæti.

[…]

 

Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

Ákærði krefst þess að hann verði dæmdur til vægustu refsingar er lög leyfa. Þá gerir verjandi ákærða kröfu um greiðslu málsvarnarlauna úr ríkissjóði.

 

II

Ákærði hefur viðurkennt þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Farið var með málið samkvæmt ákvæðum 164. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu eftir að sækjandi og verjandi höfðu tjáð sig um lagaákvæði og ákvörðun viðurlaga. Málsatvikum er lýst í ákæru. Það er mat dómsins að játning ákærða samræmist rannsóknargögnum málsins og verður hann því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og eru brot hans þar rétt heimfærð til refisiákvæða.

            Ákærði er fæddur árið […]. Sakarferill hans kemur ekki til skoðunar í þessu máli. Við ákvörðun refsingar er litið til játningar ákærða og þess að í hvorugt sinnið hlutust alvarlegar afleiðingar af háttsemi hans. Þá er til refsiþyngingar litið til eðlis og alvarleika brota ákærða. Með vísan til framangreinds og 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 60 daga en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að tveimur árum liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með áorðnum breytingum.

            Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Óskars Ásvaldssonar lögmanns, 214.384 krónur, að teknu tilliti til virðisaukaskatts vegna starfa hans á rannsóknarstigi málsins og fyrir dómi. Auk þess greiði ákærði annan sakarkostnað, sem samkvæmt yfirliti lögreglu nemur samtals 25.000 krónum.

Dóm þennan kveður upp Bergþóra Ingólfsdóttir dómstjóri.

 

D Ó M S O R Ð:

            Ákærði, Baldur Ingimar Aðalsteinsson, sæti fangelsi í 60 daga en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með áorðnum breytingum.

            Ákærði greiði samtals 239.384 krónur í sakarkostnað, sem er þóknun skipaðs verjanda hans Kristjáns Óskars Ásvaldssonar lögmanns, 214.384 krónur og 25.000 krónur í annan sakarkostnað.

Bergþóra Ingólfsdóttir