• Lykilorð:
  • Brot gegn valdstjórninni
  • Líkamsárás
  • Miskabætur
  • Fangelsi
  • Skilorð

D Ó M U R

Héraðsdóms Vestfjarða 7. júní 2017 í máli nr. S-17/2017:

Ákæruvaldið                                                                      

(Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari)

gegn

Einari Braga Þorkelssyni

(Kristján Óskar Ásvaldsson hdl.)

 

I

Mál þetta, sem dómtekið var 24. maí sl., höfðaði héraðssaksóknari með ákæru 26. apríl 2017 á hendur ákærða: „Einari Braga Þorkelssyni, kennitala [...], [...], [...]

1.      fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 3. júlí 2016 fyrir utan félagsheimilið að Aðalstræti 24 í Bolungarvík, veist að A með ofbeldi með ítrekuðum spörkum og höggum í líkama hans og höfuð. Af þessu hlaut A verk aftan í hálsi og á báðum hliðum hans, kúlu á enni vinstra megin og eymsli í vinstri upphandlegg.

[...]

Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

Fyrir neðangreind brot, framin á Ísafirði aðfaranótt sunnudagsins 21. ágúst 2016:

2.      Brot gegn lögreglulögum, með því að hafa gengið í veg fyrir lögreglubifreið sem ekið var um Hafnarstræti framan við Húsið og neitað að færa sig þrátt fyrir fyrirmæli lögreglu þar um og nokkru síðar gengið aftur í veg fyrir lögreglubifreiðina er henni var ekið frá Hafnarstræti að Mjallargötu og neitað að færa sig þrátt fyrir fyrirmæli lögreglu þar um.

3.      Brot gegn valdstjórninni, með því að hafa framan við lögreglubifreið sem lagt var á horni Hafnarstrætis og Mjallargötu ítrekað gert tilraun til að hrækja á lögreglumennina B og C, sem þar voru við skyldustörf, og í kjölfarið á lögreglustöðinni við Hafnarstræti 1, tekið B hálstaki og rifið í hár hennar þannig að lokkur rifnaði úr, tekið lögreglumanninn D hálstaki og bitið í hanskaklædda hönd C.

[...]“

Telst brot ákærða samkvæmt ákærulið 2 varða við 19. gr., sbr. 41. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og samkvæmt ákærulið 3 varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Í ákæru er getið um bótakröfu A, kennitala [...], og þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða honum bætur að fjárhæð 625.500 krónur með vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 3. júlí 2016 fram til birtingar bótakröfunnar fyrir ákærða og dráttarvexti á höfuðstól kröfunnar frá þeim degi til greiðsludags samkvæmt 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.

Ákærði krefst þess að hann verði dæmdur til vægustu refsingar er lög leyfa. Þá krefst ákærði þess að bótakrafa verði lækkuð. Þá gerir verjandi ákærða kröfu um málsvarnarþóknun er greidd verði úr ríkissjóði.

 

II

Ákærði hefur viðurkennt þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Farið var með málið samkvæmt ákvæðum 164. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu eftir að sækjandi og ákærði höfðu tjáð sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. Málsatvikum er lýst í ákæru. Það er mat dómsins að játning ákærða samræmist rannsóknargögnum málsins. Vegna þess hve hættuleg sú aðferð var að sparka í höfuð brotaþola þar sem hann lá er árás sem lýst er í fyrsta ákærulið réttilega heimfærð undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Verður ákærði því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og eru brot hans þar rétt heimfærð til refsiákvæða.

Ákærði er fæddur árið 1998. Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins gekkst hann undir greiðslu sektar með sektargerð lögreglustjóra 6. desember 2016 vegna brots gegn lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974. Þá var hann dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi skilorðsbundið í tvö ár með dómi héraðsdóms 25. apríl 2017 vegna brota gegn sömu lögum. Brot ákærða nú framdi hann áður en framangreindur dómur var kveðinn upp og eru þau hegningarauki, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga, vegna framangreinds dóms.

Við ákvörðun refsingar ákærða er litið til þess að hann játaði brot sín skýlaust og til ungs aldurs hans en hann var 18 ára þegar hann framdi brotin. Þá er til refsiþyngingar litið til eðlis og alvarleika brota ákærða. Með vísan til framangreinds og 77. og 78. gr. almennra hegningarlaga þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar skilorðsbundið, eins og nánar greinir í dómsorði.

Af hálfu brotaþola, A, er gerð krafa um að ákærði verði dæmdur til greiðslu miskabóta að fjárhæð 500.000 krónur, og 125.500 krónur vegna lögmannskostnaðar, auk vaxta, eins og að framan er rakið. Þá gerði lögmaður bótakrefjanda fyrir dómi kröfu um greiðslu málskostnaðar að fjárhæð 300.000 krónur auk virðisaukaskatts og lagði því til stuðnings fram vinnuskýrslu. Bótakrafan var birt fyrir ákærða 7. september 2016. Ákærði hefur viðurkennt að hafa með háttsemi sinni valdið brotaþola því líkamstjóni sem lýst er í ákæru. Hefur ákærði því bakað sér bótaskyldu gagnvart brotaþola á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þykja miskabætur hæfilega ákveðnar 250.000 krónur. Fyrir liggur að lögmaðurinn var tilnefndur réttargæslumaður brotaþola við rannsókn málsins hjá lögreglu og fékk hann vegna þeirrar vinnu greiddar 168.640 krónur að teknu tilliti til virðisaukaskatts. Með vísan til þess og 3. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 eru ekki forsendur til að dæma hærri lögmannskostnað til handa brotaþola en greinir í kröfu hans, eða 125.500 krónur. Krafa um vexti er gerð á grundvelli 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 en samkvæmt orðalagi ákvæðisins og greinargerð sem fylgdi frumvarpi að lögunum tekur það ekki til miska samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga. Verða brotaþola því ekki dæmdir vextir með vísan til þess. Þá bera dæmdar bætur dráttarvexti eins og nánar greinir í dómsorði.

Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Óskars Ásvaldssonar hdl., 150.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, og 168.640 krónur í annan sakarkostnað vegna þóknunar réttargæslumanns á rannsóknarstigi.

Dóm þennan kveður upp Sigríður Elsa Kjartansdóttir dómstjóri.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Einar Bragi Þorkelsson, sæti fangelsi í sex mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að tveimur árum liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði A, kennitala [...], 250.000 krónur í miskabætur, auk dráttarvaxta samkvæmt 9., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 7. október 2016, til greiðsludag. Þá greiði ákærði A 125.500 krónur í lögmannskostnað.

Ákærði greiði samtals 318.640 krónur í sakarkostnað þar með talin málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns Kristjáns Óskars Ásvaldssonar hdl., 150.000 krónur, og 168.640 krónur í annan sakarkostnað.

 

Sigríður Elsa Kjartansdóttir