• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Fangelsi
  • Upptaka

D Ó M U R

Héraðsdóms Vestfjarða 21. nóvember 2016 í máli nr. S-50/2016:

Ákæruvaldið

(Bryndís Ósk Jónsdóttir fulltrúi)

gegn

Jóni Gesti Haukssyni

 

I

Mál þetta, sem dómtekið var 16. nóvember sl., höfðaði lögreglustjórinn á Vestfjörðum með ákæru 29. september 2016 á hendur ákærða: „Jóni Gesti Haukssyni, kennitala [...], [...], [...],

 

I.

fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa sunnudaginn 19. júní 2016, haft í sínum vörslum á lögreglustöðinni að Hafnarstræti 1 á Ísafirði, nánar tiltekið í buxnavasa sínum, 3,8 grömm af amfetamíni, sem lögregla fann við leit.

 

II.

fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa mánudaginn 20. júní 2016, haft í sínum vörslum í íbúð að [...] á [...], krukku með 47,05 grömmum af amfetamíni, en krukkunni hafði hann komið fyrir í frystiskáp íbúðarinnar laugardaginn 18. júní s.á., en lögregla fann efnin við húsleit.

 

Teljast báðir ákæruliðir varða við 2., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 1. og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 789/2010 og 513/2012.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er krafist upptöku á fyrrgreindu amfetamíni með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, um ávana- og fíkniefni, og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001, ásamt síðari breytingum.“

 

 

II

Fyrirkall í máli þessu var gefið út 19. október 2016 og birt fyrir ákærða 2. nóvember sl. Við þingfestingu málsins 16. nóvember sl. sótti ákærði ekki þing og var málið þá að kröfu sækjanda dómtekið á grundvelli 1. mgr. 161. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Samkvæmt framansögðu og með vísan til 1. mgr. 161. gr., sbr. 1. mgr. 155. gr. laga nr. 88/2008, verður dómur lagður á málið þrátt fyrir útivist ákærða þar sem framlögð gögn þykja nægileg til sakfellingar. Telst sannað að ákærði hafi gerst sekur um brot þau sem honum eru gefin að sök í ákæru og eru þau þar réttilega heimfærð til refsiákvæða.

 

III

Ákærði er fæddur árið [...]. Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins hefur hann, frá árinu 2008, gengist þrisvar undir sektarrefsingu vegna brots gegn lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974. Með vísan til 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og að virtum brotum ákærða þykir refsing hans nú hæfilega ákveðin fangelsi í þrjá mánuði.

Með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni eru gerð upptæk til ríkissjóðs samtals 50,85 g af amfetamíni.

Engan sakarkostnað leiddi af meðferð málsins.

Dóm þennan kveður upp Sigríður Elsa Kjartansdóttir dómstjóri.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Jón Gestur Hauksson sæti fangelsi í þrjá mánuði.

Upptæk eru gerð til ríkissjóðs 50,85 g af amfetamíni.

 

Sigríður Elsa Kjartansdóttir