• Lykilorð:
  • Aðild
  • Skaðabætur

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Vestfjarða 28. nóvember 2018 í máli nr. E-42/2017:

Saltverk ehf.

(Grímur Sigurðarson hrl.)

gegn:

Geislatækni ehf.

(Ívar Þór Jóhannsson hdl.)

og

Metal ehf.

(Einar Farestveit hdl.)

 

I

Mál þetta, sem dómtekið var 2. nóvember sl., er höfðað af Saltverki ehf., […],[…], Ísafirði, á hendur Geislatækni ehf., […],[…], Garðabæ, og Metal ehf., […],[…], Garðabæ, með stefnu birtri 19. september 2017. Stefnandi krefst þess aðallega að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda kr. 7.857.970.-, ásamt dráttarvöxtum frá 20. júlí 2014 til greiðsludags, skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Til vara krefst stefnandi þess að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda bætur að álitum. Í báðum tilvikum gerir stefnandi kröfu um greiðslu málskostnaðar úr hendi stefndu.

Stefndi Geislatækni ehf. krefst sýknu af öllum dómkröfum stefnanda en til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda, samkvæmt málskostnaðaryfirliti eða samkvæmt mati dómsins.

Stefndi Metal ehf. krefst aðallega sýknu af öllum dómkröfum stefnanda auk málskostnaðar úr hendi stefnanda en til vara að dómkröfur stefnanda verði stórkostlega lækkaðar og málskostnaður látinn niður falla.

 

II

Málsatvik og helstu ágreiningsefni

 

Ágreiningur máls þessa á rót sína í viðskiptum aðila málsins haustið 2013 er stefnandi keypti gaflplötur úr ryðfríu stáli, af gerðinni 316 L, af stefnda Geislatækni ehf., sem hafði keypt hráefnið frá stefnda Metal ehf. Hluta þessa efnis skyldi nota til að útbúa varmaskipta sem stefnandi notar í starfsemi sinni, en stefndi Geislatækni tók að sér hluta af þeirri smíðavinnu. 

Fljótlega eftir uppsetningu nýrra varmaskipta, í árslok 2013, varð vart við tæringu í varmaskiptunum, sem leiddi til þess að framleiðsla stefnanda stöðvaðist um tíma og nauðsynlegt reyndist að smíða ný framleiðslutæki. Stefnandi þurfti að farga töluverðu magni af salti, og kveður það hafa tekið sig marga mánuði að ná upp fullri afkastagetu aftur vegna atviksins.

Könnun aðila málsins leiddi í ljós að stefnandi hafi fengið afhent annað stál en hann hafði pantað af stefnda Geislatækni ehf. Unnu aðilar málsins þá saman að lausn málsins, m.a. að viðgerðum á tækjum stefnanda. Þá fékk stefnandi greiddar skaðabætur úr ábyrgðartryggingu stefnda Geislatækni ehf., vegna viðgerðarkostnaðar og framleiðslukostnaðar (munatjóns) á fjórum tonnum á salti, sem eyðilögðust við tjónsatvikið.

Stefnandi telur þó tjón sitt enn óbætt að hluta, þar sem hann hafi ekki fengið bætt rekstrartjón sem hann varð fyrir vegna röskunar á framleiðslunni. Hefur stefnandi fengið mat dómkvadds matsmanns á því tjóni sem hann byggir kröfur sínar á í málinu, en samkvæmt matsgerðinni nemur það tjón 7.857.970 krónum.

Stefndu hafa ekki fallist á bótaskyldu í málinu og hverfist ágreiningur málsins um það hvort hin óumþrætta ranga afhending efnisins hafi falið í sér saknæma háttsemi í skilningi skaðabótaréttar, hvort orsakasamband hafi verið milli þeirrar afhendingar og tjóns stefnanda og loks um sönnun tjónsins.

 

 

III

Helstu málsástæður stefnanda

 

Helstu málsástæður stefnanda eru þær að tjón hans sé bótaskylt samkvæmt meginreglum skaðabótaréttarins um skaðabótaábyrgð utan samninga og samkvæmt meginreglum kröfuréttar um skaðabótaskyldu innan samninga. Stefndu beri skaðabótábyrgð gagnvart stefnanda á því tjóni sem hann varð fyrir í kjölfar þess að stefndu afhentu stefnanda ekki rétt efni. Vegna þessara mistaka hafi orðið tæring í varmaskiptum sem raskaði framleiðslu stefnanda árið 2014 og það hafi valdið honum  rekstrartjóni. Sú háttsemi stefndu að afhenda stefnanda rangt efni hafi verið gáleysisleg háttsemi af þeirra hálfu og skilyrði skaðabótaréttar um saknæma háttsemi tjónvalds sé því uppfyllt. Hefðu stefndu ekki orðið á þessi mistök hefði stefnandi ekki orðið fyrir því tjóni sem hann krefst bóta fyrir. Þá byggir stefnandi á því að engar hlutlægar ábyrgðarleysisástæður leiði til þess að háttsemi stefndu sé ekki ólögmæt.

Tjón stefnanda sé sennileg afleiðing af mistökum stefndu, enda hafi báðum stefndu verið fullkunnugt um að nota átti stálið í tæki til saltframleiðslu og stefndu búi báðir yfir sérþekkingu á stáli. Enn fremur byggir stefnandi á því að orsakatengsl séu á milli mistaka stefndu og þess tjóns sem stefnandi varð fyrir og stefndu hafi í raun fallist á mistök sín.

Stefnandi telur rekstrartjón sitt vera hagsmuni sem verndaðir séu með skaðabótareglum og stefndu því skaðabótaskyldir gagnvart stefnanda in solidum.

Stefnandi kveðst einnig byggja kröfu sína á meginreglu íslensks réttar um vinnuveitendaábyrgð, stefndu beri ábyrgð á þeim mistökum sem starfsmenn þeirra gerðu við sölu efnisins til stefnanda.

Þá byggir stefnandi sérstaklega á því að stefndu gefi sig út fyrir að vera sérfræðingar á sviði sölu og vinnslu með stál og því verði gerðar sérstaklega ríkar kröfur til faglegra vinnubragða þeirra. Stefnandi hafi leitað til þeirra vegna þess og mátti treysta því að stálið uppfyllti þær kröfur sem eðlilegt þykir. Sem sérfræðingar gildi sérstaklega ströng ábyrgð um háttsemi stefndu.

Þessu til viðbótar byggir stefnandi á því að reglur kröfuréttar um skaðabætur innan samninga leiði til þess að stefndu séu skaðabótaábyrgir gagnvart stefnanda og vísar í því sambandi sérstaklega til 17. gr. laga um lausafjárkaup nr. 50/2000 um galla á söluhlut og 3. mgr. 40. gr. sömu laga um skaðabótaábyrgð seljanda.

Um umfang tjónsins byggir stefnandi á mati dómkvadds matsmanns, sem hafi komist að þeirri niðurstöðu að rekstrartjón stefnanda nemi 7.857.970 krónum. Matsgerðin sé ítarleg, vel unnin og rökstudd. Aðilum málsins hafi gefist kostur á að koma að gerð hennar og matsgerðin verði því lögð til grundvallar sem sönnun á fjártjóni stefnanda.

Stefnandi kveðst og byggja á meginreglu skaðabótaréttarins um að þegar fleiri en einn beri skaðabótaábyrgð sé meginreglan sú að þeir beri óskipta ábyrgð gagnvart tjónþola.

Um kröfu um dráttarvexti af dómkröfunni, frá 20. júlí 2014 til greiðsludags, vísar stefnandi til 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

            Um varakröfu stefnanda um bætur að álitum er vísað til dómaframkvæmdar.

 

IV

Helstu málsástæður stefnda Metal ehf.

 

            Stefndi Metal ehf. kveðst byggja kröfur sínar um sýknu í fyrsta lagi á því að vafi leiki á því hvort stefnandi sjálfur eigi þá meintu kröfu sem um er deilt í málinu því sé aðildarskortur sóknarmegin sem leiði til sýknu, sbr. ákvæði 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Þá kveðst stefndi byggja á því að sönnur skorti fyrir meintu tjóni stefnanda, og ekki hafi stofnast til bótaábyrgðar þar sem ábyrgðartrygging hafi bætt allt tjón stefnanda. Bótaskylda vegna óbeins tjóns verði almennt ekki lögð á aðila þar sem örðugt sé fyrir tjónvald að sjá fyrir eða hafa nokkur áhrif á þá atburðarás sem í hönd kunni að fara með tjónsatburði. Stefndi selji hráefni, stál til frekari smíða. Hann geti ekki með nokkru móti séð fyrir hugsanlegt tjón, ef efni sem hann selur uppfyllir ekki tiltekna eiginleika, og því verði slík ábyrgð ekki með nokkurri sanngirni lögð á stefnda.  

Þá mótmælir stefndi því sérstaklega að reglur um bótaskyldu utan samninga geti átt við í þessu tilviki. Stefnandi láti smíða fyrir sig ofna samkvæmt eigin hönnun. Ekkert beint samningsamband sé milli stefnda og stefnanda en kaup stefnanda byggist á samningi við þriðja mann. Þegar svo hátti til verði reglum um bótaskyldu utan samninga ekki beitt gagnvart þriðja manni.  

Stefndi kveður það ósannað að bótaskylda hafi stofnast með saknæmri háttsemi stefnda eða manna sem stefndi beri ábyrgð á, engu gáleysi hafi verið fyrir að fara og þar sem krafist sé bóta fyrir óbeint tjón þurfi verulega meira til að koma en almennt gáleysi.

Stefndi kveðst og byggja á því að hann hafi verið í góðri trú um að hann væri að afhenda rétta tegund af stáli í umrætt sinn, þar sem hann pantaði sannanlega rétt stál af gerðinni 316 L, af fyrirtækinu A. Stefndi hafi því verið grandlaus um að efnið sem hann afhenti væri ekki 316 efni. Enginn útlitsmunur sé á þessum efnum og útilokað að greina nokkurn mun nema með efnagreiningu. Saknæmisskilyrði skaðabótaréttar sé því ekki fullnægt í málinu. Stefndi hafi með engu móti mátt varast að afgreiðsla efnisins væri ekki rétt heldur mátti hann treysta því að afgreiðsla til hans samkvæmt pöntun hefði verið í lagi.

            Þá kveður stefndi að fleiri orsakir kunni að hafa valdið tæringu í varmaskiptum hjá stefnanda, t.d. rangt val á suðuefni, eða utanaðkomandi áhrif eins og eru hjá stefnanda, klórríkt umhverfi, mikill hiti og raki. Af málavaxtalýsingu stefnanda verði helst ráðið að ofnar bili aðallega á suðunum en á því beri stefndi enga ábyrgð. Skipti þá engu hvor tegund stálsins hefði verið notuð. Ósannað sé hverjar séu raunverulegar orsakir tjónsatburðarins en sönnunarbyrði fyrir því hvíli á stefnanda. Kveður stefndi það engu breyta þótt tryggingafélag sitt og meðstefnda hafi ákveðið að bæta stefnanda allt beint tjón hans. Þá kveðst stefndi ekki hafa tekið á sig ábyrgð á því að efnið hentaði til þessarar starfsemi. 

Stefndi kveðst einnig byggja sýknukröfu sína á því að ósannað sé að meint tjón stefnanda verði rakið til atvika eða aðstöðu sem stefndi beri ábyrgð á eða teljist sennileg afleiðing háttsemi stefnda, en stefnandi beri alfarið sönnunarbyrðina fyrir því að svo sé. Þá kveðst stefndi mótmæla því að framlögð matsgerð færi sönnur fyrir því að meint tjón stefnanda verði rakið til athafna stefnda. Þá verði stefnda ekki samkvæmt reglum skaðabótaréttarins gert að sæta ábyrgð á væntingum stefnanda um framtíðarframleiðsluaukningu sem sé háð fjölmörgum óvissuþáttum. Matsgerð stefnanda sé ekki sönnun fyrir því að mismun á rekstrartekjum stefnanda sé að rekja til rangrar afhendingar stefnda á stáli og bendir á að fjöldi annarra þátta gæti hafa leitt til þeirra sveiflna eða samdráttar á rekstrartekjum stefnanda á því tímabili sem til skoðunar var í matsgerðinni. Matsgerðin sýni hvorki fram á að tjón hafi orðið né að samdrátt eða sveiflu hagnaðar á rekstrarári stefnanda megi rekja til rangrar afhendingar á stáli. Rekstrartjón stefnanda geti því ekki talist sennileg afleiðing af háttsemi stefnda og ósannað að nokkurt rekstrartjón hafi yfirhöfuð orðið. Kveður stefndi matsgerðina ekki unna eftir meginreglum XII. kafla laga um meðferð einkamála og verði hún því ekki lögð til grundvallar í málinu.

            Kveðst stefndi telja að um óhappatilviljun hafi verið að ræða sem stefndi beri ekki ábyrgð á og þá hafi hvorki stefndi né starfsmenn hans sýnt af sér gáleysi við afhendingu stálsins né tillitsleysi gagnvart hagsmunum stefnanda og því sé skilyrðum sakarreglunnar ekki fullnægt. 

            Stefndi kveðst og mótmæla því að hann beri ábyrgð á meintu rekstrartjóni stefnanda með vísan til laga um lausafjárkaup, nr. 50/2000. Allt beint tjón stefnanda hafi þegar verið bætt. Samkvæmt 2. mgr. 40. gr. laga um lausafjárkaup verði óbeint tjón ekki bætt nema tjón verði rakið til saknæmrar háttsemi seljanda. Auk áðurgreindra málsástæðna sem stefndi kveðst og byggja á í þessu sambandi, að breyttu breytanda, kveður stefndi engan samning, ekkert beint samningssamband, liggja fyrir milli sín og stefnanda. 

            Stefndi kveðst auk ofangreinds byggja á því að það sé verulega ósanngjarnt og í andstöðu við sjónarmið um orsakasamband og vávæni í skaðabótarétti ef hann verður látinn bera ábyrgð á svo ófyrirsjáanlegu og stjórnlausu tjóni sem stefnandi málsins kveðst hafa orðið fyrir. Bótaskylda hans gæti aldrei numið hærri fjárhæð en ábata hans af viðskiptunum.

Þá vísar stefndi til 19. gr. skaðabótalaga sérstaklega. Stefndu hafi verið með ábyrgðartryggingu sem stefnandi hafi fengið greitt úr og því geti ekki verið um frekari skaðabótakröfur að ræða af hálfu stefnanda. Stefndi kveðst og byggja á 24. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 um lækkun eða niðurfellingu bótaábyrgðar. Hlutverk stefnda og fjárhagslegir hagsmunir af viðskiptunum hafi verið mjög litlir í samhengi við meint tjón stefnanda auk þess sem tjónið yrði stefnda þungbært.

Um varakröfu sína kveðst stefndi vísa til lækkunarreglu 24. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, og þess að stefnandi hefði getað tryggt sig gegn tjóni af því tagi sem varð, en stefnda standi ekki til boða slíkar skaðatryggingar. Stefnandi hafi þegar fengið bætt frá tryggingafélagi framleiðslukostnað á fjórum tonnum af salti sem fór forgörðum.  Stefndi telur því að allt tjón stefnanda sé þegar bætt að verulegu eða öllu leyti.

            Vaxtakröfu stefnanda er mótmælt. Matsgerð í málinu hafi ekki borist fyrr en 24. júní 2017. Stefnda hafi því ekki verið kunn fjárhæð bótakröfunnar fyrr en í fyrsta lagi á þeim degi. Með vísan til 9. gr. vaxtalaga, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna, komi  greiðsla dráttarvaxta því ekki til álita fyrr en í fyrsta lagi frá 24. júlí 2017.

 

V

Helstu málsástæður stefnda Geislatækni ehf.

 

Stefndi Geislatæki ehf. kveður sýknukröfu sína byggjast einkum á því að skilyrði skaðabóta fyrir því óbeina tjóni sem málið snýst um séu ekki uppfyllt, hvorki utan eða innan samninga. Þá hafi stefndi aldrei viðurkennt bótaskyldu sína.

Stefndi kveðst byggja á því í fyrsta lagi að stefnandi sé ekki réttur aðili málsins, þar sem hann eigi ekki þá hagsmuni sem um er vélað, heldur þb. Saltverks Reykjaness ehf. Um sé að ræða aðildarskort sóknarmegin í málinu, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála sem leiða beri til sýknu.

Þá kveðst stefndi byggja á því að óbeint tjón falli ekki undir vernd skaðabótareglna ef um er að ræða tjón sem er mjög fjarlægt beina tjóninu, líkt og í tilfelli þessu, og óbeint tjón falli alls ekki undir vernd skaðabótareglna innan samninga nema vanefnd samnings sé að rekja til mistaka eða vanrækslu viðsemjanda. Kveðst stefndi byggja á því að tjón stefnanda sé ekki skaðabótaskylt af hálfu stefnda, hvort sem litið er til ábyrgðar utan eða innan samninga.

Hvað varðar skilyrði skaðabótaréttar utan samninga kveðst stefndi byggja á því að upp á sönnun skorti í málinu. Stefnandi hafi ekki fært sönnur á tjón sitt, bótagrundvöll né orsakatengsl milli tjónsins og hinnar bótaskyldu háttsemi. Þá eigi sjónarmið varðandi sérfræðiábyrgð ekki við, enda hafi stefndi enga ráðgjöf veitt við val eða útfærslu á umræddum göflum eða hvaða stál var valið í það. Þá hafi stefndi í engu vikið frá þeirri háttsemi sem með réttu skyldi viðhafa við smíði og pöntun efnis í umræddar gaflplötur og er því ekki um það að ræða að stefndi hafi valdið meintu tjóni með gáleysi eða ásetningi. Stefndi hafi unnið umbeðið verk í samræmi við pöntun og teikningar frá stefnanda án vandkvæða. Stefnandi virðist helst byggja á því að orsök hins meinta tjóns hafi verið röng afgreiðsla á stáli en gögn málsins beri með sér að þau mistök hafi átt sér stað hjá A og stefndi hafi ekkert að gera með þau mistök. Þá hefði stefndi með engu móti gert sér grein fyrir því að stálið var ekki þeirrar gerðar sem pantað hafði verið hjá meðstefnda. Stefndi hafi verið í góðri trú um að rétt stál væri í göflunum, en hann pantaði sannanlega stál af gerðinni 316 L af meðstefnda. Af þessu sé ljóst að ekki sé um neina saknæma háttsemi, mistök eða vanrækslu að ræða af hálfu stefnda og skilyrði skaðabótaábyrgðar því ekki uppfyllt í málinu.

Þá telur stefndi að framlögð matsgerð verði ekki lögð til grundvallar við sönnun tjóns stefnanda. Hún sé byggð á ótraustum og ónógum gögnum. Þá sé í matsgerðinni ekki tekið tillit til skyldu tjónþola til þess að takmarka tjón sitt. Verði því að telja matsgerðina þess eðlis að hún sé í andstöðu við meginreglur XII. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð einkamála. Stefnandi hafi því ekki sannað tjón sitt.

Þá kveðst stefndi byggja á því að það sé ósannað að hin meinta sök sé orsök hins meinta tjóns eða tjónið sennileg afleiðing sakarinnar. Í stefnu málsins virðist gengið út frá því sem gefnu að slík orsakatengsl séu fyrir hendi á milli meints tjóns og þess að afgreitt var stál af gerðinni 304 L í stað 316 L. Engin gögn liggi fyrir í málinu sem renni stoðum undir þá fullyrðingu. Matsgerð í málinu bæti ekki þar úr og verði því að telja fullyrðingar þess efnis í stefnu málsins ósannaðar. Ekki sé ljóst hvort komast hefði mátt hjá tjóninu með því að nota stál af gerðinni 316 L. Í öllu falli sé ljóst að fullyrðingar stefnanda um orsakatengsl séu ósannaðar og ekki studdar gögnum.

Loks kvaðst stefndi hafna því alfarið að hafa „fallist á mistök sín“. Stefndi hafi engin mistök gert í tengslum við umrædd viðskipti.

Hvað varðar málsástæður stefnanda er lúti að skaðabótaábyrgð stefnda á hinu meinta tjóni á grundvelli reglna um skaðabótaábyrgð innan samninga kveður stefndi ósannað að það stál sem afhent var hafi verið haldið galla í skilningi 17. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Stefndi hafi ekki sýnt af sér nokkra þá háttsemi sem virða mætti honum til sakar, mistaka eða vanrækslu og því eigi regla a-liðar 3. mgr. 40. gr. laga nr. 50/2002 um lausafjárkaup ekki við. Sömuleiðis geti stefnandi ekki byggt kröfu um bætur á hendur stefnda á reglu b-liðar 3. mgr. 40. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Ekki liggi fyrir í málinu nokkur samningur eða ábyrgðaryfirlýsing af hálfu stefnda þar sem stefndi heiti nokkru um eiginleika stálsins sem um ræðir eða ábyrgist nokkra eiginleika þess. 

Þá kveðst stefndi hafna upphafsdegi dráttarvaxtakröfu stefnanda. Umfang kröfunnar hafi ekki verið ljóst fyrr en að fenginni matsgerð í málinu 24. júní 2017 og samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu beri skaðabótakröfur dráttarvexti að liðnum mánuði frá þeim degi er kröfuhafi sannanlega lagði fram þær upplýsingar sem þörf var á til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta.

Varakröfu sína um lægri bótafjárhæð en krafist er kveðst stefndi byggja á því að matsgerðin ofmeti tjón stefnanda, og jafnframt á lækkunarheimild 24. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. 

 

VI

Skýrslur fyrir dómi

           

Aðalmeðferð málsins hófst með vettvangsgöngu í verksmiðju stefnanda í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp. Við aðalmeðferð málsins kom Jón Pálsson, stjórnarformaður og framkvæmdastjóri stefnanda, fyrir dóm og gaf aðilaskýrslu. Björn Steinar Jónsson, stjórnarmaður og starfsmaður stefnanda, gaf skýrslu gegnum síma við aðalmeðferð málsins.

Grétar Jónsson, framkvæmdastjóri stefnda Geislatækni ehf., kom einnig fyrir dóminn og gaf aðilaskýrslu. Í skýrslu hans kom fram að stefndi hefur í nokkur skipti selt stefnanda stál af gerðinni 316 L og skorið það til að óskum stefnanda. Í umrætt sinn hafi nefnt efni ekki verið til hjá stefnda og það því pantað af meðstefnda Metal ehf. Fyrirsvarsmaðurinn kvað engan sjáanlegan mun á þeim efnum sem um ræðir né fyndist munur á því við meðhöndlun þess. Efnin séu hins vegar jafnan merkt sérstaklega, sjálft stálið og eins umbúðirnar utan um efnið. Aðspurður staðfesti fyrirsvarsmaðurinn að efnið hefði verið merkt, en í þetta sinn hefðu merkingar þess verið á bakhliðinni og ekki gætt að því fyrr en eftir á, eftir að tjón stefnanda var komið fram. Þá hefði hann skoðað afskurð af stálinu og séð að það var merkt á bakhliðinni, þeirri hlið sem sneri niður við vinnslu efnisins, sem 304 L stál en ekki 316 L. Venjulega væru þessar merkingar á kanti plötu öðrum megin. Aðspurður upplýsti fyrirsvarsmaðurinn að hver plata vægi 72 kg og væri 1,5x 2 metrar að stærð. Sömuleiðis upplýsti fyrirsvarsmaðurinn að tjón stefnanda hefði verið bætt úr ábyrgðartryggingu stefnda Geislatækni ehf. en stefndu hefðu ákveðið að skipta sjálfsábyrgðinni hlutfallslega milli sín.

Pétur Smári Richardsson, stjórnarmaður og fyrirsvarsmaður stefnda Metal ehf., gaf einnig aðilaskýrslu við aðalmeðferð málsins. Hann upplýsti að stefndi Geislatækni hefði pantað stál af gerðinni 316 L frá stefnda Metal. Efnið hefði ekki verið til og því hefði hann keypt það af samkeppnisaðila sínum, A. Hann hefði látið sækja efnið þangað og sent það beint til meðstefnda. Þegar stefnandi hefði haft samband með efasemdir um að rétt efni hefði verið afhent hefði skoðun leitt í ljós að rangt efni hefði verið afgreitt frá A. Aðspurður um merkingar á stáli sem þessu kvað fyrirsvarsmaður plöturnar jafnan vera merktar með lotuframleiðslunúmeri.

Haraldur Valur Haraldsson, vélfræðingur, meistari í rennismíði og eigandi Vélsmiðju Sveins, gaf vitnaskýrslu gegnum síma við aðalmeðferð málsins. Hann staðfesti að enginn útlitsmunur væri á þeim efnum sem málið varðar, 304 L og 316 L stáli, en kvað efnið eiga að vera merkt. Vitnið upplýsti að hafa einu sinni ákveðið að notast við efnið 304 L í niðurfall fyrir stefnanda og það hefði tærst upp á afar skömmum tíma. Þá upplýsti vitnið að suður í varmaskipti fyrir stefnanda hefðu allar verið unnar af sama suðumanni og framkvæmdar á sama hátt frá öndverðu, fyrir þá 32 varmaskipta sem smíðaðir hefðu verið fyrir stefnanda. Suður voru sýruþvegnar en eingöngu á utanverðum varmaskiptum, þ.e.a.s. því yfirborði varmaskiptanna sem saltpækill er í tengingu við. Allir varmaskiptarnir hefðu enst vel utan þeirra sem smíðaðir voru úr 304 L stálinu sem afhent var í umrætt sinn.

Vitnið Þórhallur Óskarsson, fyrrverandi sölustjóri A, gaf símaskýrslu í málinu. Vitnið kannaðist við að fyrir mistök hefði rangt stál verið afgreitt frá fyrirtækinu til stefnda Metal ehf. í það sinn sem málið varðar, þ.e. 304 L í stað 316 L stáls. Vitnið kvað engan útlitsmun vera á efninu og því yrði að reiða sig á merkingarnar á því. Aðspurt kvaðst vitnið hafa starfað við sölu stáls frá 1994. Vitnið kvað stál jafnan merkt þannig að prentuð væri rönd á stálið öðrum megin á hverja stálplötu. Fátítt væri að slíkar merkingar vantaði. Slíkar merkingar ættu ekki að mást af nema mögulega við sýruþvott.

Sigrún Guðmundsdóttir endurskoðandi kom fyrir dóminn og staðfesti matsgerð sína í málinu. Matsmaður gerði grein fyrir vinnu sinni að matsgerðinni, öflun gagna og hvernig aðilar málsins hefðu sammælst um heimildir matsmanns til frekari gagnaöflunar milli funda, sem matsmaður taldi nauðsyn bera til. Þá áréttaði matsmaður að sérstakt vinnulag hefði verið viðhaft vegna meðhöldunar trúnaðarupplýsinga úr bókhaldi stefnanda, þ.e. upplýsinga sem vörðuðu samkeppnismál félagsins. Matsmaður gerði grein fyrir forsendum matsins og ástæðu þess að valin var sú leið að meta rekstrartjón stefnanda með eins konar meðaltalsleið. Með því móti væri tekið tillit til annarra óvissuþátta í rekstri stefnanda og í raun væri sú aðferð varfærin og hagfelldari matsþola en matsbeiðanda.

Vitnin Elvar Guðmundsson, starfsmaður Tryggingamiðstöðvarinnar, og Aðalsteinn Aðalsteinsson, verkfræðingur hjá Nýsköpunarmiðstöð, gáfu einnig skýrslu gegnum síma við aðalmeðferð en ekki þykir ástæða til að rekja framburð þeirra sérstaklega.

 

VI

Niðurstaða

 

Um bótaábyrgð

Stefndu byggja báðir sýknukröfur sínar í fyrsta lagi á því að stefnandi sé ekki réttur aðili málsins, með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 302/2016, og því beri að sýkna þá af kröfum stefnanda. Að mati dómsins verður ekki á það fallist. Niðurstaða þess dóms hefur ekki bein réttaráhrif á þann ágreining sem hér er til meðferðar, enda varðar það dómsmál deilu annarra lögaðila en hér eiga hlut að máli.

 

            Stefndu byggja einnig á því að þeir beri ekki bótaábyrgð á tjóni stefnanda, skilyrðum bótaskyldu sé ekki fullnægt og sönnun skorti þar um sem og fyrir tjóni stefnanda, hvort sem litið sé til reglna skaðabótaréttar utan eða innan samninga.

Í máli þessu er óumþrætt að mistök urðu í árslok 2013, við afhendingu stáls sem stefnandi keypti af stefnda Geislatækni ehf. En þá fékk stefnandi afhentar stálplötur af gerðinni 304 L en ekki 316 L, eins og um var beðið. Stálið útvegaði stefndi Geislatækni ehf. hjá meðstefnda Metal ehf., sem aftur keypti það af fyrirtækinu A, sem ekki á aðild að máli þessu. Stefndi Geislatækni skar stálið niður að beiðni stefnanda og sendi til frekari vinnslu hjá Vélsmiðju Sveins ehf. þar sem efnið var soðið saman í varmaskipta sem stefnandi notar við starfsemi sína. Viðskipti sem þessi höfðu áður ítrekað átt sér stað milli aðila málsins án vandkvæða.

Að mati dómsins hefur verið upplýst að stefnandi varð fyrir tjóni vegna skemmda á nefndum varmaskiptum í kjölfar þessara viðskipta og að endursmíða þurfti varmaskiptana og farga fjórum tonnum af salti. Skemmdir þessar urðu vegna tæringar í göflum varmaskiptanna eftir aðeins tæplega tveggja mánaða notkun. Varmaskiptarnir eru staðsettir í forsuðuhólfum, þar sem þeir eru umluktir 60-70°C heitum sjó sem soðinn er niður til saltframleiðslu.

Stefnandi hefur byggt á því að orsök tjóns hans sé að rekja til stálsins sem smíðað var úr í þetta sinn og tjón hans því afleiðing þeirra mistaka sem fólust í afhendingu 304 L en ekki 316 L stáls. Á þessu beri stefndu ábyrgð, enda hafi þeir sýnt af sér saknæmt gáleysi í þessum viðskiptum. 

Eins og áður greinir liggur fyrir að stál af rangri gerð var afhent starfsmanni Metal ehf. sem afhenti það stefnda Geislatækni ehf. sem skar það niður eftir óskum stefnanda. Stefndu eru hvorir tveggja fyrirtæki sem gefa sig út fyrir að hafa áralanga reynslu af sölu og vinnslu á stáli. Þá liggur og fyrir að aðilar málsins höfðu átt sams konar viðskipti um kaup og vinnslu á stáli frá því að stefnandi hóf starfsemi sína eða í rúm fimm ár. Stefnandi hefur keypt stál til smíða á búnaði, sem stefndi Geislatækni ehf. hefur skorið, og eftir atvikum útvegað efnið sjálfur eða keypt það frá meðstefnda.

Fyrirsvarsmaður Geislatækni ehf., Grétar Jónsson, upplýsti fyrir dómi að í umrætt sinn hefði ekki verið gengið úr skugga um það sérstaklega hvort um stál af gerðinni 316 L hefði verið að ræða. Stálplöturnar hefðu snúið þannig, þegar unnið var með þær, að merkingarnar sneru niður. Fyrst eftir að stefnandi hefði haft samband vegna tæringar í varmaskiptunum hefði komið á daginn að um annað stál en pantað var hefði verið að ræða. Afskurður af plötunum hefði m.a. leitt það í ljós. Hefur stefndi Geislatækni ehf. því viðurkennt að hafa í umrætt sinn ekki gætt þeirrar varkárni sem hann endranær kveðst viðhafa við vinnu sína, og það þrátt fyrir að hafa vitað að efnin verða ekki greind í sundur í sjón eða við meðhöndlun. Þá verður það ekki virt stefnda til afsökunar að plöturnar hafi verið merktar á bakhliðinni enda engin frágangssök að þurfa að snúa plötunum við til þess að kanna merkingar. Í þessu samhengi er vert að árétta að vitni hafa borið um það fyrir dómi að merkingar sé jafnan að finna á stálplötum eins og þeim sem hér um ræðir og ætla verður að það sé ekki að ástæðulausu. Stefnda Geislatækni hefði því verið rétt og mögulegt án verulegra vandkvæða að ganga úr skugga um hvaða efni hann var að vinna með. Að mati dómsins er sýnt að stefndi sýndi ekki af sér þá aðgæslu sem honum bar og ætlast má til af fyrirtæki með þá reynslu og þekkingu sem stefndi gefur sig út fyrir að hafa. Verður því fallist á það með stefnanda að stefndi Geislatækni hafi sýnt af sér svo verulegt gáleysi að það verði virt honum til sakar.

Líkt og rakið hefur verið var aðkoma stefnda Metal ehf. að viðskiptum þessum sú að félagið seldi stefnda Geislatækni umbeðið stál, sem stefndi Metal ehf. keypti frá þriðja aðila. Ekkert sérstakt samningssamband var því milli stefnanda og stefnda Metal ehf. Í ræðu lögmanns stefnda Metal ehf. við aðalmeðferð málsins kom fram að sýknukröfur stefnda Metal ehf. byggðust ekki á aðildarskorti varnarmegin. Verður því að mati dómsins ekki litið öðruvísi á en svo að stefndi Metal hafi de facto fallist á samábyrgð sína á þeim mistökum sem gerð voru við afhendingu stálsins.

            Í skýrslutökum við aðalmeðferð málsins kom fram að 316 L stál hafi verið notað til smíða fyrir stefnanda frá árinu 2013 eða í meira en fimm ár við góða reynslu og engar skjótar eða alvarlegar tæringarskemmdir hafi átt sér stað. Í vettvangsgöngu um verksmiðju Saltverks ehf., við upphaf aðalmeðferðar, var athygli dómsins vakin á tæringu á 316 L stáli í fimm ára gömlum pönnum sem hafði verið lagfærð með bót.  Umfang tæringarinnar var ekki mikið og verður að telja það góða endingu. Er það og í samræmi við aðra reynslu stefnanda af notkun 304 L stáls í vinnslutæki sín eins og fram kom hjá vitnum í málinu. 

Álagstæring er form tæringar sem verður til vegna samverkandi þátta. Tæringarhraði verður hins vegar misjafnlega mikill þegar áhrifaþættirnir breytast. Í þessu tilviki verður ekki litið framhjá því að eini eða stærsti áhrifaþátturinn sem breyttist í umrætt sinn var sá að notað var stál af gerðinni 304 L en ekki 306 L. Stáltegundin 316 L hefur meira tæringarþol en 304 L. Almennt gildir að 316 L þolir álagstæringu við talsvert hærri hita en 304 L við annars sömu aðstæður. Tæringarþol 316 L er að mati dómsins sennilega viðunandi fyrir þær aðstæður sem eru í framleiðsluferli stefnanda því að flestir varmaskiptanna hafa verið í notkun í nokkur ár án þess að rekstarstöðvun hafi orðið vegna tæringar í þeim. Af gögnum málsins og vitnaskýrslum má hins vegar álykta að tæringarhraði 304 L sé mun hraðari en tæringarhraði 316 L stálsins í framleiðsluferli stefnanda. Hröð tæring 304 L gafla frá nóvember 2013 til janúar 2014, þ.e.a.s. á aðeins tæplega tveggja mánaða rekstartíma, hefði því að mati dómsins mjög líklega ekki átt sér stað ef gaflar úr 316 L hefðu verið notaðir í stað 304 L stáls. Þrátt fyrir að ýmis atriði hafi áhrif á tæringu þeirra málma sem hér um ræðir, og aðstæður hjá stefnanda séu um margt sérstakar, mikill hiti og selta umlyki tæki hans, er það mat dómsins að meginorsök skjótrar tæringar frá nóvember 2013 til janúar 2014 og afleidds tjóns sé að rekja til afhendingar og notkunar á 304 L stáli í vinnuslutæki stefnanda í stað 316 L stáls. Verður því fallist á það með stefnanda að beint orsakasamband sé milli afhendingar hins ranga efnis og skjótrar og óvæntrar bilunar í tækjabúnaði hans. Vegna þess varð stöðvun á rekstri stefnanda, meðan úr var bætt, og varð stefnandi af tekjum á þeim tíma. Verður því ekki litið öðruvísi á en að það tjón hafi verið sennileg afleiðing vanrækslu stefndu. Verður því fallist á að stefndu beri bótaábyrgð á fjárhagstjóni stefnanda á grundvelli almennra reglna skaðabótaréttar utan samninga. Af þeirri ástæðu er að mati dómins ekki þörf á að taka sérstaklega afstöðu til sakarábyrgðar stefndu á grundvelli reglna um skaðabætur innan samninga, eða á grundvelli laga um lausafjárkaup nr. 50/2000.

            Krafa stefnanda um bætur byggist á matsgerð dómkvadds matsmanns sem staðfest var fyrir dómi. Samkvæmt matsgerðinni var óumdeilt af aðilum að truflun hefði orðið á framleiðsluferli stefnanda á tímabilinu frá 9. nóvember 2013 til 15. febrúar 2014. Taldi matsmaður að framleiðslutölur sýndu þó greinilegar rekstrartruflanir yfir lengri tíma og mætti ætla að rekstrartruflana hefði gætt allt árið 2014. Vegna þess hversu sveiflukennd framleiðsla stefnanda væri endranær, vegna ólíkra þátta, hefði rekstrartjón stefnanda verið metið með eins konar meðaltalsleið og í því efni litið til áranna 2013 og 2015. Var niðurstaða matsmannsins sú að óbætt rekstrartjón stefnanda næmi 7.857.970 krónum. Mati þessu hefur ekki verið hnekkt með yfirmati, sbr. 64. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, og verður matið því lagt til grundvallar um tjón stefnanda. Þykir rétt að fallast á kröfur stefndu um að bótafjárhæð stefnanda beri vexti frá 24. júlí 2017, eða mánuði eftir að fjárhæð bótakröfunnar varð ljós.

            Eftir þessum úrslitum verður stefndu gert að greiða stefnanda 3.500.000 krónur í málskostnað.

            Af hálfu stefnanda flutti málið Grímur Sigurðarsson lögmaður. Af hálfu stefnda Geislatækni ehf. flutti málið Ívar Þór Jóhannsson lögmaður en af hálfu stefnda Metal ehf. Einar Farestveit lögmaður.

            Dóm þennan kveða upp Bergþóra Ingólfsdóttir, dómstjóri og dómsformaður, Ástráður Haraldsson héraðsdómari og Andri Ísak Þórhallsson efnaverkfræðingur.  Dómsformaður tók við málinu 17. janúar 2018, en hafði fram að því ekki komið að meðferð þess.

 

DÓMSORÐ:

Stefndu, Geislatækni ehf. og Metal ehf., greiði stefnanda, Saltverki ehf., in solidum 7.857.970 krónur, ásamt dráttarvöxtum frá 24. júlí 2017 til greiðsludags, skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og 3.500.000 krónur í málskostnað.

 

Bergþóra Ingólfsdóttir

 

Ástráður Haraldsson                                                   Andri Ísak Þórhallsson