• Lykilorð:
  • Lögreglumenn
  • Rán
  • Tolllagabrot

D Ó M U R

Héraðsdóms Vesturlands 2. maí 2019 í máli nr. S-61/2018:

Ákæruvaldið

(Emil Sigurðsson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Jóni Gísla Sigurðssyni

(Stefán Karl Kristjánsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 27. mars 2019, höfðaði lögreglustjórinn á Vesturlandi með ákæru, dags. 20. september 2018, á hendur ákærða, Jóni Gísla Sigurðssyni, til heimilis að Akurgerði 10, Akranesi, „fyrir eftirtalin brot:

1. Lyfja-, lyfsölu- og tollalagabrot, með því að hafa miðvikudaginn 21. febrúar 2018 haft í vörslum sínum 10 ml. af Testosteron stungulyfi sem hann vissi eða mátti vita að væri ólöglega innflutt til landsins og lögreglan fann við leit í bakpoka ákærða.  

 

Telst þetta varða við 1. mgr. 7. gr., 1. mgr. 20. gr., 32. gr. og 34. gr., sbr. 1. mgr. 49. gr. lyfjalaga nr. 93/1994, sbr. 5. mgr., sbr. 1. og 2. mgr., 51. gr., sbr. 1. mgr. 68. gr. lyfsölulaga nr. 30/1963 og 1. mgr. 171. gr., sbr. 169. gr. tollalaga nr. 88/2005.

 

2. Lögreglulagabrot, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 15. apríl 2018 í Hafnarstræti í Reykjavík, ekki sinnt fyrirmælum lögreglumanna um að stöðva og ræða við þá en ákærði reyndi að hlaupa frá lögreglumönnum.

 

Telst þetta varða við 19. gr. sbr. 41. gr. lögreglulaga nr.  90/1996, með síðari breytingum.

 

3. Fjársvik, með því að hafa laugardagskvöldið 5. maí 2018 í félagi með B..., kt. ..., blekkt starfsfólk Pizza Hut við Hagasmára 1 í Kópavogi, er þeir pöntuðu og neyttu þar veitinga að andvirði 7.230 kr., vitandi að þeir gætu ekki greitt fyrir þær.

 

Telst þetta varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

4. Lögreglu-, lyfja-, lyfsölu- og tollalagabrot með því að hafa, í framhaldi af því atviki sem vísað er til í ákærulið 3, ekki sinnt fyrirmælum lögreglumanna um að stöðva og ræða við þá en ákærði reyndi að hlaupa frá lögreglumönnum og haft í vörslum sínum í 2 ml af Testosteron stungulyfi, sem hann vissi eða mátti vita að væri ólöglega innflutt til landsins og lögreglan fann við leit á ákærða í framhaldi af handtöku hans.

 

Telst þetta varða við 19. gr. sbr. 41. gr. lögreglulaga nr.  90/1996, með síðari breytingum og 1. mgr. 7. gr., 1. mgr. 20. gr., 32. gr. og 34. gr., sbr. 1. mgr. 49. gr. lyfjalaga nr. 93/1994, sbr. 5. mgr., sbr. 1. og 2. mgr., 51. gr., sbr. 1. mgr. 68. gr. lyfsölulaga nr. 30/1963 og 1. mgr. 171. gr., sbr. 169. gr. tollalaga nr. 88/2005.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er þess krafist að 12 ml af Testosteron stungulyfi, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins, verði gerð upptæk með dómi samkvæmt 3. mgr. 49. gr. lyfjalaga nr. 93/1994, 2. mgr. 68. gr. lyfsölulaga nr. 30/1963 og 1. mgr. 181. tollalaga nr. 88/2005.“

 

Með framhaldsákæru, dags. 15. nóvember 2018, gerði ákærandi viðbót við framangreinda ákæru til að bæta úr augljósri villu á þann veg að á eftir orðunum „miðvikudaginn 21. febrúar 2018“ í ákærulið 1 komi orðin „að Akurgerði 10 á Akranesi.“

 

Með ákæru, dags. 9. október 2018, var sakamál, sem fékk númerið S-68/2018 hjá dóminum, höfðað af héraðssaksóknara á hendur ákærða og var það mál sameinað máli þessu í þinghaldi 15. nóvember 2018. Í því ákæruskjali er ákærða gefið að sök rán og sérstaklega hættuleg líkamsárás með því „að hafa miðvikudaginn 2. maí 2018 á Grindarvíkurvegi slegið B... ítrekað í höfuðið með krepptum hnefa, þrengt að hálsi hans með bílbelti, slegið hann í höfuðið með bjórflösku, sparkað ítrekað í líkama hans er hann lá á jörðinni og hótað honum lífláti og þannig neytt B... til að afhenda sér Iphone 6s plus farsíma. Af þessu hlaut B... áverkamerki í andliti og yfir gagnauga hægra megin, mar og hrufl og far á hálsi sem var meira hægra megin.

 

Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. og 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

Einkaréttarkrafa:

Af hálfu B..., fd. ..., er gerð krafa um að ákærða verði gert að greiða honum skaða- og miskabætur, að fjárhæð kr. 1.950.000 með vöxtum skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 2. maí 2018 þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að teknu tilliti til virðisaukaskatts. “

 

Við upphaf aðalmeðferðar 27. mars sl. var af hálfu ákæruvaldsins fallið frá 3. lið í ákæru, dags. 20. september 2018, er varðar meint fjársvik. Þá var einnig fallið frá heimfærslu brota samkvæmt 1. og 4. lið sömu ákæru sem brota gegn lyfjalögum og lyfsölulögum. Samkvæmt því er brot skv. 1. lið ákærunnar aðeins talið varða við tollalög og brot skv. 4. lið talið varða við tollalög og lögreglulög.

 

Að þessu gættu hefur ákærði fyrir dómi skýlaust játað að hafa framið þau brot sem honum eru gefin að sök samkvæmt ákæru, dags. 20. september 2018, og krefst hann vægustu refsingar vegna þeirra brota. Þar sem sú játning ákærða er studd sakargögnum verður hann sakfelldur fyrir þá háttsemi sem lýst er í framangreindri ákæru, að teknu tilliti til framangreindra breytinga, en hún telst þar réttilega færð til refsiákvæða.

 

Ákærði neitar hins vegar sök samkvæmt ákæru, dags. 9. október 2018, og hafnar bótakröfu. Krefst ákærði þess að hann verði sýknaður af þessari ákæru, en til vara að honum verði gerð vægasta refsing sem lög leyfi. Þá krefst hann frávísunar á bótakröfunni en til vara að hún verði lækkuð verulega. Loks krefst hann þess að allur sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð, þ.m.t. hæfileg málsvarnarlaun.

 

Ákæra 9. október 2018

Málsatvik

Samkvæmt frumskýrslu lögreglu voru lögreglumenn að morgni miðvikudagsins 2. maí 2018 að aka út úr Grindavík þegar B..., brotaþoli máls þessa, stöðvaði för þeirra. Segir í skýrslunni að hann hafi verið grátandi og virst í mjög miklu uppnámi. Hafi því verið erfitt að skilja hann en einnig vegna þess að hann talaði ensku. Hafi hann greint frá því að hann væri ökumaður bifreiðarinnar ... og að ungt par hefði ráðist á hann, rænt farsímanum hans og svo hlaupið í burtu.

 

Í skýrslunni kemur og fram að lögreglumennirnir hafi skömmu áður tekið eftir pari á göngu í Grindavík og því ekið til baka og náð tali af þeim. Að því búnu hafi lögreglumennirnir snúið til baka á ný til að ræða betur við brotaþola og verið komnir að hringtorginu við Gerðatorg og Víkurbraut þegar ákærði hafi komið hlaupandi að lögreglubifreiðinni. Hafi hann sagt að ráðist hefði verið á hann af skutlara sem hefði verið að aka honum og kærustunni til Grindavíkur. Á sama tíma hafi brotaþoli komið að og sagt lögreglu að þetta væri sá sem hefði ráðist á sig. Ákærði hafi sjáanlega verið í annarlegu ástandi, ör og talað samhengislaust. Hafi hann þá verið settur í handjárn og inn í lögreglubifreiðina til frekari viðræðna.

 

Lögreglan ræddi nánar við brotaþola, sem sagðist hafa verið að aka pari frá Reykjavík til Grindavíkur. Þau hefðu haft samband við hann í gegnum skutlara-síðu á Facebook um kl. 5 um nóttina. Hann hefði þá náð í þau og lagt af stað til Grindavíkur. Kom fram hjá brotaþola að stúlkan hefði setið í farþegasætinu að framan en ákærði í farþegasætinu fyrir aftan ökumannssætið. Stúlkan hefði verið í annarlegu ástandi. Hefði hún drukkið bjór, auk þess sem ákærði hefði gefið henni kókaín til að halda henni vakandi. Ákærði hefði einnig verið að taka inn kókaín. Þegar þau hefðu komið til Grindavíkur hefði ákærði byrjað að berja hann ítrekað í höfuðið með krepptum hnefa og hótað að drepa hann. Brotaþoli kvaðst ekki vita hversu oft ákærði hefði slegið hann í höfuðið. Kvaðst brotaþoli hafa stöðvað aksturinn en ákærði þá tekið öryggisbeltið og þrengt að hálsi hans. Ákærði hefði svo tekið farsímann hans og kveikjulykla bifreiðarinnar og hlaupið út úr bílnum. Kvaðst brotaþoli hafa misst meðvitund í smátíma en svo séð að ákærði og stúlkan ætluðu að hlaupa í burtu. Kvaðst brotaþoli þá hafi farið úr bifreiðinni og ætlað að hlaupa á eftir þeim en stúlkan þá látið hann hafa kveikjuláslyklana og hlaupið svo í burtu ásamt ákærða.

 

Loks kemur fram í skýrslu lögreglu að eftir að hafa rætt við brotaþola hafi lögreglan handtekið ákærða vegna gruns um líkamsárás og þjófnað. Hafi ákærði sagst hafa verið að koma frá Reykjavík og fengið far með skutlara, sem hann hefði fengið samband við í gegnum Facebook. Þegar þau komu til Grindavíkur hafi ákærði farið út úr bifreiðinni. Skutlarinn hefði þá komið á eftir honum og kýlt hann í andlitið.                  

  

Í málinu liggur fyrir læknisvottorð frá bráðamóttöku Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja vegna komu brotaþola þangað umræddan dag, hinn 2. maí 2018, og segir þar m.a: „Mjög andlega niðri fyrir. Grætur í samtali og á erfitt með að lýsa atburðum. Áverkamerki í andliti og yfir gagnauga hægra megin, mar og smá hrufl. Verkir við þreifingu þar yfir. Ekki verkir við þreifingu á öðrum beinum höfuðs. Ekki verkir við þreifingu á beinum útlima eða búks. Er með far á hálsi, meira hægra megin sem samsvarar bílbelti. Taugaskoðun eðlileg hvað varðar heilataugar og kraft og skin í útlimum. Klárlega áfall fyrir hann, er með sögu um kvíða og tekur cipralex (þunglyndis og kvíðalyf) að hans sögn.“

 

Skýrslur fyrir dómi

Ákærði lýsti atvikum á þann veg að hann hefði verið með kærustu sinni í miðbæ Reykjavíkur, þegar kærastan hefði hringt í skutlara og beðið um að þau yrðu sótt við Hallgrímskirkju. Skutlarinn hefði svo ekið þeim til Keflavíkur og síðan til Grindavíkur. Þar hefði hann ekið inn í botnlanga og stöðvað bifreiðina þar. Hefði ökumaðurinn þá ráðist á hann og slegið hann í höfuðið þegar hann fór út úr bifreiðinni. Nánar spurður út í þetta kvaðst ákærði ekki hafa neina skýringu á því hvers vegna maðurinn hefði ráðist svona á hann. Ákærði kvaðst hins vegar hafa hlaupið í burtu en ökumaðurinn þá kastað steini í áttina að honum. Ákærði kvaðst hafa séð lögreglubíl, hlaupið að honum og sagt að maður væri að elta sig. Aðspurður kvað ákærði engin átök hafa átt sér stað inni í bílnum og að hann hefði enga skýringu á þeim áverkum sem brotaþoli hlaut í greint sinn. Hins vegar hefði einnig verið með þeim í bifreiðinni maður sem þau tóku upp í á Miklubrautinni. Lýsti ákærði ástandi sínu þannig að hann hefði verið búinn að drekka, auk þess að vera undir áhrifum kókaíns.

 

Brotaþoli lýsti atvikum þannig að umrædda nótt hefði hann hitt par í miðbænum. Kvað hann stúlkuna hafa beðið hann um að aka þeim til Keflavíkur og boðið honum tíu þúsund krónur fyrir. Þau hefðu á leiðinni sagst þurfa að sækja einn til viðbótar  og að hann myndi fá greitt meira fyrir það. Hefðu þau komið við á einhverjum stað, tekið mann þennan upp í og haldið áfram til Keflavíkur. Á leiðinni hefði stúlkan verið orðin verulega drukkin. Hún hefði þurft endurtekið að kasta upp og hefði hann þurft að stöðva bílinn ítrekað vegna þess. Ákærði hefði fengið sér kókaín endurtekið á leiðinni, auk þess sem hann hafi þvingað stúlkuna til að fá sér kókaín aftur og aftur. Er brotaþoli hefði beðið þau um að gera það ekki í bílnum hefði ákærði orðið ergilegur og sagt honum að þegja og halda áfram. Þegar þau hefðu komið til Keflavíkur hefði ákærði sagt að þau yrðu að fara til Grindavíkur og þau þá snúið við og haldið þangað. Þegar þau komu til Grindavíkur hefði ákærði sagt honum að aka inn tiltekna götu. Á þeim tíma hefðu ákærði, kærastan og vinurinn öll verið í aftursætinu. Þegar þau hefðu komið að enda götunnar hefði ákærði rifið í bílbeltið og þrýst því að hálsi hans þannig að það rispaði hálsinn á honum. Síðan hefði ákærði byrjað að lemja hann í andlitið, hægra megin, öskra á hann og rífa í föt hans. Hann hefði orðið hræddur því að hann hefði vitað að hann gæti ekki varið sig. Ákærði hefði hótað því að vinir hans væru á leiðinni og myndu drepa hann. Kvaðst brotaþoli þá hafa hlaupið í burtu og reynt að flýja. Ákærði hefði hins vegar náð honum, fellt hann í jörðina og lamið hann þar sem hann lá. Stúlkan hefði rifið í hár hans, en hinn maðurinn hefði ekkert gert honum. Ákærði hefði elt hann upp á veg, reynt að taka upp grjót til að kasta í hann, en ekki getað það. Ákærði hefði sparkað í kvið hans. Ákærði hefði tekið af honum símann, bíllyklana og peninga. Brotaþoli kvaðst hafa beðið ákærða um að láta sig fá símann sinn og lyklana að bílnum. Hann hefði sagt ákærða að það væru peningar í bílnum sem hann gæti fengið en hann vildi fá símann og lyklana aftur. Hann kvaðst hafa grátið og kallað á hjálp. Hann hefði þá séð lögregluna og beðið þá um hjálp. Lögreglan hefði þá farið að leita að ákærða og handtekið hann. Aðspurður kvað hann ákærða hafa tekið símann sinn. Er brotaþoli var spurður nánar út í framburð sinn í skýrslu hjá lögreglu kvað hann rétt að ákærði hefði slegið hann með bjórflösku í höfuðið. Brotaþoli kvað umræddan atburð hafa haft mjög miklar slæmar afleiðingar fyrir hann og breytt lífi hans til hins verra á margan hátt. Væri hann af völdum árásarinnar haldinn stöðugum kvíða og hræðslu og þyrfti að taka inn verkja- og kvíðastillandi lyf.

 

Vitnið D... kvaðst umrætt sinn hafa verið í „blackouti“ og myndi því nánast ekkert eftir umræddri ferð og atvikum að öðru leyti. Kvaðst hún muna eftir að hafa á leiðinni tekið inn einhverjar bleikar töflur og drukkið bjór. Kvaðst hún ekki muna eftir neinum átökum.

 

 E... lögreglukona lýsti atvikum þannig að umrædda nótt hefði hún ásamt annarri lögreglukonu verið að ljúka vakt og verið á leið frá Grindavík. Þær hefðu þá séð mann úti í vegkanti sem veifaði eftir hjálp. Hefði maðurinn skýrt þeim frá því að hann hefði verið að skutla pari frá Reykjavík til Grindavíkur þegar parið hefði rænt hann og lamið og síðan hlaupið í burtu. Vitnið sagði lögreglukonurnar hafa farið af stað til að leita að parinu, en án árangurs. Þegar þær hefðu komið til baka hefði ákærði komið til þeirra og lýst því að brotaþoli hefði lamið sig. Þær hefðu hins vegar handtekið ákærða vegna gruns um líkamsárás og þjófnað. Í lögreglubílnum hefði hann verið mjög órólegur, ofandað og verið að missa meðvitund. Þá hefðu þær kallað eftir sjúkrabíl. Kærastan hans hefði síðan komið gangandi og rætt við hina lögreglukonuna fyrir utan bílinn. Þar hefði kærastan misst meðvitund. Hefðu þau bæði verið flutt á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Lýsti vitnið því að ákærði hefði verið í mjög annarlegu ástandi, verið með froðu í munnvikunum og undir miklum áhrifum einhverra efna. Sagði hún að brotaþoli hefði bent á ákærða á staðnum, og sagt hann vera þann sem hefði ráðist á sig. Engir sjáanlegir áverkar hefðu verið á ákærða, en hins vegar hefðu áverkar verið sjáanlegir á brotaþola. Þá hefði brotaþoli verið mjög hræddur. Hann hefði verið í mikilli geðshræringu, skjálfandi og titrandi, og grátið. Hefði hann lýst því að þegar þau komu til Grindavíkur hefði ákærði þrýst öryggisbeltinu að hálsi hans og tekið símann hans af honum. Hvorki síminn né peningar hefðu fundist á ákærða við leit. Síminn hefði hins vegar fundist en hún myndi ekki hvar. 

 

F... lögreglukona kvaðst í umrætt sinn hafa verið á leið út úr Grindavík ásamt samstarfskonu sinni er þær hefðu séð mann úti í vegkanti sem vakti athygli á sér. Þær hefðu stansað og spurt hann hvort allt væri í lagi. Þetta hefði verið  brotaþoli og hann hefði sagt þeim að par hefði ráðist á hann og tekið símann hans. Þær hefðu þá farið að leita að þessu pari en þegar þær voru að koma til baka hefði ákærði komið hlaupandi til þeirra í annarlegu ástandi og sagt að ráðist hefði verið á hann. Á sama tíma hefði brotaþoli komið þar að og sagt að ákærði væri sá sem hefði ráðist hann. Hún hefði þá reynt að ræða betur við brotaþola fyrir utan bílinn en þá hefði stúlka komið þarna að í mjög annarlegu ástandi. Þær hefðu kallað eftir sjúkrabíl og stúlkan hefði verið flutt með honum. Lýsti hún því að ákærði hefði verið að detta út í lögreglubílnum. Kvaðst hún ekki hafa séð neina áverka á ákærða og kvaðst ekki muna eftir áverkum á brotaþola, en hann hefði verið í mjög miklu uppnámi og nánast í taugaáfalli. Kvað hún brotaþola hafa sagst hafa skutlað parinu frá Hallgrímskirkju og að ákærði hefði á leiðinni verið að fá sér og gefa stúlkunni kókaín. Brotaþoli hefði lýst því að ákærði hefði ráðist á hann og m.a. slegið hann í höfuðið. Ákærði hefði svo tekið símann hans og lyklana og hlaupið út úr bílnum. Stúlkan hefði síðan rétt honum bíllyklana. Vitnið skýrði frá því aðspurt að ekkert hefði fundist við leit á ákærða.

 

G... læknir staðfesti áverkavottorð sem hann ritaði vegna áverka brotaþola. Hann kvaðst hins vegar ekki hafa sjálfur skoðað brotaþola í greint sinn heldur unnið vottorðið upp úr sjúkraskrá.

 

H... læknir kvaðst hafa skoðað brotaþola á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í greint sinn. Kom fram hjá honum að brotaþola hefði verið mikið niðri fyrir þegar skoðunin fór fram. Kvaðst hann ekki minnast þess að brotaþoli hefði kvartað um áverka annars staðar á líkamanum og hefði hann því ekki gert sérstaka skoðun á búk hans. Aðspurður kvaðst hann ekki treysta sér til að segja til um hvort brotaþoli hefði fengið mörg högg í höfuðið. Taldi hann brotaþola ekki hafa verið í lífshættu eftir þessi högg, en öll högg í höfuð gætu í sjálfu sér verið lífshótandi. Spurður hvort mar sé alltaf komið fram svo skömmu eftir áverka kvað hann það geta tekið tíma að birtast. Þá taldi hann lýsingar brotaþola á árásinni vel geta samræmst þeim áverkum sem á honum greindust. 

 

Niðurstaða

Ákærði hefur neitað sök vegna þeirrar háttsemi sem lýst er í ákæru þessari og borið því við að það hafi verið brotaþoli sem hafi ráðist á sig en ekki öfugt. Hér að framan hefur verið rakinn framburður brotaþola um það hvernig ákærði hafi ráðist á hann þegar hann var undir stýri bifreiðarinnar í greint sinn, og síðan einnig er hann var kominn út úr henni, hótað honum lífláti og neytt hann til að afhenda sér farsímann sinn. Er sú frásögn brotaþola að mestu í samræmi við það sem hann skýrði lögreglumönnum frá á vettvangi, eins og þeir hafa staðfest fyrir dómi. Fær sú frásögn og stuðning af læknisvottorði og framburði læknis um frásögn brotaþola af atburðum, ástand hans við skoðun og þá áverka sem greindust á honum strax í kjölfar umrædds atviks. Bar læknirinn og á þann veg að umræddir áverkar á höfði og hálsi brotaþola gætu vel samræmst lýsingu hans á því sem gerðist, en hins vegar hefði hann ekki skoðað hugsanlega áverka á öðrum stöðum líkamans þar sem brotaþoli hefði ekki kvartað undan verkjum þar. Er það mat dómsins að framburður brotaþola um atvik, sem hefur verið mjög á sama veg frá upphafi, hafi í alla staði verið mjög skýr og trúverðugur. Að sama skapi telur dómurinn að framburður ákærða hafi frá upphafi verið mjög óljós, óstöðugur og á engan hátt trúverðugur. Þannig bar hann á þann veg fyrir dómi að brotaþoli hefði ráðist á sig og slegið sig, eins og lögreglumenn báru um að hann hefði haldið fram á vettvangi. Hins vegar minntist hann ekki á slíka árás þegar hann gaf skýrslu hjá lögreglu síðar sama dag. Þá liggur fyrir, með framburði ákærða sjálfs og lögreglumannanna tveggja, að hann hafi í greint sinn verið undir verulegum áhrifum vímuefna. Að framangreindu virtu telur dómurinn að leggja megi framburð brotaþola til grundvallar við úrlausn málsins að því marki sem hann fær nægilega stoð í öðrum gögnum þess. Telur dómurinn því sannað, svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa, að ákærði hafi í greint sinn slegið brotaþola ítrekað í höfuðið með krepptum hnefa og þrýst bílbelti að hálsi hans. Hafi ákærði með ofbeldi sínu þvingað brotaþola til að láta af hendi tilgreindan farsíma hans af gerðinni Iphone, sem síðar fannst á lóð leikskóla í grennd við vettvang. Hins vegar telst, gegn eindreginni neitun ákærða, ósannað að ákærði hafi hótað brotaþola lífláti, slegið hann með bjórflösku og sparkað ítrekað í líkama hans er hann lá á jörðinni, eins og í ákæru greinir. Með framangreindum athugasemdum verður ákærði því sakfelldur fyrir rán, sbr. 252. gr. almennra hegningarlaga, eins og honum er gefið að sök í ákæru. Hins vegar þykir með hliðsjón af framansögðu ekki komin fram sönnun um að líkamsárás sú sem ákærði gerðist sekur um gagnvart brotaþola hafi verið svo hættuleg að háttsemi hans verði einnig felld undir 2. mgr. 218. gr. sömu laga. Verður ákærði því sýknaður af þeim sakargiftum.

Ákvörðun refsingar o.fl.

Samkvæmt fyrirliggjandi sakavottorði var ákærði hinn 25. september 2017 dæmdur í tveggja ára skilorðsbundið fangelsi fyrir brot gegn 211. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga. Vegna skilorðsrofs var ákærða gert, með vísan til 1. mgr. 59. gr. almennra hegningarlaga, að afplána þá refsingu með úrskurði uppkveðnum 13. júní 2018. Ákærði hefur í máli þessu verið sakfelldur fyrir ránsbrot skv. ákæru, dags. 9. október 2018, og fyrir að hafa í tvígang brotið gegn ákvæðum lögreglulaga og tollalaga, eins og nánar greinir í ákæru, dags. 20. september 2018, eftir fyrrgreindar breytingar sem sækjandi gerði á henni í upphafi aðalmeðferðar. Að þessu virtu, og með vísan til 77. gr. almennra hegningarlaga, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði.

 

Í málinu krefst brotaþoli, B..., þess að ákærði greiði honum samtals 1.950.000 krónur í miskabætur, auk tilgreindra vaxta. Með broti sínu felldi ákærði á sig skyldu gagnvart brotaþola til greiðslu miskabóta skv. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þykja þær bætur hæfilega ákveðnar 400.000 krónur, auk vaxta, eins og nánar greinir í dómsorði, en dráttarvextir greiðast frá 15. desember 2018, þegar mánuður var liðinn frá því að krafan var kynnt ákærða við þingfestingu málsins.

 

Með vísan til þeirra lagaákvæða sem greinir í ákæru, dags. 20. september 2018, verða gerð upptæk þau lyf sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

 

Ákærði greiði sakarkostnað samkvæmt sakarkostnaðaryfirliti og þóknun og ferðakostnað verjanda síns og réttargæslumanns brotaþola, á rannsóknarstigi og fyrir dómi, að meðtöldum virðisaukaskatti, svo sem í dómsorði greinir.

 

Ásgeir Magnússon dómstjóri kveður upp dóm þennan, en við uppkvaðningu hans var gætt ákv. 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómsorð:

Ákærði, Jón G. Sigurðsson, sæti fangelsi í 6 mánuði.

Ákærði sæti upptöku á 12 ml af testosteron stungulyfi.

Ákærði greiði B... 400.000 krónur með vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 2. maí til 15. desember 2018, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

 

Ákærði greiði útlagðan sakarkostnað að fjárhæð 32.032 krónur. Ákærði greiði og 700.000 króna þóknun og 32.560 króna ferðakostnað skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar lögmanns, og 530.000 króna þóknun og 38.880 króna ferðakostnað réttargæslumanns brotaþola, Halldóru Aðalsteinsdóttur lögmanns.

 

Ásgeir Magnússon