• Lykilorð:
  • Nauðungarsala

 

Ú R S K U R Ð U R

Héraðsdóms Vesturlands 18. desember 2017 í máli nr. Z-2/2017:

Jóhanna Baldursdóttir

(Ágúst Ólafsson hdl.)

gegn

Arion banka hf.

                                                (Erla Arnardóttir hdl.)

 

 

I.

Mál þetta barst dóminum 6. mars 2017 með bréfi lögmanns sóknaraðila, dags. 4. sama mánaðar. Málið var þingfest 21. mars 2017 og tekið til úrskurðar 10. nóvember sl.

 

Sóknaraðili málsins er Jóhanna Baldursdóttir, Reynigrund 24, Akranesi. Varnaraðili er Arion banki hf., Borgartúni 19, Reykjavík.

 

Sóknaraðili krefst þess að nauðungarsala nr. 012-2012-94, sem fram fór hjá embætti sýslumannsins á Vesturlandi 6. febrúar 2017 á eigninni Reynigrund 24, Akranesi, fastanr. 210-2754, verði felld úr gildi. Einnig er krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi varnaraðila.

 

Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að umrædd nauðungarsala á fasteigninni Reynigrund 24, Akranesi, verði staðfest. Jafnframt krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að skaðlausu að mati dómsins.

 

II.

Hinn 1. desember 2003 gaf sóknaraðili út veðskuldabréf til Frjálsa fjárfestingarbankans hf. að fjárhæð 14.000.000 króna með veði í fasteign sóknaraðila að Reynigrund 24, Akranesi. Bréf þetta féll í vanskil 2. mars 2012 og í kjölfarið var skuldin gjaldfelld og greiðsluáskorun send til sóknaraðila. Þar sem ekki var orðið við henni fór bankinn fram á að hin veðsetta eign yrði seld nauðungarsölu til lúkningar skuld samkvæmt veðskuldabréfinu. Fyrsta fyrirtaka málsins fór fram hjá sýslumanninum á Vesturlandi 21. nóvember 2012 og var þar ákveðið að uppboð skyldi byrja á eigninni á skrifstofu sýslumanns 9. janúar 2013. Að ósk uppboðsbeiðanda var fyrirtöku þann dag frestað og málið þess í stað tekið fyrir 20. febrúar sama ár. Við fyrirtökuna þann dag var ákveðið að uppboði yrði fram haldið á eigninni sjálfri 18. mars s.á. Þann dag tilkynnti umboðsmaður skuldara að umsókn sóknaraðila um greiðsluaðlögun skv. lögum nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga hefði verið samþykkt. Í tilkynningunni var tekið fram að samkvæmt 11. gr. laganna hæfist tímbundin frestun greiðslna þann sama dag, en í því fælist meðal annars að óheimilt væri að fá eignir skuldara seldar nauðungarsölu og ætti bannið jafnframt við ef þegar hefði verið leitað eftir nauðungarsölu við upphaf greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. c-lið 1. mgr. 11. gr. laganna. Af þessum sökum varð ekkert af framhaldi uppboðsins, sem halda átti þann sama dag, og frekari meðferð nauðungarsölunnar frestaðist.

 

Með tölvubréfi til varnaraðila, dags. 7. nóvember 2016, tilkynnti umboðsmaður skuldara að máli sóknaraðila hjá embættinu hefði lokið hinn 27. október s.á. án samnings um greiðsluaðlögun. Kom þar og fram að frestun greiðslna skv. 11. gr. laga nr. 101/2010 teldist niður fallin frá og með þeim degi. Í kjölfar þessa var málið tekið fyrir á ný hjá sýslumanni til byrjunar uppboðs á eigninni hinn 12. janúar 2017. Uppboðinu var svo framhaldið á eigninni sjálfri 6. febrúar s.á. Kemur fram í endurriti úr gerðabók sýslumanns að lögmaður sóknaraðila hafi mótmælt því að nauðungarsalan næði fram að ganga á þeim forsendum að krafa varnaraðila væri ekki réttmæt, enda hefðu vextir og dráttarvextir verið reiknaðir á kröfuna á meðan sóknaraðili hefði verið í greiðsluskjóli frá 18. mars 2013 til 4. nóvember 2016. Kemur og fram að mótmæli sóknaraðila hafi ekki verið tekin til greina, uppboðinu fram haldið og að sóknaraðili hygðist skjóta ágreiningi til héraðsdóms.

 

Með heimild í lögum nr. 125/2008 ákvað Fjármálaeftirlitið 21. mars 2009 að taka yfir vald stofnfjárfundar SPRON, víkja stjórn sjóðsins frá og skipa skilanefnd yfir hann. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitisins var enn fremur stofnað sérstakt hlutafélag, Drómi hf., kt. 710309-1670, sem tók við eignum SPRON og dótturfélaga sjóðsins, þ. á m. eignum Frjálsa fjárfestingarbankans hf. Varnaraðili fékk kröfu samkvæmt umræddu skuldabréfi framselda frá Dróma hf. hinn 31. desember 2013.

 

III.

Sóknaraðili byggir kröfu sína í fyrsta lagi á því að sýslumanni hafi borið að stöðva framgang nauðungarsölunnar, sbr. 3. mgr. 73. gr. laga um  nauðungarsölu nr. 90/1991, þegar eftir að lögmaður sóknaraðila hafi lýst því yfir við sýslumann að sóknaraðili myndi leita úrlausnar héraðsdóms um gildi nauðungarsölunnar, sbr. 2. mr. 73. gr., á þeim grundvelli að varnaraðila væri óheimilt að reikna dráttarvexti á kröfuna á þeim tíma þegar sóknaraðili var í greiðsluskjóli.

 

Þá sé og á því byggt að varnaraðili sé ekki heimilt að krefjast dráttarvaxta fyrir það tímabil þegar sóknaraðili var í greiðsluskjóli.

 

Jafnframt telji sóknaraðili að brotið hafi verið gegn ákvæði 2. mgr. 27. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90/1991 við meðferð uppboðsmálsins hjá sýslumanni, en í ákvæðinu komi fram að allar framkomnar beiðnir um nauðungarsölu teljist sjálfkrafa niður fallnar hafi uppboð á eign ekki byrjað innan eins árs frá fyrstu fyrirtöku málsins, sbr. 21. gr. laganna. Óumdeilt sé að nauðungarsölumálið hafi fyrst verið tekið fyrir 20. febrúar 2013 og að nauðungarsalan á eigninni hafi farið fram 6. febrúar 2017.

 

IV.

Varnaraðili hafnar öllum málsástæðum sóknaraðila og kveður þær að engu hafandi. Þannig bendir hann í fyrsta lagi á að engin lagaheimild hafi staðið til þess að stöðva framgang nauðungarsölunnar þegar mótmæli sóknaraðila komu fram, enda hafi skilyrði fyrir úrlausn ágreinings um það hvort nauðungarsalan færi þá fram ekki verið uppfyllt. Þannig segi í 1. mgr. 73. gr. laga nr. 98/1991 að leita megi úrlausnar héraðsdómara samkvæmt fyrirmælum XIII. kafla laganna um ágreining sem rísi við nauðungarsölu, eftir því sem mælt sé fyrir um í öðrum ákvæðum laganna. Í þessu sambandi sé einnig á það bent að skv. 2. mgr. 73. gr. skuli sá sem vilji leita úrlausnar héraðsdómara lýsa því yfir við fyrirtöku sýslumanns á nauðungarsölunni þar sem sú ákvörðun kemur fram sem leita eigi úrlausnar á. Við fyrirtökuna hafi sóknaraðili mótmælt því að nauðungarsalan næði fram að ganga og haldið því fram að krafan væri ekki réttmæt. Virðist þetta hafa verið gert áður en nokkur ákvörðun hafi verið tekin af hálfu sýslumanns við uppboðið. Þegar svo hafi staðið á hafi sóknaraðila ekki verið stætt á að lýsa því yfir að leitað yrði úrlausnar héraðsdóms. Megi í þessu samhengi jafnframt hafa hliðsjón af ákv. 2. mgr. 22. gr. laganna, sem fjalli um ágreining sem verði við fyrstu fyrirtöku nauðungarsölubeiðni, en þar komi fram að að jafnaði skuli mótmæli af hendi gerðarþola ekki stöðva nauðungarsölu.

 

Í öðru lagi sé hafnað þeirri málsástæðu sóknaraðila að krafa varnaraðila samkvæmt nauðungarsölubeiðninni sé ekki rétt þar sem krafist sé dráttarvaxta á meðan sóknaraðili hafi verið í greiðsluskjóli. Liggi enda fyrir að þegar umsókn sóknaraðila um greiðsluaðlögun hefði verið samþykkt hinn 18. mars 2013 hefði beiðni varnaraðila þegar verið sett fram og málið komið á það stig að framhald uppboðs hafi verið fyrirhugað þann sama dag. Þá komi skýrlega fram í nauðungarsölubeiðninni að dráttarvextir hafi verið reiknaðir á tímabilinu 2. mars til 10. september 2012. Sé vandséð hvernig röksemdir sóknaraðila um útreikning dráttarvaxta að þessu leyti geti haft áhrif á úrlausn ágreinings í málinu, enda geti fyrst reynt á þetta við úthlutun söluverðs eftir nauðungarsölu fasteignarinnar skv. VIII. kafla laga nr. 90/1991.

 

Varnaraðili vísar og til þess að meðferð nauðungarsölubeiðninnar hafi frestast vegna atvika er varðað hafi sóknaraðila en ekki Frjálsa fjárfestingarbankann hf. eða varnaraðila. Á það sé bent að skv. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 90/1991 hafi sýslumaður heimild til að ákveða aftur hvenær uppboð byrji á eign, meðal annars ef aðgerðir við nauðungarsölu geta ekki farið fram vegna heimildar til greiðslustöðvunar eða nauðasamningsumleitana. Þá sé tiltekið í 2. mgr. 27. gr. að beiðnir um nauðungarsölu teljist ekki sjálfkrafa fallnar niður hafi aðgerðum við nauðungarsölu verið varnað með heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings, ef uppboðið byrjar innan sama tíma frá því að heimildin leið undir lok. Í því tilviki sem hér sé til umfjöllunar hafi sýslumaður ákveðið að uppboð á eigninni myndi byrja á ný hinn 12. janúar 2017, þ.e. eftir að frestun greiðslna sóknaraðila skv. 11. gr. laga nr. 101/2010 hafi fallið niður. Sé á því byggt að samþykki umboðsmanns skuldara á umsókn sóknaraðila um greiðsluaðlögun hafi jafngilt því að hann hafi, hvort heldur sem er, fengið heimild til greiðslustöðvunar eða nauðasamningsumleitana við kröfuhafa sína í skilningi framangreindra ákvæða laga nr. 90/1991. Sé í þessum sambandi bent á markmið laga nr. 101/2010, er geri einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu, þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð, með samningi við kröfuhafa, sbr. 1. gr. laganna.

 

Loks sé m.a. á því byggt að skv. 35. gr. laga nr. 90/1991 geti sýslumaður ákveðið án sérstakrar fyrirtöku um framhald uppboðs innan fjögurra vikna frá því að honum hafi orðið kunnugt um að óviðráðanleg atvik, sem komið hefðu í veg fyrir framkvæmd uppboðs, væru úr vegi. Í því tilviki sem hér sé til umfjöllunar hafi frestast framhald uppboðs, sem fyrirhugað hafi verið 18. mars 2013, vegna óviðráðanlegra atvika, þegar umsókn sóknaraðila um greiðsluaðlögun hafi verið samþykkt þann sama dag. Þráðurinn hafi svo verið tekinn upp að nýju þegar fyrir hafi legið að ekki yrði af samningi sóknaraðila um greiðsluaðlögun.

 

V.

Niðurstaða

Sóknaraðili byggir kröfu meðal annars á því að uppboðsbeiðni varnaraðila hafi verið fallin niður þegar til uppboðs á eign hans kom, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90/1991, þar sem byrjun uppboðs á eigninni hafi ekki hafist innan árs frá því að málið var fyrst tekið fyrir hjá sýslumanni, sbr. 21. gr. laganna.

 

Eins og áður er fram komið fór fyrsta fyrirtaka umrædds uppboðsmáls fram hjá sýslumanni 21. nóvember 2012. Var þá ákveðið að uppboð á eigninni skyldi byrja á skrifstofu sýslumanns hinn 9. janúar 2013, en þeirri fyrirtöku málsins var hins vegar frestað að ósk uppboðsbeiðanda og ákveðið að byrjun uppboðs skyldi fara fram 20. febrúar sama ár. Fór byrjun uppboðs fram þann dag en ákveðið var að uppboðinu yrði fram haldið 18. mars s.á. Framhaldi uppboðsins var svo frestað þann dag á grundvelli tilkynningar frá umboðsmanni skuldara um að umsókn sóknaraðila um greiðsluaðlögun skv. lögum nr. 101/2010 hefði verið samþykkt. Þegar svo umboðsmaður skuldara tilkynnti hinn 7. nóvember 2016 að máli sóknaraðila hjá embættinu hefði lokið án samnings um greiðsluaðlögun og að frestun greiðslna teldist því niður fallin var málið tekið fyrir á ný hjá sýslumanni. Í stað þess hins vegar að halda málinu áfram þar sem frá var horfið, og ákveða að nýju um framhald uppboðs innan fjögurra vikna, sbr. 2. málslið 1. mgr. 35. gr. laga nr. 90/1991, ákvað sýslumaður og tilkynnti sóknaraðila með bréfi, dags. 19. desember 2016, að byrjun uppboðs skyldi að nýju fara fram hinn 12. janúar 2017. Við byrjun uppboðsins þann dag var svo ákveðið að uppboðinu yrði fram haldið á eigninni sjálfri 6. febrúar s.á.

 

Eins og fyrr segir var framhaldi uppboðs á eign sóknaraðila frestað hinn 18. mars 2013, þar sem borist hafði þann sama dag tilkynning umboðsmanns skuldara um að umsókn sóknaraðila um greiðsluaðlögun skv. lögum nr. 101/2010 hefði verið samþykkt og að í því fælist meðal annars að óheimilt væri að selja eignir skuldara nauðungarsölu meðan á frestun greiðslna stæði, sbr. c-lið 1. mgr. 11. gr. laganna. Samkvæmt 1. málslið 2. mgr. 27. gr. laga um nauðungarsölu teljast allar framkomnar beiðnir um nauðungarsölu sjálfkrafa niður fallnar hafi uppboð á eign ekki byrjað innan eins árs frá fyrstu fyrirtöku málsins, sbr. 21. gr. laganna. Í 2. málslið ákvæðisins segir svo að þetta gildi þó ekki ef aðgerðir við nauðungarsöluna hafa verið stöðvaðar með öllu vegna meðferðar dómsmáls eða ef aðgerðum er varnað með heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings. Enda þótt telja verði að sú aðstaða sem leiddi til frestunar uppboðssölunnar sé í ýmsu sambærileg við framangreind tilvik 2. málsliðar 2. mgr. 27. gr. verður ekki framhjá því litið að þau tilvik sýnast vera þar tæmandi upp talin sem undantekningar frá þeirri aðalreglu sem fram kemur í 1. málsliðnum. Hefði löggjafanum því verið nauðsynlegt og í lófa lagið að tilgreina þá aðstöðu sérstaklega, til viðbótar við framangreindar undantekningar í 2. málslið frá aðalreglunni í 1. málslið 2. mgr. 27. gr., hefði það verið vilji hans við setningu laga nr. 147/2010 um greiðsluaðlögun að það sama skyldi þar um gilda. Að því virtu verður ekki á það fallist með varnaraðila að samþykkt umboðsmanns skuldara á umsókn sóknaraðila um greiðsluaðlögun geti fallið undir framangreint undantekningarákvæði í 2. málslið 2. mgr. 27. gr. laga nr. 90/1991. Samkvæmt því, og þar sem fyrir liggur að umræddur eins árs frestur skv. 2. mgr. 27. gr. var liðinn er byrjun uppboðs á fasteign sóknaraðila fór fram hinn 12. janúar 2017, taldist beiðni varnaraðila um nauðungarsöluna niður fallin þegar fasteign sóknaraðila var seld nauðungarsölu hinn 6. febrúar 2017. Samkvæmt því verður nauðungarsala eignarinnar þann dag felld úr gildi.

 

Að fenginni þessari niðurstöðu verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila 400.000 krónur í málskostnað.

 

Uppkvaðning úrskurðar þessa hefur dregist fram yfir lögbundinn frest, en dómari og lögmenn töldu ekki þörf á endurflutningi málsins.

 

Ásgeir Magnússon dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.

 

Úrskurðarorð:

Nauðungarsala nr. 012-2012-94, sem fram fór hjá embætti sýslumannsins á Vesturlandi 6. febrúar 2017 á fasteigninni að Reynigrund 24, Akranesi, fastanr. 210-2754, er felld úr gildi.

 

Varnaraðili, Arion banki hf., greiði sóknaraðila, Jóhönnu Baldursdóttur, 400.000 krónur í málskostnað.

                                                                                                Ásgeir Magnússon