• Lykilorð:
  • Kvöð
  • Lögbann
  • Skipulag

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Vesturlands 19. nóvember 2018 í máli nr. E-53/2017:

Ingólfur Garðarsson

(Kristín Sólnes lögmaður)

gegn

Henrik Falster-Hansen og

Janne Dorte Knudsen

(Ingi Tryggvason lögmaður)

 

I.

Mál þetta, sem dómtekið var 10. október sl., er höfðað af Ingólfi Garðarssyni, Fitjasmára 2, Kópavogi, á hendur Henrik Falster-Hansen og Janne Dorte Knudsen, til heimilis í Danmörku, en með dvalarstað að Indriðastöðum, Skorradalshreppi, með stefnu birtri 5. apríl 2017.

 

Stefnandi gerir eftirfarandi dómkröfur:

1. Að staðfest verði lögbann sem sýslumaðurinn á Vesturlandi lagði 23. mars 2017 við því að stefndu loki fyrir rennsli neysluvatns úr vatnsveitu í landi jarðarinnar Indriðastaða, landnr. 134056, eða hindri með öðrum hætti rétt stefnanda til neysluvatns sem rennur úr vatnsveitunni í landi jarðarinnar, eftir stofnæð að lóð stefnanda að Skógarási 1, landnr. 190180.

 

2. Að stefndu verði gert óheimilt að loka fyrir rennsli neysluvatns úr vatnsveitu í landi jarðarinnar Indriðastaða, landnr. 134056, eða hindra með öðrum hætti rétt stefnanda til neysluvatns sem rennur úr vatnsveitunni í landi jarðarinnar, eftir stofnæð að lóð stefnanda að Skógarási 1, landnr. 190180.

 

3. Að stefndu verði dæmd til að greiða stefnanda lögbannskostnað og málskostnað að skaðlausu.

 

Stefndu krefjast þess að þau verði alfarið sýknuð af öllum kröfum stefnanda og að fellt verði úr gildi framangreint lögbann, sem sýslumaðurinn á Vesturlandi lagði á 23. mars 2017. Þess er og krafist að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefndu málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.

 

II.

Stefnandi er eigandi lóðarinnar Skógaráss 1 í Skorradalshreppi og sumarhúss er þar stendur. Lóðin var stofnuð úr landi jarðarinnar Indriðastaða og liggur hún austanmegin við þann bæ. Úr landi jarðarinnar Indriðastaða hefur verið skipulagt frístundahúsasvæði og munu um 200 lóðir hafa verið stofnaðar og seldar úr jörðinni. Elsta svæðið liggur að Skorradalsvatni beggja vegna þjóðvegarins sunnan við vatnið og er ódeiliskipulagt. Nýrri frístundahúsasvæðin hafa verið deiliskipulögð og spanna mörg skipulagssvæði, þ. á m. svæði þar sem lóð stefnanda er.

 

Með leigusamningi, dags. 12. janúar 2002, tók stefnandi á leigu lóðina að Skógarási 1 af þáverandi eiganda jarðarinnar Indriðastaða, Inger Helgadóttur. Í lóðarleigusamningnum var ekkert kveðið á um það hvernig færi með kalt vatn fyrir sumarhús sem myndi rísa á lóðinni. Stefnandi keypti síðan lóðina af Inger með kaupsamningi, dags. 1. nóvember 2004, og í þeim samningi segir svo: „Seljandi útvegar kalt vatn að lóðamörkum, öflun vatns frá hitaveitu Skorradalshrepps er mál kaupanda þ.m.t. allur kostnaður.“

 

Í gildi er deiliskipulag frístundabyggðar á Bleikulágarás í landi Indriðastaða, sem var samþykkt af sveitarstjórn Skorradalshrepps 14. febrúar 2001, og tekur það m.a. til lóðar stefnanda. Kemur þar m.a. fram að núverandi frístundalóðarhafar hafi stofnað með sér félagið „Félag sumarbústaðaeigenda í landi Indriðastaða“ og að nýir lóðarhafar í landi Indriðastaða verði sjálfkrafa aðilar að þessu félagi. Í deiliskipulaginu er einnig að finna skipulags- og byggingarskilmála svæðisins, en í gr. 1.5 í þessum skilmálum kemur fram að neysluvatn skuli tekið úr lind ofan við frístundabyggðina og leitt niður í hverfið. Stofnæðar verði lagðar eftir vegum frístundahverfisins á kostnað landeiganda en tenging við stofnæð og viðhald vatnsveitu verði á kostnað lóðarhafa. Fyrir liggur að í upphaflegu sumarhúsabyggðinni var lögð vatnsveita vegna kaldavatns sunnan við frístundabyggðina og mun Félag sumarbústaðaeigenda hafa annast viðhald á henni frá upphafi. Enginn eiginlegur kostnaður mun vera af þessari veitu þar sem vatnið er þar sjálfrennandi.

 

Fyrir rúmlega 10 árum var skipulögð aukin sumarhúsabyggð á jörðinni, m.a. í svokallaðri Indriðastaðahlíð. Er sú byggð ofan við bæjarhúsin á Indriðastöðum og nær hún að vesturmörkum jarðarinnar. Réðst þáverandi landeigandi þá í að bora eftir köldu vatni fyrir svæðið. Lagði hann þar nýja vatnsveitu og tengdi hana síðar við vatnsbólið sunnan við byggðina með yfirborðslögn. Borholan og vatnsveitan er innan lands Indriðastaða en vegna veitunnar þurfti þriggja hektara vatnsverndarsvæði. Lenti það svæði að þriðjungi innan jarðarinnar Mófellsstaða, sem liggur vestan megin við Indriðastaði, og var gerður um þann hluta grannsvæðis borholunnar sérstakur lóðarleigusamningur.

 

Fyrrgreindur eigandi jarðarinnar Indriðastaða, Inger Helgadóttir, seldi hana til félagsins Indriðastaða ehf. Jörðin var síðan seld við nauðungarsölu hinn 18. ágúst 2010 til NBI hf. og var nauðungarsöluafsal gefið út 27. október 2010. Með kaupsamningi, dags. 28. júní 2013, keyptu stefndu jörðina af Landsbankanum hf., sem tekið hafði yfir réttindi og skyldur NBI hf. Var afsal til stefndu gefið út 29. október 2014.

 

Í kjölfar kaupa stefndu á jörðinni reis deila milli þeirra og Félags sumarhúsaeigenda á Indriðastöðum um það hvernig fara skyldi með greiðslu kostnaðar vegna reksturs borholunnar, lóðarleigu vegna hluta grannsvæðis hennar o.fl. Þrátt fyrir allnokkur samskipti milli fulltrúa þessara aðila tókust samningar ekki. Þannig sendi lögmaður stefndu bréf til félagsins, dags. 9. ágúst 2016, þar sem tilkynnt var að stefndu myndu slökkva á dælunni við borholuna 19. sama mánaðar og að ekki yrði kveikt á henni aftur fyrr en náðst hefðu samningar milli aðila um rekstur veitunnar og starfsleyfi fengist fyrir borholuna.

 

Á aðalfundi félagsins 22. febrúar 2017 var ákveðið að umboð sem stjórn félagsins hafði fengið til að reyna að ná samningum við stefndu yrði ekki framlengt og að hver félagsmaður hefði því samningsumboð og ætti rétt á að leita réttar síns vegna málsins. Í kjölfar þess, eða hinn 14. mars 2017, lagði stefnandi fram beiðni um lögbann hjá sýslumanninum á Vesturlandi, sem féllst á beiðnina 23. sama mánaðar.

 

Við aðalmeðferð málsins gáfu Bárður Hafsteinsson og Anna Borgþórsdóttir skýrslur sem vitni.

 

III.

Stefnandi vísar til þess að í gildandi deiliskipulagi fyrir umrætt frístundahverfi, sem samþykkt hafi verið af hreppsnefnd 14. febrúar 2001, segi í gr. 1.5 að neysluvatn skuli tekið úr lind ofan við frístundabyggðina og leitt niður í hverfið. Þá skuli stofnæðar lagðar eftir vegum frístundahverfisins á kostnað landeigenda og tenging við stofnæð og viðhald vatnsveitu vera á kostnað lóðarhafa. Samkvæmt deiliskipulaginu skyldi því landeigandi á sinn kostnað útvega vatn til frístundabyggðarinnar og leiða vatnið til hennar eftir stofnæðum, er hann skyldi leggja á sinn kostnað. Lóðareigendur skyldu hins vegar eingöngu greiða tengingu við stofnæðina sjálfa og viðhald vatnsveitunnar. Því megi ljóst vera að gildandi deiliskipulag miði við að núverandi ástand haldist óbreytt, enda sé það í samræmi við þinglýstar heimildir stefnanda.

 

Skylda stefndu til að uppfylla greinda kvöð sé skýr samkvæmt þessu. Um hana sé mælt fyrir í samþykktu deiliskipulagi og því um að ræða skipulagskvöð, sbr. 20. tl. 2. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og gr. 1.3 í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, sbr. einnig 10. mgr. 2. gr. eldri skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Þá leiði það af greindum ákvæðum að kvöð þessi standi óhögguð, þrátt fyrir að jörðin hafi verið seld nauðungarsölu 18. ágúst 2010.

 

Í þinglýstum kaupsamningi stefnanda um lóð sína, dags. 1. nóvember 2004, sé kveðið á um að seljandi útvegi kalt vatn að lóðarmörkum. Þá er kveðið á um að kaupandi skuldbindi sig til að vera félagi í félaginu og fara að reglum þess í einu og öllu. Einvörðungu kostnaður vegna viðhalds kaldavatnsveitunnar sé á hendi félagsins í samræmi við deiliskipulagsskilmála. Þannig hafi framkvæmd verið hagað hingað til. Hér sé því um að ræða þinglýstan rétt stefnanda til neysluvatns, en það sé í samræmi við fyrrgreinda skipulagskvöð.

 

Ef stefndu telji rétt stefnanda ósamrýmanlegan sínum rétti sé ljóst að sá réttur þurfi að víkja fyrir rétti sumarbústaðaeigenda samkvæmt forgangsreglum þinglýsingalaga nr. 39/1978. Í því samhengi þurfi að hafa í huga, hvort sem kvöð þar að lútandi hafi verið þinglýst á jörð stefndu eða ekki, að þá geti það aldrei haggað eldri þinglýstum rétti sumarbústaðaeigenda í landi Indriðastaða. Vísist þá einnig til fyrrgreindrar skipulagskvaðar, sem vísað sé til í þinglýstum stofnskjölum lóða á svæðinu.

 

Af kaupsamningi stefndu við Landsbankann hf. megi ráða að stefndu hafi verið kunnugt um að úr jörðinni hefðu verið seldar lóðir og land og skipulagt þar frístundasvæði, sbr. 47. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup. Geti þeir því ekki talist grandlausir um rétt sumarbústaðaeigendanna, enda sé í þinglýsingalögum lögð almenn aðgæsluskylda á kaupendur og geti gáleysi því ekki leitt til þess að yngri rétthafi ýti til hliðar rétti eldri rétthafa. Í framkvæmd hafi verið gengið langt í að krefjast þess af kaupanda að hann kynni sér lóðarréttindi og þá sérstaklega að hann kynni sér nánar tilvist réttinda ef ummerki á eign gefi þau til kynna. Hafi stefndu verið algerlega ókunnugt um skyldur gagnvart lóðarhöfum, líkt og þau hafa haldið fram, megi ljóst vera að þau hafi ekki fullnægt áðurnefndri lögbundinni aðgæsluskyldu sinni og geti stefnandi því ekki borið hallann af slíkri vanrækslu. Þá liggi og fyrir að veitutæki fyrir frístundabyggðina séu sýnileg og fyrir liggi auk þess deiliskipulag, sem kveði á um neysluvatn fyrir byggðina. Geti þau því ekki talist grandlaus í skilningi laga.

 

Haldi stefndu því fram að réttindi þau sem stefnandi hafi öðlast við kaup á lóð sinni að Skógarási 1 hafi fallið niður með einhverjum hætti, og sæki þannig heimild sína til að loka fyrir aðgang að neysluvatni, gangi það ekki upp. Fyrir liggi að stefndu hafi verið kunnugt um að lóðir hefðu verið seldar úr jörðinni. Þá hafi þeim einnig verið kunnugt um vatnsveitu á svæðinu sem og fyrirkomulag hennar, auk þess sem í gildi hafi verið deiliskipulag sem mælt hafi fyrir um kvaðir landeiganda til að útvega neysluvatn fyrir frístundabyggðina. Samkvæmt meginreglum fasteignakauparéttar taki kaupandi við söluhlut í því ástandi sem hann sé í og geti stefndu ekki haldið því fram að þau réttindi sem stefnandi hafi sannarlega fengið með samningi við fyrri eigendur taki ekki til þeirra.

 

Stefnandi vísi einnig til þess að í kaupsamningi stefndu við Landsbankann felist þriðjamannslöggerningur, sem veiti stefnanda sjálfstæðan og beinan rétt til að krefjast samningsefnda, sbr. til hliðsjónar 47. gr. laga um fasteignakaup.

 

Fyrir liggi að fyrri eigandi jarðarinnar hafi selt eignarlóðir úr landi jarðar sinnar með þeim skilmálum að lóðunum fylgdi réttur til neysluvatnsveitu, sem lögð hafi verið á kostnað landeiganda að mörkum sumarhúsalóða. Hafi það verið í samræmi við fyrirmæli III. kafla vatnalaga nr. 15/1923. Því hvíli á stefndu bæði lagaleg og samningsbundin skylda til að standa við skuldbindingar landeiganda hvað þetta varði. Þá séu tilvitnuð vatnalög skýr hvað varði rétt til vatns og séu í þessum efnum skilyrðislaus, sbr. ákv. 14. gr., 29. gr., 31. og 32. gr. laganna. Stefndu hafi ekki sýnt fram á að veiting á neysluvatni til stefnanda, með þeim hætti sem verið hafi, skerði nýtingu þeirra á vatni til heimilis- og búsþarfa í skilningi greindra ákvæða vatnalaga. Geti þau því ekki synjað stefnanda um aðgang að neysluvatni fyrir frístundahús sitt.

 

Krafa stefndu sé mjög óljós og án skýringa eða nánari sundurliðunar. Þá hafi stefndu engar heimildir, hvorki samkvæmt samningi, skipulagsskilmálum né lögum, til að loka fyrir aðgang stefnanda að köldu vatni til að reyna að knýja fram greiðslu á meintum kröfum sínum. Verði þau einfaldlega að innheimta þessa kröfu sína með atbeina dómstóla.

 

Samkvæmt öllu framansögðu sé ljóst að stefnandi eigi lögbundna og samningsbundna kröfu á að fá neysluvatn úr landi jarðarinnar Indriðastaða eftir stofnæð sem liggi að lóð stefnanda að Skógarási 1 og sé sá réttur skýr.

 

IV.

Stefndu byggja sýknukröfu sína aðallega á því að lögbannið sé tilgangslaust og eigi við engin rök að styðjast, enda hafi stefndu aldrei ætlað sér að loka fyrir þann hluta vatnsveitunnar á jörðinni Indriðastöðum sem stefnandi fái vatn úr. Lögbannið sé því ekki í samræmi við staðreyndir málsins og stefnandi eigi ekki hagsmuna að gæta hvað varði umrædda borholu.

 

Fyrir liggi að vatnsveita fyrir sumarhúsabyggðina á jörðinni sé í raun tvískipt. Eldri hluti vatnsveitunnar fái vatn úr lind fyrir ofan sumarhúsabyggðina á austurhluta jarðarinnar þar sem sumarhús stefnanda að Skógarási 1 sé. Þar sé um sjálfrennandi vatn að ræða sem síðan sé veitt niður í sumarhúsabyggðina eftir lagnakerfi. Hinn hluti vatnsveitunnar, þ.m.t. borhola, sé á vesturhluta jarðarinnar og sé fyrir svokallaða Indriðastaðahlíð. Stefnandi geri kröfu til þess að staðfest verði að stefndu sé óheimilt að koma í veg fyrir að stefnandi fái vatn eftir stofnæð að lóð stefnanda að Skógarási 1.  Umrædd stofnæð liggi úr lindinni ofan við hverfið þar sem sumarhús stefnanda sé og sé þar sjálfrennandi vatn. Stefndu hafi aldrei ætlað að loka fyrir þetta sjálfrennandi vatn enda sé enginn kostnaður við öflun þess. Kröfur stefnanda séu því ósamrýmanlegar staðreyndum málsins.

 

Sú fullyrðing stefnanda að hann fái vatn úr borholunni við landamerki Mófellsstaða standist ekki og sé ósönnuð. Fari vatn úr borholunni í veituna þar sem bústaður stefnanda sé fari það ekki um stofnæð heldur yfirborðslögn, sem undir engum kringumstæðum geti kallast stofnæð. Þannig að jafnvel þótt fallist yrði á kröfur stefnanda myndi það ekki koma í veg fyrir þau áform stefndu að hætta að greiða fyrir rafmagn fyrir dæluna við borholuna og leigu til eigenda Mófellsstaða fyrir hluta grannsvæðis holunnar, sem myndi væntanlega leiða til þess að hætt yrði að dæla vatni fyrir sumarhúsin í Indriðastaðahlíð. Dómkröfur stefnanda séu því ekki í samræmi við staðreyndir málsins og verði því ekki komist hjá því að sýkna stefndu af þeim. 

 

Dómkröfur og málatilbúnaður stefnanda feli það einnig í sér að stefndu sé skylt að útvega stefnanda kalt vatn endurgjaldslaust um aldur og ævi og í raun á kostnað stefndu. Það standist að sjálfsögðu ekki enda hafi stefndu engar tekjur af sumarhúsalóðum á jörðinni. Því geti stefndu ekki átt að greiða verulegar fjárhæðir vegna borholunnar á ári hverju fyrir sumarhúsaeigendur á lóðum sem áður hafi tilheyrt jörðinni Indriðastöðum en stefndu hafi engar tekjur af. Í raun séu þessar lóðir, sumarhús á þeim og öll mál varðandi þau, stefndu óviðkomandi. Stefnandi og félag sumarhúsaeigenda líti hins vegar svo á að stefndu sé skylt að þjóna sumarhúsaeigendum á svæðinu endurgjaldslaust og á kostnað stefndu. Slíkt geti ekki staðist.   

 

Þegar stefndu hafi keypt jörðina Indriðastaði hafi engar þinglýstar kvaðir verið á henni um það að þeim sem verðandi landeigendum væri skylt að útvega sumarhúsaeigendum á jörðinni kalt vatn endurgjaldslaust. Þvert á móti hafi verið gert ráð fyrir því við kaupsamningsgerðina að kæmi til þess að sumarhúsaeigaeigendur vildu fá kalt vatn úr umræddri borholu myndu þeir kaupa það, eins og segi orðrétt í kaupsamningnum. Þetta geti því í raun ekki verið skýrara. Því sé það fjarri öllu sanni að við kaup stefndu á jörðinni hafi þau skuldbundið sig um aldur og ævi til að útvega stefnanda vatn fyrir sumarhús hans að Skógarási 1 án endurgjalds, sem og öðrum sumarhúsaeigendum á svæðinu.

 

Ákvæði deiliskipulagsins um að kalt vatn skuli tekið úr lind ofan við svæðið og leitt niður í hverfið breyti því ekki að stefnandi eigi að greiða fyrir vatnið og hluta af rekstrarkostnaði vatnsveitunnar. Ekkert komi þar fram um að landeigandi skuli útvega þetta vatn endurgjaldslaust og auk þess greiða rekstrarkostnað vatnsveitunnar. Þetta ákvæði segi bara hvar taka skuli vatnið og að það skuli leitt niður í hverfið, en ekkert umfram það. Umræddu deiliskipulagi hafi ekki verið þinglýst á jörðina Indriðastaði og leggi það því ekki skyldur á eigendur hennar umfram það sem almennt tíðkist. 

 

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 32/2004 um vatnsveitur sveitarfélaga sé sveitarfélögum skylt að reka vatnsveitur í þéttbýli en öðrum sé það ekki skylt. Því sé stefndu ekki skylt að reka vatnsveitu á jörðinni Indriðastöðum, hvað þá endurgjaldslaust, fyrir stefnanda og aðra sumarhúsaeigendur á jörðinni. Sé hins vegar rekin vatnsveita á jörðinni sé að sjálfsögðu heimilt að innheimta gjald fyrir hana, auk þess sem notendum hennar beri að greiða rekstrarkostnað vegna hennar. Þannig komi fram í 1. mgr. 6. gr. nefndra laga að heimilt sé að leggja vatnsgjald á mannvirki á fasteign sem hafi verið tengd við vatnsveitu. 

 

Ítrekað sé að dómkröfur stefnanda eigi ekki við nein rök að styðjast og séu ekki í samræmi við staðreyndir málsins. Séu skilyrði laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. ekki uppfyllt og verði því að fella lögbannið úr gildi.

 

V.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um gildi lögbanns sem sýslumaður setti á að kröfu stefnanda við því að stefndu loki fyrir eða hindri rennsli neysluvatns úr vatnsveitu á landi jarðarinnar Indriðastaða eftir stofnæð að sumarhúsalóð hans og um það hvort stefndu verði gert það óheimilt með dómi. 

 

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 er heimilt að leggja lögbann við byrjaðri eða yfirvofandi athöfn einstaklings eða fyrirsvarsmanns félags eða stofnunar, ef gerðarbeiðandi sannar eða gerir sennilegt að athöfnin brjóti eða muni brjóta gegn lögvörðum rétti hans, að gerðarþoli hafi þegar hafist handa um athöfnina eða muni gera það, og að réttindi hans muni fara forgörðum eða verða fyrir teljandi spjöllum verði hann knúinn til að bíða dóms um þau. Sýnist ágreiningur aðila fyrst og fremst snúa að því hvort yfirvofandi athöfn stefndu brjóti gegn lögvörðum rétti stefnanda.

 

Stefndu byggja á því að við kaup þeirra á jörðinni hafi engar þinglýstar kvaðir hvílt á henni um það að þeim sem verðandi landeigendum væri skylt að útvega sumarhúsaeigendum á jörðinni kalt vatn án endurgjalds. Eins og fyrr segir kemur fram í kaupsamningi stefnanda við þáverandi eiganda jarðarinnar Indriðastaða um lóðina að Skógarási 1 að seljandi útvegi kalt vatn að lóðarmörkum. Byggir stefnandi kröfugerð sína aðallega á því að stefndu séu skuldbundin til að hlíta framangreindri kvöð í samningnum, en hún styðjist einnig við kvöð í skipulags- og byggingarskilmálum deiliskipulags, er taki til lóðar stefnanda, um að neysluvatn skuli taka úr lind fyrir ofan byggðina og það leitt niður í hverfið. Hljóti réttur þessi að útrýma ósamrýmanlegum rétti stefndu.

 

Af málflutningi stefndu verður ráðið að þau mótmæli því ekki að stefnandi eigi hér eftir sem hingað til rétt til að fá vatn úr framangreindri lind fyrir ofan byggðina, eins og skilmálar deiliskipulagsins skýrlega kveða á um, og að aðgerðir þeirra hafi á engan hátt átt að beinast gegn því. Hins vegar mótmæli þau því að stefnandi eigi einnig rétt til að fá vatn úr borholunni vestast í Indriðastaðalandinu, eftir yfirborðslögn sem þar var lögð á milli fyrir um tíu árum, og telji þau sig ekki tilbúin til að starfrækja og kosta rekstur dælu við holuna í því skyni. Þá kemur fram í bréfi lögmanns stefndu til lögmanns stefnanda, dags. 9. ágúst 2016, og síðan tölvupósti 27. febrúar 2017 að þær aðgerðir sem stefndu ætluðu að ráðast í vegna deilunnar um rekstur vatnsveitu fyrir sumarhúsabyggðina væru einungis fólgnar í því að slökkva á dælunni við borholuna á tilteknum degi og ekki kveikja á henni aftur fyrr en náðst hefðu samningar við stefndu um rekstur vatnsveitunnar og starfsleyfi fengist fyrir borholuna. Samkvæmt því, og þar sem ekkert er komið fram í málinu um að stefndu hafi ætlað að grípa til annarra eða víðtækari aðgerða en að framan greinir, verður að leggja til grundvallar að hinar yfirvofandi aðgerðir stefndu hafi í því falist að slökkva á umræddri dælu. Að því gættu sýnist verða úr því að leysa hvort sú yfirvofandi athöfn stefndu að slökkva á dælunni brjóti gegn lögvörðum réttindum stefnanda.

 

Eins og áður er rakið liggur fyrir að stefnandi og aðrir sumarhúsaeigendur á umræddu deiliskipulagssvæði fyrir Bleikulágarás fengu fyrstu árin eftir að til lóðarréttinda þeirra var stofnað neysluvatn að sumarhúsi sínu einungis eftir stofnlögn frá yfirborðslind fyrir ofan byggðina. Sýnist þetta fyrirkomulag vatnsveitunnar vera í fullu samræmi við þá kvöð í deiliskipulaginu sem að framan greinir um að neysluvatn skuli tekið úr lind ofan við frístundabyggðina og leitt niður í hverfið. Hins vegar verður ekki á það fallist með stefnanda að skipulagskvöð þessi geti ein og sér skapað honum einhvern rétt til vatns úr umræddri borholu, eftir yfirborðslögninni sem tengir hana við upphaflegu veituna, án þess að annað komi þar til, s.s. sérstakt samkomulag aðila þar um.

 

Jörðin Indriðastaðir var seld við nauðungarsölu 18. ágúst 2010 og keyptu stefndu hana síðan af uppboðskaupandanum, Landsbankanum hf., með kaupsamningi 28. júní 2013. Var eigninni afsalað til þeirra 29. október 2014. Kemur fram í kaupsamningi aðila að eignin sé seld „eins og hún er í dag hvað varðar ástand og þinglýstar kvaðir sem kaupendur hafa kynnt sér við gaumgæfilega skoðun og sætta sig við að öllu leyti.“ Kaupendum sé kunnug um að Landsbankinn hafi eignast jörðina í skuldaskilum og að úr jörðinni hafi verið seldar lóðir og land, en að ekki liggi fyrir samningur um nýtingu kaldavatnsborholu við Mófellsstaði. Loks segir að kaupendur séu áhugasamir um að sumarhúsaeigendur fái keypt vatn úr umræddri borholu komi í ljós að þar sé nægt vatn og verði þá gerður um það sérstakur samningur við félag sumarhúsaeigenda á svæðinu.

 

Í 2. mgr. 56. gr. laga nr. 90/1991 kemur fram sú meginregla að hafi nauðungarsölu verið krafist á eign eftir heimild í 6. eða 7. gr. laganna falli niður öll veðbönd, umráðaréttindi, kvaðir, höft og önnur réttindi yfir eigninni við útgáfu afsals, nema annað leiði beinlínis af lögum, eignin hafi verið seld með þeim skilmálum að þau standi í tilteknum atriðum óhögguð eða kaupandinn hafi síðar tekið þau að sér. Þá segir að í uppboðsafsali skuli taka fram hver réttindi yfir eigninni falli brott. Í niðurlagi uppboðsafsalsins til Landsbankans hf. er tekið fram að öll veðbönd og óbein eignarréttindi yfir hinni afsöluðu eign falli niður skv. tilvitnaðri 2. mgr. 56. gr. Samkvæmt því verður að telja að fyrrgreind kvöð um afhendingu vatns, sem tilgreind er í kaupsamningi stefnanda um lóðina að Skógarási 1, hafi fallið niður við útgáfu uppboðsafsalsins til forvera Landsbankans hf. hinn 27. október 2010. Var jörðin því án slíkrar kvaðar er stefndi festi kaup á henni af Landsbankanum hf. 28. júní 2013 og skapar hún honum því ekki, þegar af þeirri ástæðu, lögvarinn rétt til vatns úr borholunni.

Stefnandi byggir og á því að réttur hans til vatns, þ. á m. úr borholunni, sé lögvarinn á grundvelli ákvæða II. kafla vatnalaga nr. 15/1923, einkum 11., 14., 29., 31. og 32. gr. laganna. Verður ekki á það fallist með stefnanda að hægt sé að túlka ákvæði þessi svo að þau veiti honum sjálfstæðan rétt til vatns sem dælt er upp úr borholu stefndu, eins og hér um ræðir.

 

Með því að aðgerðir stefndu teljast einungis yfirvofandi að því er varðar stöðvun á dælingu vatns úr umræddri borholu, og þar sem stefnandi hefur ekki sýnt fram á að sú aðgerð brjóti gegn lögvörðum rétti hans til vatns úr henni, verður að synja kröfu hans um staðfestingu lögbannsins. Að framangreindu virtu verður einnig að hafna viðurkenningarkröfu þeirri sem felst í seinni dómkröfu stefnanda, eins og í dómsorði greinir.

 

Verða stefndu því sýknuð af dómkröfum stefnanda og stefnanda gert að greiða stefndu  900.000 krónur í málskostnað. Hefur við ákvörðun málskostnaðar verið tekið tillit til kostnaðar við málflutning vegna frávísunar á gagnkröfu stefndu.

 

Ásgeir Magnússon dómstjóri kveður upp dóm þennan og hefur við uppkvaðningu hans verið gætt að ákv. 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Dómsorð:

Synjað er kröfu stefnanda, Ingólfs Garðarssonar, um staðfestingu lögbanns sem sýslumaðurinn á Vesturlandi lagði við því 23. mars 2017 að stefndu loki fyrir rennsli neysluvatns úr vatnsveitu í landi jarðarinnar Indriðastaða, landnr. 134056, eða hindri með öðrum hætti rétt stefnanda til neysluvatns sem rennur úr vatnsveitunni í landi jarðarinnar, eftir stofnæð að lóð stefnanda að Skógarási 1, landnr. 190180.

 

Stefndu, Henrik Falster-Hansen og Janne Dorte Knudsen, eru sýkn af kröfu stefnanda um að þeim verði gert óheimilt að loka fyrir rennsli neysluvatns úr vatnsveitu í landi jarðarinnar Indriðastaða, landnr. 134056, eða hindra með öðrum hætti rétt stefnanda til neysluvatns sem rennur úr vatnsveitunni í landi jarðarinnar, eftir stofnæð að lóð stefnanda að Skógarási 1, landnr. 190180.

 

Stefnandi greiði stefndu óskipt 900.000 krónur í málskostnað.

 

                                                                                    Ásgeir Magnússon