• Lykilorð:
  • Skuldamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Vesturlands 12. janúar 2017 í máli nr. E-89/2016:

Dýralæknaþjónusta Suðurlands ehf.

(Steinunn Pálmadóttir hdl.)

gegn

Englahofi ehf.

(Ingi Tryggvason hrl.)

 

I.

Mál þetta, sem tekið var til dóms 17. nóvember sl., er höfðað af Dýralæknaþjónustu Suðurlands ehf., Stuðlum, Ölfusi, með stefnu birtri 14. júní 2016, á hendur Englahofi ehf., Stöðulsholti 4, Borgarnesi.

 

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði gert að greiða honum skuld að fjárhæð 4.736.202 krónur, ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 6. gr. sömu laga, frá 28. ágúst 2015 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 11. nóvember 2015 að fjárhæð 2.318.800 krónur, sem dragist frá skuldinni miðað við stöðu hennar á innborgunardegi. Auk þess sem dreginn er frá folatollur að fjárhæð 235.600 krónur, sem dragast skal frá skuldinni frá 6. september 2015. Jafnframt verði stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu að mati dómsins með hliðsjón af málskostnaðaryfirliti, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

 

Stefndi krefst þess aðallega að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda, en  til vara að fjárkrafa hans verði lækkuð. Jafnframt krefst hann málskostnaðar samkvæmt mati dómsins, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

 

II.

Aðilar máls þessa sömdu um það, fyrir milligöngu Austuráss hesta ehf., að stefnandi skyldi annast sæðistöku og sæðingar úr stóðhestinum Konsert frá Hofi, í eigu stefnda, sumarið 2014. Gaf stefnandi út reikning hinn 22. ágúst 2014 vegna þeirrar vinnu sem Páll Stefánsson, dýralæknir og fyrirsvarsmaður stefnanda, hafði innt af hendi vegna þessa. Kom þar m.a. fram að einingaverð fyrir sæðistöku og sæðingar á hryssum væri 60.000 krónur, án virðisaukaskatts, og að fjöldi eininga væru 18. Var reikningur þessi greiddur 10. september sama ár. Sama dag sendu forsvarsmenn Austuráss hesta ehf. tölvupóst til stefnda. Meðfylgjandi honum voru drög að samningi þar sem því var lýst á hvaða forsendum milligönguþjónusta Austuráss hesta ehf. og þjónusta stefnanda við stefnda yrði innt af hendi, m.a. með tilliti til þóknunar stefnanda vegna sæðistöku og sæðingar úr stóðhestinum Konsert sumarið 2014. Í framhaldi af því náðu aðilar um það samkomulagi að stefnandi skyldi einnig annast sæðistöku og sæðingar úr Konsert sumarið 2015. Gaf stefnandi út reikning vegna þessarar þjónustu sinnar 8. ágúst 2015, samtals að fjárhæð 5.089.602 krónur. Kom þar m.a. fram að einingaverð fyrir sæðistöku og sæðingar væri 65.000 krónur og að um væri að ræða 57 einingar. Stefndi mótmælti þessu endurgjaldi og í kjölfarið gaf stefnandi út nýjan reikning hinn 28. ágúst 2015, þar sem fram kemur að einingaverð sé 60.000 krónur, án virðisaukaskatts, en einingafjöldinn sá sami. Sundurliðast reikningurinn með eftirfarandi hætti:

 

Vörunúmer

Lýsing

Fjöldi

Einingaverð

Upphæð

1-H37D

Sæðistaka og sæðingar á hryssum

57

60.000

3.420.000

1-H25D

Hryssur – sónarskoðun (fjöldaafsl.)

22

3.387,10

74.516

 

Sæðingar við Konsert frá Hofi

 

 

 

2-ÞYNEFN

Þynningarvökvi, stk.

57

876,48

49.959

2-SÆÐRÖR

Sæðispípur vegna sæðinga, stk.

420

96,49

40.256

2-HANLAN

Hanskar langir 100 stk. í pakka, pk

12

2.788,80

33.466

2-SLIMIS

Bovivet fæðingaslím stk.

50

1.039,51

51.976

2-CHORUL

Chorulon vet 1500 AE, stl.

51

1.090,33

55.607

2-GENEST

Genestran Portfarma 20 ml., stl.

0,27

7.900,23

2.133

2-EINNVÖ

Einnota vörur, stk.

60

322,59

19.355

3-AKSTUR

Seldur akstur, km

610

118

71.980

 

Samtals nam fjárhæð reikningsins, án virðisaukaskatts, 3.819.518 krónum, en 4.736.202 krónum að meðtöldum virðisaukaskatti.

 

Með tölvupósti frá lögmanni stefnda til Austuráss hesta ehf. hinn 29. september 2015 kom fram að stefndi gerði athugasemdir við kostnaðarlið reikningsins vegna sæðinganna. Taldi hann að aðilarnir hefðu samið um það að miða skyldi við ákveðið gjald á hverja hryssu en ekki daggjald. Stefndi greiddi svo 2.318.800 krónur vegna skuldarinnar hinn 11. nóvember 2015, sem stefnandi lítur á sem innborgun á skuldina.

Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslu Páll Stefánsson dýralæknir, forsvarsmaður stefnanda, Francis Maria Goetschalckx, forsvarsmaður stefnda, og vitnin Haukur Baldvinsson og Ragnhildur Loftsdóttir.

 

III.

Stefnandi byggir á því að á milli aðila hafi komist á bindandi samningur, fyrir milligöngu Austuráss hesta ehf., um framkvæmd stefnanda á því verki sem hér um ræði. Um sé að ræða vinnu forsvarsmanns stefnanda við sæðingar með stóðhesti stefnda, og ákveðið endurgjald í því sambandi, sem miðast hafi við tiltekið daggjald. Stefnandi hafi fyllilega og gallalaust staðið skil á verki sínu og eigi því rétt á hinu umsamda endurgjaldi, sem stefndi hafi verið krafinn um. Stefnandi hafi samið um tiltekið daggjald, 60.000 krónur, fyrir vinnu sína við sæðingar árin 2014 og 2015, sem sé í samræmi við gjaldskrá hans. Reikningur hans til stefnda fyrir árið 2014 hafi verið í samræmi við það. Sætt hafi verið með stóðhesti stefnda í 18 daga og skýrt komið fram á reikningum að krafist væri 60.000 króna fyrir 18 daga, auk útlagðs kostnaðar og aksturs. Reikning þennan hafi stefndi greitt án athugasemda og þannig í verki samþykkt greint fyrirkomulag og staðfest samning aðila.

 

Gjaldið sem vísað sé til í umræddum samningi sé augljóslega daggjaldið, eins og fram komi á reikningi þeim sem gerður hafi verið 2014. Í samræmi við það hafi í hinum umstefnda reikningi verið krafið um sama daggjald fyrir árið 2015. Hins vegar hafi vinnan þá verið 57 dagar, en samtals 107 hryssur hafi farið í gegn þá daga.

 

Stefndi hafi ekki sýnt fram á að endurgjald fyrir vinnu stefnanda við sæðingar, 60.000 krónur á hvern dag, sé ósanngjarnt, sbr. til hliðsjónar 45. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Stefndi hafi sjálfur selt folatollinn á um 260.000 krónur fyrir hverja hryssu með þeirri þjónustu sem stefnandi hafi veitt, sem og Austurás hestar ehf. Endurgjald fyrir vinnu stefnanda sé því mjög hóflegt m.t.t. þess hversu hár folatollurinn hafi verið.

 

Í tölvupósti lögmanns stefnda 4. september 2015 komi fram að stefndi hafi viljað greiða reikning stefnanda fyrir vinnu hans árið 2015, en draga fjárhæð hans frá því endurgjaldi sem hann hefði samið um að greiða Austurási hestum ehf. Ljóst sé að þessi afstaða sé ekki í samræmi við fyrirliggjandi samning. Eigi að síður sé ljóst að stefndi beri sjálfur ábyrgð á uppgjöri við Austurás hesta ehf. og hvernig hann hafi hagað því. Stefnda beri hins vegar ætíð að greiða fyrir vinnu stefnanda.

 

IV.

Stefndi byggir sýknukröfu sína aðallega á því að hann hafi greitt að fullu umsamda þóknun fyrir þjónustu stefnanda í þágu stefnda sumarið 2015. Enginn skriflegur samningur hafi verið gerður á milli aðila varðandi umrædda þjónustu sumarið 2015. Stefndi hafi aldrei samið við stefnanda um að stefnandi tæki daggjald fyrir vinnuna í þágu stefnda heldur hafi verið samið um ákveðið gjald á hverja hryssu. Hefði verið samið um daggjald hefði í raun getað verið um sjálftöku að ræða af hálfu stefnanda. Hann hefði þá getað farið og sætt eina hryssu á dag og rukkað 60.000 krónur fyrir hvern dag, eða samtals 6.180.000 krónur (60.000 kr. x 103 hryssur), auk annars kostnaðar. Það segi sig sjálft að aldrei hefði komið til greina af hálfu stefnda að semja með þeim hætti. 

 

Fram komi í gögnum málsins að gjaldið hjá stefnanda hafi átt að vera það sama 2015 og það hafi verið 2014 og því sé m.a. haldið fram af hálfu stefnanda. Í rafpósti Ragnhildar hjá Austurás hestum ehf. frá 11. ágúst 2014 segi að fyrir tómar hryssur sé greitt 50.000 kr. auk virðisaukaskatts og það sé ,,húsgjald og sæðingarkostnaður“. Þar sem sami kostnaður sé við sæðinguna hvort sem hryssan fyljist eða ekki sé ekkert sem bendi til annars en að gjaldið fyrir sæðingu á hverja hryssu sumarið 2015 hafi átt að vera 20.000 krónur, auk virðisaukaskatts, því að „húsgjaldið“ hafi verið 30.000 krónur, auk virðisaukaskatts.  

 

Mótmælt sé þeirri fullyrðingu stefnanda að samið hafi verið um 60.000 króna daggjald til hans fyrir þjónustu í þágu stefnda, enda komi sú fjárhæð hvergi fram í gögnum málsins og ekki heldur að samið hafi verið um daggjald. Stefnandi haldi því einnig fram að samið hafi verið um sama gjald árið 2015 og árið 2014. Jafnvel þótt svo hefði verið hafi hann í fyrstu sent stefnda reikning fyrir árið 2015 þar sem daggjaldið hafi verið tilgreint 65.000 krónur. Ekkert samræmi sé því í málatilbúnaði stefnanda að þessu leyti og ekki virðist heldur skýrt hjá honum um hvað hafi verið samið árið 2015. Þegar stefndi hafi gert athugasemd við upphaflega reikninginn vegna ársins 2015 hafi stefnandi lækkað daggjaldið í 60.000 krónur. Virðist því sem stefnandi hafi annaðhvort ekki vitað um hvað hefði verið samið fyrir árið 2015 eða, séu fullyrðingar hans réttar, að hann hafi vísvitandi ætlað að rukka hærra gjald en samið hafi verið um.

 

Engu breyti í máli þessu hvort stefndi hafi sýnt fram á að gjald stefnanda sé ósanngjarnt eða ekki. Mál þetta snúist einungis um það um hvað hafi verið samið. Þá skipti fjárhæð folatollsins undir stóðhestinn Konsert hér engu máli, enda sé ekkert samhengi á milli hennar og endurgjaldsins fyrir þjónustu stefnanda í þágu stefnda.

 

Loks sé á því byggt að greiðsla stefnda á reikningi stefnanda árið 2014 hafi enga þýðingu vegna reikningsins frá 2015. Stefndi hafi greitt reikninginn, þrátt fyrir að í honum hafi verið að finna sundurliðun sem stefndi kannaðist ekki við, þar sem heildarfjárhæð hans fyrir sæðingu og húsgjald hafi í raun verið aðeins lægri en um hefði verið samið. Það að einhver greiði rangan reikning einu sinni þýði ekki að útgefandi reikningsins geti aftur gefið út rangan reikning á greiðandann og ætlast til þess að hann greiði aftur rangan reikning. 

 

V.

Niðurstaða

Ekki er um það deilt að aðilar máls þessa komust að samkomulagi um það vorið 2015, með milligöngu Austuráss hesta ehf., að stefnandi skyldi annast fyrir stefnda sæðistöku og sæðingar úr stóðhestinum Konsert og að sú þjónusta hafi verið innt af hendi. Hins vegar greinir aðila á um það hvaða endurgjald fyrir þjónustuna um hafi verið samið. Heldur stefnandi því fram að skýrlega hafi legið fyrir og um samið að umrædd þjónusta hans sumarið 2015 yrði innt af hendi á sömu forsendum og árið á undan, en stefndi hafi þá greitt fyrir hana 60.000 krónur fyrir hvern dag, að viðbættum virðisaukaskatti, í samræmi við gjaldskrá stefnanda þar um. Stefndi mótmælir þessu hins vegar og heldur því fram að samið hafi verið um að hann myndi greiða fyrir þjónustuna tiltekið verð, 20.000 krónur, á hverja hryssu, að viðbættum virðisaukaskatti.

 

Eins og áður er fram komið gaf stefnandi út reikning á stefnda hinn 22. ágúst 2014 vegna vinnu og annars kostnaðar Páls Stefánssonar dýralæknis, þar sem fram kemur m.a. að einingaverð vegna sæðistöku og sæðingar á hryssum sé 60.000 krónur og að um hafi verið að ræða 18 einingar, eða samtals 1.080.000 krónur, án virðisaukaskatts. Þá eru þar og tilgreindir nokkrir aðrir smærri gjaldaliðir, aðallega vegna útlagðs kostnaðar. Óumdeilt er að stefndi greiddi reikning þennan án nokkurra athugasemda 10. september sama ár. Þá kom fram í skýrslu forsvarsmanns stefnda fyrir dómi að hann kannaðist við að hafa móttekið og kynnt sér drög að samkomulagi um það hvernig standa skyldi að sæðistöku og sæðingu úr sama stóðhesti sumarið 2015, sem Austurás hestar ehf. sendu honum í tölvupósti sama dag og reikningurinn var greiddur. Í drögum þessum komu fram þær forsendur fyrir umræddri þjónustu dýralæknisins að tekið yrði sama gjald fyrir þjónustuna og sumarið 2014. Með tilliti til þessa var brýnt fyrir forsvarsmann stefnda að gera athugasemdir þar um, teldi hann forsendur og framsetningu reikningsins ekki í samræmi við það sem hann taldi sjálfur að um hefði verið samið. Í það minnsta bar honum þá að leita skýringa hjá forsvarsmanni stefnanda á þeim forsendum sem að baki reikningsgerðinni lágu, og þá eftir atvikum að gera við þær athugasemdir, áður en hann nýtti sér þjónustu dýralæknisins á ný sumarið 2015. Með því að hann gerði það ekki, og með tilliti til að honum máttu vera ljósar framangreindar forsendur stefnanda fyrir því að umrædd þjónusta yrði veitt sumarið 2015, verður að líta svo á að stefndi hafi undirgengist að greiða fyrir þjónustuna á sömu forsendum og stefnandi hafði lagt til grundvallar reikningsgerð sinni árið 2014, enda hefur stefndi ekki á neinn hátt sýnt fram á að um annað hafi verið samið. Bar stefnda því að greiða fyrir sæðistökuna og sæðingarnar 60.000 krónur á dag, að viðbættum virðisaukaskatti. Breytir engu í því sambandi þótt stefnandi hafi í fyrstu gefið út reikning fyrir þjónustuna, þar sem umrætt daggjald hafði verið hækkað lítillega í samræmi við áætlaðar kostnaðarhækkanir, en leiðrétt hann síðan með útgáfu hins umdeilda reiknings þar sem framangreint daggjald var lagt óbreytt til grundvallar.

 

Með vísan til framangreinds, og þar sem stefndi hefur ekki gert athugasemdir við kröfugerð stefnanda að öðru leyti, verður fallist á dómkröfu stefnanda, eins og hún er sett fram.

 

Stefndi greiði stefnanda 850.000 krónur í málskostnað.

 

Uppkvaðning dóms í máli þessu hefur dregist fram yfir lögbundinn frest, en dómari og lögmenn töldu ekki þörf á endurflutningi.

 

Ásgeir Magnússon dómstjóri kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

Stefndi, Englahof ehf., greiði stefnanda, Dýralæknaþjónustu Suðurlands ehf., 4.736.202 krónur, ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 6. gr. sömu laga, frá 28. ágúst 2015 til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum 6. september 2015 að fjárhæð 235.600 krónur og 11. nóvember 2015 að fjárhæð 2.318.800 krónur.

 

Stefndi greiði stefnanda 850.000 krónur í málskostnað.

 

                                                                                                Ásgeir Magnússon