• Lykilorð:
  • Hótanir
  • Líkamsárás

D Ó M U R

Héraðsdóms Vesturlands 3. júlí 2018 í máli nr. S-30/2018:

Ákæruvaldið

(Jón Haukur Hauksson aðstoðarsaksóknari)

gegn

X

 

Mál þetta höfðaði lögreglustjórinn á Vesturlandi með ákæru 20. júní 2018 á hendur ákærða, X…, kt. …, …, …. Málið var dómtekið 29. júní 2018.

Í ákæruskjali segir að málið sé höfðað gegn ákærða fyrir „líkamsárás mánudaginn 26. mars 2018, á … á …, með því að hafa slegið A…, kt. …, í andlitið svo hún hlaut bólgu og eymsli yfir neðri kjálka hægra megin og sár innan á hægri kinn.

Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari breytingum.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Með ákæru dagsettri 27. júní 2018 var sakamál, sem fékk númerið S-35/2018 hjá dóminum, höfðað af Lögreglustjóranum á Vesturlandi á hendur ákærða og var það mál sameinað þessu máli.

Í ákæruskjali segir að málið sé höfðað gegn ákærða fyrir „brot í nánu sambandi, með því að hafa á tímabilinu 18. maí 2017 til 10. mars 2018, ítrekað haft í hótunum með sms skilaboðum og Messenger skilaboðum, á eftirgreindan hátt:

I.

með því að hafa ítrekað sent barnsmóður sinni, B…, kt. …, búsettri í …, hótanir með sms skilaboðum úr símanúmerinu sínu, …, og í símanúmer hennar, …, og valdið með skilaboðunum ótta hjá henni um líf, heilbrigði og velferð sína.

Hótanir sem ákærði sendi B… voru eftirfarandi, og sendar á neðangreindum dögum:

1. Sent 27. janúar 2018: „ég mun gera líf ykkar að helvíti“.

2. Sent 5. mars 2018: „ÞÚ hefur enþá sjéns til að senda son minn til mín ef EKKI  þá mun ég drepa þig og ofbeldismann þinn.“

3. Sent 7. mars 2018: „Ef þú elskar son þinn þá værirðu ekki með barnaofbeldismann á heimilinu, það eina sem ég vill er að sonur minn er öruggur og ánægður hann er það ekki meðan þú ert með barnaofbeldismann sem slær sparkar kýlir son minn ef ég þarf að drepa svo það hætti mun ég gera það.“

II.

með því að hafa ítrekað sent D…, kt. …, eiginmanni B…, búsettum í …, hótanir með sms skilaboðum úr símanúmerinu sínu …, og með facebook skilaboðum, og valdið með skilaboðunum ótta hjá honum um líf, heilbrigði og velferð sína.

Hótanir sem ákærði sendi D… voru eftirfarandi, sendar á neðangreindan hátt og á neðangreindum dögum:

1. Messenger skilaboð sent D…, þann 18. maí 2017, kl. 17.36: „Ef þú leggur hönd að syni mínum aftur þá áttu ekki von á góðu.“  

2. Sms skilaboð í símanúmerið …, sem er í eigu D…, sent þann 24. janúar 2018: „það er eins gott fyrir þig að drulla þér útaf heimilinu sem fyrst og koma þér í burtu frá syni mínum annars ertu DAUÐUR.“

3. Sms skilaboð í símanúmerið …, sem er í vörslu sonar ákærða, E…, kt. …, búsettum í …, sent 4. mars 2018, kl. 21.54: „langar þér að vera laus við d… ég get losað þig við hann ef þú vilt.“

4. Sms skilaboð í símanúmerið …, sem er í vörslu sonar ákærða, E…, kt. …, búsettum í …, sent 10. mars 2018, kl. 09.14: „Þú verður að segja frá að d… lemji þig eins og þú sagðir mér, ef þú segir ekki þá mun ég drepa d….“

 

Telst þetta varða við 218. gr. b. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Ákærði hefur fyrir dómi skýlaust játað að hafa framið þau brot sem honum eru gefin að sök í ákærum og er játning hans studd sakargögnum. Eru því efni til að leggja dóm á málið samkvæmt 1. mgr. 164. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Samkvæmt þessu verður ákærði sakfelldur fyrir brotin, sem réttilega eru færð til refsilaga í ákæru.

Samkvæmt sakavottorði hefur ákærði ekki mál á sakaskrá sem hefur áhrif á ákvörðun viðurlaga. Við ákvörðun refsingar ákærða er þess að gæta að það horfir honum til málsbóta að hann hefur greiðlega gengist við brotunum. Að öllu því virtu sem hér hefur verið rakið þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin tveggja mánaða fangelsi en rétt þykir að fresta fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að tveimur árum liðnum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Engan sakarkostnað leiddi af rannsókn og rekstri málsins.

Guðfinnur Stefánsson, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, X…, sæti fangelsi í tvo mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

 

 

                                                                        Guðfinnur Stefánsson