• Lykilorð:
  • Akstur án ökuréttar

D Ó M U R

Héraðsdóms Vesturlands 26. febrúar 2019 í máli nr. S-73/2018:

 Ákæruvaldið

(Emil Sigurðsson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Arnóri Þorsteinssyni

(Ómar R. Valdimarsson hdl.)

 

Mál þetta höfðaði lögreglustjórinn á Vesturlandi með ákæru 6. nóvember 2018 á hendur ákærða, Arnóri Þorsteinssyni, kt. …, Lækjarmel 4, Hvalfjarðarsveit. Málið var dómtekið 26. febrúar 2019.

Í ákæruskjali segir að málið sé höfðað gegn ákærða fyrir umferðarlagabrot, en ákærða er gefið að sök „að hafa sunnudaginn 4. nóvember 2018 ekið bifreiðinni YE532 sviptur ökuréttindum á Vesturlandsvegi við Hvalfjarðargöng í Hvalfjarðarsveit.

Telst þetta varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með síðari breytingum.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.“

Ákærði hefur fyrir dómi skýlaust játað að hafa framið það brot sem honum er gefið að sök í ákæru og er játning hans studd sakargögnum. Eru því efni til að leggja dóm á málið samkvæmt 1. mgr. 164. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Samkvæmt þessu verður ákærði sakfelldur fyrir brotið, sem réttilega er fært til refsilaga í ákæru.

Samkvæmt sakavottorði hefur ákærði frá árinu 2012 hlotið fimm dóma og tvívegis gengist undir viðurlög með lögreglustjórasátt, fyrir brot gegn almennum hegningalögum, umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni.

Refsing ákærða þykir að broti hans virtu hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga.

Loks verður ákærða með vísan til 235. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, gert að greiða þóknun verjanda síns sem þykir hæfilega ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti svo sem greinir í dómsorði. Annan sakarkostnað leiddi ekki af rannsókn og meðferð málsins.

Guðfinnur Stefánsson, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.

 

DÓMSORÐ:

Ákærði, Arnór Þorsteinsson, sæti fangelsi í 30 daga.

Ákærði greiði þóknun verjanda síns, Ómars R. Valdimarssonar lögmanns, 132.680 krónur, og ferðakostnað verjandans 16.500 krónur.

 

                                                                         Guðfinnur Stefánsson