• Lykilorð:
  • Brot gegn valdstjórninni
  • Lögreglumenn

D Ó M U R

Héraðsdóms Vesturlands 17. apríl 2018 í máli nr. S-11/2018:

Ákæruvaldið

(Pétur Hrafn Hafstein saksóknarfulltrúi)

gegn

Jóni E. Vilhjálmssyni

Mál þetta höfðaði héraðssaksóknari með ákæru dags 8. mars 2018 á hendur ákærða, Jóni E. Vilhjálmssyni, kt. …, Kvíaholti 10, Borgarnesi. Málið var dómtekið 12. apríl 2018.

   Í ákæru segir að málið sé höfðað gegn ákærða „fyrir brot gegn valdstjórninni, með því að hafa laugardaginn 6. maí 2017, utandyra við Hótel Klaustur, Klausturvegi 6, Kirkjubæjarklaustri, slegið lögreglumanninn A… hnefahöggi í hægri kinn og sparkað vinstra megin í andlit hans, er hann var við skyldustörf, með þeim afleiðingum að hann hlaut eymsli yfir vinstra kinnbeini og vinstra gagnaugasvæði og um eins sentímetra gapandi skurð yfir vinstri augabrún og með því að hafa í kjölfarið, í lögreglubifreið á leið til Víkur í Mýrdal, sparkað ítrekað í hægri handlegg og síðu A….

 Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

Af hálfu A…, kt. …, er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða honum skaðabætur og miskabætur að fjárhæð 300.000.- króna ásamt vöxtum skv. 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 6. maí 2017 til þess dags er mánuður er liðinn frá því að ákærða er kynnt bótakrafa þessi en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.“   

Ákærði hefur fyrir dómi skýlaust játað að hafa framið það brot sem honum er gefið að sök í ákæru og er játning hans studd sakargögnum. Eru því efni til að leggja dóm á málið samkvæmt 1. mgr. 164. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Samkvæmt þessu verður ákærði sakfelldur fyrir brotið, sem réttilega er fært til lagaákvæða í ákæru.

Í máli þessu er ákærði sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa ráðist með ofbeldi gegn lögreglumanni þegar hann var að gegna skyldustarfi sínu.

Með 1. gr. laga nr. 25/2007, um breyting á almennum hegningarlögum, var refsirammi 106. gr. almennra hegningarlaga, þegar brot beindist að opinberum starfsmanni sem hefur heimild til líkamlegrar valdbeitingar, hækkaður úr 6 árum í 8 ár. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 25/2007 segir meðal annars að markmiðið með 1. gr. frumvarpsins sé að skerpa og auka þá refsivernd sem opinberum starfsmönnum er hafa heimild til líkamlegrar valdbeitingar sé veitt í refsilögum, enda lendi þessi hópur opinberra starfsmanna mun oftar í þeirri aðstöðu að sæta ofbeldi eða hótun um ofbeldi en aðrir opinberir starfsmenn.

Að framansögðu virtu þykir refsing ákærða, sem er með hreint sakavottorð, hæfilega ákveðin þriggja mánaða fangelsi, en rétt þykir að öllu virtu að fresta fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Í málinu krefst brotaþoli, A…, þess að ákærði greiði honum  samtals 300.000 krónur í miskabætur, auk tilgreindra vaxta. Um lagarök er vísað til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Ákærði hefur viðurkennt bótaskyldu en lagt fjárhæð kröfunnar í mat dómsins. Í samræmi við þetta verður krafan tekin til greina með þeirri breytingu að miskabætur verða ákveðnar hæfilegar 250.000 krónur. Einnig verður fallist á vaxtakröfu brotaþola þannig að vextir reiknist frá 6. maí 2017 og dráttarvextir frá 19. apríl 2018, en þá var mánuður liðinn frá því krafan var kynnt ákærða með birtingu fyrirkalls, sbr. 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001.

Engan sakarkostnað leiddi af rannsókn og rekstri málsins.

Guðfinnur Stefánsson, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Jón Ö. Vilhjálmsson, sæti fangelsi í þrjá mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði greiði A… 250.000 krónur, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá 6. maí 2017 til 19. apríl 2018, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

 

Guðfinnur Stefánsson