• Lykilorð:
  • Líkamsárás

D Ó M U R

Héraðsdóms Vesturlands 4. júlí 2018 í máli nr. S-31/2018:

Ákæruvaldið

(Jón Haukur Hauksson aðstoðarsaksóknari)

gegn

X

 

Mál þetta höfðaði lögreglustjórinn á Vesturlandi með ákæru 20. júní 2018 á hendur ákærða, X…, kt. …, …, …. Málið var dómtekið 29. júní 2018.

Í ákæruskjali segir að málið sé höfðað gegn ákærða fyrir „líkamsárás mánudaginn 16. apríl 2018, í sumarhúsi við … í Borgarbyggð, með því að hafa veist að eiginkonu sinni Z…, kt. …, slegið hana í andlitið svo hún féll og hlaut skurð ofan við vinstra auga, mar og bólgu á vinstra augnloki og vinstra kinnbeini, mar og bólgu vinstra megin á höku, tvo marbletti og bólgu á hægri upphandlegg, mar og bólgu á hægri framhandlegg og yfir rifjum vinstra megin og framanvert við vinstri mjaðmaspaða og utanvert á hægra hné.

Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. b. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari breytingum.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Ákærði hefur fyrir dómi skýlaust játað að hafa framið það brot sem honum er gefið að sök í ákæru og er játning hans studd sakargögnum. Eru því efni til að leggja dóm á málið samkvæmt 1. mgr. 164. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Samkvæmt þessu verður ákærði sakfelldur fyrir brotið, sem réttilega er fært til lagaákvæða í ákæru.

Ákærði, sem ekki á sakarferil að baki, á sér þær málsbætur einar að hann hefur játað sök. Að þessu gættu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fjögurra mánaða fangelsi en rétt þykir að fresta fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, með síðar breytingum.

Engan sakarkostnað leiddi af rannsókn og rekstri málsins.

Guðfinnur Stefánsson, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, X…, sæti fangelsi í fjóra mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

 

                                                                        Guðfinnur Stefánsson