• Lykilorð:
  • Skuldamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Vesturlands 26. apríl 2017 í máli nr. E-36/2016:

Útfararstofa Íslands ehf.

(Björg Rúnarsdóttir hdl.)

gegn

X

(Gísli Kr. Björnsson hdl.)

 

Mál  þetta, sem dómtekið var 29. mars sl., er höfðað af Útfararstofu Íslands ehf., Auðbrekku 1, Kópavogi, á hendur X..., ..., ..., 311 Borgarnesi, með stefnu birtri 3. mars 2016.

 

Stefnandi krefst þess að stefndu verði gert að greiða sér skuld að fjárhæð 340.848 krónur, ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. október 2013 til greiðsludags, að frádreginni innborgun hinn 29. nóvember 2013 að fjárhæð 134.000 krónur. Jafnframt krefst hann málskostnaðar úr hendi stefndu að mati dómsins.

 

Stefnda krefst þess aðallega að hún verði sýknuð af kröfu stefnanda, en að öðrum kosti verði krafan lækkuð verulega. Þá krefst stefnda málskostnaðar úr hendi stefnanda sér að skaðlausu.

 

Mál þetta snýst um kostnað vegna þjónustu stefnanda við útför sambýlismanns stefndu, A..., .... október 2013, en hann lést er þau voru stödd saman á ... hinn 20. september sama ár. Bú hins látna var tekið til opinberra skipta og liggur fyrir yfirlýsing skiptastjóra dánarbúsins um skiptalok í því og að ekki hafi verið til staðar eignir í því þannig að unnt væri að greiða útfararkostnað. Kemur þar og fram að stefnda hafi ekki verið meðal erfingja búsins.

 

Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslur B..., framkvæmdastjóri stefnanda, stefnda, X..., sr. D... og E....

 

Stefnandi kveður hina umstefndu skuld vera til komna vegna þjónustu sem hann hafi innt af hendi við útför sambýlismanns stefndu umrætt sinn. Kveðst stefnandi byggja kröfu sína á því að hann hafi á allan hátt staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt samningi sínum við stefndu og þar sem krafan hafi ekki fengist greidd, að því undanskildu að börn hins látna hafi greitt 134.000 krónur inn á skuldina hinn 29. nóvember 2013, hafi stefnanda verið nauðsynlegt að höfða mál þetta til heimtu skuldarinnar. Kveðst stefnandi um lagarök vísa til meginreglna samninga- og kröfuréttarins um loforð og efndir fjárskuldbindinga, en regla þessi fái m.a. lagastoð í 45., 46., 51. og 1. mgr. 52. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup.

 

Stefnda vísar til þess að hún sé ekki réttur aðili að máli þessu í skilningi 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hún hafi ekki óskað eftir þjónustu stefnanda við umrædda útför og því hafi ekki stofnast til neins samningssambands milli hennar og stefnanda vegna hennar. Enda þótt hún hafi verið í óformlegri sambúð með hinum látna við andlát hans hafi hún hvorki verið tengd honum að lögum né hafi hún verið lögerfingi hans. Dánarbú hins látna hafi verið tekið til opinberra skipta og hafi skiptastjóri þess staðfest annars vegar að hún væri ekki meðal erfingja þess og að engar eignir hefðu verið til staðar til að greiða kostnað vegna jarðarfarar hins látna.

 

Þar sem stefnda hafi verið stödd með hinum látna á ... þegar hann lést hafi það lent á hennar herðum að kaupa líkkistu og sjá um og kosta flutning hins látna hingað til lands. Stefnda hafi jafnframt tekið að sér að sjá um tiltekna þætti við útförina, en það hafi hún gert samkvæmt sérstöku samkomulagi við lögerfingja hins látna. Hafi í því falist að hún myndi þá sjálf sjá um að greiða því tónlistarfólki sem hún óskaði eftir að kæmi að útförinni. Hafi þetta allt gengið eftir með því að hún hafi staðið skil á greiðslum til viðkomandi tónlistarmanna. Hún telji sig hins vegar ekki eiga að greiða fyrir aðra þætti sem krafa stefnanda lúti að, s.s. merkingu leiðis, kórsöng, orgelleik, stefgjöld af tónlistarflutningi, þjónustugjöld, þjónustu kirkjuvarðar og útfararþjónustu. Stefnda hafi vissulega sett sig í samband við stefnanda strax í kjölfar andlátsins í þeim tilgangi einum að fá aðstoð við að koma líkinu hingað heim til Íslands. Hins vegar hafi einn erfingjanna svo stigið inn í þessi samskipti og tekið þau yfir strax eftir komuna til landsins. Hafi við það fallið niður fjárskuldbindingar hennar gagnvart stefnanda, enda hafi erfingjarnir séð um alla pappírsvinnu vegna andlátsins, jarðarfararinnar og dánarbúsins. Verði ekki annað séð en að í kjölfar þessa hafi myndast samningssamband milli erfingjanna og stefnanda, enda sé meginregla kauparéttar sú að sá sem panti þjónustu beri ábyrgð á skilum gagngjalds. Það hafi því verið börn hins látna, lögerfingjarnir, sem hafi séð um að velja prest og kalla eftir þjónustu stefnanda og þannig stofnað til samningssambands við hann. Liggi og fyrir að þau hafi innt af hendi þá innborgun á skuldina, að fjárhæð 134.000 krónur, sem greidd hafi verið 29. nóvember 2013. Sé það og í samræmi við reglur erfðaréttarins, enda taki þau allan arf eftir föður sinn. Verði ekki annað séð en að með því hafi þau viðurkennt greiðsluskyldu sína fyrir reikningnum í heild sinni. Stefnanda megi og vera ljóst að stefnda hafi verið í afar litlum beinum samskiptum við hann. Hún hafi aftur á móti átt í samskiptum við lögerfingjana í gegnum prestinn, sr. D..., og þá jafnvel í gegnum annan prest, sr. F..., sem veitt hafi stefndu áfallahjálp. Hefði stefnda hugsað sér að leggja til að F... sæi um útförina og annað því tengt en erfingjarnir hafi hins vegar ákveðið að fá D... til verksins.

 

Vegna tilvísana stefnanda til tilgreindra ákvæða laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup bendir stefnda á að um sé að ræða þjónustu sem stefnandi hafi veitt gegn gjaldi og hafi því lagatilvísanir ekkert gildi vegna hins umdeilda reiknings. Hefði hann því þurft að byggja á viðeigandi ákvæðum laga um þjónustukaup nr. 40/2000.

 

Stefnda vísar og til sjónarmiða um tómlæti til stuðnings kröfum sínum, en innheimta skuldarinnar hafi hafist löngu eftir útgáfu hins umdeilda reiknings.

 

Niðurstaða

Stefnda byggir sýknukröfu sína aðallega á því að hún hafi ekki óskað eftir þjónustu stefnanda við umrædda útför og því hafi ekki stofnast til neins samningssambands milli þeirra vegna hennar. Hún hafi vissulega tekið að sér að sjá um tiltekna þætti við útförina en það hafi hún gert samkvæmt sérstöku samkomulagi við lögerfingja hins látna um að hún myndi þá sjálf sjá um að greiða því tónlistarfólki sem hún óskaði eftir að kæmi að útförinni. Hafi það og allt gengið eftir með því að hún hafi staðið skil á greiðslum til viðkomandi tónlistarmanna. Hún telji sig hins vegar ekki eiga að greiða fyrir aðra þætti sem krafa stefnanda lúti að, s.s. merkingu leiðis, kórsöng, orgelleik, stefgjöld af tónlistarflutningi, þjónustugjöld, þjónustu kirkjuvarðar og útfararþjónustu. Í skýrslu framkvæmdastjóra stefnanda kom fram að hann hefði einungis verið í sambandi við stefndu vegna umræddrar útfarar. Þau hefðu fyrst rætt saman í síma er stefnda var enn úti á ... og hann þá upplýst hana um það hvernig standa ætti að því að flytja hinn látna til landsins. Jafnframt hefði stefnandi tekið að sér að annast móttöku kistunnar á Keflavíkurflugvelli og flutning hennar til útfararstofunnar. Forsvarsmaður stefnanda og stefnda hefðu svo stuttu eftir heimkomu hennar hist á fundi hjá honum og rætt um tilhögun kistulagningar og útfarar hins látna. Hefði stefnda óskað eftir að stefnandi sæi um að útvega orgelleikara við kistulagningu og útför og kór við útförina, í samræmi við tillögur hans, en hún hefði ætlað að sjá um að leita til annarra tónlistarmanna. Það hefði og gengið eftir og hefði hún sjálf séð um greiðslur til þeirra. Í skýrslu sinni kvaðst stefnda kannast við að hafa sett sig í samband við forsvarsmann stefnanda, bæði símleiðis frá ... og síðan bæði hitt hann á fundi og rætt við hann símleiðis um undirbúning og framkvæmd útfararinnar. Hefði hún óskað eftir að stefnandi sæi um útförina. Forsvarsmaður stefnanda hefði stungið upp á því að tilgreindur kór syngi við útförina og nefnt organista sem gæti spilað við kistulagningu og útför og kvaðst hún ekki hafa gert neina athugasemd við þær tillögur. Hún hefði þó ekkert leitt hugann að kostnaði í því sambandi. Loks kom fram hjá vitninu D..., sem annaðist prestþjónustu við umræddar athafnir, að í samtali við stefndu eftir kistulagninguna hefði hún staðfest að hún myndi ábyrgjast greiðslu kostnaðar vegna alls tónlistarflutnings við báðar athafnirnar.

 

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið, og þar sem ekki er komin fram nein sönnun um þá staðhæfingu stefndu að í kjölfar fundar hennar með forsvarsmanni stefnanda hafi stofnast til samningssambands milli erfingja hins látna og stefnanda, telst stefnda réttur aðili máls þessa, enda verður ekki talið að innborgun erfingjanna inn á skuldina breyti neinu þar um. Verður og á það fallist með stefnanda að sönnun sé komin fram um að stefnda hafi óskað eftir þjónustu stefnanda við útför hins látna og samþykkt að stefnandi stofnaði til þeirra kostnaðarliða, þar á meðal vegna framlags kórs og orgelleikara, sem tilgreindir eru í reikningi hans. Samkvæmt því, og þar sem dráttarvaxtakrafa í stefnu hefur ekki sætt tölulegum andmælum af hálfu stefndu, verður stefndu gert að greiða hina umstefndu skuld, eins og krafist er í stefnu. Geta meint tómlætissjónarmið sem stefnda vísar til í greinargerð sinni engu breytt þar um.

 

Stefnda greiði stefnanda 450.000 krónur í málskostnað.

 

Ásgeir Magnússon dómstjóri kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

Stefnda, X..., greiði stefnanda, Útfararstofu Íslands ehf., 340.848 krónur, með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. október 2013 til greiðsludags, að frádreginni innborgun 29. nóvember sama ár að fjárhæð 134.000 krónur.

 

Stefnda greiði stefnanda 450.000 krónur í málskostnað.

 

                                                                                                Ásgeir Magnússon