• Lykilorð:
  • Kyrrsetning
  • Skaðabætur
  • Skuldajöfnuður
  • Verksamningur
  • Skuldamál

D Ó M U R

Héraðsdóms Vesturlands 8. febrúar 2018 í máli nr. E-3305/2017:

LOB ehf.

(Ingvi Hrafn Óskarsson hdl.)

                                               gegn

H96 ehf.

(Sara Rut Sigurjónsdóttir hdl.)

                                         og

                                        Víghóll ehf.

                                         gegn

                                         LOB ehf.

                                         í

                                                gagnsök

 

Mál þetta, sem dómtekið var 20. desember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Vesturlands með réttarstefnu þingfestri 1. september 2015 af Loftorku í Borgarnesi ehf., nú LOB ehf., Engjaási 2, Borgarnesi, á hendur S.A Verki ehf., Áslandi 3, 270 Mosfellsbæ.

 

I.

        Stefnandi kveðst gera eftirfarandi dómkröfur:

  1. Að stefndi greiði stefnanda 96.252.677 kr. auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 41.524.949 kr. frá 30.5.2015 til 30.6.2015, og frá þeim degi af 94.346.645 kr. til 27.7.2015, og frá þeim degi af 96.252.677 kr. til greiðsludags.

 

  1. Að staðfest verði kyrrsetningargerð sú, sem Sýslumaðurinn í Reykjavík gerði þann 27. júlí 2015 í réttindum stefnda í fasteigninni að Hverfisgötu 103, fastanúmer 200-3628, þ.e. í rétti til kaupsamningsgreiðslna samkvæmt þinglýstu kauptilboði Hvanna ehf., kt. 590707-1040, og nái til fasteignarinnar sjálfrar falli hið samþykkta kauptilboð niður. Enn fremur kveðst stefnandi krefjast þess að staðfest verði kyrrsetning hlutabréfa stefnda í einkahlutafélaginu H96 ehf., kt. 421014-1320, að því marki sem fyrrgreindar kaupsamningsgreiðslur hrökkva ekki til greiðslu krafna stefnanda.

 

         III.     Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda, eftir atvikum samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi.

 

        Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda.

         Jafnframt gerir stefndi kröfu um að kyrrsetning, sem Sýslumaðurinn á höfuðborgar-svæðinu gerði í réttindum stefnda yfir fasteigninni að Hverfisgötu 103 hinn 27. júlí 2015 í máli nr. K-12/2015, verði felld úr gildi.

        Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt málskostnaðarreikningi, sem verði lagður fram við aðalmeðferð málsins eða að mati dómsins stefnda að skaðlausu.

 

        Stefndi höfðaði gagnsök með gagnstefnu þingfestri fyrir Héraðsdómi Vesturlands 20. október 2015 á hendur aðalstefnda.

        Dómkröfur gagnstefnanda eru þær að gagnstefndi verði dæmdur til að greiða gagnstefnanda 57.937.640 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 12.211.489 kr. frá 29. júlí til 30. september 2015 en af 57.937.640 kr. frá þeim degi til greiðsludags.

        Þá er gerð krafa um málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi sem áskilinn er réttur til að leggja fram við aðalmeðferð eða að mati réttarins.

Þá er þess jafnframt krafist að gagnsök þessi verði sameinuð aðalsök.

 

          Gagnstefndi krefst sýknu af öllum kröfum gagnstefnanda.

          Þá gerir gagnstefndi í öllum tilvikum þá kröfu að stefnandi verði dæmdur til að greiða gagnstefnda málskostnað að skaðlausu, samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins.

          Í þinghaldi þann 14. október 2016 var lögð fram tilkynning um að á hluthafafundi í SA verki ehf. og H96 ehf. þann 3. maí 2016 hefði verið lögð fram áætlun um samruna félaganna og samruni samþykktur. SA verki ehf. var slitið og runnu réttindi og skyldur félagsins í heild til yfirtökufélagsins H96 ehf.

         Þann 31. janúar 2017 var með vísan til 1. mgr. 22. gr. laga nr. 91/1991 lögð fram tilkynning um aðilaskipti til sóknar í gagnsök og hefur Víghóll ehf. tekið við aðild H96 ehf.í gagnsök.

II.

Málsatvik

          Helstu málsatvik eru þau að 18. mars gerðu stefnandi og stefndi með sér verksamning þar sem stefnandi tók að sér að framleiða og reisa forsteyptar einingar í hótelbyggingu á fjórum hæðum auk bílastæðakjallara að Hverfisgötu 103, Reykjavík. Verkkaupi var stefndi og gerði samningurinn ráð fyrir að stefndi greiddi 228.226.820 kr. eftir framvindu verksins. Í verksamningi voru fyrirvarar um endanlega útfærslu byggingarinnar, magnbreytingar og fjárhæð þar sem endanlegar teikningar lágu ekki fyrir.

        Í verksamningi kom fram að teikningar til að hefja einingaframleiðslu ættu að vera tilbúnar 1. apríl 2014, jarðvinna tilbúin með þjöppuðum og mældum púða 10. apríl 2014 og tilgreint var síðan hvenær hefja ætti reisingu, sbr. 5. gr. um afhendingartíma/verktíma, og síðan kom fram að uppsteypu ætti að vera lokið 30. september 2014. Hönnunargögn voru ekki tilbúin 1. apríl og byggingarleyfi lá ekki fyrir.

        Þann 24. mars 2014 óskaði framkvæmdastjóri stefnanda eftir upplýsingum um stöðu hönnunar hjá aðalhönnuði byggingarinnar, Tryggva Tryggvasyni hjá Opus. Þann 25. mars 2014 svaraði Tryggvi Tryggvason hjá OPUS og kvað aðalteikningar vera í meðferð hjá byggingarfulltrúa. Embætti byggingarfulltrúa hafnaði síðan þessum teikningum. Hönnun byggingarinnar tók verulegan tíma. Drög að aðaluppdráttum voru lögð inn til byggingarfulltrúa 7. janúar 2014 og voru þar til umfjöllunar um skeið en þeim var síðan vísað til umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar. Á fundi þess þann 2. apríl 2014 var erindinu hafnað þar sem tillagan væri ekki í samræmi við aðalskipulag og deiliskipulag.

        Aðaluppdrættir fyrir hótelið voru síðan samþykktir 7. júlí 2014, en sú útgáfa var uppfærð um haustið og var ný af aðaluppdrætti samþykkt 28. október 2014 af byggingarfulltrúa.

Takmarkað byggingarleyfi fyrir uppsteypu á sökklum, botnplötu og lögnum í jörð var veitt 3. september 2014. Byggingarleyfi var útgefið þann 15. janúar 2015.

        Aðilum verksamningsins var ljóst strax um sumarið 2014 að þær tafir sem orðið höfðu á hönnun byggingarinnar, miðað við forsendur í verksamningi frá mars 2014, hefðu leitt til þess að forsendur tímasetninga í verkáætlun hefðu breyst verulega, og því var unnið að uppfærslu og breytingum á verksamningi. Unnu aðilar samningsins fyrst að uppfærslu hans í ágúst 2014. Þessi ágústdrög voru ekki kláruð og voru ekki undirrituð. Enn var unnið að uppfærslu verksamnings í fyrri hluta október 2014 og voru þau einnig ókláruð og óundirrituð. Þó að samningsdrögin sem voru í vinnslu í ágúst og október hafi ekki tekið gildi sýna þau að ýmsar forsendur höfðu tekið breytingum. Báðum samningsaðilum var ljóst að verkið yrði umfangsmeira og kostnaðarsamara en gert var ráð fyrir vegna þessara atriða.

        Krani stefnanda var reistur á verkstað um miðjan september, og fyrstu einingar voru framleiddar þann 14.10.2014, en þá lágu fyrir verkfræðiteikningar fyrir fyrsta hluta byggingarinnar (sökklar o.fl.). Jarðvegsvinna hófst fyrst í september/október og stóð yfir fram eftir vetri. 

         Þann 16. desember 2014 varð ljóst að jarðvegsvinnu var ekki lokið. Í tölvuskeyti frá starfsmanni til stefnda þennan dag kemur fram að enn eigi eftir að setja grús/sand til þess að jafna undirlag í kjallara svo að hægt sé að hefja einangrun og járnun botnplötu. Framkvæmdastjóri gagnstefnanda svaraði samdægurs: „Ég held að hæðin sem er komin sé rétt en lásarnir of lágir en við skulum tékka aftur ,en förum varlega að láta plastið ofan á frosinn jarðveginn.“ Í ljós kom að talsverðri jarðvegsvinnu var ólokið, og botnplatan var svo að mestu steypt í byrjun árs 2015 og var uppsteypu hennar lokið 9. janúar 2015.

        Uppsteypu og reisingu byggingarinnar að Hverfisgötu 103 lauk 22. maí 2015 þegar þakplötur höfðu verið steyptar. Á fundi aðila 26. maí 2015 kom fram að stefndi hygðist ekki greiða frekari verklaun. Þá voru fjárkröfur, þar á meðal framvindureikningar, komnar á eindaga. Með yfirlýsingu 28. maí 2015 lýsti stefndi formlega yfir haldi á eigin greiðslu en sama dag lýsti stefnandi yfir tímabundinni verkstöðvun þar til stefndi hefði greitt gjaldfallnar kröfur eða samkomulag hefði náðst um uppgjör umræddra reikninga.

       Stefndi krafðist þess að stefnandi fjarlægði krana sinn af verkstað. Stefndi hófst síðan handa við að fjarlægja efni sem tilheyrði gagnstefnda af verkstað.

        Þann 29. júní lýsti stefndi yfir riftun verksamnings og byggði hana á því að hluti hinna gjaldföllnu krafna hefði verið greiddur með skuldajöfnuði. Stefnandi mótmælti riftuninni sem ólögmætri. Í framhaldinu fór stefnandi fram á að eignir stefnda yrðu kyrrsettar til þess að tryggja fullnustu krafna stefnanda.

        Sýslumaðurinn í Reykjavík gerði þann 27. júlí 2015 kyrrsetningu í réttindum stefnda yfir fasteigninni að Hverfisgötu 103, fastanúmer 200-3628, þ.e. í rétti til kaupsamningsgreiðslna samkvæmt þinglýstu kauptilboði Hvanna ehf., kt. 590707-1040, og til fasteignarinnar sjálfrar félli hið samþykkta kauptilboð niður. Einnig voru kyrrsett hlutabréf stefnda í einkahlutafélaginu H96 ehf., kt. 421014-1320, að því marki sem fyrrgreindar kaupsamningsgreiðslur hrykkju ekki til greiðslu krafna stefnanda.

      

III.

Málsástæður og lagarök stefnanda

        Stefnandi byggir á því að miklar breytingar á upphaflegri verkáætlun skýrist fyrst og fremst af því að hönnun hússins, sem teikni- og verkfræðistofa á vegum stefnda hafði umsjón með, hafi tekið mun lengri tíma en ráðgert hafi verið í upphafi, ásamt því að ferlið hafi tafist vegna athugasemda skipulagsyfirvalda í Reykjavík. Takmarkað byggingarleyfi hafi verið gefið út 29. júlí 2014 og það hafi aðeins heimilað uppsteypu á sökklum, botnplötu og lögnum í jörð. Byggingarleyfið sjálft hafi hins vegar ekki legið fyrir fyrr en 15. janúar 2015, og þá fyrst hafi stefnanda verið mögulegt að hefja umfangsmestu verkþættina á verkstað. Frá þeim tíma hafi verkinu miðað samkvæmt áætlun.

        Þar sem ljóst hafi verið að umfangsmiklar breytingar hefðu orðið á forsendum verksins hafi stefnandi og stefndi unnið að því að uppfæra verksamninginn í október 2014. Drögin hafi ekki verið frágengin og ekki undirrituð en þau beri þess skýr merki að aðilar hafi verið sammála um að verkið væri mun umfangsmeira en í upphafi var gert ráð fyrir og að tafir við verkið hefðu valdið stefnanda kostnaðarauka.

         Í 3. grein draganna segi meðal annars: „Þá hafi samningsfjárhæð verið hækkuð upp í kr. 252.919.789, auk þess sem tilvísun í ýmsa verkþætti hafi verið bætt við verksamninginn (sjá ákvæði 3. greinar á bls. 4 í október-samningsdrögum) og augljóst sé að greiða hafi átt fyrir þá verkþætti sérstaklega til viðbótar við framangreinda fjárhæð.“

         Þegar unnið hafi verið að uppfærslu á verksamningnum í október 2014 hafi hins vegar ekki verið búið að ljúka við hönnun hússins og síðar hafi komið á daginn að umfang og magn hafi aukist enn frekar. Þá telji stefnandi að þegar hann hafi lokið við viðamestu verkþættina í verkinu í lok maí 2015 hafi stefndi gert stefnanda viðvart um að hann hygðist ekki greiða frekar af útistandandi reikningum vegna verksins, sbr. yfirlýsingu stefnda um hald á eigin greiðslu og skuldajöfnuð vegna vanefnda á verksamningi, dags. 28. maí 2015. Eins og fram komi í yfirlýsingu stefnda hafi verið um að ræða framvindureikninga og reikning fyrir magnaukningu, samtals upp á u.þ.b. 35 milljónir króna. Stefndi hafði, að sögn stefnanda, engar athugasemdir gert áður vegna reikninga frá stefnanda.

        Þau sjónarmið sem fram séu færð af hálfu stefnda í yfirlýsingunni frá 28 maí sl. séu tilhæfulaus að mati stefnanda, eins og rökstutt hafi verið með ítarlegum hætti í bréfi stefnanda, dags. 10 júní 2015. Þar hafi framkvæmdastjóri stefnanda, Bergþór Ólason, ritað yfirlýsingu til stefnda þar sem skorað var á stefnda að efna verksamninginn og inna af hendi umsamdar greiðslur. Stefnandi taldi einnig á þessum tíma einhlítt að stöðva framkvæmdir um stundarsakir þar til stefndi hefði bætt úr vanefndum sínum.

        Stefnandi byggir kröfu sína á 22 framlögðum reikningum sem hann kveður ógreidda og stefndi hafi staðfest það við meðferð kyrrsetningarbeiðni hjá sýslumanni. Reikningarnir séu eftirfarandi:

Nr.

Dags

Eindagi

Reikn.

Upphæð debet

Ójafnað

Tilefni

1

29.10.14

13.11.2014

9713

        1.890.129    

           741.703    

Súluundirstöður og þrifalag.

2

4.3.2015

9.3.2015

10152

        1.591.974    

        1.591.974    

Afnot af krana og laun stm.

3

15.4.2015

17.4.2015

10280

      15.006.769    

                6.050    

Einingar og reising - framvindureikningur 20.

4

7.5.2015

21.5.2015

10384

      13.554.479    

     13.554.479    

Magnbreyting í járni og járnabakkar.

5

13.5.2015

15.5.2015

10391

      15.334.840    

     15.334.840    

Einingar og reising - framvindureikningur 24.

6

20.5.2015

22.5.2015

10420

        6.032.069    

        6.032.069    

Einingar og reising - framvindureikningur 25.

7

27.5.2015

29.5.2015

10503

        4.263.834    

        4.263.834    

Einingar og reising - framvindureikningur 26.

8

9.6.2015

30.6.2015

10565

        5.837.020    

        5.837.020    

Magnbreyting í járni.

9

9.6.2015

30.6.2015

10566

            747.477    

           747.477    

Galvanhúðun á mottum og stöngum.

10

9.6.2015

30.6.2015

10567

        1.694.461    

        1.694.461    

Steypuflokkur í plötur m.a. vegna niðurbeygjukrafna aðalhönnuðar.

11

9.6.2015

30.6.2015

10568

            244.650    

           244.650    

Heit steypa frá 1.nóv - 1.apríl.

12

9.6.2015

30.6.2015

10569

        5.633.118    

        5.633.118    

Vinna við glugga - girði, kítti dropraufar o.fl.

13

9.6.2015

0.6.2015

10570

            275.770    

           275.770    

Plasteinangrun sem ónýttist vegna breytinga á hönnun.

14

9.6.2015

30.6.2015

10571

        4.161.104    

        4.161.104    

Helgar- og nætur vinna á verkstað að ósk verkkaupa.

15

9.6.2015

30.6.2015

10572

        1.562.683    

        1.562.683    

Kostnaður við krana vegna tafa á framkvæmdum.

16

9.6.2015

30.6.2015

10573

        1.563.368    

        1.563.368    

Kostnaður við aðkeypta krana vegna stærðar á einingum =>12T.

17

9.6.2015

30.6.2015

10574

            983.000    

           983.000    

Loftræstitúður, staðsetning og formun í einingar.

18

9.6.2015

30.6.2015

10575

            742.840    

           742.840    

Mótun fyrir niðurfallsraufar á einingaendum.

19

9.6.2015

30.6.2015

10576

            787.500    

           787.500    

Þykking á einingum 3. og 4. hæðar =>40cm.

20

9.6.2015

30.6.2015

10577

        4.576.000    

        4.576.000    

Módelsmíðaðar súlur og bitar á 1.hæð.

21

9.6.2015

30.6.2015

10578

      10.544.783    

     10.544.783    

Vetrarálag vegna vinnu á verkstað.

22

9.6.2015

30.6.2015

10579

      13.467.922    

     13.467.922    

Aukakostnaður við teikningaframleiðslu.

 

       Samtals séu ógreiddir reikningar vegna verksins samkvæmt framangreindu 94.346.645 kr. og séu þeir allir í vanskilum.

       Reikningar nr. 3, 5, 6 og 7 séu framvindureikningar skv. samningi, sem ekki hafi verið andmælt af hálfu stefnda. Stefndi telji sig hins vegar hafa greitt reikningana með skuldajöfnuði, sbr. yfirlýsing stefnda á dskj. 5.

       Reikningur nr. 1 hafi verið lagður fram í nóvember 2014 vegna vinnu við súluundirstöður og þrifalag. Reikningnum hafi ekki verið andmælt af stefnda en þó hafi hann aðeins verið greiddur að hluta.

        Reikningur nr. 2 stafi af afnotum stefnda af krana og sé vegna vinnu starfsmanna stefnanda við verk, sem ekki féllu undir verksamninginn. Verkin hafi verið unnin að sérstakri beiðni stefnanda. Þarna sé meðal annars átt við hífingar á fylliefnum inn í grunn byggingarinnar, en vegna þrengsla á verkstað hafi verið fluttur inn krani, sem hentaði til verksins og hafi stefndi af og til fengið afnot af honum en ekki greitt fyrir þau.

        Reikningar nr. 4 og 8 eigi rætur að rekja til magnbreytinga í járnun eininga umfram eðlileg viðmið, sem komi til vegna kröfu aðal- og burðarþolshönnuðar um mikla járnabindingu í húsinu ásamt því að aðalhönnuður gerði kröfu um járnabakka í enda eininga, sem sé ekki hefðbundinn frágangur stefnanda. Stefndi virðist ekki gera athugasemdir við þessa magnaukningu en telji sig ekki bera ábyrgð á auknum kostnaði.

        Reikningur nr. 9 sé í samræmi við atriði sem sérstaklega sé tilgreint í drögum að viðbættum verksamningi þar sem segi „vegna galvanhúðunar á járnamottum sem notaðar eru í einingum á jarðhæð og í kjallara þar sem láréttar þynningar eru greiðir verkkaupi eingreiðslu að fjárhæð kr. 700.000 að viðbættum vsk ...“.

        Reikningur nr. 10 komi til vegna krafna hönnuðar, m.a. um niðurbeygju í plötum, sem sé verulega umfram kröfur byggingarreglugerðar og kalli á umtalsverðan viðbótarkostnað vegna aukins styrks steinsteypu og aukinnar járnabindingar miðað við eðlilegar kröfur.

        Reikningur nr. 11 samræmist því að ráðgert var að sérstaklega yrði greitt fyrir heita steypu, sbr. ákvæði í uppfærðum drögum að verksamningi frá október 2014, þ.e. „aukalega 350 krónur með vsk fyrir hvern rúmmeter“.

        Reikningur nr. 12 eigi rætur að rekja til þess að samningur aðila geri ráð fyrir vinnu stefnanda við glugga, sem greitt verði sérstaklega fyrir, hér sé um að ræða girði, kítti, dropraufar o.fl. Í verkinu hafi gluggar verið steyptir í og glerjaðir í verksmiðju stefnanda, óhefðbundinn frágangur hafi verið á gluggum að beiðni stefnda/verkkaupa og aðalhönnuðar.

        Reikningur nr. 13 komi til vegna kostnaðar sem stefnandi hafi orðið fyrir þar sem plasteinangrun ónýttist vegna breytinga á hönnun. Stefndi hafi ákveðið að draga úr einangrun miðað við það sem hönnunargögn hafi gert ráð fyrir, og það hafi leitt til þess að hluta af plasteinangrun, sem stefnandi hafði aflað, var ekki hægt að nýta.

        Reikningur nr. 14 eigi rætur að rekja til þess að stefndi hafi óskað eftir því að starfsmenn stefnanda myndu vinna að verkinu í helgar- og næturvinnu og fyrir hafi legið að greitt yrði fyrir kostnaðarauka af þessum sökum. Meðal annars hafi verið unnið alla laugardaga frá 17.janúar fram í apríl að sérstakri ósk stefnda.

        Reikningur nr. 15 sé hluti af kostnaði, sem leiddi af töfum við verkið, sem ráðgert hafi verið að stefndi myndi bæta stefnanda.

        Reikningur nr. 16 sé vegna útlagðs kostnaðar af aðkeyptri kranavinnu, sem ráðgert var að stefndi greiddi, sbr. ákvæði þar um í drögum að samningi frá október 2014.

        Reikningar 17, 18, 19 og 20 séu vegna breytinga á hönnun hússins frá því sem gera mátti ráð fyrir miðað við upphafleg gögn frá verkkaupa.

        Reikningur nr. 21 eigi rætur að rekja til þess að verkið varð kostnaðarsamara vegna þess að það fór fram að vetri en ekki sumri eins og upphaflegur samningur gerði ráð fyrir. Um sé að ræða hóflega áætlun á kostnaðarauka.

        Reikningur nr. 22 eigi rætur að rekja til þess að framganga aðalhönnuðar hafi leitt til þess að teikningaframleiðsla varð tímafrekari og flóknari en stefnanda hefði verið mögulegt að gera ráð fyrir. Hönnunarvinna stefnanda hafi orðið margföld miðað við það sem áætlað var vegna þess að aðalhönnuður breytti mjög frá stöðluðum „Loftorku-deilum“ og jók verulega járnamagn frá eðlilegum viðmiðum auk þess að stórauka kröfur vegna niðurbeygju o.fl. þátta. Stefnandi hafi tekið þá ákvörðun, þegar samstarfsörðugleikar keyrðu úr hófi, að fá undirvertaka, Verkfræðistofuna Hnit, þaulreynda einingahönnuði, til að koma að verkinu en tímasparnaður á endanum orðið enginn.

        Þann 29. júní 2015 hafi stefndi lýst yfir riftun verksamningsins. Í bréfi hans sé byggt á því að hluti hinna gjaldföllnu krafna hafi verið greiddur með skuldajöfnuði en öðrum kröfum stefnanda sé hafnað. Stefnandi hafi mótmælt framangreindri riftun sem ólögmætri. Framganga stefnda gefi að mati stefnanda tilefni til þess að ætla að engar frekari greiðslur muni verða inntar af hendi af hálfu hans án atbeina dómstóla og yfirvalda og því sé málið höfðað.

        Þegar stefnanda hafi orðið ljóst að verulegar breytingar væru í aðsigi á fjárhags- og eignastöðu stefnda hafi hann farið fram á að eignir stefnda yrðu kyrrsettar til þess að tryggja fullnustu krafna sinna. Sýslumaðurinn í Reykjavík hafi orðið við kröfu stefnanda og hafi með ákvörðun, dags. 27. júlí 2015, kyrrsett réttindi stefnda yfir fasteigninni að Hverfisgötu 103, fastanúmer 200-3628, þ.e. rétt til kaupsamningsgreiðslna samkvæmt þinglýstu kauptilboði Hvanna ehf., kt. 590707-1040, og fasteignina sjálfa félli hið samþykkta kauptilboð niður. Enn fremur hafi sýslumaður kyrrsett hlutabréf stefnda í einkahlutafélaginu H96 ehf., kt. 421014-1320, að því marki sem fyrrgreindar kaupsamningsgreiðslur hrökkvi ekki til greiðslu krafna stefnanda.

        Stefnandi telur að dómkrafa um peningagreiðslur byggist á ótvíræðum ákvæðum í verksamningi aðila. Samningurinn mæli fyrir um samningsfjárhæð, en feli jafnframt í sér ótvíræð ákvæði um að sú fjárhæð skuli leiðrétt miðað við fullunnar framleiðsluteikningar, endanlegar magntölur og annað sem ekki er sérstaklega tilgreint í verksamningnum og falli undir verksvið verktaka, sbr. 4. grein samningsins.

        Stefnandi telur ótvírætt að samningur aðila hafi ekki falið í sér fast verðtilboð, heldur hafi aðeins einingaverð verið ákveðið en endanlega fjárhæð hafi átt að ákvarða í samræmi við umfang verksins og endanlega útfærslu.

        Með hliðsjón af framangreindum ákvæðum og í ljósi almennra reglna kröfuréttar byggir stefnandi á því að stefnda beri að greiða þau verklaun sem stefnandi hefur krafist, nema stefndi sanni að kröfugerðin sé ósanngjörn. Auk framangreinds liggi fyrir áratuga dómvenja Hæstaréttar þess efnis að breytingar á forsendum verksamnings, sem leiði af ákvörðunum verkkaupa, svo sem ef verklýsingu, teikningum eða öðrum áætlunum er breytt, leiði til hærra endurgjalds verktaka en um var samið í fyrstu ef verkið verður umfangsmeira af þessum sökum. Þá leiði framangreint einnig af ákvæðum ÍST 30, nánar tiltekið grein 3.6.2, en þar segi að „verktaki eigi rétt á sérstakri greiðslu vegna aukins kostnaðar sem af breytingu leiðir“.

        Um magnbreytingar og aðrar breyttar útfærslur vísar stefnandi sérstaklega til þess að þegar upphaflegur verksamningur aðila var gerður í mars 2014 hafi legið fyrir fyrirvari um breytingar í verksamningi. Í 4. grein samningsins segi: „Tekið skal fram að við gerð verksamnings lágu ekki fyrir fullunnar verkfræðiteikningar og eru magntölur áætlaðar og leiðréttist því endanlegt verð til samræmis við endanlegar magntölur og annað sem ekki er sérstaklega tilgreint og innifalið í verðtilboði þessu og fellur undir verksvið verktaka“ Samkvæmt framangreindu sé skýrt að magntölur eigi að leiðréttast í samræmi við endanlegar magntölur og aukið umfang verks hafi bein áhrif á fjárhæð verklauna. Þá segir ennfremur í samningnum: „Verkkaupa er bent á að yfirfara eða láta hönnuð yfirfara og sannreyna magntölur...Magnútreikningar og útfærslur miðast við fyrirliggjandi teikningar frá Jóni Þór Jónssyni fyrir Tryggva Tryggvason hjá OPUS teikni & verkfræðistofu13.3.2014.“

        Framangreind ákvæði hafi staðið í aðalatriðum óhögguð í október-útgáfu verksamningsins, sem í vinnslu var milli aðilanna en ekki var kláruð. Þar sé þó vísað í teikningar frá 14.7.2014, sem enn áttu eftir að taka umtalsverðum breytingum. Stefnandi telur skýrt í verksamningi og samskiptum aðila að magntölur séu áætlaðar og umfang verksins sé sömuleiðis, auk þess sem stefnandi hafi skorað á stefnda að leggja sjálfstætt mat á áætlun um magntölur.

        Stefnandi telur að þær magnbreytingar sem urðu frá upphaflegri áætlun eigi fyrst og síðast rætur að rekja til þess að umtalsverðar breytingar voru gerðar á teikningum frá þeim teikningum sem lágu fyrir við verksamningsgerð. Þá hefði burðarþolshönnun stefnda ekki verið lokið þegar verksamningurinn var gerður og hefði burðarþolshönnuður á síðari stigum gert kröfu um járnabindingu verulega umfram almenn viðmið. Magnbreytingar hafi því eingöngu verið afleiðingar af ákvörðunum stefnda og beri stefnda að greiða kostnaðinn af magnbreytingunum, sbr. fyrirvara um magnbreytingar í verksamningi í grein 4 og grein 3.2 í skilmálum verksamningsins. Þá er einnig um þetta efni vísað til kafla 3.6 í ÍST30.

        Að mati stefnanda er ótvírætt að tafir hafa orðið á verkinu af ástæðum sem stefndi beri ábyrgð á. Í upphaflegum verksamningi aðila frá mars 2014 sé sett fram verkáætlun, sem miðist við að uppsteypu sé lokið 30. september 2014. Þá segi jafnframt að „fyrirvari sé gerður um að ekki standi á teikningum þar sem einingaframleiðsla þarf að vera 3 vikum á undan reisingu svo ekki komi til tafa vegna skorts á tilbúnum einingum“. Þá segir eftirfarandi í grein 3.11 í skilmálum verksamnings: „Miðað er við að teikningar undirritaðar af hönnuði berist að minnsta kosti sjö vikum fyrir upphafsdag framleiðslu, ef ekki áskilur Loftorka sér rétt til að endurskoða afhendingaráætlun. Verði breytingar á teikningum eftir þann tíma ber Loftorka í Borgarnesi ehf. ekki ábyrgð á seinkun afhendingar sem af því leiðir.“

         Því sé ljóst að verkáætlun miðaðist við að undirbúningi af hálfu verkkaupa, þ.e. stefnda, væri lokið, þ. á m. að teikningar væru klárar og byggingarleyfis hefði verið aflað. Samkvæmt almennum reglum og venjum sé ótvírætt hlutverk verkkaupa að afla byggingarleyfis. Enn fremur hafi frá upphafi verið ljóst að tafir á þessum undirbúningsráðstöfunum stefnda myndu leiða til þess að verklok yrðu síðar en annars hefði orðið.

        Ljóst sé að verulegar tafir hafi orðið á frágangi teikninga frá þeim áætlunum sem lagðar voru til grundvallar af aðilum verksamningsins í mars 2014. Það hafi verið á ábyrgð verkkaupa að leggja fram teikningar til þess að verktaki gæti hafist handa. Byggingarleyfi fyrir framkvæmdum hafi ekki legið fyrir á verkstað fyrr en 15. janúar 2015 en öflun þessa leyfis, sem er á ábyrgð verkkaupa, hafi verið forsenda þess að stefnandi gæti hafist handa við viðamestu verkþættina á verkstað.

        Í yfirlýsingu stefnda frá 28. maí sl. sé á því byggt að umsamin verklok hefðu átt að eiga sér stað í lok febrúar 2015. Þar sé ekki vísað í undirritaðan verksamning aðila heldur drög að uppfærðum samningi, sem var í vinnslu milli aðila í byrjun október 2014. Þá var ljóst að verkið hefði þegar tafist um fimm mánuði að lágmarki vegna tafa af hálfu stefnda við að ganga frá endanlegum teikningum og vegna fleiri atvika, sem stefndi hafi borið ábyrgð á. Framangreindir þættir hafi átt eftir að tefjast enn frekar. Stefnandi telur það vera með nokkrum ólíkindum að stefndi skuli hafa sett fram þá kröfu að verklok yrðu í lok febrúar, eins og ráðgert var í „október-drögunum“, þrátt fyrir tafirnar, sem áttu sér stað í framhaldinu. Miðað við útgáfudag byggingarleyfis virðist samkvæmt þessu hafa verið gerð krafa um það af hálfu stefnda að byggingin yrði reist á sex vikum frá steyptri botnplötu að fullfrágengnu burðarvirki. Bendir stefnandi einnig á að sjónarmið af þessum toga hafi eðlilega aldrei komið fram af hálfu stefnda fyrr en ágreiningur reis með aðilum eftir vanefndir stefnda.

        Tafir af hálfu stefnda hafi orðið enn meiri en gert var ráð fyrir í þessum drögum, sem voru til umræðu í byrjun október. Í þessum drögum gerði uppfærð verkáætlun ráð fyrir að reising veggja myndi hefjast í nóvember en byggingarleyfi vegna framkvæmdanna hefði ekki legið fyrir fyrr en í janúar, þannig að forsendur umræddra draga að uppfærðum verksamningi hefðu að mati 2.388.861 kr. stefnanda brostið vegna tafa, sem stefndi bar ábyrgð á. Jarðvinnu, sem stefnandi hafði ekki með höndum, hafi ekki verið lokið fyrr en í janúar 2015. Forsenda þess að stefnandi gæti hafist handa við að steypa botnplötu hefði verið sú að þessari vinnu væri lokið.

        Auk tafa á frágangi teikninga af hálfu stefnda, meðal annars vegna umtalsverðra breytinga sem stefndi ákvað að gera á þeim teikningum sem lágu til grundvallar við gerð verksamningsins í mars 2014, hafi ítrekað skapast vandamál vegna þess að teikningar voru ekki afhentar á því formi sem mælt er fyrir um í skilmálum 3.4-3.11 í verksamningi og í samræmi við faglegar venjur.

        Í þessu samhengi bendir stefnandi á að stefndi fól fámennu og reynslulitlu fyrirtæki í sambærilegum verkefnum að hafa umsjón með gerð teikninga og hönnun hvað alla verkþætti varðaði, aðra en rafmagnshönnun, þar með talin er burðarþolshönnun byggingarinnar. Stefndi beri vitaskuld ábyrgð á því að hafa staðið þannig að verki.

        Þá bendir stefnandi einnig á að þegar byggingarleyfið var loks útgefið var hávetur, sem hafi gert framkvæmdir tímafrekari, kostnaðarsamari og seinvirkari en ef þær hefðu átt sér stað að sumri, eins og upphaflega var miðað við. Stefnandi hafi engu að síður ráðist í framkvæmdirnar og hafi nú lokið verkinu á sambærilegum tíma, með sambærilegum verkhraða, og upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir. Breytt tímasetning hafi hins vegar leitt af sér kostnað fyrir stefnanda, sem sé áætlaður í útgefnum reikningum, sjá m.a. reikning nr. 21 á yfirliti í stefnu. Tafirnar hafi einnig haft í för með sér margvíslegan kostnað annan, sem hafi lent þungt á stefnanda, til að mynda hafi stefnandi fjárfest sérstaklega í krana og flutt til landsins vegna framkvæmdanna en hann hafi staðið  óuppsettur mánuðum saman meðan stefnandi beið eftir að geta hafið framkvæmdir.

        Stefndi hafi lýst yfir skuldajöfnuði gegn kröfum stefnanda. Gagnkrafan, sem stefndi telji sig eiga, sé að fjárhæð 39.307.393 kr., sem samanstandi af yfirvinnuálagi undirverktaka, vinnu, sem stefndi hafi gengið í fyrir stefnanda sökum tafa, vaxtakostnaði af fjármögnun stefnda vegna vaxtatekna af hagnaðarmissi, vegna tafabóta, sem falli á stefnda og vegna galla á einingateikningum stefnanda. Stefnandi byggir á að umrædd kröfugerð sé röng og ekki byggð á haldbærum rökum.

         Kröfugerð stefnda sé byggð á því að tafir við verkframkvæmdir séu af völdum stefnanda. Áður hafi verið rakið og rökstutt að tafir við framkvæmdir séu alfarið á ábyrgð stefnda. Raunar sé sú afstaða staðfest í sameiginlegum drögum að uppfærðum verksamningi aðila frá október 2014, en þar sé gert ráð fyrir að stefndi greiði stefnanda bætur vegna tafa við verkframkvæmdir.

       Stefnandi vekur athygli á því að verksamningur aðila geri ekki ráð fyrir tafabótum komi til breytinga á verkáætlun, enda samþykki stefnandi, sem sé fyrirtæki með áratuga reynslu af verkframkvæmdum, aldrei tafabætur í verksamningum þar sem veruleg atriði séu ófrágengin sem stefnandi, sem verktaki, geti ekki haft áhrif á, svo sem hönnun og skipulagsmál. Í þessu tilviki hafi hönnun verið ólokið og byggingarleyfi ekki legið fyrir, auk annarra óvissuatriða, og hefði því aldrei komið til greina af hálfu stefnanda að samþykkja ákvæði um tafabætur miðað við upphaflega verkáætlun.

        Stefnandi hafnar því að galli í hönnun eininga af sinni hálfu hafi leitt af sér tjón. Óútskýrt sé í hverju umræddur galli var fólginn og sé stefnanda ókunnugt um þennan meinta galla. Stefndi hafi hvorki gert reka að því að staðreyna meintan galla né að því að tilkynna stefnanda um hann eins og almennar reglur geri ráð fyrir. Hins vegar hafi stefnandi orðið fyrir verulegum töfum og kostnaði við teikningaframleiðslu þar sem erfiðlega hafi gengið að fá svör frá aðalhönnuði um nauðsynleg deili og snið, sem séu forsenda þess að hægt sé að ganga frá einingateikningum. Kostnaður stefnanda við framleiðslu einingateikninga hafi verið langt umfram áætlun þá sem fram komi í upphaflegum verksamningi. Ástæða þess sé að verulegar breytingar hafi ítrekað þurft að gera á hönnun þeirra vegna ákvarðana stefnda um breytingar á byggingunni og teikningum, sjá reikning nr. 22 á yfirliti í stefnu, en þó aðallega vegna þess hversu erfiðlega hafi gengið að fá svör frá aðalhönnuði byggingarinnar þegar óskir um snið og deili hafi verið settar fram.

Fjárkrafa stefnanda sundurliðast svo:

            Höfuðstóll                                                       94.346.645 kr.

            Kyrrsetningargjald                                                 19.100 kr.

            Innheimtuþóknun                                               1.886.932 kr.           

            Samtals                                                              96.252.677 kr.

 

 

       Samkvæmt almennum reglum beri stefnda að greiða innheimtukostnað en einnig sé af hálfu stefnanda vísað til greinar 5.7 í skilmálum á bls. 8 í verksamningi aðila þar sem segi að allur innheimtukostnaður falli á verkkaupa.

        Dráttarvaxtakrafa reiknist af kröfum sem komnar séu í eindaga samkvæmt skilmálum verksamningsins. Dráttarvextir reiknist af innheimtukostnaði og öllum höfuðstóli kröfunnar, frá dagsetningu kyrrsetningargerðar.

        Stefnandi gerir áskilnað um að hann eigi frekari kröfur á hendur stefnda vegna verksamningsins og vegna tjóns sem hafi leitt af ólögmætri riftun af hálfu stefnda.

        Varnarþing ákvarðist af ákvæðum verksamnings aðila en þar segi í 9. grein að ef ágreiningur rís vegna samningsins skuli mál rekið fyrir Héraðsdómi Vesturlands. 

 

        Eins og rakið er í stefnu telur stefnandi sig eiga fjárkröfur á hendur stefnda á grundvelli verksamnings. Um sé að ræða verulegar fjárhæðir og greiðslur hafi verið vanefndar af hálfu stefnda. Um sé að ræða verulegar vanefndir á ótvíræðum samningsskuldbindingum stefnda. Stefnandi eigi því gjaldfallnar fjárkröfur á hendur stefnda, sem ekki sé hægt að fullnægja með aðför að svo stöddu.

        Stefndi sé einkahlutafélag, sem stofnað var á árinu 2013. Samkvæmt ársreikningi 2013 sé eigið fé félagsins óverulegt, aðeins 500.000 kr., og skuldirnar umtalsverðar. Ekki liggi fyrir ársreikningur fyrir árið 2014 en þó liggi fyrir að hlutafé félagsins hafi ekki verið hækkað og sé enn 500.000 kr. Stefndi hafi fest kaup á lóðinni Hverfisgötu 103 til þess að reisa á henni hótelbyggingu. Þessi fjárfesting og framkvæmdirnar hafi verið fjármagnaðar af  og hvíli á fasteigninni tryggingarbréf, sem upphaflega var að fjárhæð 1.100.000.000 kr. Þá hafi nýlega verið dagbókarfært til þinglýsingar nýtt tryggingarbréf frá Landsbankanum að fjárhæð 250.000.000 kr. Alls hvíli því tryggingarbréf að fjárhæð 1.350.000.000 kr. á eigninni, sbr. veðbandayfirlit.

        Samkvæmt framangreindu virðist það vera ljóst að umræddar framkvæmdir við Hverfisgötu hafi eingöngu verið fjármagnaðar fyrir lánsfé frá Landsbankanum og eftir atvikum frá hluthafa eða öðrum tengdum aðila. Félaginu hafi ekki verið lagt til neitt hlutafé umfram lögbundið lágmark.

        Þá hafi stefndi gert kaupsamning um fasteignina Hverfisgötu 103, sjá kauptilboð, sem þinglýst var í apríl 2014. Samkvæmt ákvæðum kauptilboðsins beri stefnanda að afhenda fullbúið hótel á Hverfisgötu 103 til félagsins Hvannar ehf. og sé kaupverð ákveðið 1.300.000.000 kr. Kaupverðið sé tengt byggingarvísitölu en geti þó að hámarki aukist um 5%, og verði því að hámarki 1.365.000.000 kr. Afhendingardagur skv. kauptilboði hafi verið 15. maí 2015. Í yfirlýsingu stefnda komi fram að stefndi þurfi að greiða tafabætur til Hvanna ehf. að fjárhæð 500.000 kr. fyrir hvern dag sem afhending hótelsins tefst. Virðist líklegt skv. þessum upplýsingum að stefndi geti orðið fyrir umtalsverðu fjártjóni vegna tafabóta sem kunni að falla til. Stefndi áætlar að tafabætur muni nema 22.500.000 kr. Söluverðið, að teknu tilliti til tafabóta, sé því samkvæmt opinberum gögnum lægra en fjárhæð áhvílandi tryggingarbréfa.

        Þá hafi einnig verið gerður leigusamningur um fasteignina, dagsettur í apríl 2013, ásamt viðaukasamningi. Samkvæmt ákvæði II í viðaukasamningnum sé upphaf leigutíma ákveðið þann 1. júní 2015. Ef afhending tefst verulega geti það haft mjög mikil áhrif á leiguverðið fyrstu tvö árin samkvæmt umræddu ákvæði, sbr. leiguyfirlit í viðauka samningsins. Megi ætla að af þessu geti leitt verulegt tjón fyrir stefnda.

        Samkvæmt framansögðu telur stefnandi einsýnt að stefndi sé félag, sem samkvæmt fyrirliggjandi ársreikningi hafi takmarkað fjárhagslegt bolmagn en hafi ráðist í umfangsmikið fasteignaverkefni. Verkefnið virðist eingöngu hafa verið fjármagnað með lánsfé. Afhending hótelsins muni hins vegar tefjast umtalsvert miðað við fyrirliggjandi þinglýsta samninga, sem skapað geti verulegt tjón fyrir stefnda. Þar sem eiginfjárstaða félagsins sé veik virðist lítið borð vera fyrir báru. Margt bendi því til þess að fjárhagsstaðan verði afar þröng við uppgjör verkefnisins. Telur stefnandi enn fremur að vanefndir stefnda gagnvart sér endurspegli þann fjárhagsvanda sem blasi við stefnda. Sú augljósa hætta blasi því við að óbreyttu að umsamin sala fasteignarinnar eigi sér stað sér og uppgjör við aðra, sem hagsmuna hafa að gæta, svo sem lánveitendur og aðra verktaka, fari fram löngu áður en stefnandi eigi þess kost að fá aðfararheimild fyrir kröfum sínum. Bersýnilegt sé við þessar aðstæður að verulega muni draga úr líkindum til að fullnusta kröfu stefnanda takist og í öllu falli muni fullnusta verða mun örðugri ef kyrrsetning eigna stefna verður felld niður.

        Stefnandi kveður að við meðferð kyrrsetningarbeiðni hafi stefndi upplýst um fjárfestingu sína í einkahlutafélaginu H96 ehf. og að stefndi hafi lagt fram gögn, sem sýni að félag þetta eigi samningsbundinn rétt til þess að byggja fasteign á lóðinni að Laugavegi 77. Um sé að ræða óskipta lóð, sem sé í skipulagsferli, en stefndi sé ekki enn þinglýstur eigandi fasteignarinnar. Að sögn stefnanda virðist stefndi hafa ráðstafað öllu hugsanlegu eigin fé sínu í umrædda fjárfestingu. Samkvæmt upplýsingum, sem hafi komið fram við gerðina, séu hlutabréf H96 ehf. veðsett þriðja aðila vegna kaupsamnings um félagið og fyrirætlanir séu um meiri háttar skuldsetningu hjá Landsbanka Íslands, allt að 2.100.000.000 kr., til þess að fjármagna framkvæmdir á lóðinni, ef og þegar skipulagsbreyting tekur gildi, og að tryggingarbréfum að fjárhæð 2.450.000.000 kr. verði þinglýst á lóðina til þess að tryggja stöðu Landsbankans gagnvart öðrum kröfuhöfum, sbr. yfirlýsingu frá Landsbankanum.

       Framangreindar upplýsingar sýni fram á að framtíðaráform stefnda geri ekki ráð fyrir að stefndi eigi fasteignir eða hafi með höndum rekstur. Allir fjármunir stefnda verði lagðir inn í annað félag, sem standa muni að áhættusömum og skuldsettum byggingarframkvæmdum. Við þessa eðlisbreytingu á rekstri stefnda muni staða stefnanda sem kröfuhafa versna til muna þar sem stefnandi geti ekki leitað fullnustu í öðru, ef kyrrsetningin er felld úr gildi, en hlutabréfum í einkahlutafélagi, sem eftir atvikum verði veðsett til tryggingar skuldum stefnda og H96 ehf. við þriðja aðila og/eða lánastofnanir. Falli kyrrsetningin niður þurfi stefndi að þola það sem á ensku lagamáli sé kallað „subordination“, þ.e. kröfur stefnanda séu gerðar óæðri öðrum kröfum í rekstur stefnda, þar sem rekstur og fjárfestingar séu færð í annað félag. Verði þessi staða að teljast skólabókardæmi um það sem átt er við í 5. gr. laga nr. 31/1990 þar sem segi að skilyrði fyrir kyrrsetningu sé að sennilegt megi telja að fullnusta verði verulega örðugri ef kyrrsetning nær ekki fram að ganga. Þetta eigi sérstaklega við þar sem um sé að ræða verulega skuldsett og áhættusamt fjárfestingarverkefni, þar sem allir aðrir kröfuhafar verði búnir að fá fullar efndir áður en stefnandi geti vænst þess að sjá eina krónu ganga upp í kröfur sína.

1.       Í þessu samhengi telur stefnandi rétt að hnykkja á nokkrum lykilatriðum:

a.       Á sama tíma og stefndi hafi neitað að greiða verklaun stefnanda hafi auknum veðskuldum verið þinglýst á fasteignina að Hverfisgötu 103, sem er eina verulega eign stefnda (sjá þó umfjöllun um fjárfestingu stefnda í einkahlutafélaginu H96 ehf.). Fjárhæð veðskulda, tryggingarbréf samtals að fjárhæð kr. 1.350.000.000, sé veruleg í samanburði við umsamið kaupverð. Virðist, að mati stefnanda, lítið verða til skiptanna fyrir aðra kröfuhafa en Landsbankann þegar uppgjör á sölu eignarinnar fer fram.

b.      Ætla megi að Landsbankinn hafi gert kröfu um eigið framlag eiganda til framkvæmdanna, eins og venjulegt er um bankafjármögnun, samhliða upphaflegri ákvörðun um lánveitingu. Þar sem hlutafé hafi ekki verið aukið í félaginu (þ.e. stefnda) verður að ætla að sú fjármögnun hafi verið í formi hluthafaláns eða láns til stefnda frá öðrum tengdum aðila.

c.       Samkvæmt framangreindu sé ljóst að stefndi telji sér ekki skylt að greiða gjaldfallin verklaun og útlagðan kostnað stefnanda. Þetta sé ljóst af riftunaryfirlýsingu stefnda, auk þess sem ljóst sé að stefndi telji sér ekki skylt að halda til haga neinum fjármunum sem stefndi geti gengið að þegar dómsniðurstaða liggi fyrir í ágreiningsmálinu.

d.      Þegar afhending umræddrar fasteignar eigi sér stað fari fram uppgjör vegna sölunnar. Af framangreindu sé ljóst að stefndi hyggist ekki nýta neitt af söluandvirðinu til þess að gera upp kröfur stefnanda. Uppgjör við aðra kröfuhafa fari þá væntanlega fram; fyrst við Landsbankann, sem njóti 1. og 2. veðréttar að fasteigninni á Hverfisgötu 103, og svo það sem eftir stendur til annarra, þ. á m. hugsanlega til þess að endurgreiða lán hluthafans eða annarra tengdra aðila.

e.       Þá sé ljóst samkvæmt framgreindu að öllu því eigin fé sem kann að vera til staðar í félaginu eftir framangreint uppgjör verði ráðstafað til þess að fjármagna áhættusamt fjárfestingarverkefni í öðru félagi (þ.e. H96 ehf.), sem verði verulega skuldsett

f.        Ef kyrrsetning eigna stefnda verður felld niður muni stefnandi að líkindum ekki geta innheimt kröfur sínar fyrr en umtalsverður tími hefur liðið, jafnvel ekki fyrr en árið 2017, ef ágreiningsmálinu lýkur með dómi Hæstaréttar. Er að mati stefnanda fullkomin óvissa um fjárhagsstöðu stefnda á þeim tímapunkti, en augljóst að innheimta verði örðugri sökum þess að eignir og rekstur verði í öðru félagi, H96 ehf., sem stefnandi eigi enga beina kröfu á hendur, og þurfi þá að lúta því að vera í veikari stöðu en allir aðrir kröfuhafar sem koma að fyrirhuguðu áhættuverkefni stefnda.

g.      Nái kyrrsetningin hins vegar nú fram að ganga nú muni stefnandi njóta jafnræðis gagnvart öðrum kröfuhöfum við uppgjörið, sem mun fara fram við afhendingu til kaupanda fasteignarinnar að Hverfisgötu 103.

        Samkvæmt framansögðu telur gerðarbeiðandi skilyrði 5. gr. laga nr. 31/1990 vera fyrir hendi, m.a. þar sem afar líklegt sé að innheimta verði umtalsvert örðugri og jafnvel vonlítil ef kyrrsetningin verður felld niður.

       Kyrrsetningin, sem um er fjallað, taki fyrst til andvirðis fyrirhugaðrar sölu fasteignarinnar að Hverfisgötu, en til fasteignarinnar sjálfrar falli kaupsamningurinn niður. Þar sem fram hafi komið í máli fulltrúa stefnda við fyrirtöku kyrrsetningarbeiðni hjá Sýslumanninum í Reykjavík að söluverð fasteignarinnar að Hverfisgötu 103 sé lægra en veðskuldir Landsbankans, sem gera þurfi upp, bendi stefnandi einnig á hlutabréfin í H96 ehf. sem andlag kyrrsetningar. Sú kyrrsetning sé nauðsynleg þar til ljóst sé hvort kyrrsetning í andvirði sölu Hverfisgötu 103 hrökkvi upp í kröfur stefnanda.

        Varðandi fjárhæð tryggingar eru að mati stefnanda ekki líkur til þess að ætla að kyrrsetningin muni hefta athafnir stefnda. Líklegasta afleiðing kyrrsetningarinnar er að andvirði sölu fasteignarinnar að Hverfisgötu 103 verði til reiðu þegar stefnandi hafi aflað sér aðfararheimildar fyrir kröfu sinni. Tryggingin hljóti því að vera hófleg og taka fyrst og fremst mið af hugsanlegum málskostnaði. Niðurstaða Sýslumannsins í Reykjavík um að trygging sé ákveðin 3.000.000 kr. sé því eðlileg.

        Stefnandi byggi mál sitt á meginreglunni um skuldbindingargildi samninga. Þá vísi hann til meginreglna í kröfurétti og verktakarétti. Ennfremur vísi stefnandi til laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl. nr. 31/1990, sérstaklega 5. greinar þeirra laga. Dráttavaxtakrafa byggist á 6 gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. nr. 38/2001. Krafa um málskostnað styðjist við ákvæði 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

        Þá áskilji stefnandi sér rétt til þess að dómkveðja matsmenn undir rekstri málsins til þess að leggja mat á sérfræðileg atriði sem deilt kann kunni að verða um í málinu. Stefndi áskilji sér einnig rétt til þess að setja fram frekari kröfur vegna verksins, sem mál þetta fjallar um, þ. á m. skaðabótakröfu vegna ólögmætrar riftunar verksamnings af hálfu stefnda, og áskilji sér það enn fremur að fara fram á að mál, vegna framangreindra krafna, verði á síðari stigum sameinað máli þessu. Þá veki stefnandi athygli á því að ekki hafi allir reikningar vegna vinnu stefnanda á grundvelli hins umþrætta verksamnings verið fram komnir þegar kyrrsetningarmáli hjá Sýslumanninum í Reykjavík lauk.

 

IV.

Málsástæður og lagarök stefnda í aðalsök

        Stefndi mótmæli kröfum stefnanda að allverulegu leyti. Þá telji stefndi sig eiga gagnkröfu til skuldajafnaðar við þær kröfur, sem ekki eru umdeildar, sem vikið verði að hér á eftir. Jafnfram sé umfjöllun um þann þátt málsins í gagnstefnu stefnda/gagnstefnanda í gagnsök. Loks telji stefndi skilyrði til kyrrsetningar ekki hafa verið fyrir hendi og því beri að fella kyrrsetningargerðina úr gildi.

        Stefndi vísi til þess að samkvæmt verksamningi, eins og hann var undirritaður í mars 2014, hafi verið samið um að stefnandi tæki að sér að hanna, framleiða og reisa forsteyptar einingar í hótelbyggingu á fjórum hæðum ásamt bílakjallara. Samið hafi verið um að heildarverð fyrir verkið, með virðisaukaskatti og samningsafslætti, yrði samtals 228.226.829 kr. Þá skyldi samningsfjárhæðin taka breytingum samkvæmt byggingarvísitölu frá nóvember 2013 (119 stig).

        Ástæða þess að verksamningur hafi verið undirritaður á þessum tíma hafi fyrst og fremst verið sú að stefnandi hafi þá verið í endurfjármögnunarferli. Samkvæmt ársreikningi félagsins vegna rekstrarársins 2014 hafi heildarskuldbindingar stefnanda aukist um rúmar 600 m.kr. á milli ára, þar af langtímaskuldir félagsins um tæpar 400 m. kr. Þá hafi eignir félagsins verið endurmetnar að verulegu leyti. Verksamningur stefnanda og stefnda hafi verið liður í því að greiða fyrir lánsjármögnun og endurskipulagningu skulda stefnanda, sbr. tölvuskeyti fjármálastjóra stefnanda til stefnda. Töluverður þrýstingur hafi verið af hálfu stefnanda á það að undirrita verksamninginn í mars 2014, þó að endanlegar teikningar lægju ekki fyrir. Af þessari ástæðu hafi tiltekin ákvæði verksamningsins verið opin og aðilar verið meðvitaðir um að samningurinn yrði uppfærður í samræmi við aðalteikningar. Þá staðreynd beri að hafa til hliðsjónar við eftirfarandi umfjöllun.

        Þegar samþykktar hafi verið aðalteikningar, dags. 13. júní, og burðarþolsteikningar af fyrsta hluta hótelsins, dags. 29. júlí 2014, hafi legið fyrir hafi aðilar hafist handa við að endurskoða og uppfæra verksamninginn til samræmis við fyrirliggjandi gögn. Afrakstur þess hafi legið fyrir í október 2014 en í þeim samningi, októbersamningnum, hafi verkþáttum verið bætt við, magntölum breytt og einingarverð uppfært. Til að mynda hafi þynningum verið bætt við verkþætti og einingaverð vegna sökkulfóta verið uppfært, svo eitthvað sé nefnt, en jafnframt hafi magntölur flestra verkþátta verið uppfærðar. Þá hafi heildarverð með virðisaukaskatti og samningsafslætti hækkað í 240.919.789 kr. eða um tæpar 12,7 m.kr. Báðir aðilar hafi litið á októbersamninginn sem gildan samning um verkið. Það sjáist til að mynda á verkfundargerðum, en á verkfundi nr. 7, sem haldinn var þann 17. september 2014, komi fram að aðilar hafi hafist handa við að uppfæra magntölur. Á verkfundi nr. 10 þann 15. október 2014 hafi aðilar hafist handa við að uppfæra tímaáætlun verksins og á verkfundi nr. 12, þann 29.–31. október 2014, hafi verið vísað til tímaáætlunar samkvæmt nýjustu útgáfu samnings. Þá byggi framvindureikningar og aðrir reikningar á þeirri útgáfu samningsins. Þó að samningurinn sé ekki undirritaður verði að taka mið af því að báðir aðilar töldu þann samning gilda um verkið, þ.á m. þá verkþætti, það einingaverð, þann aukakostnað og verktíma sem þar komi fram. Við uppfærslu verksamningsins í október 2014 hafi legið fyrir umfang verksins og útfærsla og stefnanda hafi borið að uppfæra samningsverð á þeim tíma miðað við fyrirliggjandi gögn.

       Stefndi hafi þegar greitt stefnanda 238.496.830 kr., en þar af séu u.þ.b. sjö milljónir kr. vegna aukaverka og breytinga, sem stefndi hafi sannarlega samþykkt að greiða fyrir. Framangreindir framvindureikningar og aðrir reikningar hafi ávallt verið greiddir á réttum tímum og stefndi hafi staðið í skilum við stefnanda allt fram til þess að stefnandi lýsti yfir verkstöðvun og lagði niður störf í maí 2015. Eftirstöðvar framvindureikninga nr. 20, 24, 25 og 26 nemi samtals 25.636.793 kr. Frá þeirri fjárhæð beri að draga 12.000.000 kr. samningsafslátt, sem aðilar hafi samið um, sbr. 3. gr. verksamningsins, eða 12.423.529 kr. m.v. að samningsafslátturinn sé uppreiknaður samkvæmt byggingarvísitölu í samræmi við aðrar fjárhæðir samningsins, sbr. 2. gr. fyrrgreinds verksamnings.

        Eftirstöðvum framvindureikninganna, samtals að fjárhæð 13.213.264 kr., sé skuldajafnað við skaðabótakröfu stefnda, sem tilkomin sé vegna afhendingardráttar stefnanda. Þá sé ekki mótmælt eftirstöðvum reiknings nr. 1 (súluundirstöður og þrifalag), hluta af reikningi 2 (laun kranamanns) og nr. 11 (heit steypa), samtals að fjárhæð 1.252.753 kr., og er þeim jafnframt skuldajafnað við skaðabótakröfu stefnda. Öðrum kröfum stefnanda að fjárhæð 67.457.098 kr., þ.e. krafa sem nemur 28% af samningsverði, sé alfarið hafnað, enda reikningarnir ýmist vegna samningsverka, þ.e. verka sem stefndi telur vera innifalin í samningsverði, óumbeðinna og ósamþykktra aukaverka, eða reikninga sem séu svo vanreifaðir að ekki sé unnt að taka til varna vegna þeirra.

         Varðandi samningsverkið þá byggir stefndi í fyrsta lagi á því að þegar tilboð hafi verið gert í janúar 2014, og í kjölfarið verksamningur í mars sama ár, hafi legið fyrir upplýsingar og gögn, sem nauðsynleg voru til þess að stefnandi gerði sér grein fyrir því verkefni sem fyrir lægi. Stefnandi hefði fengið afhentar aðalteikningar af hótelbyggingunni þar sem stefnanda hefði mátt vera ljós stærð byggingarinnar og umfang verkefnisins á þeim tíma.

       Stefnanda hafi mátt vera ljóst að töluvert meira af járnmagni hafi þurft í hverja einingu, sem halda hafi átt uppi fjögurra hæða hóteli en stefnandi gerði ráð fyrir, sbr. reikninga nr. 4 og 8. Jafnframt hafi stefnanda mátt vera ljóst að gerðar yrðu ríkari niðurbeygjukröfur um plötur2.388.861 kr., en farið hafi verið fram á í 5. gr. verksamningsins að við frágang á steyptum gólfplötum yrði miðað við að hæðarmunur færi ekki yfir 20mm á plötu, sbr. reikning 10. Þá verði það að teljast vera viðtekin venja og hluti af eðlilegum og faglegum frágangi aðila, sem tekur að sér ísetningu glugga í útveggi, að ganga þannig frá verkinu að gluggarnir sé þéttir með viðunandi hætti og varðir með dropraufum, sbr. reikning 12. Ekki hafi verið samið um að stefndi greiddi sérstaklega fyrir vinnu starfsmanna stefnanda eða tæki, sem notuð voru til verksins, og hafi ákvarðanir þar að lútandi alfarið verið á ábyrgð og áhættu stefnanda, sbr. reikninga 14 og 15. Loks hafi legið fyrir strax í mars að móta þyrfti fyrir niðurfallsraufum og skýrt hafi verið á útlitsmyndum hvernig einingar á 3. og 4. hæð skyldu útfærðar, sbr. reikninga 18 og 19.

        Stefnandi hafi mátt gera sér grein fyrir ofangreindum kostnaði og borið skylda til að taka mið af kostnaðinum við tilboðs- og samningsgerð. Á því sé byggt að ofangreindur kostnaður sé eðlilegur þáttur í framkvæmd verksins og þar með innifalinn í samningsverðinu. Stefndi telur ósannað að breytingar hafi verið gerðar á verkinu, sem leitt hafi til aukins kostnaðar umfram það sem stefnandi hafi mátt sjá fyrir af teikningum, sem hann hafi haft undir höndum við samningsgerð. Stefndi bendir á að sönnunarbyrði um að breytingar hafi orðið á verkinu, sem leitt hafi til aukins kostnaðar, hvíli alfarið á stefnanda.

       Í öðru lagi byggir stefndi á því að þegar samningurinn var endurskoðaður og uppfærður í október 2014 hafi legið fyrir uppfærðar teikningar, sem hafi varpað enn frekara ljósi á umfang verkefnisins. Ný gögn hafi gefið stefnanda tilefni til að ætla að verkið væri umfangsmeira og kostnaðarsamara og honum hafi borið að upplýsa stefnda um það á þeim tíma. Áréttað sé að þær breytingar, sem gerðar hafi verið á þeim teikningum sem lágu fyrir við tilboðsgerð, sbr. dskj. nr. 29, hafi fyrst og fremst verið útlitslegar.

        Stefnanda hafi mátt vera ljóst á þeim tíma að setja þyrfti loftræstitúður í einingar og útfæra þyrfti bita og súlur á SA-horni hótelbyggingarinnar, sbr. reikninga nr. 17 og 20. Jafnframt hafi stefnanda mátt vera ljóst að verkið yrði unnið yfir vetrarmánuðina samkvæmt nýrri tímaáætlun og því ljóst á þeim tíma að aðlaga þyrfti krana að verktímanum og bæta vetrarálagi við einingaverð hefði þess verið þörf, sbr. reikninga nr. 15 og 21. Á þeim tíma hafi jafnframt verið orðið ljóst hvað fælist í þeirri einingahönnun sem stefnandi tók að sér en samþykktar aðalteikningar, dags. 13. júní og 1. september 2014, hafi legið fyrir og þar með hafi „flækjustig“ hótelbyggingarinnar verið fullljóst.

        Stefnanda hafi verið veitt sérstakt tækifæri til að endurskoða og uppfæra samninginn á haustmánuðum 2014 í kjölfar samþykktra aðalteikninga af húsinu. Hafi hann af einhverjum ástæðum ekki gert sér grein fyrir kostnaðinum á þeirri stundu, byggir stefndi á því að stefnanda hafi verið í lófa lagið að upplýsa stefnda um aukinn kostnað þegar hann féll til og þannig veita stefnda tækifæri til að bregðast við slíkum kostnaði. Ótækt sé að fallast á kröfur stefnanda, sem gerðar séu mörgum mánuðum síðar, sérstaklega í ljósi þess hve mikið svigrúm stefnandi hafi haft til að leiðrétta samningsverðið.

        Í þriðja lagi er á því byggt að stefnanda hafi borið samkvæmt meginreglum verktakaréttar og ákvæða ÍST-30 að upplýsa stefnda um aukaverk og gera kröfu um aukinn kostnað áður en byrjað hafi verið að vinna við breytingu á verkinu. Stefnanda hafi verið óheimilt að vinna aukaverk nema samkvæmt staðfestum fyrirmælum stefnda og stefnanda hafi borið að skila mánaðarlega skrá yfir hugsanlegar kröfur um greiðslur vegna aukaverka og breytinga og gera rökstudda grein fyrir þeim, sbr. ákvæði 3.6.5 og 5.1.5 í staðli ÍST-30.

         Af þeim 22 reikningum sem stefnandi krefjist nú greiðslu á hafi 15 þeirra verið fyrst útgefnir þann 9. júní 2015, þ.e. nokkru eftir að ágreiningur spratt upp á milli aðila og stefnandi gekk frá verkinu. Reikningi nr. 2., vegna afnota af krana og launa starfsmanna frá 4. mars 2015, hafi verið mótmælt 6. mars 2015. Reikningi nr. 4, um magnbreytingu í járni og járnabökkum frá 7. maí 2015, hafi verið mótmælt formlega í bréfi stefnda, dags. 28. maí 2015. Stefndi hafði ekki verið upplýstur um aðra reikninga fyrr en löngu eftir að kostnaður vegna þeirra féll til.

       Stefndi hafi á meðan á verkinu stóð þegar samþykkt töluvert af aukaverkum, sem námu samtals tæpum átta m.kr. eins og áður hefur verið rakið. Þá ítrekaði stefndi á verkfundi nr. 18, sem haldinn var þann 9. janúar 2015, að „kröfur eftirá verði ekki samþykktar heldur verði ábending um að veður valdi [stefnanda] aukakostnaði að koma þá þegar slíkt gerist. Þannig geti [stefndi] mögulega brugðist við með aðgerðum sé þess kostur.“ Þetta sé að sjálfsögðu megininntak verktakaréttar, að verktaki skuli tilkynna um aukinn kostnað svo verkkaupi geti reynt að koma í veg fyrir slíkan kostnað sé honum það tækt. Í þeim tilvikum sem aukaverk hafi verið samþykkt hafi það farið þannig fram að öllum breytingum á verkþáttum, magntölum eða einingaverði, umfram það sem samið var um í októbersamningnum, hafi verið bætt við næsta útgefna framvindureikning. Framvindureikningar hafi verið greiddir vikulega og hafi stefndi því haft tækifæri til þess að óska eftir frekari skýringum og eftir atvikum mótmæla framvindureikningum ef um ósamþykkt aukaverk hefði verið að ræða. Samþykkt aukaverk hafi verið gulmerkt á dómskjali nr. 68 til skýringar.

       Það sé því í öllu falli óeðlilegt að stefnandi geti meira en hálfu ári eftir að hafist var handa við að framleiða og reisa einingar gert kröfur vegna aukaverka sem nema um 28% af upphaflegu samningsverði og stefndi fékk aldrei tækifæri til að bregðast við. Þá sérstaklega þegar fullt tilefni hafi verið fyrir stefnanda að upplýsa stefnda um aukinn kostnað á fyrri stigum. Gildi framangreint um umdeildar kröfur stefnanda en í mörgum tilvikum hafi aukakostnaður stafað af ákvörðunum stefnanda, sem séu stefnda óviðkomandi og hafi verið teknar án atbeina stefnda. Þá sé áréttað að sönnunarbyrði um rétt til aukagreiðslna hvíli alfarið á stefnanda.

       Töluvert hafi verið um að reikningar stefnanda hafi verið verulega vanreifaðir og gögn skort gögn til stuðnings reikningsgerðinni. Til að mynda sé reikningum nr. 13 og 16 mótmælt þar til frekari gögn liggi fyrir til stuðnings reikningunum, sbr. umfjöllun hér á eftir. Þá sé engin leið að mótmæla efnislega miklu af reikningum, t.d. nr. 14, 20, 21 og 22, vegna þess að viðunandi sundurliðun og rökstuðning skorti.

         Samkvæmt neðangreindu séu reikningar stefnanda samtals 22 og séu eftirstöðvar þeirra samtals að fjárhæð 94.346.644 kr. Stefndi samþykkir greiðsluskyldu sína vegna tiltekinna reikninga, eins og nánar greinir hér á eftir, samtals að fjárhæð 14.466.017 kr. Stefndi muni greiða þá reikninga með skuldajöfnun við skaðabótakröfu stefnda, sbr. hér á eftir. Eftir standi samtals 67.457.098 kr. af reikningum stefnanda, sem stefndi hafni alfarið.       

        Reikningur 1 (9713) súluundirstöður og þrifalag, eftirstöðvar að fjárhæð 740.703 kr. Stefndi geri ekki efnislegar athugasemdir við þennan reikning en mótmæli því að reikningurinn beri dráttarvexti frá 13. nóvember 2014. Samkvæmt tölvuskeyti starfsmanns stefnanda hafi bankakrafa fyrst verið stofnuð og kunngerð  stefnda 27. nóvember 2014. Þá hafi aðilar samið um 15 daga greiðslufrest af reikningum og geti reikningurinn því fyrst borið dráttarvexti frá 12. desember 2014.

        Reikningur 2 (10152) afnot af krana og laun kranamanns, að fjárhæð 1.591.974 kr. Stefndi mótmæli greiðsluskyldu samkvæmt þessum reikningi en stefnandi heimilaði stefnda að nýta kranann til að hífa efni í húsið í því skyni að fylla undir botnplötu. Hafi einu skilyrði þess verið þau að sú vinna myndi ekki tefja vinnu stefnanda. Fallist stefndi því eingöngu á greiða fyrir vinnu kranamanna stefnanda, samtals að fjárhæð 266.400 kr. auk vsk.

       Stefnandi geri hins vegar kröfu um greiðslu að fjárhæð 21.000 kr. án vsk. fyrir notkun kranans hverja klukkustund, sem verði að teljast óhæfileg og ósanngjörn kröfugerð. Ekki sé til sambærilegur krani á landinu og því hafi stefndi ekki haft tök á að afla tilboðs frá öðrum aðila til samanburðar. Á dskj. nr. 73 megi þó sjá að mánaðarleiga fyrir krana af gerðinni Leibherr 71K (45 metra bóma) sé 495.000 kr. á mánuði eða 16.500 kr. á dag. Með hliðsjón af framangreindu geti dagsleiga fyrir sambærilegt tæki og sé í eigu stefnanda í mesta lagi verið 35.000 kr. á dag. Verði kröfu stefnanda um afnot kranans ekki hafnað að öllu leyti samþykki stefndi aðeins að greiða fyrir afnot af krananum m.v. hæfilega og sanngjarna dagsleigu í að hámarki átta daga, enda með öllu ósannað að kraninn hafi verið í notkun í fleiri daga m.v. sundurliðun stefnanda.

        Reikningar nr. 3 (10280) eftirstöðvar að fjárhæð 6.050 kr., nr. 5 (10391) að fjárhæð 15.334.840 kr., nr. 6 (10420) að fjárhæð 6.032.069 kr. og 7 (10503) að fjárhæð 4.263.834 kr., framvindureikningar 20, 24, 25 og 26, samtals 25.636.793 kr. Reikningunum sé mótmælt að því leyti að ekki hafi verið gert ráð fyrir samningsafslætti af uppreiknaðri fjárhæð, 12.423.529 kr. Beri því að lækka reikningana sem nemi umsömdum afslætti. Að öðru leyti séu ekki gerðar efnislega athugasemdir við þessa reikninga en stefndi lýsi yfir skuldajöfnuði við eftirstöðvar reikninganna, sbr. hér á eftir.

       Reikningar 4 (10384), að fjárhæð 13.554.479 kr., og 8 (10565) að fjárhæð 5.837.020 kr., magnbreytingar í járni og járnbakkar. Þannig geri stefnandi kröfu um að stefndi greiði stefnanda aukalega samtals 19.391.499 kr. m/vsk. fyrir meintar „magnbreytingar“ á járni. Það sé umtalsverð fjárhæð en hún nemi tæplega 8% af samningsfjárhæðinni. Ekki sé fallist á það með stefnanda að þessi kostnaður teljist magnbreyting, hvorki í almennum skilningi né í skilningi verksamningsins. Magntölur veggja hafi ekki breyst enda fjöldi veggeininga nánast sá hinn sami frá októbersamningnum. Stefnandi sé með þessu móti að hækka einingaverð fyrir hverja veggeiningu, að því er virðist vegna eigin vanmats á járnmagni í byggingu af þessari stærðargráðu. Svo dæmi sé tekið geri októbersamningurinn ráð fyrir 2.407 (38+263+2106) samlokuveggeiningum. Það sé áréttað að ekki séu komnar fram upplýsingar um það járnmagn sem miðað er við fyrir hverja einingu en samkvæmt eftir á veittum upplýsingum stefnanda sé miðað við 18 kg/m2. Samkvæmt því hafi stefnandi gert ráð fyrir að nota 43.326 kg/m2 í alla samlokuveggi verksins. Á bls. 3 í aðilaskýrslu stefnanda komi fram að járnmagn umfram 18 kg/m2 í samkomuveggjum nemi samtals 26.483 kg/m2 (2225+4091+5325+ 9157+5685). Það sé rúmlega 61% aukning frá upphaflegri áætlun!

        Stefndi byggir á því að stefnandi beri ábyrgð á eigin vanmati og glannalegri tilboðsgerð. Það verði að gera þá lágmarkskröfu til stefnanda sem sérfræðings í framleiðslu forsteyptra eininga að hann kynni sér umfang byggingarinnar, en svo virðist sem stefnandi geri tilboð með sama einingaverði óháð því hvort um fjögurra hæða byggingu með kjallara sé að ræða eða einfalda byggingu á einni hæð. Stefndi mótmælir því alfarið að gerðar hafi verið breytingar á byggingunni, sem réttlætt geti slíkan aukakostnað, og bendi á að stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir slíkri staðhæfingu.

        Stefndi hafi reiknað út járnmagn í samlokuvegg (UV102), sem valinn var af handahófi, miðað við stöðluð Loftorku-deili. Samkvæmt þeim útreikningi var járnmagn í veggnum 23,6 kg/m2 eða 31% meira en stefnandi miðar við í tilboðsgerð sinni, þó að ekki sé brugðið frá stöðluðum deilum stefnanda. Vísað er til fylgiskjals B við aðilaskýrslu stefnda, sbr. dskj. nr. 59. Stefndi lítur svo á að hann hafi í raun verið blekktur til að taka tilboði sem hafi miðast við forsendur sem stefnandi hafi mátt vita að myndu aldrei standast. Samkvæmt 3. gr. októbersamningsins komi fram að stefndi greiði stefnanda eingreiðslu upp á 750.000 kr. auk vsk. við verklok vegna járnbakka í einingar, þó aldrei hærri fjárhæð en útlagðan kostnað stefnanda við kaup á járnbökkum. Þarna sé verið að vísa til þeirrar útfærslu að nota tökkuð samskeyti (SS1 og SS) í stað hefðbundinna samskeyta. Staðreyndin sé hins vegar sú að stefnandi noti sama magn af járnbökkum í að gera tökkuð samskeyti og hefðbundin. Stefnandi hafi því ekki orðið fyrir auknum kostnaði við þessa útfærslu og mótmæli stefndi greiðsluskyldu sinni vegna kostnaðar við járnbakka og masónít alfarið en til vara mótmæli stefndi greiðsluskyldu umfram 750.000 kr.

        Reikningur 9 (10566), galvanhúðun á mottum og stöngum að fjárhæð 747.477 kr. Í 3. gr. októbersamningsins hafi stefndi samþykkt að greiða eingreiðslu að fjárhæð 700.000 kr. að viðbættum vsk. þegar veggeiningar 1. hæðar hefðu verið reistar „vegna galvanhúðunar á járnamottum sem notaðar eru á einingum á jarðhæð og í kjallara þar sem láréttar þynningar eru“. Með framvindureikningi nr. 18, dags. 28. mars 2015, hafi stefnandi gert kröfu um greiðslu 700.000 kr. vegna galvanhúðunar á járnmottum á jarðhæð og kjallara skv. samningi. Þessi reikningur hafi því þegar verið greiddur og sé honum mótmælt af hálfu stefnda.

        Reikningur 10 (10567)., steypuflokkar í plötur, m.a. vegna niðurbeygjukrafna aðalhönnuðar, að fjárhæð 1.694.461 kr. Í 5. gr. verksamningsins komi fram að við frágang á steyptum gólfplötum sé miðað við að hæðarmunur fari ekki yfir 20mm á plötu, sem geri kröfu um í mesta lagi +/- 10mm skekkjumörk á hæð steyptra gólfa. Samkvæmt samningnum hafi verið gerðar ríkari kröfur um niðurbeygju í plötum en lágmarkskröfur byggingaryfirvalda og hafi stefnanda mátt vera ljóst strax við tilboðsgerð að reikna hefði þurft með minni niðurbeygju í plötum. Þá byggi stefndi á því að járnun slakbentra og forspenntra platna samkvæmt útreikningi aðalhönnuðar hafi verið með þeim hætti að sterkari steypa hafi í raun verið óþörf.        

        Stefndi byggir á því að krafa, sem stefndi hafi gert til hámarks hæðarmunar í plötu upp á 20mm, sé krafa um samanlagt frávik vegna niðurbeygju og ónákvæmni við útlagningu steypu. Að frádregnu eðlilegu fráviki við útlagningu steypu sé ekki óeðlilegt að ætla að umrædd niðurbeygjukrafa hafi mátt vera ljós strax við tilboðsgerð og skuli því skoðast sem samningsverk. Þá byggir stefndi á því að stefndi hafi ekki óskað eftir sterkari steypu, samþykkt að nota slíka steypu eða haft vitneskju um að stefnandi hygðist nota sterkari steypu í plötur, enda engin hafi tilkynning þess efnis borist stefnda. Þá hafi krafa um greiðslu vegna framangreinds fyrst verið sett fram í júní 2015 þó að stefnandi hafi byrjað að framleiða þessar einingar í desember 2014. Hefði stefnandi tilkynnt um þessa fyrirætlun sína fyrirfram hefði stefndi getað komið í veg fyrir þennan aukakostnað enda járnlögn reiknuð þannig að sterkari steypa hafi verið óþörf. Stefndi mótmæli alfarið greiðsluskyldu sinni samkvæmt ofangreindum reikningi.

        Reikningur 11 (10568), heit steypa, að fjárhæð 244.650 kr. Samkvæmt 3. gr. verksamningsins, eins og hann var uppfærður í október, hafi stefndi samþykkt að greiða fyrir afhendingu á „heitri steypu“, 350 kr. m/vsk. fyrir hvern rúmmetra frá 1. nóvember til 1. apríl. Er þessum reikningi því ekki mótmælt af hálfu stefnda en kröfunni er skuldajafnað við skaðabótakröfu stefnda, sbr. hér á eftir.

        Reikningur 12 (10569), vinna við glugga – girði, kítti, dropraufar o.fl. að fjárhæð 5.633.117 kr. Samkvæmt 3. gr. októbersamningsins hafi aðilar samið um að stefndi greiddi stefnanda fyrir að glerja þá glugga sem steyptir voru í einingar, 3.190 kr. fyrir hverja rúðu, auk vsk. Stefndi fallist ekki á að greiða aukalega fyrir borun glerlista og ídrátt á þéttikant, enda hafi stefndi litið svo á að sú vinna væri innifalin í áður umsömdu verði. Auk þess hafi stefnda aldrei verið tilkynnt af hálfu stefnanda að glerjun glugga myndi hafa í för með sér meiri kostnað en um var samið. Sé greiðsluskyldu vegna þess því hafnað. Þá sé yfirstrikað ákvæði í 3. gr. októbersamningsins, sem kveði á um að stefndi greiði 1400 kr. pr. lm. að viðbættum vsk. fyrir kíttun á samskeytum gluggaramma og veggs. Stefndi hafi óskaði sérstaklega eftir því að þetta ákvæði yrði tekið út þar sem stefnda þótti girði henta og endast betur en kítti. Í ákvæði 3.14 í stöðluðum skilmálum stefnanda komi fram að stefnandi kítti ekki með gluggum nema um það sé sérstaklega samið. Fráleitt sé að gera kröfu um greiðslu fyrir vinnu með kítti þar sem stefndi hafi tekið sérstaklega fram að þess væri ekki óskað. Hvað varðar vinnu við girði þá líti stefndi svo á að slíkur kostnaður sé og skuli vera samningsverk og þar með innifalið í samningsverðinu. Byggir stefndi á því að eðli máls samkvæmt sé gluggaísetning innifalin í samningsverðinu og þar af leiðandi þétting þeirra, enda hvíli sú ábyrgð á þeim aðila sem steypir gluggann í. Það sé viðtekin venja og faglegur frágangur að nota girði til að þétta glugga en annar frágangur sé óviðunandi að mati stefnda. Byggir stefndi á því að þétting glugga og gluggaísetning sé órjúfanleg heild og hann hafi talið kostnað vegna þéttingar vera innifalinn í samningsverðinu. Mótmæli stefndi því greiðsluskyldu sinni samkvæmt framangreindu. Þá sé einingaverð vegna vinnu við girði úr öllu hófi en stefnda reiknist að efniskostnaður sé um 170 kr./lm.

        Með sömu rökum og að framan greini sé á því byggt að dropraufar í einingum séu og skuli vera samningsverk og þar með innifalið í samningsverðinu en dropraufar í kringum glugga til að verjast úrkomu verði að teljast eðlilegur og faglegur frágangur. Stefndi hafi mátt ætla að fagleg vinnubrögð yrðu höfð að leiðarljósi þegar stefnandi gerði tilboð í verkið. Auk framangreinds sé á því byggt að framleiðsla eininga með gluggum og dropraufum hafi hafist í nóvember og desember 2014. Stefnda hafi aldrei verið tilkynnt um að vinna við þessar einingar fæli í sér aukinn kostnað en stefnanda hefði verið í lófa lagið að upplýsa um það á fyrri stigum. Mótmæli stefndi alfarið greiðsluskyldu sinni samkvæmt ofangreindum reikningi.

        Reikningur 13 (10570), plasteinangrun, að fjárhæð 275.770 kr. Stefndi skori á stefnanda að leggja fram gögn sem staðfesti að stefnandi hafi ekki getað skilað greindri plasteinangrun eða notað hana í önnur verkefni stefnanda. Liggi það ljóst fyrir að stefnandi hafi ekki getað skilað/nýtt plasteinangrunina geri stefndi ekki athugasemdir við umræddan reikning og áskilji stefndi sér rétt til þess að mótmæla kröfunni efnislega þegar viðundandi gögn liggja fyrir.

       Reikningur 14 (10571), helgar- og næturvinna á verkstað, að fjárhæð 4.161.104 kr. Greiðsluskyldu stefnda samkvæmt þessu reikningi sé alfarið mótmælt. Fyrst og fremst vegna þess að verksamningurinn geri ekki ráð fyrir að stefndi greiði sérstaklega fyrir vinnu starfsmanna stefnanda. Stefnandi hafi gert ráð fyrir að verkið yrði framkvæmt á um fimm mánaða tímabili. Ákvarðanir um það hvernig tímaáætlun yrði haldið og hvenær vinna starfsmanna stefnanda yrði unnin hafi alfarið verið stefnanda og slík ákvörðun óviðkomandi stefnda. Stefndi byggir á því að þessi kostnaður skuli teljast samningsverk og þar með innifalinn í samningsverði. Þá hafi ekki verið krafið um þennan kostnað jafnharðan og hann hafi fallið til og stefndi hafi því engin tækifæri haft til þess að staðreyna eða mótmæla efni reikningsins. Loks sé reikningur stefnanda svo vanreifaður að ekki sé hægt að byggja á honum, en ekki komi fram á hvaða tímabili vinnan sé unnin, tímafjöldi og tímagjald. Stefndi bendi á að stefndi hafi samþykkt að greiða sérstaklega fyrir yfirvinnu gegn því skilyrði að verkáætlun yrði haldið og verkið afhent í lok febrúar 2014. Það hafi verið tilraun stefnda til að flýta verkinu og takmarka tjón sitt. Það skilyrði hafi ekki verið uppfyllt og því sé ekki fallist á greiðsluskyldu samkvæmt þessum reikningi. Enda væri það einkennilegt og sérstaklega ósanngjarnt að verktaki gæti í senn tafið verk óhóflega og rukkað verkkaupa um allan þann aukakostnað sem kynni að hljótast af töfum verktakans.

        Reikningur 15 (10572), kostnaður við krana, að fjárhæð 1.562.683 kr. Greiðsluskyldu stefnda samkvæmt þessum reikningi sé alfarið mótmælt. Stefnandi hafi tekið að sér að reisa forsteyptar einingar og, líkt og rakið hafi verið hér að framan, og stefnandi hafi tekið ákvörðun um þau tæki sem hann þyrfti að nota til verksins. Ákvörðun stefnanda um að fjárfesta í og flytja til landsins nýjan krana sé stefnda óviðkomandi. Hafi sú ákvörðun stefnanda að fjárfesta í nýjum krana leitt til kostnaðarauka fyrir stefnanda hefði stefnanda verið í lófa lagið að bæta þeim kostnaði inn í samninginn þegar hann var uppfærður í október eða í það minnsta tilkynna stefnanda um aukinn kostnað sem af fjárfestingunni leiddi.

        Áréttað sé að þegar samningurinn hafi verið undirritaður í mars 2014 hafi báðir aðilar verið upplýstir um að verkið gæti ekki hafist fyrr en samþykki borgarráðs lægi fyrir. Samningurinn hafi verið undirritaður í mars 2014, fyrst og fremst vegna þrýstings frá stefnanda, en verksamningurinn hafi verið þáttur í endurskipulagningu stefnanda eins og rakið sé hér að framan. Því sé fráleitt að greiða kostnað vegna ætlaðra tafa á framkvæmdum, sérstaklega í ljósi þess að stefnandi hefði ekki getað efnt skyldur sínar hefði tímaáætlun samningsins haldið en þar sé kveðið á um að reising eininga skuli hefjast í lok apríl en kraninn hafi þó ekki komið til landsins fyrr en um miðjan maí. Hvað varði vetraraðlögun kranans þá hafi stefndi greitt DS Lausnum sérstaklega 415.460 kr. fyrir að ljósavæða kranann. Í aðilaskýrslu stefnanda komi fram að kostnaður við vetraraðlögun kranans að fjárhæð 278.226 kr. sé vegna kaupa á ljóskastara. Stefnandi sé með því að gera kröfu um að stefndi fjármagni eignakaup stefnanda, sem stefnandi njóti áfram ágóðans af. Greiðsluskyldu stefnda sé því mótmælt.

        Reikningur 16 (10573), kostnaður vegna aðkeyptra krana, 12T, að fjárhæð 1.563.368 kr. Þessi reikningur sé ekki samþykktur í þeirri mynd sem hann er. Í aðilaskýrslu stefnanda komi fram að reikningurinn sé byggður á kostnaði við aðkeypta þjónustu auk 15% verktakaálags. Ekki komi fram hversu margar einingar þyngri en 12 tonn hafi verið hífðar með umræddum krana og ekki sé lagður fram reikningur fyrir aðkeypta kranaþjónustu til stuðnings kröfunni. Þá sé 15% verktakaálagi mótmælt, enda hafi ekkert verið því til fyrirstöðu af hálfu stefnda að þjónustuaðilinn sendi reikning vegna þjónustunnar beint á stefnda hefði stefnandi upplýst um kostnaðinn á fyrri stigum. Áskilji stefndi sér rétt til þess að mótmæla kröfunni efnislega þegar viðundandi gögn liggja fyrir.

        Reikningur 17 (10574), loftræstitúður, staðsetning og formun í einingar, að fjárhæð 983.000 kr. Í fyrsta lagi hafi stefndi litið svo á að það væri innifalið í samningsverði að staðsetja loftræstitúður í einingar jafnt og glugga, hurðir og önnur göt sem teikningar geri ráð fyrir að séu á hverri einingu. Ekki hafi hvarflað að stefnda að slíkt gæti leitt til aukakostnaðar fyrir stefnanda, fremur kostnaðarminnkunar, en eðli máls samkvæmt sé þeim mun minni efniskostnaður af hverri einingu sem sem hún er með meira af götum. Með hliðsjón af því að stefndi hafi litið á þennan kostnað sem hluta af samningsverði og stefnanda hafi verið í lófa lagið að uppfæra samningsverð m.v. þessar forsendur í októbersamningnum eða a.m.k. tilkynna stefnda um aukinn kostnað vegna þessarar vinnu þegar hönnun eininga hófst í nóvember 2014, sé greiðsluskyldu vegna þessa reiknings alfarið hafnað. Samkvæmt 3. gr. októbersamningsins sé gert ráð fyrir að stefndi greiði jafnaðargjald upp á 1.500 kr. fyrir hvert gat í veggeiningu upp að 0,1 fm og 3.000 kr. fyrir stærri göt en 0,1 fm vegna lagnagata. Verði ekki fallist á að sýkna stefnda af greiðsluskyldu samkvæmt greindum reikningi sé farið fram á það til vara að stefnda verði ekki gert að greiða hærra gjald vegna vinnu við að staðsetja loftræstitúður í einingar en samið hafi verið um að greiða vegna lagnagata, að frádregnum efniskostnaði, enda byggi stefndi á því að um sambærilega vinnu sé að ræða.

        Reikningur 18 (10575), mótun fyrir niðurfallsraufar, að fjárhæð 742.840 kr. Stefndi mótmæli því að útfærsla niðurfallsraufa hafi verið að kröfu stefnda. Breyting á útfærslu hafi verið lögð til af hálfu stefnanda og samþykkt af hálfu stefnda. Stefndi hefði ekki samþykkt þá breytingartillögu stefnanda ef upplýst hefði verið um að slík útfærsla fæli í sér aukakostnað. Um þennan þátt hafi verið rætt á verkfundi nr. 6 þann 22. september 2014. Stefnanda hefði verið í lófa lagið að endursemja um kostnað vegna þessa þegar samningurinn var uppfærður í október 2014 eða í það minnsta að tilkynna stefnda um aukinn kostnað án ástæðulausra tafa. Sé greiðsluskyldu stefnda samkvæmt greindum reikningi því mótmælt. Þá er magni samkvæmt reikningnum mótmælt, en í byggingunni eru 211 lm af niðurfallsraufum en ekki 379 lm líkt og stefnandi gerir ráð fyrir.

        Reikningur 19 (10576), þykking á einingum 3. og 4. hæðar, 40 cm, að fjárhæð 787.500 kr. Stefndi byggir á því að þessi útfærsla á veggjum efstu hæða hafi verið skýr á útlitsmyndum og sniðum hússins og legið ljóst fyrir, bæði þegar verksamningurinn var gerður í mars 2014 og þegar hann var uppfærður í október 2014. Er því byggt á því að um sé að ræða samningsverk og hafi stefndi litið svo á að kostnaður vegna þess væri innifalinn í samningsfjárhæðinni. Þá hafi stefnandi óskað eftir því að breyta verkinu þannig að einingar efstu hæðar yrðu steyptar á hvolfi miðað við aðrar einingar og veðurkápa sneri upp í mótinu. Hafi stefnandi kveðið þá útfærslu vera einfaldari og ódýrari. Stefndi hafi talið sig vera að samþykkja útfærslu sem myndi draga úr kostnaði stefnanda á kostnað útlits hússins. Beri stefnda réttur til hluta af þeim hagnaði sem hlaust af þeirri útfærslu samkvæmt ákvæði 3.6.3 í staðli ÍST-30. Þá sé ekki fallist á magntölur og einingaverð samkvæmt reikningnum.

        Reikningur 20 (10577), módelsmíðaðar súlur og bitar á 1. hæð, að fjárhæð 4.576.000 kr. Stefndi hafni greiðsluskyldu sinni samkvæmt þessum reikningi með vísan til þess að upplýsingar um útlit súlna og bita hafi legið ljóst fyrir í júlí 2014. Þegar verksamningurinn var uppfærður í október 2014 hafi stefnanda verið í lófa lagi að endursemja um kostnað vegna þessa verkþáttar eða í það minnsta tilkynna stefnda um að úrfærsla þessa hluta fæli í sér aukinn kostnað. Stefndi telur framangreindan kostnað vera samningsverk og þar með innifalinn í samningsverðinu. Þá hafi það verið einingahönnuður stefnanda sem hafi ákveðið hvaða lausnir yrðu notaðar við útfærslu greindra súlna og bita. Stefnandi hafi ekki getað tekið ákvörðun um breytingar á verkinu á kostnað stefnda nema með samþykki stefnda eða í það minnsta að fenginni tilkynningu um aukinn kostnað. Stefndi hafi litið svo á að kostnaður stefnanda við að útfæra súlur og bita til samræmis við aðal- og sérteikningar væri hluti af samningi aðila. Útfærsla þessara súlna og bita hafi legið ljós fyrir þegar verksamningurinn hafi verið útfærður í október 2014. Stefndi hafi ekki gert breytingar á útfærslu bitanna eða óskað eftir sérstakri útfærslu af hálfu stefnanda, sem falið gæti í sér aukakostnað. Greiðsluskyldu sé því alfarið hafnað.

        Reikningur 21 (10578), vetrarálag, að fjárhæð 10.544.783 kr. Þegar verksamningurinn hafi verið uppfærður í október 2014 hafi verið ráðgert að verktímabilið yrði frá október til loka febrúar og færi verkið því fram yfir vetrarmánuðina. Þó að stefnanda hafi verið fullljóst á hvaða árstíð vinnan yrði innt af hendi og gefist tilefni til að uppfæra samningsverð til samræmis hafi stefnandi engar breytingar gert á samningsverðinu vegna vetrarvinnu/-álags. Hvorki hafi verið bætt við verkþáttum né einingarverð hækkað vegna tiltekinna verkþátta með vísan til breytinga á verktímabilinu en stefnanda hefði verið í lófa lagið að taka tillit til þess við uppfærslu verksamningsins. Sér í lagi vegna þess að stefnandi hafi gert kröfu um greiðslu aukakostnaðar við heita steypu sem teljist eðlilegur kostnaður við breytt verktímabil.

        Í drögum að verksamningi sem gerð hafi verið í janúar 2014 sé gert ráð fyrir að verkið hefjist 24. febrúar 2014. Þó að verkið skyldi að hluta til framkvæmt yfir vetrarmánuðina samkvæmt þeim samningi sé ekki gert ráð fyrir sérstökum aukakostnaði vegna þess og einingaverð hið sama og í verksamningnum sem gerður hafi verið í mars. Á því er byggt að vetrarveður geti ekki haft slík áhrif á verkið að réttlætt geti vetrarálag, sem nemi rúmum 10,5 milljónum króna. Í fundargerð verkfundar nr. 18, sem haldinn var þann 9. janúar 2015, hafi stefnandi áskilið sér rétt til að koma með kröfu vegna vetrarvinnu og hafi ætlað að undirbúa hana í desember. Hafi stefndi bókað vegna þess áskilnaðar að kröfur eftir á yrðu ekki samþykktar heldur yrðu ábendingar um að veður ylli aukakostnaði að koma þá er slíkt gerðist. Þannig gæti SA mögulega brugðist við með aðgerðum væri þess kostur. Ef stefnandi hefði haldið tímaáætlun í upphafi reisingar þannig að botnplata hefði verið steypt um miðjan nóvember, eins og til stóð, þá hefði vetrarveður ekki sett þetta strik í reikninginn. Stefnda hafi ekki verið tilkynnt um ætlaðan aukakostnað vegna vetrarvinnu/-álags þegar hann félli til en stefndi hafi fyrst verið upplýstur og krafinn um slíkan kostnað 9. júní 2015.

        Þá byggi stefndi á því að stefnandi geri engan reka að því að útskýra nánar í hverju aukakostnaður við vinnu byggingarmanna á verkstað hafi falist. Tafir á verkinu hafi mátt rekja til skorts á einingum til reisingar, sbr. bókun stefnanda í fundargerð verkfundar nr. 26 sem haldinn var þann 20. mars 2015, en ekki til þess að verkið hafi verið unnið yfir vetrarmánuðina. Mótmæli stefndi greiðsluskyldu sinni samkvæmt greindum reikningi og telji jafnframt ósannað að stefnandi hafi orðið fyrir auknum kostnaði vegna þess að vinna starfsmanna stefnanda hafi farið fram yfir vetrarmánuðina.

        Reikningur 22 (10579), aukakostnaður við teikningaframleiðslu, að fjárhæð 13.467.922 kr. Samkvæmt verksamningnum hafi stefnandi tekið að sér einingahönnun og hafi kostnaður vegna hennar verið hluti af samningsverðinu. Samkvæmt mati stefnanda hafi verið ráðgert að kostnaður vegna slíkrar hönnunar yrði 2.000.000 kr. auk vsk. Stefnanda hafi gefist kostur á að endurskoða samningsverðið þegar samningurinn var endurskoðaður og uppfærður í október 2014. Rétt sé að ítreka að þegar samningurinn var endurskoðaður í október 2014 hafi legið fyrir samþykktar aðalteikningar ásamt upplýsingum um stærð og meint flækjustig byggingarinnar, sem stefndi hafni alfarið. Hvorki þá né síðar hafi stefnandi upplýst stefnda um aukinn kostnað við einingahönnun. Fyrst nú upplýsi stefnandi það að stefnandi hafi aldrei áður komið að teikningum og framleiðslu hótelbyggingar af þessu tagi og hafi hreinlega ekki ráðið við verkefnið, sbr. athugasemdir á bls. 13 í viðauka III, sbr. dskj. nr. 28 og dskj. nr. 41. Þar segir að: Allt önnur og miklum mun flóknari bygging en upphaflega var gert ráð fyrir í samningnum. Á köflum er flækjustigið svo hátt að það má teljast sambærilegt við flókna módelsmíði. Loftorka hefur aldrei áður komið að teikningum og framleiðslu svo flókins hús, sem er sérstakt vegna þess hve stór byggingin er. Afleiddur viðbótarkostnaður er því mikill vegna stærðar hússins.“

        Stefndi hafi aftur á móti gert sér grein fyrir því strax í lok október að stefnandi hefði bersýnilega vanmetið verkið og þá sérstaklega þann hluta verksins er sneri að einingahönnun, en stefnandi geri nú kröfu um greiðslu kostnaðar við einingahönnun sem nemi sexföldum þeim kostnaði sem upphaflega hafi verið gert ráð fyrir. Stefndi hafi bókað eftirfarandi á verkfundi nr. 12, sem haldinn var þann 29. október 2014: „Bókun SA vegna þessa: JÞJ og SA telja að tafir á hönnun séu ekki á ábyrgð SA Verk þar sem að nú þegar hafi verið gripið til aðgerða til þess að létta á með LOB á þann hátt að Opus taki á sig aukna hlutdeild í hönnun með því að teikna öll göt, glugga og op á einingateikningar. Boðin hafi verið fram aukin aðstoð t.d. við að teikna upp form eininga en LOB taldi ekki þörf á því. SA Verk ítrekar óskir um að reisning þeirra eininga sem að þó eru tilbúnar verði hafin þó að það leiði til þess að „flæði“ í reisingu verði ekki gott í fyrstu en þá geti það flýtt fyrir að SA verk geti hafið vinnu við lagnir og fyllingu.“

        Líkt og ítarlega sé rakið hér á eftir og í gagnstefnu hafi stefndi tekið á á sig kostnað vegna einingahönnunar og nemi skaðabótakrafa stefnda vegna þess 4.408.000 kr. án vsk. Þá sé reikningurinn, eins og margir aðrir reikningar stefnanda, vanreifaður, en ekki sé sundurliðaður tímafjöldi og tímagjald. Þá séu ekki lagðir fram reikningar utanaðkomandi ráðgjafa, sem vísað sé til í aðilaskýrslu stefnanda, sbr. viðauka III við dskj. nr. 28. Samkvæmt útskýringum við reikninginn á bls. 13 í fyrrgreindum viðauka virðist reikningurinn miða við 1455 vinnustundir. Því sé farið fram á greiðslu að fjárhæð rúmar 9.330,- kr. að viðbættum vsk. fyrir hverja vinnustund. Slíkt gjald sé úr öllu hófi að mati stefnda. Skorað sé á stefnanda að leggja fram frekari sundurliðun á tímafjölda, tímagjaldi og reikningi utanaðkomandi ráðgjafa stefnanda. Geri stefndi sérstakan áskilnað um frekari mótmæli við efni reikningsins þegar sundurliðun stefnanda liggi fyrir.

 

Gagnkrafa til skuldajafnaðar:

        Stefndi telji sig eiga gagnkröfu til skuldajafnaðar við kröfu stefnanda. Krafan byggi á rétti stefnda til skaðabóta úr hendi stefnanda, aðallega vegna afhendingardráttar á verkinu en jafnframt vegna galla á einingahönnun og kostnaðar sem stefndi hafi lagt út fyrir til að takmarka tjón sitt. Í gagnstefnu stefnda í gagnsök séu gagnkrafa og málsástæður stefnda útlistaðar en stefndi telji rétt að ítreka gagnkröfu sína til skuldajafnaðar og þær málsástæður sem að baki hennar búi.

        Í hnotskurn hafi verktími samkvæmt 4. gr. októbersamningsins verið ákveðinn fimm mánuðir. Skyldi verkið hefjast í byrjun október 2014 og því ljúka í lok febrúar 2015. Stefndi hafi hafti töluverða hagsmuni af því að verkið myndi ekki tefjast en hótelbyggingin hafði verið seld þriðja aðila, Hvönnum ehf., og skyldi afhending fara fram 1. júní 2015. Hafi stefnanda verið kunnugt um framangreint.

        Allar forsendur hafi verið fyrir hendi til að hefja verkið samkvæmt þeirri áætlun sem fram komi í 4. gr. októbersamningsins. Þegar aðalteikningar hafi legið fyrir í júní 2014 hafi stefnanda verið unnt að hefja teikningar á formi eininga, þ.e. útliti þeirra, sniði og málsetningum. Þegar burðarþolsteikningar af fyrsta hluta hótelsins, þ.e. af kjallara upp að plötu 1. hæðar, hafi legið fyrir í júlí 2014 hafi stefnanda verið unnt að hefja teikningu á járnlögn í einingar og í framhaldinu hefjast handa við að framleiða einingar. Þegar skilyrt byggingarleyfi til að fara upp með sökkla, botnplötu og kjallaraveggi hafi legið fyrir í september 2014 hafi stefnanda verið unnt að hefjast handa við að reisa kjallara. Áréttað sé að útgáfu byggingarleyfis hafi ekki verið þörf til að hefja hönnun og framleiðslu samkvæmt framangreindu.

        Það hafi þó verið strax 8. október 2014 sem stefndi hafi farið að hafa áhyggjur af framgangi á hönnun eininga og framvindu verksins en bókað hafi verið í fundargerð verkfundar nr. 9, sem haldinn var hinn 8. október 2014, sbr. dskj. nr. 49, að framvinda væri sex vikum á eftir upphaflegri áætlun. Sé þá verið að vísa til verksamningsins, eins og hann var uppfærður í ágúst 2014, sbr. dskj. nr. 64, en samkvæmt honum skyldi verkið hefjast í byrjun september 2014.

        Í kjölfar þessarar athugasemdar hafi í fundargerð verkfundar nr. 10, sem haldinn var hinn 15. október 2014, sbr. dskj. nr. 49, verið bókað eftir fyrirsvarsmanni stefnanda að uppfærsla tímaáætlunar og magntalna væri í vinnslu. Þann 16. október hafi verksamningurinn verið uppfærður að nýju, m.t.t. uppfærðrar tíma- og magnáætlunar, og hafi aðilar unnið samkvæmt honum frá þeim tíma, sbr. t.d. tilvísun stefnanda til þess að stefnandi væri 2–3 vikum á eftir verkáætlun nýjasta samnings í fundargerð verkfundar nr. 15 sem haldinn var hinn 20. nóvember 2014, sbr. dskj. nr. 49.

          Samkvæmt uppfærðri verkáætlun skyldi reisa sökkla, botnplötu og kjallaraveggi í október og nóvember 2014 og skyldi þeirri vinnu lokið í allra síðasta lagi 17. nóvember 2014 þegar reising 1. hæðar hafi átt að hefjast. Engu að síður hafi botnplata verið steypt 9. janúar 2015 og reising 1. hæðar ekki hafist fyrr en 28. janúar 2015. Fyrsti hluti verksins hafi því verið um 10 vikum á eftir áætlun. Þá skyldi þakplata steypt í lok febrúar 2015, samkvæmt uppfærðri verkáætlun, og hafi sá verkþáttur markað verklok stefnanda. Þakplata hafi verið steypt 22. maí 2015 en á þeim tíma hafi enn verið nokkur frágangur eftir og þá helst niðurtekt byggingarkrana í eigu stefnanda. Stefnandi hafi aftur á móti lagt niður störf þann 28. maí 2015 vegna ætlaðra verulegra vanefnda stefnda og hafi því aldrei lokið verkinu.

        Stefndi byggi á því að tafir á verkinu megi fyrst og fremst rekja til þess að stefnandi hafi vanmetið umfang verksins, þá einkum hvað varðaði hönnunarvinnu. Stefndi hafi treyst því að stefnandi væri hæfur til að vinna verkið en stefnandi gefi sig út fyrir að vera sérfræðingur í einingahönnun og -framleiðslu. Hlutverk aðalhönnuðar stefnda hafi upphaflega eingöngu átt að felast í að staðfesta einingateikningar, þ.e. form eininga og járnun þeirra, en aðalhönnuðir beri ábyrgð á því að mannvirki standist kröfur sem gerðar eru til þess í lögum, sbr. 23. gr. l. nr. 160/2010.

        Einingahönnuður stefnanda hafi aftur á móti orðið uppvís að því að gera mörg og endurtekin mistök við teikningar eininga. Aðalhönnuður hafi því ítrekað þurft að yfirfara teikningarnar áður en mistök hafi endanlega verið leiðrétt. Vísast m.a. til fundargerðar verkfundar nr. 15 sem haldinn hafi verið hinn 20. nóvember 2014, sbr. dskj. nr. 49.         Einingahönnun stefnanda hafi því verið haldin verulegum göllum en hún hafi verið á skjön við hönnunargögn og ekki uppfyllt kröfur sem gera verði til slíkra gagna samkvæmt lögum nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. t.d. 32. gr. laganna, og reglum settum með stoð í þeim. Stefndi hafi lagt út í töluverðan kostnað við að lagfæra einingateikningar stefnanda. Aðalhönnuður stefnda hafi ítrekað þurft að leiðrétta form eininga og járnlögn þeirra, umfram það sem eðlilegt megi teljast, án þess að bætt væri úr af hálfu stefnanda, sbr. t.d. bókun á verkfundi 15. Til að reyna að flýta fyrir ferlinu og fækka villum hafi aðalhönnuður tekið að sér, að ósk stefnanda, að sjá um að teikna inn á einingarnar öll göt, þ.e. alla glugga, hurðir, loftræstiop o.þ.h, sbr. bókun á verkfundi nr. 12. Þá hafi hann leyst úr mistökum með grönn járn í steypulásum SS2 í veggjum milli herbergja, sem hafi kostað breytingu á öllum burðarþolsteikningum í gólfum. Loks hafi hann tekið að sér að teikna bita á SA-horni 1. hæðar sem ekki hafði enn verið teiknaður í byrjun mars 2015. Stefndi hafi því verið farinn að bera kostnað af vinnu aðalhönnuðar sem upphaflega skyldi unnin af einingahönnuði stefnanda. Stefnda sé því rétt að halda eftir upphæð sem samsvari kostnaði við að lagfæra galla á verki stefnanda hafi hann ekki verið lagfærður innan hæfilegs tíma, sbr. ákvæði 4.3.6 í staðli ÍST-30.

        Þegar stefnandi hafi stöðvað verkframkvæmdir og lagt niður störf þann 28. maí 2015 hafi átt eftir að ganga frá verkinu og þá einkum taka niður og fjarlægja byggingarkrana af verksvæðinu. Stefndi byggi í fyrsta lagi á því að stefnanda hafi ekki verið heimilt að stöðva verkframkvæmdir. Þegar stöðvun verkframkvæmda hafi átt sér stað hafi 7–14 dagar verið liðnir frá útgáfu framvindureikninga en samkvæmt skilmálum stefnanda skyldu reikningar greiðast innan 15 daga frá útgáfudegi, sbr. ákvæði 5.6 í almennum skilmálum stefnanda. Hafi því ekki verið komið að eindaga framvindureikninga stefnanda og ekki sé unnt að halda því fram að stefndi hafi verulega vanefnt verksamninginn líkt og áskilið er, sbr. ákvæði 6.1.4 í staðli ÍST-30. Stefndi hafi jafnframt lýst yfir skuldajöfnuði við ógreidda framvindureikninga 28. maí 2015 en aðrir ógreiddir reikningar verið ósamþykktir af hálfu stefnda og hafi þeim verið mótmælt. Þá sé áréttað að aðrir framvindureikningar hafi verið í skilum og hafi ávallt verið greiddir á réttum tímum. Stefndi hafi skorað ítrekað á stefnanda í byrjun júní að fjarlægja byggingarkranann af lóðinni en kraninn hafi valdið því að ekki hafi verið hægt að ganga frá byggingunni og afhenda hana kaupanda, Hvönnum ehf. Stefnanda hafi verið gefinn kostur á að taka niður kranann í samstarfi við stefnda fyrir 15. júní en þar sem engin viðbrögð  hafi borist frá stefnanda hafi kraninn verið fjarlægður af DS lausnum ehf. á kostnað stefnda 30. júní 2015. Hafi framangreint leitt til aukins kostnaðar fyrir stefnda en jafnframt hafi athafnaleysi stefnanda orðið til þess að frágangur byggingarinnar tefðist enn frekar og afhending hennar til kaupanda sömuleiðis.

        Stefndi telur ljóst að stefnandi beri skaðabótaábyrgð á tjóni stefnda samkvæmt ofangreindu. Stefnandi hafi tekið að sér að hanna, framleiða og reisa forsteyptar einingar í hótelbygginguna. Stefnandi hafi metið það svo að verkið tæki fimm mánuði í heildina og hafi þeirri verkáætlun ekki verið breytt af hálfu stefnanda. Vanmati stefnanda á verkinu, þ.e. byggingunni sjálfri og verktíma, beri stefnandi alfarið ábyrgð á. Beri stefnanda því að bæta stefnda það tjón sem af framangreindu hlaust samkvæmt almennum skaðabótareglum innan samninga og með tilliti til hins stranga sakarmats sem gildi um sérfræðinga.

        Auk framangreinds byggi skaðabótakrafa stefnda á sömu málsástæðum og lagarökum og komi fram í gagnstefnu í gagnsök ásamt framlögðum gögnum. Tjón stefnda sundurliðist með eftirfarandi hætti:

Greiddar tafabætur                55.662.500 kr.

              Vaxtagjöld af fjármögnun       21.359.722 kr.

              Vinna við einingateikningar       4.408.000 kr.

              Niðurtekt byggingarkrana          2.388.861 kr.

Samtals                                     83.819.083 kr.

        Tjón stefnda af völdum afhendingardráttar:

Tjón stefnda megi fyrst og fremst rekja til þess að ekki hafi verið unnt að afhenda hótelið fullbúið þann 1. júní 2015. Við afhendingu hafi kaupandi borið að greiða stefnda 1.000.000.000 kr. en 30 dögum eftir lokaúttekt byggingarfulltrúa hafi honum borið að greiða 320.000.000 kr. að frádregnum tafabótum. Hótelið hafi verið afhent 1. september 2015 eða þremur mánuðum eftir umsaminn afhendingardag. Samkvæmt kaupsamningnum skyldi stefndi greiða kaupanda bætur er næmu 475.000 kr. fyrir hvern byrjaðan dag sem dráttur yrði á afhendingu fram yfir afhendingardag. Fyrir hverja byrjaða viku sem dráttur yrði á afhendingu fram yfir afhendingardag skyldi fjárhæð tafabóta hækkuð um 25.000 kr. fyrir hvern byrjaðan dag þannig að tafabætur næmu 500.000 kr. á dag yrði dráttur á afhendingu í viku eða meira, 525.000 kr. á dag yrði dráttur á afhendingu í tvær vikur eða meira o.s.frv. Fjárhæð tafabóta samkvæmt framangreindu hafi numið 55.662.500 kr. með tilliti til verkfalla og hafi sú fjárhæð verið dregin frá kaupverðinu.  

        Stefndi hafi fjármagnað framkvæmdirnar með lánsfjármögnun sem bar 8,45% ársvexti. Skyldu framangreindar kaupsamningsgreiðslur renna til greiðslu áhvílandi veðskulda. Hafi stefndi greitt 21.359.722 kr. í vexti á tímabilinu 1. júní til 1. september af þeirri fjárhæð sem hefði komið til lækkunar láninu hefði hótelið verið afhent á réttum tíma, þ.e. af 1.000.000.000 kr. Nemi tjón stefnda vegna afhendingardráttar stefnanda samkvæmt ofangreindu samtals 77.022.222 kr.

         Þá hafi stefndi orðið fyrir töluverðu tjóni af völdum þess að einingahönnun, sem stefnandi hafi tekið að sér að framkvæma, uppfyllti ekki kröfur sem gera verði til teikninga af þessu tagi og hafi stefndi lagt út í töluverðan kostnað við að lagfæra teikningar. Nemi tjón stefnda vegna þess þáttar 4.408.000 kr.

         Loks hafi stefndi orðið fyrir tjóni sökum þess að stefnandi hafi ekki orðið við áskorunum stefnda um að taka niður og fjarlægja krana af byggingarlóð stefnanda. Kraninn hafi verið í eigu og á ábyrgð stefnanda. Hann hafi staðið í vegi fyrir því að unnt væri að ganga frá verkinu og afhenda það kaupanda hótelbyggingarinnar, Hvönnum ehf. Hafi stefnda því verið nauðugur sá kostur að leggja út fyrir niðurtekt kranans. Hafi sá kostnaður numið 2.388.861 kr. og krefjist stefndi þess að fá þann kostnað bættan úr hendi stefnanda. Þessi kostnaður hafi verið liður í að takmarka tjón stefnda af völdum afhendingardráttar og galla á framkvæmd verksins af hálfu stefnanda.

        Samkvæmt framangreindu eigi stefndi skaðabótakröfu, samtals að fjárhæð 83.819.083 kr., á hendur stefnanda en auk þess eigi stefndi kröfu um afslátt af samningsverði, sbr. 3. gr. verksamningsins,  að fjárhæð 12.423.529 kr. uppreiknað með verðbótum. Stefndi eigi því gagnkröfur að fjárhæð 96.242.612 kr. til skuldajafnaðar við kröfur stefnanda sem ekki sé mótmælt af hálfu stefnda, svo og öðrum kröfum stefnanda að því leyti sem dómurinn fellst á þær gegn mótmælum stefnda.

 

        Stefndi krefjist þess að kyrrsetningargerð stefnanda verði felld niður þar sem skilyrði hennar hafi ekki verið uppfyllt. Meginskilyrði þess að kyrrsettar verði eignir aðila til tryggingar kröfu, sem enn er óvíst um hvort réttmæt sé, sé að draga muni mjög úr líkindum til að fullnusta hennar takist eða að fullnusta verði verulega örðugri. Stefndi telur framangreint skilyrði fjarri því að vera uppfyllt. Hvíli sönnunarbyrði um að skilyrðinu sé fullnægt á stefnanda og beri að skýra allan vafa stefnanda í óhag.

        Stefndi sé einkahlutafélag, sem stofnað var á árinu 2013. Tilgangur félagsins sé kaup, sala, rekstur, eignarhald, umsýsla og uppbygging fasteigna og kaup og sala verðbréfa í tengslum við fasteignaviðskipti, auk lánastarfsemi sem tengist rekstrinum. Félagið hafi undanfarin tvö ár keypt tvær lóðir, Hverfisgötu 103 og Hverfisgötu 94–96. Á annarri lóðinni hafi stefndi reist og selt fjögurra hæða hótelbyggingu en hyggist reisa íbúðabyggingu á lóðinni við Hverfisgötu 94–96 á næstu árum, líkt og rakið verði nánar hér á eftir. Stefndi sé því félag í fullum byggingarrekstri og hyggist vera það um ókomin ár. Mótmæli stefndi því alfarið að við félaginu blasi fjárhagsvandi eða nokkuð sem gefi stefnanda tilefni til að óttast að stefndi geti ekki greitt meinta kröfu stefnanda að gengnum dómi. Stefndi hafi alltaf greitt reikninga stefnanda á réttum tímum. Stefndi hafi nú þegar greitt stefnanda 237.115.879 kr., þar af 229.397.828 kr. fyrir framvindu verksins og 7.718.051 kr. fyrir ýmis umsamin aukaverk. Í lok maí hafi stefndi farið þess á leit við stefnanda að samið yrði um sanngjarnt og eðlilegt uppgjör eftirstöðva verkgreiðslna þar sem verkið hefði tafist verulega vegna atvika sem stefnandi bæri ábyrgð á. Áréttað sé að stefndi hafi boðið fram greiðslu á framvindureikningum gegn viðundandi tryggingum og ávallt verið tilbúinn til þess að finna sanngjarna lausn á málinu. Sú tilraun stefnda hafi hins vegar verið árangurslaus.

        Vegna fyrirliggjandi og fyrirséðs tjóns stefnda hafi hann lýst yfir haldi á eigin greiðslu og skuldajöfnuði við tvo framvindureikninga stefnanda, samtals að fjárhæð rúm 21 milljón króna. Þá hafi stefndi mótmælt greiðslu reiknings að fjárhæð rúmar 13,5 milljónir króna fyrir ætlaða magnaukningu á járni. Ástæða þess hafi fyrst og fremst verið sú að stefndi hefði orðið þess áskynja að stefnandi stæði ekki vel fjárhagslega og því yrði torvelt fyrir stefnda að sækja skaðabótakröfu félagsins eftir á. Vísist til ársreiknings stefnanda vegna rekstrarársins 2014, þar sem fram komi að skuldir og skuldbindingar félagsins hafi meira en tvöfaldast á milli ára og numið rúmum milljarði í árslok 2014. Þá vísist jafnfram til lánshæfismats og greiðsluhegðunarupplýsinga frá CreditInfo, þar sem fram komi að stefnandi sé í mikilli hættu á að verða í alvarlegum vanskilum eða ógjaldfær og greiði reikninga að meðaltali 13 dögum eftir eindaga.

        Eignastaða stefnda sé góð. Stefndi sé eigandi alls hlutafjár í H96 ehf. en það félag eigi byggingarrétt með fastanúmerið 235-5865 á norðurhluta lóðarinnar við Laugaveg 77, Reykjavík. Þá er greinargerð hafi verið rituð hafi verið unnið að útgáfu afsals vegna framangreinds byggingarréttar með vísan til 7. gr. fyrrnefndrar kvaðar. Uppskipting lóðarinnar í tvær lóðir, þ.e. Laugaveg 77 og Hverfisgötu 94–96, hafi verið samþykkt af borgaryfirvöldum og sé í auglýsingaferli. Stefndi geri ráð fyrir að því ferli verið lokið fljótlega á nýju ári. Samkvæmt deiliskipulagi sé gert ráð fyrir að fimm hæða nýbygging verði reist á lóðinni með 54 íbúðum og verslun og þjónustu á jarðhæð. Stefndi hafi þegar fengið lánsloforð frá Landsbanka Íslands, sem hyggst fjármagna framkvæmdirnar.

         Eigið fé stefnda (eignir umfram skuldir) m.v. 24. júlí 2015 sé um 325 til 375 milljónir króna. Nemi sú fjárhæð a.m.k. þrefaldri kröfu stefnanda. Eignir félagsins séu því nægar til að standa undir meintum kröfum stefnanda fari svo að dómstólar fallist á kröfur hans. Þá eru engar horfur á því að eigið fé félagsins muni rýrna á þeim tíma sem tekur að bíða aðfararhæfs dóms. Þvert á móti séu verulega jákvæðar horfur í rekstri stefnda. Kyrrsetning sé neyðarúrræði, sem aðeins skuli grípa til í undantekningartilvikum. Það sé því í öllu falli óskiljanlegt að kyrrsettar séu umtalsverðar eignir stefnda, án viðunandi trygginga af hálfu stefnanda, til tryggingar kröfum, sem virðist hafa verið búnar til í þeim tilgangi einum að valda stefnda meira tjóni en þegar hafi orðið og það þrátt fyrir að stefndi hafi sýnt fram á umtalsverðar eignir sem nemi meira en þrefaldri kröfu stefnanda. Sé kyrrsetningargerð nr. K-12/2015 samkvæmt framangreindu ólögmæt og beri að fella hana úr gildi. Sé áskilinn réttur til að höfða sérstakt mál um skaðabótakröfu stefnda verði kyrrsetningagerðin talin ólögmæt en stefndi hafi orðið fyrir umtalsverðu fjártjóni af völdum gerðarinnar.

        Verði ekki fallist á að fella kyrrsetningargerðina í heild úr gildi sé farið fram á að kyrrsetning, sem gerð var í rétt stefnda til kaupsamningsgreiðslna úr hendi Hvanna ehf., verði þegar felld úr gildi. Kaupsamningsgreiðslurnar voru veðsettar Landsbankanum hf. með veðsamningi, dags. 13. maí 2015, og tilkynningu til Hvanna ehf. um veðsetninguna þann sama dag. Hafi Landsbankinn með bréfi dags. 2. nóvember 2015 krafist endurupptöku á kyrrsetningunni á grundvelli 4. mgr. 22. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl.

        Stefndi skorði á stefnanda að leggja fram gögn, sem sýni fram á að virðisaukaskatti hafi verið skilað af þeim 22 reikningum sem stefnandi krefjist greiðslu á, kröfu sinni til stuðnings.

        Stefndi byggi aðallega á meginreglum kröfu- og verktakaréttar um samnings- og aukaverk. Þá byggi stefndi á meginreglum kröfu- og samningaréttar um skaðabótaábyrgð og -skyldu vegna vanefnda á samningi ásamt almennum reglum um strangari ábyrgð sérfræðinga. Jafnframt sé vísað til ÍST 30:2012 og skilmála verksamnings aðila. Loks byggi stefndi á lögum nr. 160/2010, um mannvirki, og reglugerðum settum með stoð í þeim ásamt þeim stöðlum sem vísað er til í fyrrgreindum reglugerðum. Krafan um málskostnað að skaðlausu byggi á 130. gr. laga nr. 91/1991.

        Stefndi byggi, auk þeirra málsástæðna sem hér hafa verið tilgreindar, jafnframt á öllum þeim sömu málsástæðum og lagarökum í aðalsök og byggt er á í gagnstefnu hans í gagnsök.

        Stefndi hafi áskilið sér rétt til að láta dómkveðja matsmann eða -menn undir rekstri málsins til þess að staðreyna kröfur stefnda, auk þess að leggja mat á sérfræðileg atriði.

 

V.

Málsástæður og lagarök gagnstefnanda

        Gagnstefnandi telji ljóst að verulegur hluti reikninga gagnstefnda eigi ekki við rök að styðjast. Ljóst sé að gagnstefnandi eigi verulegar gagnkröfur á hendur gagnstefnda vegna tafa á verkinu og gallaðra einingateikninga, sem nemi hærri fjárhæðum en ágreiningslausar kröfur gagnstefnda í aðalsök.

        Gagnstefndi hafi tekið að sér að hanna, framleiða og reisa forsteyptar einingar í hótelbyggingu við Hverfisgötu 103. Jafnframt hafi gangstefndi tekið að sér að sjá um einingahönnun vegna hótelbyggingarinnar. Gagnstefnandi hafi samið við gagnstefnda fyrst og fremst vegna þess að hann hafi talið sig vera að semja við reynslumikið verktakafyrirtæki og sérfræðinga á sviði einingahönnunar. Hafi gagnstefnandi gengið út frá því að starfsfólk gagnstefnda byggi yfir þeirri þekkingu og kunnáttu sem þyrfti til þess að reisa hús af þessari stærðargráðu.

        Eftir gerð samnings við gagnstefnda hafi komið í ljós að gagnstefndi réði ekki við verkefnið. Hafi gagnstefndi t.a.m. vanmetið verulega umfang verksins og þann tíma sem tæki að vinna tiltekna verkþætti, þá sérstaklega þá sem hafi snúið að einingahönnun. Því hafi gagnstefnandi orðið fyrir umtalsverðu tjóni vegna vanefnda á verksamningnum. Fyrst og fremst vegna þess að verkið hafi tafist verulega, en verkið hafi verið þremur mánuðum á eftir áætlun þegar gagnstefndi lagði niður störf. Þá hafi einingahönnun verið haldin verulegum göllum en hún hafi verið á skjön við hönnunargögn og ekki uppfyllt kröfur sem gera verði til slíkra gagna samkvæmt lögum nr. 160/2010 um mannvirki og reglum settum með stoð í þeim. Loks hafi gagnstefnandi  orðið fyrir tjóni vegna aðgerðaleysis gagnstefnda við að taka niður byggingarkrana í hans eigu og fjarlægja af byggingarlóð gagnstefnanda.   

        Gagnstefnandi byggi á því að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna afhendingardráttar gagnstefnda á verkinu. Samkvæmt 5. gr. verksamningsins og uppfærðum verksamnings-drögum var ráðgert að verktími yrði fimm mánuðir. Aðilum hafi verið fullljóst við gerð verksamningsins að ekki lægju fyrir fullunnar teikningar af hótelbyggingunni og því fyrirséð að verkið gæti ekki hafist fyrr en þær lægju fyrir. Fullunnar aðalteikningar hafi legið fyrir í júní 2014, burðarþolsteikningar af fyrsta hluta hótelsins, þ.e. af kjallara upp að plötu 1. hæðar, hafi legið fyrir í júlí 2014 og skilyrt byggingarleyfi til að fara upp með sökkla, botnplötu og kjallaraveggi hafi legið fyrir í september 2014.

        Þegar framangreint hafi legið fyrir hafi aðilar hafist handa við að uppfæra verksamninginn til samræmis við fullunnar teikningar. Afrakstur þess hafi legið fyrir í október 2014 en hin uppfærðu verksamningsdrög hafi þó ekki verið undirrituð. Hafi þó báðir aðilar litið svo á að samningurinn hefði verið uppfærður miðað við það sem þar kæmi fram. Samkvæmt þeim samningi hafi nýjum verkþáttum verið bætt við og auk þess hafi magntölur og einingaverð verið uppfærð m.v. fyrirliggjandi teikningar. Byggi framvindureikningar gagnstefnda t.a.m. á þeim upplýsingum sem fram komi í þeim samningsdrögum. Þá byggi aðrir reikningar, sem gagnstefndi krefjist nú greiðslu á, að einhverju leyti á uppfærðum samningsdrögum, t.a m. reikningur nr. 9 (galvanhúðun á mottum og stöngum) og reikningur nr. 11 (heit steypa). Því sé fráleitt af hálfu gagnstefnda að byggja kröfur sínar og málatilbúnað í aðalsök á hinum uppfærðu samningsdrögum en halda því um leið fram að sá verktími sem þar komi fram sé ekki skuldbindandi fyrir gagnstefnda.

        „Gagnstefnandi byggir á því að allar forsendur hafi verið fyrir hendi til að hefja verkið samkvæmt þeirri áætlun sem fram komi í 5. gr. uppfærðra verksamningsdraga, þ.e. 2. viku í október 2014. Þegar aðalteikningar hafi legið fyrir í júní 2014 hafi gagnstefnda verið unnt að hefja teikningar á formi eininga, þ.e. útliti þeirra, sniði og málsetningum. Þegar burðarþolsteikningar af fyrsta hluta hótelsins, þ.e. af kjallara upp að plötu 1. hæðar, hafi legið fyrir í júlí 2014 hafi gagnstefnda verið unnt að hefja teikningu á járnlögn í einingar og í framhaldinu hefjast handa við að framleiða einingar. Þegar skilyrt byggingarleyfi til að fara upp með sökkla, botnplötu og kjallaraveggi hafi legið fyrir í september 2014 hafi gagnstefnda verið unnt að hefjast handa við að reisa kjallara. Útgáfu byggingarleyfis hafi ekki verið þörf til að hefja hönnun og framleiðslu samkvæmt framangreindu.

        Samkvæmt verkáætlun í uppfærðum verksamningsdrögum skyldi reising 1. hæðar hefjast eigi síðar en í 3. viku nóvember 2014. Þó að öll skilyrði hafi verið til staðar til að hefja verkið í samræmi við áætlun hafi reising 1. hæðar ekki hafist fyrr en í lok janúar 2015, eða tæpum tveimur mánuðum á eftir áætlun. Það megi fyrst og fremst rekja til vanmats gagnstefnda á verkinu og verktíma, og þá sérstaklega því hvað fælist í vinnu við einingahönnun hússins. Við hönnun á hóteli, sem reist sé með forsteyptum einingum, þurfi að vera samvinna milli einingahönnuðar og aðalhönnuðar varðandi hönnun eininga, samsetningu og útfærslu á deilum enda teikningarnar háðar hvor annarri. Eins hafi legið fyrir að hluti hönnunar, eins og á forspenntum bitum og plötum, yrði á höndum gagnstefnda. Til þess að koma í veg fyrir að ítrekað þyrfti að endursenda teikningar til byggingarfulltrúa hafi eininga- og aðalhönnuðir þurft að vera orðnir sammála um útfærslu áður en efri hæðir yrðu lagðar inn. Til að mynda hafi aðalhönnuði verið nauðsynlegt að fá upplýsingar frá einingahönnuði um það hvernig hann hygðist járna forspennta bita og plötur en þær upplýsingar hafi verið nauðsynlegar til að klára burðarþolsteikningar og fá endanlegt byggingarleyfi fyrir hótelið. Þær upplýsingar hafi t.a.m. ekki legið fyrir fyrr en 8. janúar 2015, en þá kvaðst gagnstefndi vilja hafa alla bita ofan 1. hæðar staðsteypta, sem hafi leitt til þess að aðalhönnuður gagnstefnanda hafi þurft að breyta teikningum til samræmis. Ofangreind samvinna hafi þó ekki verið til staðar af hálfu gagnstefnda. Frá upphafi hafi verið ákveðið að aðalhönnuður myndi fara yfir einingateikningar og staðfesta að þær væru réttar áður en gagnstefndi héldi áfram með þær, sbr. ákvæði 3.9 í skilmálum gagnstefnda. Fyrst hafi átt að staðfesta form eininganna og síðan járnun þeirra. Það sé eðlileg krafa í ljósi þess að aðalhönnuðir beri ábyrgð á að mannvirki standist kröfur sem gerðar eru til þess í lögum, sbr. 23. gr. l. nr. 160/2010. Einingahönnuður gagnstefnda hafi orðið uppvís að því að gera mörg og endurtekin mistök við teikningar eininga. Hafi aðalhönnuður gagnstefnanda því ítrekað þurft að yfirfara teikningarnar áður en mistök hafi endanlega verið leiðrétt.

        Til að reyna að flýta fyrir ferlinu og fækka villum hafi aðalhönnuður tekið að sér, að ósk gagnstefnda, að sjá um að teikna inn á einingarnar öll göt, þ.e. alla glugga, hurðir, loftræstiop o.þ.h. Þá hafi hann tekið að sér að teikna bita á SA-horni 1. hæðar sem ekki hafði enn verið teiknaður í byrjun mars 2015. Hafi gagnstefnandi því verið farinn að bera kostnað af vinnu aðalhönnuðar sem upphaflega skyldi unnin af einingahönnuði gagnstefnda. Sé gagnstefnanda rétt að halda eftir upphæð sem samsvari kostnaði við að lagfæra galla á verki gagnstefnda hafi hann ekki verið lagfærður innan hæfilegs tíma, sbr. ákvæði 4.3.6 í ÍST 30:2012. Gagnstefnandi telji ljóst að margvíslegir gallar hafi verið á einingateikningum gagnstefnda og að þær standist engan veginn þær kröfur sem almennt megi gera til slíkra verka, sbr. t.d. 32. gr. l. nr. 160/2010. Beri gagnstefndi ábyrgð á því að þeir verkþættir sem hann tekur að sér séu í samræmi við viðurkennda verkhætti, samþykkta uppdrætti, verklýsingar og ákvæði laga og reglugerða.

        Þegar hafi komið að hönnun svalahandriðaeininga í mars 2015 hafi gagnstefndi fengið verkfræðistofuna Hnit til að teikna þær einingar en auk þess hafi Hnit teiknað einingar fyrir 4. hæð hússins. Hafi samstarf aðalhönnuðar og Hnits gengið vel og án nokkurs ágreinings. Sé sérstaklega tekið fram í málsatvikalýsingu í stefnu í aðalsök að gagnstefndi hafi tekið þá ákvörðun að fá Verkfræðistofuna Hnit, þaulreynda einingahönnuði, til að koma að verkinu vegna þess hve teikningaframleiðsla hafi verið tímafrek og flókin. Þyki gagnstefnanda það gefa eindregið til kynna að verkefnið hafi verið of umfangsmikið fyrir einingahönnuð gagnstefnda.

Gagnstefnandi hafi orðið þess áskynja fljótlega eftir að verkið skyldi hefjast að gagnstefndi hefði aldrei áður komið að teikningum og framleiðslu byggingar af þessu tagi og réði hreinlega ekki við verkefnið. Hafi ófullnægjandi einingahönnun og tafir framleiðslu sem seinkuðu öllu verkinu verið aðalvísbendingarnar þar um. Hafi gagnstefndi staðfest með athugasemdum við reikning nr. 22 (aukakostnaður teikningaframleiðslu), dags. 9. júní 2015, að framleiðsla einingateikninga hafi gengið afar hægt. Þá segi orðrétt: „Allt önnur og miklum mun flóknari bygging en upphaflega var gert ráð fyrir í samningnum. Á köflum er flækjustigið svo hátt að það má teljast sambærilegt við flókna módelsmíði. Loftorka hefur aldrei áður komið að teikningum og framleiðslu svo flókins hús, sem er sérstakt vegna þess hve stór byggingin er. Afleiddur viðbótarkostnaður er því mikill vegna stærðar hússins.“

        Telji gagnstefnandi framangreint lýsandi fyrir það ástand sem uppi hafi verið og í raun meginorsök tafanna. Gagnstefnandi bendi þó á að að stærð hússins hafi verið þekkt þegar gagnstefndi gerði tilboð í verkið og þegar verksamningurinn var undirritaður, en leyfilegt byggingarmagn á lóðinni samkvæmt gildandi deiliskipulagi hafi verið aðilum kunnugt. Allt leyfilegt byggingarmagn hafi verið nýtt, sbr. aðalteikningar 13. júní 2014, og hafi stærð hússins haldist óbreytt síðan fyrstu grunnplön voru gerð í byrjun árs 2013. Margbreytileiki hússins eða „flækjustig“ eins og gagnstefndi hafi kallað það hafi verið að fullu þekkt þegar uppfærð verksamningsdrög hafi verið gerð í október. Hefði gagnstefndi ekki talið sig geta framkvæmt verkið, og teiknað þær einingar sem hann telur sig sérfræðing í, hefði  honum borið að tilkynna um það án tafar. Samkvæmt samningi aðila hafi allri vinnu átt að vera lokið í lok febrúar 2015 en í þessu samhengi sé rétt að benda á að gagnstefnandi átti að afhenda heildarverkið fullfrágengið til Hvanna ehf. í júní 2015. Þrátt fyrir framangreint hafi gagnstefndi aldrei með skýrum hætti látið í ljós að tafir þær sem urðu á verkinu myndu leiða til dráttar á afhendingu heldur yrði tapaður tími unninn upp með ýmsum hætti. Af þeim sökum hafi gagnstefnandi ekki leitað fast eftir því við Hvannir ehf. að seinka afhendingu. Samkvæmt ákvæði 5.2.3 í staðli ÍST 30 hafi gagnstefnda borið að senda gagnstefnanda tafarlaust rökstudda tilkynningu um tafir á verkinu og eftir atvikum óska eftir framlengingu á verktíma. Það hafi gagnstefndi hins vegar ekki gert. Þann 22. maí 2015 hafi verið bókað eftir gagnstefnda að hann hygðist taka niður byggingarkranann í eigu gagnstefnda dagana 27. og 28. maí 2015. Gagnstefnandi hafi skorað ítrekað á gagnstefnda í byrjun júní að fjarlægja byggingarkranann af lóðinni en kraninn hafi valdið því að ekki var hægt að ganga frá byggingunni og afhenda hana kaupanda. Gagnstefnda hafi verið gefinn kostur á að taka niður kranann í samstarfi við gagnstefnanda fyrir 15. júní, en þar sem engin viðbrögð hafi borist frá gagnstefnda hafi kraninn verið fjarlægður af DS lausnum ehf. á kostnað gagnstefnda í lok júní 2015. Þetta hafi jafnframt leitt til tjóns fyrir gagnstefnanda, en athafnaleysi gagnstefnda hafi orðið til þess að frágangur hótelsins tafðist enn frekar en þegar hefur verið rakið.

         Byggi gagnstefnandi á því að gagnstefnda hafi ekki verið heimilt að stöðva verkframkvæmdir. Þegar stöðvun verkframkvæmda hafi átt sér stað hafi 7–14 dagar verið liðnir frá útgáfu framvindureikninga en samkvæmt skilmálum gagnstefnda skyldu reikningar greiðast innan 15 daga frá útgáfudegi, sbr. ákvæði 5.6 í almennum skilmálum gagnstefnda. Hafi því ekki verið komið að eindaga framvindureikninga gagnstefnda og fráleitt að halda því fram að gagnstefnandi hafi verulega vanefnt verksamninginn líkt og áskilið er, sbr. ákvæði 6.1.4 í staðli ÍST 30. Hafi gagnstefnandi jafnframt lýst yfir skuldajöfnuði við vangreidda framvindureikninga 28. maí 2015 en aðrir ógreiddir reikningar hafi verið ósamþykktir af hálfu gagnstefnanda og hafi þeim verið mótmælt. Stefndi árétti að aðrir framvindureikningar hafi verið í skilum og hafi ávallt verið greiddir á réttum tímum. Telji gagnstefnandi ljóst að gagnstefndi beri skaðabótaábyrgð á tjóni gagnstefnanda samkvæmt ofangreindu. Gagnstefndi hafi tekið að sér að hanna, framleiða og reisa forsteyptar einingar í hótelbygginguna. Gagnstefndi hafi metið það svo að verkið tæki fimm mánuði í heildina og hafi þeirri verkáætlun ekki verið breytt af hálfu gagnstefnda. Vanmati gagnstefnda á verkinu, þ.e. byggingunni sjálfri og verktíma, beri gagnstefndi alfarið ábyrgð á. Beri gagnstefnda því að bæta gagnstefnanda það tjón sem af framangreindu hafi hlotist samkvæmt almennum skaðabótareglum innan samninga og með tilliti til hins stranga sakarmats sem gildi um sérfræðinga.

        Gagnstefnandi mótmæli að allverulegu leyti málatilbúnaði og málavaxtalýsingu gagnstefnda í aðalsök. Gagnstefndi byggi mjög á því að verkáætlun hafi miðast við að „undirbúningi“ gagnstefnanda væri lokið. Byggi gagnstefndi á því að teikningar þurfi að berast ýmist þremur vikum fyrir reisingu eða sjö vikum fyrir upphafsdag framleiðslu. Gagnstefnandi mótmæli framangreindu og bendi á að þessi áskilnaður eigi ekki við, enda hafi gagnstefndi tekið að sér að einingahönnun og þar af leiðandi á hans ábyrgð að hafa teikningar tilbúnar fyrir einingaframleiðslu. Telji gagnstefnandi gæta misskilnings í málatilbúnaði gagnstefnda hvað þetta varði en í upphafi hafi verið ráðgert að gagnstefnandi sæi um einingahönnun. Því hafi síðar breytt breytt og aðilar samið um að gagnstefndi tæki þann verkþátt að sér. Sé því alfarið mótmælt að gagnstefndi hafi getað gert kröfu um að teikningar væru klárar og að byggingarleyfis hefði verið aflað áður en gagnstefndi gæti hafist handa við verkið. Vísast til umfjöllunar hér að framan en burðarþolsteikningar hafi verið háðar upplýsingum og útfærslu gagnstefnda á einingahönnun. Þá sé því alfarið hafnað að útgáfa byggingaleyfis hafi verið forsenda þess að gagnstefndi gæti hafið verkið samkvæmt áætlun. Þvert á móti hefði gagnstefndi getað, fyrir útgáfu byggingarleyfis, verið búinn að teikna form allra eininga í byggingunni og framleiða allar þær einingar sem þurfti til að reisa kjallara. Þá sé sérstaklega áréttað að allar tafir á útgáfu byggingarleyfis megi fyrst og fremst rekja til ófullnægjandi einingahönnunar og útfærslu eininga af hendi gagnstefnda sjálfs. Ef einingahönnun hefði uppfyllt þær kröfur sem gera verði til þeirra hefðu ekki orðið þær verulegu tafir á útgáfu byggingarleyfisins sem raun beri vitni. Nú hyggist gagnstefndi varpa allri ábyrgð á ófullnægjandi einingahönnun, það er þeirri þjónustu sem gagnstefndi gefur sig út fyrir að vera sérfræðingur í, yfir á gagnstefnanda sem ekki sé sérfræðingur í einingahönnun.

        Vegna tilvísunar gagnstefnda til þess að jarðvinnu hafi ekki verið lokið fyrr en í byrjun janúar 2015 megi geta þess að henni hafi ekki verið unnt að ljúka fyrr en að gagnstefndi hafði reist kjallaraveggi, sem voru sambyggðir sökklum að tillögu gagnstefnda, ásamt því að hafa steypt súlur í kjallara. Þeirri vinnu hafi gagnstefndi ekki lokið fyrr en í lok desember 2014. Jarðvinna hafi því ekki staðið í vegi fyrir steypu botnplötu heldur tafir á verkinu af hálfu gagnstefnda sjálfs. Þá sé því mótmælt að teikningar hafi ekki verið afhentar á formi sem mælt er fyrir um í skilmálum 3.4-3.11 í verksamningi. Teikningar hafi ávallt verið afhentar á AutoCAD formi (DWG) og breytingar verið merktar með appelsínugulu breytingarskýi sem hafi verið sett á lag merkt með dagsetningunni.

        Gagnstefnandi hafi orðið fyrir töluverðu tjóni af völdum afhendingardráttar gagnstefnda og annarra tafa, sem gagnstefndi beri ábyrgð á. Tjónið sé fyrst og fremst tilkomið vegna þess að gagnstefnanda hafir ekki verið unnt að afhenda kaupanda hótelsins, Hvönnum ehf., bygginguna á réttum tíma. Samkvæmt kaupsamningum hafi borið að afhenda hótelið fullbúið þann 1. júní 2015. Við afhendingu hafi kaupanda borið að greiða gagnstefnanda 1.000.000.000 kr. en 30 dögum eftir lokaúttekt byggingarfulltrúa hafi honum borið að greiða 320.000.000 kr. að frádregnum tafabótum. Hótelið hafi verið afhent 1. september 2015, eða þremur mánuðum eftir umsaminn afhendingardag. Samkvæmt kaupsamningnum skyldi gagnstefnandi greiða kaupanda bætur er næmu 475.000 kr. fyrir hvern byrjaðan dag sem dráttur yrði á afhendingu fram yfir afhendingardag. Fyrir hverja byrjaða viku sem dráttur yrði á afhendingu fram yfir afhendingardag skyldi fjárhæð tafabóta hækkuð um 25.000 kr. fyrir hvern byrjaðan dag þannig að tafabætur næmu 500.000 kr. á dag varaði dráttur á afhendingu í viku eða meira, 525.000  kr. á dag varaði dráttur á afhendingu í tvær vikur eða meira o.s.frv. Fjárhæð tafabóta samkvæmt framangreindu hafi numið 55.662.500 kr. m.t.t. verkfalla og hafi sú fjárhæð verið dregin frá kaupverðinu. Gagnstefnandi hafi fjármagnað framkvæmdirnar með lánsfjármögnun sem hafi borið 8,45% ársvexti. Skyldu framangreindar kaupsamningsgreiðslur renna til greiðslu áhvílandi veðskulda. Hafi gagnstefnandi greitt 21.359.722 kr. í vexti á tímabilinu 1. júní til 1. september af þeirri fjárhæð sem hefði komið til lækkunar láninu hefði hótelið verið afhent á réttum tíma, þ.e. af 1.000.000.000 kr. Nemi tjón gagnstefnanda vegna afhendingardráttar gagnstefnda samkvæmt ofangreindu samtals 77.022.222,- kr.

       Þá hafi gagnstefnandi orðið fyrir töluverðu tjóni af völdum þess að einingahönnun sem gagnstefndi tók að sér að framkvæma hafi ekki uppfyllt kröfur sem gera verði til teikninga af þessu tagi og hafi gagnstefnandi lagt út í töluverðan kostnað við að lagfæra teikningar. Nemi tjón gagnstefnanda vegna þess þáttar 4.408.000,- kr.

        Kostnaður gagnstefnanda vegna vinnu aðalhönnuðar sé m.a. tilkominn vegna ítrekaðra athugasemda og leiðréttinga á formi eininga og járnalögn þeirra, umfram eðlilega yfirferð, sem ekki hafi verið bætt úr af hálfu gagnstefnda; teikninga allra glugga og hurða í húsinu inn í einingateikningar að beiðni gagnstefnda; teikninga ýmissa úrtaka og gata inn á einingar sem gagnstefndi hafi gleymt að teikna; úrlausnar mistaka með grönn járn í steypulásum SS2 í veggjum milli herbergja sem hafi kostað breytingu á öllum burðarþolsteikningum á gólfum; og teikninga bitateikningar yfir súlu á SA-hlið 1. hæðar að beiðni gagnstefnda er hönnuður hans hafi hætt verkinu.

        Loks hafi gagnstefnandi orðið fyrir tjóni sökum þess að gagnstefndi hafi ekki orðið við áskorunum gagnstefnanda um að taka niður og fjarlægja krana af byggingarlóð gagnstefnanda. Kraninn hafi verið í eigu og á ábyrgð gagnstefnda. Hann hafi staðið í vegi fyrir því að unnt væri að klára verkið og afhenda það. Hafi gagnstefnanda því verið nauðugur sá kostur að leggja út fyrir niðurtekt kranans. Hafi sá kostnaður verið 2.388.861 kr. og krefjist gagnstefnandi þess að fá þann kostnað bættan úr hendi gagnstefnda. Hafi þessi kostnaður verið liður í að takmarka tjón gagnstefnanda af völdum afhendingardráttar og galla á framkvæmd verksins af hálfu gagnstefnda.

        Samkvæmt stefnu í aðalsök geri gagnstefndi tvenns konar kröfur á hendur gagnstefnanda; annars vegar kröfu um greiðslu reikninga vegna ýmissa viðbótarverka, samtals að fjárhæð 68.709.852,- kr., og hins vegar kröfu um greiðslu framvindureikninga, samtals að fjárhæð 25.636.793,- kr. Samtals nemi krafa gagnstefnda kr. 94.346.645 í aðalsök.

        Eins og fram komi í greinargerð í aðalsök andmæli gagnstefnandi ekki fjárhæðum reikninga nr. 3, 5, 6 og 7 vegna framvindu (framvindureikningar 20, 24, 25 og 26). Því geri gagnstefnandi ekki ágreining um kröfu vegna framvindu að fjárhæð 25.636.793,- kr. Þá geri gagnstefnandi ekki ágreining um greiðslu að fjárhæð 244.650,- kr. vegna heitrar steypu. Gagnstefnandi geri því ekki ágreining um kröfur gagnstefnda í aðalsök samtals að fjárhæð kr. 25.881.443. Ágreiningur aðila í aðalsökinni snúist því einkum um það hvort gagnstefndi eigi rétt á greiðslu að fjárhæð 68.465.202,- kr. vegna verkþátta sem gagnstefnandi hafi mótmælt. Um frekari rökstuðning fyrir framangreindu vísist til greinargerðar gagnstefnanda í aðalsök. Gagnstefnandi telji hins vegar að hann eigi gagnkröfur til skuldajafnaðar við framangreindar kröfur gagnstefnda að fjárhæð 25.881.433,- kr. vegna kostnaðar og tjóns sem hann hafi orðið fyrir vegna vanefnda gagnstefnda á verksamningnum líkt og að framan sé rakið. Samtals nemi gagnkröfur gagnstefnanda 83.819.083,- kr. Þar sem gagnkröfur þessar nemi hærri fjárhæðum en sem nemur ágreininglausum kröfum gagnstefnda á hendur gagnstefnanda sé gagnstefnanda nauðsynlegt að höfða gagnsakarmál þetta.

Dómkrafa gagnstefnanda sundurliðast með eftirfarandi hætti:

Greiddar tafabætur                55.662.500 kr.

              Vaxtagjöld af fjármögnun       21.579.648 kr.

              Vinna við einingateikningar      4.408.000 kr.

              Niðurtekt byggingarkrana         2.388.861 kr.

Samtals                                    83.039.009 kr.

        Að frádregnum kröfum gagnstefnda á hendur gagnstefnanda í aðalsökinni að fjárhæð 25.881.443 kr., sem ekki sé ágreiningur um, nemi heildarkröfur gagnstefnanda 57.937.640,- kr. sem sé því stefnufjárhæðin í gagnsök þessari.

        Sé gerð krafa um að krafa að fjárhæð 12.211.489 kr. beri dráttarvexti frá og með 29. júlí 2015 til stefnubirtingardags, 30. september 2015, en að öll krafan, að fjárhæð 57.937.640,- beri dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

       Dráttarvaxtakrafa gagnstefnanda á fjárhæð tjóns gagnstefnanda sem fram komi í bréfi dags. 29. júní 2015, en að frádreginni skuldajafnaðarkröfu gagnstefnanda. Þ.e krafa að fjárhæð 38.092.932,- kr. (fjármögnunarkostnaður 9.184.932 kr., tafabætur 22.500.000 kr., kostnaður vegna teikninga 4.408.000 kr. og kostnaður við niðurtekt krana 2.000.000 kr.) að frádregnum 25.881.443,- kr. sem séu ágreiningslausar kröfur gagnstefnda og þegar hafi verið lýst yfir skuldajöfnuði vegna.

        Gagnstefnandi byggi aðallega á meginreglu kröfu- og samningaréttar um skyldu verktaka til greiðslu skaðabóta vegna vanefnda á samningi. Þá sé byggt á almennum reglum skaðabótaréttar og reglum um ábyrgð sérfræðinga. Jafnframt sé vísað til ÍST 30:2012 og skilmála verksamnings aðila. Þá byggi gagnstefnandi að hluta til á lögum nr. 160/2010 um mannvirki og reglugerðum settum með stoð í þeim.

        Þá sé vísað til laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, einkum 28. gr. um heimild til höfðun gagnsakar. Krafan um málskostnað að skaðlausu byggi á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991.  Um varnarþing vísist til 2. mgr. 42. gr. sömu laga.

        Þá sé áskilinn réttur til þess að láta dómkveðja matsmann eða -menn undir rekstri málsins til þess að staðreyna framangreindar kröfur gagnstefnanda, umfang þeirra, eðli og fjárhæð auk þess að leggja mat á sérfræðileg atriði.

VII.

Málsástæður og lagarök gagnstefnda í gagnsök

        Öllum málsástæðum fyrir bótakröfu gagnstefnanda sé hafnað af hálfu gagnstefnda. Í gagnstefnu sé því haldið fram að gagnstefndi hafi vanefnt skyldur sína með því að skila ekki verkinu á tilsettum tíma.Virðist á því byggt að verkframkvæmdir hafi tekið lengri tíma en samningur aðila hafi gert ráð fyrir og að tafir við frágang teikninga séu á ábyrgð gagnstefnda. Þessum sjónarmiðum sé mótmælt. Verði fyrst fjallað um ábyrgð á þeim töfum sem hafi orðið á gerð teikninga fyrir bygginguna, og síðan um verktímann, hvað gagnstefnda varði, en hann hafi verið í samræmi við forsendur í verksamningi aðila. Sé á því byggt af hálfu gagnstefnda að hann hafi hvorki brotið gegn samningsákvæði um verktíma né beri hann ábyrgð á því að verkinu hafi ekki lokið fyrr en raun varð á.

         Óumdeilt sé að frágangur teikninga hafi tafist verulega og hafi byggingarleyfi ekki legið fyrir fyrr en 15. janúar 2015. Gagnstefndi hafi hvorki borið ábyrgð á frágangi þeirra hönnunargagna sem nauðsynleg hafi verið til þess að fá byggingarleyfi útgefið né ábyrgð á því að afla byggingarleyfis vegna framkvæmdanna. Tafirnar séu því alfarið á ábyrgð gagnstefnanda.

         Samkvæmt verksamningi aðila, sjá grein 6, hafi Tryggvi Tryggvason hjá OPUS teikni&verkfræðistofu á Akureyri farið með hönnun byggingarinnar. Hann hafi bæði verið aðalhönnuður og hönnunarstjóri byggingarinnar. Hann hafi haft umsjón með og borið ábyrgð á aðaluppdráttum, byggingaruppdráttum og byggingartæknilegum deilum, og hönnun burðarvirkja. Hann hafi ekki aðeins borið ábyrgð á hönnun, heldur hafi hann einnig haft með höndum hönnunarstjórn og samræmingu, sbr. grein 4.1.2. í byggingarreglugerð þar sem segir að hönnunarstjóri skuli hafa „... yfirumsjón með og bera ábyrgð á að samræming  aðaluppdrátta, séruppdrátta og annarra hönnunargagna fari fram“.

        Samkvæmt 7. gr. verksamnings aðila þessa máls hafi verktaka borið að vinna verkið samkvæmt tilteknum gögnum sem þar eru tilgreind. Meðal gagnanna hafi verið eftirtalin gögn: „...3. Byggingarnefndarteikningar sem koma frá Opus teikni&verkfræðistofu í gegnum Tryggva Tryggvason(setja inn dagsetningu). 4. Burðarþols- og einingateikningar sem koma frá Opus teikni&verkfræðistofu í gegnum Tryggva Tryggvason (setja inn dagsetningu).“

         Eins og ákvæðið beri með sér hafi teikningarnar, sem Tryggvi Tryggvason bar ábyrgð á, ekki verið tilbúnar þegar samningurinn frá mars 2014 var undirritaður. Þá hafi þær ekki heldur verið tilbúnar þegar uppfærður samningur hafi verið til umræðu – en ekki kláraður – í október 2014. Samkvæmt almennum skilmálum fyrir verksamninga gagnstefnda í lið 3.11, sem hafi verið hluti verksamnings aðila, sé miðað við að teikningar séu tilbúnar sjö vikum fyrir áætlaðan framleiðsludag, en þar segi að miðað sé við „að teikningar undirritaðar af hönnuði berist að minnsta kosti sjö vikum fyrir upphafsdag framleiðslu, ef ekki áskilur Loftorka sér rétt til þess að endurskoða afhendingaráætlun. Verði breytingar á teikningum eftir þann tíma ber Loftorka í Borgarnesi ekki ábyrgð á seinkun afhendingar sem af því leiðir“. Þetta ákvæði skilmálanna vísi til þeirra teikninga sem getið sé í 7. grein verksamnings aðila, sem gagnstefnanda hafi borið að leggja til svo að gagnstefndi gæti hafið framleiðslu.

        Í 4. grein verksamnings aðila frá mars 2014 miðist upphaf áætlunar um afhendingartíma/verktíma við það að „teikningar séu klára til að hefja einingaframleiðslu“. Sé einnig gerður sérstakur fyrirvari í ákvæðinu um að einingaframleiðsla þurfi að vera þremur vikum á undan reisingu, og því hafi tafir við gerð teikninga bein áhrif á áætlaðan afhendingartíma. Af framangreindu leiði ótvírætt að gagnstefndi beri ekki ábyrgð á þeirri seinkun sem hlotist hafi af því að gerð og frágangur teikninga tafðist. Burðarþolsteikningar hafi ekki verið tilbúnar af hendi aðalhönnuðar fyrr en 26.11.2014, en þá hafi þær verið mótteknar af Reykjavíkurborg í tengslum við byggingarleyfisumsókn. Þær hafi verið áritaðar af byggingarfulltrúa og samþykktar 14.1.2015. Þessar tafir á frágangi teikninga, sem að öllu leyti séu á ábyrgð aðalhönnuðar, hafi raskað afhendingartíma samkvæmt verksamningi. Gagnstefndi beri ekki ábyrgð á þessum töfum.

        Aðalhönnuður og hönnunarstjóri hafi borið ábyrgð gagnvart gagnstefnanda á hönnun eininga fyrir bygginguna. Gagnstefndi hafi tekið að sér tiltekna verkþætti í tengslum við einingahönnun, það er að teikna framleiðsluteikningar fyrir einingaframleiðslu, samkvæmt Loftorku-deilum.  Á því virðist byggt af hálfu gagnstefnanda að gagnstefnda hafi farist þessir verkþættir svo illa úr hendi að allar tafir sem hafi orðið á hönnun byggingarinnar og útgáfu byggingarleyfis megi rekja til gagnstefnda. Þessu sé hafnað. Vert sé að undirstrika að Tryggvi Tryggvason, aðalhönnuður og hönnunarstjóri,  hafi ákveðið að verkstýra og hafa umsjón með gerð einingateikninga. Starfsmaður gagnstefnda hafi gert tillögur, sem hönnunarstjóri hafi yfirfarið til breytinga eða samþykktar. Aðalhönnuður/burðarþolshönnuður hafi lagt afar ríka áherslu á að hann stýrði hönnun eininga og að hönnunin þyrfti að lúta kröfum, sem hann sem burðarþolshönnuður, setti fram. Tölvupóstssamskipti, sem sýna hvaða áherslu aðalhönnuður lagði á fyrirsvar sitt um frágang einingateikninga, séu lögð fram á dskj 84. Ábyrgðin á endanlegum frágangi teikninganna hafi því ótvírætt verið á hendi aðalhönnuðar. 

        Líta beri til þess að einingahönnun sú sem gagnstefndi hafi unnið að sé ekki hluti af hönnunargögnum, sem nauðsynleg eru fyrir byggingarleyfisumsókn. Umfangsmiklum verkþáttum í hönnun byggingarinnar hafi verið ólokið þar til þann 26. nóvember 2014 þegar burðarþolsteikningar hafi verið lagðar inn til byggingarfulltrúa, og þess vegna hafi byggingarleyfi ekki verið gefið út fyrr en 15. janúar 2015. Einingateikningar hafi ekki verið meðal gagna sem þurfti að leggja inn til byggingarfulltrúa til þess að uppfylla skilyrði byggingarleyfisumsóknar. Meintar tafir, eða mistök við einingahönnun, hafi því ekki átt að þurfa að hafa nein áhrif á  framvindu og frágang þeirra gagna sem nauðsynleg hafi verið fyrir byggingarleyfisumsókn. Framangreindar tafir á byggingarleyfi séu því gagnstefnda með öllu óviðkomandi og að öllu leyti á ábyrgð aðal- og burðarþolshönnuðar, sem jafnframt var hönnunarstjóri.

        Verkþáttur sá sem gagnstefndi hafi haft umsjón með hafi aðeins verið óverulegur þáttur í heildarhönnun hússins. Umfang verksins sjáist best af því að greiðslan, sem sé ráðgerð vegna framlags gagnstefnda til einingahönnunar, sé ákveðin 2.000.000 kr. að viðbættum virðisaukaskatti í verksamningi aðila. Í grein 4.7 í gagnstefnu sé að finna umfjöllun, sem virðist eiga að rökstyðja að tafir á burðarþolshönnun og útgáfu byggingarleyfis séu á ábyrgð gagnstefnda. Þar sé sett fram sú kenning að burðarþolshönnun sé ekki hægt að ljúka nema einingateikningum og burðarþolsteikningum sé lokið samhliða, ella sé hætta á að endursenda þurfi gögn til byggingarfulltrúa. Hér sé um að ræða misskilning því burðarþolshönnun sé að sjálfsögðu hægt að ljúka áður en einingahönnun ljúki. Reyndin sé sú að gagnstefndi komi iðulega að verkefnum eftir að burðarþolshönnun sé í meginatriðum lokið. Þá sé venjubundið við umfangsmiklar verkframkvæmdir að ýmsar útfærslur í burðarþolshönnun séu uppfærðar eða breytt eftir að byggingarleyfi hafi verið gefið út. Þá liggi einnig fyrir að í þessu tiltekna verki hafi ekki verið við það miðað að einingahönnun væri lokið samhliða burðarþolshönnun. Fullbúnar burðarþolsteikningar hafi verið sendar til byggingarfulltrúa í lok nóvember 2014, þrátt fyrir að aðeins hluti af einingum fyrir húsið hefðu verið teiknaðar, einkum einingar sem tengdust kjallara enda hafi burðarþolsteikningar vegna hans að verulegu leyti legið fyrir í september 2014. Hönnun eininga hafi átt sér stað samhliða verkframkvæmdum allt fram í apríl 2015.

        Í grein 4.7 í gagnstefnu segi enn fremur að aðalhönnuður og „einingahönnuður“ (sem er ekki lögformlegt hlutverk við hönnun byggingar) þurfi að verða sammála um tilteknar útfærslur vegna burðarþolshönnunar. Hér sé á ferðinni grundvallarmisskilningur á hlutverkum og skyldum þeirra aðila sem hafi unnið að framkvæmdunum. Tryggvi Tryggvason hafi verið aðalhönnuður, burðarþolshönnuður og hönnunarstjóri fyrir bygginguna, og honum borið að taka ákvarðanir um allar útfærslur sem hafi snúið að burðarþolshönnun og því hafi hann ekki þurft að leita eftir samþykki gagnstefnda fyrir tilteknum útfærslum. Skýrist framangreint reyndar best af því dæmi sem gagnstefnandi taki sjálfur í greinargerðinni í lið 4.7 þar sem því er haldið fram að ekki hafi verið hægt að klára burðarþolsteikningar þar sem upplýsingar hafi skorti um hvernig bæri að járna forspennta bita og plötur, en þær upplýsingar hafi ekki legið fyrir fyrr en 8. janúar 2015. Sé látið að því liggja að umrætt atriði hafi tafið útgáfu byggingarleyfis. Virðist hér byggt á tölvupósti frá Magnúsi Rannver Rafnssyni, starfsmanni gagnstefnda, dags. 8. janúar 2015. Framlagt skjal sýni reyndar samskiptin sem fram höfðu farið. Hinn 30. desember 2014 upplýsi Tryggvi Tryggvason að framangreind útfærsla hafi ekki verið ákveðin, engu að síður hafi Tryggvi skilað burðarþolsteikningum til byggingarfulltrúa mánuði áður. Þá sé einnig augljóst af þessu að framangreint atriði hafi engin áhrif haft á það hvenær byggingarleyfi fékkst útgefið. Að endingu sé rétt að benda á að gagnstefndi lagði fram sína útfærslu um þetta atriði 23. júlí 2014, sem Tryggvi Tryggvason burðarþolshönnuður hafði haft undir höndum í marga mánuði þegar hann upplýsti að málið væri óútfært og óákveðið. Það hafi verið rétt hjá Tryggva Tryggvasyni þann 30. desember 2014 að þetta atriði væri óákveðið og óútfært, þrátt fyrir að hann hafi unnið í rúmlega hálft ár að burðarþolshönnun byggingarinnar, hafi auðvitað enginn borið ábyrgð á því annar en burðarþolshönnuðurinn sjálfur nema kannski helst hönnunarstjóri byggingarinnar, en með það hlutverk hafi nefndur Tryggvi einnig farið.

         Í gagnstefnu sé því haldið fram að gagnstefndi hafi ítrekað orðið uppvís að því að gera „mörg og endurtekin mistök við teikningar eininga“, sjá lið 4.8 í gagnstefnu. Því sé haldið fram að þessi mistök hafi valdið gagnstefnanda margvíslegu tjóni og tafið verkferlið. Þessar fullyrðingar séu að mati gagnstefnda vanreifaðar og ósannaðar. Þegar trúverðugleiki þessara fullyrðinga í gagnstefnu sé metinn sé rétt að líta til þess að gagnstefndi er fyrirtæki, sem hefur áratuga reynslu af framleiðslu og hönnun eininga. Af verkefnum síðustu ára mætti nefna bílastæðakjallara Hörpunnar; Brákarhlíð, dvalarheimili í Borgarnesi; fangelsið að Hólmsheiði; HR – Háskólann í Reykjavík; Norðurturninn við Smáralind; Höfðatorg, fyrsta hluta, m.a. háa turninn; hótel að Mývatni, í Borgarnesi og í Stykkishólmi; fiskvinnsluhús á Akureyri, Menntaskóla Borgarfjarðar, Fjölbrautarskóla Snæfellsness og fjölmörg iðnaðarhús ásamt miklum fjölda einbýlis- og fjölbýlishúsa.  OPUS sé hins vegar fámenn teikni- og verkfræðistofa, sem sáralitla eða enga reynslu hafi af slíkum verkefnum af sambærilegri stærðargráðu.

        Vinnulagið, sem hönnunarstjóri hafi kosið að hafa á hönnun byggingarinnar, hafi verið það að hann hafi gert hluta af verkfræðiteikningum fyrir afmarkaða hluta í einu og sent svo þann hluta til gagnstefnda til þess að gagnstefndi gæti gert drög að teikningum fyrir einingar. Að því loknu hafi hönnunarstjóri/aðalhönnuður yfirfarið drög að einingateikningum. Vegna verklagsins sem aðalhönnuður hafi viðhaft, og að líkindum vegna þess hve fámennt fyrirtæki OPUS er og tiltölulega reynslulítið í sambærilegum verkefnum, hafi hönnunarvinna af hendi aðalhönnuðar verið seinleg og óskilvirk.

         Í gagnstefnu sé þess sérstaklega getið að samstarf Opus og verkfræðistofunnar Hnits hafi verið með ágætum og megi skilja að þar hafi gengið betur að hanna einingar en áður, eftir að Hnit hafi tekið við verkefnum gagnstefnda við einingahönnun að kröfu gagnstefnanda. Með greinargerð þessari sé lagt fram flæðirit, sem sýni framvindu einingahönnunar eftir að Hnit hafi tekið við verkefninu. Flæðiritið sýni að Hnit hafi iðulega leyst verkefni sín á skömmum tíma eftir að teikningar bárust frá aðalhönnuði – en úrvinnsla aðalhönnuðar hafi verið verulega tímafrek og sé yfirferð aðalhönnuðar tímafrekasti þáttur ferlisins. Þessi framvinda sé í beinni mótsögn við þær fullyrðingar gagnstefnanda að ágallar í einingahönnun gagnstefnda hafi tafið og íþyngt aðalhönnuði því flöskuhálsinn hafi augljóslega enn legið hjá honum. Því sé augljóst að Tryggvi Tryggvason/OPUS beri alla ábyrgð á því hve verkið hafi tekið langan tíma, þ.e. hönnunarvinnan. Þá verði að líta til þess að Tryggvi Tryggvason hafi verið hönnunarstjóri og tekið ákvörðun um verklag í hönnunarferlinu. Ef hönnun hefði verið í höndum stærra og reynslumeira fyrirtækis hefði verið hægt að vinna samtímis að hönnun fleiri þátta, og að stærri hlutum af byggingunni í einu, og ljúka þannig ferlinu hraðar. Hönnunarferlið hefði þá ekki orðið sá flöskuháls sem raun hafi orðið á. Gagnstefndi geti hvorki borið ábyrgð á því hvernig gagnstefnandi hafi kosið að láta hönnunarvinnuna fara fram né á því verklagi sem hönnunarstjóri hafi viðhaft við hönnunarvinnuna. Hönnunarferlið hafi einkennst af því að gerð teikninga af hendi aðalhönnuðar hafi gengið hægt fyrir sig og það hafi staðið í vegi fyrir skilvirkri framleiðslu einingateikninga. Fullnægjandi upplýsingar frá hönnuði þurfi að liggja fyrir áður en mögulegt sé að gera einingateikningar, þar á meðal snið og deili. Starfsmaður gagnstefnda, Magnús Rannver Rafnsson (MRR), hafi margítrekað áhyggjur sínar vegna þessarar stöðu, þar á meðal í tölvuskeytum og á verkfundum. Hér sé vísað til fundargerðar gagnstefnanda nr. 16, vegna fundar 28. nóvember 2014, liðar 3.7,  þar sem hann lýsi yfir því að ekki sé nóg af arkitektateikningum og sniðum til þess að gera einingateikningar með góðu móti. Í svari aðalhönnuðar komi fram að hann telji að tafirnar, sem leiði af vinnulaginu, séu óverulegar. Sams konar bókun Magnúsar Rannvers komi fram í fundargerð nr. 15, lið 3.7, á fundi þann 20. nóvember 2015. Fulltrúar gagnstefnda hafi áður bókað um þennan skort á teikningum, sniðum og deilum, samkvæmt fundargerð nr. 13 á fundi 7. nóvember 2014 (liður 6.2). Magnús Rannver hafi ítrekað þurft að kalla eftir nauðsynlegum sniðum og deilum frá aðalhönnuði til þess að geta lokið drögum að einingateikningum.Yfirlit Magnúsar Rannvers yfir tölvuskeyti, sem hann sendi á tímabilinu 21.08.214 til 1.3.2015, sé lagt fram með greinargerð. Af yfirlitinu sé ljóst að Magnús hafi í sífellu þurft að fara fram á að aðalhönnuður legði til teikningar, deili og snið, til þess að hægt væri að ljúka einingahönnun. Þar komi einnig skýrt fram að óskum um framangreindar upplýsingar hafi ekki verið sinnt eða Magnúsi svarað með skætingi. Það sé á ábyrgð hönnunarstjóra að tryggja að allir aðilar sem komi að hönnun verks þar sem samvinnu sé krafist hafi fullnægjandi upplýsingar til að vinna sinn verkhluta.  Það sé að mati gagnstefnda ekki boðlegt að hönnuður, sem sér framar í tímaröð með sinn verkþátt, fullyrði að fullnægjandi gögn séu til staðar og láti þar við sitja, þrátt fyrir ítrekaðar óskir um frekari skýringar, gögn og deili. Slík nálgun sé vís leið til að setja allt ferlið í uppnám og í þessu tilviki beri aðalhönnuður/hönnunarstjóri fulla ábyrgð á stöðunni.

        Í gagnstefnu er því haldið fram að verksamningur aðila frá október 2014 hafi falið í sér skuldbindingu af hálfu gagnstefnda um að klára framkvæmdir á 5 mánuðum frá byrjun október 2014, þ.e. að með þeim samningsdrögum hafi gagnstefndi skuldbundið sig til að ljúka verkinu fyrir lok febrúar 2015. Þessi samningstúlkun sé fráleit. Gagnstefnandi vísi ítrekað í óundirrituð samningsdrög frá október 2014. Þessi ókláruðu samningsdrög beri þess merki að samningsaðilar hafi ætlað að endurskilgreina áætlun um afhendingartíma, enda hafi forsendur verið brostnar fyrir fyrri áætlun vegna tafa við hönnun byggingarinnar. Það sé einnig ótvírætt af lestri ákvæðisins í drögunum að ný áætlun hafi á þessum tímapunkti ekki verið fullgerð. Ákvæðið sé einfaldlega óklárað. Þegar unnið hafi verið að uppfærslu samningsdraga í október hafi teikningar að byggingunni ekki verið tilbúnar og í raun hafi verið töluvert langt í land af hálfu aðalhönnuðar. Engar forsendur hafi því verið til þess að festa niður tiltekinn afhendingardag vegna verksins. Þá hafi verið óljóst hvenær jarðvegsvinnu yrði lokið. Ákvæðið í verksamningi aðila frá mars 2014 miðist við að framkvæmdatími sé 6 mánuðir frá því að teikningar séu klárar til þess að hefja einingaframleiðslu. Sömu framsetningu sé að finna í verkáætlun og í samningsdrögum frá ágúst 2014, þ.e. sex mánaða verktími þar sem upphafstímapunktur er lok jarðvegsvinnu. Nauðsynlegar teikningar hafi ekki verið formlega tilbúnar fyrr en 14. janúar 2015, þegar þær voru samþykktar af byggingarfulltrúa, en þær hafi verið lagðar inn 24. nóvember 2014. Gagnstefndi hafi verið búinn að reisa bygginguna og steypa þakplötur þann 22. maí 2015, sem teljist vera innan 6 mánaða frá því að burðarþolsteikningar og ýmsar sérteikningar voru tilbúnar og lagðar inn til byggingarfulltrúa. Með byggingarleyfinu, sem gefið var út þann 15. janúar 2015, hafi fyrst verið forsendur fyrir gagnstefnda að hefja reisingu því takmarkað byggingarleyfi hafi aðeins náð til „uppsteypu á sökklum, botnplötu og lögnum í jörð“. Í verksamningi aðila frá mars 2014, sjá grein 5, hafi verið gert ráð fyrir því að reising tæki rúma 5 mánuði (reising á kjallaraveggjum – uppsteypu lokið). Til samanburðar sé bent á að þakplötur hafi verið steyptar rúmum 4 mánuðum eftir að byggingarleyfi var gefið út en þá fyrst hafi fengist leyfi til þess að reisa veggi byggingarinnar. Samkvæmt framangreindu hafi verktími verið eðlilegur í samræmi við forsendur í samningi aðila frá mars 2014. Þeim forsendum hafi ekki verið breytt með ókláruðum, óundirrituðum samningsdrögum, sem unnið hafi verið að í október 2014. Þetta hafi tekist af hálfu gagnstefnda þrátt fyrir mjög erfiðan vetur til útiframkvæmda, miklar tafir í framleiðslu vegna tafa á hönnun, þar sem burðarþolshönnuður hafi vikið frá hefðbundnum lausnum gagnstefnda, og þrátt fyrir þá staðreynd að vegna járnafrágangs eininga hafi tekið umtalsvert lengri tíma að reisa hverja þeirra en almennt gerist. Á tímabilinu hafi verkföll einnig leitt til nokkurra tafa.

        Ákvæðið í samningsdrögum frá október 2014, sem gagnstefnandi telji fela í sér bindandi verklokadag, sé bersýnilega óklárað. Þar sé ekki heildstæð verkáætlun, upphafspunktur framkvæmda komi ekki fram og verklok séu ekki skilgreind. Einnig sé nokkur ólíkindablær yfir túlkun gagnstefnanda, sem feli í reynd í sér að gagnstefndi hafi skyndilega samþykkt að stytta viðmið um verktíma um einn og hálfan mánuð og falla frá viðmiði um upphafstímapunkt verktímans (þ.e. lok jarðvegsvinnu/teikningar klárar).

        Í gagnstefnu sé að finna ýmsar villur og rangfærslur um framvindu í gerð teikninga og um byggingarleyfi. Í grein 4.3 segi; „Fullunnar aðalteikningar lágu fyrir í júní 2014, burðarþolsteikningar af fyrsta hluta hótelsins, það er að kjallara upp að plötu 1. hæðar, lágu fyrir í júlí 2014 og skilyrt byggingarleyfi til þess að fara upp með sökkla, botnplötu og kjallaraveggi lá fyrir í september 2014.“ Síðan segir í grein 4.6: „Samkvæmt verkáætlun í uppfærðum verksamningsdrögum skyldi reising 1. hæðar hefjast eigi síðar en í 3. viku í nóvember 2014. Þrátt fyrir að öll skilyrði hafi verið til staðar að hefja verkið í samræmi við áætlun hófst reising 1. hæðar ekki fyrr en í lok janúar 2015 eða tæpum tveimur mánuðum á eftir áætlun.“  Í tilvitnuðum málsgreinum úr gagnstefnu virðist á því byggt að gagnstefnda hafi verið kleift að hefja reisingu veggja í nóvember 2014. Hér sé litið fram hjá því að burðarþolsteikningar voru ekki fullunnar fyrr en í lok nóvember og byggingarleyfi hafi ekki legið fyrir fyrr en 15. janúar 2015. Takmarkað byggingarleyfi hafi ekki heimilað reisingu kjallaraveggja og ekki reisingu 1. hæðar. Framangreindar fullyrðingar og forsendur fyrir kröfugerð í gagnstefnu séu því beinlínis rangar. Þá hafi jarðvinnu undir botnplötu, sem verkkaupi bar ábyrgð á, ekki lokið fyrr en í ársbyrjun 2015.

        Í gagnstefnu sé mjög byggt á gildi ókláraðra samningsdraga, sem til umræðu hafi verið milli aðilanna í byrjun október 2014. Gagnstefnandi geti hins vegar í engu ákvæðis, sem þar er að finna, sem segi: „Vegna kostnaðarauka verktaka í tengslum við tafir á framkvæmdum greiðir verkkaupi bætur upp á x.ooo að viðbættum vsk.  Málatilbúnaður gagnstefnanda sé allur í andstöðu við framangreinda yfirlýsingu, sem feli í sér að gagnstefnandi viðurkenni ábyrgð sína á töfunum sem orðið höfðu.

        Gagnstefnandi hafi samþykkt og undirritað kauptilboð Hvanna ehf. um sölu hótelbyggingarinnar við Hverfisgötu 103 þann 9. apríl 2013. Þar hafi verið kveðið á um að fasteignin skyldi afhent fullbúin þann 15.5.2015. Afhendingardegi hafi síðan verið frestað um hálfan mánuð og ákveðinn 1. júní 2015 í kaupsamningi milli gagnstefnanda og Hvanna ehf., dags 21. janúar 2015. Í kaupsamningnum sé gert ráð fyrir tafabótum ef ekki tækist að afhenda hótelið á tilskildum tíma, en slíkt ákvæði virðist ekki vera fyrir hendi í kauptilboði.

        Meginástæða þess að gagnstefnanda hafi ekki verið kleift að afhenda hótelið á tilsettum tíma samkvæmt upphaflegu kauptilboði sé ekki sú að verkframkvæmdir hafi tekið umtalsvert meiri tíma en gagnstefnandi hefði mátt ætla. Meginástæðan liggi í því að byggingarleyfi hafi ekki fyrir legið fyrir fyrr en 4 og hálfum mánuði fyrir umsaminn afhendingardag. Þegar gagnstefnandi hafi undirritað kaupsamninginn í janúar 2015 hafi honum hlotið að vera ljóst að það væri óraunhæft – svo ekki sé dýpra tekið í árinni, að reisa 4 hæða hótel af grunni og fullbúa til afhendingar á rúmum 4 mánuðum. Gagnstefnandi hafi komið sér sjálfur í þessa þröngu stöðu, fyrst og fremst vegna vandkvæða sem hafi tengst skipulagsmálum og frágangi hönnunargagna af hendi aðalhönnuðar-, burðarþols- og hönnunarstjóra verksins.

       Af framangreindum ástæðum sé ljóst að ekki verði felld ábyrgð á gagnstefnda með vísan til ákvæðis 5.2.3. í ÍST 30 staðli. Samningsaðilum hafi verið fyllilega ljóst að forsendur væru brostnar fyrir tímasettri áætlun í verksamningi aðila og forsendur hafi brostið vegna atvika sem gagnstefnandi hafi borið ábyrgð á. Ný dagsetning fyrir verklok hafi ekki verið ákveðin í drögum að verksamningi aðila í október, ákvæðið hafi verið óklárað, enda hafi þá ekki verið forsendur til að uppfæra bindandi verkáætlun. Verkframvinda hafi að auki margsinnis verið rædd á milli aðila og verið uppfærð miðað við stöðu á hverjum tíma. Engin þörf hafi verið á tilkynningu til gagnstefnanda um atriði sem honum hafi verið r fullkunnugt um.

          Þá er einnig vísað til þess að ákvæði verksamnings aðila, þ.e. grein 3.11 í skilmálum, hafi falið í sér sérstakan fyrirvara um að ekki myndi standa á teikningum, og sé sérstaklega tilgreint að gagnstefndi beri ekki ábyrgð á seinkun afhendingar, sem leiði af því að teikningar, undirritaðar af hönnuði, berist seinna en 7 vikum fyrir upphafsdag framleiðslu.

         Í gagnstefnu er á því byggt að einingahönnun gagnstefnda hafi ekki „uppfyllt kröfur sem gera verður til teikninga af þessu tagi og lagði gagnstefnandi út í töluverðan kostnað við að lagfæra teikningar“. Á því sé byggt að tjón sé tilkomið vegna vinnu aðalhönnuðar vegna ýmissa athugasemda, leiðréttinga, meintra mistaka gagnstefnda og fleiri tilgreindra atriða. Engin sönnunargögn séu færð fram til staðfestingar framangreindum atriðum. Vakin sé athygli á því að gagnstefnandi hafi ekki uppfyllt almenna skyldu til að gera viðvart um meinta galla og áskilja sér rétt til bóta, innan hæfilegs tíma eftir að hann varð þeirra var, eins og gera verði kröfu um. Þá hafi hann engan reka gert að því að láta meta meint tjón sitt. Einhliða tilgreining á meintum viðbótarkostnaði aðalhönnuðar teljist ekki fullnægjandi sönnun um tjón.

        Í ÍST 30-staðlinum (sjá kafla 4.5, Ábyrgð á verki) sé gert ráð fyrir því að komi fram galli á verki skuli gera verktaka viðvart um gallann og skuli hann bæta úr honum. Engin slík tilkynning hafi borist gagnstefnda, sem gagnstefndi leysti ekki úr innan hæfilegs tíma. Gagnstefnandi hafi því ekki getað ákveðið upp á sitt eindæmi að lagfæra meinta galla á kostnað gagnstefnanda, án þess að gefa honum kost á því að gera úrbætur. Jafnvel þótt meintir gallar hefðu verið fyrir hendi í samræmi við málatilbúnað gagnstefnanda hefði gagnstefnandi þurft að gefa gagnstefnda kost á því að bæta úr hinum meintu göllum. Það hafi gagnstefnandi í öllu falli vanrækt, hvað sem líði réttmæti ásakana um galla, og geti því ekki krafist bóta nú. Framangreind regla ÍST 30 gildi raunar almennt í verktakarétti, þ.e. verktaki eigi almennt heimtingu á því að bæta úr ágalla sem reynist vera á verki hans.

       Í gagnstefnu, lið 4.31, setji gagnstefnandi fram sjónarmið er varði meintan kostnað gagnstefnanda vegna vinnu aðalhönnuðar, sem leiddi af framangreindum atvikum. Ekki sé óeðlilegt að teikningar þurfi að fara á milli aðila sem koma að hönnun í jafn viðamiklu verkefni, það sé verklag, sem allir sem koma að vinnu sem þessari þekkja. Vandkvæðin í ferlinu hafi fyrst og fremst stafað af vinnulagi aðalhönnuðar/burðarþolshönnuðar, og einnig af tregðu hans til að taka tillit til athugasemda, sem hafi komið frá reynslumiklum sérfræðingum gagnstefnda í einingaframleiðslu, og hafi kostað mikla viðbótarvinnu fyrir gagnstefnda. Starfsmanni gagnstefnda hafi ekki verið kleift að útfæra glugga og hurðir og ýmis úrtök og göt í ýmsum tilvikum þar sem vinnuteikningum aðalhönnuðar hafi verið mjög ábótavant. Nauðsynleg deili og snið hafi skort og ekki verið bætt úr þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar þar um af hendi starfsmanns gagnstefnda. Til þess að starfsmaður gagnstefnda gæti haldið áfram verki sínu við hönnun eininga hafi það orðið niðurstaða á milli aðila að aðalhönnuður/burðarþolshönnuður skyldi teikna glugga og hurðir og ýmis úrtök og göt sjálfur inn á einingateikningar og hann hafi hannað bitateikningar yfir súlu á SA-hlið 1. hæðar í stað þess að útvega starfsmanni gagnstefnda nauðsynleg snið og deili. Ekki komi til álita að gagnstefndi beri kostnað af þessu vinnulagi, sem aðalhönnuður hafi viðhaft.

        Í flóknu hönnunarferli verði að gera ráð fyrir að ýmsar misfellur komi í ljósi á fyrstu drögum teikninga, sem bæta þurfi úr og leiðrétta, m.a. til þess að tryggja samræmi. Slík atvik teljist ekki til saknæmrar háttsemi sem geti lagt grundvöll að bótakröfu nema eitthvað sérstakt komi til.  Raunar sé beinlínis hlutverk hönnunarstjóra að gæta að samræmingu og gera athugasemdir við atriði sem þarfnist lagfæringar. Komi slík atvik í ljós leggi þau ekki grundvöll að bótaskyldu nema annmarkar séu viðamiklir og alvarlegir, þ.e. ekki nema uppfyllt séu hin almennu skilyrði bótaábyrgðar að lögum. Ekki hafi verið færðar sönnur fyrir því að slík atvik hafi verið fyrir hendi í þessu tilviki af hálfu gagnstefnda, og raunar engin rök að því leidd að í teikningum sem starfmenn gagnstefnda hafi lagt drög að hafi falist villur sem leitt hafi til tjóns. Því sé hafnað að atriði, sem nefnt er í d-lið greinar 4.31 hafi verið skaðabótaskylt atvik.

        Gagnstefnandi geri kröfu um að gagnstefndi bæti kostnað sem gagnstefnandi hafi orðið fyrir vegna þess að gagnstefndi hafi ekki brugðist við áskorun um að fjarlægja byggingarkrana af verkstað í byrjun júní 2015. Þegar krafa gagnstefnanda hafi verið sett fram hafi gagnstefnandi ekki lýst yfir riftun samningsins. Á meðan verksamningur aðila hafi verið í gildi hafi gagnstefndi haft rétt til þess að hafa óhindraðan aðgang að byggingarlóðinni, og hafa þar til reiðu þau tæki og tól sem nauðsynleg hafi verið til þess að ljúka verkinu. Gagnstefnandi hafi ekki getað krafið gagnstefnda um að fjarlægja þessi tól og tæki nema bera af því þann viðbótarkostnað sem af því hlytist. Á meðan verksamningi aðila hafði ekki verið rift hafi því verið eðlilegt að kostnaðurinn af því að fjarlægja byggingarkranann félli á gagnstefnanda. Hér sé enn fremur byggt á því að verkstöðvun gagnstefnda hafi verið fyllilega lögmæt vegna verulegra vanefnda gagnstefnanda. Fyrir hendi hafi verið verulegar vanefndir á útgefnum reikningum, en ógreiddir hafi m.a. verið eftirfarandi reikningar:

        Reikningur nr. 9713, eindagi 13.11.2014, fjárhæð kr. 741.703

        Reikningur nr. 10152, eindagi 9.3.2015, fjárhæð kr. 1.591.974

        Reikningur nr. 10384, eindagi 21.5.2015, fjárhæð kr. 13.554.479

           Útgefnir reikninga, sem komnir hafi verið á gjalddaga hafi verið yfir 40 milljónir króna, sjá greiðsluflæði á dskj. 28, viðauki I. Gagnstefnandi hafi þá með afdráttarlausum hætti lýst því yfir gagnvart gagnstefnda að hann hygðist ekki greiða útgefna reikninga og ekki frekari verklaun vegna verksins. Þessa afstöðu hafi gagnstefnandi ítrekað í skriflegri yfirlýsingu sem hafi verið gefin út sama dag og verkstöðvun gagnstefnda hófst. Lagaskilyrði hafi bersýnilega ekki verið uppfyllt fyrir skuldajöfnuði í þessari yfirlýsingu þannig að gagnstefnandi hafi ekki getað verið í góðri trú um að umræddir reikningar hefð verið greiddir með yfirlýsingunni. Í ljósi meginreglna kröfuréttar um efndir gagnkvæmra samninga hafi gagnstefnda verið rétt að stöðva verkið tímabundið þar til réttar greiðslur hefðu borist og við það hafi ekki fallið niður réttur gagnstefnda til þess að ljúka verkinu.

           Af framangreindu leiði einnig að kostnaður, og hugsanlegar tafir á verkframkvæmdum sem af hinni lögmætu verkstöðvun leiði séu á ábyrgð gagnstefnanda.

          Gagnstefnandi geri kröfur um að gagnstefndi bæti sér tjón sem hann hafi orðið fyrir vegna þess að hann hafi þurft að greiða Hvönnum ehf., kaupanda hótelsins, tafabætur vegna skiladráttar. Að framan hafi verið rakið að skilyrði bótaábyrgðar séu ekki fyrir hendi, þar sem gagnstefndi hafi ekki brotið gegn samningsskuldbindingu og tafir við verkframkvæmdir eigi fyrst og fremst rætur að rekja til atvika sem gagnstefnandi beri ábyrgð á.

        Í ljósi framlagðra gagna virðist mega álykta að gagnstefnandi hafi fyrst fallist á að greiða tafabætur í janúar 2015, þegar gagnstefnanda hafi mátt vera ljóst að líkur væru til þess að afhending byggingarinnar myndi dragast fram yfir 1. júní 2015. Tjón gagnstefnanda vegna tafabóta virðist því fyrst og fremst eiga rætur að rekja til mistaka gagnstefnanda sjálfs við  samningsgerð í janúar 2015. Þá virðist hann ekki hafa gert tilraunir til þess að takmarka tjón sitt með því að krefjast lengri frests til afhendingar í ljósi aðstæðna. Gagnstefndi geti ekki borið ábyrgð á þessum mistökum og sinnuleysi gagnstefnanda um að takmarka tjón sitt.

        Meint tjón gagnstefnanda sé að fjárhæð 55.662.500 kr. samkvæmt gagnstefnu, sem telja verði verulega þungbært. Fjárhæðin er um 4% af söluverði fasteignarinnar og sé augljóslega langt umfram raunverulegt tjón samningsaðila gagnstefnanda. Stefnandi hafi ekki getað séð fyrir að tjón gagnstefnda yrði svo verulegt, og sé tjónið því, meðal annars af þeim sökum, ekki sennileg afleiðing af meintum skiladrætti. 

        Engin gögn liggi fyrir um að gagnstefnandi hafi í reynd orðið fyrir því tjóni sem haldið sé fram, með lækkun kaupverðs að framangreindri fjárhæð. Engin gögn styðji heldur við kröfu gagnstefnanda um tjón vegna vaxtagjalda frá 1. júní til 1. september. Ósannað sé hvaða lán hafi hvílt á gagnstefnanda og hvaða vaxtakjör. Krafa um kostnað vegna vinnu aðalhönnuðar styðjist ekki við fullnægjandi rökstuðning og tjónið sé ósannað. Gagnstefndi mótmæli því að grundvöllur sé fyrir skuldajafnaðaryfirlýsingu gagnstefnanda. Ástæðan sé fyrst og fremst sú að yfirlýsing gagnstefnanda styðjist ekki við lögmætar kröfur. Krafa gagnstefnanda sé ekki gild krafa.

        Kröfugerð í gagnstefnu virðist miðast við að skuldajöfnuður hafi farið fram með yfirlýsingu gagnstefnanda þann 28. maí 2015. (Þetta sé þó óljóst og málatilbúnaður gagnstefnanda vanreifaður að þessu leyti). Efndatími meintrar skaðabótakröfu hafi bersýnilega ekki verið upprunninn þá og hafi kröfurnar þá, hvað sem líði gildi gagnkröfu gagnstefanda, ekki verið hæfar til að mætast. Þá hafi gagnkrafa gagnstefnanda ekki verið skýr og ótvíræð á þessum tíma. Skuldajafnaðaryfirlýsingin sé því þýðingarlaus. Framangreint leiði jafnframt til þess að taka verði tillit til dráttarvaxta af kröfu stefnanda verði talið að kröfurnar séu hæfar til þess að mætast á einhverjum síðari tímapunkti.

           Þá miðist umfjöllun um skuldajöfnuð við að kröfur gagnstefnda í aðalsök séu að verulegu leyti ógildar. Þessari forsendu sé mótmælt. Ekkert hafi komið fram í málinu sem hnekki lögmætum reikningum gagnstefnda vegna þeirra umfangsmiklu verkframkvæmda, sem til umfjöllunar séu í máli þessu. Leiði framangreint jafnframt til þess, jafnvel þótt svo ólíklega færi að dómurinn viðurkenndi einhverjar gagnkröfur sem teljist hæfar til skuldajafnaðar á móti kröfum í aðalsök, að aðalkrafa gagnstefnda sé umtalsvert hærri en gagnkröfur gagnstefnanda og muni því aldrei geta komið til fjárgreiðslu til gagnstefnanda af hendi gagnstefnda vegna málsins.

        Í tilefni af mótbárum gagnstefnanda í gagnstefnu og greinargerð, vegna lögmætra og sanngjarnra reikninga gagnstefnanda, leggi gagnstefndi fram viðauka við aðilaskýrslu sína á dskj. 88.

        Gagnstefndi vísi til meginreglna í kröfu- og samningarétti og verktakarétti. Þar á meðal sér vísað til reglna sem gildi um úrræði samningsaðila í tilefni af vanefndum gagnaðila í gagnkvæmu samningssambandi. Gagnstefndi byggi á lögum um mannvirki nr. 160/2010, og byggingarreglugerð nr. 112/2012, þar á meðal kafla 4.1 sem fjallar um ábyrgð hönnuða og hönnunarstjóra.

       Málskostnaðarkrafa gagnstefnda styðjist við ákvæði XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, einkum 1. mgr. 130. gr. laganna.

 

VIII.

Niðurstaða

        Undir rekstri málsins var af hálfu stefnda Ásmundur Magnússon tæknifræðingur dómkvaddur til að svara tilteknum matsspurningum og skilaði hann matsgerð dags. 27. september 2016. Þá var hann dómkvaddur vegna viðbótarmatsbeiðnar og skilaði hann viðbótarmatsgerð, dags. í maí 2017.

 

        Matsmaður staðfesti matsgerðir sínar við aðalmeðferð og verður vikið að þeim eftir því sem þurfa þykir við úrlausn málsins.

        Við aðalmeðferð gáfu einnig fyrirsvarsmenn aðila skýrslur og starfsmenn aðila auk fyrirsvarsmanns Hvanna ehf. Vísað verður til framburðar þeirra eftir því sem þurfa þykir.

        Ágreiningur aðila í aðalsökinni snýst því einkum um hvort að stefnandi eigi rétt á greiðslu að fjárhæð 68.465.202,- kr. vegna verkþátta, sem stefndi hefur mótmælt.

        Samkvæmt stefnu í aðalsök gerir stefnandi tvenns konar kröfur á hendur stefnda, annars vegar kröfu um greiðslu reikninga vegna ýmissa viðbótarverka, samtals að fjárhæð 68.709.852,- kr., og hins vegar kröfu um greiðslu framvindureikninga samtals að fjárhæð 25.636.793,- kr. Samtals nemur krafa stefnanda kr. 94.346.645 í aðalsök.

        Stefndi í aðalsök mótmælir ekki fjárhæðum reikninga nr. 3, 5, 6 og 7  í stefnu, þ.e. framvindureikningum 20, 24, 25 og 26, þá gerir stefndi í aðalsök ekki ágreining um kröfu samkvæmt reikningi nr. 11 að fjárhæð 244.650,- kr. vegna heitrar steypu. Stefndi í aðalsök gerir því ekki ágreining um kröfur stefnanda í aðalsök samtals að fjárhæð 25.881.443 kr., en byggir á því að hann eigi rétt á skuldajöfnuði við kröfur í gagnsök.

         Verður nú vikið að reikningum vegna viðbótarverka sem mótmælt er af hálfu stefnda í aðalsök. Varðandi reikning nr. 1, að fjárhæð 741.703 kr., gerir stefndi ekki efnislegar athugasemdir við reikninginn en hafnar upphafstíma dráttarvaxta 13. nóvember 2014 en telur að reikningurinn geti fyrst borið dráttarvexti frá 12. desember 2014. Því er ekki mótmælt af hálfu stefnanda og fallist kröfu stefnda um upphafstíma dráttarvaxta.

        Reikningur nr. 2, afnot af krana og laun kranamanns að fjárhæð 1.591.974. Stefndi fellst eingöngu á að greiða laun kranamanns að fjárhæð 266.400 kr. en mótmælir kröfunni að öðru leyti. Með vísan til niðurstöðu matsmanns er hæfilegt tímagjald fyrir kranann 8.500 kr. á klst. en tímafjölda á reikningi hefur ekki verið mótmælt en hann er 57 tímar. Fallist er á kröfu vegna kranaleigu að fjárhæð 484.500 kr. Samtals er því fallist á kröfu að fjárhæð 750.900 kr. að viðbættum virðisaukaskatti, samtals 931.116 kr.

        Reikningar nr. 4 að fjárhæð 13.554.479 kr. og reikningur nr. 8 að fjárhæð 5.837.020 kr., vegna magnbreytinga á járni. Matsgerðir eru mjög óljósar um hvaða járnamagn sé eðlilegt að miða við í tilboðsgerð sem þessari og svara ekki hvaða járnamagn stefnandi hefði mátt gera ráð fyrir við tilboðsgerðina. Endanlegt járnamagn ræðst af burðarvirkishönnun sem var á ábyrgð verkkaupa, stefnda. Stefnda hefur ekki tekist að sýna fram á að reikningar vegna magnaukningar í járni séu bersýnilega ósanngjarnir eða rangir varðandi magn. Verður því fallist á kröfur stefnanda.

        Reikningur nr. 9, galvanhúðun á mottum og stöngum að fjárhæð 747.477 kr. Í ljósi þess að ekki er minnst á galvanhúðun í samningi aðila en um er að ræða kröfu sem fram kemur í endanlegum hönnunargögnum og ekki hægt að gera ráð fyrir því að stefnandi hafi reiknað með því í tilboði sínu. Hér er tekið undir með stefnanda að um aukaverk sé að ræða og því fallist á kröfu hans.

        Reikningur nr. 10 að fjárhæð 1.694.461 kr., hækkaðar kröfur í steypuflokki platna. Krafan kemur til af því að burðarþolshönnuður fyrirskrifar sterkari steypu í endanlegum hönnunargögnum vegna niðurbeygjukröfu. Í matsgerð kemur fram að þetta hafi verið óþarfi og er því um aukaverk að ræða sem stefndi ber ábyrgð á er því fallist á kröfu stefnanda.

         Reikningur nr. 12 að fjárhæð 5.633.118 kr., vinna við glugga, girði, kítti og dropraufar. Ekki er fallist á kröfu stefnanda varðandi aukaverk við glugga nema hvað varðar kíttun þar sem það er sérstaklega undanskilið í samningsskilmálum stefnanda. Er því fallist á kröfu að upphæð 1.450.400 kr. auk vsk. eða samtals 1.798.496 kr. Önnur meint aukaverk vegna gluggaísetningar eru að mati dómsins eðlilegir verkþættir vegna gluggaísetningar sem um hafði verið samið.

         Reikningur nr. 13 að fjárhæð 275.770 kr., plasteinangrun sem ónýttist vegna breytinga á hönnun. Stefnandi hefur ekki orðið við áskorun stefnda að sýna fram á að ekki hafi verið hægt að nýta eingangrunina í aðra verkþætti. Þá hefði stefnanda verið í lófa lagið að fjarlægja einangrunina af byggingarsvæðinu fyrst ekki átti að nýta hana í verkinu. Kröfu stefnanda um greiðslu þessa reiknings er því hafnað.

         Reikningur nr. 14 að fjárhæð kr. 4.161.104 kr., helgar- og næturvinna á verkstað að ósk verkkaupa. Krafan kemur fyrst fram við útgáfu reiknings þann 9. júní 2015. Ekki verður séð af fyrirliggjandi gögnum í málinu að stefnda hafi verið gert viðvart þegar þessi meinti viðbótarkostnaður féll til. Krafa stefnanda er að mati dómsins vanreifuð og of seint fram komin. Ekki verður því fallist á að stefnda  beri að greiða þessa kröfu.

         Reikningur nr. 15 að fjárhæð 1.562.683 kr., kostnaður við krana vegna tafa á framkvæmdum. Ekki liggur fyrir að stefnandi hafi krafist framlengingar á verktímanum og getur því ekki krafist greiðslu kostnaðar sem hann telur sig hafa orðið fyrir vegna lengri verktíma. Þessum reikningi er því hafnað.

        Reikningur nr. 16 að fjárhæð 1.563.683 kr., kostnaður við aðkeyptan krana vegna stærðar á einingum. Ekki liggur fyrir að stefnandi hafi orðið við áskorun stefnda um að leggja fram reikning fyrir kostnaði vegna aðkeyptrar kranaþjónustu fyrir stærri einingar. Stefnandi gerði fyrirvara vegna hífingar þyngri eininga. Ljóst má vera að stefnandi hefur orðið fyrir aukakostnaði vegna hífingar á þyngri einingum. Krafan er ósundurliðuð og metur dómurinn hæfilegan kostnað vegna þessa að álitum 800.000 kr.

        Reikningur nr. 17 að fjárhæð 983.000 kr., loftræstitúður, staðsetning og formun í einingar. Fallist er á niðurstöðu dómkvadds matsmann um að þetta sé hefðbundin og viðurkennd framkvæmd og eigi ekki að vera grundvöllur aukakostnaðar. Þessari kröfu er því hafnað.

        Reikningur nr. 18 að fjárhæð 742.840 kr., mótun fyrir niðurfallsraufar á einingaendum. Breyting á útfærslu niðurfallsraufa á einingaendum er lögð til af hálfu stefnanda og samþykkt af stefnda. Engar fjárkröfur voru gerðar af hálfu stefnanda þegar þessi útfærsla var samþykkt. Þessari kröfu er því hafnað.

        Reikningur nr. 19 að fjárhæð 787.500 kr., þykking á einingum 3. og 4. hæðar. Þessi útfærsla, sem tók til þessara breytinga, var lögð til af stefnanda og samþykkt af stefnda þar sem hún myndi draga úr kostnaði við framkvæmdina. Krafan er síðan fyrst sett fram 9. júní 2015 með reikningi, vanreifuð og of seint fram komin.

        Reikningur nr. 20 að fjárhæð 4.576.000 kr., módelsmíðaðar súlur og bitar á 1. hæð. Í matsgerð dómkvadds matsmann segir eingöngu að sjá hafi mátt súlur og bita á aðaluppdráttum 13. júní 2014 og 1. september 2014. Engar kröfu voru settar fram á verktímanum þegar meintar breytingar hafi verið gerðar á súlum og bitum. Krafa kemur fyrst fram 9. júní 2015, vanreifuð og of seint fram komin. Henni er því hafnað.

        Reikningur nr. 21 að fjárhæð 10.544.783 kr., vetrarálag á verkstað. Stefnandi gerði fyrirvara í fundargerð 9. janúar 2015 og áskildi sér rétt til bóta vegna aukakostnaðar vegna vetrarvinnu á verkstað. Krafan er að mati dómsins illa rökstudd og kemur ekki fram fyrr en með reikningi 9. júní 2015. Að mati dómsins er krafan réttmæt að hluta, en stefnandi gat ekki gert ráð fyrir að svo stór hluti verksins sem raunin varð yrði unnin að vetri. Telur dómurinn því rétt að meta kostnað vegna vetrarvinnu að álitum og telur 5.000.000 kr. hæfilega upphæð.

        Reikningur nr. 22 að fjárhæð 13.467.922 kr., aukakostnaður við teikningaframleiðslu. Í samningi aðila er kveðið á um að stefnandi skuli framleiða einingateikningar. Á verktímanum var aldrei gerður fyrirvari né krafa vegna meintrar aukavinnu við einingateikningar. Krafan er fyrst sett fram með reikningi, dags. 9. júní 2015, krafan vanreifuð, órökstudd og of seint fram komin. Henni er því hafnað.

          Í gagnsök gerir gagnstefnandi kröfu um greiddar tafabætur að fjárhæð 55.662.500 kr., en þessa fjárhæð hafi hann orðið að greiða vegna afhendingardráttar á fasteigninni Hverfisgata 103. Gagnstefnandi skrifaði undir kaupsamning á framangreindri eign 21. janúar 2015 og miðaðist afhending eignarinnar við 1. júní 2015. Þá átti eignin að vera fullbúið 100 herbergja hótel. Við samningsgerðina í janúar 2015 mátti gagnstefnanda vera ljóst að afhending 1. júní 2015 væri algjörlega óraunhæf miðað við stöðu framkvæmda en ákvæði um verktíma sem fram koma í 5. grein verksamnings aðila. Innanhússfrágangur var allur á vegum gagnstefnanda en honum gat ekki lokið fyrr en nokkru eftir að gagnstefndi hafði lokið sínum verkþáttum. Stór hluti þeirra tafa, sem urðu á framkvæmdum, eru tilkomnar vegna atriða, sem voru á ábyrgð gagnstefnanda, svo sem að útvega byggingarleyfi og tilskylda hönnun. Dómkvaddur matsmaður telur að framkvæmdir hafi getað hafist þegar aðal- og séruppdrættir lágu fyrir, 22. ágúst 2014 og hægt að hefja vinnu við undirstöður á grundvelli takmarkaðs byggingarleyfis 3. september 2014. Þá hafi jarðvinnu að vísu þurft að vera lokið. Reising eininga fyrir ofan kjallara gat ekki hafist fyrr en við útgáfu byggingarleyfis, sem var þann 15. janúar 2015. Sex dögum síðar gerði gagnstefnandi áður nefndan kaupsamning um eignina, þar sem fram kom að afhending heildareignarinnar, fullbúið 100 herbergja hótel ásamt öllu sem fylgir og fylgja ber, skyldi vera 1. júní 2015. Við gerð þessa samnings mátti stefnda því vera fullljóst að staða verksins var ekki í samræmi við upphaflega verkáætlun aðila í verksamningi. Í verksamningi aðila var ekki samið sérstaklega um tafabætur en vísað til ÍST30, en þar segir að tafabætur skulu áætlaðar miðað við hugsanlegt tjón, sem verkkaupi verður fyrir ef verktaki skilar ekki verki sínu á réttum tíma. Tafabætur reiknast fyrir hvern almanaksdag, sem dregst að afhenda umsamið verk. Ef ákvæði er í verksamningi um tafabætur þarf verkkaupi ekki að sanna tjón sitt, sbr. grein 24.511 í fjórðu útgáfu ÍST30:1997. Gagnstefnandi ber því sönnunarbyrði fyrir því tjóni sem hann telur sig hafa orðið fyrir. Í verksamningi aðila er gert ráð fyrir að reising 1. hæðar hefjist 26. maí 2014 og að uppsteypu ljúki 30. september 2014, eða rúmlega 4 mánuðum síðar. Byggingaleyfi var gefið út 15. janúar 2015 og lauk uppsteypu í lok maí 2015 eða um 4,5 mánuðum síðar. Samningur aðila gerir ráð fyrir að reising hússins fari fram yfir sumarmánuði en reyndin var sú að reisingin fór fram seinni part vetrar og fram á vor. Telur dómurinn að raunverktíminn hafi verið í fullu samræmi við verkáætlun, sem birtist í 5. grein verksamnings að teknu tilliti til vetrarvinnu í stað sumarvinnu.

        Þær tafabætur, sem gagnstefnandi skuldbatt sig til að greiða kaupanda skv. kaupsamningi, geta því ekki verið á ábyrgð gagnstefnda og ber því að sýkna gagnstefnda af þessari kröfu.

        Að fenginni þessari niðurstöðu leiðir að krafa gagnstefnanda um vaxtagjöld af fjármögnun að fjárhæð 21.359.722 kr. verður ekki tekin til greina.

        Krafa gagnstefnanda vegna vinnu við einingateikningar að fjárhæð 4.408.000 kr. byggir á vinnu aðalhönnuðar við gerð einingateikninga sem gagnstefnandi telur vera á ábyrgð gagnstefnda. Dómurinn telur að ekkert hafi komið fram í málinu sem styður þá kröfu gangstefnanda að hann hafi orðið fyrir auknum kostnaði vegna vinnu aðalhönnuðar við einingateikningar sem eru á ábyrgð gagnstefnda. Gagnstefnandi hafði fullt forræði á hönnun byggingarinnar, þ.m.t. burðarvirkishönnun en í samningi aðila er gert ráð fyrir að eingöngu framleiðsluteikningar sé á hendi gagnstefnda. Þessari kröfu er því hafnað.

        Krafa gagnstefnanda vegna vinnu við niðurtekt byggingarkrana í eigu gagnstefnda að fjárhæð 2.388.861 kr. byggir á reikningi frá DS Lausnum.  Dómurinn telur að gagnstefnandi hafi verið í fullum rétti til þess að láta taka niður kranann á kostnað gagnstefnda til þess að komast hjá óþarfa töfum á verkinu.  Gagnstefndi hefur ekki sýnt fram á að reikningurinn sé bersýnilega ósanngjarn og brást ekki við áskorunum gagnstefnanda um að fjarlægja kranann. Er því fallist á þessa kröfu.

        Samkvæmt því sem rakið hefur verið er fallist á kröfur aðalstefnanda samtals að fjárhæð 56.986.195 kr. Í gagnsök er fallist á kröfu gagnstefnanda að fjárhæð 2.388.861 kr.

         Niðurstaða dómsins, bæði í aðalsök og gagnsök, er sú að til frádráttar kröfum aðalstefnda í aðalsök til skuldajafnar komi framangreind fjárhæð kröfu gagnstefnanda í gagnsök þannig að aðalstefndi  greiði aðalstefnanda 56.986.195 kr. með dráttarvöxtum eins og greinir í dómsorði, af 741.703 kr. með dráttarvöxtum frá 12. desember 2014 4. apríl 2014, af 1.672.819 kr. frá þeim degi til 15. maí 2015, af kr. 1.678.869 frá þeim degi til 7. jún2015, af 15.233.348 kr. frá þeim degi til 13. júní 2015, af 30.568.188 kr. til 20. júní 2015, af 36.600.257 frá þeim degi til 27. júní 2015, af 40.864.091 kr. frá þeim degi til 9. júlí 2015, af 56.986.195 kr. frá þeim degi til greiðsludags. Til frádráttar komi 2.388.861 kr. miðað við 7. ágúst 2015, það er mánuði eftir útgáfu reiknings gagnstefnanda.

        Stefnandi krefst í aðalsök staðfestingar á kyrrsetningargerð þeirri, sem Sýslumaðurinn í Reykjavík gerði þann 27. júlí 2015.

       Samkvæmt 5. gr. laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl. má kyrrsetja eignir skuldara til tryggingar fullnustu lögvarinnar kröfu um greiðslu peninga ef henni verður ekki þegar fullnægt með aðför og sennilegt má telja, ef kyrrsetning fer ekki fram, að draga muni mjög úr líkindum til að fullnusta hennar takist eða að fullnusta verði verulega örðugri.
Það er ekki skilyrði kyrrsetningar að gerðarbeiðandi leiði sönnur að réttmæti kröfu sinnar, en synja skal um kyrrsetningu ef ætla verður af fyrirliggjandi gögnum að hann eigi ekki þau réttindi sem hann hyggst tryggja.

        Eins og rakið hefur verið gerðu aðalstefnandi og aðalstefndi með sér verksamning í mars 2014 þar sem aðalstefnandi tók að sér að framleiða og reisa forsteyptar einingar í hótelbyggingu á auk bílastæðakjallara að Hverfisgötu 103 í Reykjavík. Verksamningurinn gerði ráð fyrir að aðalstefndi greiddi 228.226.829 kr. fyrir verkið eftir framvindu þess. Tafir urðu á verkinu og greindi aðila á um ástæður þeirra. Þegar aðalstefnandi hafi lokið við ýmsa verkþætti í lok maí 2015 gerði aðalstefndi honum ljóst að hann hyggðist ekki greiða aðalstefnanda það sem eftir stæði af útistandandi reikningum vegna framkvæmdanna en fjárhæð þeirra nam 94.346.645 kr. Með yfirlýsingu 28. maí 2015 lýsti aðalstefndi yfir haldi á eigin greiðslu og rifti í kjölfarið verksamningi aðila 29. júní s.á.

        Krafa aðalstefnanda, sem hann telur sig eiga á hendur aðalstefnda, er að fjárhæð 96.252.677 kr., sem er stefnufjárhæð í máli þessu, sem aðalstefndi höfðaði með réttarstefnu fyrir Héraðsdómi Vesturlands til innheimtu framangreindrar skuldar og krafðist jafnframt staðfestingar á framangreindri kyrrsetningu. Aðalstefnandi á lögvarða kröfu í verksamningi en það er ekki skilyrði kyrrsetningar að gerðarbeiðandi leiði sönnur að réttmæti kröfu sinnar, en synja skal um kyrrsetningu ef ætla verður af fyrirliggjandi gögnum að hann eigi ekki þau réttindi sem hann hyggst tryggja.

        Fyrir liggur að kaup aðalstefnda á lóðinni Hverfisgötu 103 og framkvæmdir hafa verið fjármagnaðar af Landsbankanum og samkvæmt veðbandayfirliti, dags. 6. júlí 2015 hvíldu á eigninni tryggingabréf að fjárhæð 1.350.000.000 kr. Aðalstefndi er einkahlutafélag stofnað á árinu 2013 og skv. ársreikningi 2013 var hlutafé félagsins aðeins 500.000 kr. og skuldir umtalsverðar. Ársreikningur fyrir 2014 lá ekki fyrir við kyrrsetningu.

         Þá var þinglýst kauptilboði í fasteignina Hverfisgötu 103 í apríl 2014 þar sem skv. ákvæðum þess bar aðalstefnda að afhenda fullbúið hótel á Hverfisgötu 103 til Hvanna ehf. og kaupverð 1.300.000.000 kr., tengt byggingarvísitölu, en geti að hámarki aukist um 5% og verði því að hámarki 1.365.000.000 kr. Afhendingardagur var 15. maí. 2015. Seljandi skuldbatt sig til að greiða tafabætur 500.000 kr. fyrir hvern dag sem afhending hótelsins tefðist. Þá hafði einnig verið gerður leigusamningur um fasteignina, dags. í apríl 2013. og upphafi leigutíma 1. júní 2015.

         Við meðferð kyrrsetningarmálsins benti fyrirsvarsmaður aðalstefnda á að aðalstefndi væri eigandi 100% hlutafjár í félaginu H96 ehf., sem væri eigandi byggingaréttar á norðurhluta lóðarinnar Laugavegur 77 og verðmæti skv. núgildandi deiliskipulagi væri 525 milljónir króna, áhvílandi væru 219 milljónir króna. Þá lagði hann fram lánsloforð frá Landsbankanum á 1. veðrétt og 2. veðrétt (tryggingabréf) samtals að fjárhæð 2.450.000 000 kr. og mótmælti kyrrsetningu þar sem skilyrði kyrrsetningar skv. 5. gr. kyrrsetningarlaga væru ekki uppfyllt. Aðalstefnandi byggir á því að krafa hans sé skýr og framangreind skilyrði 5. gr. séu uppfyllt. Samkvæmt því sem rakið hefur verið hefur aðalstefndi ekki fært fram haldbær rök fyrir því að hafna beri staðfestingar kyrrsetningargerðinni. Dómurinn telur að ómögulegt hafi verið að gera sér grein fyrir fjárhagslegri stöðu aðalstefnda þegar aðfararhæfur dómur lægi fyrir á hendur honum.

        Dómurinn telur því að skilyrði 5. gr. kyrrsetningarlaga hafi verið uppfyllt á þeim tíma er kyrrsetning fór fram þar sem fyrir hendi var lögvarin krafa um greiðslu peninga sem ekki yrði fullnægt með aðför og sennilegt hafi mátt telja að ef kyrrsetningin færi ekki fram myndi draga mjög úr líkindum til að fullnusta hennar tækist eða fullnusta yrði verulega örðugri. Ber því að staðfesta kyrrsetningargerð nr. K-12/2015, sem Sýslumaðurinn í Reykjavík gerði þann 27. júlí 2015.

        Að fenginni þessari niðurstöðu og með hliðsjón af umfangi málsins ber aðalstefnda að greiða aðalstefnanda málskostnað í aðalsök sem telst hæfilega metin 5.000.000 kr. og gagnstefnandi greiði gagnstefnda málskostnað í gagnsök sem telst hafilega metin 1.500.000 kr.

         Vegna embættisanna dómara hefur uppkvaðning dóms dregist umfram frest samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Aðilar og dómari eru sammála um að ekki sé þörf á endurflutningi málsins.

         Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kveður upp dóminn ásamt sérfróðu meðdómendunum Ásmundi Ingvarssyni verkfræðingi og Karli Georg Ragnarssyni tæknifræðingi.

        

Dómsorð:

         Aðalstefndi, H96 ehf., greiði aðalstefnanda, LOB ehf. 56.986.195 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu,, af 741.703 kr. með dráttarvöxtum frá 12. desember 2014 4. apríl 2014, af 1.672.819 kr. frá þeim degi til 15. maí 2015, af kr. 1.678.869 frá þeim degi til 7. jún2015, af 15.233.348 kr. frá þeim degi til 13. júní 2015, af 30.568.188 kr. til 20. júní 2015, af 36.600.257 frá þeim degi til 27. júní 2015, af 40.864.091 kr. frá þeim degi til 9. júlí 2015, af 56.986.195 kr. frá þeim degi til greiðsludags. Til frádráttar komi 2.388.861 kr. miðað við 7. ágúst 2015

        Aðalstefndi greiði aðalstefnanda 5.000.000 kr. í málskostnað.

        Gagnstefnandi, Víghóll ehf., greiði gagnstefnda, LOB ehf. 1.500.000 kr. í málskostnað.

        Staðfest er kyrrsetningargerð, sem Sýslumaðurinn í Reykjavík gerði þann 27. júlí 2015 í réttindum stefnda í aðalsök yfir fasteigninni að Hverfisgötu 103, fastanúmer 200-3628, þ.e. í rétti til kaupsamningsgreiðslna samkvæmt þinglýstu kauptilboði Hvanna ehf., kt. 590707-1040, og nái til fasteignarinnar sjálfrar falli hið samþykkta kauptilboð niður. Enn fremur er staðfest kyrrsetning hlutabréfa stefnda  í aðalsök í einkahlutafélaginu H96 ehf., kt. 421014-1320, að því marki sem fyrrgreindar kaupsamningsgreiðslur hrökkva ekki til greiðslu krafna stefnanda í aðalsök.