• Lykilorð:
  • Haldsréttur
  • Kaupsamningur
  • Skuldajöfnuður
  • Skuldamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Vesturlands 10. október 2018 í máli nr. E-5/2017:

Þrotabú Ingunnarstaða ehf.

(Kristján Óskar Ásvaldsson lögmaður)

gegn 

Soffíu Steinunni Jónsdóttur

(Ólafur Kristinsson lögmaður)

 

I.

Mál þetta, sem þingfest var 17. janúar 2017 og dómtekið 7. september sl., er höfðað með birtingu stefnu 6. desember 2016. Stefnandi er þrotabú Ingunnarstaða ehf., en stefndi er Soffía Steinunn Jónsdóttir, Efri-Brunná, Dalabyggð.

 

Stefnandi krefst þess að stefnda verði dæmd til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 2.925.000  krónur, ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 195.000 krónum frá 1. október 2015 til 1. nóvember sama ár, af 390.000 krónum frá þeim degi til 1. desember s.á., af 585.000 krónum frá þ.d. til 1. janúar 2016, af 780.000 krónum frá þ.d. til 1. febrúar s.á., af 975.000 krónum frá þ.d. til 1. mars s.á., af 1.170.000 krónum frá þ.d. til 1. apríl s.á., af 1.365.000 krónum frá þ.d. til 1. maí s.á., af 1.560.000 krónum frá þ.d. til 1. júní s.á., af 1.755.000 krónum frá þ.d. til 1. júlí s.á., af 1.950.000 krónum frá þ.d. til 1. ágúst s.á., af 2.145.000 krónum frá þ.d. til 1. september s.á., af 2.340.000 krónum frá þ.d. til 1. október s.á., af 2.535.000 krónum frá þ.d. til 1. nóvember s.á., af 2.730.000 krónum frá þ.d. til 1. desember s.á. og af 2.925.000 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Jafnframt krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu með hliðsjón af málskostnaðaryfirliti. 

 

Stefnda krefst þess að hún verði sýknuð af  öllum dómkröfum stefnanda. Til vara krefst hún þess að dómkrafa stefnanda verði lækkuð verulega og til þrautavara að ekki verði dæmdir dráttarvextir á kröfuna. Loks krefst stefnda þess að stefnanda verði gert að greiða henni málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins með hliðsjón af málskostnaðarreikningi.

 

II.

Málavextir

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var einkahlutafélagið Ingunnarstaðir ehf. stofnað hinn 30. apríl 2008 til að yfirtaka búrekstur stofnanda og eiganda félagsins, Daníels Heiðars Jónssonar, á jörðinni Ingunnarstöðum í Dalabyggð. Bú Ingunnarstaða ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Vestfjarða 7. maí 2014.

 

Með kaupsamningi, dags. 23. september 2015, samþykkti stefnda, Soffía Steinunn Jónsdóttir, að kaupa af framangreindu þrotabúi, stefnanda máls þessa, allan búfénað þrotabúsins, nautgripi og sauðfé. Kemur fram í samningnum að umsamið kaupverð sé  4.500.000 krónur. Skuli 1.500.000 krónur greiddar við undirskrift samningsins. Síðan eru tilgreindar 13 mánaðarlegar greiðslur að fjárhæð 195.000 krónur, sem inna skuli af hendi fyrsta dag hvers mánaðar, frá 1. október 2015 til og með 1. október 2016, þrjár mánaðarlegar greiðslur að fjárhæð 195.000 krónur á gjalddögunum 1. desember 2016 og 1. janúar og 1. febrúar 2017 og loks 185.000 króna lokagreiðsla hinn 1. mars sama ár. Samtals nema hinar tilgreindu mánaðarlegu greiðslur því 3.305.000 krónum, eða 305.000 krónum umfram ógreiddar eftirstöðvar miðað við tilgreint heildarkaupverð. Einungis er í máli þessu gerð krafa um þær afborganir samningsins sem gjaldfallnar voru við höfðun málsins hinn 6. desember 2016, en í stefnu er hins vegar ranglega tilgreint að þar á meðal sé greiðsla að fjárhæð 195.000 krónur með gjalddaga 1. nóvember 2016.

 

Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslur stefnda, Soffía Steinunn Jónsdóttir, og vitnin Daníel Heiðar Jónsson og Pétur Kristinsson lögmaður, skiptastjóri í þrotabúi Daníels Heiðars.

 

III.

Málsástæður og lagarök

Stefnandi kveður kröfu sína snúast um ógreiddar gjaldfallnar greiðslur samkvæmt framangreindum kaupsamningi aðilanna, en skuldin hafi ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir. Byggist sú krafa á reglum samninga- og kröfuréttar um loforð og efndir fjárskuldbindinga, en dráttarvaxtakrafan styðjist við lög um vexti- og verðtryggingu nr. 38/2001.

 

Stefnda byggir kröfur sínar í fyrsta lagi á því að kaupsamningurinn sem kröfur stefnanda byggist á sé bersýnilega ósanngjarn í skilningi 36. gr. samningalaga nr. 7/1936. Stefnda hafi sannanlega borið umtalsverðan kostnað af samningsandlaginu um áraraðir og hafi skiptastjóri stefnanda meðal annars samþykkt kröfu hennar á þeim grunni „að fjárhæð sem nemi miklum mun hærri fjárhæð en krafa stefnanda hljóðar upp á.“ Þá hafi stefnda átt veðrétt í hinu selda að margfaldri fjárhæð kröfu stefnanda samkvæmt fyrirliggjandi veðtryggingarbréfi. Stefnanda hafi verið fullkomlega kunnugt um að stefnda ætti þessar kröfur en hafi eigi að síður þvingað hana til samningsgerðar. Þá verði að telja í hæsta máta óeðlilegt að búfénaðurinn hafi nokkurn tíma verið talinn eign stefnanda, enda hafi hann tilheyrt öðru þrotabúi. Fallist dómurinn ekki á að stefnandi hafi aldrei átt hinn selda búfénað verði að líta til þess að kröfur stefndu hafi að hluta verið utan skuldaraðar skv. 109. gr., að hluta búskröfur í skilningi 110. gr. og að hluta veðkröfur í skilningi 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Verði í því sambandi að líta til þess að hún hafi séð um og annast hið selda búfé um áratugaskeið „innan vébanda tveggja þrotabúa þar sem skipti standa enn yfir í báðum tilvikum.“

 

Stefnda byggi og á því að stefnandi hafi í upphafi aldrei átt þær kröfur sem dómkröfur máls þessa lúti að, þar sem bæði hún og Daníel Heiðar hafi séð um að viðhalda umræddum bústofni og borið allan kostnað af því. Ef það hefði ekki verið gert hefði stefnandi ekki haft neitt til að selja. Vegna þrýstings og hótana skiptastjóra þá hafi stefnda, nauðbeygð og með óbragð í munni, skrifað undir kaupsamning um bústofninn sem hún  hafi fóðrað sjálf, án þess að skiptastjóri hafi tekið tillit til þeirrar aukningar á lífmassa kúnna sem stefnda hefði sjálf greitt fyrir og staðið fyrir. Beri af þeim sökum að sýkna hana af öllum kröfum stefnanda.

 

Á því sé og byggt að stefnda eigi kröfur á hendur stefnanda til skuldajafnaðar, m.a. á grundvelli 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, með síðari breytingum, sbr. m.a. ákvæði 100. gr. laga nr.  21/1991. Sé ljóst að kröfur hennar á hendur stefnanda nemi hærri fjárhæð en sem nemi dómkröfum hans og séu þær því að fullu hæfar til að mætast með skuldajöfnuði. Hafi stefnda með bréfi, dags. 29. september 2015, lýst yfir sjálfstæðum skuldajöfnuði, þar sem fram hafi komið m.a. að kröfur hennar á hendur stefnanda næmu þá 21.889.653 krónum, auk þess sem stefnandi hafi ekki endurgreitt stefndu sértökukröfu að fjárhæð 500.000 krónur, sem hún hafi ranglega lagt inn á reikning stefnanda. Hafi stefnandi þráast við að endurgreiða stefndu þessa fjárhæð, sem hún eigi sannanlega réttmæta kröfu á að fá.

 

Þá byggi stefnda á því að hún eigi haldsrétt í kúnum vegna þess kostnaðar sem hún hafi verið neydd til að greiða vegna skepnanna frá janúar 2011 til og með 15. september 2015, eða í fjögur og hálft ár. Haldsréttur hennar vegna þessa samsvari sértökurétti hennar á umræddum skepnum og því eigi hún í raun eignarétt á búfénaðinum þar til þrotabúið sé búið að greiða henni allan útlagðan kostnað ásamt vöxtum og dráttarvöxtum. Meginregla í íslenskum rétti sé að sá sem leggi út fyrir kostnaði, hvort sem um sé að ræða vegna bifreiðar eða fóðrunar á skepnum, eigi haldsrétt í þeim munum þar til búið sé að greiða þann útlagða kostnað sem viðkomandi hafi sannanlega haft þar af. Skiptastjóri hafi ekki með nokkru móti getað sýnt fram  á að hann hafi ekki lengur óskað eftir því að fóðrun ætti sér stað á kostnað stefndu og er ekkert annað komið fram en að allan tímann hafi verið unnið í þágu þrotabúsins. Þar sem ljóst sé að kröfur stefndu gagnvart stefnanda séu hærri en dómkröfur hans í máli þessu, auk þess sem stefnda eigi vegna haldsréttar síns kröfu á hendur stefnanda sem nemi að lágmarki dómkröfum máls þessa, beri að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

 

IV.

Niðurstaða

Eins og áður er fram komið snýst krafa stefnanda um greiðslu eftirstöðva kaupsamnings, sem skiptastjóri þrotabúsins gerði við stefndu um búfénað þess að Ingunnarstöðum í Reykhólahreppi. Er sýknukrafa stefndu aðallega á því byggð að skiptastjórinn hafi þröngvað henni til að kaupa umræddan bústofn, sem hún og Daníel Heiðar Jónsson hefðu þá verið búin að annast með ærnum tilkostnaði um langt skeið. Vísar hún til þess að í raun hafi þetta þýtt að stefnandi hafi aldrei getað talist eigandi hins selda því að eignin hefði verið farin forgörðum ef ekki hefði komið til framangreint framlag hennar og Daníels. Vegna þessa sé kaupsamningurinn bersýnilega ósanngjarn, auk þess sem hún hafi átt haldsrétt í hinu selda og gagnkröfu á hendur stefnanda vegna þessa.

 

Fyrir liggur að stefnda lýsti kröfu í þrotabú stefnanda vegna láns og ýmiss áfallins kostnaðar við umræddan bústofn samtals að fjárhæð 21.909.653 krónur með kröfulýsingu 10. júní 2014. Féllst skiptastjóri á að hluti kröfunnar, að fjárhæð 14.539.653 krónur, væri almenn krafa í búið en að öðru leyti var kröfunni hafnað, eins og henni var lýst, þ. á m. að hluti hennar teldist veðkrafa eða fengi annan forgang fram yfir almennar kröfur. Þá liggja fyrir í málinu tölvupóstsamskipti lögmanns stefndu og skiptastjóra stefnanda frá byrjun júlímánaðar, þar sem sá fyrrnefndi setti fram kröfu stefndu um að skiptastjóri samþykkti að tiltekinn kostnaður hennar í tengslum við búfjárhaldið að Ingunnarstöðum yrði viðurkenndur sem búskröfur og „að þessar kröfur Soffíu gangi til greiðslu kaupsverðs bústofns, gegn framlagningu reikninga.“ Skiptastjóri hafnaði hins vegar þessum kröfum strax í kjölfarið. Liggur ekkert fyrir um að framangreindri afstöðu skiptastjóra til lýstra krafna stefndu hafi verið mótmælt og fylgt eftir á grundvelli XVIII. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

 

Í kjölfarið, eða hinn 7. ágúst 2015, ritaði stefnda undir umræddan kaupsamning um bústofninn, að viðstöddum lögmanni sínum, án þess að gera þar um nokkurn fyrirvara um eignarhald stefnanda eða framangreindan kostnað og kröfur stefndu að öðru leyti.

 

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið liggur fyrir að stefndu mátti vera fullkomlega ljóst á hvaða grunni umrædd kaup á bústofninum á Ingunnarstöðum voru gerð, enda áttu þau sér allnokkurn aðdraganda og stefnda naut við samningsgerðina aðstoðar lögmanns. Er ekkert það fram komið í málinu sem styður þá fullyrðingu stefndu að skiptastjóri hafi beitt hana slíkum þrýstingi og hótunum við samningsgerðina, eða að aðstæður við hana hafi að öðru leyti verið slíkar, að ósanngjarnt sé af stefnanda að bera samninginn fyrir sig, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1937 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. 

 

Eins og áður segir lýsti stefnda kröfum fyrir skiptastjóra stefnanda vegna áfallins kostnaðar við búrekstur stefnda o.fl., sem stofnast hefðu bæði fyrir töku bús stefnanda til gjaldþrotaskipta og eftir það tímamark. Væri hún ósátt við þá niðurstöðu bar henni að mótmæla henni og fylgja þeim mótmælum eftir í samræmi við ákvæði XVIII. kafla laga nr. 21/1991. Komast varnir hennar á því byggðar því ekki að í máli þessu. Þá bar henni að gera um það fyrirvara við gerð og undirritun umrædds kaupsamnings teldi hún að framangreindar kröfur hennar ættu að dragast frá kaupverði bústofnsins eða að hún ætti haldsrétt vegna þeirra í þann sama bústofn. Eigi að síður ákvað hún að gangast undir þá skuldbindingu sem í kaupsamningnum fólst, það er að greiða kaupverðið að fjárhæð 4.500.000 krónur. Gat hún ekki látið við það sitja að greiða einungis útborgunarfjárhæðina 1.500.000 krónur og lýsa í kjölfarið yfir skuldajöfnun á hendur þrotabúinu vegna eftirstöðvanna, þegar af þeirri ástæðu að ekki var til staðar það skilyrði sem kveðið er á um í 1. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991 að krafa þrotabúsins á hendur henni hefði orðið til fyrir frestdag.

 

Samkvæmt öllu framangreindu verður að hafna kröfum stefndu um sýknu af kröfum stefnanda og verður stefndu gert að greiða stefnanda þær eftirstöðvar kaupsamningsins sem voru gjaldfallnar og ógreiddar við höfðun máls þessa, samtals að fjárhæð 2.730.000 krónur. Verður stefndu einnig gert að greiða dráttarvexti, eins og nánar greinir í dómsorði.

 

Að fengnum þessum málsúrslitum verður stefndu gert að greiða stefnanda 1.200.000 krónur í málskostnað.

 

Dóm þennan kveður upp Ásgeir Magnússon dómstjóri.

 

Dómsorð:

Stefnda, Soffía Steinunn Jónsdóttir, greiði stefnanda, þrotabúi Ingunnarstaða ehf., 2.730.000 krónur, ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 195.000 krónum frá 1. október 2015 til 1. nóvember sama ár, af 390.000 krónum frá þeim degi til 1. desember s.á., af 585.000 krónum frá þ.d. til 1. janúar 2016, af 780.000 frá þ.d. til 1. febrúar s.á., af 975.000 krónum frá þ.d. til 1. mars s.á., af 1.170.000 krónum frá þ.d. til 1. apríl s.á., af 1.365.000 krónum frá þ.d. til 1. maí s.á., af 1.560.000 krónum frá þ.d. til 1. júní s.á., af 1.755.000 krónum frá þ.d. til 1. júlí s.á., af 1.950.000 krónum frá þ.d. til 1. ágúst s.á., af 2.145.000 krónum frá þ.d. til 1. september s.á., af 2.340.000 krónum frá þ.d. til 1. október s.á., af 2.535.000 krónum frá þ.d. til 1. desember s.á. og af 2.730.000 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

 

Stefnda greiði stefnanda 1.200.000 krónur í málskostnað.

                                                                                                                                                                                                                                    Ásgeir Magnússon