• Lykilorð:
  • Hraðakstur
  • Fangelsi

D Ó M U R

Héraðsdóms Vesturlands 23. október 2018 í máli nr. S-46/2018:

Ákæruvaldið

(Jón Haukur Hauksson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Stíg Reynissyni

 

Mál þetta höfðaði lögreglustjórinn á Vesturlandi með ákæru 17. ágúst 2018 á hendur ákærða, Stíg Reynissyni, kt. …, Keflavíkurgötu 10, Snæfellsbæ. Málið var dómtekið 18. október 2018.

Í ákæruskjali segir að málið sé höfðað gegn ákærða fyrir umferðarlagabrot, en ákærða er gefið að sök „að hafa laugardaginn 11. ágúst 2018 ekið bifreiðinni YF943 sviptur ökuréttindum og með allt að 112 km hraða á klukkustund, að teknu tilliti til vikmarka, þar sem leyfilegur hámarkshraði er 90 km á klukkustund, á Snæfellsnesvegi uns lögreglan stöðvaði aksturinn á móts við Glaumbæ í Snæfellsbæ.

Telst þetta varða við 2. mgr. 37. gr. og 1. mgr. 48. gr., hvort tveggja sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með síðari breytingum.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Fyrirkall í máli þessu var birt fyrir ákærða 2. október 2018. Við þingfestingu málsins 18. október sama ár sótti ákærði ekki þing og var málið þá dómtekið að kröfu ákæruvaldsins samkvæmt 1. mgr. 161. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008. Með vísan til þeirrar lagagreinar þykir mega jafna útivist ákærða til játningar hans, enda fer sú niðurstaða ekki í bága við gögn málsins. Brot ákærða teljast því sönnuð og réttilega heimfærð til laga í ákæruskjali.

Samkvæmt sakavottorði hefur ákærði frá árinu 2013 hlotið fjóra dóma og einu sinni gengist undir viðurlagaákvörðun fyrir dómi vegna brota gegn umferðarlögum og lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

Við ákvörðun refsingar er þess að gæta að ákærði hefur með dómi þessum fimmta sinn verið sakfelldur fyrir aksturs sviptur ökurétti. Að virtum þessum sakaferli þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin þriggja mánaða fangelsi.

Engan sakarkostnað leiddi af rannsókn og rekstri málsins.

Guðfinnur Stefánsson, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.

                                               

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Stígur Reynisson, sæti fangelsi í þrjá mánuði.

                                                                       

 

                                                                                    Guðfinnur Stefánsson