• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Fangelsi

D Ó M U R

Héraðsdóms Vesturlands 13. júní 2018 í máli nr. S-24/2018:

Ákæruvaldið

(Jón Haukur Hauksson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Jóni B. Georgssyni

(Daníel Reynisson lögmaður.)

 

Mál þetta höfðaði lögreglustjórinn á Vesturlandi með ákæru 24. maí 2018 á hendur ákærða, Jóni B. Georgssyni, kt. …, Fremri-Gufudal, Reykhólahreppi. Málið var dómtekið 8. júní 2018.

Í ákæruskjali segir að málið sé höfðað gegn ákærða fyrir eftirtalin umferðar- og fíkniefnalagabrot:

1.

Með því að hafa sunnu­daginn 4. september 2016 ekið bifreiðinni RG474 óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóðsýni mældist amfetamín 1000 ng/ml, MDMA 290 ng/ml og tetrahýdrókannabínól 2,2 ng/ml), á bifreiðastæði við Kauptún í Garðabæ, uns lögreglan stöðvaði aksturinn á móts við verslun Bónus við Kauptún í Garðabæ.

Mál nr. 007-2016-52115

 

Telst þetta varða við 1. mgr. sbr. 2. mgr. 45. gr. a. sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

2.

Með því að hafa á sama stað og tíma og vísað er til í ákærulið 1 haft í vörslum sínum 4,96 g af maríhúana, sem lögreglan fann milli sæta í bifreiðinni RG474 að ábendingu ákærða.

Mál nr. 007-2016-52115

 

Telst þetta varða við 2. gr. sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 2. gr. sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni.

3.

Með því að hafa laugardaginn 27. janúar 2018 ekið bifreiðinni VP627 óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóðsýni mældist tetra­hýdró­kannabínól 14 ng/ml) og sviptur öku­réttindum, á Vesturlandsvegi uns lögreglan stöðvaði aksturinn á móts við Rjúpnaás í Borgarbyggð.

Mál nr. 313-2018-1722

 

Telst þetta varða við 1. mgr. sbr. 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr. sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

4.

Með því að hafa á sama stað og tíma og vísað er til í ákærulið 3 haft í vörslum sínum 2,99 g af maríhúana og 0,89 g af kókaíni, sem ákærði framvísaði og lögregla fann við leit í bifreiðinni VP627 að ábendingu ákærða.

Mál nr. 313-2018-1722

 

 

 

Telst þetta varða við 2. gr. sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974; og 2. gr. sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga. Þá er krafist upptöku á 7,95 g af maríhúana og 0,89 g af kókaíni sem hald var lagt á við rannsókn málanna, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglu­gerðar nr. 233/2001.

 

Ákærði hefur fyrir dómi skýlaust játað að hafa framið þau brot sem honum eru gefin að sök í ákærum og er játning hans studd sakargögnum. Eru því efni til að leggja dóm á málið samkvæmt 1. mgr. 164. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Samkvæmt þessu verður ákærði sakfelldur fyrir brotin, sem réttilega eru færð til refsilaga í ákæru.

Samkvæmt sakavottorði hefur ákærði frá árinu 2014 hlotið einn dóm og gengist undir eina lögreglustjórasátt fyrir brot gegn almennum hegningarlögum og umferðarlögum. Hinn 30. mars 2017 gekkst ákærði undir sátt þess efnis að hann greiddi 200.000 króna sekt og sætti sviptingu ökuréttar í 24 mánuði fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna.

Brot þau sem ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir samkvæmt ákærulið 1 og 2 framdi hann áður en hann gekkst undir fyrrgreinda sátt og ber því að gera ákærða hegningarauka vegna þeirra brota, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga.

Með brotum sínum nú, samkvæmt ákærulið 3, hefur ákærði í þriðja sinn gerst sekur um brot gegn 45. gr. a. umferðarlaga. Að öllu virtu þykir refsing ákærða, sem tiltekin er eftir reglum 77. gr. almennra hegningarlaga, hæfilega ákveðin 45 daga fangelsi

Með vísan til 101. og 102. gr. umferðarlaga verður ákærði sviptur ökurétti ævilangt.

Með vísan til þeirra lagaákvæða sem greinir í ákæru verða gerð upptæk þau fíkniefni sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

Loks verður ákærði samkvæmt 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 dæmdur til greiðslu sakarkostnaðar samkvæmt yfirliti lögreglu um sakarkostnað og ákvörðun dómsins um þóknun verjanda, sem ákveðin er að meðtöldum virðisaukaskatti, svo sem greinir í dómsorði.

   Guðfinnur Stefánsson, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.

                                               

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Jón B. Georgsson, sæti fangelsi í 45 daga.

Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt.

Ákærði sæti upptöku á 7,95 g af maríhúana og 0,89 g af kókaíni

Ákærði greiði þóknun verjanda síns, Daníels Reynissonar lögmanns, 136.400 krónur og ferðakostnað verjandans 26.208 krónur. Þá greiði ákærði annan sakarkostnað að fjárhæð 238.475 krónur.

                                                                                   

 

                                                                                    Guðfinnur Stefánsson