• Lykilorð:
  • Líkamsárás
  • Líkamstjón
  • Miskabætur

D Ó M U R

Héraðsdóms Vesturlands 9. júní 2017 í máli nr. S-33/2016:

Ákæruvaldið

(Jón Haukur Hauksson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Grzegorz Karol Oleszczuk

(Grétar Dór Sigurðsson hdl.)

 

I.

Mál þetta höfðaði lögreglustjórinn á Vesturlandi með ákæru, dags. 30. maí 2016, á hendur ákærða Grzegorz Karol Oleszczuk, kennitala ..., Eyrarvegi 17, Grundarfirði. Málið var dómtekið 12. maí 2017. Í ákæruskjali segir að málið sé höfðað gegn ákærða fyrir „líkamsárás við skemmtistaðinn Rúben í Grundarfirði, aðfaranótt sunnudagsins 7. júní 2015, með því að hafa kýlt A..., kt. ..., hnefa­höggi í kjálka og efst í háls vinstra megin, með þeim afleiðingum að flysjaðist úr vinstri háls­slagæð og taug skaddaðist, sem leiddi til þess að augasteinn (vinstri) bregst ekki eðli­lega við ljósi og augnlok (vinstra) lafir, auk þess sem hann fékk höfuðverki og bólgnaði og marðist á vinstri kjálka.

 

Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með síðari breytingum.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

Einkaréttarkrafa:

Í málinu hefur Guðjón Ólafur Jónsson hrl. lagt fram skaðabótakröfu f.h. A..., kt. ..., og gert kröfu um að ákærði verði dæmdur til að greiða honum 1.500.000 kr. í miskabætur, 43.641 kr. í sjúkrakostnað, 294.925 kr. í lögmanns­þóknun með virðisaukaskatti, auk vaxta af 1.500.000 kr. skv. 18. gr. sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 7. júní 2015 og þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga af 1.500.000 kr. frá þeim degi til greiðsludags.“

 

Ákærði krefst þess að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins, en til vara krefst hann vægustu refsingar er lög leyfa. Þá krefst ákærði þess að skaðabótakröfu á hendur sér verði vísað frá dómi en til vara að hún verði lækkuð.

 

II.

Hinn 9. júlí 2015 barst lögreglunni á Vesturlandi kæra frá brotaþola máls þessa, A... , vegna líkamsárásar sem hann kvaðst hafa orðið fyrir utan við skemmtistaðinn Rúben í Grundarfirði aðfaranótt sunnudagsins 7. júní 2015. Skýrsla var tekin af brotaþola hjá lögreglu hinn 15. september 2015 og kemur þar fram að ákærði hafi umrætt sinn verið í átökum við mann sem kallaður sé B.... Hafi brotaþoli verið að hlúa að B... er ákærði gekk upp að honum og setti hnéð í andlit hans. Brotaþoli hafi þá gengið á milli þeirra og ýtt ákærða í burtu, en síðan séð út undan sér að ákærði væri að fara að slá hann. Hafi brotaþoli þá snúið sér við og fengið eitt högg á hálsinn, vinstra megin undir kjálkann.

 

Í læknisvottorði Braga Þórs Stefánssonar heimilislæknis, dags. 9. október 2015, kemur fram að brotaþoli hafi leitað til hans á Heilbrigðisstofnun Vesturlands 8. júní það ár vegna verkja í kjálka og vinstra eyra. Segir svo um þá skoðun: „Skoðun: eðlilegt eyra. Skynb er eðlilegt í andliti. Verulega þreifiaumur yfir miðri mandibulu en ekki áverkamerki að sjá. Ekki grunur um brot þar sem hann getur bitið eðlilega saman. Aumur einnig undir kjálkabarði við angulus mandibulae og einnig undir ytra eyra. Ekki eymsli við að toga upp ytra eyra né heldur tragus eymsli.“

 

Í læknisvottorði Bergs Stefánssonar, dags. 28. desember 2015, segir að brotaþoli hafi leitað á bráðamóttökuna í Fossvogi hinn 11. júní sama ár. Við skoðun hafi verið munur á ljósopunum vinstra og hægra megin og roði í vinstra auga. Hafi augnlokið þar verið svolítið sigið. Tölvusneiðmynd hafi verið tekin af höfði og hálsi og sérstaklega verið beint að slagæðunum. Þar hafi sést að A... var með æðaflysjun í vinstri hálsæð á 4,6 cm kafla sem þrengdi að æðinni. Einnig kemur fram í vottorðinu að mjög vel sé þekkt að slík æðaflysjun geti tengst höggum eða öðrum áverkum á hálsi.

 

 

III.

Skýrslur fyrir dómi

Ákærði bar fyrir dómi að hann hefði að lokinni skemmtun á skemmtistaðnum Rúben í Grundarfirði lent í átökum við mann þar fyrir utan, en sá hefði kallað ákærða og aðra á staðnum illum nöfnum. Hann kvaðst ekki geta nafngreint manninn, en hann væri kallaður B.... Ákærði sagðist hins vegar ekki kannast við að hafa lamið brotaþola umrætt sinn en ef það hefði gerst hefði það verið óviljaverk. Ákærði kvaðst ekki þekkja brotaþola og ekki hafa haft nein samskipti við hann umrætt sinn. Þannig kannaðist hann ekki við að brotaþoli hefði gengið á milli þeirra B.... Hins vegar væri hugsanlegt að brotaþoli hefði staðið á bak við hann og hann því ekki séð hann. Spurður um þann framburð sinn hjá lögreglu að hann hefði hugsanlega slegið brotaþola óvart í átökum við B... ítrekaði ákærði að hann teldi sig ekki hafa slegið brotaþola og þá alla vega ekki á þann veg sem brotaþoli hefði lýst, það er að ákærði hefði snúið sér að brotaþola og slegið hann viljandi. Aðspurður kvaðst ákærði hafa verið ölvaður umrætt sinn, en hann hefði verið búinn að drekka fimm til sex bjóra.

 

Brotaþoli kvaðst umrætt sinn hafa farið niður í bæ til að hitta vini sína. Hann hefði farið akandi og ekki verið búinn að neyta áfengis. Er hann hefði verið staddur fyrir utan skemmtistaðinn Rúben hefði hann séð ákærða og annan strák, sem hann kannist við og kallaður sé B..., vera að slást. Kvaðst hann ekkert hafa verið að skipta sér af þessum slagsmálum heldur verið að ræða þar við vini sína. B... hefði þá komið og sest niður við hliðina á honum. Stuttu síðar hefði ákærði einnig komið þar að, tekið um höfuð B... að aftan og sett hnéð á sér í andlit hans. Brotaþoli kvaðst þá hafa stigið á milli og kropið niður til að huga að B.... Brotaþoli hefði þá séð út undan sér að ákærði væri að fara að slá hann. Hefði hann því snúið sér við en fengið þá hnefahögg á hálsinn vinstra megin. Kvaðst brotaþoli telja útilokað að einhver annar en ákærði hafi slegið hann eða að einhver hafi slegið hann óviljandi. Kvaðst brotaþoli hafa staðið kyrr og verið í sjokki og svo spurt ákærða hvað hann væri að gera. Hann hefði orðið mjög reiður en samt haldið ró sinni og gengið frá ákærða. Hann hefði verið aumur í hálsinum og liðið illa og því ákveðið að fara heim. Kvaðst brotaþoli hafa leitað læknis á mánudeginum og fengið þá áverkavottorð. Hann hefði vegna þessa þurft að taka inn íbúfen vegna hausverks og verið illt í hálsinum og hökunni. Næsta dag hefði hann farið til vinnu en verið með mikinn hausverk og verið að rugla saman hægri og vinstri. Þegar hann hefði svo verið kominn heim um kvöldið hefðu einkennin komið í ljós, latt auga og minni augasteinn. Kvaðst hann þá hafa á ný leitað til læknis og verið sendur beint til frekari rannsóknar á spítala í Reykjavík. Aðspurður kvaðst brotaþoli ekki hafa orðið fyrir neinum öðrum áverkum á sama tíma. Hann sagðist enn vera að taka inn lyf út af þessum atburðum og að hann fengi hausverk ef hann sleppti því. Hann fengi óþægilegar tilfinningar ef fólk kæmi við sig vinstra megin á hálsinum og hann ætti erfitt með að stunda íþróttir. Kvaðst hann ennþá vera með Hornes-einkenni, sem séu minni augasteinn og latt auga. Spurður hvers vegna hann hefði ekki lagt fram kæru fyrr en mánuði eftir umrætt atvik kvaðst brotaþoli hafa staðið í læknisskoðunum og viljað vita um alvarleika afleiðinganna áður en til þess kæmi.          

 

Vitnið D... bar að hún hefði umrætt sinn staðið í tröppunum fyrir utan Rúben. Henni hefði verið litið til hægri og þá séð brotaþola þar með vinum sínum og síðan ákærða lemja hann í höfuðið. Kvaðst hún telja að þetta hefði verið meira svona eins og brotaþoli hefði verið rangur maður á röngum stað. Hefði hún séð þetta vel og fundist áberandi hvað brotaþoli varð hissa. Hefði henni virst sem höggið kæmi honum í opna skjöldu. Aðspurð kvaðst hún muna eftir að hafa séð B... í kringum brotaþola og vini hans. Kvað hún hugsanlegt að ákærði hefði ætlað að slá einhvern annan. Staðfesti hún að hafa í skýrslu sinni hjá lögreglu sagt að meintur árásarmaður væri meðalmaður að hæð, líklega 170 til 180 cm á hæð. Aðspurð staðfesti hún sérstaklega að það hefði verið ákærði, sem staddur var í dómsalnum, sem hefði slegið brotaþola.

 

Vitnið B..., kallaður B... eða B..., bar fyrir dómi að hann hefði ekki séð að brotaþoli hefði orðið fyrir höggi í greint sinn, en að einhverjar stimpingar hefðu verið milli ákærða og hans sjálfs. Þó hefði hann heyrt fljótlega í kjölfarið af því að brotaþoli hefði verið sleginn.

 

Vitnið E... kvaðst hafa staðið við hlið brotaþola þegar ákærði hefði verið að berja B.... Brotaþoli hefði þá reynt að stöðva ákærða en ákærði þá stigið til baka og slegið brotaþola. Taldi hann að höggið frá ákærða hefði lent við eyrað á brotaþola en hann hefði þó ekki séð það greinilega. Aðspurður kvaðst hann hafa verið ölvaður umrætt sinn og taldi útilokað að einhver annar en ákærði hefði slegið brotþola. Spurður út í tengsl sín við framangreinda menn sagðist vitnið þekkja ákærða og vera gamall bekkjarfélagi brotaþola, en þó ekki náinn vinur hans.       

 

Vitnið Bragi Þór Stefánsson læknir kvaðst hafa skoðað brotaþola 8. júní 2015. Lýsti hann því að einkenni flysjunar á hálsæð kæmu strax fram. Brotaþoli hefði reynst með breytingar á vinstra sjáaldri og efra augnloki, en augnlokið hefði verið sigið að nokkru leyti. Aðspurt kvaðst vitnið telja að frekar mikið högg þurfi til að valda þeim áverkum sem brotaþoli hefði orðið fyrir, en þeir séu fátíðir. Kom fram að í hefðbundnum átökum séu fremur litlar líkur á því að þessi áverki hljótist af og að erfitt sé að segja til um varanlegar afleiðingar hans. Brotaþoli stundi ekki lengur þær ..., m.a. ..., sem hann hefði áður gert, enda væri ástand á æðum hans nú þannig að mjög óskynsamlegt væri að hann færi að stunda þær á ný.         

 

Fram kom hjá vitninu Bergi Stefánssyni lækni að ekki væri algengt að flysjaðist úr hálsslagæð við eitt högg á hálsinn, en það væri þó vel þekkt. Hins vegar væri slíkur áverki ekki algengur eftir kyrkingartak, en gæti þó orðið. Aðspurður kvaðst hann telja að brotaþoli hefði sloppið án alvarlegra áverka en að hársbreidd hefði munað að slíkir áverkar hlytust af. Virtist sem áverkinn á æðinni hefði gengið til baka að mestu leyti. Brotaþoli sitji þó eftir með þrengsli í hálsæðinni en þau séu þó ekki líkleg til að valda brotaþola frekari skaða en orðið sé.     

 

Vitnið Björn Logi Þórarinsson taugalæknir taldi að þau einkenni sem brotaþoli væri með, eða „Horner syndrome“, myndu að öllum líkindum ekki ganga til baka. Hann kvaðst hafa hitt brotaþola fyrst sumarið 2015 og síðan aftur í desember 2016, en þá hefði brotaþoli ennþá verið með einkenni. Einkennin séu enn í dag til staðar. Brotaþoli sé með sig á augnloki öðrum megin. Þá sé sjáaldur hans öðrum megin lítið, sem geti aftur valdið vægum sjóntruflunum. Brotaþoli hefði því ekki lagast og byggist vitnið við að það ástand héldist áfram. 

 

IV.

Niðurstaða

Ákærði hefur neitað sök í málinu. Hann kveðst ekki hafa kýlt brotaþola umrætt sinn, en hafi það gerst hafi það verið óviljaverk. Framburður brotaþola er hins vegar á þann veg að ákærði hafi af viljandi slegið hann fyrirvaralaust einu hnefahöggi, sem lent hafi á hálsi hans, vinstra megin. Fær þessi framburður hans stuðning í framburði vitnanna E... og D..., sem kveðast bæði hafa séð ákærða slá brotaþola. Kvaðst E... telja að höggið hefði lent við eyra brotaþola en D... að það hefði lent á höfði hans. Fær framburður brotaþola og stuðning í fyrirliggjandi læknisvottorðum um áverka hans sem að framan hefur verið lýst, enda liggur fyrir að fyrstu merki um þá greindust mjög fljótt í kjölfar umrædds atviks.

 

Með hliðsjón af framangreindu telur dómurinn sannað að ákærði hafi af ásetningi greitt brotaþola hnefahögg í greint sinn, með þeim hætti og þeim afleiðingum sem í ákæru greinir. Telst brot ákærða þar réttilega heimfært til refsiákvæðis.

 

Þykir refsing ákærða, sem er með hreint sakavottorð, hæfilega ákveðin tveggja mánaða fangelsi, en rétt þykir að fresta fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

 

Brotaþoli krefst þess að ákærði verði dæmdur til að greiða honum miskabætur að fjárhæð 1.500.000 krónur, auk tilgreindra vaxta. Brotaþoli á rétt á miskabótum úr hendi ákærða vegna árásarinnar á grundvelli 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Að virtum aðstæðum öllum og afleiðingum þykja miskabætur hæfilega ákveðnar 400.000 krónur. Þá verður fallist á vaxtakröfu brotaþola, þannig að dráttarvextir reiknist frá 30. janúar 2016, en þá var mánuður liðinn frá því krafan var kynnt ákærða. Brotaþoli krefst einnig bóta vegna útlagðs sjúkrakostnaðar að fjárhæð 43.641 króna. Krafa þessi byggist á fyrirliggjandi reikningum og verður hún að fullu tekin til greina.

 

Samkvæmt 3. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála á brotaþoli rétt til bóta vegna lögmannskostnaðar sem hann hefur haft af því að halda fram kröfu sinni í málinu. Bætur til brotaþola á grundvelli nefnds ákvæðis þykja hæfilega ákveðnar 250.000 krónur, að virðisaukaskatti meðtöldum.

 

Ekki hefur fallið til annar sakarkostnaður vegna rannsóknar og meðferðar málsins en málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða. Með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 verður ákærða gert að greiða málsvarnarlaunin, sem þykja hæfilega ákveðin, að meðtöldum virðisaukaskatti, svo sem greinir í dómsorði. Jafnframt verður ákærða gert að greiða ferðakostnað verjandans.

 

Ásgeir Magnússon dómstjóri kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

Ákærði, Grzegorz Karol Oleszczuk, sæti fangelsi í tvo mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

 

Ákærði greiði verjanda sínum, Grétari Dór Sigurðssyni hdl., 900.000 krónur í málsvarnarlaun og 38.800 krónur í aksturskostnað.

 

Ákærði greiði A... 400.000 krónur, ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 7. júní 2015 til 30. janúar 2016, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Ákærði greiði A... einnig 43.641 krónu í útlagðan kostnað og 294.925 krónur í málskostnað vegna bótakröfu.

 

Ásgeir Magnússon