• Lykilorð:
  • Frávísun frá héraðsdómi
  • Nauðungarsala
  • Úthlutun söluverðs

 

Ú R S K U R Ð U R

Héraðsdóms Vesturlands 2. maí 2019 í máli nr. Z-1/2018:

Náttúra og heilsa ehf.

(Guðrún Hólmsteinsdóttir lögmaður)

gegn

Aðalheiði Hafliðadóttur og

Guðlaugi H. Helgasyni

(Þórður Guðmundsson lögmaður)

 

I.

Mál þetta barst dóminum með bréfi lögmanns sóknaraðila, mótteknu 3. maí 2018. Málið var þingfest 5. júní 2018 og tekið til úrskurðar 29. mars sl.

 

Sóknaraðili málsins er Náttúra og heilsa ehf., Fitjum, Skorradalshreppi. Varnaraðilar eru Aðalheiður Hafliðadóttir og Guðlaugur H. Helgason, til heimilis að Laufrima 1, Reykjavík.

 

Sóknaraðili krefst þess að ákvörðun sýslumannsins á Vesturlandi um úthlutun uppboðsandvirðis vegna Indriðastaða 53, fastanr. 227-8166, verði breytt í samræmi við upphaflegt frumvarp að úthlutunargerð, dags. 1. mars 2018, þannig að sóknaraðila verði úthlutað 4.259.118 krónum. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar að mati dómsins.

 

Varnaraðilar krefjast staðfestingar á ákvörðun sýslumanns um að taka til greina mótmæli varnaraðila við frumvarpi hans að úthlutunargerð Indriðastaða 53. Krefjast þeir þess að frumvarpinu verði breytt á eftirfarandi veg: Aðallega að sóknaraðili fái úthlutað samtals 1.347.857 krónum. Til vara að sóknaraðili fái úthlutað 1.864.032 krónum. Til þrautavara að sóknaraðili fái úthlutað 2.135.118 krónum og til þrautaþrautavara að úthlutun til sóknaraðila verði lækkuð verulega. Þá krefjast varnaraðilar málskostnaðar að skaðlausu.

 

 

II.

Varnaraðilar sóttu í sameiningu um greiðsluaðlögun skv. lögum nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga með umsókn, dags. 28. desember 2010, sem móttekin var 29. sama mánaðar. Var umsókn varnaraðila samþykkt af umboðsmanni skuldara 5. ágúst 2011. Komst í kjölfarið á greiðsluaðlögunarsamningur 25. september 2012 og var greiðsluaðlögunartímabilið samkvæmt honum ákveðið 24 mánuðir. Við greiðsluaðlögunarumleitanir kom í ljós að til staðar var veðkrafa á hendur varnaraðilum frá sóknaraðila að fjárhæð 4.229.614 krónur með veði í Indriðastöðum 53, sem ekki hafði verið lýst. Var veðkrafa þessi tekin til greina í breyttu frumvarpi að greiðsluaðlögunarsamningi. Um er að ræða kröfu samkvæmt veðskuldabréfi, dags. 8. janúar 2007, sem upphaflega var gefið út til Indriðastaða ehf. (síðar Lendur ehf.), að fjárhæð 2.270.000 krónur. Varnaraðilar áttu að greiða skuldabréfið til baka á næstu 15 árum með 90 jöfnum greiðslum afborgana og vaxta á tveggja mánaða fresti. Til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu skuldarinnar var fasteignin Indriðastaðir 53 sett að veði. Skuldabréfið var síðar framselt 1. janúar 2009 til Láru Sandholt og síðan áfram til sóknaraðila hinn 30. mars 2009.

 

Í greiðsluaðlögunarsamningi varnaraðila var gert ráð fyrir því að hin veðsetta fasteign  Indriðastaðir 53 yrði seld á frjálsum markaði á fyrstu sex mánuðum greiðsluaðlögunartímabilsins. Þar sem hluti af veðkröfu sóknaraðila stóð utan matsverðs fasteignarinnar var enn fremur gert ráð fyrir því að varnaraðilar greiddu 14.873 krónur á mánuði upp í kröfu sóknaraðila frá og með 4. september 2012 til 4. ágúst 2014. Þá átti að ráðstafa af sparnaði varnaraðila til sóknaraðila eingreiðslu að fjárhæð 232.642 krónur hinn 4. september 2012. Hinn 13. júní 2014 samþykkti umboðsmaður skuldara beiðni varnaraðila um breytingu á greiðsluaðlögun. Var þá aftur gert ráð fyrir að fasteign varnaraðila yrði til sölu í sex mánuði frá gildistöku samningsins og að varnaraðilar greiddu nú 25.000 krónur upp í veðkröfu sóknaraðila þar til eignin yrði seld, en þó að hámarki í sex mánuði. Lengd greiðsluaðlögunartímabilsins var ákveðin 24 mánuðir frá því að breytingarnar voru gerðar, eða til 13. júní 2016. Greiðsluaðlögunarsamningnum var aflýst hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu hinn 3. júní 2016.

 

Varnaraðilum barst innheimtubréf frá Lögheimtunni, dags. 9. janúar 2015, þar sem skorað var á varnaraðila að greiða 3.163.345 krónur innan fimm daga frá dagsetningu bréfsins. Í bréfinu kom fram að krafan hefði verið í vanskilum frá 10. júlí 2009. Rúmum mánuði síðar, eða 17. febrúar 2015, sendi sóknaraðili sýslumanninum á Vesturlandi beiðni um nauðungarsölu og krafðist þess að umrædd fasteign varnaraðila yrði seld nauðungarsölu til lúkningar á skuldinni. Í beiðni sóknaraðila um nauðungarsölu var vísað til þess að varnaraðilar hefðu ekki staðið við greiðsluaðlögunarsamning nema að mjög litlu leyti og því nauðsynlegt að krefjast nauðungarsölu til fullnustu kröfunnar.

 

Varnaraðilar greiddu inn á kröfuna 800.000 krónur 25. ágúst 2015 og var beiðni sóknaraðila um nauðungarsölu afturkölluð í kjölfarið. Sóknaraðili sendi á ný beiðni um nauðungarsölu, dags. 22. desember 2015, og stóð þá krafan í kr. 5.397.348, að teknu tilliti til innborgana varnaraðila að fjárhæð 960.910 krónur. Varnaraðilar greiddu 400.000 krónur í júní 2016 og var nauðungarsölubeiðni sóknaraðila þá afturkölluð á ný. Enn á ný setti sóknaraðili fram beiðni um uppboð hinn 24. október 2017 og var þar vísað til greiðsluáskorunar sem birt var varnaraðilum 15. ágúst 2016. Var eignin síðan seld við nauðungarsölu sem fram fór hinn 5. febrúar 2018 þar sem sóknaraðili varð hæstbjóðandi með boð að fjárhæð 16.600.000 krónur.

 

Frumvarp sýslumannsins á Vesturlandi að úthlutunargerð uppboðsandvirðis var gefið út 1. mars 2018. Var þar gert ráð fyrir því að sóknaraðila, sem eiganda veðskuldabréfs á 3. veðrétti, yrði úthlutað 4.259.118 krónum upp í kröfu sína, sem samkvæmt kröfulýsingu nam 6.826.471 krónu. Með bréfi lögmanns varnaraðila, dags. 14. mars 2018, var komið á framfæri mótmælum við frumvarpinu. Voru aðilar í kjölfarið boðaðir til fundar á skrifstofu sýslumanns 16. apríl 2018 í samræmi við ákv. 52. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Var á þeim fundi bókuð í gerðabók fyrir nauðungarsölur sú ákvörðun sýslumannsins „að taka til greina mótmæli Þórðar Guðmundssonar við frumvarpi að úthlutunargerð frá 05.02.2018 að því er varðar forsendur útreiknings, kröfu um fyrningu, innheimtukostnað og kostnað við uppboð.“ Lýsti lögmaður sóknaraðila því þá yfir að ákvörðunin yrði borin undir héraðsdóm.

 

III.

Sóknaraði kveðst byggja á því að kröfur hans séu ekki fyrndar að neinu leyti. Varnaraðili hafi margoft viðurkennt kröfurnar í orði og verki. Þannig hafi hann greitt ítrekað inn á kröfuna á árunum 2014-2016. Krafan hafi og verið tekin upp í greiðsluaðlögunarsamninga varnaraðila, en þar hafi verið tekið fram að engar kröfur væru umdeildar. Í báðum þeim samningum hafi verið tekið fram að yrði sumarhúsið Indriðastaðir 53 ekki selt innan sex mánaða þá félli samningurinn úr gildi gagnvart veðhöfum.

 

Varðandi kostnað sé á það bent að uppboðsbeiðni sóknaraðila í máli þessu hafi verið sú þriðja í röðinni, en tvær hinar fyrri hafi verið afturkallaðar í samráði við þáverandi lögmenn varnaraðila í kjölfar innborgana á kröfuna. Vegna innheimtu kröfunnar og reksturs þessara uppboðsmála hafi stofnast til ýmiss útlagðs kostnaðar og þóknunar við innheimtu kröfunnar í samræmi við gjaldskrá.

 

Sóknaraðili hafni því að forsendum við útreikning kröfu hans sé í einhverju áfátt. Sé í því sambandi vakin athygli á því að varnaraðilar hafi ekki fyrr en nú gert neina athugasemd við kröfu hans, en fyrsta nauðungarsölubeiðnin vegna hennar hafi verið send til sýslumanns í febrúar 2015. Þá sé vakin athygli á því að enga tölulega útlistun sé að finna í mótmælum varnaraðila um það hvernig breyta eigi frumvarpi sýslumanns. Fari þetta í bága við ákvæði laga um nauðungarsölu nr. 90/1991. Vísist í því sambandi til dóms Hæstaréttar í máli nr. 776/2017.

 

Sóknaraðili vísar loks til þess að miðað við lýsta kröfu hans í uppboðsandvirðið standi rúmlega 2.567.000 krónur út af eftir úthlutunina. Jafnvel þótt engir vextir yrðu reiknaðir á kröfuna meðan varnaraðilar hafi verið í greiðsluskjóli og hvorki yrði reiknaður á hana lögmannskostnaður né réttargjöld teldi hann að lækkun kröfunnar yrði ekki slík að það myndi hafa áhrif á hina úthlutuðu kröfufjárhæð í upphaflegu frumvarpi.

 

IV.

Varnaraðilar mótmæla því að kröfur varnaraðila og ákvörðun sýslumannsins á Vesturlandi séu andstæðar ákvæðum laga nr. 90/1991 þar sem varnaraðilar hafi ekki leitast eftir tilteknum breytingum á hinu umþrætta frumvarpi sýslumanns. Í mótmælum varnaraðila hafi komið fram krafa um að upphaflegu frumvarpi yrði breytt þannig að dráttarvaxtakrafa sóknaraðila skv. 5. tölulið frumvarpsins yrði lækkuð verulega. Einnig hafi þess verið krafist að kröfum sóknaraðila um innheimtuþóknun og kostnað vegna uppboðs yrði aðallega hafnað, en til vara að þær yrðu lækkaðar verulega. Þegar mótmælin hafi verið tekin fyrir hjá sýslumanni hafi varnaraðilar lagt fram útreikninga kröfum sínum til stuðnings og hafi kröfur varnaraðila þar verið teknar til greina. Að öðru leyti vísist til kröfugerðar varnaraðila hér fyrir dómi.

 

Samkvæmt 5. tölulið upphaflega frumvarpsins hafi verið fyrirhugað að greiða til sóknaraðila vegna veðskuldabréfs sem hvíli á 3. veðrétti fasteignarinnar 4.259.118 krónur. Í kröfulýsingu sóknaraðila komi fram að gjaldfelldur höfuðstóll sé 2.609.003 krónur og dráttarvextir til 5. febrúar 2018 séu 4.768.237 krónur. Upphafstími dráttarvaxta komi ekki fram í kröfulýsingunni, en af fjárhæð kröfunnar megi mögulega ráða að miðað sé við þann dag þegar krafan hafi farið í vanskil, eða 10. júlí 2009.

Varnaraðilar byggi á því að kröfulýsing sóknaraðila uppfylli ekki skilyrði ákv. 2. mgr. 49. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu að því er varði þennan kröfulið. Því beri að fara með hana sem vanlýsta kröfu skv. 4. mg. 50. gr. sömu laga, þannig að engu verði úthlutað af söluverði vegna dráttarvaxta. Upphafstími dráttarvaxta sé ekki tiltekinn í kröfulýsingu, vaxtafótur sé ekki tilgreindur og ekki sé heldur vísað til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Í kröfulýsingu þurfi kröfur, þ.m.t. dráttarvaxtakröfur, að koma fram eins skýrt og unnt sé. Kröfugerð þurfi að vera nánast með sama hætti og í stefnu í einkamáli, sbr. d-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Byggi varnaraðilar á því að óskýrleika kröfunnar og allan vafa um lögmæti dráttarvaxtakröfu sóknaraðila beri að túlka varnaraðilum í hag.

 

Varnaraðilar vísi til þess að engin gögn er sýni útreikninga að baki dráttarvaxtakröfunni hafi fylgt kröfulýsingu sóknaraðila eða greinargerð hans í máli þessu. Þá sé umfjöllun sóknaraðila í greinargerð um ,,tölulegar staðreyndir vegna ágreiningsmálsins“ ekki studd neinum gögnum. Varnaraðilar bendi á að útreikningar sóknaraðila í greinargerð, þar sem höfuðstóll sé reiknaður með verðtryggingu og dráttarvextir reiknaðir í eitt ár áður en nauðungarsölubeiðni hafi verið send inn, hafa ekkert gildi, enda sé sóknaraðili bundinn af kröfulýsingu sinni. Í því felist að fyrir dómi verði ekki hafðar uppi auknar kröfur frá þeim kröfum sem gerðar hafi verið í kröfulýsingu. Sóknaraðili geti á hinn bóginn dregið úr kröfum fyrir dómi og bætt úr annmörkum á þeim á sama hátt og gera megi undir rekstri einkamáls eftir almennum reglum.

 

Þá sé þess í engu getið í kröfulýsingu sóknaraðila með hvaða hætti innborgunum varnaraðila hafi verið ráðstafað, en fyrir liggi að varnaraðilar hafi á tímabilinu 2014-2016 greitt samtals 1.360.910 krónur til sóknaraðila. Þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir varnaraðila hafi sóknaraðili ekki getað útskýrt með hvaða hætti innborgununum hafi verið ráðstafað. Krafa sóknaraðila um dráttarvexti sé því mjög óskýr og vanreifuð og beri því að hafna henni.

 

Varnaraðilar byggi á því að í dráttarvaxtakröfu sóknaraðila sé ekki tekið tillit til þess að varnaraðilar hafi verið í greiðsluskjóli frá 29. desember 2010 til 25. september 2012, auk þess sem dráttarvextir af skuld sem hafi verið eldri en fjögurra ára þegar kröfu hafi verið lýst séu fyrndir, sbr. 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Varnaraðilar hafi skv. 1. mgr. 11. gr., sbr. 1. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða, laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga, notið frestunar greiðslna á fyrrgreindu tímabili meðan umsókn þeirra um greiðsluaðlögun hafi verið til meðferðar eftir lögunum. Hafi frestun greiðslna byrjað og verið auglýst í Lögbirtingablaði við móttöku umsóknar varnaraðila um greiðsluaðlögun hinn 29. desember 2010 og lokið við gildistöku samningsins hinn 25. september 2013. Liggi fyrir dómur Hæstaréttar í máli nr. 159/2017 þar sem staðfest sé að lánardrottnum sé ekki heimilt að reikna dráttarvexti af skuldum á þeim tíma er einstaklingur sé í greiðsluskjóli samkvæmt lögum nr. 101/2010. Þrátt fyrir umræddan dóm Hæstaréttar hafi sóknaraðili ekki reiknað út dráttarvexti að nýju í samræmi við niðurstöðu hans og haldi fast við þá kröfu sína að upphaflegt frumvarp sýslumannsins á Vesturlandi verði lagt til grundvallar við úthlutun söluverðs fasteignarinnar.

 

Varnaraðilar bendi einnig á að frá 25. september 2012 til 13. júní 2016 hafi verið í gildi samningur milli varnaraðila og kröfuhafa fyrir milligöngu umboðsmanns skuldara um greiðsluaðlögun. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laga nr. 101/2010 hafi greiðsluaðlögun leitt til brottfalls skulda sem yrði skipað í skuldaröð samkvæmt 114. gr. laga um gjaldþrotaskipti ef bú skuldarans hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta, þ.m.t. krafna um dráttarvexti og kostnaðar af innheimtu kröfu. Þá hafi verið umsamið að veðkröfur skyldu á greiðsluaðlögunartímabili aðeins bera þá vexti, og eftir atvikum verðtryggingu, sem þær hefðu borið í skilum án tillits til gjalddaga. Greiðsluaðlögun hafi það í för með sér að krafa teljist ekki vanefnd þótt ekki sé greitt af henni í samræmi við umsamda greiðsluskilmála, sbr. 2. mgr. 21. gr. laga nr. 101/2010. Í greiðsluaðlögunarsamningnum hafi enn fremur verið tekið fram að vanskilaþáttur sem ekki fengist greiddur ætti að leggjast við ógjaldfallinn höfuðstól kröfunnar og lánstíminn ætti að lengjast sem því nemi til jafnlengdar þeim tíma sem greiðsluaðlögunin hafi staðið. Á greiðsluaðlögunartímabilinu, sem tekið hafi við í kjölfar breytinga á samningnum, hafi staðið til að umrædd fasteign yrði til sölu í sex mánuði frá gildistöku samningsins. Seldist eignin ekki á þeim tíma sem áætlaður hafi verið myndi samningurinn falla úr gildi gagnvart fasteignaveðhöfum, en héldi gildi sínu að öðru leyti. Greiðsluaðlögunarsamningurinn hafi því samkvæmt framangreindu verið í gildi gagnvart sóknaraðila til 13. desember 2014. Varnaraðili byggi á því að sóknaraðila sé því ekki heimilt að krefjast dráttarvaxta fyrir og á meðan greiðsluaðlögunarsamningur hafi verið í gildi með þeim hætti sem gert sé í kröfulýsingu, sbr. ákvæði greiðsluaðlögunarsamningsins, ákv. 21. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga, sem og 7. gr. laga nr. 38/2001.

 

Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 sé kröfuhafa heimilt að krefja skuldara um dráttarvexti og séu þeir almennt reiknaðir af ógreiddri peningakröfu frá og með gjalddaga fram að greiðsludegi hafi gjalddagi verið fyrirfram ákveðinn. Samkvæmt þessu eigi gjaldfallið lán að bera dráttarvexti frá og með þeim degi er gjaldfelling hafi tekið gildi, þ.e. þegar tilkynning þess efnis hafi borist skuldara. Í greiðsluáskorun sóknaraðila, dags. 3. ágúst 2016, sé vísað til ákvæðis skuldabréfsins um að skuldin öll sé í gjalddaga fallin án sérstakrar uppsagnar. Þegar mótmæli varnaraðila hafi verið tekin fyrir hjá sýslumanni hafi verið lagðir fram útreikningar á dráttarvöxtum miðað við að höfuðstóll skuldarinnar hafi verið gjaldfelldur hinn 3. ágúst 2016. Bendi varnaraðilar á að aðrir veðkröfuhafar reikni dráttarvexti af sinni kröfu með þeim hætti. Samkvæmt útreikningum varnaraðila nemi dráttarvextir fyrir tímabilið 3. ágúst 2016 til uppboðsdags hinn 5. febrúar 2018 samtals 516.175 krónum. Ef ekki verði á það fallist að hafna beri þessum kröfulið vegna dráttarvaxta í kröfulýsingu sóknaraðila sé þess krafist að hann lækki úr 4.768.237 krónum í 516.175 krónur samkvæmt framlögðum dráttarvaxtaútreikningum varnaraðila, sem engar athugasemdir hafi verið gerðar við, hvorki á fyrri stigum né í greinargerð sóknaraðila.

 

Varnaraðilar byggi á því að hafna beri þeim kröfulið, sem í kröfulýsingu sóknaraðila sé tilgreindur sem ,,innheimtuþóknun“ að fjárhæð 341.287 krónur, vegna óskýrleika, en til vara að lækka beri hann verulega. Hvorki í beiðni sóknaraðila um úrlausn dómsins né í greinargerð sóknaraðila sé rökstutt hvaða forsendur liggi að baki þessum kröfulið eða með hvaða hætti hann sé reiknaður út. Krafa sóknaraðila um innheimtuþóknun sé svo vanreifuð og ófullgerð að mati varnaraðila að hún uppfylli ekki skilyrði ákvæðis 49. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Nærtækast sé því að meðhöndla hana sem vanlýsta kröfu skv. 4. mgr. 50. gr. sömu laga.

 

Varnaraðilar vísi jafnframt til þess að við löginnheimtu sé óheimilt að áskilja sér endurgjald skv. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn af þeim hluta kröfu sem fallinn sé í gjalddaga vegna gjaldfellingar eftirstöðva skuldar sökum vanefnda á greiðslu afborgunar eða vaxta, sbr. 24. gr. a í sömu lögum. Upphaf löginnheimtu í málinu beri að miða við það þegar innheimtuaðgerðir hafi byrjað á grundvelli laga nr. 90/1991, þ.e. þegar greiðsluáskorun hafi verið send, sem hafi verið 3. ágúst 2016. Þá bendi varnaraðilar á að engin gögn liggi fyrir um að löginnheimta hafi verið í gangi af hálfu Lögheimtunnar ehf. frá marsmánuði 2012, eins og fullyrt sé í beiðni sóknaraðila til dómsins.

 

Að öðru leyti telji varnaraðilar að fjárhæð innheimtuþóknunar sé of há og að hún sé ósanngjörn og í engu samræmi við dómaframkvæmd. Sé þess krafist til vara að innheimtuþóknun verði lækkuð verulega og í því tilliti litið til fyrirliggjandi kröfulýsingar Arion banka hf. vegna láns á 1. veðrétti fasteignarinnar, þar sem lýst innheimtuþóknun sé 76.057 krónur vegna langtum hærri kröfu.

 

Varnaraðilar byggi og á því að hafna beri þeim kröfulið sem tilgreindur sé í kröfulýsingu sóknaraðila sem ,,kostnaður vegna uppboðs“ að fjárhæð 331.381 króna. Bendi varnaraðilar á að í kröfulýsingu sóknaraðila sé þar sérstaklega tilgreindur ýmiss kostnaður, sem að mati varnaraðila teljist óumdeildur og engar athugasemdir séu gerðar við. Þannig séu í kröfulýsingu taldir upp kröfuliðir á borð við ,,vanskila- og greiðslugjöld“, ,,uppboðsbeiðni“, ,,kröfulýsing“, ,,ritun greiðsluáskorunar“, ,,birting greiðsluáskorunar“ og  ,,veðbókavottorð“, sem samtals nemi 73.240 krónum. Með öllu sé hins vegar óljóst hvað falli undir þennan tiltekna kröfulið, sem nefndur sé ,,kostnaður vegna uppboðs“. Engin gögn sem skýrt geti fjárhæð þessa kröfuliðar í kröfulýsingu sóknaraðila hafi fylgt kröfulýsingu hans, svo sem áskilið sé í 49. gr. laga nr. 90/1991. Krafa sóknaraðila um kostnað vegna uppboðs teljist því að mati varnaraðila vanreifuð og beri að meðhöndla hana sem vanlýsta kröfu skv. 4. mgr. 50. gr. laga nr. 91/1991.

 

Í yfirliti yfir kostnað, sem sóknaraðili hafi lagt fram í málinu, komi fram að meginhluti þess kostnaðar sem hann krefjist sé vegna tveggja eldri beiðna um nauðungarsölu sem sendar hafi verið inn til sýslumanns á árinu 2015 en hafi verið afturkallaðar í kjölfar samkomulags sem komist hafi á milli aðila eftir innborganir varnaraðila. Varnaraðilar vísi til þess að í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991 segi að til peningakröfu skv. 1. mgr. ákvæðisins teljist innheimtukostnaður og kostnaður af kröfu, undanfarandi fullnustugerðum, nauðungarsölunni sjálfri og aðgerðum í tengslum við hana. Varnaraðilar telji með vísan til framangreinds að sóknaraðila sé ekki heimilt að fella undir þennan kröfulið kostnað vegna eldri nauðungarsölubeiðna sem afturkallaðar hafi verið.

 

Þá liggi fyrir að varnaraðilar hafi greitt til Lögheimtunnar ehf. samtals 1.360.910 krónur og óljóst sé hvernig þeirri fjárhæð hafi verið ráðstafað, þ.e. hvort henni hafi verið ráðstafað upp í útlagðan kostnað Lögheimtunnar ehf., vexti eða annan vanskilakostnað. Verði sóknaraðili að bera hallann af því að ekki liggi fyrir í málinu með hvaða hætti innborgunum varnaraðila hafi verið ráðstafað. Bendi varnaraðilar á að hinn veðhafinn geri í sinni kröfulýsingu, vegna skuldar á 1. veðrétti, kröfu um kostnað vegna uppboðs að fjárhæð 83.540 krónur. Krafa sóknaraðila sé því, að mati varnaraðila, ósanngjörn og langt umfram það sem tíðkist í málum af þessu tagi.

 

Varnaraðilar mótmæli að öðru leyti framkomnum málsástæðum sóknaraðila og telji að þær breyti í engu réttmæti krafna varnaraðila í málinu. Sóknaraðili virðist í málatilbúnaði sínum byggja á því að varnaraðilar hafi sýnt af sér tómlæti, þar sem í beiðni sóknaraðila um úrlausn dómsins sé „… vakin athygli á því að ekki hafa verið gerðar athugasemdir við kröfur sóknaraðila fyrr en nú …“ Varnaraðilar hafni því alfarið að hafa sýnt af sér tómlæti á nokkurn hátt. Sé meðal annars til þess að líta að dómur Hæstaréttar, um að kröfuhafa sé óheimilt að krefjast dráttarvaxta af kröfum á því tímabili sem einstaklingur hafi notið tímabundinnar frestunar greiðslna í úrræði greiðsluaðlögunar, hafi verið kveðinn upp 8. mars 2018. Þá sé til þess að líta að varnaraðilar hafi nýtt sér lögbundin rétt sinn sem gerðarþolar í nauðungarsölumáli til að koma á framfæri mótmælum við upphaflegt frumvarp sýslumannsins, sbr. 52. gr. laga nr. 90/1991.

 

Varnaraðilar taki loks fram að í 6. mgr. 49. gr. laga nr. 90/1991 segi að gerðarþoli þurfi ekki að lýsa kröfu um greiðslu þess sem kunni að standa eftir af söluverði að fullnægðum kröfum annarra. Varnaraðilar, sem þinglýstir eigendur fasteignarinnar og gerðarþolar í nauðungarsölumálinu, geri því tilkall til afgangs af söluverði eignarinnar.

 

V.

Eins og að framan er rakið var umrædd eign varnaraðilanna, Indriðastaðir 53, seld við nauðungarsölu 5. febrúar 2018 og var söluverðið 16.600.000 krónur. Sóknaraðili lýsti kröfu að fjárhæð 6.826.471 króna í söluandvirðið vegna veðskuldabréfs áhvílandi á 3. veðrétti eignarinnar. Í frumvarpi sýslumannsins á Vesturlandi að úthlutunargerð á söluverðinu, dags. 1. mars 2018, var 12.340.882 krónum af söluverðinu úthlutað til eiganda veðskuldabréfa á 1. og 2. veðrétti eignarinnar og einnig til greiðslu lögveðs og sölulauna. Eftirstöðvum söluandvirðisins að fjárhæð 4.259.118 krónur var síðan úthlutað til greiðslu upp í fyrrgreinda veðkröfu sóknaraðila. Varnaraðilar mótmæltu frumvarpi sýslumanns með bréfi, dags. 14. mars 2018, með svipuðum rökum og þeir byggja nú á í máli þessu. Kemur fram í lok bréfsins að þeir „krefjast þess því samkvæmt framangreindu að frumvarp sýslumannsins á Vesturlandi til úthlutunar söluverðs fasteignarinnar að Indriðastöðum 53, fastanúmer 227-8166, verði breytt þannig að dráttarvaxtakrafa Náttúru og heilsu ehf. samkvæmt 5. tölulið frumvarpsins verði lækkuð verulega. Einnig krefjast gerðarþolar þess að kröfur Náttúru og heilsu ehf. um innheimtuþóknun og kostnað vegna uppboðs verði aðallega hafnað er til vara lækkaðar verulega.“ Í samræmi við ákv. 52. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu boðaði sýslumaður aðila til fundar vegna mótmæla varnaraðila. Í endurriti fundargerðar sýslumanns af þeim fundi, sem haldinn var 16. apríl 2018, kemur fram að lögmaður varnaraðila, Þórður Guðmundsson, hafi á fundinum ítrekað þau mótmæli og rök sem fram komu í bréfinu en Pétur Kristinsson lögmaður, fulltrúi sóknaraðila, hafi hins vegar andmælt þeim. Síðan segir svo í bókun sýslumanns: „Sýslumaður tekur þá ákvörðun að taka til greina mótmæli Þórðar Guðmundssonar við frumvarpi að úthlutunargerð frá 05.02.2018 að því er varðar forsendur útreiknings, kröfu um fyrningu, innheimtukostnað og kostnað við uppboð. Pétur Kristinsson lýsir því yfir f.h. Leifs Árnasonar að ákvörðun sýslumanns verði borin undir dóm.“ Eins og fyrr segir var í framangreindu mótmælabréfi varnaraðila einungis gerð krafa til þess að dráttarvaxtakrafa sóknaraðila og krafa vegna innheimtuþóknunar og kostnaðar vegna uppboðs yrði „lækkuð verulega“ án þess að nein töluleg útlistun kæmi þar fram á því hvað í þeirri kröfugerð varnaraðilanna fælist gagnvart breytingum á frumvarpi sýslumanns. Þegar sýslumaður tók um það ákvörðun á umræddum fundi „að taka til greina mótmæli“ lögmanns varnaraðila við frumvarpi að úthlutunargerð fólst ekki í henni slík ákvörðun um tiltekna breytingu á frumvarpinu sem honum var skylt að taka, sbr. ákvæði 1. mgr. 52. gr. laga um nauðungarsölu, með hliðsjón af sundurliðuðum útreikningum og öðrum gögnum frá báðum málsaðilum. Lá því ekki fyrir nein ákvörðun um tilteknar breytingar á frumvarpi sýslumanns sem unnt var að bera undir héraðsdóm. Ber því þegar af þeirri ástæðu að vísa máli þessu sjálfkrafa frá dómi.

 

Málskostnaður fellur niður.

 

Ásgeir Magnússon dómstjóri kveður upp úrskurð þennan og var við uppkvaðningu hans gætt að ákv. 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá dómi.

 

Málskostnaður fellur niður.

                                                                                                Ásgeir Magnússon