• Lykilorð:
  • Aðild
  • Frávísun frá héraðsdómi
  • Vanreifun
  • Skuldamál

 

Ú R S K U R Ð U R

Héraðsdóms Vesturlands 7. mars 2017 í máli nr. E-75/2015:

                                                            Íslandsbanki hf.

                                                            (Margrét Ása Eðvarðsdóttir hdl.)

                                                            gegn

                                                            Árna Guðjóni Aðalsteinssyni

                                                            (Sjálfur)

 

I.

Mál þetta, sem dómtekið var 27. febrúar sl., er höfðað af Íslandsbanka hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík, með stefnu birtri 7. maí 2015 á hendur Árna Guðjóni Aðalsteinssyni, Fossabrekku 21, Ólafsvík.

 

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 509.386 krónur, ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af þeirri fjárhæð frá 6. maí 2014 til greiðsludags. Stefnandi krefst málskostnaðar samkvæmt mati dómsins.

 

Skilja verður kröfugerð stefnda, sem er ólöglærður og flytur mál sitt sjálfur, svo að hann krefjist þess að verða sýknaður af kröfu stefnanda. Hann krefst þess og að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að mati dómsins.

 

II.

Stefnandi lýsir málsatvikum þannig að hinn 10. júlí 2006 hafi stefndi tekið bifreiðina Ssangyoung Kyron, árg. 2006, fastnr. RJ-581, á kaupleigu með bílasamningi nr. 439307-001. Samningsverð hafi verið ákveðið að jafnvirði 2.782.708 krónur í erlendum myntum. Greiða hafi átt samninginn á 84 gjalddögum, 15. september 2006 til 15. ágúst 2013 og hafi mánaðarlegar greiðslur verið áætlaðar 40.207 krónur. Vanskil urðu á greiðslum 15. júní 2008 og þar sem stefndi sinnti ekki innheimtuviðvörun frá stefnanda, dags. 26. ágúst s.á., var kaupleigusamningnum rift 24. september s.á., með vísan til 14. gr. samningsins.

 

Bifreiðin var tekin úr vörslum stefnda hinn 30. apríl 2009. Bifreiðin var metin á 2.040.000 krónur, að frádregnum sölukostnaði að fjárhæð 73.540 krónur, kostnaði vegna viðgerða að fjárhæð 391.107 krónur og kostnaði lögmanns vegna innheimtu að fjárhæð 228.743 krónur. Matsverðið var því sagt vera 1.346.610 krónur. Stefndi mótmælti hins vegar þessu mati og var það því endurskoðað. Var bifreiðin þá metin á 2.680.0000 krónur, að frádregnum sölukostnaði að fjárhæð 73.540 krónur, kostnaði vegna viðgerða að fjárhæð 391.107 krónur og kostnaði lögmanna vegna innheimtu að fjárhæð 197.768 krónur. Var endurskoðað matsverð því 2.017.585 krónur og var stefnda send tilkynning þar um með bréfi, dags. 29. desember 2009.

 

Samningurinn var endurreiknaður 25. febrúar 2011 í samræmi við lög nr. 151/2010 um vexti og verðtryggingu og dóma Hæstaréttar annars vegar í málum nr. 92/2010 og 153/2010, uppkveðnum 16. júní 2010, og hins vegar í máli nr. 471/2010, sem kveðinn var upp 16. september 2010. Miðaðist endurútreikningurinn við almenna óverðtryggða vexti Seðlabanka Íslands frá undirritun samningsins. Voru eftirstöðvarnar, að frádregnu matsverði bifreiðarinnar, nú sagðar nema 1.360.144 krónum. Með bréfi stefnanda, dags. 25. febrúar 2011, var stefnda tilkynnt um endurútreikning samningsins og honum jafnframt boðið að gera upp eftirstöðvar hans með greiðslu á helmingi þeirrar fjárhæðar á allt að þremur árum gegn því að eftirstöðvar hans féllu niður að öðru leyti. Þar sem stefndi brást ekki við í kjölfarið var honum sent innheimtubréf 4. júlí s.á.

 

Þar sem stefndi brást enn ekki við höfðaði stefnandi mál á hendur stefnda með stefnu birtri hinn 16. september 2011. Stefnandi felldi það mál hins vegar niður 20. desember 2012 og kemur fram í stefnu að það hafi verið gert þar sem nýir dómar Hæstaréttar hafi gefið til kynna að endurútreikningur sá sem stefnandi hefði framkvæmt væri ekki endanlegur og því þyrfti að endurreikna samninginn á nýjan leik. Það hafi verið gert hinn 6. maí 2014, í samræmi við lög nr. 151/2010 og niðurstöður dóma Hæstaréttar í málum nr. 600/2011 og 464/2012, um gildi fullnaðarkvittana. Hafi niðurstaða hins nýja endurútreiknings orðið sú að eftirstöðvar samningsins væru 509.386 krónur, en það sé stefnufjárhæð máls þessa. Var mál þetta síðan höfðað með stefnu birtri 7. maí 2015, eins og áður segir, en stefndi hafði þá í engu sinnt innheimtubréfi stefnanda, dags. 18. mars s.á.

 

Stefndi vísar meðal annars til þess að hann telji sig ekki hafa átt í neinum viðskiptum við stefnanda máls þessa. Þá hafi fyrra mál sem stefnandi hafi höfðað á hendur honum verið fellt niður 11. desember 2012 án nokkurs fyrirvara. Sé skuld hans vegna umrædds kaupleigusamnings af þeim sökum fyrir löngu niður fallin, en að öðrum kosti vegna tómlætis stefnanda.

 

Niðurstaða

Í stefnu kemur fram að Íslandsbanki hf., kt. 491008-0160, vegna Ergo fjármögnunarþjónustu Íslandsbanka hf., höfði mál þetta á hendur stefnda til heimtu eftirstöðva samkvæmt kaupleigusamningi stefnda um tilgreinda bifreið, dags. 10. júlí 2006. Í stefnunni er þess hins vegar í engu getið hver verið hafi gagnaðili samningsins, en í samningnum sjálfum kemur fram að leigusalinn hafi verið Glitnir hf., kt. 490503-3230, og má sjá neðst á samningnum að Glitnir hf. sé skráð vörumerki í eigu Íslandsbanka hf., kt. 550500-3530. Eigi að síður er mál þetta höfðað af Íslandsbanka hf., kt. 491008-0160, eins og fyrr segir, án þess að í stefnu sé nokkuð að því vikið hvernig það félag hafi eignast fjárkröfu á hendur stefnda samkvæmt umræddum kaupleigusamningi.

 

Samkvæmt e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber að greina í stefnu svo glöggt sem verða má málsástæður sem stefnandi byggir málsókn sína á, svo og önnur atvik sem þarf að geta til þess að samhengi málsástæðna verði ljóst. Meðal þeirra atriða sem þarf að lýsa er aðild máls ef aðilaskipti hafa orðið að kröfu, en varnir stefnda geta meðal annars ráðist af atriðum sem að því lúta. Samkvæmt framansögðu uppfyllti stefna í málinu ekki þessar kröfur. Þar sem ekki hefur heldur verið úr þessu bætt undir rekstri málsins eru svo verulegir annmarkar á málatilbúnaði stefnanda að vísa ber málinu frá dómi.

 

Með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað. Við ákvörðun fjárhæðar hans verður meðal annars litið til þess að stefndi flutti mál sitt sjálfur en naut ekki aðstoðar lög­manns. Þegar málið er virt og áætlaður útlagður kostnaður stefnda þykir hæfilegt að stefnandi greiði honum 100.000 krónur í máls­kostnað.

 

Ásgeir Magnússon dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.                                                                                                                                                                               

 

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá dómi.

 

Stefnandi, Íslandsbanki hf., greiði stefnda, Árna Guðjóni Aðalsteinssyni, 100.000 krónur í málskostnað.

 

                                                                                    Ásgeir Magnússon