• Lykilorð:
  • Tómlæti
  • Vinnulaun

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Vesturlands 2. maí 2019 í máli nr. E-129/2017:

Gauti Halldórsson

(Daníel Isebarn Ágústsson lögmaður)

gegn

Hval hf.

(Stefán A. Svensson lögmaður)

 

I.

Mál þetta, sem dómtekið var 6. mars sl., er höfðað af Gauta Halldórssyni, Hlíðarbæ 20, 301 Akranesi, á hendur Hval hf., Miðsandi, 301 Akranesi.

 

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi:

Að viðurkennt verði að stefnandi eigi kröfu um að stefndi greiði stefnanda eftirfarandi vegna vinnu fyrir stefnda á árinu 2014:

1)      Tvo þriðju hluta (2/3) af sérstakri greiðslu samkvæmt ráðningarsamningi aðila fyrir vakt sem stefnandi vann.

2)      Vikulegan frídag sem nemur 8 klukkustundum í dagvinnu fyrir hvern vikulegan frídag sem stefnandi fékk ekki.

Í öllu tilvikum krefst stefnandi þess að viðurkennd verði skylda stefnda til að greiða stefnanda dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af vangoldnum greiðslum vegna hvalvertíðar 2014 frá gjalddaga hverrar vangoldinnar greiðslu til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.

 

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.

 

II.

Stefnandi starfaði hjá stefnda á hvalvertíð árið 2014. Almennt rituðu starfsmenn undir ráðningarsamninga í byrjun hverrar hvalvertíðar, en ekki liggur fyrir í málinu undirritaður ráðningarsamningur milli aðila. Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. slíks ráðningarsamnings skyldi almennt unnið á 12 tíma vöktum, en í reynd var þó unnið á 8 tíma vöktum samkvæmt samkomulagi aðila og stefnanda því greitt 8/12 af umsaminni  fjárhæð fyrir hverja vakt.

 

Lögmaður stéttarfélags stefnanda, Verkalýðsfélags Akraness, sendi stefnda bréf, dags. 15. september 2015, „fyrir hönd þeirra starfsmanna Hvals hf. sem vinna á hvalvertíð, sumar og haust á ári hverju“, þar sem þess var krafist að laun yrðu leiðrétt afturvirkt vegna svokallaðrar „sérstakrar greiðslu“ og „bónuss“. Bréfinu var svarað af Samtökum atvinnulífsins, f.h. stefnda, 22. október sama ár, og kom þar m.a. fram að launagreiðslur stefnda væru í samræmi við ráðningar- og kjarasamning. Einn fyrrverandi starfsmaður stefnda á hvalvertíð höfðaði mál gegn stefnda í byrjun árs 2016, m.a. vegna ágreinings aðila um uppgjör á slíkum greiðslum sem um er deilt í máli þessu vegna vinnu hans á því ári. Var dómur í því máli kveðinn upp 28. júní 2017, þar sem fallist var á forsendur kröfugerðar stefnanda sem samsvara forsendum kröfugerðar stefnanda í máli þessu að því er varða hina sérstöku greiðslu, sem krafa stefnanda samkvæmt kröfulið 1) í máli þessu lýtur að. Hins vegar var í dóminum tekið fram að gegn mótmælum stefnanda yrði við úrlausn málsins ekki horft til þeirrar málsástæðu stefnda að stefnandi hefði firrt sig rétti til að gera athugasemdir við vangreiðslu kröfunnar vegna tómlætis, þar sem hún væri of seint framkomin. Eftir að stefnandi höfðaði mál það sem hér er til meðferðar staðfesti Hæstiréttur framangreinda niðurstöðu með dómi uppkveðnum 14. júní 2018, í máli nr. 594/2017. Jafnframt komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að hvíldartími starfsmannsins samkvæmt gr. 2.4.3 í kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambands Íslands hefði verið skertur um fimm daga og þó ekki væri gert ráð fyrir að umræddir frídagar væru launaðir hefði verið ljóst að stefndi hefði borið ábyrgð á að starfsmaðurinn fengi þá lágmarkshvíld sem í kjarasamningi greindi. Þar sem stefndi hefði ekki gert það var honum gert að greiða starfsmanninum dagvinnulaun vegna þeirra daga.

 

Við aðalmeðferð málsins voru skýrslur teknar af stefnanda, forsvarsmanni stefnda, Kristjáni Loftssyni, og vitnunum Vilhjálmi Birgissyni, Guðmundi Steinbach, Sæmundi Rúnari Þorgeirssyni og Halldóri R. Lárussyni.

 

III.

Stefnandi vísar til þess að þrátt fyrir niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 594/2017, varðandi þann ágreining sem uppi hafi verið um hina sérstöku greiðslu samkvæmt ráðningarsamningi aðila og greiðslu fyrir vikulega frídaga samkvæmt kjarasamningi, hafi stefndi ekki greitt stefnanda í samræmi við það.

 

Stefnandi eigi í fyrsta lagi rétt á því samkvæmt gildandi kjarasamningi að fá sérstaka greiðslu fyrir hverja unna vakt. Þar sem stefndi hafi ekki greitt stefnanda samkvæmt þessu skuldi hann stefnanda eina sérstaka greiðslu fyrir hverja einustu vakt sem stefnandi hafi unnið fyrir stefnda. Stefnandi eigi og rétt á einum vikulegum frídegi á hverju sjö daga tímabili skv. gr. 2.4.3 í kjarasamningi. Hver og einn vangoldinn frídagur nemi dagvinnulaunum í 8 klst., eða sem nemi einu raunverulegu vaktakaupi, 2/3 af vaktagreiðslu á virkum dögum samkvæmt kjarasamningi.

 

Kröfur stefnanda um greiðslur hafi fallið í gjalddaga á fyrirfram ákveðnum dögum í samræmi við ráðningarsamning og kjarasamning. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu eigi stefnandi rétt á því að stefndi greiði dráttarvexti af þeim fjárhæðum sem stefndi hefði átt að greiða á tilteknum gjalddögum en gerði ekki. Dráttarvextirnir skuli reiknast af ógreiddum peningakröfum frá og með gjalddaga fram að greiðsludegi.

 

Stefnandi tekur fram, vegna staðhæfinga stefnda um tómlæti, að stefnandi hafi verið grunlaus um að hann væri ekki að fá greitt í samræmi við ráðningarsamning og kjarasamning. Erfitt hafi verið að átta sig á sundurliðun greiðslna á launaseðli og meta hvort hann væri að fá rétt útborgað. Verkalýðsfélagið á Akranesi hafi vegna stefnanda og annarra þeirra félagsmanna sem unnið hafi hjá stefnda sent stefnda bréf, dags. 15. september 2015, þar sem krafist hafi verið leiðréttingar á launum félagsmannanna. Sé því ljóst að meint tómlætisáhrif geti aldrei hafa byrjað fyrr en í fyrsta lagi þá. Þá sé ljóst að um lágmarksréttindi starfsmanna sé að ræða, sbr. gr. 2.4.3 í kjarasamningi og 54. gr. laga nr. 46/1980.

 

IV.

Stefndi byggir á því að stefnandi hafi glatað kröfum sínum sakir tómlætis. Því eldri sem meint kröfuréttindi séu og því lengur sem stefnandi hafi unnið hjá stefnda þeim mun meira sé tómlæti stefnanda. Stefnandi hafi unnið hjá stefnda á árinu 2014 og samkvæmt umþrættu fyrirkomulagi án þess að hafa haft í frammi neinar viðbárur vegna þess sem um sé deilt. Sé því hvers konar meintur réttur hans niður fallinn.

 

Ljóst sé að bréf sem lögmannsstofa hafi sent stefnda, fyrir hönd Verkalýðsfélags Akraness, breyti engu um framangreind tómlætisáhrif. Þannig breyti það engu um þau réttindi sem þegar teljist hafa verið niður fallin vegna tómlætis á þeim tíma sem bréfið hafi verið ritað. Í annan stað sé þess að gæta að stefndi hafi hafnað þeim kröfum sem settar hafi verið fram í bréfinu án þess að stefnandi hafi brugðist sérstaklega við því, svo sem honum hefði borið að gera. Því til viðbótar setji stefndi fyrirvara við það að slíkt bréf, sem sent sé fyrir hönd ótilgreindra félagsmanna, geti rofið tómlæti. Þá geti stefnandi í þessu sambandi ekki skákað í skjóli málshöfðunar annars launþega, s.s. ráða megi af réttarframkvæmd. Stefndi bendi og á að framangreint bréf hafi verið takmarkað við tilgreinda kröfuliði og hin eftirfarandi málshöfðun hafi verið bundin við árið 2015. Séu hvers konar réttarverkanir af bréfinu, séu þær þá einhverjar, í öllu falli takmarkaðar við þetta.

 

Stefndi vísar til þess að allan þann tíma sem stefnandi hafi unnið fyrir stefnda hafi hann engar athugasemdir gert við útborguð laun, frekar en aðrir. Það geti því ekki verið neinum vafa undirorpið að stefnandi hafi fyrirgert hvers konar hugsanlegum rétti til umkrafinna greiðslna vegna tómlætis.

 

V.

Eins og rakið er í kafla II hér að framan var með dómi Hæstaréttar uppkveðnum 14. júní 2018, í málinu nr. 594/2017, fallist á þann hluta kröfugerðar fyrrverandi starfsmanns stefnda á hvalvertíð er laut annars vegar að hinni sérstöku greiðslu samkvæmt ráðningarsamningi aðila vegna vakta, sbr. kröfulið 1) í máli þessu, og hins vegar að greiðslu vegna vikulegra frídaga samkvæmt kjarasamningi, sem stefnandi fékk ekki, sbr. kröfulið 2) í máli þessu. Var og í dóminum staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að ekki yrði við úrlausn málsins horft til þeirrar málsástæðu stefnda að stefnandi hefði firrt sig rétti til að gera athugasemdir við vangreiðslu kröfunnar vegna tómlætis, þar sem krafa þar um hefði komið of seint fram undir rekstri málsins.

 

Stefnandi höfðaði mál þetta í kjölfar uppkvaðningar framangreinds héraðsdóms, eða hinn 21. júlí 2017, en endanleg kröfugerð hans, sbr. kröfuliði 1) og 2), tekur mið af niðurstöðu Hæstaréttar í framangreindu máli nr. 594/2017. Krefst stefnandi viðurkenningar á því að stefnda beri að greiða honum vangoldin laun og tengdar greiðslur, sbr. kröfuliði 1) og 2), vegna starfa hans í þágu stefnda á hvalvertíð á árinu 2014. Lýtur ágreiningur aðila máls þessa einungis að því hvort kröfur stefnanda á hendur stefnda vegna umræddra tveggja kröfuliða á framangreindu tímabili séu fallnar niður sökum tómlætis stefnanda við að halda þeim fram.

 

Við úrlausn þess hvort stefnandi hafi sýnt af sér slíkt tómlæti við að fylgja eftir launakröfum sínum gagnvart stefnda að hann hafi þar með fyrirgert rétti sínum til þeirra er fyrst til þess að líta að ekkert er fram komið um það að stefnandi hafi á starfstíma sínum hjá stefnda á árinu 2014 gert nokkrar athugasemdir við launayfirlit sín og launaseðla. Var það fyrst með kröfubréfi stéttarfélags stefnda, dags. 15. september 2015, sem krafist var leiðréttingar á vangreiðslu stefnda á umræddum launagreiðslum til þeirra félagsmanna „sem vinna á hvalvertíð, sumar og haust á ári hverju.“ Stefndi hafnaði hins vegar þeirri kröfu 22. október sama ár og liðu í kjölfarið tæplega tvö ár þar til stefnandi fylgdi sjálfur kröfum sínum eftir með höfðun máls þessa hinn 21. júlí 2017. Voru þá liðin tæplega þrjú ár frá því stefnandi lét af störfum hjá stefnda á árinu 2014 þar til hann fylgdi kröfum sínum eftir með höfðun máls þessa hinn 21. júlí 2017. framangreindu virtu, og óháð því hvort stefnandi hafi átt rétt til þeirra greiðslna sem um er deilt, verður á það fallist með stefnda að stefnandi hafi vegna tómlætis fyrirgert rétti sínum til ætlaðra vangoldinna launa. Verður engu talið breyta í því tilliti, með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í máli nr. 370/1989 og máli nr. 182/2006, þótt stefnandi hafi beðið niðurstöðu fyrrgreinds dóms Héraðsdóms Vesturlands í máli nr. E-6/2016. Verður stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnanda.

 

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

 

Ásgeir Magnússon dómstjóri kveður upp dóm þennan, en við uppkvaðningu hans var gætt ákv. 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Dómsorð:

Stefndi, Hvalur hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Gauta Halldórssonar.

 

Málskostnaður fellur niður.

                                                                                                Ásgeir Magnússon