• Lykilorð:
  • Skiptastjóri
  • Hjón - Útlagning eignar
  • Slit á fjárfélagi hjóna

 

Ú R S K U R Ð U R

Héraðsdóms Vesturlands 13. mars 2019 í máli nr. Q-2/2018:

A

(Hjördís E. Harðardóttir lögmaður)

gegn

B

                                                (Þorbjörg I. Jónsdóttir lögmaður)

 

I.

Mál þetta barst héraðsdómi með bréfi skiptastjóra mótteknu 19. september 2018 vegna fjárskipta B..., ..., ..., og A..., ..., .... Var málið þingfest 2. október sl. en tekið til úrskurðar að lokinni aðalmeðferð 13. febrúar sl.

 

Sóknaraðilinn A... gerir í málinu eftirgreindar dómkröfur:

  1. Að útlagningarrétti varnaraðila að jörðinni ... verði hafnað og jörðin sett í almenna sölu.
  2. Að séreignarlífeyrisréttindi sóknaraðila í Allianz að fjárhæð 1.866.000 krónur komi ekki undir fjárskipti milli aðila.
  3. Að hvor aðili um sig taki við námsláni á nafni hvors um sig við Lánasjóð íslenskra námsmanna og komi lánin þannig ekki til frádráttar hjúskaparskuldum þeirra.
  4. Að yfirdráttarskuld varnaraðila komi ekki til frádráttar hjúskaparskuldum hennar.
  5. Að varnaraðili taki taki ein þátt í kostnaði varnaraðila vegna reksturs frístundabúskapar að ..., svo og vegna meints vinnuframlags varnaraðila á jörðinni ..., hvoru tveggja eftir viðmiðunardag skipta 20. febrúar 2017.
  6. Að varnaraðili greiði sóknaraðila leigu að fjárhæð 100.000 krónur vegna búsetu varnaraðila á jörðinni ... frá viðmiðunardegi skipta fram að uppgjörsdegi aðila við skiptin.

 

Þá krafðist sóknaraðili þess við aðalmeðferð málsins að dómkröfum varnaraðila nr. 7 og 8 yrði vísað frá dómi.

Sóknaraðili krefst og málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

 

Varnaraðilinn B... gerir í málinu eftirgreindar dómkröfur:

  1. Að henni verði lögð út jörðin ....
  2. Að við fjárslitin verði lagt til grundvallar að séreignarlífeyrisréttindi sóknaraðila í Allianz komi til skipta.
  3. Að hvor um sig beri áfram ábyrgð á skuldbindingum hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna og á yfirdrætti á reikningi nr. ... og að tekið verði tillit til þeirra við skiptin. Þá er þess krafist að tekið verði tillit til áfallins vaxtakostnaðar.
  4. Að við fjárslitin verði lagt til grundvallar að aðilar beri að jöfnu allan kostnað við rekstur búskapar að ... frá samvistarslitum í október 2016, en til vara frá viðmiðunardegi skipta hinn 20. febrúar 2017. Þá krefst varnaraðili þess jafnframt að aðilar eigi að jöfnu rétt til allra tekna af búskapnum frá samvistarslitum í október 2016, en til vara frá viðmiðunardegi.
  5. Að hafnað verði kröfu sóknaraðila um greiðslu leigu vegna búsetu hennar á jörðinni. Til vara er þess krafist að umkrafin fjárhæð verði lækkuð verulega.
  6. Að við fjárskiptin verði tekið tillit til vinnuframlags varnaraðila við umhirðu og vörslur eigna búsins þannig að hún fái greitt af eignum búsins kr. 5.755.247 umfram sóknaraðila. Til vara er þess krafist að dómari ákveði fjárhæð að álitum.
  7. Að lagt verði til grundvallar við fjárskiptin að lausafé sem fjarlægt var af sóknaraðila og öðrum aðilum úr skemmu að ... hinn 6. september 2017 skuli koma til skipta.
  8. Að lagt verði til grundvallar við fjárskiptin að verkfæri sem fjarlægð voru af sóknaraðila frá ... eftir samvistarslit skuli koma til skipta.

Varnaraðili krefst og málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að mati dómsins.

 

II.

Aðilar voru í sambúð frá október 1987, en gengu í hjónaband 4. júlí 1992. Þau bjuggu saman á jörðinni ... í ... frá árinu 1996. Þau eignuðust þrjú börn, það elsta er fætt ... en það yngsta árið .... Sóknaraðili hefur frá árinu 2000 starfað hjá ... en varnaraðili hefur starfað sem .... Þau héldu sauðfé á jörðinni og varnaraðili hélt þar nokkurn fjölda hrossa. Samvistaslit urðu í október 2016 og hefur varnaraðili búið á jörðinni síðan ásamt yngsta syni þeirra. Sóknaraðili fór fram á skilnað hinn 20. febrúar 2017. Þar sem ekki tókst samkomulag með þeim um skiptingu eigna og skulda í kjölfarið fór sóknaraðili fram á opinber skipti 22. júní sama ár. Hinn 6. september 2017 var kveðinn upp úrskurður Héraðsdóms Vesturlands um opinber skipti til fjárslita milli aðilanna og D... lögmaður skipaður skiptastjóri. Telst viðmiðunardagur skipta 22. júní 2017. Lögskilnaðarleyfi var gefið út 20. október 2017.

 

Fram kemur í bréfi skiptastjóra að haldnir hafi verið fimm skiptafundir í búinu, sá síðasti 11. júlí sl. Á þeim fundi hafi hann lagt fram tillögur um fjárslit aðilanna, sem hann hefði áður verið búinn að senda lögmönnum þeirra til kynningar. Hafi tillögurnar verið ræddar og bókað þar að sóknaraðili gæti samþykkt tillögurnar með þeim fyrirvörum að varnaraðili gæti annars vegar leyst til sín jörðina ... á útlagningardegi og hins vegar að varnaraðili myndi samþykkja tillögurnar í heild sinni. Af hálfu varnaraðila hafi verið bókað að hún gæti ekki samþykkt tillögurnar. Með því hafi skiptastjóri talið ljóst að ekki næðust sættir í málinu og því óskað eftir að aðilarnir settu fram sínar kröfur í málinu. Samkvæmt bókun í fundargerð séu kröfur aðila eftirfarandi:

„Kröfugerð A... snýr að eftirfarandi atriðum:

  1. A... gerir þá kröfu að útlagningarrétti B... verði hafnað og jörðin .... verði sett í almenna sölu. B... krefst þess að hún fái útlagningu jarðarinnar skv. tillögum skiptastjóra. B... telur sig hafa forkaupsrétt að eigninni.   
  2. A... gerir þá kröfu að séreignarlífeyrisréttindi í Allianz, að fjárhæð kr. 1.866.000 komi ekki undir skiptin. Krafa B... er sú að þessi réttindi komi til skipta þar sem þau séu með endurkaupsvirði og að réttindin falli undir helmingaskiptareglu hjúskaparlaga.
  3. A... gerir þá kröfu að hvor aðili um sig taki við námsláni á nafni hvors um sig og lánin komi því ekki til frádráttar hjúskaparskuldum þeirra við fjárskiptin. B... hafnar þessu þar sem um sameiginlegar skuldir sé að ræða og eigi sem slíkar að lúta helmingaskiptareglunni.
  4. A... krefst þess að yfirdráttarskuld B... komi ekki til frádráttar hjúskaparskuldum hennar þar sem hún sé tilkomin vegna ... hennar og þar sem B... hefur farið fram á að tækjabúnaði vegna ... sé haldið utan skipta.  Skuldin eigi því ekki að falla undir skiptin. B... mótmælir þessu þar sem um sameiginlega skuld sé að ræða og eigi því sem slík að falla undir skiptin. Jafnframt gerir hún kröfu um að vaxtakostnaður yfirdráttarláns falli undir skiptin.
  5. A... gerir þá kröfu að við fjárskiptin taki B... ein þátt í kostnaði B... vegna frístundabúskapar að ... svo og vegna vinnuframlags á jörðinni, hvorutveggja eftir viðmiðunardag 20. febrúar 2017. Um órökstuddar kröfur sé að ræða vegna kostnaðar sem A... hafi ekki samþykkt að stofna til og svo hafi verið stofnað til umræddra skulda eftir viðmiðunardag skipta. Þessu er mótmælt af hálfu B... og þess krafist að þeir reikningar sem B... hefur þegar lagt fram vegna rekstrar búsins, og hafi þegar verið samþykktir af skiptastjóra, og reikningar vegna kostnaðar sem falla munu til síðar vegna rekstrarins verði samþykktir. 
  6. A... krefst þess að við fjárskipti aðila greiði B... honum húsaleigu vegna ... frá viðmiðunardegi, n.t.t. kr. 100.000 á mánuði frá 1. mars 2017 fram að uppgjörsdegi aðila við skiptin. A... setur kröfu sína fram sem endurgjaldskröfu skv. 2. mgr. 106. gr. laga nr. 20/1991. B... gerir þá kröfu að þessari kröfu A... verði hafnað.

 

Kröfugerð B... snýr að eftirfarandi atriðum:

  1. B... gerir kröfu þess efnis að krafa hennar um greiðslu að fjárhæð kr. 3.960.000 vegna vinnuframlags hennar við rekstur búsins verði greiddur skv. yfirliti sem hún hefur lagt fram til skiptastjóra. Jafnframt er krafist áfallandi kostnaðar vegna sama atriðis. 
  2. B... gerir þá kröfu að reikningar þeir sem skiptastjóri fellst ekki á í tillögum sínum, sbr. liður III. g. iii. (bls. 6), verði teknir til greina við skiptin.
  3. B... gerir þá kröfu að lagt verði fyrir skiptastjóra að ganga á eftir skilum á eða greiðslu fyrir muni sem eru tilgreindir í lið III.k. í tillögum skiptastjóra.
  4. B... gerir kröfu um að verkfæri sem A... tók með sér og séu eign búsins verði metin inn í skiptin.
  5. B... gerir kröfu þess efnis að inn í skiptin komi búrekstur ... frá 19. október 2016 til 20. febrúar 2017 þar sem um sameiginlegan rekstur sé að ræða og A... fer með talsverðan hagnað út úr búinu.“

 

Við aðalmeðferð málsins gáfu báðir aðilar skýrslu ásamt vitninu E....

 

III.

Málsástæður sóknaraðila

1. Útlagning fasteignar

Sóknaraðili byggir á því að skilyrði útlagningar til varnaraðila séu ekki fyrir hendi, með vísan til 110. gr. og 111. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Samkvæmt þeim lögum sé forsenda útlagningar sú að sýnt þyki að hvorugur aðilinn fái meira í sinn hlut með þeim hætti en hann muni eiga rétt á að endingu, sbr. 1. mgr. 110. gr. laganna. Útlagning til varnaraðila gangi því ekki upp, enda sé jörðin verðmætasta eign búsins og ljóst að ef henni yrði úthlutað til varnaraðila fengi varnaraðili mun meira í sinn hlut við skiptin. Samkvæmt tillögum skiptastjóra nemi hlutur sóknaraðila í jörðinni að frádregnum áhvílandi skuldum rúmlega átján milljónum króna. Framangreind meginregla skiptalaga komi enn skýrar fram í 3. mgr. 110. gr., en þar segi að skiptastjóri geti gefið aðilum kost á að fá útlagðar eignir sem séu í sameign aðila, enda sé verðmæti eignanna innan marka þess sem aðilinn eigi enn rétt á að fá í sinn hlut, skv. 3. og 4. mgr 109. gr. laganna. Að mati sóknaraðila verði ekki fram hjá þessum lagaákvæðum í 110. gr. komist. Varnaraðili geti ekki fengið eign sem sé umfram það sem hún eigi rétt á við skiptin. 

 

Sóknaraðili byggi og á því að varnaraðili hafi ekki meiri þörf fyrir jörðina en hann, í skilningi 108. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 og 3. mgr. 110. gr. laga nr. 21/1991.  Aðilar hafi báðir verið útivinnandi frá jörðinni og geti varnaraðili fullvel sinnt ... annars staðar frá og verið búsett annars staðar á svæðinu eða í þéttbýli í ..., enda sé hún ekki með ... á jörðinni. Þá krefjist umönnun hrossa á engan hátt viðveru á jörðinni sem slíkri. Einnig sé til þess að líta að sonur aðila verði ... á yfirstandandi ári. Hann stundi nám í ... og sé því engin þörf fyrir hann að búa á jörðinni með móður sinni. Sóknaraðili eigi rætur á staðnum, enda alinn upp á ..., og standi því honum nær að taka við jörðinni.

 

Á því sé og byggt að varnaraðili fullnægi ekki skilyrðum til þess að leysa jörðina til sín, enda hafi hún ekki sýnt fram á að hún geti reitt fram hluta sóknaraðila í jörðinni með peningagreiðslu. Sé í því sambandi á það bent að sóknaraðili hafi verið tilbúinn að ganga að tillögu skiptastjóra hinn 5. júlí 2018 að því gefnu að varnaraðili gæti greitt út jörðina, en það hafi ekki gengið eftir, sbr. bókun á skiptafundi. Sóknaraðili telji fullreyndar tilraunir varnaraðila til að leysa til sín eignina og byggi á því að skiptastjóra sé skylt að koma eignum búsins í verð og ljúka þannig skiptum, sbr. 2. mgr. 111. gr., sbr. 70. gr. sömu laga.  Eina leiðin nú sé að selja jörðina frjálsri sölu. 

 

2. Séreignarlífeyrisréttindi

Aðilar hafi náð samkomulagi um að halda hvort um sig almennum sameignarlífeyrisréttindum, enda svipað á komið með þeim varðandi réttindi í þeim sjóðum. Þá hafa þau náð samkomulagi um að skipta með sér sparnaðarinneign hjá Friends Provident og Sun Life, þrátt fyrir að sóknaraðili hafi einn greitt inn á sparnaðinn. Hins vegar séu réttindi sóknaraðila í Allianz-sjóðnum viðbótarlífeyris­sparnaður sóknaraðila, en ekki sparnaðarform með líftryggingu, eins og hjá Friends og Sun Life. Sé á því byggt að réttindi sóknaraðila í Allianz séu persónubundin réttindi hans sem hann hafi myndað annars vegar með sínu framlagi af launum og hins vegar með framlagi vinnuveitanda samkvæmt heimild í lögum nr. 129/1997. Á engan hátt sé hægt að halda því fram að ósanngjarnt sé að halda þessum réttindum utan skipta. Sóknaraðili hafi kosið að nýta sér þetta sparnaðarform, með framlagi vinnuveitanda, og hefði varnaraðila verið í lófa lagið að gera slíkt hið sama. Ekki sé um að ræða lífeyrisréttindi með endurkaupsvirði í skilningi 2. tl. 1. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Sé í því samhengi vísað til Landsréttardóms nr. 514/2018 þar sem því hafi verið slegið föstu, að virtum ákvæðum laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, að séreignarsparnaður yrði eftir 1. janúar 2015 ekki talin lífeyrisréttindi sem hefðu endurkaupsvirði í skilningi 2. tl. 1. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga. Þá bendi sóknaraðili á að varnaraðili eigi þó nokkur ár eftir fram að starfslokum og geti áunnið sér réttindi með viðbótarlífeyrissparnaði.

 

3. Ábyrgð námslána hjá LÍN

Námslán hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna hafi verið tekin til öflunar persónubundinna starfsréttinda hvors um sig. Aðilar hafi báðir verið í námi erlendis en varnaraðili í dýrara og lengra námi. Byggi sóknaraðili á því að lánið hafi farið til framfærslu varnaraðila en sóknaraðili hafi tekið námslán til sinnar eigin framfærslu. Varnaraðili hafi verið í námi áður en aðilar hófu sambúð, en eftir að þau gengu í hjónaband 1992 hafi þau bæði tekið námslán í eitt ár.  Þá bendi sóknaraðili á að miðað við tekjur varnaraðila sé afar ólíklegt að hún komi til með að greiða lánið upp. Hins vegar komi sóknaraðili til með að greiða upp sitt lán, enda mun tekjuhærri en varnaraðili.

 

4. Yfirdráttarskuld

Á því sé byggt að yfirdráttarskuld sé til komin vegna ... varnaraðila. Þar sem varnaraðili hafi farið fram á að halda tækjabúnaði til ... utan skipta komi yfirdráttarskuldin ekki undir skiptin, sbr. 2. mgr. 101. gr. hjúskaparlaga, en ljóst sé að verðmætur ... fylgi starfseminni. ... varnaraðila hafi verið rekin á kennitölu varnaraðila og þannig hafi varnaraðili talið hana fram á skattframtali og reiknað sér endurgjald. Sóknaraðili hafi skorað á varnaraðila og skiptastjóra að afla upplýsinga um hvernig skuld þessi væri tilkomin, en þær upplýsingar hafi ekki borist. Verði varnaraðili að bera hallann af því að geta ekki lagt fram upplýsingar um tilurð skuldarinnar og hvort um hjúskaparskuld sé að ræða.  Sóknaraðili hafi ekki skipt sér af atvinnurekstri varnaraðila og hafi ekki hugmynd um hvernig yfirdráttarskuldin sé til komin. Sóknaraðili telji þó að varnaraðili hafi iðulega átt töluvert útistandandi af reikningum vegna vinnu sinnar og alls óljóst sé hvernig staðan hafi verið m.v. viðmiðunardag skipta. Þá sé á það bent að varnaraðili hafi bakað sér umrædda skuld með vanhirðu á fjármálum sínum og komi hún því ekki til frádráttar hjúskaparskuldum, sbr. 2. mgr. 106. gr. laga nr. 31/1993, en sjálfur hafi hann ekki verið með yfirdráttarskuld við skiptin. Vaxtakostnaði af yfirdráttarskuld sé hafnað.

 

5. Kostnaður vegna reksturs og vinnuframlags varnaraðila

Með vísan til 1. mgr. 101. gr. hjúskaparlaga og 1. mgr. 104. gr. laga nr. 20/1991 sé þess krafist að varnaraðili taki ein þátt í kostnaði vegna reksturs frístundabúskapar að ..., svo og vegna meints vinnuframlags hennar á jörðinni ..., hvors tveggja eftir viðmiðunardag skipta 20. febrúar 2017. 

 

Sóknaraðili hafni því alfarið að hann eigi að taka þátt í rekstrarkostnaði umfram greiðslu helmings áhvílandi lána, helmings fasteignagjalda og helmings lögboðinna brunatrygginga. Sé því hafnað þeirri afstöðu skiptastjóra að skipta eigi jafnt á milli aðila kostnaði vegna viðunandi lágmarksumönnunar skepna. Varnaraðili stundi frístundabúskap að ... og geti á engan hátt lagt það á sóknaraðila að taka þátt í þeim kostnaði, sem sé og hafi verið með öllu óarðbær. Skepnuhald sé alfarið á ábyrgð varnaraðila og alfarið hennar ákvörðun að halda áfram þeim frístundabúskap sem aðilar hafi áður stundað. Varnaraðili hafi ein tekið þá ákvörðun að halda áfram búskap eftir samvistaslit, í trássi við vilja sóknaraðila. Hafi hún stofnað til ýmissa útgjalda án samráðs við sóknaraðila, vitandi það að reksturinn stæði engan veginn undir sér.  Sóknaraðili hafi margoft bent á að fækka ætti skepnum allverulega og jafnvel leggja af sauðfjárbúskap. Þá hafi hrossabúskapur einungis haft kostnað í för með sér. Engin hross hafi heldur verið seld svo að varla sé hægt með góðu móti að halda því fram að um hrossarækt hafi verið að ræða. Sóknaraðili hafi viljað fækka hrossum verulega og setja í slátrun strax við upphaf skipta, enda sé jörðin ekki nægilega stór til að bera allan þennan fjölda hrossa. 

 

Fráleitt sé að sóknaraðili eigi að taka þátt í meintu vinnuframlagi varnaraðila á jörðinni .... Fram að samvistaslitum hafi þau rekið saman frístundabúskap og sinnt bústörfum í hjáverkum með fullri vinnu annars staðar. Þau hafi aldrei reiknað sér laun við búskapinn. Sóknaraðili bendi á að reiknað endurgjald samkvæmt skattframtali vegna sauðfjárbúskapar árið 2016 hafi numið 180.000 krónum. Þá komi fram á samræmingarblaði nr. 4.05 með skattskýrslu að tap hafi verið á rekstrinum samfleytt frá árinu 2006 og nemi uppsafnað tap í árslok 2016 alls 16.335.661 krónu. Skuli á það bent að sóknaraðili hafi gefið hrossum rúllur í útigangi fram í maí 2017. Að öðru leyti hafi varnaraðili meinað sóknaraðila að hafa afskipti af rekstrinum, þrátt fyrir að hann hafi reynt að sinna sauðburði og tekið sér frí frá vinnu til þess. 

 

6. Húsaleigukrafa sóknaraðila

Á því sé byggt að varnaraðili eigi að greiða sóknaraðila leigu að fjárhæð 100.000 krónur á mánuði vegna búsetu hennar á jörðinni ... frá viðmiðunardegi skipta og fram að uppgjörsdegi aðila við skiptin, sbr. 2. mgr. 106. gr. laga nr. 20/1991.  Varnaraðili hafi ein haft afnot af jörðinni og húsum frá því í október 2016, en á meðan hafi sóknaraðili þurft að gera aðrar ráðstafanir í húsnæðismálum. Hann hafi hins vegar þurft að greiða helming af áhvílandi lánum á jörðinni, svo og helming fasteignagjalda og helming lögboðinna brunatrygginga. Mikill dráttur á fjárskiptum hafi verið af völdum varnaraðila sem hafi orðið til þess að sóknaraðili hafi borið veruleg útgjöld vegna ofangreinds kostnaðar, auk þess að þurfa sjálfur að standa undir kostnaði við húsnæði. Leigukrafa sóknaraðila sé hófleg og byggist á því að sambærileg hús, án jarðarafnota, sé hægt að leigja út fyrir a.m.k. 200.000 krónur á mánuði. Sóknaraðili hafi lagt fram á skiptafundi 5. febrúar 2018 útprentun á auglýsingu um íbúð til leigu á Vesturlandi, þar sem fram komi að 110 fm íbúð í fjölbýlishúsi á Akranesi sé leigð á 176.000 krónur. Sóknaraðili hafni hins vegar þeirri fjárhæð sem skiptastjóri leggi til í tillögu sinni sem alltof lágri. Því sé og hafnað að líta beri til þess að varnaraðili hafi sinnt meirihluta búverka og umönnunar skepna og að taka eigi tillit til þess við ákvörðun leigufjárhæðar. Það hafi verið alfarið ákvörðun varnaraðila og hennar afstaða að hafna aðkomu sóknaraðila að búverkum. 

 

IV.

Málsástæður varnaraðila

1. Útlagning fasteignar

Frá upphafi skiptameðferðar hafi það verið krafa varnaraðila að fá fasteignina lagða sér út, ásamt bústofni og nauðsynlegum tækjakosti. Fyrir liggi í gögnum málsins möt á verðmæti viðkomandi eigna, sem lítill eða enginn ágreiningur sé um. Varnaraðili byggi á því að hún eigi óskoraðan rétt til útlagningar framangreindra eigna, sbr. ákv. 109. og 110. gr. laga nr. 20/1991 um skipti dánarbúa o.fl. Í tilvitnuðum ákvæðum komi fram að skiptastjóra beri að greina á milli eigna hvors aðila um sig, sem og þeirra skuldbindinga sem hvor aðilinn beri. Þegar niðurstaða þeirrar greiningar liggi fyrir sé skiptastjóra skylt að veita hvorum aðila um sig kost á að fá lagðar sér út eigin eignir og eignir sem séu í sameign. Fari verðmæti eigna í sameign sem annar hvor aðilinn krefjist útlagningar á umfram það sem hann eigi rétt til, miðað við stöðu eigna og skuldbindinga, verði skiptastjóri að veita þeim hinum sama kost á því að reiða fram afgang verðmætis með peningagreiðslu. Þá beri að taka tillit til annarra eigna sem sammæli séu um að leggja út til hvors aðila um sig.

 

Nauðsynlegt sé að líta til þess að aðilar eigi aðrar eignir en þær sem varnaraðili hafi krafist útlagningar á, þ.e. tækjakost, bifreiðar og viðbótarlífeyrissparnað. Að mati varnaraðila hafi vantað upp á að skiptastjóri framkvæmi þessa greiningu og gefi hvorum aðila um sig kost á útlagningu til samræmis. Við skiptameðferðina hafi skiptastjóri blandað saman við framangreint útreikningi tekna og gjalda, rekstrarkostnaði o.fl. og krafið varnaraðila um tryggingu fyrir greiðslu skv. 4. mgr. 110. gr. laga nr. 20/1991. Varnaraðili telji þetta ekki standast og hafi því verulega vantað upp á skýrleika í framsetningu og raunar lögmæti ákvarðana skiptastjóra að þessu leyti, þegar hann hafi synjað henni um útlagninguna og ákveðið að auglýsa jörðina til sölu, sbr. fundargerð skiptafundar hinn 5. febrúar 2018. Vísað sé til þess að varnaraðili hafi fengið lánsloforð að fjárhæð 20.000.000 króna frá Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda, en þá fjárhæð hafi átt að nota að hluta til að greiða upp lán á 1. veðrétti. Sé útlagningarkrafa varnaraðila á því byggð að hún vilji og geti sýnt fram á fjármögnun þess sem upp á vanti og það hafi hún jafnframt gert gagnvart skiptastjóra, án þess að hann væri viljugur til að taka tillit til þess. Þá sé byggt á því að það sem upp á vanti falli langt innan þess sem hún krefjist að tekið verði tillit til við fjárskiptin og muni lækka þá fjárhæð sem hún þurfi að gjalda til sóknaraðila til uppgjörs eigna og skuldbindinga.  

 

2. Séreignarlífeyrisréttindi

Varnaraðili byggi á því að ekkert hafi komið fram í málinu sem gefi til kynna að annað eigi að gilda um þessa tilteknu inneign hjá Allianz umfram önnur séreignarlífeyrisréttindi eða inneignir aðila. Sé og á því byggt að réttindin hafi endurgjaldsvirði, sbr. fyrirliggjandi yfirlit frá Allianz. Sóknaraðili hafi í engu sýnt fram á að sanngjarnt sé að halda þessum tilteknu réttindum utan skipta án þess að endurgjald komi fyrir, sbr. 2. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga.

 

3. Ábyrgð námlána og  yfirdráttarskuld

Krafa varnaraðila um að hvort um sig beri ábyrgð á skuldbindingum sem á þeim hvíli sé byggð á  67. gr. hjúskaparlaga. Eigi aðilar og óskoraðan rétt skv. 100. gr. sömu laga á því að tekið verði tillit til þeirra skuldbindinga sem til staðar séu á viðmiðunardegi við útreikning hreinnar hjúskapareignar. Þá vísist jafnframt til fyrri umfjöllunar um 109. og 110. gr. laga nr. 20/1991. Vegna kröfu um að tekið verði tillit til vaxtakostnaðar þá sé vísað til þess að ekki sé óhjákvæmilegt við fjárskipti hjóna að miða einvörðungu við stöðu skulda á viðmiðunardegi við uppgjör. Sé þannig á því byggt að skuldastaða á viðmiðunardegi geti ekki „gilt“ óháð því hvort og þá hvaða kostnaður hafi fallið á skuldina, hvort hún hafi hækkað eða lækkað eða hvort greiddar hafi verið af henni afborganir. Þannig megi benda á að við fjárskipti sé miðað við stöðu veðskulda á þeim degi sem yfirtaka á viðkomandi veði fari fram, eða við uppgreiðsluverðmæti, ef eignin sé seld. Komi þá að engu leyti til skoðunar hver staða skuldbindingarinnar hafi verið á viðmiðunardegi. Hvað varði lán frá Lánasjóði íslenskra námsmanna sérstaklega sé vísað til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 491/2015, þar sem tekin séu af öll tvímæli um að slík lán komi til skipta með framangreindum hætti, rétt eins og aðrar skuldbindingar.

 

 

4. Kostnaður vegna reksturs og tekjur búsins

Varnaraðili bendi á að búreksturinn að ... sé enn rekinn á kennitölu sóknaraðila sem hafi ekki viljað afsala sér þeim rekstri eða samþykkja að öðru leyti breytt rekstrarform. Aðkeyptur kostnaður varnaraðila sé hærri en annars væri þar sem sóknaraðili hafi fjarlægt eina traktor búsins, ýmis önnur tæki þess og verkfæri. Þannig hafi verið illfært að heyja túnin, fóðra skepnur, lagfæra girðingar og stunda bústörf með eðlilegum hætti. Þar að auki hafi sóknaraðili fjarlægt hey af búinu, sem nýta hafi átt til fóðrunar skepna búsins, tekið líflömb og sauði ófrjálsri hendi og slátrað fyrir sig. Á sama tíma hafi hann með öllu neitað að greiða hlutdeild í kostnaði við rekstur búsins eða endurgjalda varnaraðila vinnuframlag hennar. 

 

Varnaraðili hafi ein staðið undir greiðslum sem varði allan rekstur búsins allt frá samvistaslitum aðila, sbr. framlagt yfirlit samtals að fjárhæð 7.822.198 krónur. Varðandi ... búsins fylgi rökstutt álit frá .... Tekjur búsins hafi hins vegar runnið til sóknaraðila frá því að hann flutti út í október 2016 en meginþorri tekna búsins sé greiddur út undir lok hvers almanaksárs. Frá október 2017 hafi tekjur búsins runnið á reikning skiptastjóra. Þannig hafi varnaraðili þurft að standa ein undir öllum kostnaði við rekstur búsins í rúm tvö ár, sem hafi jafnframt verið hærri en eðlilegt geti talist, sbr. framangreint, og án þess að fá tekjur á móti.

 

5. Húsaleiga sóknaraðila

Varnaraðili telji að ekki komi til álita að greiða sóknaraðila fyrir afnot hennar af jörðinni frá samvistarslitum, nema lagt verði til grundvallar við fjárskiptin að aðilar skuli greiða að jöfnu afborganir áhvílandi lána á jörðinni og rekstrarkostnað frá samvistaslitum, en til vara frá viðmiðunardegi skipta. Varnaraðili telji augljóst að eigandi eignar geti ekki fengið greitt frá öðrum fyrir afnotin, nema hann sjálfur standi undir kostnaðinum. Það verði ekki bæði haldið og sleppt í þeim efnum. Þá sé á það bent að á sama tímabili hafi sóknaraðili nýtt traktor og önnur tæki búsins í eigin þágu á öðrum bæjum, en ekki heimilað notkun þeirra að .... Varnaraðili hafi ítrekað á það bent, samhliða því sem hún hafi hafnað leigukröfu sóknaraðila, að kostnaður hennar vegna brottnáms sóknaraðila á tækjum búsins einn og sér hafi valdið henni miklu meiri kostnaðarauka og erfiðleikum en sem nemi leigukröfu sóknaraðila, sbr. m.a. bréf F... lögmanns til skiptastjóra, liður III, dags. 11. maí 2018, og liður 10 og 11 í bréfi varnaraðila til skiptastjóra, dags. 11. september 2018. Varnaraðili hafi greitt rekstrarkostnað fasteigna og afborganir af áhvílandi lánum frá samvistaslitum. Nemi þær greiðslur 3.865.660 krónum frá hausti 2016 og fram í desembermánuð 2018, þegar tölur þessar hafi verið teknar saman.

 

Varnaraðili byggi og á þeirri dómvenju að aðilar fjárskipta geti ekki rukkað hvor annan um markaðsleigu vegna afnota hins af eignum búsins. Vísist um það efni m.a. til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 195/2016. Sé í málinu tekið af skarið um þetta álitaefni og dæmd greiðsla fyrir afnot að álitum, sem í báðum tilvikum sé verulega lægri en markaðsleiga.

 

6. Vinnuframlag varnaraðila

Varnaraðili byggi þessa kröfu á því að óumdeilt sé að vinnuframlag hennar á jörðinni allt frá samvistaslitum aðila hafi orðið til verðmætaaukningar í búi aðila, enda hefði dýrastofninn ekki viðhaldist eða nýir árgangar orðið til nema fyrir tilstilli hennar. Þá hafi hún ein staðið skil á öllum opinberum gjöldum og virðisaukaskatti vegna rekstursins. Öll dýraeign aðila hafi verið í umsjá varnaraðila einnar allt frá haustdögum 2016, auk fasteigna. Þá megi fullyrða að engar tekjur hefðu orðið af sauðfjárræktinni ef hennar vinnuframlags hefði ekki notið við. Öll verk sem ganga þurfi til á sauðfjár- og hrossaræktarbúi hafi hún unnið á þessu tímabili, með aðstoð annarra fjölskyldumeðlima og örfárra utanaðkomandi einstaklinga, sem ráðnir hafi verið gegn greiðslu. Þar sem ekkert lausafé sé til í búi aðila né heldur hafi tekjur getað staðið undir greiðslum á endurgjaldi til hennar verði að ganga á eignir búsins til að greiða varnaraðila hæfilegt endurgjald fyrir vinnuframlagið. Til stuðnings framangreindri fjárhæð sé vísað til mats Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML), sem hafi veitt það álit að vinnustundir á tímabilinu nóvember 2016 til júlí 2018 hafi verið 1.980 talsins. Með því að áframreikna með sama hætti tímabilið ágúst 2018 til desember 2018 sé um að ræða 2.252 vinnustundir. Lagður sé fram útreikningur byggður á þessum forsendum, þar sem hin umkrafða fjárhæð sé reiknuð út frá lágmarkslaunum.

 

7. Fjarlægt lausafé

Varnaraðili krefst þess að lausafé sem fjarlægt hafi verið af sóknaraðila og öðrum aðilum úr skemmu að ... hinn 6. september 2017 komi til skipta. Um lausafé þetta hafi verið rætt og bókað í fundargerðum skiptafunda, m.a. á skiptafundum 5. október 2017 og 5. febrúar 2018. Hafi skiptastjóri, að kröfu sóknaraðila, gengið út frá því að um væri að ræða lausafé, aðallega byggingarefni, s.s. steinull, kapla, ljós og hillur, en einnig vel nothæfan heitan pott, sem hafi verið í eigu þriðja aðila, G.... Hins vegar hafi ágreiningur staðið um það hvort um hafi verið að ræða greiðslu fyrir landskika úr jörðinni ..., sem aðilarnir hafi afsalað til fyrrnefnds G... með afsali hinn 8. mars 2017, en hann hafi haft til afnota í fjölda ára. Sé á því byggt að umrætt lausafé hafi verið á jörðinni til margra ára, en verið fjarlægt þaðan í lok þess dags þegar krafa sóknaraðila um opinber skipti hafi verið þingfest. Lausaféð hafi því verið á jörðinni á viðmiðunardegi skipta og eigi að koma til skipta, sbr. 99. og 101. gr. hjúskaparlaga, nema annar aðili geti sannað eignarrétt sinn að því og þar með átt sértökukröfu í búið, sbr. ákvæði skiptalaga. Enginn reki hafi verið gerður að því af hálfu viðkomandi aðila, þ.e. G..., að sanna eignarrétt sinn eða lýsa kröfu í búið.

 

8. Fjarlægð verkfæri

Varnaraðili krefjist þess að verkfæri sem fjarlægð hafi verið af sóknaraðila frá ... eftir samvistaslit aðila komi til skipta. Um sé að ræða öll verkfæri búsins, bæði stærri og dýrari tæki, eins og t.d. rafsuðuvél, loftpressu, hleðslutæki, borvélar, girðingastrekkjara og topplyklasett og allt niður í klaufhamra og skrúfjárn. Listi yfir verkfærin liggi fyrir í málinu og sé áætlað verðmæti þeirra 464.000 krónur. Hafi málsaðilar eignast þau á undanförnum áratugum, hvort sem er með kaupum eða gjöfum. Engin rök standi til þess að þessir munir eigi að vera utan skipta. Verkfærin hafi verið notuð í hinum sameiginlega atvinnurekstri aðila á jörðinni, sem og við alla aðra tilfallandi vinnu á bænum og utan hans. Þar sem augljóslega sé um að ræða lausafé sem verið hafi í eigu aðila á hjúskapartíma þeirra þá skipti ekki máli hvar verkfærin hafi verið niðurkomin á viðmiðunardegi skipta eða í hvers vörslum. Um sé að ræða muni sem hafi verið sameign beggja á viðmiðunardegi, sbr. 99. og 101. gr. hjúskaparlaga, og skuli koma til skipta.

 

IV.

Niðurstaða

1. Varnaraðili krefst útlagningar á jörðinni ..., en sóknaraðili krefst þess að þeirri kröfu verði hafnað og að jörðin verði sett í almenna sölu. Fram kemur í 1. mgr. 110. gr. laga nr. 21/1991 um skipti dánarbúa o.fl. að eftir því sem ráðið sé hverjar eignir komi til skipta, hvorum aðila þær tilheyri og hvert verðmæti þeirra verði talið við skiptin, svo og til hverra skulda verði tekið tillit og með hvaða hætti, skuli skiptastjóri gefa hvorum aðila fyrir sig kost á því á skiptafundi að fá eignir lagðar sér út eftir ákvæðum 2.-4. mgr. hafi aðilarnir ekki þegar komið sér saman um annað. Eftir því sem skiptastjóri telji skilyrðum þessarar greinar fullnægt til að verða við kröfum um það skal hann leggja aðilunum út eignir þegar í stað til frjálsrar ráðstöfunar þótt enn sé óvíst um eignir og skuldir að öðru leyti, enda þyki sýnt að hvorugur aðilinn fái meira í sinn hlut með þessum hætti en hann muni eiga rétt á að endingu.

 

Ekki verður séð að bókað hafi verið á skiptafundi um að samkomulag sé með aðilum um verðmæti umræddrar jarðar, sem mun vera í sameign aðila, eða að leitað hafi verið mats á verðgildi hennar í samræmi við 17.-23. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 105. gr. Hins vegar verður af gögnum ráðið að hvorugur málsaðilinn geri athugasemdir við fyrirliggjandi verðmat Péturs Kristinssonar lögmanns, dags. 2. nóvember 2017, um að verðmæti jarðarinnar við skiptin sé 50.000.000 króna. Þá sýnist ekki um það deilt, miðað við framangreindar forsendur um verðmæti jarðarinnar og án tillits til þess hver niðurstaða annarra ágreiningsmála verður um skiptingu eigna, að yrði jörðin lögð varnaraðila út við skiptin fengi hún í sinn hlut eignir sem færu verulega fram úr því sem hún ætti með réttu að fá. Þannig liggur fyrir að samkvæmt þeim tillögum sem skiptastjóri lagði fram um skiptingu eigna og skulda á síðasta skiptafundi sem haldinn var 5. júlí 2018, þar sem gert var ráð fyrir útlagningu jarðarinnar til varnaraðila, bæri varnaraðila að greiða sóknaraðila 17.537.200 krónur til að jafna þennan mismun. Að þessu virtu, og þar sem enn liggur ekki endanlega fyrir hvernig skiptum milli aðilanna verður hagað að öðru leyti og því eftir atvikum ekki unnt að ákvarða þá peningafjárhæð sem varnaraðili þyrfti að greiða í milli, telst ekki fullnægt skilyrðum 1. mgr. 110. gr. laga nr. 20/1991 til að fjalla að svo komnu um kröfu varnaraðila um útlagningu jarðarinnar. Verður þeirri kröfu því vísað sjálfkrafa frá dómi. Á sömu forsendum þykir ekki fært að taka afstöðu til kröfu sóknaraðila um að jörðin verði sett í almenna sölu.

 

2. Aðila greinir á um þá kröfu sóknaraðila að séreignarlífeyrisréttindi hans í Allianz að fjárhæð 1.866.000 krónur komi ekki undir skiptin. Með dómi Landsréttar, í máli nr. 514/2018, var komist að þeirri niðurstöðu að réttindi yfir séreignarlífeyrissparnaði teldust ekki hafa endurkaupsvirði í skilningi 2. tl. 1. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 og að slík réttindi teldust „krafa til lífeyris“ í skilningi ákvæðisins. Með vísan til þess, og þar sem varnaraðili hefur ekki sýnt fram á að ósanngjarnt sé að halda lífeyrisréttindum þessum utan skipta, verður talið að þau komi ekki undir skiptin.  

 

3. Ágreiningur er um það hvort skuld hvors aðila um sig við Lánasjóð íslenskra námsmanna vegna námslána komi til frádráttar hjúskaparskuldum þeirra. Með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í málinu nr. 491/2015 er niðurstaða dómsins sú að umræddar skuldir hvors aðila um sig skuli koma að fullu til frádráttar hjúskaparskuldum þeirra. Breytir engu í því sambandi þótt sú staða kunni að koma upp að varnaraðili þurfi ekki að greiða sitt lán upp að fullu við sjóðinn.

 

Sóknaraðili krefst þess að yfirdráttarskuld varnaraðila á tékkareikningi komi ekki til frádráttar hjúskaparskuldum hennar þar sem skuldin sé tilkomin vegna ... hennar og þar sem hún hafi farið fram á að halda tækjabúnaði til ... utan skipta eigi það sama að gilda um þessa skuld, sbr. 2. mgr. 101. gr. hjúskaparlaga. Þar sem krafa varnaraðila um að skuld þessi komi undir skiptin er ekki studd viðhlítandi gögnum er því hafnað að hún komi undir skiptin. Þar af leiðandi er einnig hafnað kröfu hennar um að tekið verði tillit til áfallins vaxtakostnaðar af skuldinni við skiptin.

 

4. Varnaraðili krefst þess að aðilar beri að jöfnu allan kostnað við rekstur búskaparins frá samvistaslitum í október 2016, en til vara frá viðmiðunardegi skipta. Jafnframt krefst varnaraðili þess að við fjárskiptin verði tekið tillit til vinnuframlags hennar við umhirðu og vörslu eigna búsins þannig „að hún fái greitt af eignum búsins kr. 5.755.247 umfram sóknaraðila.“ Til vara er þess krafist að dómari ákveði fjárhæð að álitum. Sóknaraðili krefst þess hins vegar að framangreindum kröfum varnaraðila verði hafnað og að varnaraðili beri ein kostnað af búrekstrinum og vegna meints vinnuframlags hennar.

 

Fram kemur í 1. mgr. 107. gr. laga nr. 20/1991 að aðilar eigi hvor um sig rétt á að hafa vörslur þeirra eigna sem til skipta komi skv. 104. gr. og þeir hafi haft í vörslum sínum þegar opinber skipti byrjuðu, þar til skiptastjóri kveði á um annað skv. 2. mgr. Fyrir liggur að varnaraðili hefur allt frá upphafi skiptanna farið með vörslur og rekstur búsins að ... og hefur skiptastjóri ekki gert neina breytingu þar á. Verður að telja að vinna varnaraðila við skepnuhald á jörðinni, að því gefnu að hún hafi skilað sér í auknu verðmæti eða að minnsta kosti komið í veg fyrir verðrýrnun eignanna, hafi komið báðum aðilum til góða. Hins vegar er ekki unnt að fallast á að varnaraðili hafi með vinnuframlagi sínu myndað skuld sem taka verði tillit til við skiptin. Er aðstaða hennar að þessu leyti hin sama og á hjúskapartímanum. Verður þeirri kröfu varnaraðila því hafnað. Varnaraðili á hins vegar rétt á endurgreiðslu nauðsynlegs kostnaðar sem hún hefur sannanlega lagt út vegna rekstursins frá viðmiðunardegi skiptanna. Engin töluleg krafa er þó gerð í málinu af hennar hálfu og einungis liggja fyrir samantektir um kostnað af ýmsu tagi án þess að fram séu lagðir reikningar vegna þessa. Krefst varnaraðili þess, eins og fyrr segir, að við fjárslitin verði lagt til grundvallar að aðilar beri að jöfnu „allan kostnað við rekstur búskapar að ....“ Er þessi krafa varnaraðila því það óskýr og óafmörkuð að ekki verður úr henni leyst. Verður af þessum sökum ekki hjá því komist að vísa henni af sjálfsdáðum frá dómi. Á sömu forsendum verður vísað frá dómi kröfu varnaraðila um að aðilar skuli að jöfnu eiga rétt til allra tekna af búskapnum frá samvistaslitum í október 2016, en til vara frá viðmiðunardegi.

 

5. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðili greiði honum leigu að fjárhæð 100.000 krónur á mánuði frá viðmiðunardegi skipta vegna búsetu hennar á jörðinni ... vegna afnota varnaraðila að henni eftir að samvistum þeirra lauk. Verður að skilja þessa kröfugerð sóknaraðila svo að við fjárslit milli aðila verði tekið tillit til þessa kostnaðar honum til hagsbóta. Þar sem sóknaraðili hefur ekki stutt framangreinda kröfu sína viðhlítandi gögnum, í samræmi við 17.-23. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 105. gr., þykir ekki verða hjá því komist, með hliðsjón af dómi Hæstaréttar frá 7. júní 2006, í málinu nr. 273/2006, að vísa þessari kröfu sóknaraðila frá dómi.

 

6. Varnaraðili krefst þess að lagt verði til grundvallar við fjárskiptin að lausafé „sem fjarlægt var af sóknaraðila og öðrum aðilum úr skemmu að ... hinn 6. september 2017 skuli koma til skipta.“ Í bréfi skiptastjóra til dómsins segir svo vegna þessa: „B... gerir þá kröfu að lagt verði fyrir skiptastjóra að ganga á eftir skilum á eða greiðslu fyrir muni sem eru tilgreindir í lið iii.k. í tillögum skiptastjóra.“ Enda þótt fallast megi á það með sóknaraðila, sem bent var á við flutning málsins fyrir dómi, að krafa varnaraðila nú sé ekki í fullu samræmi við framangreinda afmörkun skiptastjóra á ágreiningsefninu verður þó að telja að hún geti efnislega rúmast innan hennar. Verður kröfu sóknaraðila um frávísun kröfunnar frá dómi af þeim sökum hafnað.

Varnaraðili hefur haldið því fram að umrætt lausafé hafi verið greiðsla G... fyrir landskika úr jörðinni ..., sem málsaðilar afsöluðu til hans samkvæmt fyrirliggjandi afsali, útgefnu 8. mars 2017. Sóknaraðili hefur hins vegar hafnað þessu og fullyrt að lausaféð væri í eigu umrædds G... og hefði einungis verið í geymslu hjá aðilum samkvæmt samkomulagi þar um. Liggur fyrir í málinu óstaðfest yfirlýsing G..., dags. 3. október 2017, þar sem hann mótmælir því að lausaféð hafi verið hluti af kaupverði spildunnar. Kemur þar og fram að umræddir munir hafi verið ætlaðir til notkunar í húsi hans sjálfs. Óumdeilt sýnist að umræddir munir hafi verið í eigu fyrrnefnds G... og að þeir hafi verið fjarlægðir af jörðinni við upphaf skiptanna. Þar sem varnaraðili heldur því hins vegar fram að orðið hafi breyting þar á, eins og áður segir, verður að telja að sönnunarbyrði þar um hvíli á henni. Verður hér og til þess að líta að frá umræddu afsali spildunnar var gengið rúmlega hálfum mánuði eftir viðmiðunardag skiptanna og hefði varnaraðila þá átt að vera í lófa lagið að tryggja sér sönnun um framangreind viðskipti. Með því að sönnun liggur ekki fyrir um framkomna staðhæfingu varnaraðila verður að hafna kröfu hennar um að lausafé þetta komi til skipta.

 

7. Varnaraðili krefst þess að lagt verði til grundvallar við fjárskiptin „að verkfæri sem fjarlægð voru af sóknaraðila frá ... eftir samvistarslit skuli koma til skipta.“ Kemur fram í bréfi skiptastjóra til dómsins að „B... gerir kröfu um að verkfæri sem A... tók með sér og séu eign búsins verði metin inn í skiptin.“ Þar sem telja verður að framangreind kröfugerð varnaraðila rúmist innan framangreindrar afmörkunar skiptastjóra á ágreiningsefninu verður ekki fallist á það með sóknaraðila að vísa beri henni frá af þeim sökum.

 

Í málinu var af hálfu varnaraðila lagt fram skjal með yfirskriftinni „Verkfæralisti ... – ekki tæmandi listi“, þar sem talin eru upp ýmis smáverkfæri og fylgihlutir. Í framangreindri kröfugerð varnaraðilans kemur hins vegar ekkert fram um það hvaða verkfæri hér sé um að ræða. Ekkert liggur heldur fyrir um það í gögnum málsins, fyrir utan framangreindan lista varnaraðila. Virðist sem krafa þessi hafi fyrst verið höfð uppi á síðasta skiptafundi í júlí sl., en ekki verður ráðið af fundargerðum fyrri skiptafunda að um það hefði áður verið rætt. Með hliðsjón af framangreindu telst krafa þessi vanreifuð og verður henni af þeim sökum vísað frá dómi.

 

Varnaraðili greiði sóknaraðila 800.000 krónur í málskostnað.

 

Ásgeir Magnússon dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.

 

Úrskurðarorð:

Séreignarlífeyrisréttindi sóknaraðila, A..., hjá Allianz skulu ekki koma til skipta við opinber skipti til fjárslita milli hans og varnaraðila, B....

 

Skuldir málsaðila við Lánasjóð íslenskra námsmanna skulu falla undir skiptin, en yfirdráttarskuld varnaraðila á reikningi nr. ... og vaxtakostnaður vegna hennar falli utan skipta.

 

Hafnað er kröfu varnaraðila um að krafa hennar vegna vinnuframlags við umhirðu og vörslur eigna búsins falli undir skiptin.

 

Hafnað er kröfu varnaraðila um að undir skiptin falli lausafé sem flutt var úr skemmu að ... hinn 6. september 2017.

 

Vísað er frá dómi kröfu varnaraðila um útlagningu jarðarinnar ... og kröfu sóknaraðila um að jörðin verði sett í almenna sölu.

 

Vísað er frá dómi kröfu sóknaraðila um að varnaraðili greiði honum leigu vegna búsetu hennar á jörðinni ... frá viðmiðunardegi skipta.

 

Vísað er frá dómi kröfu varnaraðila um að undir skiptin falli krafa hennar vegna kostnaðar og umhirðu við rekstur búskapar að ... og að aðilar skuli að jöfnu eiga rétt til allra tekna af búskapnum frá samvistaslitum í október 2016, en til vara frá viðmiðunardegi.

 

Vísað er frá dómi kröfu varnaraðila um að undir skiptin falli „verkfæri sem fjarlægð voru af sóknaraðila frá ... eftir samvistaslit.“

 

Varnaraðili greiði sóknaraðila 800.000 krónur í málskostnað.

                                                                                               

Ásgeir Magnússon