• Lykilorð:
  • Fyrning
  • Orlof
  • Vinnulaun

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Vesturlands 27. febrúar 2019 í máli nr. E-2/2018:

Sævar Ríkharðsson

(Ólafur Karl Eyjólfsson lögmaður)

gegn

Meitli - GT Tækni ehf.

(Einar Þór Sverrisson lögmaður)

 

 

I.

Mál þetta, sem dómtekið var 16. janúar sl., er höfðað af Sævari Ríkarðssyni, Reynigrund 10, Akranesi, á hendur Meitli - GT Tækni ehf., Grundartanga, Akranesi, með stefnu birtri 16. janúar 2018.

 

Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða honum 1.885.317 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. júní 2016 til greiðsludags. Jafnframt krefst hann málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda að mati dómsins.

 

Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af kröfu stefnanda en til vara að stefnukrafan verði lækkuð verulega. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnanda að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.

 

II.

Stefnandi hóf störf sem verkstjóri hjá stefnda með undirritun ráðningarsamnings 17. maí 2016. Stefnandi hafði áður starfað um nokkurt skeið hjá fyrirtækinu GT Tækni ehf. sem verkstjóri, en það fyrirtæki er að öllu leyti í eigu stefnda. Fyrir liggur að samhliða ráðningunni var ákveðið að ganga frá því hvernig fara skyldi með áunninn orlofsrétt stefnanda og annarra þeirra fyrrverandi starfsmanna GT Tækni ehf., sem einnig muna hafa flust yfir til stefnda á sama tíma. Mun stefndi af þessu tilefni hafa útbúið almennt bréf til þessara nýju starfsmanna með yfirskriftinni Um orlof og uppsafnað orlof. Kemur þar m.a. fram að skv. 13. gr. laga um orlof sé framsal orlofslauna og flutningur þeirra á milli orlofsára óheimilt, sem þýði að starfsmönnum beri að nýta orlof sitt á skilgreindum orlofstíma. Jafnframt er tiltekið að starfsmönnum gefist kostur á að nýta uppsafnaðan orlofsrétt sinn á tímabilinu 2016-2018, en með uppsöfnuðu orlofi sé átt við það orlof sem starfsmaður eigi umfram fullt orlof 1. maí 2016. Til að stuðla að því að starfsmenn geti nýtt sér orlofsrétt sinn skuli, í samvinnu við næsta yfirmann, gera skriflega áætlun um hvernig ná skuli fram markmiðum um að nýta uppsafnað orlof og skuli henni fylgt eftir í starfsmannaviðtölum. Loks er tilgreint að starfsmönnum bjóðist 1. júní 2016 að fá greitt sem nemi tveimur vikum af uppsöfnuðu orlofi, 1. maí 2017 að fá greidda eina viku af uppsöfnuðu orlofi og 1. maí 2018 eina viku. Í lok bréfsins kemur fram að sé uppsafnað orlof lengra á þeim tímapunkti glati starfsmaðurinn þeim orlofsrétti, nema að veittri skriflegri undanþágu frá framkvæmdastjóra. Í málinu liggur fyrir afrit bréfs með framangreindum texta, sem undirritað er af hálfu stefnda 17. maí 2016. Á bréfinu er og undirskrift stefnanda, en fyrir ofan hana er handskrifað og stjörnumerkt „sér samkomulag um frágang orlofs“.

 

Samkvæmt launaseðli frá GT Tækni ehf., dags. 2. maí 2016, átti stefnandi þá uppsafnaðar 1.219,95 orlofsstundir. Hins vegar kemur fram á launaseðli, dags. 2. júní s.á., sem óumdeilt er að gefinn sé út af stefnda þótt merktur sé GT Tækni ehf., að stefnandi eigi þá uppsafnaðar 767,51 orlofsstund. Hafði orlofsstundum hans því fækkað milli mánaðanna um 452,44 stundir, sem aðilar deila ekki um að gerst hafi án þess að stefnanda væri greitt andvirði þeirra eða að hann hefði nýtt sér orlofið. Telur stefnandi að stefnda beri að greiða honum andvirði þessara orlofsstunda, en um það hafi aðilarnir samið með undirritun framangreinds bréfs. Stefnandi lét af störfum fyrir stefnda í maí 2017 og voru honum þá greiddar út 705,47 klst. vegna orlofs.

 

Við aðalmeðferð málsins voru teknar skýrslur af stefnanda, Sævari Ríkharðssyni, og framkvæmdastjóra stefnda, Bolla Árnasyni. Auk þess voru teknar vitnaskýrslur af Sigurði Árnasyni, fyrrverandi starfsmanni stefnda, og Petrínu Helgu Ottesen, aðalbókara félagsins.

 

III. 

Stefnandi kveðst byggja kröfu sína á því að laun hans eigi að vera í samræmi við ráðningarsamning hans og þau lágmarksréttindi sem stefndi hafi skuldbundið sig til að hlíta samkvæmt kjarasamningi. Stefndi hafi ekki greitt uppsafnað orlof, líkt og samningur aðila um uppsafnað orlof kveði á um. Hafi stefnandi ekki fengið greitt 13,04% orlof ofan á heildarlaun sín, eins og skylt hafi verið skv. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 30/1987 um orlof. Þá hafi stefnandi átt að fá greitt uppsafnað ógreitt orlof, í samræmi við samning aðila, og í síðasta lagi við starfslok, sbr. 8. gr. sömu laga, með síðustu launagreiðslunni.

 

Á því sé byggt að stefnandi eigi að halda öllum þeim orlofsréttindum hjá nýjum atvinnuveitanda, stefnda í máli þessu, sem hann hafi unnið sér inn hjá GT Tækni ehf., sbr. lög nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, sbr. sérstaklega 3. gr. laganna. Stefnda sé óheimilt að skerða samningsbundin réttindi stefnanda. Séu ákvæði ráðningarsamninga ógild að svo miklu leyti sem þau fari í bága við kjarasamning, sbr. 7 gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur og 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda.

 

Stefnandi byggi á því að krafa hans um greiðslu á uppsöfnuðu orlofi sé gild og ekki fyrnd skv. lögum um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007, en fyrningarfrestur kröfunnar sé fjögur ár frá eindaga, sbr. 3. gr. þeirra laga og 14. gr. laga um orlof. Eindagi kröfu stefnanda um orlof fyrir tímabilið 1. maí 2015 til 30. apríl 2016 hafi verið 1. maí 2016, sbr. 3. mgr. 7. gr. og 1. mgr. 4. gr. laga nr. 30/1987. Mál þetta sé höfðað 16. janúar 2018 og sé krafan því ekki fyrnd.

 

Stefnandi vísi til þess að við túlkun ráðningarsamnings aðilanna og samnings þeirra um uppgjör á uppsöfnuðu orlofi beri að líta til andskýringarreglunnar, þar sem stefndi hafi sjálfur samið þessa samninga einhliða. Beri því að túlka allan óskýrleika þeirra stefnda í óhag.

 

IV.

Stefndi vísar til þess að fullnaðaruppgjör hafi farið fram á milli aðila 2. maí 2017, þar sem stefnandi hafi þá fengið greitt allt orlof sem hann hafi átt við starfslok og verið ófyrnt um mánaðamótin maí/júní 2016, þegar stefnandi hóf störf hjá stefnda.

 

Samkvæmt 13. gr. orlofslaga nr. 30/1987 sé framsal orlofslauna og flutningur þeirra á milli orlofsára óheimill og fyrnist því orlof sem ekki hafi verið nýtt í lok hvers orlofsárs aldrei síðar en á fjórum árum, sbr. 14. gr. laganna, sbr. og 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Þar sem allt orlof frá því á árinu 2012 hafi verið greitt til stefnanda með eingreiðslu 2. maí 2017 geti stefnandi ekki átt frekari kröfur um orlof á hendur stefnda. Beri því að sýkna stefnda þegar af þeirri ástæðu.

 

Því sé mótmælt að stefndi hafi ekki virt lágmarksréttindi stefnanda. Þvert á móti telji hann sig hafa greitt stefnanda uppsafnað orlof umfram lagaskyldu. Samkvæmt 4. mgr. 4. gr. laga nr. 30/1987 skuli orlof alltaf tekið fyrir lok orlofsárs og sé framsal orlofslauna og flutningur þeirra milli orlofsára óheimill, sbr. 13. gr. laganna. Sé orlof ekki tekið fyrir lok orlofsárs falli niður réttur starfsmanns til orlofsdaga og orlofslauna. Allt orlof stefnanda eldra en frá 2016 hafi því verið fyrnt við gerð ráðningarsamningsins við stefnda í maí 2016. Stefnandi hafi hins vegar fengið greitt orlof allt aftur til ársins 2012, sem hafi verið verulega umfram skyldu. Um frekari greiðslur geti því ekki verið að ræða.

 

Stefndi byggi á því að stefnandi geti ekki gert kröfu um meira orlof en sem nemi samkomulagi aðila þar um. Eins og launaseðlarnir beri með sér liggi fyrir að frá og með aðilaskiptunum að fyrirtækinu hafi stefnandi átt inni 767,51 klst. í orlof, sem hafi verið greiddar þegar hann lét af störfum að teknu tilliti til notkunar hans á orlofsdögum.

 

Þeirri málsástæðu stefnanda sé mótmælt að orlofsstundum hans hafi fækkað án þess að honum væri greitt andvirði þeirra eða að hann hafi nýtt sér orlofið. Sé skýringarinnar að leita í því sem þegar hafi verið rakið. Eldra orlof hafi verið fallið niður fyrir fyrningu þegar aðilaskiptin áttu sér stað. Hafi stefndi aldrei yfirtekið þá skuldbindingu á því tímabili sem stefnandi hafi starfað fyrir stefnda.

 

Stefnandi hafi engar athugasemdir gert við efni samkomulags um orlof og uppsafnað orlof þegar það hafi verið gert. Ekki hefði þá komið fram hjá stefnanda að með því hefðu orlofstímar hans horfið, líkt og stefnandi hafi síðar haldið fram. Hafi stefnandi móttekið launaseðla sína athugasemdalaust. Hafi það verið fyrst meira en ári eftir að stefnandi lét af störfum hjá stefnda sem hann hafi hreyft athugasemdum. Verði að meta stefnanda það til verulegs tómlætis, sem einnig leiði til sýknu. Stefndi telji ráðningarsamninginn og samninginn um orlof og greiðslu uppsafnaðs orlofs vera skýra og skuldbindandi samninga. Telji stefnandi að einhvers óskýrleika gæti hafi hann sýnt af sér tómlæti við að koma á framfæri athugasemdum þar að lútandi. Samningurinn hafi verið til hagsbóta fyrir stefnanda og sé efnislega skýr.

 

Á það sé bent að óljóst sé af stefnu til hvaða tímabils krafa stefnanda taki og ósannað sé að orlof sé ógreitt fyrir nokkurt tímabil. Í raun sé málið vanreifað af hálfu stefnanda. Hins vegar vilji stefndi fá efnisdóm og geri því ekki kröfu um frávísun málsins frá dómi.

 

Einnig sé til þess að líta að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að stefndi eða starfsmenn hans hafi meinað honum að taka orlof. Stefnandi hafi verið verkstjóri hjá stefnda og forvera hans og hafi því haft forræði á því að skipuleggja orlof sitt og borið ábyrgð á að það væri tekið. Stefndi hafi aldrei leitað eftir því að stefnandi hagaði frítöku sinni þannig að orlof hans félli niður og séu staðhæfingar stefanda um annað með öllu ósannaðar. Sjáist það skýrt af því að stefndi hafi greitt stefnanda allt uppsafnað orlof frá árinu 2012 umfram lagaskyldu. Hafi tilhögun á því hvernig hvíldartíma og orlofstöku væri háttað því ekki orðið til þess að stefandi missti neitt af rétti sínum.

 

Því sé og mótmælt að stefndi hafi skert samningsbundin réttindi stefnanda, enda hafi ákvæði ráðningarsamningsins og útfærsla hans, þ.m.t. á yfirtöku orlofsins, ekki farið í bága við kjarasamning. Í kafla 4.1 í kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Samtaka rafverktaka annars vegar og Rafiðnaðarsambands Íslands og aðildarfélaga þess hins vegar segi að um orlof skuli fara að lögum nr. 30/1987. Greiðsla stefnda á orlofi til stefnanda hafi að öllu leyti verið í samræmi við orlofslög og gott betur, þar sem stefndi hafi greitt stefnanda orlof fjögur ár aftur í tímann.

 

Stefndi mótmæli loks dráttarvaxtakröfu stefnanda, sem miðist við dráttarvexti frá 1. júní 2016. Telji stefndi að ekki sé að finna lagastoð fyrir þessari kröfu í tilvitnaðri 3. mgr. 7. gr. og 1. mgr. 4. gr. laga nr. 30/1987. Miða beri dráttarvexti við þingfestingu málsins hinn 16. janúar 2018, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Að öðrum kosti miðist sá útreikningur við 7. ágúst 2017, þegar mánuður hafi verið liðinn frá kröfubréfi stefnanda, sbr. 3. mgr. 5. gr. sömu laga.

 

 

 

V.

Eins og áður greinir á krafa stefnanda rót sína að rekja til uppsafnaðs orlofs sem stefnandi hafði áunnið sér hjá fyrri vinnuveitanda sínum, GT Tækni ehf. Í stefnu kemur fram að stefnandi hafi átt uppsafnaðar 1.219,95 orlofsstundir samkvæmt launaseðli hinn 2. maí 2016, en samkvæmt launaseðli hinn 1. júní s.á., sem óumdeilt er að hafi verið fyrsti útborgunardagur stefnda sem launagreiðanda stefnanda, hafi hann átt uppsafnaða 767,51 orlofsstund. Hafi orlofsstundum stefnanda því fækkað um 452,44 án þess að stefnanda hafi verið greitt andvirði þeirra eða að hann hafi nýtt sér orlofið. Enga tölulega sundurliðun er hins vegar að finna á því í stefnu hvernig stefnukrafa málsins er fundin út miðað við framangreindar forsendur í stefnu og hvenær framangreindar orlofsstundir hafi fallið til hjá stefnanda. Þrátt fyrir það hefur stefndi ekki gert kröfu til þess að málinu verði vísað frá dómi, enda telur hann það dómhæft með hliðsjón af öðrum fyrirliggjandi gögnum.

 

Í málinu liggur fyrir bréf stefnda til starfsmanna, með yfirskriftinni Um orlof og uppsafnað orlof, dags. 17. maí 2016, sem óumdeilt er að útbúið hafi verið og kynnt fyrir stefnanda í tengslum við yfirtöku stefnda á tilteknum orlofsskuldbindingum GT Tækni ehf., enda áritað af honum. Kemur þar fram að starfsmönnum bjóðist 1. júní 2016 að fá greitt sem nemi tveimur vikum af uppsöfnuðu orlofi, 1. maí 2017 að fá greidda eina viku af uppsöfnuðu orlofi og 1. maí 2018 eina viku. Í lok bréfsins kemur fram að sé uppsafnað orlof lengra á þeim tímapunkti glati starfsmaðurinn þeim orlofsrétti, nema að veittri skriflegri undanþágu frá framkvæmdastjóra. Byggir stefnandi á því að í framangreindu felist samkomulag aðila um rétt stefnanda til að nýta uppsafnað orlof á tímabilinu 2016-2018. Hins vegar hafi stefndi algjörlega vanefnt þetta samkomulag, en hið uppsafnaða og ógreidda orlof, alls 452,44 stundir, hefði átt að greiðast í síðasta lagi með síðustu launagreiðslunni til stefnanda.

 

Stefndi vísar á hinn bóginn til þess að orlofsskuld vegna umræddra 452,44 stunda hafi við upphaf ráðningarsambands þeirra verið fallin niður vegna fyrningar. Hafi við undirritun ráðningarsamningsins hinn 17. maí 2016 verið gert sérstakt samkomulag við stefnanda, sbr. áritun þar um á fyrrgreint bréf. Hafi stefnandi samkvæmt því fengið uppgert allt uppsafnað ótekið orlof frá GT Tækni ehf., sem ekki hafi þá verið fallið niður vegna ákvæðis 13. gr., sbr. 14. gr., orlofslaga nr. 30/1987 um að orlof sem ekki hefði verið nýtt í lok hvers orlofsárs fyrndist a.m.k. ekki síðar en á fjórum árum. Hafi samkomulag þetta í raun verið gert umfram skyldu og umfram það sem greitt hafi verið til annarra starfsmanna. Hafi í uppgjöri til þeirra verið lagt til grundvallar að þeir fengju uppgert áunnið en ótekið orlof síðustu tveggja ára, en eldra orlof hefði þá verið fyrnt skv. ákvæði 13. gr. orlofslaga um að framsal orlofslauna og flutningur þeirra milli ára væri óheimill. Kemur fram í greinargerð stefnda að uppgjör við stefnanda hafi miðast við að hann fengi greidda 30 orlofsdaga á ári í fjögur ár, eða alls 120 daga. Frá þeim hafi verið dregið það orlof sem stefnandi hefði tekið út á tímabilinu, eða 43,4 dagar. Væru eftirstöðvarnar því samtals 76,6 dagar miðað við 30. apríl 2016, að viðbættum 30 dögum vegna liðins orlofsárs. Samtals væru þetta 106,6 dagar, sem samsvöruðu 767,52 klst. Við starfslokin hafi stefnanda verið greitt út fyrir uppsafnað orlof í 705,47 klst., en mismuninn hefði stefnandi verið búinn að taka út sem frí.

 

Enda þótt ekki verði af gögnum ráðið að stefnandi hafi samþykkt framangreint uppgjör stefnda á uppsöfnuðu orlofi, eins og stefndi heldur fram, verður ekki séð að hann hafi gert neinar tölulegar athugasemdir við það. Er og dómkrafa stefnanda byggð á útreikningum stefnda um ótekið orlof, þótt hann telji að stefndi hefði átt að greiða honum fyrir þá orlofstíma sem stefndi taldi fallna niður sökum fyrningar og mál þetta snýst um. Með hliðsjón af þessu þykir málið vera tækt til efnislegrar úrlausnar.

 

Eins og áður segir kemur fram í texta starfsmannabréfsins, sem stefnandi byggir kröfu sína á, að starfsmönnum bjóðist að fá greitt sem nemi tveimur vikum af uppsöfnuðu orlofi 1. júní 2016, einni viku af uppsöfnuðu orlofi 1. maí 2017 og einni viku af uppsöfnuðu orlofi 1. maí 2018. Fyrir liggur að stefnandi fékk við starfslok sín hjá stefnda greitt uppsafnað orlof vegna 76,6 daga, sem er langt umfram það sem tiltekið er í framangreindu bréfi að starfsmönnum standi almennt til boða. Sýnist það og geta samræmst þeirri áritun sem fram kemur fyrir ofan undirskrift stefnanda á umrætt blað að „sér samkomulag um frágang orlofs“ hafi verið til staðar við hann. Að virtu framangreindu, og þar sem engin skrifleg undanþága framkvæmdastjóra stefnda liggur fyrir hvað þetta varðar, verður stefnandi ekki talinn hafa sýnt fram á að stefndi hafi með umræddri yfirlýsingu hinn 17. maí 2016 skuldbundið sig til að greiða honum allt ógreitt uppsafnað orlof, þ. á m. það sem stefndi taldi fyrnt og stefnandi krefur nú um greiðslu fyrir. Þá verður ekki talið að framburður stefnanda og samsvarandi framburður samstarfsmanns hans fyrir dómi, sem forsvarsmaður stefnda hefur mótmælt, um að starfsmenn stefnda hefðu lagt að þeim að taka fyrst út áunninn hvíldartíma þeirra áður en þeir tækju út áunnið orlof, hafi hér þýðingu, enda í sjálfu sér ekki á því byggt í stefnu og málið ekki reifað með tilliti til þess.

 

Samkvæmt 14. gr. laga nr. 30/1987 fyrnist krafa á hendur vinnuveitanda samkvæmt lögunum eftir sömu reglum og gilda um kaupkröfur, en skv. 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda er fyrningarfrestur slíkra krafna fjögur ár. Er í þeim efnum við það miðað að krafa til orlofs falli í gjalddaga í lok næsta orlofsárs eftir að krafan stofnast. Samkvæmt því teljast kröfur stefnanda til orlofs fyrir 1. maí 2012 hafa verið fyrndar við undirritun ráðningarsamnings stefnda 17. maí 2016. Þar sem ekki verður annað ráðið en að framangreint uppgjör stefnda hafi verið við þetta miðað verður stefndi sýknaður af kröfu stefnanda.

 

Stefnandi greiði stefnda 600.000 krónur í málskostnað.

 

Ásgeir Magnússon dómstjóri kveður upp dóm þennan og var við uppkvaðningu hans gætt að ákv. 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Dómsorð:

Stefndi, Meitill - GT Tækni ehf., er sýkn af dómkröfu stefnanda, Sævars Ríkharðssonar.

 

Stefnandi greiði stefnda 600.000 krónur í málskostnað.

 

                                                                                                Ásgeir Magnússon