• Lykilorð:
  • Frávísun frá héraðsdómi
  • Dánarbú - Ágreiningsmál við eignaskipti
  • Opinber skipti á dánarbúi

 

Ú R S K U R Ð U R

Héraðsdóms Vesturlands 11. apríl 2018 í máli nr. Q-1/2017:

A

B og

D

(Þórhallur Haukur Þorvaldsson hrl.)

gegn

E,

(Eiríkur Gunnsteinsson hrl.)

F og

G

 

I.

Mál þetta barst héraðsdómi með bréfi skiptastjóra mótteknu 16. mars 2017 vegna dánarbús H…, sem lést … 2006. Var málið þingfest 18. apríl 2017 og tekið til úrskurðar um frávísunarkröfu varnaraðilans E… að loknum munnlegum málflutningi 14. mars sl.

 

Sóknaraðilarnir A… og B… gera í málinu eftirgreindar dómkröfur:

Aðalkrafa:

  1. Að frumvarp skiptastjóra til úthlutunar í dánarbúi H…, sem lagt var fyrir skiptafund 15. mars 2017, verði fellt úr gildi og lagt verði fyrir skiptastjóra að selja eignir dánarbúsins, að undanskilinni fasteigninni …, Snæfellsbæ, landnúmer …, fastanúmer …, og að söluandvirði þeirra verði skipt á milli erfingja í samræmi við arfstilkall þeirra samkvæmt ákvæðum erfðalaga nr. 8/1962.
  2. Þá er þess krafist að söluandvirði eignanna …, Reykjavík, fastanúmer …, og …, Strandabyggð, landnúmer … og fastanúmer …, að teknu tilliti til áhvílandi lána, komi til frádráttar eignarhluta varnaraðilans E… í samræmi við arfstilkall hennar, líkt og andvirði eignanna hefði verið meðal eigna dánarbúsins og komið til skipta.
  3. Þá er þess krafist að viðurkennt verði að kostnaður við matsgerð Stefáns Ólafssonar hrl., dags. 18. janúar 2017, sé dánarbúinu óviðkomandi, en til vara að sóknaraðilum verði ekki gert að standa straum af þeim kostnaði.
  4. Jafnframt er krafist lækkunar skiptaþóknunar, þar með talið kostnaðar vegna sumarhúsanna … og … árin 2015 og 2016.

 

Varakrafa:

  1. Að frumvarpi skiptastjóra verði breytt á þann veg að í hlut sóknaraðila komi greiðsla í peningum sem samsvari arfstilkalli þeirra í samræmi við ákvæði laga nr. 8/1962.
  2. Þá er þess krafist að söluandvirði eignanna …, Reykjavík, …, og …, Strandabyggð, landnúmer … og fastanúmer …, komi til frádráttar eignarhluta varnaraðilans E… í samræmi við arfstilkall hennar, líkt og andvirði eignanna hefði verið meðal eigna dánarbúsins og komið til skipta.
  3. Þá er þess krafist að viðurkennt verði að kostnaður við matsgerð Stefáns Ólafssonar hrl. sé dánarbúinu óviðkomandi, en til vara að sóknaraðilum verði ekki gert að standa straum af þeim kostnaði.
  4. Þá er krafist lækkunar skiptaþóknunar skiptastjóra, þar með talið kostnaðar vegna sumarhúsanna … og … árin 2015 og 2016.

 

Þá er í öllum tilvikum krafist málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt mati réttarins.

 

Við málflutning um frávísunarkröfu tók lögmaður sóknaraðila fram að í greinargerð sóknaraðilanna hefði vegna mistaka gleymst að tilgreina í 2. kröfuliðnum í varakröfu að taka skuli þar tillit til áhvílandi lána á viðkomandi fasteignum, svo sem gert hefði verið í 2. liðnum í aðalkröfunni. Var þess óskað að þessi leiðrétting fengi að komast að í málinu. Var þessu ekki mótmælt af hálfu varnaraðilans E….

 

Varnaraðilinn E… krefst þess í málinu að liðum 2-4 í aðalkröfu verði vísað frá dómi. Þá krefst varnaraðilinn þess að frumvarp skiptastjóra til úthlutunar úr dánarbúi H…, sem lagt var fram á skiptafundi 15. mars 2017, verði staðfest og að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Loks krefst varnaraðilinn þess að sóknaraðilum verði gert að greiða honum málskostnað óháð úrslitum málsins. Aðrir varnaraðilar hafa ekki látið ágreining málsins til sín taka.

 

Sóknaraðilar krefjast þess að frávísunarkröfu varnaraðilans verði hafnað og að ákvörðun um málskostnað verði látin bíða efnisdóms.

II.

Með úrskurði Héraðsdóms Vesturlands 18. mars 2015 var dánarbú H…, sem lést … 2006, síðast til heimilis að …, Reykjavík, tekið til opinberra skipta og Ingi Tryggvason hrl. skipaður skiptastjóri.

 

Í bréfi skiptastjóra til dómsins, dags. 16. mars 2017, kemur fram að með leyfi sýslumannsins í Reykjavík 19. maí 2006 hafi E…, ekkja H…, fengið leyfi til setu í óskiptu búi en 15. júlí 2014 hafi hún gengið í hjónaband að nýju og hafi leyfið þá fallið niður.

 

Erfingjar búsins hafi upphaflega verið þessir: E…, ekkja hins látna, ásamt sameiginlegum börnum þeirra A…, B..., F…, I…, D…, G… og J…. J… og I… hafi afsalað sér arfi úr dánarbúinu og hafi I… gert það gegn því skilyrði að hans arfshluti gengi til móður hans, E….

 

Eignir dánarbúsins séu þessar:                     Áætlað verðmæti:        Fasteignamat 2014:

…,       Snæfellsbæ, 50%                               kr.        7.500.000        7.450.000

…,       Snæfellsbæ, 50% í 2 eignarhl.           -           2.550.000        2.567.000

       sumarhús án lóðarréttinda                   -           5.500.000        1.705.000       

        sumarhús án lóðarréttinda                   -           3.500.000        1.125.000

Lóð á jörðinni …, Strandabyggð                    -           5.000.000           890.000

Geymsluskúr og heitur pottur við sumarh.     -              400.000

Verðbréf                                                          -           6.100.000

Bankainnistæður                                             -           3.289.765

Bifreið                                                             -           4.370.000                               

                                                Samtals            kr.        38.209.765      13.737.000

 

Á skiptafundi í dánarbúinu 14. desember 2016 hafi skiptastjóri lagt fram frumvarp að úthlutunargerð úr dánarbúinu þar sem í stórum dráttum hafi verið gert ráð fyrir því að eignir dánarbúsins skiptust þannig að E… fengi í bús- og arfshluta allar aðrar eignir en sumarhúsin að … og …, geymsluskúr og heitan pott við þau hús. Aðrir erfingjar fengju þessar eignir að jöfnu. Mótmæli hafi komið fram við frumvarpið sem m.a. hafi lotið að verðmæti sumarhúsanna að … og …, en í frumvarpinu hafi húsin, sem séu án lóðarréttinda, verið talin að verðmæti 6.500.000 krónur og 4.500.000 krónur. Hafi sú niðurstaða verið byggð á verðmati skiptastjóra, sem einnig sé löggiltur fasteignasali. Í kjölfar mótmælanna hafi skiptastjóri ákveðið að óska eftir því við sýslumann að hann skipaði matsmann til að meta verðmæti sumarhúsanna og …, lóðar 1, sbr. 4. mgr. 54. gr. laga nr. 20/1991. Hafi niðurstaða matsmannsins verið sú að verðmæti … í júlí 2014 væri 5.500.000 krónur en … á sama tímamarki 3.500.000 krónur. Þá hafi það verið niðurstaða matsmannsins að verðmæti …, lóðar 1, væri 5.000.000 króna, en í frumvarpinu frá desember 2016 hafi verðmæti eignarinnar verið talið 7.000.000 króna, sem sömuleiðis hafi byggst á verðmati skiptastjóra sem gert hafi verið án skoðunar á eigninni. 

 

Í frumvarpi skiptastjóra að úthlutunargerð sem lagt hafi verið fram á skiptafundi 15. mars 2017 hafi verið stuðst við ofangreindar niðurstöður hins skipaða matsmanns. Í frumvarpinu hafi, eins og í fyrra frumvarpi, verið gert ráð fyrir að eignir dánarbúsins skiptust þannig að E… fengi í bús- og arfshluta allar aðrar eignir en sumarhúsin að …  og …, geymsluskúr og heitan pott við þau hús, en að aðrir erfingjar fengju þær eignir að jöfnu.

 

E…, G… og F… hafi samþykkt frumvarpið eins og það hafi verið lagt fram. D…, B… og A… hafi hins vegar mótmælt því og í því sambandi hafi m.a. þetta verið nefnt:

1)      Í ljósi ágreinings erfingja sé óeðlilegt „að ætla hinum tveimur erfingjahópum að fá í sinn hlut tvö hýsi (… og …), án lóðarréttinda, í óskiptri sameign.“

2)      Gerð er sú krafa „að annað hvort verði hreinni peningaeign búsins skipt á milli erfingja í samræmi við arfstilkall, eða eignum búsins skipt með öðrum hætti þannig að erfingjum verði ekki gert að taka við eignum óskipt og í félagi með öðrum hætti.“ Öðrum eignum en fasteigninni … og bifreið, sem lagðar verði út til E…, verði seldar annað hvort almennri sölu eða nauðungarsölu.

3)      Frumvarpið sé bersýnilega ósanngjarnt enda sé „þar í engu tekið tillit til þeirra deilna sem hafa ríkt á milli hinna tveggja erfingjahópa við skiptin ...“  Því sé ótækt að úthluta erfingjum sameiginlega og óskipt réttindum með þeim hætti sem frumvarpið gerir ráð fyrir og þá beri frumvarpið með sér „að þar sé dreginn sé taumur annars erfingjahópsins á kostnað umbj. minna.“

4)      Gerð er athugasemd við að skiptastjóri hafi látið verðmeta sumarhúsin … og ….  Þar hafi verið um meiriháttar ákvörðun að ræða sem skylt hafi verið að bera undir skiptafund.  Skiptastjóri hafi ekki haft sjálfstæða heimild til að óska eftir slíku mati. 

5)      Verðmati Stefáns Ólafssonar hrl. á sumarhúsunum er mótmælt efnislega og það liggi í augum uppi að það „sé allt of hátt og í engu samræmi við markaðsvirði slíks lausafjár á almennum markaði.“

6)      Telja verði eðlilegast að freista þess að selja sumarhúsin annað hvort á almennum markaði eða á nauðungaruppboði.

7)      Eignir dánarbúsins séu verulega vantaldar en skiptastjóri hafi hins vegar engan reka gert að því „að leita skýringa við því eða láta framkvæma sérstaka rannsókn á þeim umtalsverðu fjármunum sem voru í búinu fyrir búskipti.“  Þar er nefnt að engin rannsókn hafi verið gerð á því „hvað hafi orðið um meginþorra söluandvirðis eignarinnar …, Hólmavíkurhreppi, rétt tæplega 57.000.000 og …, Reykjavík, a.m.k. kr. 3.500.000.“

8)      Gerð er athugasemd við tilhögun á skiptingu skiptakostnaðar.  Ekki sé að finna heimild til handa skiptastjóra til þess að krefja erfingja um greiðslu skiptakostnaðar og annars útlagðs kostnaðar.  Á það hafi verið bent ítrekað að skiptastjóra sé „í lófa lagið að innheimta kostnað vegna búsins af eignum þess, annað hvort af peningum búsins, séu þeir til staðar, eða með sölu á eignum búsins til að standa straum af kostnaði.“

 

Vegna þessara athugasemda bókaði skiptastjóri þetta á skiptafundinum: 

1)      Undir skiptum dánarbúsins má segja að erfingjar hafi skipst í tvo hópa og á milli þessara hópa sé mikill ágreiningur um flest ef ekki allt varðandi búskiptin.  Þess er ekki að vænta að sá ágreiningur verði leystur með úthlutun úr dánarbúinu.  Þá eru skiptar skoðanir um verðmæti sumarhúsanna að … og … og enn er verðmæti þeirra dregið í efa af umbjóðendum Þórhalls þrátt fyrir að í frumvarpi að úthlutunargerð sé byggt á niðurstöðu skipaðs matsmanns, sbr. 4. mgr. 54. gr. laga nr. 20/1991.  Með hliðsjón af þeirri útlagningu eigna til E…, maka hins látna, sem hefur verið samþykkt telur skiptastjóri eðlilegast að aðrir erfingjar fái í sinn hlut óskipt sumarhúsin … og ….  Þar sem einnig er uppi ágreiningur um verðmæti húsanna er eðlilegt að þeim sé úthlutað óskipt.  Erfingjar, sem fá húsin í sinn hlut, geta síðan ráðstafað eignarhlut sínum samkvæmt þeim leiðum sem eigendum fasteignar eru almennt færar.

2)      Skiptastjóri telur eðlilegast að eignum dánarbúsins sé úthlutað til erfingja og þeir geti síðan ráðstafað þeim eignum, sem í þeirra hlut koma, án aðkomu skiptastjóra.  Í því sambandi verður að hafa í huga að erfingjar hafa ekki verið sammála um sölu eigna búsins eða ráðstöfun þeirra að öðru leyti.

3)      Skiptastjóri telur ljóst að það sé ekki á hans valdi að leysa þann ágreining sem uppi er á milli erfingja og þá hafnar hann því alfarið að með frumvarpinu sé dreginn taumur annars erfingjahópsins.  Enda byggir frumvarpið á því að aðrir erfingjar en E… fái sömu eignirnar óskipt í sinn hlut.  Ekki verður séð hvernig hægt sé að túlka það þannig að þar sé dreginn taumur eins á kostnað annars.

4)      Skiptastjóri, sem er löggiltur fasteignasali, gerði verðmat á sumarhúsunum … og … reyndar án skoðunar og á sínum tíma var því verðmati ekki mótmælt af umbjóðendum Þórhalls.  Á þessu verðmati var byggt í frumvarpi sem lagt var fram á skiptafundi 14. desember 2016 en þá komu fram alvarlegar athugasemdir af hálfu umbjóðenda Þórhalls við verðmatið.

Var fullyrt að verðmæti húsanna væri mun lægra en skiptastjóri gerði ráð fyrir „enda eru húsin gömul að aldri, viðhaldi á þeim hefur verið stórlega ábótavant auk þess sem þau eru byggð af vanefnum.“  Í ljósi þessara mótmæla átti skiptastjóri ekki annan kost en að óska eftir skipan matsmanns til að verðmeta sumarhúsin, sbr. 4. mgr. 54. gr. laga nr. 20/1991, sbr. 17. – 23. gr. laganna.  Því er hafnað að þá ákvörðun hafi skiptastjóri þurft að leggja undir skiptafund.

5)      Matsgerð Stefáns Ólafssonar hrl. vegna sumarhúsanna … og … er dags. 18. janúar 2017 og var send Þórhalli H. Þorvaldssyni hrl. og erfingjum, sem fara með mál sitt sjálfir, 20. janúar sl.  Frestur til að fara fram á yfirmat voru fjórar vikur frá þeim degi, sbr. 2. mgr. 22. gr. laga nr. 20/1991.  Beiðni um yfirmat barst ekki og því stendur matsgerð Stefáns Ólafssonar hrl. óhögguð og verður lögð til grundvallar við búskiptin.  Andmæli við hana eru því þýðingarlaus.    

6)      Það er mat skiptastjóra að það sé eðlilegast eins og málum er háttað og þar sem erfingjar hafa ekki komið sér saman um skiptingu eigna að þeim verði úthlutað eins og gert er ráð fyrir í frumvarpi að úthlutunargerð.

7)      Það hefur ítrekað komið fram undir skiptum á dánarbúinu að báðir erfingjarhópar telja að ekki hafi komið fram við skiptin eignir sem tilheyra ættu búinu.  Það hefur jafnframt ítrekað komið fram hjá skiptastjóra að hann muni ekki aðhafast í þeim tilgangi að endurheimta inn í búið eignir sem telja mætti að tilheyrðu því.  Hins vegar hefur skiptastjóri heimilað erfingjum að fara í aðgerðir til að endurheimta inn í búið eignir, sem þeir telja að eigi að tilheyra því, á sinn kostnað, sbr. 3. mgr. 68. gr. laga nr. 20/1991.  Erfingjar hafa hins vegar ekki gert það.  Umbjóðendur Þórhalls hafa einnig fengið heimild til að kanna allar fjármálalegar ráðstafnir sem E… hefur gert eftir að hún seldi jörðina … og íbúðina að …, Reykjavík.  Þessi heimild nær m.a. til þess að fá allar upplýsingar frá lánastofnunum sem geti gefið upplýsingar um hreyfingar á banka- og vörslureikningum (sjá fundargerð skiptafundar 14. desember 2016).

8)      Ekkert er óeðlilegt við tillögu skiptastjóra um greiðslu skiptakostnaðar.  Það er ljóst að greiði erfingjar ekki skiptakostnað munu þeir ekki fá eignir útlagðar heldur mun skiptastjóri þá selja hlut viðkomandi erfingja og ráðstafa söluverðinu upp í skiptakostnað.

 

Ágreiningurinn um frumvarpið hafi verið ræddur á skiptafundinum og reynt að leysa hann með samkomulagi en það ekki tekist. Erfingjarnir E…, F… og G… hafi talið að leggja ætti frumvarpið til grundvallar við búskiptin en A…, B… og D… hafi talið að ekki ætti að leggja það óbreytt til grundvallar. Ekki hafi tekist að jafna ofangreindan ágreining um frumvarp skiptastjóra að úthlutunargerð á skiptafundinum og því eigi skiptastjóri ekki annan kost en að beina málefninu til Héraðsdóms Vesturlands, sbr. 3. mgr. 79. gr. og 122. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.

 

III.

Varnaraðilinn E… vísar til þess að málið snúist í raun einungis um réttmæti og gildi frumvarps skiptastjóra dánarbúsins, sem lagt hafi verið fram á skiptafundi 15. mars 2017, en samkvæmt bréfi skiptastjóra hafi ágreiningnum verið vísað til héraðsdóms á grundvelli 3. mgr. 79. gr. laga nr. 20/1991, sem eigi við um ágreining vegna frumvarps. Fallist héraðsdómur á frumvarpið verði það lagt til grundvallar við skiptin og geti skiptastjóri þá lokið skiptum. Sóknaraðilar hafi hins vegar lagt fram kröfur sínar skv. liðum 2-4, bæði í aðalkröfu og varakröfu, á þann hátt að ekki fái samrýmst lögum um skipti dánarbúa. Þannig sé ljóst að þær eignir sem tilgreindar séu í lið 2, eignirnar B… og …, séu ekki hluti af ágreiningi aðila samkvæmt bréfi skiptastjóra. Þvert á móti liggi fyrir skýr afstaða skiptastjóra um að hann muni ekki fara í aðgerðir til að endurheimta umrædd verðmæti til búsins. Þá sé kröfuliður þessi og vanreifaður. Þannig sé ekki ljóst af kröfunni hvað verði um búshluta varnaraðila, ekki sé gert ráð fyrir því í varakröfunni að tekið skuli tillit til áhvílandi lána og ekki sé lagður til grundvallar kröfunni tölulegur útreikningur. Á sama hátt sé ljóst að kröfuliðir 3 og 4 geti ekki fallið undir þau ágreiningsatriði sem skiptastjóri hafi lagt fyrir dóminn með bréfi sínu, auk þess sem varnaraðili hafi ekki óskað eftir mati á umræddum sumarhúsum og hafi enga skyldu til að verjast kröfum vegna þeirra fyrir dómi.

 

Sóknaraðilar mótmæla því að liðum 2-4 í aðal- og varakröfum þeirra verði vísað frá dómi. Vísa þeir til þess að kröfur þessar falli að öllu leyti innan þess ramma sem skiptastjóri hafi markað sakarefni máls þessa í bréfi sínu til dómsins, dags. 16. mars 2017. Því sé og hafnað að kröfur þessar séu svo óskýrar og vanreifaðar að leiða eigi til frávísunar. Hins vegar sé ljóst að láðst hafi að tilgreina það í 2. varakröfu sóknaraðila að taka skuli þar tillit til áhvílandi veðskulda á viðkomandi eignum, á sama hátt og tilgreint sé í 2. aðalkröfu sóknaraðilanna. Sé þess óskað að þessi kröfuliður verði því leiðréttur að þessu leyti, enda sé með því verið að draga úr kröfugerðinni en ekki auka við hana.

 

IV.

Niðurstaða

Eins og áður greinir beindi skiptastjóri ágreiningi um frumvarp hans að úthlutunargerð í búinu til úrlausnar dómsins, með vísan til 3. mgr. 79. gr. og 122. gr. laga nr. 20/1991 um skipti dánarbúa o.fl., og er óumdeilt að úrlausnarefni um það hvort vísa beri frá tilgreindum kröfum sóknaraðila ræðst af þeirri afmörkun á sakarefninu sem fram kemur í bréfi skiptastjóra til dómsins. Telur varnaraðili að kröfuliðir 2-4 í aðal- og varakröfu sóknaraðila falli utan hins afmarkaða sakarefnis og beri því að vísa þeim frá dómi.

 

Í 1. mgr. 122. gr. laga nr. 20/1991 um opinber skipti á dánarbúum o.fl. segir að rísi ágreiningur um atriði við opinber skipti sem fyrirmæli laganna kveða sérstaklega á um að beint skuli til héraðsdóms til úrlausnar, svo og ef skiptastjóri telur þörf úrlausnar héraðsdóms um önnur ágreiningsatriði sem koma upp við opinber skipti, skuli skiptastjóri beina skriflegri kröfu um það til þess héraðsdómstóls þar sem hann var skipaður til starfa. Í 3. tl. 1. mgr. er síðan tekið fram að meðal þess sem fram skuli koma í kröfunni sé um hvað ágreiningur standi og hverjar kröfur hafi komið fram í því sambandi. Í bréfi sínu til dómsins tilgreinir skiptastjóri að sóknaraðilar hafi mótmælt því frumvarpi til úthlutunargerðar er hann lagði fram á skiptafundi í búinu hinn 15. mars 2017 og að þeir hafi í því sambandi m.a. „nefnt“ tilgreind átta tölusett atriði. Hins vegar er í bréfinu ekki að finna skýra afmörkun á því um hvað endanlegur ágreiningur um frumvarpið stóð og þá skýra kröfugerð sóknaraðila um það hverju þeir teldu að breyta bæri í frumvarpinu. Í lok bréfsins tilgreinir skiptastjóri að ágreiningurinn um frumvarpið hafi verið ræddur á skiptafundinum og reynt að leysa hann með samkomulagi en það ekki tekist. Hafi sóknaraðilar málsins mótmælt því og talið að ekki ætti að leggja það óbreytt til grundvallar við skiptin. Ætti skiptastjóri því ekki annan kost en að beina málefninu til úrlausnar dómsins.

 

Enda þótt ljóst megi vera samkvæmt framangreindu að skiptastjóri krefjist í bréfi sínu úrlausnar dómsins á þeim ágreiningi sem upp sé kominn milli erfingja dánarsbúsins um frumvarp skiptastjóra til úthlutunargerðar í búinu þá verður ekki talið að nægilega skýr afmörkun sé á því í hverju sá ágreiningur hafi verið fólginn og hvaða breytingar sóknaraðilar hafi talið að gera bæri á frumvarpinu, sbr. 1. mgr. 79. gr. og 3. tl. 1. mgr. 122. gr. laga nr. 20/1991. Leiðir af þessu að með öllu er ógerlegt að ákvarða hvort kröfugerð sóknaraðila í málinu telst í samræmi við þau ágreiningsefni sem afmörkuð eru með framangreindu bréfi skiptastjóra til dómsins. Verður af þessum sökum ekki hjá því komist að vísa máli þessu frá dómi.

 

Rétt þykir að hvor aðili fyrir sig beri sinn kostnað af málinu.

 

Ásgeir Magnússon dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.

 

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá dómi.

 

Málskostnaður fellur niður.

 

                                                                                    Ásgeir Magnússon