• Lykilorð:
  • Brot gegn valdstjórninni

D Ó M U R

Héraðsdóms Vesturlands 19. febrúar 2019 í máli nr. S-77/2018:

Ákæruvaldið

(Margrét Unnur Rögnvaldsdóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

Amalíu P. Arthursdóttur

(Flosi Hrafn Sigurðsson hdl.)

 

Mál þetta höfðaði héraðssaksóknari með ákæru dags 8. nóvember 2018 á hendur ákærðu, Amalíu P. Arthursdóttur, kt. …, Bárugötu 17, Akranesi. Málið var dómtekið 5. febrúar 2019.

   Í ákæru segir að málið sé höfðað gegn ákærðu „fyrir brot gegn valdstjórninni, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 3. desember 2017, á lögreglustöðinni við Hverfisgötu í Reykjavík, sparkað í vinstri fótlegg lögreglumannsins A… og rifið í hár lögreglumannsins B… með þeim afleiðingum að hárlokkur slitnaði úr hársverði hennar, er lögreglumennirnir voru við skyldustörf.   

Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.   

Ákærða hefur fyrir dómi skýlaust játað að hafa framið það brot sem henni er gefið að sök í ákæru og er játning hennar studd sakargögnum. Eru því efni til að leggja dóm á málið samkvæmt 1. mgr. 164. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Samkvæmt þessu verður ákærða sakfelld fyrir brotið, sem réttilega er fært til lagaákvæða í ákæru.

Í máli þessu er ákærða sakfelld fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa ráðist með ofbeldi gegn lögreglumönnum sem voru að gegna skyldustarfi sínu. Með 1. gr. laga nr. 25/2007, um breyting á almennum hegningarlögum, var refsirammi 106. gr. almennra hegningarlaga, þegar brot beindist að opinberum starfsmanni sem hefur heimild til líkamlegrar valdbeitingar, hækkaður úr 6 árum í 8 ár. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 25/2007 segir meðal annars að markmiðið með 1. gr. frumvarpsins sé að skerpa og auka þá refsivernd sem opinberum starfsmönnum er hafa heimild til líkamlegrar valdbeitingar sé veitt í refsilögum, enda lendi þessi hópur opinberra starfsmanna mun oftar í þeirri aðstöðu að sæta ofbeldi eða hótun um ofbeldi en aðrir opinberir starfsmenn.

Samkvæmt sakavottorði hefur ákærða ekki mál á sakaskrá sem hefur áhrif á ákvörðun viðurlaga. Við ákvörðun refsingar ákærðu er þess að gæta að það horfir henni til málsbóta að hún hefur greiðlega gengist við brotinu. Að framansögðu virtu þykir refsing ákærðu hæfilega ákveðin tveggja mánaða fangelsi, en rétt þykir að fresta fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að tveimur árum liðnum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Loks verður ákærða með vísan til 235. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, gert að greiða þóknun verjanda síns sem þykir hæfilega ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti svo sem greinir í dómsorði. Annan sakarkostnað leiddi ekki af rannsókn og meðferð málsins.

Guðfinnur Stefánsson, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

Ákærða, Amelía P. Arthursdóttir, sæti fangelsi í tvo mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærða greiði þóknun verjanda síns, Flosa Hrafns Sigurðssonar lögmanns, 132.680 krónur.

 

 

Guðfinnur Stefánsson