• Lykilorð:
  • Líkamsárás
  • Miskabætur

D Ó M U R

Héraðsdóms Vesturlands 11. apríl 2017 í máli nr. S-22/2016:

Ákæruvaldið

(Jón Haukur Hauksson aðstoðarsaksóknari)

gegn

Erlingi A. Óskarssyni

(Ingi Tryggvason hrl.)

 

Mál þetta höfðaði lögreglustjórinn á Vesturlandi með ákæru, dagsettri 2. maí 2016, á hendur ákærða, Erlingi A. Óskarssyni, kt. ..., Akranesi. Málið var dómtekið 17. mars 2017.

Í ákæruskjali segir að málið sé höfðað gegn ákærða „fyrir líkamsárásir með því að hafa hinn 25. desember 2015, í húsi nr. ... við ... á Akranesi,

a) veist að og hrint A..., kt. ..., svo hún féll á gólfið, með þeim afleiðingum að hún hlaut mar og hrufl á báðum olnbogum, mar á hægri upphandlegg og mar á þumalsvæði hægri handar

b) hrint B..., kt. ..., svo hún féll á gólfið og sparkað í hana liggjandi á gólfinu, með þeim afleiðingum að hún hlaut mar á hægri rasskinn.

Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa 1:

Í málinu hefur Gunnhildur Pétursdóttir hdl. lagt fram skaðabótakröfu f.h. A..., kt. ..., vegna ólögráða dóttur hennar, B..., kt. ..., og krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða B... 800.000 kr. í miskabætur auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 25. desember 2015 og þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar, en síðan dráttar­vaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags auk þóknunar við réttargæslu að mati dómsins eða síðar framlagðs málskostnaðarreiknings, auk virðisaukaskatts.

 

 

Einkaréttarkrafa 2:

Í málinu hefur Gunnhildur Pétursdóttir hdl. lagt fram skaðabótakröfu f.h. A..., kt. ..., og krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða A... 1.200.000 kr. í miskabætur auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 25. desember 2015 og þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar, en síðan dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags auk þóknunar við réttargæslu að mati dómsins eða síðar framlagðs máls­kostnaðarreiknings, auk virðisaukaskatts.“

 

Við upphaf aðalmeðferðar málsins 17. mars sl. vakti sækjandi athygli dómsins á því að sú prentvilla hefði orðið í ákæru að í stað orðanna „í húsi nr. ... við ... á Akranesi“ í upphafi ákærunnar hafi með réttu átt að standa „í húsi nr. ... við ... á Akranesi“. Var af hálfu ákærða ekki gerð athugasemd vegna þessa.

Ákærði krefst vægustu refsingar vegna þeirrar háttsemi sem hann hefur játað, en að öðru leyti verði hann sýknaður. Jafnframt krefst ákærði þess að bótakröfum verði vísað frá dómi en að öðrum kosti verði þær lækkaðar verulega. Þá verði honum dæmd málsvarnarþóknun úr ríkissjóði með hliðsjón af framlögðum málskostnaðarreikningi.

 

I.

Föstudaginn 25. desember 2015 barst lögreglunni á  Vesturlandi tilkynning þess efnis að kona hefði hringt í neyðarlínuna og óskað eftir aðstoð. Lögreglan fór á  vettvang að ..., en konan hafði hringt þaðan. Við komu þangað hitti lögreglan fyrir A..., sem kvartaði undan ákærða sem væri ölvaður og æstur. Kom fram hjá henni að ákærði hefði beitt hana og dóttur hennar, B..., ofbeldi, en hann hefði búið hjá henni að ... í um einn og hálfan mánuð. Lögreglan ræddi við ákærða og kom fram hjá honum að ósætti hefði orðið milli hans og A.... Ekki hefði þó komið til átaka og hann sagðist ekki hafa beitt þær mæðgur ofbeldi. Hann hefði þó hugsanlega ýtt við A.... Eftir að lögreglan hafði fylgt ákærða af vettvangi ræddi hún við A... og B..., dóttur hennar. A... sagði að þær hefðu komið heim fyrr um daginn og þá hafi ákærði verið orðinn ölvaður. Kom fram hjá A... að hún og ákærði hefðu rifist og ákærði þá ýtt við henni. Einnig kom fram hjá A... að ákærði hefði einnig ýtt B... niður í gólfið og svo sparkað í hana þar sem hún lá. Farið var með B... og A... á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi til læknisskoðunar.      

Í áverkavottorði fyrir B..., dags 8. apríl 2016, segir að B... hafi komið til læknisskoðunar í fylgd móður sinnar og lögreglu hinn 25. desember 2015. Við skoðun hafi verið mikil eymsli á hægri rasskinn og komið þar fram mar, um 5 x 10 cm stórt. Önnur áverkamerki hafi ekki fundist. 

 

II.

Skýrslur fyrir dómi

Ákærði lýsti atvikum svo að hann hefði skaffað peninga fyrir hinu og þessu sem brotaþolinn A... hefði beðið um. Hún hefði svo komið til ákærða og sagt honum að peningarnir væru búnir og hann þá ekki átt neina peninga til að kaupa fyrir jólagjöf handa syni sínum. Ákærði kvaðst þá hafa spurt brotaþola hvað þau ættu að gera á milli jóla og nýárs og hún þá sagt að hann gæti bara tekið meira fyrirfram. Hefði hann þá dottið í þunglyndi, ekki sofið á nóttunni og byrjað að fá sér bjór til að ná að sofa. Nokkrum dögum síðar hefði brotaþoli farið að tala um peninga á ný og þá hefði hann sagt hingað og ekki lengra, hann gæti þetta ekki meira og að hann yrði að koma sér út. Kvaðst ákærði hafa æst sig, öskrað yfir báða brotaþola og látið ljót orð falla. Kvaðst hann svo hafa reynt að ná töskunni sinni en A... þá reynt að stoppa hann. Ákærði kvaðst hafa ýtt henni frá og verið að safna saman dótinu sínu þegar hún hefði reynt að stoppa hann. Hann hefði hins vegar einungis verið að reyna að koma sér út af heimilinu. Þar sem hann hefði oft lent í því að hún hefði grýtt glösum í andlitið á honum hefði hann orðið smeykur við hana því hún hefði staðið þar sem hnífar voru. B... hefði svo komið að og ráðist aftan að honum, en hann sé með brjósklos. Kvaðst hann þá hafa snúið sér við, ýtt henni frá og gengið út. Lögreglan hefði þá verið komin á vettvang og fylgt honum út. Aðspurður kvaðst ákærði einungis hafa ýtt B... frá sér og hún þá dottið aftur fyrir sig. Aðspurður  um áverka sem hefðu greinst á hægri rasskinn B... kvaðst ákærði minnast þess að hálka hefði verið úti umrætt sinn og að hún hefði sagt honum eitt sinn, þegar hún fékk bifreið lánaða hjá honum, að hún hefði þá flogið á hausinn fyrir utan. Kvað ákærði það einnig vera skrítið að brotaþoli hefði haft áverka hægra megin því hún hefði snúið vinstri hliðinni að honum.

  Brotaþolinn A... lýsti því að umrætt sinn hefðu hún og dóttir hennar komið heim um miðjan jóladag.  Ákærði hefði tekið kast, þegar þær voru rétt komnar inn úr dyrunum, en þær hefðu ekki vitað hvers vegna. Þær hefðu farið inn í herbergi dóttur hennar og ákærði þá hafið reiðilestur yfir þeim og svo hent henni í gólfið. Þegar hún reyndi að rísa upp aftur hefði hann hent henni aftur í gólfið. Svo hefði þetta borist fram í eldhús þar sem ákærði hefði einnig hent henni í gólfið. Dóttir hennar hefði þá komið hlaupandi og ætlað að ganga í milli en ákærði hefði þá einnig hent henni í gólfið. Kvaðst vitnið þá hafa grúft sig yfir dóttur sína og ákærði þá sparkað í hægri mjöðmina á B.... Aðspurð um afleiðingar árásarinnar kvaðst vitnið hafa allt árið 2016 fundið fyrir miklu öryggisleysi og vanlíðan. Hún hefði verið hrædd við að fara út úr húsi og alltaf haft það á tilfinningunni að ákærði myndi koma. Kvaðst vitnið hafa farið til geðlæknis til að leita sér aðstoðar og farið í kvíðameðferð á Landsspítalanum.  

Brotaþoli B... kvað ákærða hafa hrint móður sinni inni í eldhúsi og hafi hún ætlað að hjálpa henni. Þegar hún næst vissi af sér hefði hún verið komin í gólfið og svo hefði ákærði sparkað í hana á meðan hún lá á gólfinu. Mamma hennar hefði reynt að grúfa sig yfir hana og hún hafi ekki getað staðið strax upp, en ákærði hefði sagt þeim að liggja á gólfinu. Þær hefðu svo staðið upp og farið inn í herbergið hennar og hún beðið ákærða um að fara fram, en hann hafi ekki orðið við því. Þá hefði ákærði hrint móður hennar aftur og lyft henni sjálfri upp og hent henni í rúmið og farið svo fram. Þá hefði hún getað hringt í neyðarlínuna. Korteri síðar hefði lögreglan komið og svo hefðu þær farið upp á sjúkrahús til að fá læknisvottorð. Aðspurð kvaðst hún muna það þannig að ákærði hefði hrint henni í gólfið og svo stuttu síðar sparkað í mjöðmina á henni. Kvaðst hún telja að höggið við sparkið hafi komið ofarlega á hægri mjöðmina, eða á rasssvæðið. Aðspurð kvaðst hún ekki hafa orðið fyrir áverkum skömmu áður né dottið áður í hálku. Aðspurð sagði hún að sér hefði liðið illa, dagana eftir meint brot og allt árið 2016 hefði hún verið með kvíða og haft stöðugar áhyggjur af móður sinni. Kvað hún líðan sína góða í dag og að hún væri ekki með kvíða lengur.

Vitnið Silvía Llorens Izaguirre, lögreglukona bar fyrir dómi að þegar þau hefðu komið á svæðið hefði ákærði verið frekar æstur og honum hefði verið vísað þaðan í burtu. Þau hefðu talað við A... og dóttur hennar inni. Það hefði svo verið ákveðið að ákærði færi út af heimilinu. Ákærði mun hafa sagt að þau hefðu verið að rífast en hann hefði þó ekki lagt hendur á hana. Þegar þau hefðu rætt við A... hefði hún sagt að ákærði hefði ýtt við sér en hún hefði haft áhyggjur af dóttur sinni því ákærði hefði ýtt henni í gólfið og svo sparkað í hana. Það hefði enga áverka verið að sjá og eftir að þau hefðu keyrt ákærða til bróður síns hefðu þau keyrt mæðgunum á sjúkrahúsið.  

Vitnið Arnar Geir Magnússon, lögreglumaður bar fyrir dómi að þegar þau hefðu komið á vettvang hefðu bæði A... og ákærði verið frekar æst. Ákærði hefði verið áberandi ölvaður en A... ekki virst vera undir áhrifum áfengis. A... hefði óskað eftir að ákærði yrði fjarlægður af heimilinu þar sem hann væri ölvaður og æstur. Vitnið kvaðst ekki muna eftir atvikum en vitnaði til lögregluskýrslu sem hann skrifaði. Þar komi fram að A... hafi talað um að ákærði væri æstur og ölvaður og hefði beitt þær mæðgur ofbeldi. Ákærði hefði þvertekið fyrir að hafa beitt þær ofbeldi.    

 

III.

Niðurstaða

Fyrir dómi hefur ákærði játað að hafa veist að og hrint A... eins og honum er gefið að sök samkvæmt a-lið ákæru. Jafnframt hefur hann játað að hafa hrint B... svo hún féll á gólfið eins og honum er gefið að sök í fyrri hluta b-liðs ákærunnar. Er sú játning ákærða í samræmi við gögn málsins. Verður ákærði því sakfelldur fyrir framangreinda háttsemi.

Ákærði neitar því hins vegar að hafa sparkað í B... umrætt sinn. Bæði B... og A... hafa, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi, lýst atvikum svo að ákærði hafi fyrst hrint B... og svo sparkað í mjöðm hennar. Kom og fram hjá öðrum lögreglumannanna, sem vitni bar fyrir dóminum, að A... hefði skýrt frá því á vettvangi að ákærði hefði sparkað í B.... Er þessi framburður í samræmi við þá áverka sem fram komu við læknisskoðun sama dag, en í áverkavottorði kemur fram að brotaþoli hafi verið með mikil eymsli á hægri rasskinn og mar um 5 x 10 cm stórt. Telst því sannað, gegn neitun ákærða að ákærði hafi á þeim stað og tíma sem í ákæru greinir, af ásetningi, sparkað í B... liggjandi á gólfinu með þeim afleiðingum sem lýst er í ákæru.

Samkvæmt framangreindu hefur ákærði því verið sakfelldur fyrir þá háttsemi sem lýst er í ákæruliðum a og b og telst háttsemi hans varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga, eins og réttilega er lýst í ákæru.

Samkvæmt sakavottorði hefur ákærði ekki áður gerst sekur um refsiverðan verknað sem hefur áhrif  á ákvörðun viðurlaga. Það þykir horfa refsingu ákærða til þyngingar, sbr. 3. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, að með háttseminni raskaði ákærði gróflega heimilisfriði fjölskyldunnar og ber þá sérstaklega að líta til þess að fram hefur komið að brot hans beindust að sambýliskonu hans og ólögráða dóttur hennar á sameiginlegu heimili þeirra. Að þessu gættu, og með vísan til 77. gr. almennra hegningarlaga, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin tveggja mánaða fangelsi, en rétt þykir að fresta fullnustu hennar og falli refsingin niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

 

            A... hefur f.h. B..., ólögráða dóttur sinnar, krafist skaðabóta úr hendi ákærða. Er krafist miskabóta að fjárhæð 800.000 krónur, auk vaxta. Er vísað til þess að brotaþoli hafi orðið fyrir ofbeldi innan veggja heimilisins. Um lagarök er vísað til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Með vísan til niðurstöðu um sakfellingu fyrir ofbeldisbrot er það niðurstaða dómsins að framferði ákærða í greint sinn hafi valdið brotaþolanum miska. Á hún rétt á bótum vegna háttsemi hans á grundvelli 26. gr. laga nr. 50/1993. Í ljósi atvika málsins eru bætur þessar hæfilega ákveðnar 350.000 krónur. Einnig verður fallist á vaxtakröfu brotaþola, þannig að vextir reiknist frá 25. desember 2015 og dráttarvextir frá 7. apríl 2016 þegar mánuður var liðinn frá því krafan var kynnt ákærða.

 

                        Þá hefur A..., krafist skaðabóta úr hendi ákærða. Er krafist miskabóta að fjárhæð 1.200.000 króna, auk vaxta. Er vísað til þess að brotaþoli hafi orðið fyrir langvarandi andlegu og líkamlegu ofbeldi af hálfu nákomins aðila. Um lagarök er vísað til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Með vísan til niðurstöðu um sakfellingu fyrir ofbeldisbrot er það niðurstaða dómsins að framferði ákærða í greint sinn hafi valdið brotaþola miska. Á hún rétt á skaðabótum vegna háttsemi hans á grundvelli 26. gr. laga nr. 50/1993. Í ljósi atvika málsins eru bætur þessar hæfilega ákveðnar 200.000 krónur. Einnig verður fallist á vaxtakröfu brotaþola þannig að vextir reiknist frá 25. desember 2015 og dráttarvextir frá 7. apríl 2016 þegar mánuður var liðinn frá því krafan var kynnt ákærða.

 

Samkvæmt 1. mgr. 218. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, verður ákærða gert að greiða þóknun skipaðs verjanda ákærða, bæði á rannsóknarstigi og fyrir dómi, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, en þær fjárhæðir eru tilgreindar í dómsorði að meðtöldum virðisaukaskatti. Að auki verður ákærða gert að greiða útlagðan kostnað verjanda og réttargæslumanns.

Ásgeir Magnússon dómstjóri kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

Ákærði, Erlingur Andrés Óskarsson, sæti fangelsi í tvo mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði greiði B... 350.000 krónur í skaða­bætur, ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 25. desember 2015 til 7. apríl 2016, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði A... 200.000 krónur, auk vaxta af þeirri fjárhæð skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 25. desember 2015 til 7. apríl 2016, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga af nefndri fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði 400.000 króna málsvarnarlaun og 16.704 króna ferðakostnað skipaðs verjanda síns, Inga Tryggvasonar hrl., og 600.000 króna þóknun og 40.104 króna ferðakostnað réttargæslumanns brotaþola, Gunnhildar Pétursdóttur hdl.

 

Ásgeir Magnússon