• Lykilorð:
  • Erfðaskrá
  • Fyrirframgreiddur arfur
  • Dánarbú - Gildi erfðaskrár
  • Opinber skipti á dánarbúi

 

Ú R S K U R Ð U R

Héraðsdóms Vesturlands 10. júlí 2018 í máli nr. Q-2/2017:

A

(Helgi Birgisson lögmaður)

gegn

B

(Pétur Kristinsson lögmaður)

D

(Pétur Kristinsson lögmaður)

E

(Pétur Kristinsson lögmaður)

F

(Pétur Kristinsson lögmaður)

G

(Þórdís Bjarnadóttir lögmaður)

H

(Þórdís Bjarnadóttir lögmaður)

I

(Þórdís Bjarnadóttir lögmaður)

J

(Þórdís Bjarnadóttir lögmaður)

K og

(Pétur Kristinsson lögmaður)

L

(Pétur Kristinsson lögmaður)

 

I.

Mál þetta barst héraðsdómi með bréfi skiptastjóra, dags. 4. október 2017, vegna dánarbús X…, sem lést …. Var málið þingfest 21. nóvember 2017 og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 22. júní sl.

 

Sóknaraðilinn  A… krefst þess aðallega að héraðsdómur staðfesti að erfðaskrá X…, sem lést … 2016, undirrituð hinn 25. október 2004, hafi ekki gildi við skiptin á dánarbúi hans og að sóknaraðili skuli einn taka allan arf. Þá krefst sóknaraðili þess að auk allra eigna hins látna á dánardegi sé viðurkennt að meðal eigna búsins sé fasteignin …, …. Verði ekki fallist á ógildi erfðaskrárinnar er þess krafist til vara að viðurkennt sé að við skipti á dánarbúi X… komi auk allra eigna hins látna á dánardegi fasteignin …, …, og að sóknaraðili skuli erfa 2/3 allra eigna dánarbúsins. Til þrautavara krefst sóknaraðili þess að við skipti á dánarbúi X… skuli við það miðað að varnaraðilar taki arf í samræmi við erfðaskrá 1/3 hluta eigna X…, þó þannig að heildararfur varnaraðila, þ.m.t. fyrirframgreiddur arfur varnaraðila B…, fari ekki fram úr þeim 1/3 hluta sem hinum látna var heimilt að ráðstafa með erfðaskrá. Til þrautaþrautavara krefst sóknaraðili þess að við skipti á dánarbúi X… taki hann í arf 2/3 allra eigna hans eins og þær voru á dánardegi. Í öllum tilvikum krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila sameiginlega að mati dómsins.

 

Varnaraðilarnir B…, D…, E…, F…, K… og L… krefjast aðallega sýknu af öllum kröfum sóknaraðila, þannig að bréferfingjar taki allan arf. Til vara er þess krafist að erfðaskrá sú sem undirrituð var 25. október 2004 haldi gildi sínu að fullu, þannig að bréferfingjar erfi 1/3 hluta eigna X…, eins og þær voru á dánardegi hans, og að fasteignin … tilheyri því ekki búinu. Til þrautavara er þess krafist að erfðaskráin haldi gildi sínu og nái til 1/3 hluta allra eigna X….   Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að mati dómsins og að málskostnaður beri virðisaukaskatt.

 

Varnaraðilarnir G…, H…, I… og J… krefjast þess aðallega að þær verði sýknaðar af öllum kröfum sóknaraðila, þannig að bréferfingjar taki allan arf. Til vara krefjast þær þess að erfðaskrá frá 25. október 2004 haldi gildi sínu að öllu leyti þannig að bréferfingjar erfi 1/3 allra eigna X… eins og þær voru á dánardegi hans. Í báðum tilvikum krefjast þær málskostnaðar úr hendi sóknaraðila, að mati dómsins, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

 

II.

Með úrskurði Héraðsdóms Vesturlands, uppkveðnum 7. júní 2017, var dánarbú X… tekið til opinberra skipta, en hann lést hinn … 2016 og var síðast til heimilis að …, …. Ágreiningur er milli erfingjanna, það er sóknaraðila annars vegar og hins vegar varnaraðila, um gildi og þýðingu erfðaskrár, dags. 25. október 2004, og um það hvort fasteignin að … í … tilheyri dánarbúinu eða ekki. Tekur skiptastjóri fram í bréfi sínu til dómsins að þar sem ekki hafi tekist að jafna framangreindan ágreining sé honum beint til úrslausnar dómsins, sbr. 3. mgr. 79. gr. og 122. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.

 

X… gerði erfðaskrá hinn 24. október 2004 og samkvæmt henni skyldu eftirtaldir taka arf eftir hann: B…, H…, G…, J…, I…, M…, K…, og L…. Í erfðaskránni sagði að félli einhver ofangreindra frá á undan X… skyldi arfshluti þess erfingja falla til lögerfingja hans. M… lést á undan X… og eru lögerfingjar hennar, auk fyrrgreinds B…, synir hennar, D…, E… og F…. Þeir ásamt öðrum tilgreindum bréferfingjum eru varnaraðilar þess máls. G…, H… og J… munu vera systur X… og I… dóttir G…. M… mun hafa verið uppeldissystir X… og B… og L… vinir hans. Samkvæmt erfðaskránni skyldi fasteign X… við …, …, koma í hlut B… að X… látnum, en aðrar eignir skiptast að jöfnu með öðrum bréferfingjum. Í erfðaskránni tekur X… sérstaklega fram að við undirritun hennar eigi hann enga skylduerfingja. Þess ber að geta að X… hafði áður gert erfðaskrá, dags. 25. febrúar 2002, sem féll úr gildi með erfðaskránni 25. október 2004. Í henni sagði einnig að X… ætti engan skylduerfingja þegar hann með erfðaskránni ráðstafaði eignum sínum.

 

Með skiptayfirlýsingu, dags. 1. júní 2016, ráðstafaði X… fasteigninni að … sem fyrirframgreiddum arfi til varnaraðilans B….

 

 

 

III.

Þegar sóknaraðili fæddist í … … 1951 hafði móðir hans, N…, nýhafið sambúð með O… og gengu þau síðan í hjónaband hinn 17. júní sama ár. Í tilkynningu til Þjóðskrár var O… skráður faðir sóknaraðila og í samræmi við þágildandi lög um afstöðu foreldra til óskilgetinna barna nr. 87/1947 var sóknaraðili við hjúskapinn talinn skilgetinn sonur O….

 

Sóknaraðili lýsir því í greinargerð sinni að hann hafi strax á barnsaldri fengið vitneskju um að O… væri ekki blóðfaðir hans heldur X…, sem dvalið hefði í … um vorið og sumarið 1950 og kynnst móður hans þar.

 

Sóknaraðili höfðaði mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 27. september 2016 til vefengingar á því að O… væri faðir hans. Lauk því máli með dómsátt á grundvelli 24. gr. barnalaga nr. 76/2003 um að O… væri ekki faðir sóknaraðila, í samræmi við niðurstöðu mannerfðafræðilegrar rannsóknar um að meiri en 99% líkur væru á því að X… væri faðir sóknaraðila.

 

Með máli þingfestu fyrir Héraðsdómi Reykjaness 25. janúar 2017 gerði sóknaraðili þá kröfu að viðurkennt yrði með dómi að X… væri faðir hans. Lauk því máli með dómsátt hinn 9. mars sama ár, sbr. 18. gr. barnalaga nr. 76/2003, um að X… væri réttur faðir hans.

 

IV.

Til stuðnings aðalkröfu sinni vísar sóknaraðili til þess að skv. 35. gr. erfðalaga sé arfleifanda óheimilt að ráðstafa meira en 1/3 hluta eigna sinna eigi hann niðja. Með hinni umþrættu erfðaskrá hafi sóknaraðli ráðstafað öllum eignum sínum, sem hann hafi ekki haft heimild til að gera, út frá þeirri röngu hugmynd að hann ætti enga skylduerfingja. Sé slík arfleiðsla, er byggist á villu um staðreyndir, að engu hafandi og leiði til ógildingar erfðaskrár að áliti sóknaraðila.

 

Í 38. gr. erfðalaga sé fjallað um þá aðstöðu er erfðaskrárákvæði stafi af rangri hugmynd arfleifanda. Beri að meta slíkt ákvæði ógilt ef telja má að hin ranga hugmynd (forsenda) hafi ráðið úrslitum um efni ákvæðisins. Af efni þeirra erfðaskráa er X… gerði sé ljóst að hann hafi staðið í alrangri meiningu um stöðu sína. Í báðum erfðaskránum segi að arfleifandi eigi enga skylduerfingja og að hann hafi ákveðið að ráðstafa eignum sínum til frændfólks og vandalausra. Val hans á erfingjum hafi verið reist á misskilningi um erfingja. Verði að miða við að X… hefði ekki hagað arfleiðslunni með þeim hætti sem hann gerði hefði hann búið yfir vitneskju um að hann ætti einkason, enda ráðstöfunin honum beinlínis óheimil skv. 35. gr. erfðalaga. Þar sem fyrirframgreiðsla arfsins til varnaraðila B… hafi grundvallast á ógildri erfðaskrá krefjist sóknaraðili þess að dómurinn viðurkenni að fasteignin við … skuli teljast meðal eigna búsins. Fallist héraðsdómur hins vegar ekki á það og verði niðurstaða hans sú að … komi ekki til skipta eftir X… sé sú málsástæða höfð uppi til vara að úrskurðað verði að sóknaraðili taki allan arf, að … fráskildum. 

 

Með erfðaskránni 25. október 2004 hafi X… afurkallað fyrri erfðaskrá sem hann hafi undirritað 25. febrúar 2002. Hún öðlist ekki gildi að nýju þótt hin síðari erfðaskrá verði metin ógild, sbr. Hrd. 1983, bls. 382.

 

Varðandi varakröfu sína tekur sóknaraðili fram að í henni felist að … verði ekki haldið utan skiptanna heldur verði búinu skipt í samræmi við þá tillögu sem sóknaraðili hafi sett fram til sátta í bréfi til varnaraðila 22. ágúst 2017. Grundvallist krafan á því að erfðaskráin haldi gildi sínu hvað varði þann 1/3 hluta sem X… hafi getað ráðstafað, en ekki umfram það. Við það verði að miða að þegar búið sé að greiða sóknaraðila skylduarfinn, þ.e. 2/3 eigna búsins, komi það sem eftir verði í hlut varnaraðila. Heildareignir búsins séu áætlaðar um 97,4 milljónir króna, að teknu tilliti til …, og kæmu þá 2/3 hlutar eignanna í hlut sóknaraðila en 1/3 í hlut bréferfingja. Það feli í sér að í hlut hvers varnaraðila kæmi 1/24 hluti eigna búsins, að undaskildum þeim fjórum varnaraðilum sem leiði rétt sinn frá M… heitinni. Þeir myndu skipta með sér 1/24 hluta þannig að í hlut hvers þeirra kæmi 1/96 hluti eigna búsins (varnaraðili B… 1/24+1/96). 

 

Þrautavarakrafa sóknaraðila taki mið af því að ekki verði raskað við hinum fyrirframgreidda arfi til varnaraðila B… með ráðstöfuninni á …. Samkvæmt 32. gr. erfðalaga verði erfingi sem hljóti fyrirfram meira fé frá arfleifanda en nemi erfðahluta hans eftir hann ekki skyldaður til að standa búinu skil á mismuninum. Fyrir liggi að X… hafi verið óheimilt að ráðstafa meiru en 1/3 hluta eigna sinna með erfðaskrá, sbr. 35. gr. erfðalaga, og því geti heildarbréfarfur aldrei, þrátt fyrir ákvæði 32. gr. erfðalaga, farið fram úr 1/3 hluta eigna hins látna. Feli það í sér að arfur til annarra vararaðila skerðist sem nemi þeim mismun sem varnaraðili B… hafi fengið fyrirfram umfram erfðahluta.

 

Þrautaþrautavarakrafan sé á því byggð að erfðaskráin frá 2004 verði meti gild eða talin gilda um 1/3 hluta þeirra eigna sem X… hafi látið eftir sig. Sóknaraðili, sem eini skylduerfinginn, taki í arf 2/3 af eignum dánarbúsins, eins og þær hafi verið á dánardegi, sbr. 35. gr. erfðalaga, en í hlut varnaraðila komi 1/3 hluti eigna. Af 1. gr. erfðalaga leiði að óskilgetið barn erfi föður sinn „ef það er feðrað með þeim hætti, sem segir í löggjöf um óskilgetin börn.“ Sóknaraðili hafi höfðað barnsfaðernismál fyrir Héraðsdómi Reykjaness með kröfu um að X… væri viðurkenndur faðir hans. Því máli hafi lokið með dómsátt skv. 18 gr. barnalaga nr. 76/2003 í samræmi við niðurstöður rannsóknar meinafræðideildar Landspítala-háskólasjúkrahúss um að X… væri faðir sóknaraðila. Með því hafi faðerni sóknaraðila lögformlega verið ákvarðað með jafngildi dóms og þannig sköpuð lögerfðatengsl með sóknaraðila og X… föður hans.

 

V.

Af hálfu varnaraðilanna G…, H…, I… og J… er á því byggt að X… hafi á dánardægri sínu hinn … 2016 ekki átt neinn skylduerfingja. Samkvæmt 1. gr. erfðalaga sé það forsenda erfðaréttar að barn sé feðrað með lögformlegum hætti. Sóknaraðili hafi á dánardægri X… verið feðraður O…, skv. „pater est faðernisreglu“, en móðir hans hafi við fæðingu sóknaraðila verið í hjúskap með O…. Hafi X… því verið frjálst að ráðstafa öllum eigum sínum með erfðaskrá. Erfðalögin byggist á því að arftaka miðist við dánardag arfleifanda með þeirri einu undantekningu sem um geti í 21. gr. erfðalaga nr. 8/1962, sem ekki eigi við í þessu máli.   

 

Í erfðaskrá X… komi fram skýr og ótvíræður vilji hans með hvaða hætti eignum hans verði ráðstafað að honum látnum. Varnaraðilar telji að þann vilja X… beri að virða. Fram komi í framlögðum gögnum að X… hafi vitað af sóknaraðila og að hann væri kynfaðir hans. Þrátt fyrir þá vitneskju geri hann erfðaskrá þar sem fram komi að hann eigi ekki skylduerfingja, enda hafi sóknaraðili verið feðraður öðrum manni bæði þegar erfðaskráin var gerð og á andlátsdegi X….

 

Það gangi þvert gegn tilgangi lögerfðareglna verði dæmt á þann veg að sóknaraðili taki arf eftir X…. Tilgangur lögerfðareglna sé sá helstur að stuðla að arftöku í samræmi við sterkustu tengsl, vernd fjölskyldu og jafnrétti barna. Ljóst sé að engin tengsl hafi verið til staðar milli sóknaraðila og arfleiðanda. Sóknaraðili hafi þegar tekið arf eftir báða foreldra sína og telji því varnaraðilar að hafna beri arftöku sóknaraðila í þessu máli.

 

Varakrafa varnaraðila sé á því byggð að X… hafi verið heimilt að ráðstafa 1/3 hluta eigna sinna með erfðaskrá skv. 35. gr. erfðalaga og því beri bréferfingjum arfur sem nemi þriðjungi eigna X…, eins og þær hafi verið á dánardægri hans.

 

Alfarið sé mótmælt þeirri staðhæfingu sóknaraðila að X… hafi verið í villu um það að hann ætti enga skylduerfingja þegar hann gerði sína erfðaskrá. Staðan hafi verið sú, bæði þegar X… gerði erfðaskrá sína og þegar hann féll frá, að hann hafi þá ekki átt neina skylduerfingja. Sóknaraðili hafi á þeim tíma verið feðraður öðrum manni. X… hafi hins vegar verið fullkunnugt um að hann væri líffræðilegur faðir sóknaraðila á þeim tíma sem hann gerði erfðaskár sínar. Eigi ákvæði 38. gr. erfðalaga því ekki við í þessu máli.

 

Mótmælt sé varakröfu sóknaraðila um að viðurkennt verði að við skiptin komi, auk allra eigna hins látna á dánardægi, fasteignin … og að sóknaraðili muni erfa 2/3 hluta allra eigna búsins. Búið hafi verið að greiða erfingjanum B… framangreinda fasteign út sem fyrirframgreiddan arf og hafi því sú eign ekki verið meðal eigna búsins á dánardægri X…. Sú eign komi því á engan hátt inn í búskiptin.

 

Þá sé því og alfarið mótmælt að réttur annarra erfingja skerðist sem nemi þeim mismun sem B.. hafi fengið fyrirfram umfram erfðahlut, enda liggi ekki fyrir nein skuldbinding þar um af hálfu B…, sbr. 32. gr. erfðalaga.

 

Loks sé mótmælt þeim málsástæðum sóknaraðila að baki þrautaþrautavarakröfu hans að faðerni hans hafi verið lögformlega ákvarðað með jafngildi dóms og með því hafi verið sköpuð lögerfðatengsl með sóknaraðila og X…. Bendi varnaraðilar í því sambandi á það að faðernið hafi ekki verið formlega ákvarðað fyrr en að X… látnum. X… hafi hins vegar ekki átt neina skylduerfingja þegar hann lést.

 

VI.

Aðalkrafa varnaraðilanna B…, D…, E…, F…, K… og L… er í fyrsta lagi á því byggð að X… hafi ekki átt neina skylduerfingja að lögum við andlátið. Erfðalög geri ráð fyrir því að arftaka miðist við dánardag og einu undantekninguna frá því sé að finna í 21. gr. erfðalaga um skilyrtan erfðarétt fósturs. Þannig hafi sóknaraðili ekki verið erfingi X… á þeim degi sem hann lést og í raun verið sonur annars manns að lögum. Þar sem X… hafi ekki átt skylduerfingja samkvæmt framansögðu, hvorki þegar erfðaskráin hafi verið gerð né við andlátið, hafi honum verið heimilt að ráðstafa öllum eignum sínum með erfðaskrá, sbr. IV. kafla erfðalaga.

 

Í öðru lagi sé aðalkrafan á því byggð að með erfðaskránni hafi X… lýst yfir ótvíræðum vilja sínum um það hvað verða skyldi um eignir hans að honum gengnum. Hafi hann vitað af tilvist sóknaraðila þegar hann gerði erfðaskrána en gert hana engu að síður og ráðstafi eign á grundvelli hennar 12 árum síðar. Þannig hafi vilji hans verið skýr og einbeittur. Hann hafi ekki viljað að sóknaraðili tæki arf eftir sig heldur að allar eignir hans rynnu til þeirra sem í erfðaskránni sé getið. Þegar erfðaskráin hafi verið gerð og þegar hann lést hafi hann ekki átt neina skylduerfingja að lögum og því haft fulla heimild til að ráðstafa öllum eignum sínum með erfðaskrá. Verði ekki séð að hann hafi gert ráð fyrir því að það breyttist eftir andlátið. Sóknaraðili hafi ekkert aðhafst í tæp 50 ár til að fá faðernið viðurkennt og hafi X… því vart haft ástæðu  til að ætla að mál yrði höfðað að honum látnum. Þannig verði ekki önnur ályktun dregin en sú að X… hafi látist í þeirri fullvissu að eignum hans yrði ráðstafað í samræmi við þann skýra vilja sem fram komi í erfðaskránni og hafi engin ástæða verið til að ætla annað en að svo yrði. Megi því gera ráð fyrir því að X… hefði ráðstafað eignum sínum með öðrum hætti en með erfðaskrá hefði hann talið einhvern vafa leika á því að hún gengi eftir. 

 

Með því að höfða ekki málið fyrr en að X… látnum hafi sóknaraðili svipt hann  möguleikanum á því að bregðast við í samræmi við þann skýra vilja sem fram komi í erfðaskránni. Að ráðstafa eign með erfðaskrá sé einungis eitt form ráðstöfunar og hefði X… verið í lófa lagið að ráðstafa eignunum með öðrum hætti ef hann hefði talið að ótvíræður vilji sinn næði ekki fram að ganga.  

 

Þannig telji varnaraðilar að vilji X… hafi verið skýr og einbeittur. Ráðstöfun allra eigna hans með erfðaskrá hafi verið samkvæmt lögum við gerð erfðaskrárinnar, þegar fasteigninni … hafi verið ráðstafað á grundvelli hennar og við andlát X…. Sú staðreynd að erfðaskráin hafi verið gerð og eign verið ráðstafað samkvæmt henni, þrátt fyrir vitneskju X… um tilvist sóknaraðila og tengsl þeirra, sýni einbeittan vilja X…. Þann vilja telji varnaraðilar að beri að virða.  

 

Varakrafa varnaraðila sé á því byggð að sé sóknaraðili skylduerfingi þá hafi eigninni … verið ráðstafað áður en X… lést og því ekki verið meðal eigna hans á dánardægri hans. Þá hafi eigninni verið ráðstafað áður en faðerni sóknaraðila hafi verið staðfest og því verið í samræmi við lög á þeim tíma sem hún hafi verið gerð.   Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 20/1991 taki dánarbú við öllum fjárhagslegum réttindum sem maður eigi þegar hann deyr. Samkvæmt framansögðu verði ekki önnur ályktun dregin en að erfðaskráin taki til allra annarra eigna en …. Megi í þessu sambandi einnig benda á þau sjónarmið er fram komi í 32. gr. erfðalaga, en þar segi að hafi maður fengið fyrirfram í arf meira en honum hafi borið verði hann ekki skyldaður til að standa straum af mismuninum. 

 

Þrautavarakrafa varnaraðila sé byggð á því að eigi arfleifandi skylduerfingja megi hann ráðstafa 1/3 hluta eigna sinna með erfðaskrá, sbr. 35. gr. erfðalaga. Verði niðurstaðan sú að sóknaraðili teljist skylduerfingi X… sé ljóst að X… hafi haft heimild til að ráðstafa 1/3 hluta af eignum sínum með erfðaskrá. 

 

Mótmælt sé þeirri staðhæfingu sóknaraðila að X… hafi verið í villu um það að hann ætti enga skylduerfingja þegar hann gerði sína erfðaskrá. Staðan hafi verið sú, bæði þegar X… gerði erfðskrá sína og þegar hann féll frá, að hann átti þá ekki skylduerfingja. X… hafi hins vegar verið fullkunnugt um tilvist sóknaraðila og að hann væri líffræðilegur faðir sóknaraðila. Hafi X… því verið allar staðreyndir málsins ljósar þegar hann gerði erfðaskrána. Eigi ákvæði 38. gr. erfðalaga því ekki við.

 

Varakrafa sóknaraðila geri ráð fyrir því að erfðaskráin haldi gildi sínu en þó þannig að … teljist meðal eigna búsins og komi til skipta. Þessu sé mótmælt. Verði ekki fallist á aðalkröfu sóknaraðila og litið svo á að erfðaskráin gildi aðeins að 1/3 hluta telji varnaraðilar að … eigi ekki að falla undir skiptin. X…  hafi ráðstafað eigninni áður en hann lést og því tilheyri eignin einfaldlega ekki dánarbúinu. Vísist að öðru leyti til  rökstuðnings fyrir varakröfu varnaraðila hér að framan.     

 

Mótmælt sé þrautavarakröfu sóknaraðila, sem sé á því byggð að taka skuli tillit til … við skiptin, en þó þannig að verðmæti hans skuli teljast innan 1/3 hluta af eignum búsins. Um rökstuðning fyrir afstöðu varnaraðila sé annars vegar vísað til þess að … falli utan skiptanna, eins og áður hafi verið rakið, og hins vegar til 32. gr. erfðalaga, en samkvæmt henni verði erfingi sem hljóti fyrirfram meira í arf en nemi erfðahlut hans ekki skyldaður til að standa skil á mismuninum nema hann hafi skuldbundið sig til þess sérstaklega.  

 

Þrautaþrautavarakröfu sóknaraðila sé mótmælt með þeim rökum að meta eigi erfðaskrána gilda að fullu þannig að bréferfingjar taki allan arf, sbr. aðalkröfu varnaraðila.

 

VII.

Eins og áður er rakið var með dómsátt hinn 9. mars 2017 staðfest að sóknaraðili væri sonur X…. Telst hann þar með við skipti á dánarbúi X… njóta lög­erfðaréttar skv. 1. tl. 1. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Var X… því óheimilt skv. 35. gr. erfðalaga að ráðstafa meira en 1/3 hluta eigna sinna með erfðaskrá.

 

Sóknaraðili byggir á því í aðalkröfu sinni að ógilda beri erfðaskrána með vísan til 38. gr. erfðalaga, enda hafi X… við undirritun hennar verið í villu um þá staðreynd að sóknaraðili væri líffræðilegur sonur hans. Hafi sú ranga hugmynd ráðið úrslitum um gerð erfðaskrárinnar. Verði við það að miða að X… hefði ekki hagað arfleiðslunni með þeim hætti sem hann gerði, hefði hann vitað um tilvist sonar síns, enda hafi ráðstöfunin verið honum óheimil skv. 35. gr. erfðalaga.

 

Samkvæmt 38. gr. erfðalaga er erfðaskrárákvæði ógilt stafi það af misskilningi hjá arfleifanda, ef telja má að röng hugmynd arfleifanda hafi ráðið úrslitum um efni ákvæðisins. Í erfðaskrá X…, dags. 25. október 2004, er sérstaklega tekið fram að hann eigi engan skylduerfingja. Verður ekki nægilega um það ráðið af texta erfðaskrárinnar sjálfrar eða öðrum gögnum málsins hvort X… hefði eigi að síður, hefði honum verið ljóst að hann ætti son, viljað nýta arfleiðsluheimild sína í þágu varnaraðila að því marki sem lög frekast heimiluðu. Að því gættu verður að telja að framangreind villa hafi verið ráðandi ástæða þess að umrædd ráðstöfun var gerð. Verður því á það fallist með sóknaraðila að erfðaskráin hafi ekkert gildi við skipti á dánarbúi X….      

 

Eins og áður segir er í umræddri erfðaskrá tekið fram að húseignin … í … skuli koma í hlut B… og liggur fyrir í málinu að X… afhenti honum eignina sem fyrirframgreiddan arf samkvæmt skiptayfirlýsingu, dags. 1. júní 2016, eða tæpum þremur mánuðum fyrir andlát hans. Með því að gildi þeirrar ráðstöfunar byggðist alfarið á því að erfðaréttur B… samkvæmt erfðaskránni væri til staðar og þar sem erfðaskráin er með úrskurði þessum lýst ógild verður fallist á það með sóknaraðila að framangreind ráðstöfun fasteignarinnar ….  teljist ógild og að eignin skuli teljast meðal eigna búsins.

 

Þar sem fallist hefur verið á allar kröfur sóknaraðila í málinu verður varnaraðilum gert að greiða honum málskostnað, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

 

Ásgeir Magnússon dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.

 

Úrskurðarorð:

Staðfest er að erfðaskrá X…, dags. 25. október 2004, hafi ekki gildi við skipti á dánarbúi hans og að sóknaraðili, A…, skuli einn taka allan arf. Viðurkennt er og að fasteignin …, …, sé meðal eigna búsins.

 

Varnaraðilarnir B…, D…, E…, F…, K… og L… greiði sóknaraðila óskipt 720.000 krónur í málskostnað og varnaraðilarnir G…, H…, I… og J… greiði sóknaraðila óskipt 480.000 í málskostnað.

                                                                                                Ásgeir Magnússon