• Lykilorð:
  • Manndráp af gáleysi
  • Umferðarlagabrot
  • Ölvunarakstur

D Ó M U R

Héraðsdóms Vesturlands 31. október 2018 í máli nr. S-27/2017:

Ákæruvaldið

(Jón Haukur Hauksson aðstoðarsaksóknari)

gegn

X

(Haukur Örn Birgisson lögmaður)

 

I.

Mál þetta, sem dómtekið var 3. október sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Vesturlandi, dags. 31. maí 2017, á hendur X…, kt. …, …, …, „fyrir eftirtalin hegningar- og  umferðarlagabrot:

 

1.

Með því að hafa, skömmu fyrir kl. 4:40 aðfaranótt laugardagsins 9. apríl 2016, ekið bifreiðinni … norður Vesturlandsveg á móts við Tangavatn á Holtavörðuheiði í Borgarbyggð, án ökuréttinda og óhæfur til aksturs vegna áhrifa áfengis og ávana- og fíkniefna (vínandi í blóðsýni greindist 0,85‰ og tetrahýdrókannabínól í blóðsýni greindist 1,6 ng/ml), yfir á rangan vegarhelming miðað við akstursstefnu og út af veginum, þar sem bifreiðin valt og farþegi í bifreiðinni, A…, kt. …, varð fyrir miklum áverkum sem leiddu hann til dauða síðar sama dag.

Framangreind brot ákærða teljast varða við 215. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. sbr. 2. mgr. 45. gr., 1. mgr. sbr. 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðalaga nr. 50/1987.

2.

Með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 9. apríl 2016 um kl. 3:04 ekið bifreiðinni … á Vesturlandsvegi, á móts við Árvelli á Kjalarnesi í Reykjavík, með allt að 109 km hraða á klukkustund, að teknu tilliti til vikmarka, þar sem leyfilegur hámarkshraði er 90 km á klukkustund og að nota farsíma án handfrjáls búnaðar við aksturinn.

Framangreind brot ákærða teljast varða við 2. mgr. 37. gr. og 47. gr. a, hvort tveggja sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

 

Einkaréttarkrafa:

B…, kt. …, krefst að ákærði verði dæmdur til að greiða henni 11.500.000 kr. í miskabætur og útfararkostnað auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá tjónsdegi og þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar, en síðan dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags og að dráttarvextir leggist við höfuðstól miskabóta á 12 mánaða fresti í samræmi við 12. gr. laga nr. 38/2001. Þá er gerð krafa um málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi, verði slíkur reikningur lagður fram, auk virðisaukaskatts.“ 

 

Við þingfestingu málsins hinn 21. júní 2017 neitaði ákærði sök vegna ákæruliðar 1 en játaði sök vegna ákæruliðar 2. Við upphaf aðalmeðferðar 28. september sl. breytti ákærði afstöðu sinni til ákæruefnisins í ákærulið 1 að því leyti að hann játaði þá að hafa ekið bifreiðinni í greint sinn þrátt fyrir að vera án ökuréttinda og óhæfur til að aka henni vegna áhrifa áfengis og ávana- og fíkniefna. Hann neitaði hins vegar, eftir sem áður, að hafa með háttsemi sinni greint sinn gerst sekur um brot gegn 215. gr. almennra hegningarlaga.

 

Við aðalmeðferð málsins var fallið frá einkaréttarkröfu gegn ákærða.

 

II.

Samkvæmt frumskýrslu lögreglu barst tilkynning til fjarskiptamiðstöðvar lögreglu aðfaranótt laugardagsins 9. apríl 2016 um bílveltu á Holtavörðuheiði og kom m.a. fram að einn hefði kastast út úr bifreiðinni. Er lögregla kom á staðinn stóð bifreiðin á hjólunum utan vegar með framenda að akrein og fékk lögreglan þær upplýsingar að einn farþegi bifreiðarinnar, A…, lægi í aftursæti hennar. Á vettvangi var og ákærði, sem sagðist hafa verið ökumaður bifreiðarinnar, og D…, sem kvaðst hafa verið farþegi í framsæti. Sögðust þeir hafa fundið A…, sem hefði kastast út úr bifreiðinni þegar hún valt, en langan tíma hefði tekið að finna hann vegna myrkurs. Þeir hefðu svo borið hann að bifreiðinni og lagt hann í aftursætið.

 

Í skýrslunni kemur og fram að við komu lögreglu á staðinn hafi A… verið orðinn kaldur þrátt fyrir að breitt hefði verið yfir hann sæng og fatnaði. Hann hafi verið meðvitundarlaus, en andað, og að tekin hafi verið ákvörðun um að hreyfa hann ekki fyrr en sjúkraflutningamenn og læknir kæmu á staðinn. Við komu þeirra á vettvang hafi A… fyrst verið fluttur í sjúkrabifreiðina, en síðan hafi verið óskað eftir aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar og hann þá fluttur með henni á bráðamóttöku Landspítalans.

 

Ákærði og D… voru fluttir í lögreglubifreið til viðræðna. Er haft eftir ákærða að slysið hafi orðið með þeim hætti að þeir hafi verið á leiðinni norður í land og skyndilega hafi þá komið ljós á móti á sömu akrein. Hafi hann þá beygt til vinstri og bifreiðin við það farið út af veginum og oltið nokkrar veltur. Farþeginn, A…, sem setið hafi í aftursætinu, hafi þá ekki verið þar lengur. Hafi þeir fundið hann eftir nokkra leit og flutt hann inn í bifreiðina. Hjá lögreglu vöknuðu grunsemdir um að ákærði væri undir áhrifum ávana- og fíkniefna, en hann kvað svo ekki vera. Hins vegar sagðist hann hafa neitt áfengis fyrr um kvöldið, áður en þeir lögðu af stað, en ekkert eftir það. Var hann þá handtekinn grunaður um ölvun við akstur og þeir í kjölfarið fluttir á lögreglustöðina í Borgarnesi þar sem ákærði gaf þvagsýni, auk þess sem tekið var úr honum blóðsýni tvisvar með klukkustundar millibili.

 

III.

Í kjölfar slyssins fór fram skoðun á umræddri bifreið hjá Frumherja hf. Liggur fyrir í málinu slysaskoðunarskýrsla vegna þessa, sem unnin var af Karli Svavari Sigurðssyni, bifvélavirkja og véltæknifræðingi. Í athugasemdum um ástand stýrisbúnaðar kemur fram eftirfarandi: „Spindilkúla við vinstra framhjól brotin. Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum þá er brotið úr spindilkúlunni hnoðað og nokkuð ljóst að spindilkúlan var brotin fyrir einhverjum tíma síðan. Svo virðist sem kúlan hafi brotnað en setið áfram í sætinu þar til að hún hefur að öllum líkindum hrökkið úr sætinu og við það verður bifreiðin svo gott sem stjórnlaus. Yfirborðstæring á brotsárinu undirstrikar ennfremur að brotið er gamalt. Brotið er svokallað þreytubrot þar sem galli eða skemmd í yfirborði verður til þess að brotið á sér stað. Þetta ferli á sér stað á löngum tímabili.“

 

Að beiðni lögreglustjórans á Vesturlandi um dómkvaðningu matsmanns, dags. 7. september 2016, var hinn 29. sama mánaðar dómkvaddur Snorri Sævar Konráðsson bílatæknifræðingur til að framkvæma mat á „niðurstöðum bílatæknirannsóknar Frumherja hf., dags. 9.4.2016, varðandi bifreiðina … …, og segja álit sitt og leitast við að skýra orsakir umferðarslyss 9. apríl 2016. sbr. 1. mgr. 86. gr. og 1. mgr. 128. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.“ Í niðurstöðum matsgerðar hans, dags. 29. mars 2017, kemur eftirfarandi fram: „Orsök slyssins verður ekki skýrð með brotinni spindilkúlu meðan ökutækið var í akstri á veginum. Öll ummerki á spindilkúlunni benda til þess að hún hafi verið heil svo lengi sem ökutækið var á veginum. Ummerki á vegi gefa enga vísbendingu um að vinstra framhjól hafi verið í óeðlilegri stöðu meðan ökutækið var á veginum.“ Þá segir síðar: „Verulegar líkur eru á að ekki hafi verið hægt að hafa stjórn á ökutækinu vegna hraða og hliðarskriðs eftir að það kom út úr beygju og tók stefnu út á vinstri kant miðað við akstursstefnu. Um 120 til 130 (sic.) langur vettvangur, þar af 72 til 78 metrar utan vegar, er til vitnis um að hraði ökutækisins hafi verið ökumanninum ofviða.“

 

Í þinghaldi í málinu hinn 4. október 2017 voru, að ósk ákærða, dómkvaddir þeir Atli Vilhjálmsson bifvélavirkjameistari og Árni Rúnar Kristmundsson bifvélavirki til að framkvæma yfirmat á orsökum slyssins. Í niðurstöðum yfirmatsgerðarinnar, dags. 5. desember 2017, kemur m.a. fram það álit matsmanna að spindilkúla bifreiðarinnar hafi ekki verið brotin fyrir slysið, heldur hafi hún brotnað við högg eftir að bifreiðinni fór út af veginum. Ekki hafi verið mögulegt að stýra bifreiðinni á þann hátt sem ljósmyndir af hjólförum segi til um með brotna spindilkúlu. Töldu matsmenn, miðað við þau gögn sem fyrir lágu, að búnaður bílsins hefði verið í góðu lagi og ekki orsakað slysið heldur hefði verið um að ræða mannleg mistök.

 

Þá liggur fyrir í málinu skýrsla rannsóknarnefndar samgönguslysa um slysið, dags. 9. apríl 2016, þar sem fram kemur sú orsakagreining að ökumaður bifreiðarinnar hafi verið óhæfur til aksturs vegna áfengis og vímuefna, farþegi sem lést hafi ekki notað bílbelti og kastast út úr bifreiðinni, ökumaður hafi ekið of hratt og að ökumaður hafi ekki öðlast ökuréttindi.

 

Í krufningarskýrslu Sebastian Niko Kunz, sérfræðings í réttarmeinafræði, dags. 8. júní 2016, kemur m.a. fram að hinn látni hafi látist af völdum fjöláverka á brjósti og kviðarholi og að áverkar, staðsetning og umfang áverka samsvari bílslysi, eins og því sé lýst í skýrslu lögreglu. Engin merki um bílbelti hafi verið greinanleg. Þá hafi hvorki niðurstöður krufningar né eiturefnagreining leitt í ljós niðurstöður sem myndu skýra skyndilegt meðvitundarleysi og þannig þetta banaslys.

 

IV.

Skýrslur fyrir dómi

Ákærði kvað þá félagana alla þrjá hafa verið að fá sér í glas á heimili eins þeirra í … um og eftir miðnætti umrædda nótt þegar sú hugmynd hefði komið upp að þeir myndu skreppa norður á Akureyri. Kvaðst hann hafa ekið bifreiðinni, sem þeir hefðu fengið að láni hjá öðrum vini þeirra, að slysstaðnum á Holtavörðuheiði, þrátt fyrir að vera ökuréttindalaus. Hann hefði verið hættur drykkju skömmu áður en þeir lögðu af stað og verið þá ölvaður en sagðist þó ekki hafa fundið fyrir áfengisáhrifum við aksturinn. Hann hefði ekki verið búinn að neyta annarra efna en áfengis þennan dag, en hann hefði hins vegar neytt kannabisefna deginum áður. Ákærði kvaðst hafa ekið á um 90 km hraða á leiðinni. Aðstæður hefðu verið góðar, þurrt og engin umferð, en hins vegar verið myrkur. Á leiðinni hefði D… setið farþegamegin í framsætinu og A… í miðju aftursætisins. Hefði A… setið þar svo að hann gæti spjallað við þá á leiðinni. Sjálfur kvaðst ákærði hafa verið í bílbelti við aksturinn og taldi að það sama hefði gilt um D…, en A… hefði hins vegar ekki verið í belti. Er þeir hefðu ekið norður Holtavörðuheiði kvaðst hann hafa misst stjórn á bifreiðinni, sem hefði fyrst farið til vinstri og svo til hægri, en loks skotist út af veginum og oltið. Er hann hefði rankað við sér eftir þetta hefði hann talað við D…, sem setið hefði í framsætinu. Hann hefði svo ætlað að tala við A…, sem setið hefði í aftursætinu, en hann hefði þá ekki verið í bílnum. Þeir D… hefðu þá farið út að leita að honum og fundið hann um fimmtíu metra frá bílnum. Þeir hefðu tekið hann upp og borið hann í áföngum inn í bifreiðina og í kjölfarið hringt í 112. Spurður út í fyrri framburð hans um að honum hefði brugðið við að sjá eitthvert ljós og þess vegna misst stjórn á bifreiðinni svaraði ákærði að honum hefði á þessum tíma fundist hann sjá þetta ljós. Hefði þetta verið eina skýringin sem hann hefði getað komið með á því hvers vegna þetta gerðist. Svo þegar hann hefði frétt að enginn bíll hefði getað verið þarna á ferðinni þá hefði þetta breyst. Ákærði sagðist ekki hafa neytt áfengis eða fíkniefna eftir að slysið varð. Þá kvaðst hann ekki muna hversu langur tími leið frá því að bifreiðin fór út af veginum og þar til þeir hringdu eftir aðstoð lögreglu og sjúkraliðs. Það hefði verið eftir að þeir fundu A… og báru hann inn í bílinn. Sagði hann A… hafa legið, beran að ofan, á bakinu og verið í öndunarerfiðleikum þegar þeir fundu hann. Þeir hefðu ákveðið að flytja hann inn í bílinn því að kalt hefði verið í veðri. Þeir hefðu bara verið klæddir í bol og því ekki haft neitt til að setja yfir hann. Sagðist ákærði hafa tekið undir höfuðið og handarkrikann á A… og D… undir fæturna þegar þeir báru hann. Sjálfur sagðist ákærði hafa reynt að tala við A… en ekki fengið nein svör. Kvaðst hann hafa talið það stafa af öndunarerfiðleikum A…, enda hefði hann talið D… með meðvitund. Er ákærði var spurður út í bifreiðina sagði hann hana hafa verið misjafna þennan dag og daginn áður og að í hringtorgum hefði stýrið stundum dottið út og svo aftur inn í tvær til þrjár sekúndur.

 

Fram kom hjá vitninu D… að umrætt kvöld hefðu þeir félagarnir verið allir við áfengisdrykkju. Um klukkan eitt eða tvö um nóttina hefðu þeir svo ákveðið að fara norður á snjóbrettafestival, sem þar átti að fara fram. Ákærði hefði ekið bifreiðinni en A… setið í miðju aftursætisins og verið sá eini sem ekki var í öryggisbelti. Kvaðst vitnið ekki sérstaklega hafa fylgst með hraða bifreiðarinnar á leiðinni eða hraðamæli hennar og myndi ekki eftir neinu óvenjulegu í sambandi við aksturinn. Hann sagði þó að afturendi bifreiðarinnar hefði alltaf verið að rása til. Lýsti vitnið því svo að skömmu áður en slysið varð hefði bifreiðin orðið stjórnlaus og síðan oltið út af veginum. Eftir slysið hefðu þeir farið að leita að A… og fundið hann liggjandi á bakinu. Hefðu þeir flutt hann inn í bifreiðina með því að sjálfur hefði hann tekið um fæturna á A… en ákærði undir höfuð hans. Kvaðst hann ekki telja að A… hefði orðið fyrir hnjaski við að vera borinn þessa leið. Þeir hefðu svo tilkynnt um slysið um hálftíma eftir að það átti sér stað.

 

Vitnið E… kvaðst hafa átt bifreiðina sem ákærði ók umrætt sinn. Sagðist hann telja að hún hefði þá verið í góðu standi. Hann hefði þekkt ákærða í um það bil ár. Hann hefði vitað að ákærði væri 17 ára en ekki að ákærði væri ekki með bílpróf.  

 

Vitnið Kristín Magnúsdóttir lyfjafræðingur skýrði nánar niðurstöður rannsóknar á áfengismagni og styrk fíkniefna í blóð- og þvagsýnum frá ákærða.

 

Vitnið Karl Svavar Sigurðsson, bifvélavirki og véltæknifræðingur hjá Frumherja hf., skýrði nánar og staðfesti skoðunarskýrslu vegna rannsóknar sem hann framkvæmdi á umræddri bifreið eftir slysið. Kvað hann óvenjulegt í þessu tilviki að spindilkúla hefði verið farin í sundur og verið mjög augljóst að það hefði ekki gerst við slysið. Endi hennar hafi verið búinn að hnoðast lengi ofan í sætinu og við krappa beygju eða óvenjuleg átök gæti þetta hafa hrokkið upp úr sætinu og þá aðeins verið mögulegt að stýra öðrum megin. Aðspurt kvaðst vitnið ekki geta sagt nákvæmlega til um hvenær þetta hefði gerst. Þetta gæti hafa gerst við slysið en gæti einnig hafa hrokkið í sundur áður. Hrökkvi þetta í sundur sé hætta á að ökumaðurinn missi stjórn á bifreiðinni, því að hjólið geti þá beygt hvert sem er.

 

Vitnið Atli Vilhjálmsson fór yfir niðurstöðu yfirmatsgerðar sem hann vann vegna málsins og lýsti nánar hvernig matsmennirnir hefðu framkvæmt matið. Kom fram hjá honum að niðurstaðan hefði orðið sú að ekki hefði verið hægt að aka bifreiðinni með brotna spindilkúlu. Ekki hefði þá verið mögulegt samkvæmt rannsókn hans að beygja bifreiðinni til hægri og svo aftur til vinstri og loks aftur til hægri, eins og hjólför á vettvangi bendi til að ákærði hafi gert. Teldi hann að ef spindilkúlan hefði brotnað í akstri hefðu sést önnur för á veginum, því að þá hefði bifreiðin farið út af til vinstri. Kom fram hjá vitninu að engin ummerki hefðu verið um að sprunga hafi verið í spindilkúluleggnum. Spurður um hvers vegna spindilkúluendinn hefði verið hnoðaður kvað hann það vel hafa getað gerst við bílveltuna. Kvað hann niðurstöðu matsins vera þá að mannleg mistök hefðu orsakað slysið en ekki ástand bifreiðarinnar.

 

Yfirmatsmaðurinn Árni Rúnar Kristmundsson staðfesti og þá niðurstöðu matsins að spindilkúlan hefði ekki brotnað í akstri heldur við högg og það hefði ekki getað gerst uppi á veginum.

 

Sebastian Niko Kunz réttarmeinafræðingur skýrði nánar krufningarskýrslu sem hann vann vegna málsins. Spurður hvaðan blæðing inn í kviðarhol hins látna hefði komið sagði hann líkindi til þess að það væri komið til vegna aðgerða sem hinn látni hefði gengist undir í kjölfar slyssins. Rannsóknir sem gerðar hefðu verið við komu hans á sjúkrahúsið sýni verulega lágt blóðgildi, sem segi að hann hafi misst mikið af blóði og þurft blóðgjafir. Taldi hann að áverkar á höfði hins látna gætu hafa orðið við það að höfuðið hefði slegist í bifreiðina innanverða eða er hann hefði kastast út úr henni og lent á jörðinni. Þessir áverkar hefðu verið talsvert alvarlegir en þeir hafi ekki verið banamein hans. Þá taldi hann rifbrot tilkomin vegna endurlífgunartilrauna en ekki vegna slyssins. Spurður hvort eitthvað benti til að hinn látni hefði lent undir bifreiðinni kvað hann ekki hafa verið merki um það. Kvaðst hann telja að áverkar á hinum látna hefðu komið til vegna þess að hann hefði kastast út úr bifreiðinni og lent á vinstri hlið á jörðinni. Hefði þetta högg valdið þeim innvortis áverkum og miltisrofi sem leitt hefðu til mikillar blæðingar. Spurður hvaða afleiðingar það gæti hafa haft að hinn látni var borinn og lagður niður nokkrum sinnum kvaðst hann ekki geta sagt til um hvernig áverkinn á miltað hefði verið þar sem miltað hefði verið fjarlægt er hann gerði sína skoðun.

 

IV.

Niðurstaða

Ákæruliður 1

Við aðalmeðferð málsins játaði ákærði að hafa í umrætt sinn ekið bifreiðinni án ökuréttinda og undir áhrifum áfengis og ávana- og fíkniefna, eins og nánar greinir í ákæru. Með vísan til þessarar játningar hans og gagna málsins að öðru leyti verður hann sakfelldur fyrir þau brot gegn umferðarlögum sem í þessum ákærulið greinir.

 

Ákærði hafnar því hins vegar, eftir sem áður, að hafa með háttsemi sinni gerst sekur um brot gegn 215. gr. almennra hegningarlaga. Byggir hann vörn sína aðallega á því að ósannað sé að rekja megi útafakstur bifreiðarinnar og síðan andlát A… til þess að hann hafi ekið bifreiðinni undir áhrifum áfengis og ávana- og fíkniefna þegar slysið varð. Þannig bendir hann á að það sé álit skoðunarmanns Frumherja hf., sem skoðað hafi bifreiðina í kjölfar slyssins, að brot í festingu spindilkúlu í hjólabúnaði hennar hafi leitt til þess að ákærði missti stjórn á henni þannig að hún valt út af veginum.

 

Samkvæmt fyrirliggjandi yfirmatsgerð og vitnisburði sérfróðu matsmannanna Atla Vilhjálmssonar og Árna Rúnars Kristmundssonar voru engin ummerki um að spindilkúla hefði brotnað í akstri bifreiðarinnar í greint sinn og kom fram að mannleg mistök hefðu orsakað slysið en ekki ástand bifreiðarinnar. Var þetta og sú niðurstaða sem dómkvaddur matsmaður komst að í undirmatsgerð sinni, þrátt fyrir fyrrgreint álit skoðunarmanns. Með vísan til þessa, játningar ákærða og fyrirliggjandi gagna um að hann hafi í greint sinn ekið bifreiðinni án ökuréttinda og óhæfur til aksturs hennar vegna áhrifa áfengis og ávana- og fíkniefna og einnig til gagna málsins að öðru leyti, verður að telja að nægilega liggi fyrir að ástand bifreiðarinnar hafi ekki valdið því að bifreiðin valt út af veginum heldur megi rekja það til gáleysislegrar hegðunar ákærða við aksturinn. Með akstri sínum varð ákærði þannig valdur að bílveltu og í henni lést farþegi í bifreiðinni. Verður refsiábyrgð vegna þessara afleiðinga felld á ákærða, enda er ótvírætt um að ræða vávæna afleiðingu þeirra brota hans gegn umferðarlögum sem hann hefur verið sakfelldur fyrir. Getur í þeim efnum engu breytt þótt fyrirliggjandi gögn bendi fremur til þess að hinn látni hafi ekki notað bílbelti í greint sinn, en vörn ákærða hefur að hluta til beinst að því atriði, eins og áður segir. Hefur ákærði því unnið sér til refsingar með vísan til þeirra refsiákvæða sem í þessum ákærulið greinir.

 

Ákæruliður 2

Ákærði hefur fyrir dómi játað sök samkvæmt þessum ákærulið og er játning hans að öllu leyti studd sakargögnum. Samkvæmt þessu verður hann sakfelldur fyrir þá háttsemi sem þar er lýst og telst réttilega varða við 2. mgr. 37. gr. og 47. gr. a, sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987.

 

Ákvörðun refsingar o.fl.

Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann frá árinu 2015 þrívegis, með lögreglustjórasátt, gengist undir refsingu og sviptingu ökuréttar vegna aksturs ökutækis undir áhrifum ávana- og fíkniefna og án þess að hafa öðlast ökuréttindi. Áður hafði hann fengið skilorðsbunda ákærufrestun vegna brota gegn 244. og 248. gr. almennra hegningarlaga. Brot þau sem ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir voru framin áður en hann gekkst annars vegar undir að greiða 150.000 króna sekt og sæta ökuréttarsviptingu í 12 mánuði hinn 17. september 2016 og hins vegar hinn 24. janúar 2017 undir að greiða 150.000 króna sekt og sæta ökuréttarsviptingu í fjóra mánuði. Verður refsing hans að því leyti ákveðin sem hegningarauki skv. 78. gr. almennra hegningarlaga. Brot ákærða samkvæmt síðargreindu sáttinni var framið rúmum þremur mánuðum eftir brot hans í máli þessu. Þar sem framangreind brot ákærða voru framin áður en hann náði 18 ára aldri hafa þau ekki ítrekunaráhrif á brot hans nú. Við ákvörðun refsingar ákærða nú verður að öðru leyti tekið mið af því að með stórkostlega háskalegri háttsemi sinni olli hann dauða annars manns, þegar hann ók bifreiðinni ölvaður og undir áhrifum fíkniefna og án þess að hafa öðlast ökuréttindi. Á hinn bóginn verður einnig til þess horft að ákærði var einungis 17 ára þegar brotið átti sér stað. Þá liggur fyrir í málinu greiningar- og meðferðarskýrsla Funa Sigurðssonar sálfræðings, forstöðumanns meðferðarstofnunarinnar Stuðla, um að ákærði hafi fengið þar meðferð vegna vímuefnavanda síns og afbrotahegðunar, sem gengið hafi vonum framar. Kemur þar og fram að ákærði hafi verið mjög virkur og duglegur í að vinna í sínum málum og sýnt augljós merki um miklar framfarir. Hann hafi og fengið áframhaldandi meðferðarviðtöl í kjölfarið og áfram sýnt miklar framfarir. Að öllu framangreindu virtu, og einnig með vísan til 77. gr. almennra hegningarlaga, þykir refsing ákærða því hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði. Þegar litið er til ungs aldurs ákærða, þess hversu langt er um liðið frá því brot hans voru framin og til dómaframkvæmdar að öðru leyti, þykir rétt að fresta framkvæmd þriggja mánaða af refsingu ákærða og ákveða að sá hluti hennar falli niður að liðnum tveimur árum haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá þykir rétt, með vísan til 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga, að svipta ákærða ökurétti í tvö ár frá birtingu dómsins.

 

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan sakarkostnað samkvæmt yfirliti lögreglu og ákvörðun dómsins um þóknun verjanda, bæði á rannsóknarstigi og fyrir dómi, sem ákveðin er að meðtöldum virðisaukaskatti, svo sem greinir í dómsorði.

 

Ásgeir Magnússon dómstjóri kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

Ákærði, X…, sæti fangelsi í sex mánuði, en fresta skal fullnustu þriggja mánaða af refsingunni og sá hluti hennar falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði er sviptur ökurétti í tvö ár frá birtingu dómsins.

Ákærði greiði 3.000.000 króna þóknun skipaðs verjanda síns, Hauks Arnar Birgissonar lögmanns, auk ferðakostnaðar hans að fjárhæð 52.394 krónur. Þá greiði ákærði annan sakarkostnað að fjárhæð 2.965.987 krónur.

 

 

Ásgeir Magnússon