• Lykilorð:
  • Fjársvik
  • Umferðarlagabrot
  • Ölvunarakstur

D Ó M U R

Héraðsdóms Vesturlands 5. apríl 2019 í máli nr. S-77/2017:

Ákæruvaldið

(Emil Sigurðsson aðstoðarsaksóknari)

gegn

X

(Bjarni Hauksson lögmaður)

 

 

Mál þetta, sem dómtekið var 13. mars sl., höfðaði lögreglustjórinn á Vesturlandi með ákæru, dags. 27. desember 2017, á hendur ákærðu, X..., til heimilis að ..., ..., fyrir eftirtalin brot:

 

I.

Umferðarlagabrot með því að hafa laugardaginn 19. ágúst 2017 ekið bifreiðinni ..., óhæf til að stjórna bifreiðinni örugglega vegna áhrifa áfengis (1,61‰ greindist í blóðsýni), norður Vesturlandsveg uns lögregla stöðvaði aksturinn við Brúartorg í Borgarnesi.

 

Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr., 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987.

II.

Fjársvik með því að hafa þriðjudaginn 2. maí 2017, með blekkingum fengið þjónustufulltrúa í ...banka til þess að millifæra 150.000 kr. af bankareikningi A..., kt. ..., nr. ... hjá ...banka við ... ... í ..., inn á bankareikning ákærðu nr. ... hjá ...banka en ákærða fékk starfsmann ...banka símleiðis til þess að millifæra heimildarlaust fjárhæðina með því að gefa upp leyninúmer bankareiknings A....

 

Telst þetta varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga.

 

Með ákæru, dags. 20. september 2018, var sakamál, sem fékk númerið S-59/2018 hjá dóminum, höfðað af lögreglustjóranum á Vesturlandi á hendur ákærðu og var það mál sameinað þessu máli í þinghaldi 22. febrúar 2019. Í því ákæruskjali er ákærðu gefið að sök umferðarlagabrot með því „að hafa aðfaranótt laugardagsins 17. september 2016 ekið bifreiðinni ..., óhæf til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa áfengis (2,37 greindist í blóðsýni), um bifreiðarstæði við ..., ... í Reykjavík, þar sem aksturinn var stöðvaður á bifreiðarstæði. Telst þetta varða við 1. mgr. sbr. 3. mgr. 45. gr. sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með síðari breytingum. Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga með síðari breytingum.“

 

Ákærða hefur fyrir dómi skýlaust játað að hafa framið það brot sem henni er gefið að sök samkvæmt lið I í ákæru, dags. 27. febrúar 2017, og er játning hennar studd sakargögnum. Verður ákærða því sakfelld fyrir það brot, sem réttilega er heimfært til refsiákvæða í ákæru.

 

Ákærða neitar hins vegar sök samkvæmt lið II í framangreindri ákæru, dags. 27. febrúar 2017, og neitar einnig sök vegna sakargifta í ákæru, dags. 20. september 2018. Krefst ákærða þess að hún verði sýknuð af framangreindum ákæruatriðum, en að henni verði ákvörðuð vægasta refsing sem lög leyfi vegna ákæruliðar I í ákærunni frá 27. febrúar 2017. Til vara krefst hún þess að henni verði gerð vægasta refsing sem lög leyfi. Þá krefst hún þess að allur sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð, þ.m.t. hæfileg málsvarnarlaun.

 

Ákæruliður II skv. ákæru 27. desember 2017.

Málsatvik

Samkvæmt skýrslu lögreglu kom brotaþoli, A..., til skýrslutöku hjá rannsóknardeild að eigin frumkvæði hinn 2. maí 2017 til að leggja fram kæru á hendur móður sinni, ákærðu, vegna fjársvika. Kom fram hjá brotaþola að fyrr um morguninn hefði ákærða haft símsamband við ...banka  og látið millifæra 150.000 krónur af reikningi brotaþola yfir á reikning ákærðu í ...banka. Kvaðst brotaþoli hafa farið inn á heimabanka sinn og séð að búið væri að taka út af reikningi hennar. Í framhaldi hafi hún hringt í ...banka og fengið þær upplýsingar að hringt hefði verið úr símanúmerinu ... og viðkomandi sagst vera brotaþoli. Kom fram hjá brotaþola að þetta væri símanúmer ákærðu og að ákærða hefði vitað pin-númerið á bankareikningnum þar sem ákærða hefði áður haft prókúru á hann. Setti brotaþoli fram þá kröfu að sakamál yrði höfðað gegn ákærðu vegna þessa.      

  

Skýrslur fyrir dómi

Ákærða kvaðst neita því að hafa í umrætt sinn hringt í ...banka og óskað eftir millifærslu á bankareikning sinn af reikningi dóttur sinnar, A.... Eftir að hafa hlustað á hljóðupptöku af símtali þar sem kona heyrist óska eftir því við bankastarfsmann að millifærðar verði 150.000 krónur af bankareikningi brotaþola inn á reikning ákærðu neitaði ákærða því aðspurð að það væri hennar rödd sem heyrðist á upptökunni. Hún kvaðst hins vegar þekkja þar rödd dóttur sinnar, brotaþola. Kannaðist ákærða við að fyrrgreind fjárhæð hefði verið lögð inn á hennar reikning í greint sinn og sagðist hún ekki hafa greitt hana til baka. Nánar aðspurð um ástæður þess að dóttir hennar væri að leggja slíka fjárhæð inn á hennar reikning kvað hún þær oft hafa lagt inn hjá hvor annarri. Þær hefðu verið nánar og haft prókúru á reikning hvor annarrar, en samband þeirra hefði versnað mjög á þessum tíma.

 

Brotaþolinn, A..., dóttir ákærðu, skýrði frá því að hún hefði komist að því þegar hún fór í heimabankann sinn í tölvunni að allir peningarnir á bankareikningi hennar væru horfnir. Kvaðst hún hafa farið í bankann og verið þar upplýst um að hringt hefði verið úr símanúmeri ákærðu og óskað eftir millifærslu á allri fjárhæðinni, 150.000 krónum. Hún hefði þá farið til lögreglu og kært verknaðinn. Kvaðst brotaþoli þekkja rödd móður sinnar sem innhringjandans þegar upptaka af umræddu símtali var spiluð í dóminum. Hafnaði brotaþoli því þeirri staðhæfingu móður sinnar að hún þekkti röddina sem rödd brotaþola sjálfrar og neitaði brotaþoli því aðspurð að hún hefði sjálf óskað eftir millifærslunni. Stuttu áður en þetta gerðist kvaðst brotaþoli hafa afturkallað prókúru sem móðir hennar hefði haft á reikningnum. Á þeim tíma hefði hún verið flutt frá ákærðu og samband þeirra ekki verið gott. Ákærða hefði oft tekið peninga út af reikningum hennar og kvaðst hún hafa afturkallað prókúruna til að koma í veg fyrir að það gerðist aftur. Fram kom hjá brotaþola að þegar allt lék í lyndi á milli þeirra mæðgna hefðu þær stundum millifært milli reikninga hvor annarrar. Tók hún fram að hún hefði ekki fengið framangreinda upphæð endurgreidda.

 

Niðurstaða

Eins og áður segir neitar ákærða því að hafa hringt í ...banka í greint sinn og óskað eftir að innistæða á reikningi dóttur hennar við bankann yrði millifærð yfir á hennar reikning. Í málinu liggur fyrir hljóðupptaka af umræddu símtali sem spiluð var við aðalmeðferð málsins. Kvaðst ákærða þá þekkja þar rödd dóttur sinnar en dóttirin, kærandi máls þessa, fullyrti aftur á móti í sinni skýrslu að hún þekkti þar rödd móður sinnar. Ekkert liggur hins vegar fyrir um það í gögnum málsins að rannsakað hafi verið af lögreglu úr hvaða símanúmeri hafi verið hringt þegar óskað var eftir millifærslunni. Enda þótt ákærða hafi ekki gefið neinar trúverðugar skýringar á því af hverju dóttir hennar gæti hafa verið að millifæra umrædda fjárhæð inn á reikning hennar, og að framburður brotaþola sé í sjálfu sér trúverðugur um að móðir hennar hafi sjálf átt þar hlut að máli, meðal annars með hliðsjón af því hvernig umræddu símtali vindur fram, telst sá framburður hennar þó ekki studdur slíkum gögnum að nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, teljist fram komin um að ákærða hafi verið þar að verki. Verður ákærða því sýknuð af þessum lið ákærunnar.

 

Ákæra, dags. 20. september 2018

Málsatvik

Samkvæmt frumskýrslu lögreglu barst henni tilkynning aðfaranótt laugardagsins 17. september 2016 um ölvaða konu í bifreið fyrir utan ... í .... Þegar tveir lögreglumenn komu á vettvang sáu þeir hvar bifreiðinni ... var bakkað í stæði fyrir framan ... í Reykjavík. Óku þeir að bifreiðinni og sáu þar tilkynnandann, B..., standa við bifreiðina og benti hann lögreglu á ökumann bifreiðarinnar. Sagði B... lögreglumönnum frá því að ökumaður bifreiðarinnar, ákærða í málinu, hefði verið að drekka inni á ... í ..., þar sem hann starfaði. Hefði hún verið með mikil læti og dónaskap inni á staðnum og síðan rokið út í bíl áberandi ölvuð. Hann hefði þá hringt í Neyðarlínuna.

 

Í skýrslunni kemur og fram að lögreglumennirnir hafi beðið ákærðu um að blása í áfengismæli, sem hefði sýnt að hún væri undir áhrifum áfengis. Hafi ákærða þá verið handtekin vegna gruns um ölvun við akstur og færð á lögreglustöðina á Hverfisgötu, þar sem tekið hefði verið úr henni blóðsýni. Fyrir liggur í málinu niðurstaða rannsóknar Rannsóknastofu í lyfja- og efnafræði á blóðsýninu, dags. 22. september 2016, þar sem fram kemur að í því hafi greinst 2,37‰ alkóhól.

 

Skýrslur fyrir dómi

Ákærða kvaðst ekki hafa ekið umræddri bifreið í greint sinn. Því væri það rangt sem haft væri eftir henni í frumskýrslu að hún hefði verið að bakka bifreiðinni. Þetta hefði vissulega verið hennar bifreið og hún hefði verið með lyklana í sínum fórum. Ákærða kvaðst ekki gera athugasemd við niðurstöðu mælingar á alkóhólinnihaldi í blóðsýni og kvaðst hún hafa drukkið tvo til þrjá bjóra þá stuttu áður.

 

Vitnið B... bar fyrir dómi að hann, sem starfsmaður skemmtistaðarins ... í ..., hefði umrætt sinn þurft að vísa ákærðu þaðan út. Ákærða hefði þá tekið upp bíllykla og ætlað að keyra. Hefði hann þá bent henni á að hún ætti ekki að gera það. Hún hefði samt ekið af stað, en svo séð vitnið og þá lagt bifreiðinni hinum megin við götuna. Hún hefði svo ekið áfram, en síðan stöðvað bifreiðina fyrir framan .... Hún hefði síðan á ný haldið áfram og lagt við endann á húsinu, þegar lögreglan kom þar að. Kvaðst vitnið hafa séð ákærðu fara út í bifreiðina og aka af stað. Hefði hann fylgst með henni allan tímann og verið á staðnum þegar lögreglan kom á vettvang. Kom fram hjá vitninu að útilokað væri að einhver annar hefði ekið, hann hefði allan tímann séð ákærðu undir stýri.

 

D... lögreglumaður kvaðst kannast við að hafa unnið þá frumskýrslu lögreglu sem fyrir liggur í málinu. Kvaðst hann minnast þess að hafa komið að slíku atviki á tilgreindum stað en sökum þess hversu langt væri um liðið myndi hann ekki eftir einstökum atvikum. Hins vegar gæti hann staðfest að hafa skrifað umrædda skýrslu eftir bestu samvisku og að allt væri rétt sem þar kæmi fram.

 

E... lögreglumaður bar fyrir dómi að þeim lögreglumönnunum hefði borist tilkynning um ölvaðan ökumann, sem væri að aka á brott úr .... Þeir hefðu séð bílinn sem bakkað hefði verið út úr stæði og stöðvað aksturinn. Kom fram hjá vitninu að hann myndi ekki hvort ökumaðurinn hefði verið einn í bifreiðinni. Kvaðst vitnið ekki muna vel eftir atvikum. Þannig myndi hann ekki hvort hann hefði séð ökumanninn aka bifreiðinni eða hvernig ökumaðurinn leit út, en að hann myndi eftir að þeir hefðu handtekið ökumanninn.

 

Niðurstaða

Ákærða neitar að hafa ekið bifreiðinni umrætt sinn en dregur ekki í efa að hún hafi verið drukkin, í samræmi við niðurstöðu alkóhólákvörðunar á því blóðsýni sem tekið var hún úr henni. Vitnið B... kveðst hins vegar hafa fylgst með ákærðu þegar hún settist upp í bifreiðina og ók af stað. Kom fram í skýrslu hans fyrir dómi að engum öðrum gæti verið þar til að dreifa. Fær þessi frásögn vitnisins og nokkurn stuðning af framburði lögreglumannanna tveggja sem komu á vettvang, enda þótt þeir kvæðust báðir muna lítt eftir atvikum sökum þess hve langt væri um liðið. Þannig kvaðst annar þeirra hafa séð bifreiðinni bakkað út úr stæði þegar þeir komu þar að og að þeir hefðu handtekið ökumanninn, þótt hann myndi ekkert eftir einstökum atriðum þar fyrir utan, svo sem því hvernig ökumaðurinn hefði litið út eða hvort fleiri hefðu verið í bílnum. Hinn lögreglumaðurinn, sem ritaði þá frumskýrslu sem fyrir liggur í málinu, kvaðst hins vegar ekkert geta borið um einstök atvik málsins. Hann staðfesti hins vegar fyrrgreinda skýrslu sína, þar sem fram kemur að lögreglumennirnir hafi komið að bifreiðinni þar sem verið var að bakka henni í stæði og að þeir hafi handtekið ökumanninn á staðnum. Þá er og í skýrslunni haft eftir ákærðu að hún hafi ekki ekið bifreiðinni heldur aðeins bakkað henni í stæði. Að þessu virtu, og því einnig að ákærða var með kveikjuláslykla bifreiðarinnar á sér þegar hún var handtekin, telst fram komin sönnun um að hún hafi ekið bifreiðinni í greint sinn óhæf til að stjórna henni, eins og nánar greinir í ákæru. Verður ákærða því sakfelld fyrir þá háttsemi, sem þykir réttilega færð til refsiákvæða í ákæru.

 

Ákvörðun refsingar o.fl.

Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins var ákærðu með dómi héraðsdóms uppkveðnum 11. apríl 2017 gert að sæta 18 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í þrjú ár, fyrir peningaþvætti og stórfellt fíkniefnabrot. Var dómurinn staðfestur með dómi Landsréttar uppkveðnum 16. nóvember 2018. Ákærða hefur í máli þessu verið sakfelld fyrir tvö ölvunarakstursbrot. Var hið fyrra þessara brota framið 17. september 2016 og verður refsing ákærðu að því leyti ákveðin sem hegningarauki við framangreindan dóm, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Enda þótt síðara brotið hafi verið framið eftir uppkvaðningu framangreinds dóms þykir það ekki þess eðlis að það haggi við skilorði dómsins. Samkvæmt því, og einnig með vísan til 77. gr. sömu laga, verður ákærðu gert að greiða 420.000 króna sekt til ríkissjóðs, en 26 daga fangelsi komi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins. Þá ber, með vísan til 101. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, að svipta ákærðu ökurétti í 33 mánuði frá birtingu dómsins að telja.

 

Með hliðsjón af niðurstöðu málsins, og með vísan til 235. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, verður ákærðu gert að greiða allan útlagðan sakarkostnað málsins að fjárhæð 62.003 krónur og helming af málsvarnarlaunum og ferðakostnaði skipaðs verjanda síns, að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði. Að öðru leyti greiðist málskostnaðurinn úr ríkissjóði.

 

Ásgeir Magnússon dómstjóri kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

Ákærða, X..., greiði 420.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja en sæti annars fangelsi í 26 daga.

 

Ákærða er svipt ökurétti í 33 mánuði frá birtingu dómsins að telja.

 

Ákærða greiði útlagðan sakarkostnað að fjárhæð 62.003 krónur. Ákærða greiði og helming af 590.240 króna málsvarnarlaunum og 49.500 króna ferðakostnaði verjanda síns, Bjarna Haukssonar lögmanns. Að öðru leyti greiðist sá kostnaður úr ríkissjóði.

 

Ásgeir Magnússon