- Kynferðisbrot
- Miskabætur
D Ó M U R
Héraðsdóms Reykjavíkur 12. júní 2018 í
máli nr. S-183/2018:
Ákæruvaldið
(Katrín Hilmarsdóttir saksóknarfulltrúi)
gegn
X
(Unnsteinn Örn Elvarsson lögmaður)
I
Mál
þetta, sem dómtekið var 25. maí síðastliðinn, var höfðað með ákæru
héraðssaksóknara, útgefinni 5. apríl 2018, á hendur X, kennitala 000000-0000, [...],
Reykjavík, fyrir eftirgreind
hegningarlagabrot framin í Reykjavík:
I.
„Kynferðisbrot, með því að hafa á tímabilinu frá
febrúar 2014 til september 2016, á þáverandi heimili ákærða að [...] og heimili A, kt. 000000-0000, að [...], tekið 27 ljósmyndir
af A sem sýna hana fáklædda eða nakta, en myndir þessar eru af brjóstum, klofi
og rassi hennar, og sjö hreyfimyndir sem sýna ákærða og A í kynmökum, og geymt
framangreint myndefni á tveimur minnislyklum, en með þessari háttsemi sinni
særði ákærði blygðunarsemi A.
Telst
þetta varða við 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
II.
Húsbrot, með því að hafa
miðvikudaginn 14. september 2016, ruðst í heimildarleysi inn á heimili
áðurgreindrar A, í íbúð á 2. hæð til vinstri í húsinu nr. [...] við [...].
Telst
það varða við 231. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess
er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls
sakarkostnaðar.
Einkaréttarkrafa:
Af hálfu A, kt. 000000-0000, er þess krafist
að ákærði greiði henni miskabætur að fjárhæð 1.200.000,-, auk vaxta skv. 8. gr.
laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. september 2016, þar til
mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu þessarar en með dráttarvöxtum skv. 1.
mgr. 9. gr. laga, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til
greiðsludags. Þá er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að
mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum
virðisaukaskatti á málflutningsþóknun. Gerð er krafa um að dráttarvextir
leggist við höfuðstól miskabóta á 12 mánaða fresti í fyrsta sinn 12 mánuðum
eftir upphafsdag vaxta allt í samræmi við 12. gr. laga nr. 38/2001.“
Þá
var gefin út framhaldsákæra 26. apríl síðastliðinn. Í henni segir: „Með
skírskotun til 1. mgr. 153. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 er
framhaldsákæra þessi gefin út til að bæta úr augljósri villu sem varð við
útgáfu ákæru þann 5. apríl 2018, á hendur X, kennitala 000000-0000, [...],
Reykjavík. Eftirfarandi viðbót er gerð á ofangreindri ákæru: Á eftir orðunum „
... að [...]“ komi orðin „án samþykkis“.
Ákærði
neitar sök og krefst sýknu en til vara vægustu refsingar. Hann krefst þess
aðallega að bótakröfu brotaþola verði vísað frá dómi en til vara að bætur verði
lækkaðar. Þá er þess krafist að sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði,
þar með talin málsvarnarlaun.
II
Málavextir
eru þeir að 14. september 2016 var lögreglan kvödd að húsi því er í ákæru
greinir. Tilkynningin hljóðaði um að maður væri að brjótast inn. Á leið á
vettvang fengu lögreglumenn þær upplýsingar að gerandinn hefði átt heima í
húsinu og hefði verið að sækja eigur sínar. Á vettvangi var ákærði og var hann
handtekinn og færður á lögreglustöð. Brotaþoli, sem kvaðst vera fyrrum
sambýliskona ákærða, skýrði lögreglumönnum svo frá að hún hefði sett föt og
aðrar eigur ákærða fram á stigapall til að hann gæti sótt þær. Hann hefði hins
vegar brotist inn í íbúðina og tekið þaðan sjónvarp sem væri eign hans. Hurðin
var óskemmd en lögreglumenn töldu líklegast að sparkað hefði verið í hana enda
væri hurðarkarmurinn aðeins laus.
Brotaþoli
skýrði lögreglumönnum einnig frá því að hún hefði undir höndum USB-lykla sem
hún hefði fundið í fórum ákærða. Á þessum lyklum væru myndir af henni og honum
í samförum og eins myndir af annarri konu sem hún vissi ekki hver væri. Tekin
var skýrsla af brotaþola 15. september þar sem fram kemur að ákærði hafi tekið
þessar myndir án þess að hún vissi af því. Þá kvaðst hún hafa kynnst ákærða
sumarið 2013 og hefðu þau verið sundur og saman eins og hún orðaði það, en búið
að mestu saman árið 2014. Eftir það hefðu þau verið í sambandi sem hún kvaðst
smátt og smátt hafa fengið nóg af.
Lögreglan
yfirheyrði ákærða sem viðurkenndi að hafa tekið myndir af brotaþola og hefði
hún vitað af sumum þeirra en ekki af öðrum. Hann kvaðst hafa tekið þær á
heimili hennar sem nefnt er í ákærunni. Ákærði kvaðst hafa tekið myndirnar
vegna þess að hann ætti við ákveðinn kynlífsvanda að stríða. Hann kannaðist við
að hafa farið inn í íbúð brotaþola nefndan dag og tekið þaðan sjónvarp sem hann
kvaðst eiga. Hann kvað hurðina hafa verið ólæsta. Hann hefði ekki brotist inn.
III
Við
aðalmeðferð kvaðst ákærði hafa tekið myndir þær af brotaþola sem ákært er
fyrir. Hann kvað hana hafa vitað af myndatökunum en þau hefðu búið saman í þrjú
ár. Ákærði kvaðst hafa beðið hana leyfis að taka myndirnar. Hann mundi þó ekki
hvenær hann hefði beðið um leyfi en brotaþoli hefði séð hann taka myndirnar.
Hún hefði sagt að þetta væri í lagi ef myndirnar væru aðeins milli þeirra
tveggja. Þá kvað hann hana hafa séð myndirnar í símanum hans. Ákærða var bent á
að hann hefði borið hjá lögreglu að brotaþoli myndi aldrei hafa samþykkt
myndatökur af kynlífi hennar. Hann kvað brotaþola hafa séð þessar myndir eftir
á og ekkert sagt þá en síðar hefði hún farið að hóta honum og viljað greiðslu.
Einnig kvað hann hana hafa hótað sér lögreglu og bent honum á að hann væri
útlendingur hér á landi. Þá tók ákærði fram að í síma hans hefðu einnig verið
myndir af annarri konu. Varðandi ætlað húsbrot kvaðst ákærði ekki hafa brotist
inn í íbúð brotaþola nefndan dag en hann kvað brotaþola ekki hafa beðið sig að
flytja úr íbúðinni. Þennan dag hefði verið búið að setja allt hans dót fram á
pall, nema sjónvarpið, þegar hann hefði komið frá vinnu. Hann kvaðst hafa tekið
í hurðarhúninn og komist að því að hurðin var opin. Hann hefði því farið inn,
tekið sjónvarpið og farið með það fram. Skömmu síðar hefði verið hringt á
lögreglu sem hefði komið.
Brotaþoli
kvað sig og ákærða hafa verið í sambandi. Hann hefði ásakað hana um að hafa tekið
húslykla hans sem ekki hefði verið rétt. Hún kvaðst hafa farið í vasa hans til
að sannfærast um að svo væri. Þá hefði hún fundið tvo USB-lykla sem hún kvaðst
hafa átt. Brotaþoli kvaðst hafa hringt í frænku sína og sagt henni frá þessu.
Frænkan hefði sagt henni að skoða lyklana sem hún hefði gert og þá séð
kynlífsmyndbönd af sér og ákærða og eins myndir sem hann hefði tekið af henni
sofandi. Í framhaldinu kvaðst hún hafa fengið son sinn og mann frænkunnar til
að skipta um sílinder í skránni þannig að ákærði hefði bara verið með lykil að
sameigninni. Þá kvaðst hún hafa tekið föt ákærða og sett fram á gang en ekki
sjónvarpið sem ákærði átti en hún kvaðst hafa ætlað að halda vegna þess að hann
hefði skuldað sér fé. Eftir þetta kvaðst hún hafa farið en skömmu síðar hefði
maður frænkunnar hringt og sagt að ákærði væri að brjótast inn í íbúðina.
Brotaþoli kvaðst þá hafa hringt í lögreglu. Hún kvaðst ekki hafa gefið ákærða
leyfi til að taka myndir af sér eins og þær sem ákært er fyrir. Hann hefði
aldrei beðið um slíkt leyfi enda hefði hann ekki fengið það. Þá kvaðst hún ekki
hafa vitað að hann hefði tekið myndir af sér.
Sonur
brotaþola kvað sig og brotaþola hafa fengið símtal frá framangreindum manni
frænkunnar um að ákærði væri að brjótast inn heima hjá þeim. Þau hefðu þá ekið
heim og þegar þau komu hefði ákærði verið að fara út og eins hefði lögreglan
verið komin. Þeir tveir hefðu farið og keypt nýjan sílinder og sett hann í
skrána á hurðinni. Það hafi verið eftir það sem ákærði hefði komið og hefði
hurðin borið þess merki að vera brotin upp. Hann kvað móður sína hafa sagt sér
frá myndunum á lyklunum og hefði henni verið verulega brugðið við að sjá þessar
myndir.
Frænka
brotaþola kvað hana hafa hringt í sig og sagt sér að hún hefði fundið lykla með
myndum. Frænkan kvaðst hafa farið til hennar og þær hefðu síðan farið til að
kaupa nýjan sílinder. Þá kvað hún brotaþola hafa liðið mjög illa og verið í
miklu uppnámi. Þær hefðu sett dót ákærða fram á stigapall, það er annað en
sjónvarpið.
Maður
frænkunnar kvað ákærða hafa brotist inn í íbúð brotaþola og hefði hann skipt um
læsingu í framhaldinu. Maðurinn kvaðst hafa ekið smáhring eftir þetta en komið
svo aftur að íbúðinni og lagt í stæði. Hann hefði séð ákærða koma, brjótast inn
í íbúðina og koma út með sjónvarp. Í því hefði lögreglan komið.
Lögreglumaður,
sem kom á vettvang og ritar frumskýrslu, staðfesti hana. Hún kvaðst hafa séð
ákærða vera að bera hluti út í bíl. Í ljós hefði komið að ákærði átti þá. Hann
hefði verið handtekinn vegna húsbrots. Brotaþoli hefði afhent lögreglumönnum
tvo lykla og sagt að á þeim væru myndir af henni og ákærða í samförum. Einnig
væru þar myndir af annarri konu. Brotaþoli hefði verið í uppnámi vegna þess að
ákærði var kominn og sagt lögreglumönnum að hún hefði ekki vitað af myndtökunum.
Rannsóknarlögreglumaður
staðfesti að hafa borið undir ákærða ljósmyndir þær sem í ákæru greinir og
hefði hann kannast við að hafa tekið þær og að ljósmyndirnar væru af brotaþola.
Hreyfimyndirnar sem í ákæru greinir væru af honum og brotaþola í kynmökum.
IV
Í
1. mgr. 153. gr. laga nr. 88/2008 segir að ákærandi geti breytt eða aukið við
ákæru með útgáfu framhaldsákæru til að leiðrétta augljósar villur eða ef
upplýsingar, sem ekki lágu fyrir þegar ákæra var gefin út, gefa tilefni til.
Framhaldsákæran í málinu var gefin út til að „bæta úr augljósri villu sem varð
við útgáfu ákæru þann 5. apríl 2018“ á hendur ákærða. Hér er hins vegar ekki um
augljósa villu að ræða heldur virðist sem orðin, sem í framhaldsákærunni
greinir, hafi ekki ratað inn í aðalákæruna vegna athugunarleysis eða einhvers
þess háttar atviks. Lögregluskýrsla var tekin af brotaþola 15. september 2016
og kom þar fram hjá henni að hún hefði ekki verið samþykk myndatökunum. Afstaða
hennar lá því fyrir löngu áður en ákæran var gefin út. Úr þessum annmarka
verður ekki bætt með útgáfu framhaldsákæru samkvæmt tilvitnuðu lagaákvæði og er
óhjákvæmilegt að vísa henni frá dómi.
Í
II. kafla ákæru er ákærða gefið að sök húsbrot sem talið er varða við 231. gr.
almennra hegningarlaga. Samkvæmt 2. tölulið a 242. gr. sömu laga sætir brot
gegn 231. gr. ákæru eftir kröfu þess manns sem misgert var við. Brotaþoli hefur
ekki gert refsikröfu á hendur ákærða og er því óhjákvæmilegt að vísa
ákærukaflanum frá dómi.
Ákærði
hefur hjá lögreglu og fyrir dómi játað að hafa tekið myndir af brotaþola eins
og hann er ákærður fyrir. Játning hans styðst við önnur gögn málsins. Ákærði
hefur borið að brotaþoli hafi vitað af myndatökunum og verið þeim samþykk.
Þessu hefur brotaþoli neitað eins og rakið var. Það er mat dómsins að brotaþoli
hafi fyrir dómi gefið trúverðuga skýrslu um að hún hafi ekki vitað af
myndatökunum. Þessi framburður hennar fær stuðning í framburði þeirra vitna sem
voru hjá henni skömmu eftir að hún fann lyklana með myndunum og að framan var
rakinn. Samkvæmt þessu er sannað að ákærði tók framangreindar myndir af
brotaþola án vitneskju hennar. Myndefninu er lýst í ákæru. Með þessu braut
ákærði gegn 209. gr. almennra hegningarlaga eins og hann er ákærður fyrir.
Ákærði
var dæmdur í 30 daga fangelsi árið 2012 fyrir skjalafals. Refsing hans nú er
hæfilega ákveðin þriggja mánaða fangelsi sem bundin skal skilorði eins og í
dómsorði greinir.
Miskabætur
til brotaþola eru hæfilega ákveðnar 400.000 krónur og skulu þær bera vexti eins
og í dómsorði greinir. Það athugast að krafan var birt ákærða 2. maí 2017 og
miðast upphaf dráttarvaxta við þann tíma er liðnir voru 30 dagar frá
birtingardegi.
Loks verður ákærði dæmdur til að greiða
málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákvörðuð eru að meðtöldum
virðisaukaskatti í dómsorði, svo og þóknun réttargæslumanns sem einnig er
ákvörðuð að meðtöldum virðisaukaskatti í dómsorði.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kveður upp dóminn.
D ó m s o r ð:
Framhaldsákæru og II. kafla ákæru er vísað frá dómi.
Ákærði, X, sæti fangelsi í þrjá mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveim árum frá deginum í dag að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði
greiði A 400.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá
14. september 2016 til 2. júní 2017 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6.
gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði
greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Unnsteins Arnar Elvarssonar
lögmanns, 704.320 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Evu
Dóru Kolbrúnardóttur lögmanns, 616.590 krónur.
Arngrímur
Ísberg