Stefnendur, Háskóli Íslands og Félagsstofnun Stúdenta, kröfðust í málinu bóta vegna tjóns er þeir urðu fyrir þegar stofnlögn neysluvatns brast í svokölluðum Háskólabrunni og vatn flæddi um fasteignir og lóðir á háskólasvæðinu. Veitufyrirtæki, sem stóð að framkvæmdum við lagnir á svæðinu, og verkfræðistofa, sem hafði umsjón og eftirlit með þeim framkvæmdum samkvæmt verksamningi við veitufyrirtækið, voru dæmd skaðabótaskyld gagnvart stefnendum, sem og tryggingafélög þeirra á grundvelli ábyrgðartrygginga. Verktaki sem annaðist framkvæmdirnar samkvæmt verksamningi við veitufyrirtækið og tryggingafélag hans voru hins vegar sýknuð af bótakröfum stefnenda þar sem ekki þótti sýnt að verktakinn hefði sýnt af sér saknæma háttsemi í aðdraganda tjónsins. Málskostnaðarkröfu stefnenda var vísað frá dómi vegna réttarfarsannmarka en þeim stefndu sem voru sýknaðir var dæmdur málskostnaður úr hendi stefnenda.