• Lykilorð:
  • Lánssamningur
  • Verðbréfaviðskipti
  • Skuldamál

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 5. febrúar 2019 í máli nr. E-2239/2016:

Landsbankinn hf.

(Arndís Sveinbjörnsdóttir lögmaður)

gegn

X

(Þórður Guðmundsson lögmaður.)

 

I

Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð 9. janúar sl., var höfðað af Landsbankanum hf., Austurstræti 11, Reykjavík, gegn X, [...], [...], með stefnu birtri 18. ágúst 2016.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 128.439.804 krónur ásamt dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 113.713.361 krónu frá 9. janúar 2014 til 19. júní 2014 og af 128.439.804 krónum frá 19. júní 2014 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 1. mars 2017 að fjárhæð 72.129.786 krónur, sem dregst frá skuldinni miðað við stöðu hennar á innborgunardegi. Þá krefst stefnandi málskostnaðar og að við ákvörðun hans verði tekið tillit til virðisaukaskatts.

Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum dómkröfum stefnanda en til vara að þær verði lækkaðar verulega. Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda.

Dómur vegna málsins var upphaflega kveðinn upp í héraðsdómi 26. október 2017. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 752/2017, sem kveðinn var upp 17. maí 2018, var sá dómur ómerktur og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.

Dómari tók við meðferð málsins 1. janúar sl. en hafði fram að þeim tíma engin afskipti haft af meðferð þess.

 

II

Málavextir og yfirlit ágreiningsefna

Stefnukröfur málsins byggjast á tveimur lánssamningum milli forvera stefnanda, Landsbanka Íslands hf. (bankans), og stefnda. Annar lánssamningurinn var undirritaður 23. maí 2007 og er auðkenndur með númerinu 8020. Samningurinn er um fjölmyntalán til tveggja ára að jafnvirði 75.000.000 króna í CHF 52%, JPY 38% og SEK 10%. Lánið bar að greiða að fullu með einni afborgun í lok lánstímans, 4. maí 2009. Vexti skyldi greiða mánaðarlega út lánstímann, í fyrsta sinn 4. júní 2007. Af láninu skyldi greiða breytilega vexti jafnháa LIBOR-vöxtum í samræmi við lengd vaxtatímabils hverju sinni, auk 1,90% vaxtaálags. Vextir reiknuðust frá útborgunardegi lánsins og greiddust á gjalddögum, eftir á. Við vanskil bar stefnda að greiða dráttarvexti af gjaldfallinni eða gjaldfelldri fjárhæð frá gjalddaga til greiðsludags. Beiðni um útborgun lánsins 25. maí 2007 barst bankanum 23. maí 2007. Vegna dóma Hæstaréttar Íslands um ólögmæti gengistryggðra lána endurútreiknaði bankinn lán viðskiptavina sinna í samræmi við ákvæði laga nr. 151/2010, þar á meðal einnig þetta lán stefnda sem bankinn skilgreindi sem ólögmætt. Eftirstöðvar lánsins fyrir endurútreikning voru 233.075.403 krónur en eftir endurútreikning 115.286.872 krónur, miðað við 9. september 2011. Í kjölfar dóma réttarins í málum nr. 600/2011 og nr. 464/2012, um gildi fullnaðarkvittana, var endurútreikningurinn leiðréttur. Lánið fór þá úr 150.555.551 krónu í 113.713.361 krónu.

Hinn lánssamningurinn var undirritaður 14. mars 2008 og er auðkenndur með númerinu 11605. Samningurinn er um fjölmyntalán til fimm ára, upphaflega að jafnvirði 10.000.000 króna í eftirtöldum myntum og hlutföllum: JPY 17%, EUR 35%, CHF 22% og CAD 26%. Lánstími skyldi vera fimm ár. Lánið bar að greiða að fullu á næstu fimm árum með 60 afborgunum á eins mánaðar fresti, þannig að á fyrstu 59 gjalddögunum, hverjum um sig, skyldi greiddur 1/300 hluti lánsupphæðarinnar og á lokagjalddaga, 1. apríl 2013, 241/300 hluti lánsupphæðarinnar. Fyrsti gjalddagi afborgana og vaxta var 1. maí 2008. Vextir voru breytilegir, jafnháir LIBOR-vöxtum í samræmi við lengd vaxtatímabils hverju sinni, auk 2,75% vaxtaálags. Vextir skyldu reiknast frá útborgunardegi lánsins og greiðast eftir á, á gjalddögum. Í skilmálum bréfsins kemur fram að lántaki óski eftir að skuldfært verði af tilteknum reikningi hans í bankanum fyrir afborgun og/eða vöxtum. Stæði lántaki ekki skil á greiðslu vaxta eða afborgunar á gjalddaga bar honum að greiða dráttarvexti af gjaldfallinni fjárhæð frá gjalddaga til greiðsludags. Bankinn hafði um það val hvort krafist væri dráttarvaxta af fjárhæðinni í erlendri mynt eða af skuldinni breyttri í íslenskar krónur. Skilyrði fyrir útborgun lánsins var m.a. að bankanum myndi berast beiðni um útborgun. Bankanum barst slík beiðni 14. mars 2008 þar sem stefndi óskaði eftir að lánið yrði greitt út 18. mars 2008. Í kjölfarið voru greiddar út 9.990.001 króna. Bankinn taldi þennan samning einnig kveða á um ólögmætt gengistryggt lán og var það endurreiknað. Eftirstöðvar lánsins fyrir endurútreikning voru 18.773.347 krónur en eftir endurútreikning 13.363.351 króna, miðað við 1. september 2011. Eftir að fyrrgreindir dómar Hæstaréttar Íslands gengu um gildi fullnaðarkvittana var endurútreikningur lánsins leiðréttur. Staða lánsins fyrir þann endurútreikning var 16.974.010 krónur en eftir endurútreikning 14.726.443 krónur.

Eftirstöðvar lánssamninganna beggja, samkvæmt framansögðu, mynda stefnufjárhæð málsins.

Stefndi lýsir atvikum svo að hann hafi verið viðskiptavinur bankans í mörg ár og sé menntaður [...] og hafi starfað sem slíkur þegar atvik gerðust. Eiginkona hans, sem nú er látin, var þá óvinnufær og byggðu þau afkomu sína á tekjum stefnda. Voru fjármunir þeirra að mestu bundnir í fasteigninni sem þau bjuggu í, einbýlishúsi við [...] í [...]. Árið 2006 taldi stefndi nauðsynlegt að finna hentugra húsnæði til búsetu, annars vegar fyrir þau og hins vegar fyrir dóttur stefnda sem þá bjó einnig í húsinu. Þegar fasteignin hafði verið um tíma á sölu leitaði stefndi ráða hjá starfsmanni bankans, [...], sem var tengiliður stefnda við bankann. Hann hafi ráðlagt stefnda að taka brúarlán í erlendri mynt á lágum vöxtum til kaupa á tveimur fasteignum í stað hússins. Stefndi kveðst hafa, út á fyrirheit um slíkt lán, keypt tvær fasteignir. Þegar á reyndi hafi bankinn ekki getað staðið við loforð um lán í erlendri mynt. Fjármögnun vegna kaupana hafi því endað með skammtímaláni, á hærri vöxtum, að fjárhæð 55.000.000 króna, 21. ágúst 2006. Töluverð bið varð á að húsið seldist og byggir stefndi á því að vaxtabyrðin á skammtímaláninu hafi verið afar íþyngjandi fyrir hann. Í maí 2007 var gengið frá lánssamningi í erlendum myntum til tveggja ára eins og áður hafði verið lofað. Lánssamningurinn, sem er númer 8020, að fjárhæð 75.000.000 króna. Ráðstafa átti láninu til að greiða upp framangreint skammtímalán og önnur smærri lán þannig að eftir stæði aðeins lánssamningurinn frá 23. maí 2007 þangað til fasteignin við [...] yrði seld en ætlunin var að greiða lánið upp með söluverði eignarinnar.

Með kaupsamningi 21. ágúst 2007 seldi stefndi fasteignina á 72.500.000 krónur og var sú fjárhæð greidd inn á reikning stefnda í bankanum 5. september 2007. Stefndi byggir á því að þegar ljóst var að fasteignin myndi seljast hafi framangreindur starfsmaður bankans átt tillöguna að fjármögnunarferlinu, haft frumkvæði að því og hvatt stefnda til að gera vaxtaskiptasamning við bankann. Stefnda hafi verið kynnt að slíkur samningur byggðist á því að í stað þess að greiða upp brúarlánið skyldi það sem fengist fyrir fasteignina notað til að kaupa peningabréf Landsbankans. Lánið myndi þá standa áfram sem hluti af vaxtaskiptasamningi en stefndi kveðst alltaf hafa gert ráð fyrir því að gera upp fyrirgreiðslu bankans þegar fasteign hans seldist. [...] hafi kynnt fjárfestingasjóðinn fyrir honum sem áhættulausa fjárfestingarleið sem hann gæti nýtt til að greiða upp lánið án annars fjármagns en þess sem vaxtaskiptasamningurinn gæfi af sér. Þá hafi [...] einnig séð um fjármögnun fyrir kaupanda fasteignarinnar við [...] og hafi því þekkt vel til fjárstreymis hjá stefnda og mátt vita, að mati stefnda, að þeir fjármunir sem hafi verið undir væru nánast aleiga stefnda. Í stað þess að gera upp lánssamninginn hafi stefndi gert umræddan vaxtaskiptasamning og keypt peningabréfin sama dag og hann fékk söluverð fasteignarinnar greitt og sá bankinn, að sögn stefnda, alfarið um það. Allar hreyfingar fjármuna hafi verið framkvæmdar án undirskriftar stefnda og án beinnar aðkomu hans. Ágreiningslaust er að stefndi skrifaði ekki undir neitt samþykki eða önnur skjöl í tengslum við þessi viðskipti. Stefnandi hefur alfarið mótmælt því að gerður hafi verið slíkur vaxtaskiptasamningur.

Í málinu liggur fyrir yfirlýsing [...], dagsett 9. maí 2008. Þar lýsir hann því hvernig hann hafi gert samning við stefnda um að nýta vaxtamun á milli erlendrar og innlendrar myntar. Í yfirlýsingunni segir [...] jafnframt að hann hafi gert stefnda grein fyrir áhættunni af þessu en bent honum á að til lengri tíma ætti vaxtamunurinn að geta gefið honum umframtekjur þó að líkur væru á að eiginfjárstaðan gæti orðið neikvæð í skamman tíma. Þetta byggðist á því að krónan væri með hærri vexti en erlend mynt þannig að eigna/skuldastaðan jafnaðist út. Til lengri tíma ætti staða viðskiptanna þannig að vera í versta falli nálægt núlli eða með lítilli áhættu. Lánið skyldi vera undir eftirliti sérfræðinga í skuldastýringu. Þá segir að vegna frétta um misnotkun bankanna á krónunni til að bæta afkomu sína hafi verið kominn upp forsendubrestur í þessum viðskiptum og þau orðin allt annars eðlis en það viðskiptamódel sem hann hefði kynnt stefnda. Einnig liggur fyrir önnur yfirlýsing [...], sem dagsett er 30. apríl 2013, að mestu leyti sama efnis og sú fyrri.

Þá lýsir stefndi atvikum svo að önnur þeirra eigna sem hann keypti hafi verið við [...] og verið ætluð dóttur hans til búsetu. Vegna breyttra aðstæðna hennar hafi þurft að kaupa fyrir hana aðra hentugri íbúð en til þess þurfti ekki viðbótarfjármagn. Stefndi kveðst hafa leitað til bankans eftir ráðgjöf, ef lagt yrði í að kaupa dýrari eign. Fulltrúi bankans hafi þá lagt til að hann tæki kúlulán, sambærilegt láni nr. 8020. Lánssamningurinn myndi ganga inn í vaxtaskiptasamning aðila sem að framan er lýst og myndi stefndi greiða niður lánið með innlausnum af inneign sinni og ávöxtun af peningabréfum. Aukin greiðslubyrði stefnda yrði því engin. Út á fyrirheit bankans kveðst stefndi hafa selt eignina við [...] og keypt aðra fasteign 16. janúar 2008.

Samtals námu innlausnir stefnda á peningabréfum, á tímabilinu frá 28. september 2007 til 5. september 2008, 7.920.000 krónum sem fóru til greiðslu vaxta og kostnaðar. Stefndi byggir á því að hann hafi um hver mánaðamót haft samband við fulltrúa sinn hjá bankanum þegar kom að vaxtagreiðslu til að fá upplýsingar um þá upphæð sem standa þyrfti skil á. Hafi það verið eina aðkoma hans að vaxtaskiptasamningnum. Stefndi kveðst ekki hafa getað selt peningabréfin sjálfur þar sem bankinn hafi haldið þeim að handveði en stefnandi byggir á því að fyrst hafi verið gengið frá handveðsetningunni í febrúar 2008. Auk handveðs í peningabréfunum gerði bankinn kröfu um frekari tryggingar. Því voru útbúin tryggingarbréf með veði í fasteignum stefnda. Lokað var fyrir innlausnir á umræddum peningabréfum 6. október 2008. Í kjölfarið voru peningasjóðir Landsbankans leystir upp og inneignir greiddar út. Útgreiðsluhlutfall nam 68,8% og var greiðsla til stefnda innt af hendi inn á bankareikning hjá stefnanda. Innstæðunni var ráðstafað upp í kröfu stefnanda 1. mars 2017.

Fjármálaeftirlitið ákvað 9. október 2008, með heimild í 100. gr. a í lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitinga úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., að ráðstafa eignum og skuldum Landsbanka Íslands hf. til Nýja Landsbankans hf. Við slit Landsbanka Íslands hf. lýsti stefndi kröfu meðal annars um skuldajöfnuð við þær kröfur sem mál þetta lýtur að vegna skaðabótakröfu sem hann taldi sig eiga á hendur bankanum vegna ófullnægjandi ráðgjafar hans. Skilanefnd bankans hafnaði öllum kröfum hans og með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 9. apríl 2014 í máli nr. X-648/2012 var öllum kröfum hans vísað frá dómi.

Við að almeðferð málsins gaf stefndi aðilaskýrslu og [...] vitnaskýrslu.

 

III

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir málatilbúnað sinn á því að ágreiningslaust sé að stefndi hafi undirritað umrædda lánssamninga og beiðnir um útborgun lánanna. Hann hafi fengið andvirði lánanna að frádregnum kostnað greitt inn á reikning sinn og hafi því getað ráðstafað fénu að vild í kjölfarið. Stefnandi kveðst munu ráðstafa innborgunum fyrst til greiðslu áfallins kostnaðar af vanskilum, þá til greiðslu vaxta og loks til lækkunar höfuðstóls. Þá vísar stefnandi til þess að skuldin hafi ekki verið greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir og því sé nauðsynlegt að höfða mál þetta.

Stefnandi byggir kröfur sínar á reglum samninga- og kröfuréttar um loforð og efndir fjárskuldbindinga. Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá byggir stefnandi kröfu um málskostnað á 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991, um meðferð einkamála, og kröfu um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

            Hvað aðild stefnanda varðar þá vísar hann til þess að Fjármálaráðuneytið ákvað, með heimild í 100. gr. a í lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitinga úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., hinn 9. október 2008, að ráðstafa eignum og skuldum Landsbanka Íslands hf., kennitala 540291-2259, til Nýja Landsbankans hf., kennitala 471008-0280, nú Landsbankinn hf., kennitala 471008-0280.

 

IV

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi byggir á því að þeir lánssamningar sem stefnandi byggir kröfu sína á séu hluti af vaxtaskiptaviðskiptum sínum og forvera stefnanda, Landsbanka Íslands hf. (bankans). Stefnandi geti ekki einhliða skilið hluta viðskiptanna frá heldur verði að skoða viðskiptin í heild. Stefndi hafi við yfirfærslu þessara gerninga til nýja Landsbankans, með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, ekki misst neinn mótbárurétt gagnvart stefnanda.

Aðalkrafa stefnda um sýknu er í fyrsta lagi byggð á því að lánssamningarnir séu óskuldbindandi fyrir stefnda. Samningarnir séu hluti af óundirrituðum vaxtaskiptasamningi milli sömu aðila. Bankinn hafi hvorki sinnt upplýsingaskyldu sinni við samningsgerðina né gætt að hlutleysi sínu og með því ekki uppfyllt nánar tiltekin ákvæði þágildandi laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti, ákvæði laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, og reglugerð sem sett er með stoð í framangreindum lögum, sem og ákvæði laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Um þetta vísar stefndi til þess að á bankanum hafi hvílt skylda til að gera sérstakan skriflegan samning um þau vaxtaskiptaviðskipti sem áttu sér stað, sbr. 2. mgr. 7. gr. þágildandi laga nr. 33/2003, um verðbréfaviðskipti. Sérstaklega sé vísað til umfangs viðskiptanna og þeirrar áhættu sem þeim hafi verið samfara og þess að starfsmaður bankans, sem komið hafi viðskiptunum á, hafi verið fullmeðvitaður um að aleiga stefnda væri undir. Stefnda hafi hvorki verið gert að skrifa undir samning um fjárfestingarráðgjöf við bankann né almenna skilmála vegna markaðsviðskipta, þrátt fyrir lagaskyldu til þess. Eins og fram komi í skýrslutöku í dómsmáli númer X-[...], X gegn LBI hf., hafi fyrrverandi starfsmaður bankans, sem var tengiliður stefnda við bankann, staðfest að lánssamningar og kaup á peningamarkaðsbréfum bankans hafi verið undirstaða vaxtaskiptasamninga eins og þess sem stefndi hafi gert við bankann. Hann hafi jafnframt staðfest að bankinn hefði átt að gera skriflegan samning um þessi viðskipti.

Stefndi vísar einnig til 1. mgr. 9. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, sem tóku gildi í nóvember 2007, rétt eftir að gengið hafi verið frá framangreindum vaxtaskiptaviðskiptum. Ákvæði þetta skyldi fjármálafyrirtæki til að gera skriflegan samning við almennan fjárfesti ef fjármálafyrirtækið tekur að sér þjónustu á sviði verðbréfaviðskipta. Ekki hafi verið brugðist við þessari skyldu við gildistöku laganna. Þá liggi fyrir í málinu að stefndi hafi ekki fengið viðeigandi upplýsingar í tengslum við skyldu fjármálafyrirtækja til þess að flokka viðskiptavini, sbr. 21. gr. laga nr. 108/2007.

Í öðru lagi byggir stefndi á því að bankinn hafi hvorki veitt ráðgjöf um eðli gerningsins né áhættuna sem í honum hafi falist. Viðskiptin hafi falið í sér áhættu sem stefndi hafi hvorki haft vitneskju um né þekkingu á. Samkvæmt 5. gr. þágildandi laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti og 14. og 15. gr. núgildandi laga nr. 108/2007 hafi bankanum borið að afla sér upplýsinga hjá stefnda um þekkingu hans og reynslu af verðbréfaviðskiptum. Í ljósi þessa hafi bankanum borið að veita stefnda greinargóðar upplýsingar, m.a. um þá fjárfestingarkosti sem honum stæðu til boða. Slíkar upplýsingar eigi samkvæmt fyrrgreindu lagaákvæði að vera skýrar, nægjanlegar og ekki villandi þannig að viðskiptavinur geti tekið upplýsta fjárfestingarákvörðun. Aðkoma bankans að umræddum viðskiptum sé ekki í samræmi við almenna venju í bankaviðskiptum. Þá geti viðskiptin ekki talist vera tilhlýðileg fjárfesting fyrir almennan viðskiptavin með enga reynslu og fjármálaþekkingu, sbr. 4. gr. þágildandi laga nr. 33/2003. Umrædd viðskipti hafi falið í sér verulega gengisáhættu fyrir stefnda sem hann hafi aldrei verið upplýstur um. Starfsmaður bankans hafi fullyrt að um væri að ræða áhættulaus viðskipti. Þetta fái einnig stoð í yfirlýsingum sem bankinn sjálfur hafi gefið út í tengslum við viðskipti með Peningabréf Landsbankans. Engin gögn séu til um að bankinn hafi upplýst stefnda, sem almennan viðskiptavin, um eðli og áhættu samfara vaxtaskiptaviðskiptunum.

Stefndi byggir í þriðja lagi á því að hvatning starfsmanna bankans til stefnda, sem einstaklings og almenns viðskiptavinar, til að taka þátt í áhættusömum viðskiptum sé andstæð góðri viðskiptavenju, sbr. 4. og 6. gr. þágildandi laga nr. 33/2003. Stefndi hafi augljóslega ekki haft burði til að taka slíka áhættu sem falist hafi í þeim viðskiptum sem bankinn hafi kynnt honum. Hann hafi verið á einföldum kennaralaunum og leitað til bankans í þeim tilgangi að fjármagna fasteignakaup tímabundið. Þá sé nú alþekkt að á árunum 2007 og 2008 hafi forsvarsmenn bankans unnið að því með ólögmætum hætti að hindra að hlutabréf í bankanum lækkuðu í verði, sbr. dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 842/2014 og 456/2014. Þá sé búið að sýna fram á að helstu fjárfestingar peningabréfa Landsbankans hafi verið í bankanum sjálfum og tengdum félögum, sem hafi verið andstætt þeirri stefnu sem sjóðurinn hafi kynnt. Það að hvetja viðskiptamenn til að fjárfesta í peningabréfunum, sem búið sé að sýna fram á að hafi verið notuð m.a. til þess að halda uppi verðinu á bankanum og fyrirtækjum tengdum honum, hafi því fallið að þessum fyrirætlunum bankans.

Í fjórða lagi byggir stefndi á því að kynning og ráðgjöf bankans hafi ekki verið í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur í verðbréfaviðskiptum, með trúverðugleika fjármálamarkaðarins og hagsmuni viðskiptavina að leiðarljósi, sbr. 4. gr. þágildandi laga nr. 33/2003, 5. gr. laga nr. 108/2007 og 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Ákvæði 5. gr. laga nr. 108/2007 feli í sér almenna hegðunarreglu. Þá séu sérstakar hegðunarreglur í II. kafla laga nr. 108/2007 og reglugerð nr. 995/2007 um fjárfestingarvernd og viðskiptahætti fjármálafyrirtækja, sem séu nánari útfærsla á hinni almennu reglu. Hinar sérstöku hegðunarreglur feli ekki í sér tæmandi upptalningu á því hvernig fjármálafyrirtæki beri að haga sér í öllum tilvikum. Fjármálafyrirtæki beri þannig að meta hvert og einstakt tilvik með hliðsjón af hagsmunum viðskiptavinarins. Við það mat verði að horfa til þess hvernig hlutrænt megi telja að gegn og skynsamur starfsmaður hefði hagað sér undir tilteknum kringumstæðum og þá eftir atvikum hvort bankinn hefði átt að vita að um óeðlilega og óheilbrigða viðskiptahætti væri að ræða, sem væru til þess fallnir að skaða trúverðugleika fjármálamarkaðarins og hagsmuni viðskiptavina. Háttsemi bankans hafi stórlega skaðað hagsmuni stefnda og skilið hann eftir í fjárhagslegu tómarúmi því hann hafi ekki getað fengið fyrirgreiðslu í bönkum eða sparisjóðum vegna skráðrar skuldastöðu hjá bankanum.

Með vísan til alls framangreinds telur stefndi ljóst að stefnandi geti ekki byggt rétt á lánssamningum nr. 11605 og 8020. Samningarnir séu órjúfanlegur hluti af vaxtaskiptaviðskiptum stefnda og bankans sem síðan hafi flust yfir til stefnanda. Umrædd viðskipti, og þar með lánssamningarnir tveir, verði að teljast ólögmæt þar sem bankinn hafi í aðdraganda þeirra virt að vettugi og beinlínis brotið gegn ákvæðum 4., 5. og 6. gr. og 2. mgr. 7. gr. laga nr. 33/2003, ákvæði 5., 9., 14. og 15. gr. laga nr. 108/2007, sem og 19. gr. laga nr. 161/2002.

Verði ekki fallist á framangreint byggir stefndi sýknukröfu sína á ákvæði 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Stefndi byggir á því að það sé ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að stefnandi beri fyrir sig umrædda lánssamninga og að þeim skuli vikið til hliðar í heild sinni með stoð í 36. gr. laga nr. 7/1936. Stefndi byggir á því að öll skilyrði fyrir beitingu ákvæðisins séu fyrir hendi.

Í fyrsta lagi byggir stefndi á því að líta beri til efnis þess samnings sem málið snúist um. Í því máli sem hér sé til úrlausnar sé um að ræða tvo lánssamninga sem séu hluti af órjúfanlegri heild. Lánssamningarnir séu annar helmingur vaxtaskiptasamnings sem hafi verið gerður milli stefnda og bankans. Ekki sé hægt að krefjast greiðslu samkvæmt lánssamningunum án þess að vaxtaskiptasamningurinn komi til skoðunar. Stefndi vísar til þess sem að framan er rakið um tilurð og umgjörð viðskiptanna þar sem lög og reglur hafi verið þverbrotin.

Í öðru lagi beri að líta til atvika við samningsgerð. Stefndi byggir á því að ekki hafi verið rétt staðið að gerð samningsins þar sem hvorki hafi verið gengið frá skriflegum samningi né veittar viðeigandi upplýsingar við lánveitinguna og áhættutökuna. Framangreindum skyldum hafi bankinn í engu sinnt. Með þessari háttsemi hafi bankinn brotið gegn ákvæðum 4., 5. og 6. gr. og 2. mgr. 7. gr. þágildandi laga nr. 33/2003, ákvæðum 5., 9., 14. og 15. gr. laga nr. 108/2007 og 19. gr. laga nr. 161/2002.

Í þriðja og fjórða lagi byggir stefndi á því að staða samningsaðila og atvik sem síðar hafi komið til, þar á meðal markaðsmisnotkun og meðferð á Peningamarkaðssjóðum Landsbanka Íslands hf., styðji það enn frekar að uppfyllt séu skilyrði til þess að víkja lánssamningunum frá í heild. Að öðru leyti vísar stefndi til fyrri málsástæðna.

Verði ekki fallist á að víkja beri framangreindum lánssamningum til hliðar með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936, þá byggir stefndi á því að það sé óheiðarlegt af stefnanda að bera þessa skuldbindingu stefnda fyrir sig. Þegar horft sé til þeirra ráðlegginga sem stefnda hafi verið veittar um lántöku, sem falið hafi í sér verulega áhættu fyrir hann, og vanrækslu bankans á að kynna fyrir honum áhættuna sem hafi falist í viðskiptunum, ásamt vanrækslu á að flokka hann sem almennan viðskiptavin í samræmi við ákvæði laga nr. 108/2007, verði að telja að umræddir lánssamningar séu ógildir samkvæmt 33. gr. laga nr. 7/1936, sbr. 3. gr. laga nr. 11/1986. Geti stefnandi því ekki krafist endurgreiðslu lánsfjárhæðarinnar og beri að aflétta veðum sem sett hafa verið til tryggingar skuldbindingunum og sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

Stefndi telur að bankinn hafi átt að vita betur um forsendur ráðgjafarinnar og tryggja að starfsmenn hans héldu að viðskiptavinum réttum upplýsingum í ráðgjöf sinni þannig að viðskiptavinir gætu treyst því að ráðgjöfin væri hlutlaus og á henni byggjandi. Hefði bankinn ekki hvatt til þessara viðskipta og stefndi gert upp allar sínar kröfur, í stað þess að fallast á vaxtaskiptasamninginn, hefði þessi staða ekki komið upp. Jafnframt verði að hafa í huga, sé tekið mið af þeim upplýsingum sem nú liggi fyrir, að stjórnendum bankans hafi mátt vera ljóst hver staða bankans hafi verið og hvert hafi stefnt á þeim tíma sem samningarnir hafi verið gerðir.

Þar sem stefndi hafi ekki haft sérþekkingu, sérmenntun eða reynslu af viðskiptum með fjármálagerninga verði að gera enn ríkari kröfur en ella til bankans um að hann starfaði í samræmi við góða og eðlilega viðskiptahætti í viðskiptum sínum við stefnda. Þá hafi bankinn virt að vettugi upplýsingaskyldu sína, skyldur um góða viðskiptahætti, leiðbeiningarskyldu og reglur um fjárfestavernd.

Loks vísar stefndi til þess að bæði bankinn og stefnandi séu fjármálafyrirtæki með mikla þekkingu á viðskiptum með fjármálagjörninga og beri sem slíkir mikla ábyrgð gagnvart skjólstæðingum sínum. Með vísan til framangreinds telur stefndi að það sé óheiðarlegt af stefnanda að bera þessa skuldbindingu fyrir sig og að umræddir lánssamningar séu ógildir með vísan til 33. gr. laga nr. 7/1936.

Ef ekki verður fallist á aðalkröfu stefnda um sýknu krefst stefndi þess til vara að dómkröfur stefnanda verði allverulega lækkaðar og að skuld hans samkvæmt lánssamningum nr. 8020 og 11605 takmarkist við uppgjör vegna peningabréfanna, þ.e. innstæðu á handveðsettum bankareikningi. Stefndi byggir þessa kröfu á sömu málsástæðum og aðalkröfu auk þess sem hann byggir á óskráðum meginreglum samningaréttar um réttmætar væntingar og að samninga skuldi halda. Þá byggir stefndi enn fremur á því að lánssamningarnir séu ekki skuldbindandi fyrir hann vegna rangra forsendna, sbr. 1. mgr. 32. gr. laga nr. 7/1936. Það hafi verið forsenda og ákvörðunarástæða stefnda að fjármálafyrirtækið gerði við hann samning sem fæli ekki í sér neina áhættu fyrir hann. Síðar hafi komið í ljós að sú forsenda og ákvörðunarástæða hafi verið röng. Bankinn hafi mátt vita að hann gæti ekki staðið við loforð sín við samningsgerðina og að stefndi hefði aldrei gengið til samninga hefði hann verið upplýstur á réttan hátt um eðli gerningsins.

Hvað lagarök varðar vísar stefndi til laga um verðbréfaviðskipti nr. 33/2003 og 108/2007, laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, til réttarfarsreglna og meginreglna kröfuréttar og samningaréttar og reglunnar um vinnuveitendaábyrgð og sérfræðiábyrgð. Stefndi byggir málskostnaðarkröfu sína á 1. mgr. 30. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

V

Forsendur og niðurstaða

Ágreiningur máls þessa varðar greiðsluskyldu stefnda samkvæmt tveimur lánssamningum, annars vegar samningi nr. 8020, undirrituðum 23. maí 2007, og hins vegar samningi nr. 11605, undirrituðum 14. mars 2008. Fyrir liggur að bæði lánin hafa verið endurútreiknuð á grundvelli laga nr. 151/2010, um breytingu á lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, og í samræmi við dóma Hæstaréttar Íslands um ólögmæta gengistryggingu lána og gildi fullnaðarkvittana við endurútreikning þeirra, eins og lýst er hér að framan. Óumdeilt er að stefndi fékk lánsfjárhæðirnar greiddar út til ráðstöfunar samkvæmt samningunum. Þá er ekki deilt um endurútreikning lánanna eða fjárhæð eftirstöðva þeirra eins og hún er sett fram í dómkröfu, og að lánssamningarnir voru gerðir vegna fasteignaviðskipta stefnda sem stefnandi fjármagnaði tímabundið meðan stefndi seldi fasteign sína við [...]. Loks er ekki ágreiningur um það að kröfum samkvæmt lánssamningunum var ráðstafað til stefnanda með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008.

Stefndi byggir málatilbúnað sinn á því að lánssamningarnir séu hluti af viðskiptum hans við Landsbanka Íslands hf. um vaxtaskipti og að meta verði gildi samninganna í því samhengi. Byggir stefndi aðalkröfu sína í fyrsta lagi á því að lánssamningarnir séu óskuldbindandi fyrir hann þar sem þeir séu hluti af óundirrituðum vaxtaskiptasamningi og hafi bankinn ekki staðið við skyldur sínar gagnvart stefnda við gerð hans, í öðru lagi að þeim verði vikið til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, og í þriðja lagi á grundvelli 33. gr. sömu laga.

Fyrir liggur að aðilar gerðu ekki með sér skriflegan vaxtaskiptasamning. Fyrri lánssamningurinn var undirritaður áður en stefndi keypti peningabréf Landsbankans, sem var 5. september 2007. Stefndi byggir á því að samkvæmt munnlegum samningi við starfsmann stefnanda hafi samkomulag verið um að í stað þess að söluverð fasteignanna yrði notað til þess að greiða upp lán skyldu innlausnir á peningabréfunum notaðar til þess að greiða vexti og kostnað af láninu. Síðari lánssamningurinn var undirritaður eftir að stefndi keypti peningabréfin. Byggir stefndi á því að lánssamningarnir séu hluti af óundirrituðum vaxtaskiptasamningi þannig að um sé að ræða munnlegan samning. Fyrra lánið hafi verið tekið í tengslum við fasteignaviðskiptin og samkvæmt samkomulagi við starfsmann bankans skyldi síðari lánssamningurinn „ganga inn í vaxtaskiptasamning aðila“ og skyldi einnig greiddur niður með innlausnum á peningabréfunum og greiðslubyrði stefnda hafi ekki átt að aukast. Stefndi skoraði á stefnanda að leggja fram þau gögn sem til eru um samningin en stefnandi hefur ekki gert það og byggir á því að engin gögn séu til.

Stefndi vísar til þess að þar sem eigendur peningabréfa fengu aðeins 68,8% af inneignum sínum greidd út hafi hann tapað fjármunum sem hann hefði notað til þess að greiða upp eldra lánið hefði ekki komið til ráðlegginga frá starfsmanni bankans. Með sama hætti hefði hann ekki tekið síðara lánið hefði hann selt inneign sína í peningabréfunum í stað þess að fara eftir ráðgjöf starfsmanns bankans. Af hálfu bankans hafi ekki verið farið að lögum og reglum í þessari ráðgjöf eða við gerð hins munnlega vaxtaskiptasamnings. Telur stefndi því að lánssamningarnir séu óskuldbindandi fyrir hann, þeir séu ógildir eða að þeim beri að víkja til hliðar í heild eða að hluta.

Eins og rakið hefur verið liggur fyrir yfirlýsing vitnisins [...] frá 9. maí 2008 sem hann staðfesti að mestu í framburði sínum fyrir dómi. Stefnandi telur að vitnisburður [...] sé ótrúverðugur og verði því ekki lagður til grundvallar úrlausn málsins þar sem hann hafi sjálfur verið í málaferlum gegn bankanum, sem stefndi honum til greiðslu skuldar vegna fjölmyntaláns sem talið var tengt gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti. Þessu hafnar stefndi sem órökstuddu og bendir á að framburður vitnisins hafi verið stöðugur og í samræmi við framlagða yfirlýsingu hans sem rituð var stuttu eftir að atvik málsins gerðust. Að mati dómsins verður ekki talið að framangreint dómsmál sem vitnið var aðili að valdi því eitt og sér að framburður vitnisins í heild verði talinn ótrúverðugur. Er þá sérstaklega horft til þess að framburður hans var að mestu í samræmi við yfirlýsinguna frá 2008 sem var rituð skömmu eftir að atvik gerðust, og þá var málarekstur gegn honum ekki hafinn.

Samkvæmt framburði stefnda og vitnisins [...] keypti stefndi, á grundvelli ráðlegginga frá [...], peningabréf Landsbankans fyrir söluandvirði fasteignarinnar á [...] í stað þess að greiða upp lán sem upphaflega voru tekin til að fjármagna fasteignakaupin þar til fasteignin á [...] seldist. Telur dómurinn einnig að framburður þeirra styðji það að ætlunin hafi verið sú að innlausnir stefnda á peningabréfunum skyldu notaðar til að greiða vexti og kostnað af lánunum og minnka þannig greiðslubyrði stefnda vegna lánanna. Samkvæmt framburði stefnda hafði hann mánaðarlega samband við bankann, fyrst við [...] og eftir að hann hætti störfum hjá bankanum í október 2007 við annan starfsmann bankans og óskaði eftir því að innleystu fé yrði ráðstafað á þennan hátt. Í ljósi þess verður því ekki fallist á það með stefnda hann hafi gert samkomulag við bankann sem hafi skuldbundið hann til að ráðstafa innleystu fé á þennan hátt. Þá verður einnig að líta til þess að fyrri samningurinn var gerður áður en stefndi keypti peningabréfin og sá síðari eftir kaupin en þar var þó í engu vikið að framangreindu fyrirkomulagi, heldur var í samningnum gert ráð fyrir að afborganir og vextir yrðu skuldfærðir af tékkareikningi stefnda. Þeir lánssamningar sem stefnandi byggir kröfu sína á eru báðir skriflegir og undirritaðir af hálfu beggja aðila. Bera þeir ekki með sér að vera skilyrtir eða að öðru leyti háðir fyrrgreindu samkomulagi aðila um nýtingu innlausna stefnda á peningabréfunum. Verður þar af leiðandi að meta gildi lánssamninganna sjálfstætt þótt við það mat geti, samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936, komið til skoðunar atvik og staða aðila við samningsgerðina.

Stefndi byggir á því að starfsmenn bankans hafi með saknæmum hætti valdið honum tjóni með því að hvetja hann til að kaupa inneign í peningabréfunum fyrir söluandvirði fasteignarinnar að [...] í stað þess að greiða niður fyrra lánið og með því að hvetja hann til að taka nýtt lán í stað þess að selja inneign í peningabréfunum. Vísar hann m.a. til þess að stjórnendur bankans hafi, þegar atvik, gerðust, vitað í hvað stefndi. Í framburði vitnisins [...] kom fram að það hefði verið stefndi sem tók ákvörðun um að eiga þessi viðskipti en ekki vitnið þó hann hefði kynnt þau fyrir stefnda. Vitnið kvaðst þó hafa brugðist hvað það varðar að hann hefði samkvæmt reglum bankans átt að stýra stefnanda rétta leið innan bankans, sem var á „gjaldeyrisborð“, og það hefði leitt til þess að hæfi stefnda til að stunda þessi viðskipti hefði verið kannað. Málið hefði hins vegar farið fyrir lánanefnd, sem samþykkti viðskiptin, en frá nefndinni hefðu átt að koma viðbrögð við því að ferill málsins var ekki réttur. Vitnið kvaðst ekki hafa vitað betur en að peningabréfin væru 100% örugg og þannig hafi þau verið kynnt á þessum tíma. Með hliðsjón af framangreindu er það mat dómsins að af hálfu stefnda hafi ekki verið gerð fullnægjandi grein fyrir því á hvern hátt bankinn orsakaði tjón stefnda. Né heldur liggur fyrir hvort stefndi hefði átt í sömu viðskiptum við bankann ef mál hans hefðu farið eftir réttum ferlum innan bankans þannig að gerður hefði verið skriflegur vaxtaskiptasamningur, þá er ekki gerð grein fyrir fjárhæð tjónsins eða gagnkrafa sett fram á hendur bankanum vegna þess. Þó liggur fyrir framburður vitnisins [...] um að ef verkferlar innan bankans hefðu virkað rétt hafi stefndi einungis átt að tapa 10% af verðmæti peningabréfana. Loks liggur fyrir að söluverð fasteignarinnar við [...] var lægra en fyrra lánið sem stefndi tók og hefði því ekki dugað til greiðslu þess. Verður því að ætla að stefndi hefði komist hjá því að taka einnig síðara lánið þó hann hefði ekki keypti inneign í peningabréfunum. Verður því, með vísan til framangreinds, að telja ósannað að bankinn hafi valdið stefnda tjóni með saknæmum hætti og verður því ekki fallist á framangreind málsástæðu stefnda styðji sýknukröfu hans eða eigi, eftir atvikum, leiða til lækkunar kröfunnar

            Þá verður framburður vitnisins [...] og yfirlýsing hans frá 9. maí 2008 ekki talin styðja það að hann hafi ráðlagt stefnda gegn betri vitund að kaupa inneign í peningabréfum fyrir söluverð fasteignarinnar. Er sérstaklega vísað til þess að vitnið sagði að stefndi hefði haft þekkingu til að skilja hvað fælist í vaxtaskiptasamningi en með því að fara ekki formlega rétta leið innan bankans vegna samningsins hefði hann ekki fengið ráðleggingar þegar breytingar urðu sem höfðu áhrif á stöðu hans. Engu að síður verður að telja að stefndi hafi verið hvattur til að taka óeðlilega áhættu í ljósi aðstæðna hans og að bankinn hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt 5. og 6. gr. þágildandi laga nr. 33/2003, um verðbréfaviðskipti, eða 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Verður þetta þó ekki talið valda því að stefndi þurfi ekki að standa við skuldbindingar sínar, enda verður að telja að stefnda hafi hlotið að vera ljóst að með ákvörðunum hans, og á grundvelli þeirrar lýsingar á áhættu sem vitnið lýsti í yfirlýsingu sinni, gæti hann á einhverjum tímapunkti lent í þeirri stöðu að eign hans lækkaði, a.m.k. tímabundið.

Stefndi byggir einnig á því að lánssamningarnir séu óskuldbindandi fyrir hann með vísan til þess að af hálfu bankans hafi ekki verið gætt að ákvæðum 7. gr. laga nr. 33/2003, um verðbréfaviðskipti, við gerð fyrrgreinds vaxtaskiptasamnings. Samkvæmt ákvæðinu, sem var í gildi þegar ætlaður samningur var gerður, bar fjármálafyrirtæki sem tæki að sér þjónustu á sviði verðbréfaviðskipta sem fæli í sér viðvarandi viðskiptasamband, svo sem eignastýringu, að gera skriflegan samning við viðskiptavin þar sem m.a. skyldi kveðið á um réttindi og skyldur samningsaðila. Í athugasemdum við ákvæðið kemur fram að með orðalaginu „viðvarandi viðskiptasamband“ sé átt við að ekki sé ætlast til sérstakrar samningsgerðar um einstök tilfallandi samskipti fyrirtækis og viðskiptavina. Þó sé ráðlegast að einhver samningur sé fyrir hendi um réttarstöðu viðskiptavinar þannig að hann geti í upphafi samningssambands gert sér grein fyrir réttindum sínum og skyldum. Ekki hefur af hálfu stefnda verið á því byggt eða sýnt fram á að viðskipti stefnda hafi verið slík að þau falli undir ákvæðið, t.d. að um eignastýringu hafi verið að ræða eins og hún var skilgreind í 3. tölulið 1. gr. laganna. Þá er ekki á því byggt að af hálfu bankans hafi eignum stefnda verið ráðstafað án vitundar hans eða vilja eða að um það hafi verið samið við kaup stefnda á bréfunum að bankanum væri heimilt að selja inneign hans í bréfunum eða ráðstafa eignum hans að öðru leyti. Í ljósi framangreinds og með hliðsjón af framburði vitnisins [...] telur dómari þó að bankinn hefði átt að gera skriflegan samning við stefnda um viðskiptin. Verður það þó ekki, eins og atvikum er háttað, talið valda því að staða hans hefði orðið önnur gagnvart bankanum hvað lánssamningana varðar eða geta leitt til þess að þeir verði nú taldir óskuldbindandi fyrir stefnda eða að þeir fari gegn 4. gr. þágildandi laga nr. 33/2003.

Þá byggir stefndi á því að samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfviðskipti, hafi átt að gera samning við stefnda sem almennan fjárfesti þegar lögin tóku gildi 1. nóvember 2007. Í athugasemd í greinargerð sem fylgdi frumvarpi að lögunum kemur fram að ákvæðið taki einungis til viðskipta sem stofnað sé til eftir gildistöku laganna sem er eftir að stefndi tók fyrra lánið og eftir að hann keypti peningabréfin. Þegar af þeirri ástæðu er þessari málsástæðu stefnda hafnað.

            Ákvæði 21. gr. laga nr. 108/2007, sem stefndi vísar einnig til, gerir ráð fyrir að flokkun viðskiptavina eigi jafnt við um nýja viðskiptavini og þá sem voru í viðskiptum við bankann þegar lögin tóku gildi, en fyrir liggur að slíkt var ekki gert hvað varðar stefnda. Af hálfu stefnda hefur ekki verið sýnt fram á hvernig sú vanræksla hafi haft áhrif þá lánssamninga sem krafa stefnanda er byggð á eða að það eigi að valda því að stefndi komist á grundvelli þess hjá því að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt samningunum. Þegar litið er til þess, og hvernig atvikum er háttað að öðru leyti og að framan er rakið, er þessari málsástæðu stefnda einnig hafnað.

Þá byggir stefndi á því að af hálfu forvera bankans hafi ekki verið veitt ráðgjöf um eðli gerningsins eða áhættuna sem í honum fólst. Eins og fram kemur í yfirlýsingu [...] og framburði hans fyrir dómi gerði hann stefnda grein fyrir áhættunni af því að kaupa peningabréfin samhliða því að vera með gengistryggð lán hjá bankanum. Verður framburður vitnisins ekki skilinn öðruvísi en svo að þær ráðleggingar sem stefnda hafi skort varði önnur atriði en þá áhættu sem bankinn taldi að slíkur samningur hefði í för með sér þegar viðskiptin fóru fram. Verður því að ætla að stefndi hafi gert sér grein fyrir eðli gerningsins og þá sérstaklega með hliðsjón af þeirri ætlan hans að með vaxtamun gæti hann staðið skil á vaxtagreiðslum vegna a.m.k. fyrra lánsins. Þá hafi honum ekki getað dulist að viðskiptunum fylgdi áhætta í samanburði við það ef hann hefði greitt lánið niður með söluverði fasteignarinnar. Þá er til þess að líta að með lánum bundnum við gengi erlendra gjaldmiðla og með lágum LIBOR-vöxtum fékk stefndi góð vaxtakjör en tók á sig gengisáhættu. Með endurútreikningi lánanna ber stefndi ekki lengur áhættu af gengistryggingu þeirra. Með vísan til þess verður ekki talið að upplýsingaskyldu bankans hafi verið svo ábótavant að það geti leitt til þess að lánssamningarnir séu óskuldbindandi fyrir stefnda.

Stefndi byggir sýknukröfu sína enn fremur á því að það sé ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að stefnandi beri fyrir sig umþrætta lánssamninga og að þeim beri að víkja til hliðar í heild sinni á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Samkvæmt ákvæðinu skal við mat á því hvort ósanngjarnt sé eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera fyrir sig umþrætta samninga líta til efnis þeirra, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936.

Óumdeilt er að stefndi fékk greidd út þau lán sem tilgreind eru í samningunum. Voru báðir samningarnir taldir fela í sér ákvæði um gengistryggingu lána sem dæmd hafa verið ólögmæt. Endurreiknaði bankinn kröfurnar í tvígang með vísan til þess, og það varð til þess að þær lækkuðu töluvert. Með hliðsjón af þessu verður ekki á það fallist að ósanngjarnt sé af hálfu stefnanda að bera samningana fyrir sig á þeim forsendum að skilmálar lánanna hafi geymt ákvæði um gengistryggingu þeirra. Þá liggur fyrir að þegar stefndi átti í þeim fasteignaviðskiptum sem urðu til þess að hann tók lánin starfaði hann sem kennari. Þó að gögn liggi fyrir um að hann hafi á einhverjum tíma komið að rekstri einkahlutafélaga eru þau takmörkuð. Verða þau ekki talin breyta því að ákveðinn aðstöðumunur var á milli bankans og stefnda. Það eitt og sér verður þó ekki talið valda því að samningi verði vikið til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936. Við mat á þeim aðstöðumun verður einnig að líta til þess að stefndi fór að ráðleggingum starfsmanns bankans, vitnisins [...], en samkvæmt framburði hans gaf hann stefnda þær upplýsingar sem hann taldi réttar á þeim tíma, að peningabréfin væru 100% örugg. Einnig kom fram hjá honum að hann hefði ekkert getað gert nema að stefndi samþykkti það. Þá verður að líta til þess að stefnda gat ekki dulist að meiri áhætta fólst í því að nota innlausnir á peningabréfunum til þess að greiða af lánunum en að greiða niður fyrra lánið með söluandvirði fasteignarinnar í stað þess að auka lántökur. Þegar litið er heildstætt á aðstæður verður að telja að ekki hafi svo einhverju nemi hallað á stefnda við samningsgerðina. Loks verður ekki fallist á það að síðar tilkomin atvik, þ.e. grunur um markaðsmisnotkun innan bankans og yfirlýsingar bankans þar sem viðurkennt var að það hafi verið mistök að kynna peningabréfin sem áhættulaus, verði talin réttlæta það að lánssamningunum verði vikið til hliðar. Þá hefur ekki verið sýnt fram á að hugsanleg síðar tilkomin atvik sem leidd væru af því að mál stefnda hefðu farið í rangan farveg innan bankans réttlæti slíkt. Í ljósi framangreinds verður því ekki fallist á málsástæðu stefnda byggða á 36. gr. laga nr. 7/1936 þannig að ósanngjarnt verði talið af stefnanda eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera lánssamningana fyrir sig og verður þeim því ekki vikið til hliðar í heild eða að hluta á þeim forsendum.

Loks byggir stefndi einnig á því að ógilda beri lánssamningana á grundvelli 33. gr. laga nr. 7/1936 og aflétta veðum sem sett hafa verið til tryggingar skuldbindingunum, eða að lánssamningarnir séu ekki skuldbindandi fyrir stefnda vegna rangra forsendna, með vísan til 32. gr. laga nr. 7/1936. Með vísan til þess sem að framan er rakið um gat stefndi ekki hafa haft réttmætar væntingar til þess við samningagerðina að hann þyrfti ekki að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt lánssamningunum myndu fjárfestingar hans í peningabréfum bankans ekki standast væntingar, og er þessari málsástæðu því hafnað.

            Stefndi byggir varakröfu sína um að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega á sömu málsástæðum og að framan eru raktar, auk óskráðra meginreglna samningaréttar um réttmætar væntingar, og því að samninga skuli halda og að lánssamningarnir séu óskuldbindandi vegna rangra forsendna, sbr. 1. mgr. 32. gr. laga nr. 7/1936. Af hálfu stefnda hafa ekki verið færð fram rök fyrir því að réttlætanlegt sé að hann geti vænst þess að krafa stefnanda verði lækkuð frekar en varð með endurútreikningum lánanna.

            Loks hefur, af hálfu stefnda, ekki verið sýnt fram á að forsendur hafi verið til þess á fyrra tímamarki en í mars 2017 að greiða andvirði peningabréfana inn á kröfuna.

Með vísan til þess og annars sem að framan er rakið hvað varðar aðalkröfu stefnda er varakröfu stefnda um lækkun á dómkröfu stefnanda hafnað og kröfur stefnanda teknar til greina, ásamt dráttarvöxtum, eins og nánar greinir í dómsorði.

Eftir þessa niðurstöðu og í samræmi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 1.800.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.

Dóm þennan kveður upp Sigríður Elsa Kjartansdóttir héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, X, greiði stefnanda, Landsbankanum hf., 128.439.804 krónur ásamt dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 113.713.361 krónu frá 9. janúar 2014 til 19. júní 2014 og af 128.439.804 krónum frá 19. júní 2014 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 1. mars 2017 að fjárhæð 72.129.786 krónur, sem dregst frá skuldinni miðað við stöðu hennar á innborgunardegi.

Stefndi greiði stefnanda 1.800.000 krónur í málskostnað.

 

Sigríður Elsa Kjartansdóttir