- Lánssamningur
- Viðurkenningardómur
- Önnur mál
D Ó M U R
Héraðsdóms Reykjavíkur 23. nóvember í máli nr. E-2657/2011:
Plastiðjan ehf.
(Einar Hugi Bjarnason hdl.)
gegn
SP-Fjármögnun hf.
(Helgi Sigurðsson hrl.)
Mál þetta, sem var upphaflega dómtekið 17. október en endurflutt 20. nóvember sl., var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu birtri 22. júní 2011. Stefnandi er Plastiðjan ehf., Gagnheiði 17 á Selfossi. Stefndi er SP-Fjármögnun hf., Sigtúni 42 í Reykjavík, en fyrir hönd þess félags er stefnt framkvæmdastjóra félagsins, Kjartani Georg Gunnarssyni, Hesthömrum 22 í Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær að viðurkennt verði með dómi að stefnda sé óheimilt, við endurútreikning lánssamnings málsaðila, nr. SBB019700, að krefja stefnanda um frekari greiðslur en þegar hafa verið inntar af hendi til stefnda vegna gjalddaganna frá og með 1. mars 2007 til og með 1. júní 2010.
Jafnframt krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda samtals 908.711 kr. með vöxtum samkvæmt 4. gr., sbr. 18. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 17.844 kr. frá 1. mars 2009 til 1. apríl sama ár, af 35.476 kr. frá þeim degi til 1. maí sama ár, af 65.981 kr. frá þeim degi til 1. júní sama ár, af 104.364 kr. frá þeim degi til 1. júlí sama ár, af 164.993 kr. frá þeim degi til 1. ágúst sama ár, af 229.026 kr. frá þeim degi til 1. september sama ár, af 292.499 kr. frá þeim degi til 1. október sama ár, af 356.101 kr. frá þeim degi til 1. nóvember sama ár, af 421.185 kr. frá þeim degi til 1. desember sama ár, af 486.129 kr. frá þeim degi til 1. janúar 2010, af 558.410 kr. frá þeim degi til 1. febrúar sama ár, af 629.678 kr. frá þeim degi til 1. mars sama ár, af 701.293 kr. frá þeim degi til 1. apríl sama ár, af 770.568 kr. frá þeim degi til 1. maí sama ár, af 838.194 kr. frá þeim degi til 1. júní sama ár, en af 908.711 kr. frá þeim degi til 27. júní 2011, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af allri fjárhæðinni frá þeim degi til greiðsludags.
Í öllum tilvikum krefst stefnandi þess að hið stefnda félag verði dæmt til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins eða samkvæmt fram lögðum málskostnaðarreikningi.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og greiðslu málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Upphafleg kröfugerð stefnanda er í átta liðum. Aðalkrafa stefnda laut að frávísun allra kröfuliða að frátöldum kröfulið 3. Með úrskurði kveðnum upp 8. maí 2012 var sex kröfuliðum vísað frá dómi. Kröfur stefnanda sem hér eru teknar til dóms eru kröfuliðir 2 og 3 í upphaflegri kröfugerð stefnanda.
Atvik máls
Hinn 29. janúar 2007 gerðu stefnandi og stefndi með sér samning vegna kaupa stefnanda á bifreiðinni Mercedes Benz M-lína, árgerð 2005, með fastanúmerið SZ-949. Í samningi aðila, sem ber fyrirsögnina Bílasamningur – kaupleiga er samningsverð bifreiðarinnar sagt vera 4.547.959 kr. og samningstími sagður vera til 1. febrúar 2014. Stefnandi skuldbatt sig til þess að greiða stefnda 4.547.959 kr. með 84 jöfnum mánaðarlegum greiðslum, í fyrsta skipti 1. mars 2007. Lánið var verðtryggt miðað við myntkörfu, sem sett var saman að jöfnu úr svissneskum frönkum og japönskum jenum, og vextir breytilegir miðaðir við LIBOR vexti auk fasts álags. Samningur þessi hefur tilvísunarnúmerið SBB019700.
Stefnandi greiddi afborganir af samningnum samkvæmt útsendum greiðsluseðlum frá stefnda frá fyrsta gjalddaga samningsins, 1. mars 2007, fram til gjalddagans 1. júní 2010. Þann 14. október 2008 var gerð skilmálabreyting á samningunum sem fól í sér að á tímabilinu 1. nóvember 2008 til 1. mars 2009 greiddi stefnandi einungis vexti á gjalddögum. Samningstími samningsins lengdist sem nam þessum fjórum vaxtagjalddögum og hófst greiðsla afborgana og vaxta á ný hinn 1. mars 2009.
Með dómum Hæstaréttar nr. 92/2010 og 153/2010 var litið svo á að eignaleigusamningar féllu undir útlán í skilningi laga nr. 38/2001 og sú útfærsla að erlendar myntir væru lánaðar samkvæmt samningi sem vísaði til íslenskrar fjárhæðar sem bundin væri gengi erlendra gjaldmiðla bryti gegn ákvæðum 13. og 14. gr. sömu laga. Óumdeilt er í málinu að samningur aðila felur í sér ákvæði um gengistryggingu sem er í andstöðu við lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu á grundvelli framangreindra fordæma Hæstaréttar.
Í kjölfar dóms Hæstaréttar þann 16. september 2010 í máli nr. 471/2010 endurreiknaði stefndi lán stefnanda. Þann 31. janúar 2011 sendi stefndi stefnanda bréf með yfirliti yfir stöðu lánsins eftir þann endurreikning. Þar segir að endurútreiknaður höfuðstóll lánsins sé 2.992.208 kr. en hafi verið 6.216.695 kr. fyrir dóma Hæstaréttar. Í yfirlitinu segir að staða lánsins, þ.e. höfuðstóll að viðbættum vöxtum frá síðasta útsenda gjalddaga til 31. janúar 2011, að fjárhæð 140.048 kr., og stöðu veltureiknings, að fjárhæð 43.433 kr., sé 3.175.689 kr. Á yfirliti yfir veltureikning sem fylgdi bréfi stefnda kemur fram safn gjalddaga út frá nýjum vaxtaforsendum og greiðslum frá skuldara. Í bréfinu segir að vangreiðslur sem og ofgreiðslur séu vaxtareiknaðar í samræmi við dóm Hæstaréttar í máli nr. 471/2010.
Stefnandi féllst ekki á framangreindan útreikning á stöðu lánsins og gerði stefnda grein fyrir þeirri afstöðu sinni í bréfi, dags. 27. maí 2011. Þar kemur m.a. fram að stefnandi telji að endurútreikningur stefnda byggi á röngum forsendum og sé andstæður lögum. Í fyrsta lagi sé ólögmætt að krefja stefnda um vangreiðslur og dráttarvexti vegna þegar greiddra gjalddaga og vísað til þess að stefndi hafi fyrirvaralaust tekið við greiðslum sem hafi verið í samræmi við skilmála lánsins. Að auki er gerð krafa um að stefndi endurgreiði stefnanda ofgreiðslur samkvæmt samningnum á umræddu tímabili.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir á því að stefnda sé óheimilt að krefja stefnanda um frekari greiðslur vegna þegar greiddra gjalddaga. Stefnandi hafi staðið skil á afborgunum og vöxtum lánsins miðað við umsamda skilmála. Því fái ekki staðist að krefja stefnanda um „vangreiðslur“ vegna gjalddaga sem þegar hafi verið greiddir vegna skuldbindinga sem búið sé að efna líkt og stefnandi gerir með því að færa ætlaðar vangreiðslur í fortíðinni inn á veltureikning sem mínustölu. Stefndi hafi fyrirvaralaust tekið við greiðslum frá stefnanda vegna þegar greiddra gjalddaga.
Ein af grunnreglum samningaréttar sé sú að gerðir samningar skuli standa. Allar undantekningar frá þessari meginreglu beri að skýra þröngri lögskýringu. Fyrir liggi að stefnandi greiddi afborganir samkvæmt útsendum greiðsluseðlum stefnanda á réttum gjalddögum allt frá 1. mars 2007 til og með 1. júní 2010. Greiðslurnar hafi stefnandi innt af hendi með millifærslum inn á reikning stefnda í gegnum netbanka sinn. Á því sé byggt, m.a. með vísan til nútíma viðskiptahátta, að greiðslukvittun úr heimabanka hafi sama gildi og hefðbundnar fullnaðarkvittanir, enda séu greiðslurnar í samræmi við útsenda greiðsluseðla stefnda. Fullnaðarkvittun sé staðfesting þess að kröfuhafi hafi móttekið greiðslu sem efndir á kröfu sinni og að kröfuhafi eigi því ekki frekari kröfur á hendur skuldara. Fyrirvaralaus fullnaðarkvittun vegna gjalddaga sem þegar hafi verið greiddir útiloki því frekari kröfur vegna sömu lögskipta.
Brostnar forsendur kröfuhafa fyrir útgáfu greiðsluseðla og/eða eftir atvikum fullnaðarkvittana geti engu breytt að mati stefnanda um uppgjör kröfuhafans á frekari kröfum. Sérstaklega eigi þetta við í því máli sem hér sé til umfjöllunar, þar sem stefnandi hafi greitt upp gefna skuld sína á réttum gjalddögum í góðri trú og hafi mátt treysta því að greiðsluseðlar sem stefndi sendi honum væru réttir. Auk þessa megi draga í efa að stefndi hafi í raun verið grandlaus um ólögmæti gengisviðmiðunar í samningi aðila.
Þá leiði reglur um viðskiptabréf til þess að stefnandi geti borið greiðslukvittanirnar fyrir sig gagnvart stefnda, sbr. 2. gr. tilskipunar frá 9. febrúar 1798 um áritun afborgana á skuldabréf. Framangreindar fullnaðarkvittanir útiloki því frekari kröfur á hendur stefnanda, enda bindi fullnaðarkvittun hendur málsaðila.
Hvergi í lögum nr. 151/2010, sem m.a. hafi breytt ákvæðum laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sé að finna heimild til að krefja lánþega um greiðslu fyrir þann tíma sem liðinn sé. Þvert á móti sé í lögunum að finna nokkuð ítarleg fyrirmæli um það hvernig kröfuhafa beri að endurgreiða lánþega fjárhæð sem höfð hafi verið af honum með ólögmætum hætti. Eðlilegt sé að gagnálykta frá lögunum á þann veg að þar sem lögfest hafi verið regla um hvernig kröfuhafa beri að endurgreiða lántakanda, en ekki öfugt, sé í raun bannað að krefja lántakanda um greiðslu fyrir liðinn tíma.
Með framangreindum rökstuðningi telur stefnandi það hafið yfir vafa að stefnda sé ekki heimilt að krefja stefnanda um greiðslur vegna liðins tíma vegna skuldbindinga sem þegar hafi verið efndar.
Síðari kröfuliður stefnanda er krafa um greiðslu úr hendi stefnda að fjárhæð 908.711 kr. auk vaxta og dráttarvaxta. Stefnandi reisir þessa kröfu sína á því að hann eigi rétt á því að stefndi endurgreiði sér þær ofgreiðslur sem hafi verið greiddar vegna lánssamnings aðila.
Þegar forsendur að baki endurútreikningi lánsins séu skoðaðar komi í ljós að beitt sé þeirri aðferð að greiðsluflæði lánsins sé endurreiknað út frá upphaflegum höfuðstól miðað við almenna óverðtryggða vexti Seðlabanka Íslands á hverjum tíma. Á hverjum gjalddaga sé endurreiknuð afborgun færð inn á svonefndan veltureikning. Á móti, til frádráttar, séu færðar á þennan sama veltureikning raunverulegar greiðslur á greiðsludegi. Séu greiðslur sem skuldari hafi innt af hendi hærri en endurreiknaðar fjárhæðir á gjalddaga eigi skuldari inneign hjá stefnda. Vangreiðslur stefnanda miðað við framangreindar forsendur séu með sama hætti færðar inn á veltureikninginn til frádráttar.
Stefnandi byggir á því að framangreind aðferð standist ekki skoðun. Ekki fái staðist að færa hinar svokölluðu vangreiðslur á veltureikninginn sem mínustölu, enda sé um að ræða greiðslur vegna þegar greiddra gjalddaga. Gefnar hafi verið út fyrirvaralausar fullnaðarkvittanir af hálfu stefnda vegna þessara greiðslna svo sem að framan sé rakið.
Öðru máli gegni hins vegar um ofgreiðslur af hálfu stefnanda. Þær eigi að renna til stefnanda. Um lagarök vísast til reglna kröfuréttarins um endurgreiðslu ofgreidds fjár og 18. gr. laga nr. 38/2001.
Líkt og ráða megi af skjali sem ber heitið Veltureikningur og fylgdi með endurútreikningnum hafi stefnandi ofgreitt stefnda afborganir af láninu frá og með 1. mars 2009 til og með 1. júní 2010. Ofgreiðslur stefnanda séu eftirfarandi frá og með 1. mars 2009.
Endurreiknaðir gjald-
Gjalddagi dagar m.v. seðlabankavexti Raungreiðslur stefnanda Ofgreiðslur
01.03.2009 102.714 120.558 17.844
01.04.2009 99.516 117.148 17.632
01.05.2009 99.413 129.918 30.505
01.06.2009 96.316 134.699 38.383
01.07.2009 74.070 134.699 60.629
01.08.2009 74.267 138.300 64.033
01.09.2009 74.467 137.940 63.473
01.10.2009 74.669 138.271 63.602
01.11.2009 74.874 139.958 65.084
01.12.2009 75.082 140.026 64.944
01.01.2010 71.192 143.473 72.281
01.02.2010 70.116 141.384 71.268
01.03.2010 70.411 142.026 71.615
01.04.2010 70.710 139.985 69.275
01.05.2010 71.012 138.638 67.626
01.06.2010 71.319 141.836 70.517
Samtals: kr. 1.270.148 kr. 2.178.859 kr. 908.711
Krafa stefnanda sé reist á mismun endurreiknaðra gjalddaga, frá 1. mars 2009 til og með 1. júní 2010, miðað við lægstu óverðtryggðu vexti Seðlabanka Íslands annars vegar og raungreiðslna stefnanda á sama tímabili hins vegar.
Áðurnefndar reglur kröfuréttarins um endurgreiðslu ofgreidds fjár leiði til þess að stefnandi eigi lögvarða kröfu á stefnda vegna nefndra ofgreiðslna á grundvelli samningsins. Meginreglan sé sú að greiðandi eigi rétt á endurgreiðslu, enda hafi greiðsla hans á þeim tíma sem hún hafi verið innt af hendi verið bundin þeirri forsendu að honum væri skylt að greiða. Í tilvikum sem þessum er endurkröfurétturinn hafinn yfir allan vafa.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi byggir sýknukröfu sínar á því að bílasamningur nr. SBB 019700 falli undir skilgreiningu 1. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001., sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 151/2010. Því eigi að endurreikna samning aðila samkvæmt þeim fyrirmælum sem komi fram í ákvæðinu. Stefndi hafi endurútreiknað samninginn í samræmi við framangreint ákvæði laga og gert grein fyrir þeim útreikningi í framlögðum dómsskjölum. Endurútreikningurinn sé miðaður við 31. janúar 2011, en síðasta greiðsla stefnanda hafi borist inn á samninginn 7. júní 2010. Útreikningarnir séu heldur hagstæðari stefnanda en ef fylgt væri fyrirmælum í 18. gr. vaxtalaga til fulls og muni þar 41.546 kr.
Stefndi vísar til þess að endurútreikningur hans sé í samræmi við þau fyrirmæli sem fram komi í dómi Hæstaréttar frá 16. september 2010 í máli nr. 471/2010 um hvaða vexti samningar, sem taldir séu gengistryggðir, skuli bera við endurútreikning og feli í sér hagstæðari niðurstöðu en þau fyrirmæli í ákvæði laga nr. 151/2010, þar sem fram komi með nákvæmum hætti hvernig skuli haga endurútreikningi og uppgjöri vegna slíkra lána. Á grundvelli sömu raka byggir stefndi á því að sjónarmið stefnanda sem liggja til grundvallar kröfum hans séu í ósamræmi við fyrrgreind lagaákvæði og dóm Hæstaréttar frá 16. september 2010 í máli nr. 471/2010.
Í framangreindu máli taldi Hæstiréttur að gengistryggðir bílasamningar, sem metnir hafi verið ógildir, væru að öllu leyti í íslenskum krónum og óháð tengingu við erlendar myntir sem gert hafði verið ráð fyrir í samningum. Dómurinn taldi að þar sem bein og órjúfanleg tengsl væru milli ákvæðis um gengistryggingu og fyrirmæla þar um vexti væri hvorki unnt að styðjast við þau fyrirmæli óbreytt eftir orðanna hljóðan, né gefa þeim með skýringu annað inntak. Hæstiréttur taldi því óhjákvæmilegt að ógildi ákvæðis um gengistryggingu leiddi til þess að líta yrði með öllu framhjá ákvæðum samningsins um vaxtahæð og að líta bæri svo á að atvik svari til þess að samið hafi verið um að greiða vexti af peningakröfu án þess að tiltaka hverjir þeir skyldu vera. Samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, skuli vextir þegar svo standi á vera á hverjum tíma jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveði með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir séu samkvæmt 10. gr. laganna. Engum vafa sé undirorpið að framangreindur dómur hafi fordæmisgildi um það hvernig eigi að endurreikna kröfu umdeilds lánasamnings.
Þann 28. desember 2010 hafi tekið gildi lög nr. 151/2010 um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu o.fl. Ákvæði 1. gr. laganna, sem orðið hafi að 18. gr. laga nr. 38/2001, hafi að geyma fyrirmæli um það með hvaða hætti endurreikna eigi þau lán sem falli undir gildissvið ákvæðisins, þ.e. ef samningsákvæði um vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar eða dráttarvexti teljist ógild eða ef samningur kveði á um verðtryggingu skuldar samhliða vaxtaákvæðum, og annað tveggja sé ógilt, sbr. 1. mgr. 18. gr. framangreindra laga., sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 151/2010. Krafa umrædds bílasamnings falli undir framangreinda skilgreiningu og því eigi að endurreikna kröfuna með ekki óhagstæðari hætti en fram komi í 18. gr. laganna.
Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 skuli endurútreikningurinn fara þannig fram að upphaflegur höfuðstóll lánsins, í íslenskum krónum, sé vaxtareiknaður miðað við vexti sem Seðlabanki Íslands ákveði með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum skv. 1. málsl. 4. gr. laganna og birti samkvæmt 10. gr. sömu laga. Vextir séu reiknaðir frá stofndegi peningakröfu, sbr. 3. mgr. 18. gr. laganna og skulu lagðir við höfuðstól einu ári eftir lántöku og síðan árlega, sbr. 12. gr. sömu laga. Frá þeirri fjárhæð dragist greiðslur, sem lántaki hafi innt af hendi (þ.e. afborganir af höfuðstól, vextir, dráttarvextir og vanskilaálögur), vaxtareiknaðar frá greiðsludegi til viðmiðunardags endurútreiknings miðað við sömu vexti, sbr. 5. mgr. 18. gr. laganna. Undanskilið séu tilkynningar- og greiðslugjald, samkvæmt gjaldskrá hverju sinni, enda hefði lántaki í öllum tilvikum þurft að greiða þann kostnað. Þannig útreiknuð fjárhæð myndi eftirstöðvar skuldarinnar, þ.e. höfuðstól lánsins í íslenskum krónum. Skulu þá upphaflegir eða síðar ákvarðaðir endurgreiðsluskilmálar gilda að því er varði lánstíma, gjalddaga og aðra tilhögun á greiðslu skuldarinnar, sbr. 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001. Í greinargerð með lögunum sé sýnt hvernig útreikningarnir eigi að fara fram.
Í samræmi við framangreint byggir stefndi á því að Hæstiréttur Íslands hafi, með uppkvaðningu dóms í máli nr. 471/2010, og Alþingi, með setningu laga nr. 151/2010, sett reglur sem hafi að geyma fyrirmæli um það hvernig breyta eigi efnislega lánasamningi milli aðila ef hann sé talinn fela í sér gengistryggingu. Að mati stefnda verði að telja að fyrirmæli framangreinds dóms Hæstaréttar og laga nr. 151/2010 gangi framar þeim lagaákvæðum sem stefnandi vísi til á grundvelli viðurkenndra lögskýringarreglna um að yngri lög gangi framar eldri. Áréttar stefndi að dómur Hæstaréttar í máli nr. 471/2010 hafi verið kveðinn upp 16. september 2010 og lög nr. 151/2010 hafi tekið gildi 28. desember 2010. Þetta mál hafi verið höfðað með birtingu stefnu þann 20. júní 2011, þ.e. eftir að framangreindur dómur féll og fyrrgreind lög voru sett.
Þau fyrirmæli um uppgjör sem fram komi í lögum nr. 38/2001, eins og þeim var hafi verið breytt með lögum nr. 151/2010, feli í sér ákveðna lágmarksvernd fyrir greiðanda. Ekkert sé því til fyrirstöðu að haga uppgjöri með þeim hætti að það tryggi greiðendum betri niðurstöðu. Slíkt uppgjörsfyrirkomulag geti falið í sér hagsmuni bæði fyrir stefnanda og stefnda. Stefndi hafi hag af því að uppgjör falli að þeim reiknireglum sem lagðar séu til grundvallar í tölvuforriti stefnda sem útbúið var áður en lög nr. 151/2010 tóku gildi. Stefnandi hafi hag af því að fá hagstæðari niðurstöðu en fyrirmæli vaxtalaga geri ráð fyrir. Stefndi byggir á því að þessi fyrirmæli tryggi ákveðna lágmarksvernd skuldara varðandi útreikninga á kröfum en komi ekki í veg fyrir að lánin séu reiknuð á hagstæðari máta en þar komi fram. Engin rök séu fyrir því að löggjafinn komi í veg fyrir slíka niðurstöðu. Hins vegar feli slík niðurstaða í sér að stefnandi geti ekki valið úr tilteknar forsendur í útreikningnum og krafist leiðréttingar á þeim en látið aðrar forsendur standa óhaggaðar.
Verði ekki fallist á þessi sjónarmið, byggir stefndi á því að endurreikningur kröfunnar eigi að miðast við fyrirmæli vaxtalaga sbr. 18. gr. eins og henni hafi verið breytt með lögum nr. 151/2010. Vextir séu þá reiknaðir frá stofndegi peningakröfu, sbr. 3. mgr. 18. gr. Frá þeirri fjárhæð dragist greiðslur, sem lántaki hafi innt af hendi (þ.e. afborganir af höfuðstól, vextir, dráttarvextir og vanskilaálögur), vaxtareiknaðar frá greiðsludegi til viðmiðunardags endurútreiknings miðað við sömu vexti, sbr. 5. mgr. 18. gr. laganna. Í greinargerð með lögunum sé sýnt hvernig útreikningarnir eigi að fara fram. Þar sé gert ráð fyrir að reiknaður sé nýr höfuðstóll við hverja innborgun. Innborgun fari þá fyrst til greiðslu vaxta og síðan inn á höfuðstól. Í framhaldi af því sé reiknaður nýr höfuðstóll sem beri vexti samkvæmt 4. gr. laganna.
Þá sé sýknukrafa byggð á hinum óskráðu réttarreglum um brostnar forsendur. Ákvæði 18. gr. laga nr. 38/2001 byggja á þeirri meginreglu sem fram komi í dómi Hæstaréttar nr. 471/2010 að órjúfanleg tengsl séu á milli verðtryggingar og vaxta sem hljóti að fylgjast að. Af því leiði að ef annaðhvort ákvæði samninga um vexti eða verðtryggingu (eða hvorutveggja) séu ógild á grundvelli laganna verði að koma til heildarendurskoðunar í samræmi við ákvæðin í 4. gr. þeirra, þ.e. að litið sé á aðstöðuna eins og ekki hafi verið samið um tiltekna vexti eða verðtryggingu. Stefnandi hafi vitað að þau vaxtakjör sem honum buðust hafi verið byggð á þeirri forsendu að hann tæki á sig þá áhættu að gengi þeirra gjaldmiðla, sem samningurinn byggði á, kynni að breytast til hækkunar. Óskráðar reglur um brostnar forsendur byggi á sanngirnisrökum. Skuld stefnanda fyrir endurútreikning hafi numið 6.216.695 kr., en eftir endurútreikninginn standi krafan í 2.992.208 kr. Á grundvelli umsóknar stefnanda um að fjármagna bifreiðarkaupin í erlendum myntum hafi stefndi sjálfur fengið lán sem hann verði að standa skil á í erlendum myntum. Hagsmunum stefnanda og stefnda vegna þessara viðskipta sé því mjög misskipt og halli verulega á stefnda. Gengisáhætta samningsins hafi verið óhjákvæmileg forsenda vaxtakjaranna og um það hafi stefnanda verið fullkunnugt. Yrðu kröfur stefnanda teknar til greina myndi það hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir stefnda sem fjármálafyrirtæki. Engin rök standi til þess, með tilliti til dóms Hæstaréttar í máli nr. 471/2010, að líta svo á að greiðsla á vaxtagjalddaga eða afborganir af lánasamningum sem inntar voru af hendi áður en ákvæði um gengisviðmiðun hafi verið talin ógild með fordæmisdómi, sbr. dóma Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010, geti talist „fullnaðargreiðsla“, ekki síst þegar horft sé til framangreindra órjúfanlegra tengsla milli gengisviðmiðunar og vaxtaákvörðunar, sbr. og títtnefndan dóm Hæstaréttar nr. 471/2010. Í þessu sambandi beri að leggja til grundvallar að vextir að þessu leyti teljist hafa verið lögbundnir í samningssambandi aðila allan þann lánstíma sem um ræðir enda hafi allar greiðslur vaxtagjalddaga í málinu farið fram eftir gildistöku laga nr. 38/2001, þ.m.t. tilvísaðra 4. og 3. gr. laganna. Að öðrum kosti væri ekki „með öllu litið framhjá ákvæðum samningsins um vaxtahæð“, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 471/2010.
Stefndi mótmælir því að ákvæði tilskipunar frá 9. febrúar 1789 um áritun afborgana á skuldabréf eigi við um bílasamninga þá sem deilt sé um í þessu máli. Bílasamningarnir séu ekki viðskiptabréf og falli því hvorki undir framangreinda tilskipun né aðrar viðskiptabréfareglur. Í bílasamningnum sé sérstaklega tekið fram að framsal skerði ekki að neinu leyti réttarstöðu stefnanda samkvæmt samningnum. Þá sé hugleiðingum stefnanda um grandsemi mótmælt sem röngum og þýðingarlausum. Loks sé mótmælt þeim röksemdum stefnanda að í lögum nr. 151/2010 sé hvergi að finna heimild til að krefja lánþega um greiðslu fyrir þann tíma sem liðinn sé. Stefndi vísar til þeirra sjónarmiða sem rakin eru hér að framan varðandi þá meginreglu sem lögin byggja á um órjúfanleg tengsl milli verðtryggingar og vaxta sem hljóti að fylgjast að, sbr. einnig umfjöllun um 3. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 þar sem fram komi að vexti eigi að reikna frá stofnkröfu og draga frá greiðslur sem inntar hafi verið af hendi. Þannig útreiknuð fjárhæð myndar eftirstöðvar skuldarinnar sbr. 5. mgr. 18. gr. sömu laga
Síðari kröfuliður stefnanda lúti að því að á sama tíma og stefnandi telji óheimilt við endurútreikning að taka tillit til þegar greiddra innborgana þegar raungreiðslur nemi lægri fjárhæðum en endurreiknaðir gjalddagar samkvæmt Seðlabankavöxtum, þá telji hann ekkert því til fyrirstöðu að taka tillit til innborgana þegar raungreiðslur nemi hærri fjárhæðum. Stefndi hafnar þessum röksemdum alfarið og vísar til umfjöllunar hér að framan því til stuðnings. Eins og tekið sé fram í greinargerð með lögum nr. 151/2000 sé sú breyting sem gerð hafi verið á 18. gr. laga nr. 38/2001, byggð á niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 471/2010. Í greinargerðinni sé vísað til þess að þegar ákvæði samninga um vexti og verðtryggingu séu ógild samkvæmt lögunum sé litið á þá aðstöðu eins og ekki hafi verið samið um tiltekna vexti eða verðtryggingu. Slíka vexti eigi að reikna frá stofndegi kröfu og draga innborganir frá endurútreikningnum eins og segi í 3. mgr. 18. gr. laganna Miða eigi við upphaflegan höfuðstól eins og fram komi í 5 mgr. 18. gr. Í greinargerð sé síðan tekið dæmi um með hvaða hætti framkvæmdin eigi að vera og þar sé miðað við að innborgunum sé fyrst ráðstafað til greiðslu vaxta og myndi síðan nýjan höfuðstól.
Þá byggir stefndi sýknukröfu sína á því að honum sé heimilt að leggja til grundvallar útreikningsaðferð sem felur í sér betri niðurstöðu en sú lágmarksvernd sem lögum nr. 38/2001, eins og þeim hafi verið breytt með lögum nr. 151/2010, sé ætlað að tryggja. Hins vegar leiði það til þess að ekki komi til greina að hreyfa við einstökum forsendum útreikninganna, á meðan þeir skili stefnanda betri niðurstöðu en fyrirmæli laganna. Stefndi sé hins vegar reiðubúinn að miða endurútreikning við fyrirmæli laga nr. 151/2010 og byggir sýknukröfu sína á þeim fyrirmælum. Niðurstaða þeirra útreikninga leiðir til þess að stefndi skuldi 3.178.556 kr. Stefndi styður sýknukröfu sína með því að ef stefnandi sé ekki tilbúinn til að sætta sig við þá útreikningsaðferð sem stefndi hafi lagt til grundvallar, þá verði hann að hlíta því að endurútreikningurinn fari fram samkvæmt þeim fyrirmælum sem fram komi í lögum nr. 151/2010.
Verði fallist á fjárkröfu stefnanda í síðari kröfulið gerir stefndi kröfu um að sú fjárhæð verði skuldajöfnuð við kröfu stefnda. Um heimild til að koma fram með skuldajafnaðarkröfu í greinargerð vísast til 1. mgr. 28. gr. einkamálalaga. Krafa stefnda á hendur stefnanda sé af sömu rót runnin og dómkröfur stefnanda í málinu og augljóst að um gagnkvæmar kröfur sé að ræða. Stefndi hafi haft bifreiðina til endurgjaldslausra afnota og hvorki tilkynnt um geymslugreiðslu, né lagt fram gögn sem sýni fram á slíkar greiðslur. Stefndi telur auk þess að skilyrði til að geymslugreiða hafi ekki verið fyrir hendi. Viðurkennt sé að ganga megi nokkru lengra í að heimila greiðslu með skuldajöfnuði jafnvel í þeim tilvikum þar sem ekki sé unnt að endurheimta kröfur með öðrum hætti. Í því sambandi megi vísa til þess að í 26. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda sé gerð sú undantekning frá því skilyrði skuldajafnaðar að krafan þurfi að vera gild, þegar um samrættar kröfur sé að ræða. Stefndi byggir á því að þessi sjónarmið sem lúti að skuldajöfnuði krafna sem séu af sömu rót runnar leiði til þess að kröfur sem hafi stofnast á samningstímanum verði nýttar til skuldajafnaðar óháð því hvort greiðsla hafi borist í samræmi við greiðsluseðla, ef sú greiðsla nægði ekki til að gera upp gjalddagann samkvæmt endurútreikningi.
Niðurstaða
Í máli þessu er deilt um útreikning á eftirstöðvum lánasamnings sem óumdeilt er að hafi falið í sér ógild ákvæði um gengistryggingu. Stefndi hefur í endurútreikningi sínum miðað við að lánið skuli bera vexti frá lántökudegi, jafnháa lægstu vöxtum á almennum óverðtryggum útlánum skv. 4. gr. sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001. Vísar hann til ákvæða 18. gr. þeirra laga, eins og henni var breytt með 1. gr. laga nr. 151/2010, og niðurstöðu Hæstaréttar í máli 471/2012. Stefnandi hefur frá upphafi mótmælt lögmæti þessa endurútreiknings og af því tilefni er mál þetta komið til úrlausnar dómstóla
Í fyrri lið kröfu stefnanda er krafist viðurkenningar á því að þær afborganir sem stefnandi innti af hendi á gjalddögum, samkvæmt greiðsluseðlum stefnda, feli í sér fullnaðargreiðslu af hans hálfu þannig að hann verði ekki krafinn um viðbótargreiðslur fyrir það tímabil. Krafan í þessum lið felur þannig í sér viðurkenningu á því að tilteknar reglur kröfuréttar setji því skorður hvernig stefndi geti reiknað út eftirstöðvar lánsins, óháð því hvort aðferð hans að öðru leyti fái staðist. Þær reglur sem stefnandi heldur fram að komi í veg fyrir þennan hluta af endurútreikningi stefnda eru annars vegar reglur um gildi fullnaðarkvittana í viðskiptum aðila fyrir liðna tíð og hins vegar reglur um áritun afborgana á skuldabréf og vísar stefnandi um síðara atriðið til 2. gr. tilskipunar frá 9. febrúar 1798. Eftir að mál þetta var höfðað hafa fallið tveir dómar í Hæstarétti sem reyna á fyrri málsástæðuna, þ.e. um gildi fullnaðarkvittana; annars vegar dómur í máli nr. 600/2011 frá 15. febrúar og hins vegar dómur í máli nr. 464/2012 frá 18. október sl. Stefnandi telur að niðurstaða þessara dóma styrki enn málatilbúnað hans hvað þennan kröfulið varðar en stefndi telur atvik málsins ekki vera sambærileg þeim sem lögð eru til grundvallar niðurstöðu í nefndum dómum. Reifuðu aðilar sjónarmið þar að lútandi við munnlegan málflutning.
Fyrir liggur að stefnandi greiddi 40 afborganir af 84 á rúmlega þriggja ára tímabili af láni sem upphaflega var til sjö ára. Í greiðsluyfirliti, sem stefnandi undirritaði samhliða lánasamningi, kemur fram að lánið ber að greiða með jöfnum afborgunum en hlutfall höfuðstóls og vaxta var breytilegt á lánstímanum. Endurútreikningur stefnda leiddi til lækkunar eftirstöðva lánsins. Ef á hinn bóginn er horft til endurútreiknings hvers gjalddaga fyrir sig sést að í sumum tilvikum telur stefndi að stefnandi hafi ofgreitt en í öðrum tilvikum að hann hafi vangreitt og færir vangreiðslur á einu tímabili til skuldar á móti ofgreiðslum á öðrum.
Í framangreindum dómum Hæstaréttar er fjallað um gildi fullnaðarkvittana í uppgjöri lánasamninga með ólögmætum gengisviðmiðum. Þar er vikið að meginreglu kröfuréttar um að kröfuhafi, sem hefur fengið minna greitt en hann átti rétt til, eigi kröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt er. Regla þessi sæti hins vegar undantekningum, m.a. þeirri að fullnaðarkvittun geti að vissum skilyrðum fullnægðum valdið því að kröfuhafi glati rétti til frekari greiðslna síðar. Niðurstaða beggja mála er á því byggð að skilyrðum fyrir beitingu reglunnar um gildi fullnaðarkvittana hafi verið fyrir hendi og því hafi kröfuhöfum ekki verið heimilt að krefja skuldara um viðbótargreiðslu vaxta fyrir það tímabil sem þeir höfðu þegar staðið skil á og móttekið fullnaðarkvittanir fyrir. Í forsendum dómanna er gerð nánari grein fyrir þeim skilyrðum sem rétturinn taldi vera fyrir hendi þannig að undantekningarreglan ætti við. Segir í niðurstöðu Hæstaréttar í máli 464/2012, að þótt ekkert þeirra skilyrða sem fjallað er um geti ráðið úrslitum eitt og sér, verði að líta svo á, þegar þau eru virt í heild, að það standi stefnda nær en áfrýjanda að bera þann vaxtamun, sem deilt er um í málinu og hlaust af hinni ólögmætu gengistryggingu. Verður með hliðsjón af framangreindum dómum Hæstaréttar að taka afstöðu til þess hvort atvik málsins séu með þeim sérstaka hætti að sömu sjónarmið eigi við hér um gildi fullnaðarkvittana stefnda vegna þegar greiddra gjalddaga.
Stefnandi fékk sendar fyrirvaralausar greiðslutilkynningar sem báðir aðilar gengu út frá að byggðu á lögmætum ákvæðum lánasamnings. Fullyrðingar í stefnu um grandsemi stefnda hafa ekki verið rökstuddar með haldbærum hætti. Stefnandi var því í góðri trú um að greiðslur hans fælu í sér fullar og réttar efndir kröfu og ekki er um það deilt að form greiðslukvittana, sem stefndi fékk með rafrænum hætti í gegnum heimabanka sinn, voru fullnaðarkvittanir hverrar afborgunar. Þá er augljós aðstöðumunur milli lánveitanda og lántakanda í umdeildum viðskiptum og ekki um það deilt að stefnandi er ekki sérfræðingur á sviði fjármála öfugt við stefnda sem aðallega fékkst við fjármögnun og lánastarfsemi.
Þá þarf að horfa til þess hvort krafa stefnda feli í sér umtalsverðar viðbótargreiðslur fyrir liðna tíð. Við mat á því hefur Hæstiréttur, í máli nr. 464/2010, litið til höfuðstóls lánsins, eins og hann hefði orðið miðað við greiðslur samkvæmt skilmálum lánasamningsins, án tillits til síðari gengisbreytinga eða vaxtagreiðslna og borið saman við höfuðstól lánsins eftir endurútreikning kröfuhafa. Mismunur þessa sé í reynd viðbótarkrafa um vexti fyrir liðna tíð. Í fyrrgreindum dómi nam þessi fjárhæð rúmlega 56 milljónum króna sem þótti umtalsverð fjárhæð með hliðsjón af upphaflegum höfuðstól kröfunnar sem var 200 milljónir króna. Í þessu máli nemur höfuðstóll skuldar stefnanda samkvæmt endurútreikningi stefnda 2.992.208 kr. Samkvæmt greiðsluyfirliti lánasamningsins, hefðu afborganir af höfuðstól, að óbreyttu gengi, átt að nema 2.009.067 kr. og höfuðstóll skuldarinnar því eftir 40 afborganir orðið 2.539.892 kr. Skilmálabreyting lánsins, sem gilti í stuttan tíma á árinu 2009, hefur lítils háttar áhrif á þessa fjárhæð til hækkunar þar sem afborganir af höfuðstól féllu niður í fjóra mánuði. Í raun höfðu því einungis 36 afborganir verið greiddar þann 1. júní 2010, og samkvæmt framangreindu greiðsluyfirliti var staða lánsins miðað við þann fjölda afborgana 2.752.877 kr. Að öðru leyti hefur skilmálabreytingin ekki áhrif á réttarstöðu aðila, enda var lánið áfram í skilum samkvæmt efni sínu með áorðnum breytingum sem leiddu af breyttum skilmálum. Endurútreikningurinn samkvæmt framangreindu viðmiði fól í sér viðbótarkröfu um vexti fyrir tímabil skilvísra greiðslna að fjárhæð 244.627 kr. Sú fjárhæð er hvorki umtalsverð í krónum talið né í samanburði við upphaflega lánsfjárhæð sem var liðlega 4.500.000 krónur. Loks er til þess að líta að lán stefnanda var til tiltölulega skamms tíma og um helmingur afborgana þegar greiddur við endurútreikninginn.
Við mat á því hvort framangreind atvik séu með þeim hætti, að þau girði fyrir rétt stefnda til viðbótargreiðslu, verður að hafa í huga að meginreglan er sú að kröfuhafi á rétt á viðbótargreiðslu fyrir liðna tíð þegar hann hefur fengið minna greitt en hann átti rétt til. Með vísan til almennra lögskýringarreglna verður að skýra undantekningu frá þeirri meginreglu þröngt. Þá er framangreind undantekningarregla um gildi fullnaðarkvittana reist á sjónarmiðum um öryggi í viðskiptum og því að skuldari megi treysta því að verða ekki óvænt fyrir því síðar að þurfa að standa skil á verulegum viðbótargreiðslum. Í dómum Hæstaréttar hefur gildi reglunnar verið látið velta á heildstæðu mati á atvikum hverju sinni. Við slíkt mat á atvikum máls verður ekki talið að atvik hér séu með þeim hætti að víkja beri frá meginreglunni. Þótt atvik séu metin heildstætt verður ekki fram hjá því litið að hækkunin á höfuðstól skuldar stefnanda sem leiðir af endurútreikningi stefnda getur ekki talist umtalsverð og verður ekki talið að hún leiði til verulegrar röskunar á fjárhagslegum hagsmunum stefnanda. Eins og hér háttar til koma reglur kröfuréttar um gildi fullnaðarkvittana því ekki í veg fyrir að stefndi geti krafið stefnanda um viðbótargreiðslur fyrir liðna tíð.
Þá er heldur ekki fallist á þá málsástæðu stefnanda að reglur um áritun afborgana á skuldabréf eigi við um lögskipti aðila þegar af þeirri ástæðu að bílasamningur sá sem um er deilt er ekki skuldabréf og uppfyllir ekki almenn skilyrði kröfuréttar um að geta talist annars konar viðskiptabréf, m.a. það að fela í sér einhliða yfirlýsingu um greiðslu peninga.
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er viðurkenningarkröfu stefnanda hafnað.
Í síðari kröfulið krefst stefnandi greiðslu að fjárhæð 908.711 kr. Stefnandi leggur endurútreikning stefnda til grundvallar kröfu sinni og samsvarar fjárhæðin mismun á raunverulegum greiðslum stefnanda og þeim greiðslum sem honum hefði borið að greiða á tímabilinu 1. mars 2009 til 1. júní 2010 miðað við vexti samkvæmt 4. gr. sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001. Á framangreindu tímabili voru raunverulegar greiðslur stefnanda hærri en greiðslur hefðu verið miðað við áðurgreindar vaxtaforsendur. Telur stefnandi að um ofgreiðslur sé að ræða á umræddu tímabili sem sér beri að fá endurgreiddar á grundvelli reglna kröfuréttar þar að lútandi og með vísan til 18. gr. laga nr. 38/2001.
Aðila greinir ekki á um að ákvæði umdeilds lánasamnings um gengistryggingu sé ógilt. Vegna tengsla gengistryggingar og vaxtahæðar verður að horfa með öllu framhjá ákvæðum samningsins um vaxtahæð. Með hliðsjón af niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 471/2010, sem hefur fordæmisgildi hér, verður að líta svo á að ákvæði samnings aðila um vexti, feli í sér að lánið beri vexti samkvæmt 4. gr. sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 frá upphafi lánstímans. Að framan hefur jafnframt verið komist að þeirri niðurstöðu að hvorki reglur um gildi fullnaðarkvittana né viðskiptabréfareglur breyti rétti aðila að þessu leyti. Þá er í 18. gr. nefndra laga að finna nánari útfærslu endurútreiknings lána sem talin eru að beri vexti í samræmi við ofangreint. Í 5. mgr. 18. gr. er kveðið á um að endurútreikningur leiði til breytinga á höfuðstól en skuldari, sem ofgreitt hefur lánið í heild á rétt á endurgreiðslu á grundvelli 6. mgr. greinarinnar. Samkvæmt framansögðu fær krafa stefnanda um endurgreiðslu fyrir afmarkað tímabil, þ.e. það tímabil þar sem endurútreikningur leiðir til lægri afborgana en nemur raungreiðslum stefnanda, án tillits til krafna stefnda vegna vangreiðslna fyrir önnur tímabil, ekki stoð í umræddu lagaákvæði svo sem stefnandi byggir á. Stefnandi hefur heldur ekki gert grein fyrir því hvaða ólögfestu reglur kröfuréttar um endurgreiðslu ofgreidds fjár geti stutt kröfu hans. Með þessum rökstuðningi ber að sýkna stefnda af kröfu stefnanda.
Rétt þykir, með hliðsjón af atvikum máls og vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.
Dóminn kveður upp Ingibjörg Þorsteinsdóttir, settur héraðsdómari.
Dómsorð:
Stefndi, SP-fjármögnun hf., er sýknaður af kröfu stefnanda.
Málskostnaður fellur niður.
Ingibjörg Þorsteinsdóttir