• Lykilorð:
  • Laun
  • Uppsagnarfrestur
  • Uppsögn
  • Vinnulaunamál

 

                                      D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 14. desember 2010 í máli nr. E-5574/2010:

                                               Sigríður Snædís Þorleifsdóttir

                                               (Halldór Oddsson hdl.)

                                               gegn

                                               Grand Hótel Reykjavík hf.

                                               (Álfheiður Mjöll Sívertsen hdl.)

 

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 2. desember sl., er höfðað 14. september 2010 af Sigríði Snædísi Þorleifsdóttur, Fannborg 3, Kópavogi, gegn Grand Hótel Reykjavík hf., Sigtúni 38, Reykjavík.

            Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 242.846 krónur, með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, af 1.216 krónum frá 1. október 2009 til 1. nóvember 2009, af 25.570 krónum frá 1. nóvember 2009 til 1. mars 2010, af 67.922 krónum frá 1. mars 2010 til 1. maí 2010 og af stefnufjárhæðinni frá 1. maí til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.

            Endanlegar dómkröfur stefnda eru þær aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnda verði dæmdur málskostnaður að mati réttarins. Til vara  krefst stefndi þess að stefnukrafan verði lækkuð verulega og málskostnaður verði felldur niður. 

 

                                                                     I.

            Stefnandi hóf störf hjá stefnda 5. september 2009 og var gerður með aðilum skriflegur ráðningarsamningur. Í ráðningarsamningi kemur fram að föst mánaðarlaun stefnanda eigi að vera 320.000 krónur og að yfirvinna umfram vaktaskyldu skuli greiðast með 2.238 krónum á klukkustund. Í samningnum segir einnig að vinnuskylda sé upp að 180 klukkustundum á mánuði. Með munnlegu samkomulagi aðila voru mánaðarlaun stefnanda hækkuð upp í 350.000 krónur frá og með 26. nóvember 2009.

            Stefnandi taldi sig ekki fá greitt samkvæmt ráðningarsamningi og kveðst hafa haft uppi um það munnlegar athugasemdir við nánustu yfirmenn sína. Hafi hún haft uppi ítrekaðar athugasemdir en ekki fengið svör. Stefnandi sagði upp störfum hjá stefnda með tölvupósti dagsettum 23. mars 2010. Í þeim pósti er rakið að ástæða uppsagnar sé að stefndi hafi ekki staðið við gerðan launalið ráðningarsamnings aðila. Stefnandi vann fullar vaktir í kjölfar uppsagnarinnar dagana 23., 26., 27. og 28. mars 2010, en í lok síðustu vaktarinnar kveðst hún hafa ákveðið í samráði við veitinga- og hótelstjóra stefnda að frekara vinnuframlag yrði ekki innt af hendi og ráðningarsambandi yrði slitið þá þegar.

            Í kjölfarið kveðst stefnandi hafa leitað til verkalýðsfélags síns, Matvís, og óskað atbeina þess við að innheimta vangreidd laun. Formaður Matvís hafi sent stefnda bréf 29. mars 2010 þar sem stefndi hafi verið krafinn um réttar efndir á ráðningarsamningi. Í kjölfarið hafi hótel- og veitingastjórar stefnda farið fram á fund með formanni Matvís þar sem gefnar hafi verið skýringar á launagreiðslum sem formanni Matvís hafi ekki þótt fullnægjandi til að réttlæta hin vangreiddu laun. Hafi lögmanni þá verið falið að innheimta launin og hann sent innheimtubréf til stefnda 12. maí 2010. Þann 14. maí 2010 hafi stefnandi vakið athygli lögmannsins á því að samkvæmt launaseðli dagsettum 3. maí 2010, sem átti að fela í sér lokauppgjör stefnda við stefnanda, hafi stefndi haldið eftir 90 orlofstímum sem stefnandi hafi unnið sér inn í samræmi við lög um orlof, nr. 30/1987. Hafi stefnda á ný verið sent innheimtubréf dagsett 17. maí 2010 þar sem krafist hafi verið greiðslu á 174.924 krónum eða sem nemi andvirði 90 orlofstíma stefnanda fyrir vinnuframlag hjá stefnda. Hafi lögmanni stefnanda borist svar stefnda 15. júlí 2010 þar sem öllum kröfum um efndir samkvæmt ráðningarsamningi hafi verið hafnað og jafnframt tilkynnt að orlofstímunum 90 hafi verið haldið eftir þar sem að stefndi hafi litið svo á að stefnandi hafi gerst sek um ólögmætt brotthlaup er hún hafi látið af störfum.

            Við aðalmeðferð málsins gáfu, auk stefnanda, skýrslu vitnin Ingólfur Einarsson aðstoðarhótelstjóri og Stefán Þór Arnarson fyrrverandi veitingastjóri. Ingólfur Einarsson kvaðst hafa átt samskipti við stefnanda á þeim tíma sem hún hafi starfað hjá stefnda. Í starfi hjá stefnda væri reynt að koma við sveigjanleika í starfi. Tæki það mið af því að álag á vinnustað væri mjög mismunandi og færi eftir tíma dags. Starfsfólk ætti jafnan kost á því að hætta fyrr suma daga gegn því að vinna þann tíma upp síðar. Það væri yfirmanns viðkomandi að veita slík leyfi. Vinnuskylda færi síðan eftir vaktaplani hverju sinni. Þannig hafi stefnandi átt að vinna samkvæmt því vaktaplani sem um hana hafi gilt. Stefnandi hafi hins vegar oft farið af vinnustað áður en vinnu hennar lauk. Það hafi Ingólfur séð eftir að stefnandi hafi hætt störfum. Hafi hann veitt því athygli að hún hafi hætt mun oftar fyrr í vinnunni heldur en aðrir samstarfsmenn hennar á vakt. Stefnandi hafi sagt upp störfum og látið Ingólf vita að hann myndi fá póst um það efni. Ekki hafi orðið til neitt samkomulag á milli Ingólfs og stefnanda af því tilefni. Ekki hafi hann veitt henni leyfi til þess að hætta þá þegar. Hafi það valdið óþægindum og tjóni fyrir stefnda. Við brotthvarf stefnanda hafi þurfti að kalla til annað starfsfólk til að vinna hennar vinnu.

            Stefán Þór kvaðst hafa verið veitingastjóri og yfirmaður stefnanda á þeim tíma er hún hafi starfað við hótelið. Er stefnandi hafi hætt störfum hafi hún sent Ingólfi Einarssyni aðstoðarhótelstjóra skriflega tilkynningu þar um. Stefán kvaðst ekki hafa heimilað stefnanda að hætta störfum fyrir lok uppsagnarfrests. Á þeim tíma sem stefnandi hafi hætt hafi verið mjög mikið að gera á hótelinu og komið sér illa fyrir starfsemina að stefnandi skyldi hætta fyrirvaralaust. Hafi þurft að kalla til starfsmenn á aukavöktum til að sinna störfum stefnanda, en starfsemin hafi aldrei verið það yfirmönnuð að ekki þyrfti að bregðast við ef starfsmann vantaði. Stefán kvaðst vera hættur störfum hjá stefnda og starfa sem hótelstjóri hjá Fosshóteli Vatnajökull. Sami eigandi væri að því hóteli og stefnda.

 

                                                                     II.

            Stefnandi byggir kröfur sínar um vangreidd laun stefnda í fyrsta lagi á því að ráðningarsamningur hafi ekki verið virtur samkvæmt efni sínu og í öðru lagi á því að stefndi hafi vanrækt þá skyldu sína að greiða út stóran hluta áunnins orlofs við starfslok. Að því er varði kröfu um vangreidd laun sé um að ræða kröfur vegna fjögurra launatímabila frá 26. hvers mánaðar til 25. þess næsta en gjalddagi hafi verið fyrsti virki dagur næsta mánaðar á eftir. Á launatímabilinu 26. september 2009 til 25. október sama ár, hafi stefnandi unnið í samræmi við vaktaskipulag og óskir yfirmanna sinna fyrir utan 5. október en þann dag hafi stefnandi fengið leyfi vegna flutninga og vaktin staðið yfir í einungis 0,82 klukkustund. Einnig hafi stefnandi fengið leyfi 13. október. Í báðum tilfellum hafi verið um að ræða launalaust leyfi í 15,52 klukkustundir, sem átt hafi að koma til frádráttar heildarlaunum stefnanda sem voru á þessum tíma 320.000 krónur. Föst mánaðarlaun stefnanda hafi miðast við að inn í þeim gætu falist 180 klukkustunda vinnuskylda. Eins og tímaskýrsla fyrir launatímabilið beri með sér hafi stefnandi tekið sér launalaust leyfi í 15,52 klukkustundir og sé eðlilegt við útreikning launa að þessir tímar komi til frádráttar þeim 180 klukkustundum sem stefnanda hafi borið skylda til að vera tilbúin að vinna væri þess óskað til að fá sín föstu mánaðarlaun. Sé það mat stefnanda að hún hafi átt að fá 91,38% af föstu mánaðarlaunum sínum fyrir þetta launatímabil eða 292.416 krónur. Samkvæmt launaseðli hafi stefnandi hins vegar aðeins fengið 291.200 krónur í laun og sé mismunurinn því 1.216 krónur.

            Á launatímabilinu 26. október til 25. nóvember sama ár, hafi stefnandi unnið í samræmi við vaktaskipulag og óskir yfirmanna sinna fyrir utan það að 25. nóvember hafi hún fengið leyfi vegna andláts fósturföður og vaktin aðeins staðið yfir í 1,35 klukkustund. Hafi því verið um að ræða launalaust leyfi í 6,82 klukkustundir, sem átt hafi að koma til frádráttar heildarlaunum stefnanda sem eins og áður sagði voru á þessum tíma 320.000 krónur með allt að 180 tíma vinnuskyldu. Miðað sé við að hið launalausa leyfi í 6,82 klukkustundir komi til frádráttar þeim 180 klukkustundum sem stefnanda hafi borið skylda til að vera tilbúin að vinna. Sé það mat stefnanda að hún hafi átt að fá 96,21% af föstu mánaðarlaunum sínum fyrir þetta launatímabil, eða 307.876 krónur. Samkvæmt launaseðli hafi stefnandi hins vegar aðeins fengið 283.520 krónur í laun og sé mismunurinn því 24.356 krónur.

            Hvað varði ofangreinda kröfuliði greini aðila á um túlkun á orðalagi ráðningarsamnings. Ráðningarsamnings sem stefndi hafi samið einhliða og hljóti hann að þurfa að bera hallann af því með vísan í andskýringarreglu samningaréttar. Í grunninn megi segja að útreikningur launa í hefðbundnum ráðningarsamningum geti verið tvenns konar. Annars vegar sé kveðið á um fasta eingreiðslu launa sem miðist við ákveðið hámarks og lágmarks vinnuframlag. Hins vegar, það sem algengara sé, séu svokallaðir tímakaupssamningar. Þá sé aðeins samið um laun fyrir unnin tíma þó svo að oft sé einnig kveðið á um hver hefðbundinn vinnutími sé. Starfsmaður fái því laun greidd í nákvæmu samræmi við vinnuframlag þegar um slíka samninga sé að ræða. Í því máli sem hér um ræði sé um fastlaunasamning að ræða. Samninginn túlki stefnandi svo út frá orðalagi hans þar sem kveðið sé á um föst mánaðarlaun með þeim öryggisventli þó að hámarksfjöldi unninna stunda miði við umsamin mánaðarlaun 180 stundir. Samkvæmt efni samningsins skuldbindi stefnandi sig til að sinna þeirri vinnu sem stefndi óski á mánaðartímabili að hámarki 180 tímum til að fá umsamið endurgjald. Óski stefnandi eftir fríi eða einhverju slíku á vakt sé eðlilegt að það komi til frádráttar launum. Hins vegar sé ekki eðlilegt að stefndi túlki fastlaunasamning sem tímakaupssamning eins og hann virðist gera með því að telja saman unna tíma sem hægt sé að svo að brjóta niður í hundraðshluta. Hafi aðilar ætlað að semja um slíkt sé bersýnilegt að tímakaupssamningur hafi hentað betur en fastlaunasamningur. Af tímaseðlum sjáist líka að sveigjanleikinn sem sé kostur fastlaunasamninga hafi verið til staðar enda hafi stefnandi oft unnið lengur en þá 8,17 tíma sem henni hafi borið. Útgangspunkturinn sé að stefnandi hafi verið til taks í þær 180 klukkustundir sem henni hafi borið til að fá umsamda fastlaunagreiðslu. Þegar hún hafi óskað eftir leyfi hafi henni borið að draga þá tíma frá. Sumar vaktirnar hafi verið 8,17 klukkustundirnar ekki alveg fullkláraðar en stefnandi hafi aldrei farið í leyfisleysi heldur ávallt með samþykki sinna samstarfsmanna og nánasta yfirmanns, enda kostur fastlaunasamnings að launamaður njóti góðs af því að vinna hratt án þess að fá lægri laun eins og við eigi ef starfsmaður fái greidd laun á tíma.

            Krafa vegna vangreiddra launa fyrir launatímabilið 26. janúar 2010 til 25. febrúar sama ár, til greiðslu 1. mars sama ár, sé byggð á því að stefndi hafi vanrækt að greiða laun samkvæmt ráðningarsamningi þar sem að breytingar á vaktafyrirkomulagi af frumkvæði stefnda hafi verið látið bitna á launagreiðslum til stefnanda. Í byrjun árs 2010 hafi stefndi óskað eftir því við stefnanda að hún myndi breyta vaktafyrirkomulaginu sínu á þann hátt að unnar yrðu 12 klukkustunda vaktir í stað 8,17 klukkustunda, þar sem stefndi hafi misst þjón sem vanalega hafi unnið þá vakt. Vegna vaktaskiptanna hafi stefnandi verið í vaktafríi 15. og 16. febrúar sem hún, samkvæmt fyrri vaktaskrá, hafi átt að vinna. Hafi þetta leitt til þess að vaktafrí hennar hafi staðið yfir frá 12. febrúar til 16. febrúar eða tveimur dögum lengra en það hefði ella gert. Stefnandi telji óeðlilegt að þessir dagar séu dregnir af launum hennar, enda hafi hún unnið samkvæmt óskum og beiðni stefnda allan þennan mánuð. Stefnandi, í samræmi við hlýðniskyldu, hafi orðið við óskum stefnda um breytt vaktafyrirkomulag og sé óeðlilegt að föst mánaðarlaun hennar samkvæmt ráðningarsamningi séu skert vegna þessa. Hvað varði þennan lið kröfunnar vísi stefnandi aftur til ofangreindra raka um að samningsaðilar geri vanalega með sér fastlaunasamning með það hagræði í huga að það fyrirkomulag veiti aðilum sveigjanleika sem virki í báðar áttir. Halli á annan hvorn aðilann sé eðlilegra að það sé á vinnuveitandann, stefnda í þessu máli, með vísan í hlýðniskyldu starfsmanna og þá yfirburðarstöðu sem vinnuveitandi hafi gagnvart starfsmönnum sínum sem séu honum háðir. Það skýringarsjónarmið eigi sérstaklega vel við nú þar sem að framboð af vinnuafli sé mun meira en eftirspurn.

            Varðandi kröfu um vangreitt orlof samkvæmt lögum nr. 20/1987, til greiðslu 1. maí 2010, þá segi í svarbréfi stefnda 15. júní 2010 að stefndi telji sig vera í rétti að halda eftir 174.924 krónum af áunnum orlofstímum stefnanda, eða sem nemi andvirði 90 orlofstíma. Sé þetta rökstutt þannig að stefnandi sé skaðabótaskyld sem nemi andvirði hálfra launa sinna í uppsagnarfresti þar sem hún hafi gerst sek um ólögmætt brotthlaup. Stefndi telji þessa reglu mega leiða af dómafordæmum og hjúalögum nr. 28/1922. Stefnandi byggi þennan lið kröfu sinnar í fyrst lagi á því að starfslok hennar eigi ekki að leggja að jöfnu við ólögmætt brotthlaup enda hafi hún og yfirmaður hennar verið sammála um að frekara vinnuframlag af hennar hálfu yrði ekki innt af hendi og að sama skapi yrðu ekki gerðar kröfur um laun í uppsagnarfresti. Launadeila aðila málsins hafi verið búin að standa yfir um nokkurt skeið og stefndi ekki orðið við ítrekuðum óskum stefnanda um leiðréttingu samkvæmt orðalagi ráðningarsamnings. Hafði hún ítrekað látið þetta í ljós við sína nánustu yfirmenn sem að lokum hafi talið að best væri ef hún mætti ekki aftur til vinnu eftir uppsögn í ljósi þess að hún teldi að um verulega vanefnd á ráðningarsamningi væri að ræða. Hvort sem að dómurinn telji framangreinda kröfu verulega vanefnd á ráðningarsamningi og skilyrði riftunar til staðar eða ekki, skipti það ekki máli þar sem hennar nánasti yfirmaður hafi samþykkt að ráðningarsambandi aðila yrði slitið þegar í stað.

            Stefnandi telji óumdeilt að greiðsluskylda á áunnu orlofi sé til staðar. Stefnandi telji að hin dómstólamyndaða regla sem til hafi orðið með dómi Hæstaréttar Íslands á blaðsíðu 625 í dómasafni réttarins á árinu 1958 fari gegn viðurkenndri aðferðarfræði lögskýringarfræði um svokallaða lögjöfnun. Í fræðiritum á sviði lögskýringarfræði sé talið að þrjú skilyrði verði að vera uppfyllt svo að lögjöfnun sé tæk. Í fyrsta lagi verði að vera ljóst að ekki verði leyst úr umræddu tilviki á grundvelli annarra réttarheimilda. Ljóst þyki að almennar reglur samninga- og skaðabótaréttar leysa úr tilvikinu, þ.e. hafi brotthlaup stefnanda valdið stefnda tjóni verði hann að sýna fram á það tjón með sannanlegum hætti. Í öðru lagi verði tilvikið að teljast eðlislíkt eða samkynja þeim tilvikum sem falli undir þá efnisreglu sem leidd verði af ákvæðinu. Bersýnilegt sé að hin úreltu hjúalög séu reist á forsendum sem eiga vart lengur við um íslenskt samfélag. Eins sé gildissvið þeirra afmarkað við ákveðinn aldur og vinnutíma sem hafi helgast af þáverandi samfélagsmynd. Það tilvik sem hér um ræði sé að mati stefnanda eðlisólíkt þeim tilvikum sem hjúalögum hafi verið ætlað að ná til. Ljóst sé að nefnd regla hjúalaga sé sérregla sem eigi við um hið sérstaka eðli hjús við vinnuveitanda sinn sem sé undantekningarregla frá meginreglum samninga- og skaðabótaréttar um að tjón verði að vera sannanlegt. Um hlutlægar bótareglur í settum lögum sé ávallt kveðið sérstaklega og skýrlega á um, enda frávik frá nefndum meginreglum um tjón. Í þriðja lagi sé talið að ekki megi standa mikilvæg lagarök eða meginreglur til þess að um tilvikið sé fjallað í öðrum réttarheimildum. Að mati stefnanda sé nefnt dómafordæmi reist á röngum forsendum og með aðferðarfræði sem samrýmist ekki íslenskum lögskýringarfræðum og því kominn tími til að leiðrétting verði þar á.

            Um greiðsluskyldu vísar stefnandi til meginreglunnar um skuldbindingargildi samninga og meginreglunnar um skuldbindingargildi kjarasamninga aðila vinnumarkaðarins, samanber 7. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur og 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Jafnframt er vísað til kjarasamnings Matvís og Samtaka atvinnulífsins frá 17. febrúar 2008 og laga nr. 28/1930 um greiðslu verkkaups, aðallega 1. gr. Krafa um greiðslur fyrir áunnið orlof styðst við lög nr. 30/1987 um orlof og krafa um dráttarvexti vísar til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Málskostnaðarkröfu sína byggir stefnandi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

                                                                     III.

            Stefndi kveðst byggja sýknukröfu sína á því að kröfur stefnanda hafi hvorki stoð í lögum, kjarasamningi, ráðningarsamningi eða dómafordæmum. Stefnandi hafi fengið laun greidd í samræmi við ráðningarsamning og kjarasamning og réttmætt hafi verið að halda eftir hluta orlofs vegna skaðabóta tilkominna vegna brotthlaups stefnanda úr starfi hjá stefnda. Í stefnu haldi stefnandi því fram að hún hafi ákveðið í samráði við veitinga- og hótelstjóra stefnda að frekara vinnuframlag yrði ekki innt af hendi og ráðningarsambandi slitið þá þegar í góðu án þess að aðilar ættu kröfu á hendur hvors annars. Í ljósi þeirrar yfirlýsingar komi á óvart að stefnandi haldi úti tilhæfulausri kröfu á hendur fyrrum vinnuveitanda sínum um vangreidd laun. Stefnandi hafi samkvæmt ráðningarsamningi verið ráðin í fullt starf við framreiðslu. Samkvæmt gr. 2.1.1. í kjarasamningi Matvís við Samtök atvinnulífsins vegna framreiðslumanna sé dagvinna 40 klukkustundir á viku. Fullt starf miðist því við 40 klukkustundir að meðaltali á viku eða 173,33 klukkustundir að meðaltali á mánuði. Stefnandi hafi verið ráðin til vaktavinnu og vinnuskipulagið því í samræmi við gr. 2.4 í kjarasamningi Matvís við Samtök atvinnulífsins með þeim frávikum sem ráðningarsamningur kveði á um.  Innifalið í launum stefnda hafi einnig verið 6 til 7 yfirvinnutímar á mánuði samkvæmt ráðningar­samningi ef vinna samkvæmt vaktaskrá stefnanda myndi hljóða upp á fleiri en 173,33 klukkustundir á mánuði. Hafi það þó verið afar fátítt á starfstíma stefnanda hjá stefnda. Fullt starf stefnanda hafi verið reiknað út frá mánaðarlegri vinnuskyldu hvers mánaðar samkvæmt vaktaskrá eins og fram komi í gögnum málsins, en þó aldrei hærra en 180 klukkustundir á mánuði. Stefnanda hafi því borið að skila fullu vinnuframlagi í samræmi við þann tímafjölda sem gefinn hafi verið upp í vaktaskrá til að eiga rétt til fullra launa. Í þeim tilvikum sem hún hafi unnið styttri vaktir að eigin ósk, hafi starfshlutfall verið lækkað sem því nam. Starf í framreiðslu hjá stefnda sé ekki þess eðlis að hægt sé að fara fyrr úr vinnutíma með því að vinna af sér verkefni og halda fullri greiðslu fyrir vaktina, sérstaklega þegar aðrir framreiðslumenn standi sína vakt að fullu.

            Varðandi launatímabilið 26. september til 25. október 2009 telji stefndi að samkvæmt vaktaskrá hafi stefnandi átt að vinna 8,17 klukkustunda vaktir sem hafi verið settar upp sem vinna í 6 daga samfleytt og 3ja daga frí í kjölfarið. Stefnandi hafi tekið sér frí í rúmlega 7 klukkustundir 5. október og annan frídag 13. október eins og greint sé í stefnu. Þar að auki hafi stefnandi farið nokkra daga úr vinnu áður en vinnuskyldu hennar hafi lokið. Samkvæmt gögnum málsins hafi hún til að mynda unnið 6,48 klukkustundir 28. september, 7,63 klukkustundir 7. október og 5,92 klukkustundir 25. október. Á launatímabilinu 26. september til 25. október 2009 hafi stefnandi átt að vinna 21 vakt sem hver hafi verið 8,17 klukkustund. Samtals hafi hún því átt að skila 171,57 klukkustund yfir tímabilið til að fá full laun. Hún hafi hins vegar skilað 156,48 klukkustundum eða 91,20% vinnuhlutfalli. Samkvæmt launaseðli hafi hún fengið greitt 0,91 mánaðalaun, en launakerfið taki aðeins 2 aukastafi.

            Á yfirliti komi fram að í nóvember og desember 2009, auk janúar og febrúar 2010 hafi starfshlutfall stefnanda verið hækkað miðað við raunverulegt vinnuframlag, samanber yfirlit yfir febrúar þar sem stefnandi hafi unnið aðeins 88% mánaðarins en fengið greidd 100% mánaðalauna. Í mars 2010 hafi stefnandi fengið greidda yfirvinnu umfram vinnuskyldu samkvæmt vaktaskrá, þó svo að 180 klukkustundum hafi ekki verið náð. Stefndi telji því að stefnanda hafi verið bættur sá mismunur sem 0,002 hlutfall mánaðalauna hafi falið í sér sé miðað við útreikning stefnanda í stefnu, 0,0038 hlutfall mánaðalauna. Þá bendi stefndi á varðandi launatímabilið 26. október til 25. nóvember 2009 að stefnandi hafi skilaði samtals 137,56 unnum tímum. Vinnuskylda samkvæmt vaktaskrá hafi verið 19 vaktir, hver þeirra 8,17 klukkustund eða samtals 155,23 klukkustundir. Hlutfall unnins tíma á móti vinnuskyldu sé því 88,62%. Samkvæmt vinnuyfirliti stefnanda hafi stefnandi aðeins unnið 2,5 klukkustund 1. nóvember, þó svo að vaktin hafi verið 8,17 klukkustundir. Stefnandi hafi einungis skilað 5,13 klukkustundum í vinnu 10. nóvember og 1,35 klukkustundum í vinnu 25. nóvember. Greidd laun hafi því verið í samræmi við unna vinnu. Þar sem stefnandi hafi ekki skilað fullu starfi þennan mánuð og það að eigin ósk, hafi stefnandi fengið greitt í samræmi við unninn tíma.

            Þá vilji stefndi benda á að stefnandi hafði látið í ljós áhuga á því að vinna frekar 12 klukkustunda vaktir en 8,17 klukkustunda vaktir en framan af starfstíma hennar hafi verið fullmannað á 12 klukkustunda vöktum. Þegar staða hafi losnað í upphafi árs 2010 hafi stefnanda verið boðið að skipta og hún þegið það. Hafi þar verið komið á móts við óskir stefnanda. Það sé því ekki rétt sem komi fram í stefnu að stefndi hafi óskað eftir að stefnandi breytti vaktafyrirkomulagi sínu. Á þessu tímabili hafi stefnandi því unnið 12 klukkustunda vaktir samkvæmt fastákveðinni vaktasyrpu. Vinnuskrá hennar hafi verið með neðangreindum hætti:

                                                  Fyrri vika                  Seinni vika

Mánudagur:             12 klst. vinna                   Frí                   

Þriðjudagur:             12 klst. vinna                   Frí

Miðvikudagur:         Frí                                    12 klst. vinna

Fimmtudagur:          Frí                                    12 klst. vinna

Föstudagur:             12 klst. vinna                   Frí

Laugardagur:           12 klst. vinna                   Frí

Sunnudagur:            12 klst. vinna                   Frí

 

            Á tímabilinu 26. janúar til 25. febrúar hafi fjöldi vakta stefnanda miðað við þessa uppsetningu vaktanna verið samtals 16 vaktir eða 192 klst. Mánudaginn 15. febrúar hafi stefnandi hins vegar skipt um vaktadaga og unnið þá daga sem hún hafi annars verið í fríi. Við það hafi myndast 5 daga frí í stað 3ja daga á tímabilinu 12. til 16. febrúar og vantað þá 2 vaktir (12 klukkustund hvor) á vinnu hennar það tímabil. Stefndi hafi þó ekki viljað draga af henni vegna þess og við útreikning starfshlutfalls þann mánuð hafi verið miðað við að full vinnuskil væru 14 vaktir eða 168 klukkustunda vinnu (14*12=168), eins og endanleg vinnuskrá hennar hafi verið fyrir mánuðinn. Það sé því ekki rétt sem komi fram í stefnu að viðbótar vaktafrí sem stefnandi hafi fengið vegna vaktaskiptanna hafi verið dregið af henni. Stefnandi hafi þó aðeins unnið 147,69 klukkustundir þann mánuð. Við skoðun vinnuyfirlits fyrir þetta tímabil sjáist að stefnandi hafi ítrekað farið úr vinnu áður en vinnuskyldu hennar hafi verið lokið en í nokkrum tilvikum hafi hún aðeins skilað 8 klukkustunda vinnu af 12 klukkustunda vakt. Samkvæmt ráðningarsamningi hafi hún verið ráðin í fullt starf en fullt starf á tímabilinu 26. janúar til 25. febrúar hafi verið samtals 168 klukkustundir og hafi verið við það miðað. Á ofangreindum tímabilum hafi stefnandi ekki skilað fullu vinnuframlagi í samræmi við ráðningarsamning. Í þeim tilvikum sem hún hafi fengið leyfi til að fara af vinnustað fyrir lok vaktar að eigin ósk hafi verið um leyfi frá störfum að ræða sem ekki sé greitt fyrir nema samkomulag sé um úttekt orlofs. Slíkt samkomulag hafi ekki verið fyrir hendi og því greitt fyrir unninn tíma, auk þess tíma sem greiðsluskyldur séu samkvæmt kjarasamningi, svo sem vegna veikinda, enda næg verkefni til staðar svo hún gæti uppfyllt vinnuskyldu sína að fullu.

            Varðandi brotthlaup stefnanda úr starfi komi fram að stefnandi hafi sagt upp störfum hjá stefnda 23. mars 2010 með tölvupósti til síns yfirmanns. Í tölvupóstinum segi stefnandi að uppsögnin taki gildi tafarlaust. Hún hafi þó unnið næstu 3 vaktir, 26., 27. og 28. mars. Hins vegar hafi hún ekki mætt á vaktina 31. mars né á nokkra vakt samkvæmt vaktaskrá sinni í apríl. Uppsagnarfrestur stefnanda hafi verið einn mánuður samkvæmt kjarasamningi Matvís við Samtök atvinnulífsins vegna framreiðslumanna. Á tímabilinu frá 31. mars til 30. apríl 2010 hafi stefnandi átt að vinna samtals 16 vaktir eða 192 klukkustundir samkvæmt vaktaskrá. Stefnandi hafi ekki fengið heimild yfirmanna sinna til að hætta störfum fyrir lok uppsagnarfrests. Þvert á móti hafi verið mikið óhagræði af því að stefnandi hætti störfum fyrirvaralaust því kalla hafi þurft út aukavaktir með tilheyrandi óþægindum og kostnaði. Stefnandi hafi fyrirvaralaust hætt störfum í mars 2010. Ekkert í ráðningarsambandi aðila hafi heimilað stefnanda að rifta ráðningarsamningnum fyrirvaralaust. Stefnandi sé því bótaskyld fyrir því tjóni sem ólögmætt brotthlaupi úr starfi hafi valdið með hliðsjón af ákvæðum 25. gr. hjúalaga nr. 22/1928, samanber dóma Hæstaréttar Íslands í málunum nr. 99/1975 og nr. 157/1977 og fjölmörgum héraðsdómum. Bótaréttur atvinnurekanda séu meðalhófsbætur og nemi samkvæmt dómafordæmum að lágmarki helmingi af launum launamanns á uppsagnarfresti. Bætur séu því ½ af launum sem hefðu verið greidd fyrir tímabilið 31. mars til 30. apríl 2010 ef stefnandi hefði unnið þann tíma, eða 96 klukkustundir miðað við vaktaskrá. Stefnda sé heimilt að skuldajafna þessari skaðabótakröfu sinni við áunnið orlof stefnanda. Skaðabótakrafa stefnda sé sprottin af ólögmætri riftun stefnanda á vinnusamningi sínum við stefnda. Þegar svo standi á banni lög nr. 28/1930 ekki að vinnulaunum sé skuldajafnað. Þar sem stefnandi hafi ekki virt kjarasamningsbundna skyldu sína til að vinna út uppsagnarfrest sinn hafi stefndi haldið eftir 90 klukkustundum af orlofi stefnanda í skaðabætur vegna brotthlaups við næstu útborgun launa 3. maí 2010, í samræmi við ofangreinda reglu.

            Kröfu um málskostnað styður stefndi við 130. og 131. gr. laga nr. 91/1991.

 

                                                                     IV.

            Ágreiningur aðila málsins lýtur annars vegar að útreikningi á launum stefnanda fyrir tiltekin launatímabil og hins vegar heimild stefnda til skuldajafna orlofi stefnanda við skaðabótakröfu stefnda á hendur stefnanda í tilefni af því að stefnandi hætti störfum án þess að vinna uppsagnarfrest. Stefndi telur það jafngilda ólögmætu brotthlaupi úr starfi sem varði stefnanda skaðabótum.

            Á dskj. nr. 2 liggur fyrir í skjölum málsins ,,Starfssamningur“, sem er samningur sem aðilar málsins gerðu með sér þegar stefnandi var ráðin í starf hjá stefnda. Samningurinn er undirritaður 2. september 2009 og rita undir hann stefnandi og Stefán Þór Arnarson fh. stefnda. Í samningnum er tekið fram að stefnandi sé ráðin í fullt starf frá 5. september 2009. Vaktir séu 8,17 tímar, unnið sé til skiptis frá 8.00 til 16.00 eða frá 15.50 til 24.00 samkvæmt vaktaskrá og sé vinnuskylda upp að 180 klukkustundum á mánuði. Komi stefnandi til vinnu utan hefðbundinnar vaktaskyldu skuli greiða yfirvinnu fyrir það. Stefnandi skuli stimpla sig inn þegar hún sé komin í vinnubúning og stimpla sig út áður en hún fari úr honum. Vinnulaun séu 320.000 krónur, sem séu föst mánaðarlaun. Yfirvinna umfram vaktir skuli greiðast með 2.238 krónum á klukkustundu. Launaliðir skuli fylgja almennum launabreytingum samkvæmt kjarasamningum Matvís. Réttindi og skyldur skuli fylgja sama samningi. Frí séu háð samþykki yfirmanns. Aðilar málsins eru sammála um að með munnlegu samkomulagi aðila hafi vinnulaun stefnanda verið hækkuð í 350.000 krónur á mánuði frá og með 26. nóvember 2009. Á dskj. nr. 3 eru launaseðlar stefnanda m.a fyrir þau launatímabil sem deilt er um í málinu. Við hvern launaseðil er fest vinnuyfirlit sem er grundvallað á því hvenær stefnandi hefur stimplað sig inn og út úr vinnu hvern dag. Á dskj. nr. 11 til 14 eru vaktaskrár þær sem vísað er til í ráðningarsamningi við stefnanda, en þær sýna vinnuskyldu samkvæmt vaktaskrá.    

            Eins og mál þetta er lagt fyrir dóminn verður ekki séð að ágreiningur sé með aðilum um hvaða daga stefnandi hafi mætt til vinnu og hvenær hún hafi lokið vinnu þá daga sem hún var á vakt. Stefndi hefur í útreikningi í greinargerð sýnt fram á vinnuhlutfall fyrir hvern mánuð samanborið við þær klukkustundir sem stefnandi hafi átt að skila af sér. Af samanburði vinnuyfirlita á dskj. nr. 3 og vaktaskrá á dskj. nr. 11 til 14 sést að stefnandi hefur margsinnis farið úr vinnu áður en hún var búin að ljúka sinni vakt. Í þessum þætti deila aðilar málsins fyrst og fremst um hvernig túlka beri ráðningarsamning stefnanda. Vill stefnandi miða við að stefnandi hafi með ráðningarsamningi sínum skuldbundið sig til að sinna þeirri vinnu sem stefndi myndi óska eftir á mánaðartímabili, þó að hámarki 180 tímum. Stefnandi væri því ,,til taks“ í þær 180 klukkustundir sem henni hafi borið til að fá umsamda fastlaunagreiðslu. Í þeim tilvikum er stefnandi hafi farið fyrr úr vinnu hafi það ávallt verið með samþykki sinna samstarfsmanna og nánasta yfirmanns. Ráðningarsamningurinn hafi verið sveigjanlegur í þeim skilningi að stefnandi hafi átt þess kost að hætta fyrr þá daga sem lítið hafi verið að gera á vöktum. Þessum málsástæðum hefur stefndi mótmælt. Miðar hann við að stefnanda hafi borið að fullnægja vinnuskyldu sinni með því að vinna vaktir samkvæmt vaktaskrá. Í þeim tilvikum að hún hafi að eigin ósk fengið leyfi til að fara af vinnustað fyrir lok vaktar hafi verið um leyfi frá störfum að ræða sem ekki hafi verið greitt fyrir nema samkomulag væri um úttekt orlofs. Slíkt samkomulag hafi ekki verið fyrir hendi. 

            Ráðningarsamningur aðila kveður á um að stefnandi sé í vaktavinnu þar sem unnið sé samkvæmt vaktaskrá. Er vinnuskylda upp að 180 klukkustundum á mánuði. Er tekið fram að frí séu háð samþykki yfirmanns. Af samspili ráðningarsamnings stefnanda og vaktaskrá sést hver vinnuskylda stefnanda hefur verið fyrir hvern mánuð fyrir sig. Fyrir liggur að þá vinnuskyldu innti stefnandi ekki af hendi, hvorki á viðkomandi vinnudegi né síðar, og hefur stefndi synjað fyrir að hafa gefið stefnanda sérstakt leyfi frá störfum. Var hún þó skuldbundin til þess að inna vinnuskyldu sína af hendi svo sem hún miðar í raun sjálf við þegar því er lýst í stefnu að stefnanda hafi borið skylda til að vera tilbúin til að vinna væri þess óskað til að fá föst mánaðarlaun. Í eðli sambands vinnuveitanda og starfsmanns felst sú grunnregla að starfsmaðurinn skuldbindur sig til að inna af hendi vinnu samkvæmt ráðningarsamningi, ýmist fastlaunasamningi eða samningi um tímakaup, og fær á móti greidd laun. Öll frávik frá slíkri reglu sem felast í heimild starfsmanns til að inna ekki vinnuskylduna af hendi við tilteknar aðstæður verður að skýra þröngt og ber viðkomandi starfsmaður um leið sönnunarbyrði fyrir tilvist slíkra frávika. Hefur stefnanda, í ljósi mótmæla stefnda, ekki tekist sönnun þess að henni hafi verið heimilt að inna einungis af hendi hluta þeirrar vinnuskyldu sem henni bar samkvæmt ráðningarsamningi og vaktaskrá. Með hliðsjón af því hefur stefnandi ekki leitt í ljós að stefndi hafi vangreitt laun stefnanda fyrir þau tímabil sem um er deilt.

            Stefnandi sleit ráðningarsamningi sínum við stefnda með tölvupósti. Er pósturinn dagsettur 23. mars 2010 og ber með sér að hafa verið sendur úr pósthólfi stefnanda þann dag kl. 13.16. Lýsir stefnandi þar yfir að hún segi upp störfum hjá stefnda. Taki uppsögnin gildi tafarlaust. Stefndi mótmælir því ekki að póstur þessi hafi borist aðstoðarhótelstjóra stefnda þennan sama dag. Þá eru aðilar á einu máli um að stefnandi hafi þrátt fyrir þetta unnið 3 vaktir síðar í sama mánuði en hafi ekki mætt á vakt sem átt hafi að byrja 31. mars 2010. Í ráðningarsamningi aðila á dskj. nr. 2 er ekki kveðið sérstaklega á um uppsagnarfrest eða tímalengd hans en kveðið á um að um réttindi og skyldur aðila samningsins fari eftir kjarasamningum Matvís. Á dskj. nr. 4 liggur frammi undirritaður kjarasamningur milli Matvís og Samtaka atvinnulífsins. Í 1. gr. samningsins kemur fram að gildistími hans sé frá 1. febrúar 2008. Í 21. gr. samningsins segir m.a. að samningurinn framlengist til 30. nóvember 2010 hafi tilteknar forsendur samningsins staðist. Ekki er annað í ljós leitt en að samningur þessi hafi verið í gildi er stefnandi hætti störfum. Í 15. gr. samningsins er kveðið á um uppsögn ráðningarsamnings. Kveðið er á um að uppsagnarfrestur sé gagnkvæmur og skuli allar uppsagnir vera skriflegar. Ekki er í samningnum kveðið á um lengd uppsagnarfrest. Stefndi hefur í málatilbúnaði sínum miðað við að uppsagnarfrestur hafi verið einn mánuður og vísar í því sambandi til Fastlaunasamnings milli Félags matreiðslumanna og Samtaka atvinnulífsins á dskj. nr. 17, en í kafla 12.1 í samningnum er kveðið á um uppsagnarfrest. Samkvæmt ákvæði 12.1.1. skal uppsagnarfrestur vera einn mánuður ef framleiðslumaður hefur unnið einn mánuð eða lengur hjá sama vinnuveitanda. Stefnandi hefur í munnlegum málflutningi mótmælt því að nefndur Fastlaunasamningur verði lagður til grundvallar niðurstöðu í málinu enda sé samningurinn á dskj. nr. 17 óundirritaður. Í stefnu víkur stefnandi ekki sérstaklega að lengd uppsagnarfrests stefnanda samkvæmt hinum umdeilda ráðningarsamningi. Ummæli í stefnu í iii lið í III. kafla um málsástæður miða þó við að stefnandi hafi litið svo á að uppsagnarfrestur gilti um samning aðila. Að hinu sama er vikið í bréfi lögmanns stefnanda til stefnda á dskj. nr. 8 þar sem tekið er fram að samkomulag hafi verið með aðilum um að stefnandi myndi einungis vinna hluta af uppsagnarfresti. Í ljósi þessa verður við það miðað að báðir málsaðilar hafi lagt til grundvallar að gagnkvæmur uppsagnarfrestur væri á ráðningarsamningi aðila og verður hann skemmstur einn mánuður sé uppsagnarfresti á annað borð fyrir að fara.

            Stefnandi heldur því fram að samkomulag hafi verið með stefnanda og stefnda að stefnandi ynni einungis hluta af uppsagnarfrestinum. Því hefur stefndi mótmælt og Ingólfur Einarsson aðstoðarhótelstjóri og Stefán Þór Arnarson fyrrverandi veitingastjóri og yfirmaður stefnda synjað fyrir að samkomulag hafi verið um slíkt. Með vísan til þessa hefur stefnanda ekki tekist sönnun þess að samkomulag hafi verið með aðilum um að stefnandi þyrfti ekki að vinna út uppsagnarfrest sinn. Þar sem þannig háttaði til gerðist stefnandi sek um ólögmætt brotthlaup við brotthvarf úr starfi hjá stefnda í lok mars 2010. Af hálfu stefnda er því haldið fram að brotthlaup stefnanda hafi valdið stefnda tjóni þar sem kalla hafi þurft til annað starfsfólk til að sinna vinnu stefnanda í uppsagnarfrestinum. Þetta hafa Ingólfur Einarsson aðstoðarhótelstjóri og Stefán Þór Arnarson fyrrverandi veitingastjóri og yfirmaður stefnanda staðfest. Hefur stefndi með því leitt nægar líkur að tjóni sínu.

            Dómstólar hafa slegið því föstu að starfsmaður sem gerist sekur um ólögmætt brotthlaup úr starfi baki sér bótaskyldu gagnvart vinnuveitanda sínum með hliðsjón af 25. gr. hjúalaga nr. 22/1928, sbr. m.a. dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 99/1975, nr. 157/1977 og nr. 171/1978. Sé bótaréttur atvinnurekanda meðalhófsbætur og nemi að lágmarki helmingi af launum starfsmanns á uppsagnarfresti. Að mati dómsins hefur framangreindri dómaframkvæmd ekki verið hnekkt og standa ekki rök til að víkja henni til hliðar í þessu máli. Samkvæmt því nema bætur helmingi af þeim launum sem stefnandi hefði fengið greidd fyrir tímabilið 31. mars til 30. apríl 2010. Stefndi lýsir því yfir í bréfi á dskj. nr. 9 að vaktaskylda stefnanda hafi verið 180 klukkustundir á því tímabili. Á þeim grundvelli hafi verið haldið eftir orlofi sem samsvari andvirði 90 orlofstíma. Launaseðill með laun til útborgunar 3. maí 2010 ber með sér að stefnanda hefur verið greitt orlof sem nemur 27,64 orlofstímum. Orlofsuppsöfnun frá 1. maí 2009 nam hins vegar 117,64 orlofstímum. Samkvæmt því hefur stefndi haldið eftir andvirði 90 orlofstíma eða 174.924 krónum, sem nemur rétt tæplega helmingi af 350.000 króna mánaðarlaunum. Verður lagt til grundvallar niðurstöðu að þetta hafi stefnda verið heimilt á grundvelli ofangreindra heimilda. Með hliðsjón af því verður kröfu stefnanda um vangreitt orlof einnig hafnað. Með hliðsjón af öllu framangreindu verður stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda.

            Stefnandi greiði stefnda málskostnað með þeim hætti er í dómsorði greinir.

            Símon Sigvaldason héraðsdómari kveður upp dóminn.     

 

                                             D Ó M S O R Ð:

            Stefndi, Grand Hótel Reykjavík hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Sigríðar Snædísar Þorleifsdóttur.

            Stefnandi greiði stefnda 200.000 krónur í málskostnað.

 

                                                     Símon Sigvaldason