• Lykilorð:
  • Eignarréttur
  • Þjóðlenda

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands eystra þriðjudaginn 24. júlí 2012 í máli

nr. E-19/2010:

 

Jósef Guðbjartur Kristjánsson

(Gunnar Sólnes hrl.)

gegn

Íslenska ríkinu

(Indriði Þorkelsson hrl.)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 1. júní sl., hefur Jósef Guðbjartur Kristjánsson, kt. 281167-3249, Möðruvöllum, Eyjafjarðarsveit, höfðað hér fyrir dómi á hendur íslenska ríkinu, Arnarhvoli, Reykjavík, með stefnu þingfestri 14. janúar 2010.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru:

Að felldur verði úr gildi úrskurður óbyggðnefndar frá 19. júní 2009 í máli nr. 1/2008, þess efnis að Möðruvallaafréttur sé þjóðlenda, sbr. eftirtalin úrskurðarorð:

Landsvæði það sem hér að framan er lýst, þ.e. Möðruvallaafréttur, er þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998:  Úr ármótum Sölvadalsár og Sandár er farið með Sandá til upptaka.  Þaðan er farið til austurs með kröfulínu gagnaðila íslenska ríkisins vegna Möðruvallaafréttar í sveitarfélagamörk milli Eyjafjarðarsveitar og Þingeyjarsveitar. Síðan er sveitarfélagamörkum, sem liggja nokkurn veginn á vatnaskilum milli Eyjafjarðarár og Fnjóskár, fylgt til suðurs þar til vatnaskilin fara að beygja til vesturs en frá þeim punkti er farið til norðvesturs milli Núpufellsdals og Sölvadals þar til komið er að hornmarki við kröfusvæði gagnaðila íslenska ríkisins vegna Æsustaðatungna á Tungnafjalli.  Frá þeim punkti er kröfulínu gagnaðila íslenska ríkisins vegna Möðruvallaafréttar og Æsustaðatungna fylgt til austurs í Sölvadalsá og síðan Sölvadalsá í upphafspunkt á ármótum hennar og Sandár.  Sama landsvæði er í afréttareign eigenda Möðruvalla, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga.

Sá hluti kröfusvæðis eigenda Möðruvalla sem liggur sunnan Möðruvallaafréttar, svo sem hann er afmarkaður hér að framan, er þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998. Í kafla 6.3 er komist að þeirri niðurstöðu að landsvæði sunnan afréttar á Bleiksmýrardal, vestan Fnjóskár, en innan kröfusvæðis Þingeyjarsveitar, sé þjóðlenda. Að sömu niðurstöðu er einnig komist í kafla 6.11 um landsvæði sunnan Hólaafréttar og Jórunnarstaðatungna en innan kröfusvæðis eigenda Hóla og Jórunnarstaða. Þjóðlenda sunnan fyrrnefndra afrétta afmarkast í heild sinni svo og er eins lýst í köflum 6.3 og 6.11:

Sveitarfélagamörkum Eyjafjarðarsveitar gagnvart Akrahreppi er fylgt til suðurs úr syðsta hluta Urðarvatna að drögum nyrðri upptakakvíslar Geldingsár.  Þaðan er farið beina línu í suður í fyrrnefnd sveitarfélagamörk sunnan við Laugafell í Hnjúkakvísl.  Sveitarfélagamörkum er áfram fylgt suður í 1008 m hæðarpunkt í fjallinu Klakki.  Þá er sveitarfélagamörkum Eyjafjarðarsveitar fylgt til suðausturs gagnvart Árnes- og Rangárvallasýslum og síðan áfram til norðvesturs gagnvart Þingeyjarsveit þar til Fnjóská sker umrædd sveitarfélagamörk.  Fnjóská er fylgt í punkt skammt sunnan við Einstökutorfu gegnt 930 m hæðarpunkti í vestri.  Þá er farið í fyrrnefndan hæðarpunkt til vesturs og síðan beina stefnu í norður í punkt þar sem vatnaskil Eyjafjarðarár og Fnjóskár fara að beygja til vesturs á sveitarfélagamörkum Eyjafjarðarsveitar og Þingeyjarsveitar.  Þaðan er farið til norðvesturs í skurðpunkt við línu sem dregin er milli 916 m hæðarpunkts og 974 m hæðarpunkts. Síðastnefndri línu er þá fylgt til suðvesturs í 975 m hæðarpunkt upp af Eyjafjarðardal.  Þaðan er síðan farið til norðvesturs í fyrstnefndan punkt í syðsta hluta Urðarvatna.

 

Af hálfu stefnanda er gerð sú dómkrafa að viðurkenndur verði beinn eignarréttur stefnanda að Möðruvallaafrétti samkvæmt þinglýstum eignarheimildum.  Við munnlegan málflutning var um afmörkun landsvæðisins til suðurs gerð sú breyting af hálfu stefnanda, miðað við kröfugerð hans fyrir óbyggðanefnd, að eignarland Möðruvalla til suðurs næði að Laugafelli, en þaðan í stefnu þvert til austurs að sýslumörkum Eyjafjarðarsýslu og Þingeyjarsýslu, miðað við Bergvatnskvísl í Bleiksmýrardal.  Stefnandi krefst jafnframt málskostnaðar að skaðlausu, samkvæmt málskostnaðarreikningi, líkt og málið væri eigi gjafsóknarmál, sbr. bréf dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá 1. febrúar 2010.

 

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda, en til vara krefst hann þess að aðilar beri sinn kostnað af málinu.

 

Stefnandi er þinglýstur eigandi jarðarinnar Möðruvalla í Eyjafjarðarsveit.

 

I.

1.       Tildrög þessa máls eru þau, að með bréfi, dagsettu 29. mars 2007, tilkynnti óbyggðanefnd fjármálaráðherra, f.h. íslenska ríkisins, þá ákvörðun sína að taka til meðferðar tiltekin landsvæði á vestanverðu Norðurlandi, eins og þau eru nefnd í bréfinu, sbr. 8. gr., 1. mgr. 10. gr. og 11. gr. laga nr. 58, 1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignalanda, þjóðlendna og afrétta.  Afmarkaðist kröfusvæðið nánar af Eyjafjarðarsýslu, Skagafjarðarsýslu og Austur-Húnavatnssýslu, austan Blöndu, auk Hofsjökuls.  Var þetta landsvæði auðkennt sem svæði nr. 7 hjá óbyggðanefnd.  Á síðari stigum meðferðar hjá óbyggðanefnd var afráðið að skipta landsvæðinu í tvennt og þá þannig að fjallað yrði sérstaklega um syðri hlutann.  Var það svæði nefnt „vestanvert Norðurland, syðri hluti (7A).“  Svæðið var afmarkað þannig: Norðurmörk fylgja norðurmörkum fyrrum Bólstaðarhlíðarhrepps og Seyluhrepps, Norðurá og Norðurárdal, Öxnadalsheiði og Öxnadalsá þar sem hún fellur í Hörgá og Hörgá til ósa.  Austurmörk miðast við Fnjóská frá ósum þar til hún sker sveitarfélagsmörk Eyjafjarðarsveitar að austan.  Þeim mörkum er fylgt til suðurs í Fjórðungskvísl.  Suðurmörk fylgja suðurmörkum Eyjafjarðarsveitar og suðurjaðri Hofsjökuls, þar sem jafnframt eru norðurmörk svæða 1 og 3 hjá óbyggðanefnd.  Vesturmörk miðast við Blöndu, frá norðurmörkum fyrrum Bólstaðarhlíðarhrepps til upptaka í Blöndujökli í Hofsjökli.

Kröfulýsingar fjármálaráðherra, fyrir hönd stefnda, íslenska ríkisins, á umræddu landsvæði, þ.e. á sunnanverðu Mið-Norðurlandi, svæði 7A, bárust óbyggðanefnd 14. mars 2008.  Óbyggðanefnd birti tilkynningu um meðferð sína á svæðinu, svo og útdrátt úr kröfum stefnda ásamt uppdrætti, í Lögbirtingablaðinu 28. mars 2008, en einnig 30. júní 2008, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 58, 1998.  Jafnframt var lýstu kröfusvæði íslenska ríkisins skipt í fimm mál, þ.e. 1-5/2008.

Mál nr. 1/2008 er takmarkað við Eyjafjarðarsveit austan Eyjafjarðarár, ásamt vestanverðum Bleiksmýrardal.  Var það mál fyrst tekið fyrir 25. ágúst, en síðan 31. ágúst og 1. september 2008, og var þá vettvangur skoðaður, en jafnframt lögð fram greinargerð af hálfu íslenska ríkisins og fleiri gögn.  Málið var einnig tekið fyrir 16. september, 13. október og 10. nóvember sama ár, en aðalmeðferð fór fram 25. nóvember 2008 með skýrslutökum og munnlegum málflutningi.  Málsmeðferðin var endurupptekin 5. júní 2009 og voru þá lögð fram ný gögn, en málið að því loknu tekið til úrskurðar að nýju.  Hinn 19. júní 2009 kvað óbyggðanefnd upp úrskurð sinn.  Var það m.a. niðurstaða nefndarinnar að landsvæði það sem hér er til umfjöllunar, Möðruvallaafréttur, væri þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. a-lið 7. gr., laga nr. 58, 1998, en þó þannig að hluti þess væri í afréttareign Möðruvalla, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga, líkt og  hér að framan var lýst.

Útdráttur úr úrskurði óbyggðanefndar var birtur í Lögbirtingablaðinu.

Stefnandi undi ekki niðurstöðu óbyggðanefndar og leitast hann við með málssókn sinni hér að fá henni hnekkt, og krefst ógildingar á úrskurðinum, líkt og fram kemur í stefnu og endanlegri kröfugerð hans.

Málið er höfðað innan þess frests sem veittur er í 19. gr. laga nr. 58, 1998 til þess að bera úrskurð óbyggðanefndar undir dómstóla, en fjármálaráðherra er í fyrirsvari fyrir stefnda, íslenska ríkið, samkvæmt 11. gr. laganna.

Við meðferð málsins fyrir dómi var farið á vettvang hinn 6. september 2010.

 

2.       Í úrskurði óbyggðanefndar, í máli nr. 1/2008, er samkvæmt framansögðu m.a. kveðið á um eignarréttarlega stöðu landsvæðis sem nefnt er afréttur lögbýlisins Möðruvalla í Eyjafjarðarsveit, en jörðin tilheyrði áður Saurbæjarhreppi.  Verður hér á eftir gerð grein fyrir helstu atriðum og forsendum úrskurðarins eins og nauðsynlegt er til úrlausnar málsins.

Úrskurðurinn skiptist í sjö kafla og er 142 blaðsíður.  Í fyrstu köflunum er lýst málsmeðferð fyrir óbyggðanefnd, kröfugerð og gagnaöflun aðila svo og þeim sjónarmiðum sem þeir byggjast á.  Í síðari köflum úrskurðarins er lýst landnámi og sveitarmörkum, en einnig að nokkru afnotum og sögu landsvæðisins.  Gerð er grein fyrir niðurstöðum óbyggðanefndar um einstakar jarðir og svæði, en að lokum eru úrskurðarorð.  Með úrskurðinum fylgir sérstakur uppfærður viðauki þar sem lýst er almennum niðurstöðum óbyggðanefndar, en þær eru m.a. ítarlega raktar í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 48/2004.  Einnig eru önnur skjöl meðfylgjandi, þ. á m. viðeigandi kort með árituðum merkja- og kröfulínum.

 

3.       Í úrskurði óbyggðanefndar og öðrum framlögðum gögnum segir frá því að heimildir um landnám og landnámsmörk í Eyjafirði sé helst að finna í Sturlubók og Hauksbók Landnámu.  Í Sturlubók segir:

Um várit gekk Helgi upp á Sólarfjöll;(Hámundarstaðafjall) þá sá hann, at svartara var miklu at sjá inn til fjarðarins, er þeir kölluðu Eyjafjörð af eyjum þeim, er þar lágu úti fyrir. Eptir þat bar Helgi á skip sitt allt þat, er hann átti, en Hámundr bjó eptir. Helgi lendi þá við Galtarhamar; (Festarklettur í Kaupangssveit) þar skaut hann á land svínum tveimr, ok hét gölturinn Sölvi. Þau fundusk þremr vetrum síðar í Sölvadal; váru þá saman sjau tigir svína. Helgi kannaði um sumarit herað allt og nam allan Eyjafjörð milli Sigluness og Reynisness (Gjögurtá)  ok gerði eld mikinn við hvern vatsós ok helgaði sér svá allt herað. Hann sat þann vetr at Bíldsá, en um várit færði Helgi bú sitt í Kristsnes.

 

Lýsing Hauksbókar um landnám Helga magra hljóðar svo:

Þann vetr bjó Helgi at Bíldsá, en um sumarit kannaði hann herað allt ok nam Eyjafjörð allan millim Sigluness ok Reynisness ok gerði eld mikinn við hvern vatsós við sjó ok helgaði sér svá allan fjörðinn nesa millim. Einum vetri síðar (færði Helgi bú sitt) í Kristnes.

 

Samkvæmt Landnámu skipti Helgi magri landi milli ættingja sinna.  Syni sínum Ingjaldi gaf hann land upp frá Þverá hinni ytri fyrir austan Eyjafjarðará til Arnarhvols. Ingjaldur bjó að Þverá hinni efri.  Bróðir Ingjalds, Hrólfur, fékk einnig landsvæði frá föður þeirra. Var um að ræða lönd austan Eyjafjarðarár upp frá Arnarhvoli.  Bú Hrólfs var að Gnúpufelli.  Á nágrannajörðinni Möðruvöllum bjó fyrstur Hafliði inn örvi, en hann seldi í elli sinni jörðina Eyjólfi Valgarðssyni.  Synir hans voru Guðmundur ríki á Möðruvöllum og Einar Þveræingur á Munkaþverá.

Samkvæmt Landnámu nam Þórir snepill Fnjóskadal allan, en meðal afdala hans er Bleiksmýrardalur.

 

4. Það landsvæði sem hér er til umfjöllunar, Möðruvallaafréttur, er í austurhluta Eyjafjarðar, að hluta til í Sölvadal, en enn fremur á landsvæðinu þar til suðurs.  Til austurs nær landsvæðið m.a. að mörkum Bleiksmýrardals í Suður-Þingeyjarsýslu, en til vesturs liggur það m.a. að Núpufellsdal/Þormóðsdal og eru mörkin um Tungnafjall.

Í Árbók Þingeyinga VIII fjallar Jóhann Skaptason sýslumaður m.a. um mörk Þingeyjarsýslu og Eyjafjarðarsýslu og segir:

Frá miðri heiði eru sýslumörkin suður eftir háheiðinni (Vaðlaheiði) og síðan eftir háfjallshryggnum milli Fnjóskadals og Bleiksmýrardals að austan og Eyjafjarðardala að vestan, svo sem vötnum hallar á báða bóga, og síðan áfram eftir vatnaskilum suður um Nyrðri- og Syðri-Háöldu suðvestur í Klakk í norðvestanverðum Hofsjökli. Álít ég, að þessi lína eigi að liggja vestan ár þeirrar, sem rennur til suðurs og síðan austur til Bleiksmýrardals vestan sunnanverðs dalsins“.

 

Jón Sigurðsson, fræðimaður frá Ystafelli í Kinn, segir í ritinu Lýsing Þingeyjarsýslu I að mörk nefndra sýslna fari austur háhrygg Vaðlaheiðar og um vatnaskil milli Fnjóskár og Eyjafjarðarár til öræfa.

 

Í Lýsingu Eyjafjarðar I eftir Steindór Steindórsson náttúrufræðing, sem gefin var út árið 1949, segir m.a. um vestur- og suðurmörk Eyjafjarðarsýslu:

Suður frá Öxnadalsheiði liggja mörkin eftir háfjallinu milli Austurdals og Nýjabæjarafréttar í Skagafirði og Eyjafjarðardals. Kann ég þar ekki að rekja örnefni, sem þau séu við tengd, enda mun fátt um þau, ef nokkur eru. Liggja sýsluskilin hlykkjótt þar, engu að síður en norðar í fjallgarðinum. Þegar dregur inn fyrir byggðir, eru engar ákveðnar merkjalínur til, og mun gamalt sölubréf Nýjabæjar í Austurdal frá 1464 vera hin eina heimild þar um, en þar segir svo: að Nýibær eigi land „að Tinná og svo langt á fjöll sem vötn draga“ Verður það varla skilið öðruvísi en svo, að vatnaskil ráði merkjum allt inn til jökla. Þó munu Urðarvötn ætíð vera talin til Eyjafjarðar, en samt segja kunnugir, að afrennsli þeirra sé til vesturs. Svo mun almennt talið nú, að öræfasvæðið inn af Eyjafirði sé almenningur frá Geldingsá, er fellur í Jökulsá austari og inn að Hofsjökli og suður á Sprengisand og austur undir drög Fnjóskár. En síðan tekið var að smala land þetta, sem ekki mun hafa verið fyrr en seint á síðastliðinni öld, hefir smalamennska einkum fallið í skaut Eyfirðinga, allt suður undir Fjórðungskvísl, þar sem mörk eru talin milli Norðlendinga- og Sunnlendingafjórðungs. Eftir þessu verður því ekki hægt að ákveða sýsluskil að sunnanverðu, en eftir því sem annars staðar hagar til, ættu þau að liggja á vatnaskilum þar sem vötn byrja að falla til Eyjafjarðar.

 

Um hið umþrætta landsvæði, Möðruvallaafrétt, og staðhætti þar, segir nánar í úrskurði óbyggðanefndar:

Landsvæði það sem hér um ræðir er að mestu á hásléttu og hefur leguna norður-suður. Nyrðri hluti svæðisins liggur á milli Bleiksmýrardals að austan og Eyjafjarðardals að vestan. Teygir svæðið sig suður fyrir Laugafell og suður Sprengisand að austanverðum Hofsjökli.  Nyrst liggja þrír dalir til suðurs og suðausturs inn til landsins; Sandárdalur nyrstur, þá Hraunárdalur og loks Sölvadalur syðstur.  Ofan dalanna tekur við víðfeðmt, hallalítið, öldótt og gróðursnautt land í um og yfir 1000 m hæð.  Vestan til rís Laugafell (879 m) en suður og suðaustur frá því liggja stórvaxnari öldur og meiri um sig og kallast þær Háöldur (767–854 m).  Sunnan Háalda er sendin og hallalítil auðn.  Frá mótum Hraunárdals og Sölvadals suður í Fjórðungskvísl eru rúmlega 60 km, mælt í beinni loftlínu.

 

5.  Í framlögðum gögnum, ekki síst þeim er stafa frá Þjóðskjalasafni Íslands, en til þeirra er m.a. vísað í úrskurði óbyggðanefndar, eru að nokkru raktar heimildir um Möðruvelli í Eyjafirði og umþrættan afrétt.  Segir frá því í gögnunum að jarðarinnar sé getið í ýmsum Íslendingasögum, m.a. vegna jarðaskipta Þórðar Hallssonar riddara, en einnig í tengslum við umsvif Guðmundar ríka.  Þá segir í máldagabók Auðuns biskups rauða Þorbergssonar frá 1318 um Möðruvelli: „...hun a þridiung j heima landi. J skogum so mykid sem þarf til husa vmbota.

Heimildir um Möðruvallajörðina eru ítarlegri og fleiri eftir því sem fram líður. Segir m.a. frá því í heimildum að þann 6. september 1697 hafi á héraðsþingi að Hrafnagili verið upplesið kaupbréf fyrir Möðruvöllum, sem og gjörningsbréf fyrir 42 hundruðum.  Einnig segir frá því að þann 21. september 1705 hafi á héraðsþingi að Saurbæ verið upplesið umboðsbréf fyrir jörðina, sem og fyrir tengdum jörðum og landsvæðum.  Segir þar: „Upplesed umbodsbref Jone Stefanssijne fijrer 30 h(undruðum) og 8 h(undruðum) i Jordene Modruvollum og 15 h(undrudum) i heimalande Skridu, Jtem þrem hundrudum i Kalfagierde, somuleidis yfer Agnuastadalande og Eingiunum fyrer vestann ána i Solvadal, ...

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1712, sem vísað er til í úrskurði óbyggðanefndar, segir um Möðruvelli að jörðin sé kirkjustaður, „anecteraður með Grund,  en enn fremur að hún sé mjög verðmæt, og sé að fornu metin á „tvenn tíutíu hundruð með öllum heimalöndum, sem undir hana liggja“, en til 80 hundraða er Jarðabókin var rituð.  Þá segir í sömu heimild: ,,Afrjettarland á staðurinn framm úr Sölvadal, sem heitir Sölvadalstúngur, og brúkast af öllum ábúendum Möðruvalla eigna til uppreksturs fyrir lömb og geldfje, og so eru þángað stundum látnir hestar á sumur.  Fram kemur að Möðruvöllum tilheyri auk þeirra jarða sem áður eru taldar: „hjáleigurnar Sveinshus, Fiosakot (Hríshóll), Kalfagerde , Helgastader og eyðihjáleigan Sofiugerde.“  Um jörðina Ánastaði segir í Jarðabókinni að jörðin Agnúastaðir sé fornt eyðiból í landi jarðarinnar, en liggi undir Möðruvelli: „... og hefur nú í eyði legið undir 60 ár, og atla menn að það væri þar fyrir skamma stund bygt, þó eru hjer litlar girðíngar í kríng ... Ekki má hjer aftur byggja fyrir heyskaparleysi. Landið brúkar til beitar ánastaða ábúandi og geldur þar fyrir x álnir í landaurum til umboðsmanns heimajarðarinnar.

 

Í gögnum Þjóðskjalasafns, sem vísað er til í úrskurði óbyggðanefndar, segir frá því að þann 3. júlí 1725 hafi á manntalsþingi að Saurbæ í Eyjafirði verið upplesin lögfesta fyrir eign séra Ólafs Stefánssonar á Möðruvöllum, til ystu ummerkja, á móti öðrum.  Hið sama var gert á manntalsþingi 1739, en þar var kveðið á um að ítök jarðarinnar taki til Agnúastaða og tungnanna fyrir vestan, fram á Sölvadal.  Þess er og getið að í vitnisburði hjá sýslumanni hið sama ár hafi umboðsmaður jarðarinnar, Þorsteinn Ketilsson, vakið athygli á því að hann hafi í sextán ár byggt Ánastaðamönnum Agnúastaði og tungurnar fyrir vestan ána í Sölvadal.  Hafi hann tekið við umboðinu 1723, og ætlað að um væri að ræða afréttarland Möðruvalla, en hafi hins vegar ekki skjöl undir höndum sem styðji það. Magnús Björnsson geri hins vegar tilkall til þessa lands, án þess þó að leggja fram gögn í málinu.  Á meðan svo sé og engin gögn séu lögð fram muni hann ekki sleppa hendinni af landinu fyrir hönd Möðruvalla, en þar um vísar hann til fyrrgreindrar lögfestu.  Í framhaldi af þessu lögfesti Þorsteinn Möðruvelli þann 30. apríl 1739, en þar segir m.a:

Løgfeste jeg Þorsteirn pr. Ketilsson, her i dag á Saurbæjar þijnge, þad allt I Mødruvøllum, sem Sr Olafe Stephanssyne med riettu tilheijrer, i þeirre jørd móts ved adra Eigendur. Nefnelega 1° 38 h(undruð) i siálfre heima Jørdunne hvar i ad reiknast vikuverked sem sudur og vestur frá Bænum liggur. 2° 15 h(undruð) i heimalandenu Skridu. 3° þriú hundrud i Kaalfagerde. 4° adurnefda Agnúastade, og Túngurnar fyrer vestann ána í Sølvadal og øll itøk Mødruvalla, sem Sr Olafe vidkoma, efter rettre tiltølu. Jtem løgfeste eg Mødruvalla kyrkiu Jarder bádar Gudrúnarstade, og Biørk, Løgfeste eg allra þessara jarda hundrada hús, Tún og Eingiar, hollt og haga, og allar landsnytiar, sem þar med eiga rettilega ad fylgia, til ummmerkia þeirra, er adrer menn eige i móte Proprietario, bæde ad ordfullu og løgmále riettu.

Í síðari lögfestum, m.a. frá miðri 18. öldinni, er réttinda Möðruvalla ítrekað getið.  Segir þannig í lögfestu frá 1743:

Logfeste eg so mikid ur Eingenu sem tala rennur til uppa 8 h(undruð) partinn Nordur tunsins. Logfeste eg fasta Eign Kyrkiunnar ad Modruvollum, ad somiklum parte sem Erfingium velnefndz Sal: Profastsinz tilkemur. logfeste og agnua [ofan línu] anastada og tungulanded a Solvadal fyrer ollum ólöglegum yfergange.  Logfeste eg ad ordfullu og logmæle rettu, fyrirbyd eg hverium manne hedan af i ad vinna edur sier ad njta, nema mitt sie lof edur leife til. 

Þá segir í lögfestu Möðruvallajarðarinnar, sem lesin var upp á manntalsþingi í Saurbæ 26. maí 1755:

Lögfeste eg hennar Tún og Einge, efter fornumm skiftumm, sömuleidis allann úthaga, Eign Rietta, og itök i annara Jarda löndumm, Efter sem ad Riettre tiltölu Reiknast má, i Efterskrifud landamerke, ad utannverdu frá Sandgile Riettlijnis úr fialle, til Eyafiardar áar, Enn ad Sunnann i þann gamla gard sem liggur frá Núpárgile i fiall upp, fijrer sunnann Hlijfá i logne ur Núpár gilz gliúfre til Eyafiardar ár [innskot frá spássíu], ad hier frá Skilldum þeim pörtumm i Nefndu landi, sem hiáleigunumm Mödruvallna tilheira Efter Riettre Tiltölu, og adrer Eigendur ad Eru, Jtem lögfeste eg Nefndrar Jardar af Riett, sem ad fornu og Niju henne filgt hefur, Nefnelega frá Sandá framm ad Hrauná, Sölvadal millumm þeirra, fyrer austann Sölvadz á, Jtem Sandárdal allann fyrer vestann framm, ásammt Hraunárdal allann bádumm meigenn, og frá Hrauná framm i dalz drag, beggia vegna, heim i þann gamla gard sem tilsiest hefur, hiá so kölludum Hrafnabiörgumm, og kalladar Eru Hraunár Túngur.

Þann 23. maí 1861 var á manntalsþingi að Saurbæ í Eyjafirði lesin upp lögfesta, með hverri sá partur af Sölvadalsafrétt, er tilheyrir Möðruvöllum og Ánastöðum, er friðlýstur.

Í jarðamati frá 1804 segir um Möðruvelli, að jörðinni tilheyri afréttur sem 10 jarðir noti yfir sumartímann, án endurgjalds.  Þess er getið að þetta sé ólíkt venju þar sem tíðkist að greitt sé fyrir slíkan aðgang með einu lambi frá hverri jörð.  Þá segir í jarðamati frá 1849 að Möðruvellir eigi afrétt sem einu nafni kallast Sölvadalstungur.

Landamerkjabréf fyrir Möðruvelli var útbúið 28. apríl 1886. Bréfinu var þinglýst 24. maí 1888.  Er þar heildarmerkjum jarðarinnar lýst svo:

Að austan eða neðan við Helgastaðaland milli Möðruvalla og Helgastaða: Ur vörðu syðst og efst við svo nefndan „Ytristekkjarhól“ eptir merkjum sem eru beint í vörðu á mýri neðan við áður nefndan hól og þaðan í vörðu sem þar er norður undan í svonefndum Kvíslárbakka. A milli Möðruvalla og Kálfagerðis að vestan við Kálfagerðisland, eða að neðan frá vörðu utan og ofarlega á svo nefndum „Syðristekkjarhól, beint strik í vörðu, sem er syðst og efst við áðurnefndan syðri Stekkjarhól, og frá honum eptir merkjum beint strik í vörðu, sem er syðst og efst við svo nefndan Krosshríshól, – sem er skammt fyrir utan og neðan Möðruvallatún, – og frá henni beint strik yfir hól, sem er næst fyrir sunnan Kálfagerðislækjargil í svo nefndan „neðrihnjúk“ í fjallinu; en fyrir ofan melana, sem eru næst fyrir ofan bæina er óskipt beitiland milli Möðruvalla og Kalfagerðis. Að sunnan milli Möðruvalla og Fjósakots eru merki beint strik frá vallargarðinum fyrir ofan götuna yfir melhól sunnan við svonefndan „Hólshúsalaut“ syðst í svo nefndan, Hrúthól. Þar fyrir ofan er hið óskipta beitiland Möðruvalla, Kálfagerðis, Helgastaða, Fjósakots og Skriðu. En frá vallargarðinum ofan við götuna, eptir austari eða efri traðargarðinum, suður í vöðru upp undan svo nefndum „Sundpolli“ og frá henni beint strik í grjótvörðu í svonefndum „Sundpollsmel“ og frá henni beint strik suður í garðlag á bakka Nupáreyra, ofan undan Fjósakoti og þaðan suður eyrarnar fast við bakkan á Núpáreyrum, suður í miðjan Núpárgilskjapt, og þaðan eru merkin í milli Möðruvalla og Núpufells í hinn gamla árfarveg rjettlynis að Eyjafjarðará yzt á móts við svo nefndan „Keppsteig“, eða sem nú er nefndur Sauðhúshvammur, sem verður bein stefna í Gerðagil í Hvassafellsfjall (utanvert við Saurbæarvöll). Að vestan verðu er Eyjafjarðará landamerki. Landamerki milli Möðruvalla og Skriðu á svonefndum „Steingrímsmó“ að norðan eða utan frá Núpáreyrum í garðlag utan við stóran stein í holtinu ofan við móim, og frá honum beint strik suður í stein, sem stendur suður í hallinum í sama holti, og frá honum eru merki á milli Möðruvalla og Stekkjarflata ofanvið Núpáreyrina. Að austan eru merkin eptir háfjallinu. Afrjettarland á jörðin frá Sandá, allan Sölvadal að austan og Sandárdal að vestanverðu og Hraunárdal allan báðu megin og þaðan suður á fjall, að svo nefndu „Laugafelli“. Fjósakot hefir óátalið brúkað sambeit í Núpárhólmum eptir fornri hundraðatölu jarðanna Möðruvalla og Fjósakots, að svo miklu leyti, sem þeir ekki hafa verið brúkaðir til slægna frá Möðruvöllum. Einnig hafa hinar fornu hjáleigur jarðarinnar brúkað afrjettarland hennar handa geldpeningi sínum á sumrum borgunarlaust.

Marselía Kristjánsdóttir, eigandi Möðruvalla, ritaði undir landamerkjabréfið. Það var samþykkt af Davíð Kristjánssyni, í umboði Kálfagerðiseiganda, Flóvents Sigfússonar, Jóni Jónssyni, eignar- og umráðamanni Æsustaða, Þ. Thorlacius, í umboði Stekkjarflataeiganda, Árna Jónssyni, eiganda og umráðamanni Helgastaða og Skriðu, Benedikt Jóhannessyni, í umboði Fjósakotseiganda, Ólafi Þorsteinssyni, eiganda hálfra Ánastaða, og Sigfúsi E. Thorlacius, eiganda að Núpufelli.

 

Í fasteignamati 1916-1918 um Möðruvelli er vísað til landamerkjalýsingar jarðarinnar, en sérstaklega er tekið fram að jörðinni fylgi upprekstrarlöndin Sölvadalur, Hraunárdalur og Hraunártungur.  Bent er á að jarðeigandinn hafi ekki tekjur af upprekstrarlöndunum þar sem hinar fornu hjáleigur og kirkjujarðir jarðarinnar hafi þar frían upprekstur.

Í sýslufundargjörð frá árinu 1894 er greint frá „skrá yfir afrétti og fjárréttir“ Fram-Eyjafjarðar.  Er þar m.a. getið um afrétti á Melrakkadal, Munkaþverártungum frá Þverá fram til jökuls ásamt Þverárdal sunnan árinnar, á Mjaðmárdal, á Sandárdal frá heimasta flóa svo og á Sölvadal og Hraunárdal, í Hraunártungum og Æsustaðatungum, en einnig á Núpufellsdal og Þormóðsstaðadal frá Langhólum, í Tjarnadal frá Glerá og í Hóladal.

 

Í úrskurði óbyggðanefndar er vísað til þess að í gögnum vegna hæstaréttarmáls nr. 128/1967 (Nýjabæjarafrétt), sem lyktaði með dómi 26. apríl 1969, sé að finna samþykkt um fjárleitir á öræfunum millum Skjálfandafljóts að austan og Jökulsár eystri í Skagafirði að vestan, og að hún hafi verið samþykkt af sýslunefnd og sýslumanni Eyjafjarðarsýslu í mars 1912.  Þar stendur:

Ummerki leitarsvæðisins eru: Að austan Skjálfandafljót, að sunnan Tungnafellsjökull, Jökuldalur og sandarnir sunnan við þær hagateygjur, er liggja að Jökuldal (Fjórðungskvísl), og þaðan í Arnarfellsjökul. Að vestan Hofsjökull og Jökulsá hin eystri í Skagafirði. Að norðan Fossá og suðvesturmörk afréttanna, suður af Eyjafjarðar og Þingeyjarsýslum, austur að Skjálfandafljóti.

Leitarsvæði þetta skiptist í tvær leitir.  Jökuldalsleit austan til og Laugafellsleit vestan til. Takmörk milli leita þessara eru:  Háöldurnar vestan við Kiðagilsdrög og suður fyrir botn þeirra, síðan suður háöldurnar austan við Bergsstaðakvísl (Þjórsárkvísl), og þaðan vestan Þjórsárkvíslar í Arnarfell.

Segir að fjárleitarsamþykktin hafi gilt til fimm ára, og að notendur heimaafréttar Öngulstaðahrepps, Saurbæjarhrepps og sýslusjóðir Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslna hafi verið skyldir til að taka þátt í kostnaði við Laugafellsleit.

Í sveitarlýsingu Saurbæjarhrepps í ritinu Byggðum Eyjafjarðar frá 1973 er vikið að staðháttum og afréttarsvæðum hreppsins, en einnig að fyrrnefndum dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 128/1967.  Segir þar m.a.:

Víðáttumikið hálendissvæði liggur suður af Eyjafjarðardölum, gróðurlítið, en kjarngott. Gekk þar nokkuð af fé úr Saurbæjarhreppi á sumrum, einkum úr Hólasókn. En síðan um fjárskipti 1950 hefur varla villzt þangað kind. Saurbæjarhreppur taldi sig eiga land þetta samkvæmt fornri hefð og sá lengi um leitir þar einn saman. Síðar tókust samningar við Skagfirðinga um að leita þetta að hálfu, eða nánar tiltekið árið 1920. Upprekstarfélag Saurbæjarhrepps hóf þarna gróðurtilraunir fyrir nokkrum árum. En er Skagfirðingum varð ljóst, að Eyfirðingar töldu sig eiga landið, gerðu þeir kröfu til þess líka. Spunnust af þessu landsfræg málaferli, sem lyktaði á þann veg, að land þetta á sig sjálft, þar eð hvorugum aðilanum var dæmdur eignarrétturinn. Afréttir Saurbæjarhrepps eru því aðeins í óbyggðum dölum, hvergi um langleiðir að ræða, og víðast er réttað samdægurs. Beztu afréttirnar eru, þar sem jarðir hafa farið í eyði við afréttarmörkin, svo sem í Sölvadal og Djúpadal.

 

Stjórnarráð Íslands sendi öllum sýslumönnum landsins bréf 29. desember 1919, en þar var þeim tilkynnt að vegna þingsályktunar um rétt ríkisins til vatnsorku í „almenningum“ frá 27. september s.á. bæri þeim að skila skýrslu við fyrsta tækifæri um svæði í sýslum þeirra sem teldust vera „almenningar“ og um „afréttarlönd“ sem ekki sannanlega hefðu tilheyrt eða tilheyri nokkru lögbýli.  Í svarbréfi Júlíusar Havsteen, sýslumanns í Eyjafjarðarsýslu, dagsettu 27. september 1920, segir m.a. að hann hafi aflað umsagna hreppstjóra og borið svör þeirra saman við landamerkjabók sýslunnar.  Verður ráðið að til grundvallar svarbréfi sýslumanns hafi m.a. verið bréf Benedikts Einarssonar, hreppstjóra Saurbæjarhrepps, sem dagsett er 8. mars 1920, en þar segir m.a.: „[...] allir afrjettir hjer í hreppi eru einstakra manna eign, en almenningar eru hjer engir ... Um öræfin fram af Eyjafirði er það að segja, að í landamerkjabrjefi jarðarinnar Möðruvalla stendur, að sú jörð eigi land fram öræfin, alt fram að „Laugarfelli“, en óvíst er hvort greinileg merki eru til umhverfis landeign þessa. – Ekki er mjer kunnugt um, að aðrar jarðir hjer í hreppi tileinki sjer land þar suður frá.

Fyrir liggur að vegna fyrirspurnar félagsmálaráðuneytisins þann 20. febrúar 1989 til sveitarstjórna, m.a. um fjallskil, afrétti og eignarrétt á slíkum svæðum, svaraði hreppsnefnd Saurbæjarhrepps með bréfi þann 8. janúar 1990, en þar segir m.a.:  „[...] Hér eru engin afréttarlönd önnur en fjallshlíðarnar ofan við girt heimalönd og dalskorur sem ganga inn í hálendið út frá byggðum dölum.  Öll þessi afréttarlönd eru í einkaeigu og er annað ekki til. [...]

Í Sýslu- og sóknarlýsingum Eyjafjarðarsýslu frá 1972 segir að afréttir í Möðruvallasókn séu Sölvadalurinn fram frá Ánastöðum og Þormóðsstaðadalur fram frá Þormóðsstöðum.  Auk þeirra séu Núpufellsdalur og Æsustaðatungur sem tilheyri bæjum þeim sem heita sömu nöfnum. 

Þá liggur fyrir bréf sýslumannsins í Eyjafjarðarsýslu, dagsett 1. ágúst 1979, en tilefni ritunar þess virðist hafa verið fyrirspurn um afréttarlönd í sýslunni.  Í bréfinu segir um afréttarlönd í Saurbæjarhreppi:

Afréttir í Sölvadal: 1. Bjarkarland að merkjagirðingu milli Stekkjarflata og eyðibýlisins Bjarkar. Heyrir undir Möðruvelli. 2. Finnastaðaland með Illagilsdal að norðan. Eigendur: Ábúendur allra jarða í Möðruvallaplássi, ásamt eigendum Akurs-Rútsstaða í Öngulstaðahreppi. 3. Kerhólsland með Illagilsdal að sunnan. Að hálfu eigendur Eyvindarst. í Sölvadal, og að hálfu eigendur Rútsstaða –Akurs í Öngulstaðahr. 4. Ánastaðaland með Sandárdal að norðan. Eigendur: Jón Kristjánsson Fellshlíð, Grétar Rósantsson Kálfagerði, Hreinn Kristjánson Hríshóli. 5. Sandárdalur að sunnan Hraunárdalur og Hraunártungur að Hrafnabjörgum vestan Sölvadalsár.  Heyrir undir Möðruvelli. 6.  Æsustaðatungur frá Hrafnabjörgum að Kollhól.  Heyrir undir Æsustaði. 7. Gnúpufellsdalur:  Frá Kollhól við Sölvadalsá, yfir hálsinn að Þormóðsstaðaá og sá dalur austanverður til botns. 8.  Þormóðsstaðadalur: Dalurinn vestan ár frá botni að Langhól sunnan við Þormóðsstaðasel.  Heyrir undir Þormóðsstaði.

 

6.       Í úrskurði óbyggðanefndar, niðurstöðukafla, er að nokkru vísað til framangreindra gagna, að því er varðar sögu, afmörkun, ráðstöfun að eignarrétti og nýtingu á hinu umþrætta afréttarsvæði Möðruvalla í Fram-Eyjafirði.  Um afrétt jarðarinnar er á það bent að landsvæðisins sé fyrst sérstaklega getið í heimildum frá 18. öld.  Þá er til þess vísað að jörðin Möðruvellir liggi utan við ágreiningssvæði málsins, aðskilin frá afréttinum af öðrum jörðum og landsvæðum.  Bent er á að í landamerkjabréfi jarðarinnar frá 28. apríl 1886 sé annars vegar lýst merkjum „heimalandsins“ og hins vegar merkjum „afrjettarlands“.  Staðhæft er að engar heimildir séu um að byggð hafi verið á Möðruvallaafrétti og jafnframt að landið hefur haft stöðu afréttar samkvæmt þeirri eignarréttarlegu flokkun lands sem almennt hafi verið miðað við fram að gildistöku þjóðlendulaga.  Að þessu sögðu fjallar óbyggðanefnd um það álitaefni hvort í því hafa falist bein eða óbein eignarréttindi til landsvæðisins, þ.e. hvort þar sé eignarland eða þjóðlenda samkvæmt skilgreiningum í 1. gr. þjóðlendulaga.  Til grundvallar að úrlausn álitaefnisins fjallar óbyggðanefnd m.a. um það hvernig merkjum Möðruvallaafréttar sé lýst í landamerkjabréfi jarðarinnar, en einnig er vikið að merkjum aðliggjandi landsvæða og þá með hliðsjón af því hvernig Möðruvallaafrétti er lýst í rituðum heimildum, þ. á m. í jarðamötum, áðurröktum lögfestum Möðruvalla frá 18. og 19. öld og í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1712.

Í niðurstöðukafla úrskurðar óbyggðanefndar er á það bent að þau landsvæði sem liggja að afréttarsvæðinu til norðurs séu óumdeilt eignarland Ánastaða, en einnig kröfusvæði Ánastaða, Stóra-Hamars og Rifkelsstaða.  Vísað er til þess að um þrjú síðastnefndu svæðin hafi verið gerð sátt við meðferð málsins hjá óbyggðanefnd og séu þau samkvæmt henni þjóðlenda í afréttareign eigenda nefndra jarða.  Þá segir að til austurs liggi kröfusvæði vegna Bleiksmýrardals, vestan Fnjóskár, og Afréttarland í Þingeyjarsveit, sbr. mál nefndarinnar nr. 3/2007, en til suðurs liggi Gnúpverja- Holtamannaafréttur, sbr. mál nefndarinnar nr. 3/2003 og 1/2003.  Þá liggi til vesturs kröfusvæði vegna Nýjabæjarafréttar, sbr. mál nefndarinnar nr. 4/2008, svo og kröfusvæði vegna Hólaafréttar, Þormóðsstaðasels, Núpufells og Æsustaðatungna.

Í úrskurði óbyggðanefndar er áréttað að samkvæmt landamerkjabréfi Möðruvalla frá 1886 sé merkjum „afrjettarlands“ lýst þannig:  „Afrjettarland á jörðin frá Sandá, allan Sölvadal að austan og Sandárdal að vestanverðu og Hraunárdal allan báðu megin og þaðan suður á fjall, að svo nefndu „Laugafelli“.  Bent er á að landamerkjabréfið hafi verið áritað um samþykki vegna Æsustaða, Ánastaða og Núpufells.  Vísað er til þess að elstu heimildina um afrétt Möðruvalla sé að finna í Jarðabók Árna og Páls frá 1712, þar sem segi að jörðin eigi „afrjettarland [...] framm úr Sölvadal, sem heitir Sölvadalstúngur, og brúkast af öllum ábúendum Möðruvalla ...  Í þessu samhengi er í úrskurðinum vikið sérstaklega að efni áðurrakinna lögfestna frá 1739, 1743 og 1755, en einnig sambærilegra heimilda frá árunum 1770, 1777 og 1780.  Af öllum þessum gögnum og heimildum eru eftirfarandi ályktanir dregnar í niðurstöðukafla úrskurðarins:

Samkvæmt landamerkjabréfi Ánastaða, sem þinglýst var 24. maí 1887, eru merki til vesturs gagnvart Möðruvallaafrétti einnig miðuð við Sandá „frá upptökum hennar og þar til hún rennur í Núpá.“  Bréfið er ekki áritað vegna Möðruvalla.

Ánastaðir eru ekki á ágreiningssvæði í máli þessu á því svæði sem liggur norðan Sandár en krafan vegna jarðarinnar nær nokkru austar og liggur þar innan ágreiningssvæðis.  Um það svæði var gerð sátt milli aðila við aðalmeðferð málsins og er afréttareign eigenda Ánastaða.  Gagnaðilar íslenska ríkisins (þ.e. stefnandi) hafa dregið kröfulínu vegna Möðruvalla áfram til austurs úr upptökum Sandár og í punkt 5 sem þeir nefna „upp á fjall“ og þaðan til suðausturs í sveitarfélagamörk.  Þau kröfusvæði sem liggja að þessum norðurmörkum landsvæðisins eru vegna Ánastaða annars vegar, svo sem að framan greinir, og Stóra-Hamars og Rifkelsstaða hins vegar. Samkvæmt landamerkjabréfum þessara jarða, sem eru frá árunum 1883, 1886 og 1887, ná merki þeirra ekki að fyrrnefndri kröfulínu en um þessi aðliggjandi landsvæði var gerð sátt milli aðila málsins um að þar væri þjóðlenda í afréttareign eigenda jarðanna.  Af lýsingum í landamerkjabréfi Möðruvalla sem og eldri lýsingum af svæðinu má ráða að norðurmörk svæðisins hafi ekki náð svo langt til austurs sem gagnaðilar (stefnandi )hafa afmarkað það og hafa engar haldbærar skýringar verið færðar fram fyrir þessari afmörkun.  Austur- og suðurmörk kröfusvæðisins fylgja sveitarfélagamörkum Eyjafjarðarsveitar úr punkti 3 og áfram suður og loks vestur í punkt 4 sem liggur í fjallinu Klakki við austanverðan Hofsjökul. Af landamerkjabréfi Möðruvalla má ráða að afréttarlandið hafi náð austast  „Hraunárdal allan báðu megin“.  Um suðurmerkin segir: „... og þaðan suður á fjall, að svo nefndu „Laugafelli““.  Umrætt Laugafell liggur norðaustan við Hofsjökul en kröfulína vegna afréttarins nær talsvert lengra til suðurs og austurs heldur en Laugafell. Engar af eldri heimildum um afréttinn lýsa merkjum suður í Laugafell.  Í landamerkjadómi Eyjafjarðarsýslu, í máli því sem síðar varð mál nr. 128/1967 fyrir Hæstarétti (Nýjabæjarafréttur), er sú skýring hugleidd að vera kunni að tilgreining þessa örnefnis eigi rætur að rekja til munnmælasögu um að Þórunn ríka á Möðruvöllum hafi haldið þar til meðan svartidauði geisaði yfir.  Eldri heimildir um Möðruvallaafrétt miða suðurmörk við Sandárdal, allan Sölvadal og Hraunárdal.  Af þeim dölum ná dalsdrög Sölvadals syðst, en þau liggja í u.þ.b. 56 km fjarlægð frá syðstu mörkum kröfugerðar gagnaðila ríkisins og u.þ.b. 31 km frá Laugafelli.  Ljóst er að í eldri heimildum fyrir Möðruvelli er merkjum afréttarlandsins lýst mun skemur inn til landsins en í landamerkjabréfinu. ...  Aðliggjandi kröfusvæði til austurs er vegna Bleiksmýrardals, vestan Fnjóskár ... kemur fram að í landamerkjabréfi fyrir dalinn, frá 1. apríl 1885 og þingl. 27. maí 1885, sé merkjum hans ekki sérstaklega lýst til vesturs og suðurmörk ná „suður á öræfi.“  Bréfið er ekki áritað vegna Möðruvalla.  Þegar sunnar dregur að austanverðu liggur svo þjóðlenda á Afrétti í Þingeyjarsveit sem fjallað var um í máli nr. 3/2007 hjá óbyggðanefnd og til suðurs liggja svo þjóðlendur á Gnúpverjaafrétti sem fjallað var um í máli nr. 3/2003 hjá óbyggðanefnd og Holtamannaafrétti sem fjallað var um í máli nr. 1/2003 hjá nefndinni.

Til vesturs er kröfulína gagnaðila ríkisins (þ.e. stefnanda) dregin úr sveitarfélagamörkum í fjallinu Klakki og til norðurs í punkt 5, skammt sunnan við Laugafell, norður í punkt 7 sem er hornmark við kröfusvæði vegna Núpufellsdals og áfram norður gagnvart kröfusvæði vegna Æsustaðatungna og í Sandá.  Samkvæmt landamerkjabréfi Möðruvalla eru merki afréttarins til vesturs miðuð við Sölvadal að austan og er sú lýsing í samræmi við eldri heimildir um afréttinn. Vesturmörkum afréttarins er þannig lýst mun skemur til suðurs í heimildum heldur en kröfugerð gagnaðila íslenska ríkisins gerir ráð fyrir. Samkvæmt landamerkjabréfi Núpufells, frá 19. maí 1890 og þingl. 17. maí 1892, eru merki miðuð við Núpufellsdal, austan við Þormóðsstaðadalsá „framan úr dalsdragi“.  Bréfið er áritað vegna Möðruvalla.  Verður ekki betur séð en að merki Núpufellsdals nái saman við merki Möðruvallaafréttar, svo langt sem lýsingar ná. ... Merkjum Æsustaðatungna er lýst í landamerkjabréfi fyrir Æsustaði, frá 21. janúar 1890 og þingl. 13. maí sama ár. Þar kemur fram að Æsustöðum fylgi afréttarland „fram af Sölvadal [...] að sunnan eru klettar þeir, sem Hrafnabjörg nefnast merkjatakmörk og eru þeir nokkru framar en í miðjum dalnum.“  Bréfið er áritað um samþykki vegna Möðruvalla. Geta þessar lýsingar samræmst lýsingum á Möðruvallaafrétti. Samkvæmt landamerkjabréfum Hóla, sem eru frá árunum 1889 og 1923 eru lýsingar á Hólaafrétti miðaðar við að farið sé fram frá Klaufá og „fram til jökla að austan“ eins og segir í eldra bréfinu eða „á efstu fjallsbrún“ eins og segir í yngra bréfinu.  Bréfin eru ekki árituð vegna Möðruvalla.  Geta þessar lýsingar samrýmst innbyrðis ... en ekki verður séð að þær komi heim og saman við lýsingar á merkjum Möðruvallaafréttar en fyrrnefndur Sölvadalur liggur norðaustan við Klaufá og utan við lýsingar á Hólaafrétti. Samkvæmt landamerkjabréfi Þormóðsstaðasels, frá 10. maí 1890 og þingl. 20. maí sama ár, eru merki til suðurs, gagnvart kröfusvæði Möðruvallaafréttar, miðuð við dalsdrag Þormóðsstaðadals. Bréfið er ekki áritað vegna Möðruvalla. Um mörk þjóðlendna á Gnúpverjaafrétti, Holtamannaafrétti og afrétti í Þingeyjarsveit þarf ekki að fjalla nánar um en þau ná að sveitarfélagamörkum milli Eyjafjarðarsveitar sem jafnframt eru mörk svæðis 7 suður hjá óbyggðanefnd.“

Niðurstaða óbyggðanefndar af öllu framanröktu er að í eldri heimildum séu mörk Möðruvallaafréttar til suðurs miðuð við dalina Sölvadal, Hraunárdal og Sandárdal, svo langt sem þeir ná.  Bent er á að landamerkjabréf Möðruvalla frá 1886 sé fyrsta og eina heimildin sem stutt geti það að merkin liggi sunnan fyrrnefndra dala og allt suður að Laugafelli.  Því mæli eldri heimildir því í mót að fyrir 1886 hafi landsvæðið sunnan við Sölvadal, Hraunárdal og Sandárdal verið talið innan merkja Möðruvallaafréttar.  Er og staðhæft að lýsingar eldri heimilda séu skýrar og svo mjög beri á milli þeirra og lýsingar í landamerkjabréfinu að telja verði að þær mæli bréfinu í mót.  Er því niðurstaða óbyggðanefndar sú að krafa gagnaðila íslenska ríkisins (þ.e. stefnanda) um að merki Möðruvallaafréttar og eignarréttur þeirra nái lengra til suðurs og austurs en að dalbotnunum verði ekki byggð á heimildum um afmörkun afréttarins.

Í úrskurðinum gerir óbyggðanefnd að lokum grein fyrir forsendum sínum um eignarrétt á hinu umþrætta landsvæði Möðruvallaafréttar, þannig:

„Kemur þá til skoðunar hver sé eignarréttarleg staða lands innan ágreiningssvæðis íslenska ríkisins og eigenda jarðarinnar Möðruvalla.  Um þýðingu landamerkjabréfa við mat á sönnun um eignarhald á landi vísast til fyrirliggjandi umfjöllunar Hæstaréttar og óbyggðanefndar um það efni, ... í Almennum niðurstöðum óbyggðanefndar sem birtar eru í viðauka með úrskurði þessum.  Þannig liggur fyrir sú niðurstaða Hæstaréttar að við mat á gildi landamerkjabréfa og því hvert sé inntak eignarréttar á svæði sem þar er lýst, skipti almennt máli hvort um sé að ræða jörð eða annað landsvæði.  Þekkt sé að landamerkjabréf hafi ekki eingöngu verið gerð fyrir jarðir, heldur einnig t.d. afrétti, sem ekki tengist sérstaklega tiltekinni jörð. Landamerkjabréf fyrir jörð feli í sér ríkari sönnun fyrir því að um eignarland sé að ræða þótt jafnframt verði að meta gildi hvers bréfs sérstaklega.  Með því að gera landamerkjabréf hafi menn ekki einhliða getað aukið við land sitt eða annan rétt.  Þá hafi menn ekki eingöngu markað sér landsvæði háð beinum eignarrétti, heldur einnig mörk ítaka, afrétta og allra annarra réttinda í lönd sem einhverja þýðingu gátu haft fyrir afkomu þeirra.

Landamerkjabréf fyrir Möðruvelli var gert í kjölfar þess að landamerkjalög tóku gildi 1882, þinglesið og fært í landamerkjabók. Svo sem áður var rakið telur óbyggðanefnd fyrirliggjandi gögn benda til þess að merkjum afréttarlandsins sé þar rétt lýst til annarra átta en suðurs. Að því er varðar síðastnefndu mörkin telur óbyggðanefnd því að ekki sé í ljós leitt að land sunnan Sölvadals, Sandárdals og Hraunárdals hafi verið innan landamerkja Möðruvallaafréttar fyrir gerð landamerkjabréfsins árið 1886.

Að fenginni framangreindri niðurstöðu fjallar óbyggðanefnd m.a. um það sem var áður rakið um landnám í Fram-Eyjafirði og þ. á m. á hinu umþrætta landsvæði.  Segir þar um í úrskurðinum:  „... er því ekki lýst í Landnámu hversu langt upp til fjalla og inn til lands landnám á þessu svæði náði. Verða því engar afdráttarlausar ályktanir af þeim frásögnum dregnarSé tekið mið af staðháttum og fjarlægðum við túlkun landnámslýsinga verður þó að telja fremur líklegt að nyrsti og láglendasti hluti þessa landsvæðis hafi verið numinn.  Vafi um þetta atriði hlýtur að vaxa eftir því sem sunnar dregur og land hækkar. Ekkert liggur fyrir um afmörkun eða yfirfærslu þeirra beinu eignarréttinda sem þar kann að hafa verið stofnað til.  Þannig kann beinn eignarréttur að hafa fallið niður og landsvæðið hafi í kjölfarið verið tekið til takmarkaðra nota annarra. Þess skal einnig getið að á þeim landsvæðum sem nærri landsvæðinu liggja eru þjóðlendur til allra átta nema norðurs og norðvesturs, sé litið heildstætt á niðurstöður í málum nr. 1–4/2008, 3/2007, 1/2003 og 3/2003 hjá óbyggðanefnd       „Af heimildum er ljóst að fyrrnefndir dalir hafa legið undir Möðruvelli en þeir eru landfræðilega aðskildir frá þeirri jörð og afmarkaðir sérstaklega í landamerkjabréfi Möðruvalla, þar nefndir „afrjettarland“.  Landsvæðisins er jafnan getið með sérstökum hætti í heimildum og þá nefnt „afréttur“, sbr. lögfestur Möðruvalla. Í Jarðabók Árna  Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1712 kemur fram að Möðruvellir eigi afrétt „framm úr Sölvadal, sem heitir Sölvadalstúngur og brúkast af öllum ábúendum Möðruvalla… Þá eru dalirnir nefndir í skrá yfir afrétti og fjárréttir í Eyjafjarðarsýslu frá 1894 auk fleiri afréttarskráa frá síðari tímum. Framangreint bendir til að í Sölvadal, Hraunárdal og Sandárdal sé afréttur í þeim skilningi að jörðin Möðruvellir eigi þar óbein eignarréttindi fremur en beinan eignarrétt. Ekki liggur fyrir hvernig eigendur Möðruvalla eru komnir að rétti sínum til landsvæðisins. Í máli þessu er ekki sýnt fram á annað en að hann hafi, eftir atvikum, orðið til á þann veg að landsvæðið hafi verið tekið til sumarbeitar fyrir búpening og, ef til vill, annarrar takmarkaðrar notkunar.  Um afréttarnotkun og fjallskil voru snemma settar opinberar reglur sem sveitarstjórnum var falið að annast framkvæmd á.

Í niðurstöðukafla úrskurðar óbyggðanefndar er að framangreindu sögðu sérstaklega vikið að því landsvæði sem liggur sunnan og utan landamerkja Möðruvalla samkvæmt landamerkjabréfi frá 1886, m.a. sunnan Laugafells.  Eins og fyrr var rakið takmarkaði stefnandi hér fyrir dómi dómkröfu sína við það að eignarréttur hans til landsins til suðurs miðaðist syðst við Laugafell en síðan þverlínu til austurs að sýslumörkum Eyjafjarðarsýslu og Þingeyjarsýslu.  Þykir vegna þessa umfjöllun óbyggðanefndar um landsvæðið sunnan Laugafells og um niðurstöðu áðurgreinds dóms Hæstaréttar Íslands frá 29. apríl 1969, í máli nr. 128/1967 (Nýjabæjarafréttur), hafa takmarkaða þýðingu við úrlausn málsins, en í niðurstöðu Hæstaréttar í nefndu dómsmáli sagði m.a. í forsendum:

Í máli þessu er deilt um eignarrétt að landsvæði því, sem um er að tefla, en eigi upprekstarrétt.  Áfrýandi, Upprekstarfélag Saurbæjarhrepps, reisir kröfur sínar á því, að hann hafi tekið heimildir á landsvæði þessu frá fyrri eigendum jarðanna Möðruvalla og Hóla í Saurbæjarhreppi, sem frá fornu fari hafi talist taka yfir landsvæðið.

Stefndu, eigendur Ábæjar og Nýjabæjar með Tinnárseli, reisa dómkröfur sínar á afsali fyrir hálfri jörðinni Nýjabæ frá 29. janúar 1461, þar sem landið sé talið vera hluti jarðarinnar.

Hvorki áfrýandi né stefndu hafa fært fram gögn fyrir fullkominni eignatöku að fornu eða nýju á landsvæði því sem um er að tefla í máli þessu.  T. d. verður eigi séð, að eigendur Ábæjar og Nýjabæjar með Tinnárseli eða eigendur Möðruvalla og Hóla hafi fyrrum innt af hendi smölun og fjallskil á landsvæðinu, svo sem eigendum jarða var boðið að gera á jörðum sínum, sbr. Jónsbók, landsleigubálk. Yfirlýsingar í afsölum fyrr og síðar, sem eigi styðjast við önnur gögn, nægja eigi til að dæma öðrum hvorum aðilja eignarrétt til öræfalandsvæðis þessa. Verða því kröfur hvorugs aðilja í málinu teknar til greina.

Í úrskurði óbyggðanefndar er á það bent að þótt kröfur málsaðila í umræddu dómsmáli hafi ekki lotið að viðurkenningu beins eignarréttar verði talið að Hæstiréttur hafi hafnað því að málsaðilar hefðu sýnt fram á beinan eignarrétt sinn til umrædds landsvæðis, á grundvelli þeirra gagna sem fyrir lágu. Eru af þessu dregnar eftirfarandi ályktanir í úrskurði óbyggðanefndar:  „Óbyggðanefnd hefur ekki heimild til að hnekkja eða breyta niðurstöðum dóma, sbr. 2. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944.  Til þess ber þó að líta að dómurinn felur ekki í sér úrlausn um eignarréttarlega stöðu svæðisins samkvæmt lögum um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, nr. 101 58/1998, með síðari breytingum.  Til athugunar hlýtur því að koma hjá óbyggðanefnd hvaða áhrif aðild að máli því sem hér er til umfjöllunar, gögn eða önnur þau atriði sem dómstólar hafa ekki þegar tekið afstöðu til, hafi á eignarréttarlega stöðu svæðisins samkvæmt lögum nr. 58/1998.

,,Krafa um beinan eignarrétt að landsvæði því sem hér um ræðir stafar frá þinglýstum eiganda Möðruvalla. Svo sem áður greindi átti Upprekstrarfélag Saurbæjarhrepps aðild að dómsmáli nr. 128/1967 og reisti þar kröfur sínar á því, að hafa tekið heimildir frá fyrri eigendum jarðanna Möðruvalla og Hóla í Saurbæjarhreppi, sem frá fornu fari hafi talist taka yfir landsvæðið.  Fyrir óbyggðanefnd liggja engin þau gögn eða önnur atriði sem dómstólar hafi ekki tekið afstöðu til eða sýni fram á beinan eignarrétt umrædds málsaðila til þessa landsvæðis.  Niðurstaða óbyggðanefndar er því sú að ekki hafi verið sýnt fram á að landsvæði það sem fjallað var um í dómi Hæstaréttar í máli nr. 128/1967, þ.e. sá hluti ágreiningssvæðis máls þessa sem liggur sunnan og vestan vatnaskila á hálendinu inn af Eyjafirði og Skagafirði, sé eignarland.

Um þann hluta kröfusvæðis stefnanda, sem liggur bæði utan Möðruvallaafréttar og umfjöllunarsvæðis fyrrgreinds Hæstaréttardóms, segir í úrskurði óbyggðanefndar að ekkert liggi fyrir sem bendir til þess að þar hafi stofnast til beins eignarréttar, en um það álitaefni hvort stofnast hafi til óbeinna eignarréttinda á svæðinu, þ.e. sunnan Möðruvallaafréttar, segir:

Fyrir utan tilgreiningu á Laugafelli í landamerkjabréfi Möðruvalla eru engar heimildir sem benda til þess að á landsvæðinu sunnan Sölvadals, Hraunárdals og Sandárdals hafi verið réttindasvæði Möðruvalla.  Skýrslur fyrir óbyggðanefnd gefa ekki heldur vísbendingar um annað.  Verður að öðru leyti ekki talið að fjárleitir Eyfirðinga á „Fjöllunum“, sem munu hafa lagst af á miðri síðustu öld, hafi skapað eigendum Möðruvalla sérstakan nýtingarrétt yfir því svæði sem liggur sunnan fyrrnefndra dala.

Lokaorðin í niðurstöðukafla úrskurðar óbyggðanefndar um hið umþrætta landsvæði eru sem hér segir:

Að öllu framangreindu virtu hefur ekki verið sýnt fram á að land á kröfusvæði Möðruvalla sé eignarland, hvorki fyrir nám, löggerninga né með öðrum hætti.  Eins og notkun landsins hefur verið háttað hefur heldur ekki verið sýnt fram á að eignarhefð hafi verið unnin á því.  Þá leiðir rannsókn óbyggðanefndar einnig til þeirrar niðurstöðu að þar sé þjóðlenda. Heimildir benda hins vegar til að Sölvadalur, Hraunárdalur og Sandárdalur séu í afréttareign Möðruvalla.

Eftir er þá að leysa úr því hver séu mörk afréttar Möðruvalla. Að norðan fylgja þau Sandá og síðan kröfulínu eigenda Möðruvalla til austurs í sveitarfélagamörk.  Þá er sveitarfélagamörkum fylgt til suður fyrir Sölvadal en þaðan er farið til norðvesturs milli Núpufellsdals og Sölvadals á Tungufjalli eftir kröfulínu eigenda Möðruvalla. Áfram er kröfulínunni síðan fylgt til Sandár.

Það er því niðurstaða óbyggðanefndar að kröfusvæði eigenda Möðruvalla sé þjóðlenda.  Með vísan til þess sem að framan greinir, skiptist sú þjóðlenda í tvö svæði sem afmörkuð verða hér á eftir.

Ljóst er að einstakir hlutar þess svæðis sem hér hefur verið fjallað um og talið þjóðlenda í afréttareign eru misjafnlega fallnir til beitar. Beitarsvæði taka þó breytingum, auk þess sem þau eru ekki endilega samfelld. Land það sem hér er til umfjöllunar verður því talið falla undir skilgreininguna „landsvæði ... sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé“, sbr. 1. gr. laga nr. 58/1998.

Landsvæði það sem hér að framan er lýst, þ.e. Möðruvallaafréttur, er þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998:

Úr ármótum Sölvadalsár og Sandár er farið með Sandá til upptaka.  Þaðan er farið til austurs með kröfulínu gagnaðila íslenska ríkisins vegna Möðruvallaafréttar í sveitarfélagamörk milli Eyjafjarðarsveitar og Þingeyjarsveitar. Síðan er sveitarfélagamörkum, sem liggja nokkurn veginn á vatnaskilum milli Eyjafjarðarár og Fnjóskár, fylgt til suðurs þar til vatnaskilin fara að beygja til vesturs en frá þeim punkti er farið til norðvesturs milli Núpufellsdals og Sölvadals þar til komið er að hornmarki við kröfusvæði gagnaðila íslenska ríkisins vegna Æsustaðatungna á Tungnafjalli. Frá þeim punkti er kröfulínu gagnaðila íslenska ríkisins vegna Möðruvallaafréttar og Æsustaðatungna fylgt til austurs í Sölvadalsá og síðan Sölvadalsá í upphafspunkt á ármótum hennar og Sandár.

Sama landsvæði er í afréttareign eigenda Möðruvalla, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga.

Sá hluti kröfusvæðis eigenda Möðruvalla sem liggur sunnan Möðruvallaafréttar, svo sem hann er afmarkaður hér að framan, er þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998.

 

II.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir kröfu sína á því að samkvæmt þinglýstum heimildum sé hann eigandi að hinu umdeilda landi, Möðruvallaafrétti, sbr. landamerkjabréf frá 28. apríl 1886.  Stefnandi byggir eignarréttarkröfu sína einnig á hefð og venju og telur ljóst að umrætt landsvæði hafi verið numið í öndverðu, sbr. áðurrakin orð Landnámu um landnám í Eyjafirði.

Stefnandi bendir á að eignarréttur eigenda jarðarinnar Möðruvalla á hverjum tíma á afréttinum hafi ávallt verið virtur af öllum nágrönnum, en einnig af stefnda sjálfum með innheimtu gjalda af eigninni.  Byggir stefnandi á því að áðurrakin gögn styðji fyllilega eignarréttartilkall hans og því sé úrskurður óbyggðanefndar rangur og brjóti í bága við eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrár Íslands.

Stefnandi vísar til þess að í úrskurði óbyggðanefndar sé nokkuð fjallað um dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 128/1967 og að þar sé sú ályktun dregin að rétturinn hafi hafnað því að málsaðilar í því máli hefðu sýnt fram á beinan eignarrétt sinn til „umrædds landsvæðis“.  Bendir stefnandi á að hinn raunverulegi eigandi Möðruvallaafréttar á þeim tíma sem mál hafi verið rakið hafi ekki verið aðili dómsmálsins.  Því sé fráleitt að svipta hann eignarrétti með dómi í máli sem hann hafi ekki átt aðild að.  Þá bendir stefnandi á að í nefndu dómsmáli hafi engin krafa verið gerð um viðurkenningu á eignarrétti lands, aðeins hafi verið deilt um sýslumörk milli Eyjafjarðarsýslu og Skagafjarðarsýslu og þá í sambandi við beitilönd.  Þrátt fyrir það komi sú staðhæfing fram í dóminum að í málinu hafi verið deilt um eignarrétt á því landsvæði sem um hafi verið að tefla en eigi um upprekstrarrétt.  Telur stefnandi að í þessu sambandi nægi að vísa til kröfugerðar stefnanda í héraði, en þar hafi krafa hans verið: „Að landamerki fyrir umráðasviði félagsins (Upprekstrarfélag Saurbæjarhrepps), að vestan, gagnvart löndum Skagfirðinga á hálendinu vestan og sunnan Eyjafjarðardala verði viðurkennd og ákveðin þannig: „Nyrst ráða merkjum Fossá frá upptökum nyrðri kvíslar til ármóta hennar og Jökulsár eystri, síðan ráði Jökulsá eystri merkjum suður að ármótum hennar og Strangalækjar, þaðan ráði bein lína suður í Miklafell í Hofsjökli““.  Bendir stefnandi á að Upprekstrarfélag Saurbæjarhrepps hafi byggt kröfu sína í málinu á samningum sem það hafi gert við eiganda Möðruvalla, Jón Tryggvason, og eiganda Hóla.  Hafi samningur eiganda Möðruvalla við félagið verið þannig orðaður:  „Hér með afsala ég - Jón Tryggvason, Möðruvöllum - Upprekstrarfélagi Saurbæjarhrepps til umráða landi öllu, sem tilheyrir Möðruvöllum sunnan botns Sölvadals.  Líði upprekstrarfélagið undir lok og hætti að nota landið, fellur það aftur til Möðruvalla í því ástandi sem það þá er“.  Stefnandi bendir á að samkvæmt orðanna hljóðan hafi verið um að ræða ótímabundinn leigusamning og því hafi það ekki verið á valdi upprekstrarfélagsins að gera eignarréttarkröfur í nefndu dómsmáli, enda hafi krafa félagsins verið um viðurkenningu á landamerkjum, þó svo að Hæstiréttur hafi komist að annarri niðurstöðu í málinu.

Stefnandi andmælir umfjöllun og staðhæfingum í úrskurði óbyggðanefndar um að engar heimildir séu til um að byggð hafi verið á Möðruvallaafrétti og staðhæfir hann að það sé rangt.  Bendir hann á að í ritinu „Lýsing Eyjafjarðar“ eftir Steindór Steindórsson frá Hlöðum segi svo:  „Í sóknarlýsingu Saurbæjarþinga segir Einar Thorlacius, sóknarprestur, að fjallvegur liggi upp úr Þormóðsstaðadal suður undir Laugafell, og segir sagan, að Þórunn ríka á Möðruvöllum hafi haft þar sumarsel og hélt hún þar til með hyski sitt, meðan Svarti dauði geisaði“.  Þá bendir stefnandi á að í ritinu Íslenskir sögustaðir III, Norðlendingafjórðungur, sé vikið að fornminjaskýrslu og athugasemd í sóknarlýsingu fyrir Saurbæjarsókn, en þar sé vísað til munnmæla um að frá Möðruvöllum hafi upphaflega verið selstaða í Laugafelli 6-7 mílur frá bænum fyrir ofan Þormóðsstaðadal, sem sé afdalur frá Sölvadal.  Þá hafi aukinheldur verið talið að við Laugafell væri að sjá tilhöggvið bað með óþekktum ritháttum umhverfis.  Loks bendir stefnandi á að í ritinu „Landið þitt Ísland“ sé fjallað um Laugafell með eftirfarandi hætti: „Suðaustur frá Laugarfelli er allstór flá, Fellshagaflá, og er það syðsti hestahagi áður en lagt er á Sprengisand að norðan.  Í Laugarfelli er sæluhús sem Ferðafélag Akureyrar reisti árið 1948.  Norðvestur frá sæluhúsinu er dálítil þró í móhelluklöpp sem heitt vatn sprettur upp í.  Þróin er um tveir m á lengd og svo víð að meðalmaður getur legið í henni og flýtur þá yfir hana.  Þorvaldur Thoroddsen taldi þetta náttúrusmíð (Ferðabók) en ýmsir ætla þrónna gerða af manna höndum og er það trúlegra eftir öllu útliti að dæmi.  Þjóðsögn er um það að Þórunn á Grund hafi dvalist þar með fólki sínu við Laugarfell á meðan að svarti dauði gekk yfir og hafi hún látið klappa laugakerið í klöppina.  Sá galli er á þessari sögu að Þórunn fæddist fullri öld eftir að svarti dauði geisaði.  Hins vegar bendir hún til þess að Grundarmenn hafi talið sér land inn að jökli.  Önnur sögn nefnir þessa húsfreyju Þórunni ríku á Möðruvöllum en naumast mun vera til heimildir um hana.  Við Laugarfell hafa fundist leifar fornra mannvirkja á bakka Laugarkvíslar.  Herma forn munnmæli að áðurnefnd Þórunn ríka hafi haft þar selsstöðu en dvalist þó með allt fólk sitt þar meðan svarti dauði gekk.  Gamlir Eyfirðingar kölluðu tóftarleifar þessar Þórutóftarbrot og hafa lítils háttar mannvistarleifar fundist þar en þar er jarðhitinn einnig mestur á þessu svæði.“

Stefnandi vísar máli sínu til stuðnings til áðurrakinna heimilda og þá sérstaklega til umfjöllunar um afréttinn í sýslu- og sóknarlýsingum, þar sem m.a. segir: „Afréttir í Möðruvallasókn eru Sölvadalurinn fram hjá Ánastöðum og Þormóðsstaðadalur fram hjá Þormóðsstöðum, þar að auki Núpufellsdalur og Æsustaðatungur, sem liggja undir bæi þá í sóknina, er þeir nefnast eftir“.  Bendir stefnandi á að samkvæmt þessum heimildum hafi níu bæir verið í Sölvadal, og hafi Ánastaðir verið fremsti bærinn í dalnum.

Stefnandi byggir á því að allar ofangreindar heimildir og sagnir staðfesti að umrætt landsvæði sé háð eignarrétti viðkomandi jarðeiganda Möðruvalla hverju sinni og jafnframt að allt svæðið hafi verið nýtt með einhverjum hætti allt frá landnámi.

Með vísan til ofangreindra málsástæðna telur stefnandi að óbyggðanefnd hafi ekki byggt úrskurð sinn á fullnægjandi upplýsingum, m.a. um nýtingu hins umdeilda lands, hvað sem líði túlkun nefndarinnar á áðurnefndum hæstaréttardómi í máli nr. 128/1967.  Í því viðfangi bendir stefnandi sérstaklega á að óbyggðanefnd hafi ekki farið í vettvangsskoðun á hið umdeilda land og því ekki kynnt sér landgæði eða staðhætti.

Stefnandi byggir rétt sinn til landsvæðisins sérstaklega á áðurröktu landamerkjabréfi Möðruvalla frá 28. apríl 1886, þinglýstu 24. maí 1888.  Bendir hann á að með bréfinu hafi aðeins verið getið um það land, sem tilheyrt hafi Möðruvöllum og hafi verið á allra vitorði.  Hann bendir á að bréfið hafi verið undirritað af þáverandi eigendum jarðarinnar, en einnig af umboðsmönnum nálægra jarða, þ. á m. í Kálfagerði, á Æsustöðum, á Stekkjarflötum, á Helgastöðum, í Skriðu, í Fjósakoti, á Ánastöðum og í Núpufelli.

Stefnandi byggir á því að áðurraktar eldri heimildir séu í samræmi við efni landamerkjabréfs Möðruvalla.  Vísar hann þar um sérstaklega til umboðsbréfs Jóns Stefánssonar frá árinu 1705, jarðabókar Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1712, en einnig til áðurrakinna lögfesta frá árunum 1701 til 1861.  Telur stefnandi að flestar þessar heimildir eigi það sammerkt að hinn umdeildi afréttur sé talinn vera eign Möðruvalla, þó svo að aðrir hafi fengið að nýta hann.  Þá bendir hann einnig á áðurrakin jarðamöt Möðruvalla frá 1804 og 1849.  Telur stefnandi að öll þessi gögn styðji kröfu hans um að Möðruvallaafréttur, eins og hann hafi verið afmarkaður á fram lögðum kortum óbyggðanefndar og ekki sé ágreiningur um, tilheyri jörðinni Möðruvöllum og sé þannig háður eignarhaldi hans, sem eiganda jarðarinnar.

Stefnandi byggir á því að áður fyrr hafi engin takmörk verið á eignarrétti jarðeiganda til þess lands, sem tilheyrði jörð hans.  Þannig hafi afréttarland sem hafi verið skráð sem eign jarðar að fullu lotið yfirráðum og eignarrétti jarðeiganda þó svo að landið væri einungis notað til upprekstrar og/eða beitar.  Hafi aldrei komið til neinnar takmörkunar á slíkum eignarréttindum.  Þannig hafi aldrei komið nein tilskipun frá æðri stjórnarvöldum um að eignarréttur jarðeiganda til ákveðins hluta af landi jarðar væri takmarkaður við upprekstur, beit, umferðarrétt, veiðirétt eða námaréttindi.  Í þessu samhengi vísar stefnandi til þess að eignarréttur eigenda Möðruvalla á hverjum tíma til afréttarins hafi verið viðurkenndur af öllum þeim sem nýtt hafi sér afréttinn, hvort sem þeir hafi greitt gjald fyrir eða ekki.  Hið sama hafi gilt um þá aðila er átt hafi eignarrétt að nærliggjandi landi jarðarinnar.  Hafi þannig í huga þessara aðila engin takmörkun verið á eignarrétti jarðeigenda Möðruvalla á hinum umþrætta afrétti.  Telur stefnandi að hafa verði í huga að eigendur fjölmargra jarða hafi talið sig eiga upprekstrar- og beitirétt á Möðruvallaafrétt með eða án gjaldtöku, en til þess að eiga slíkt ítak hafi að sjálfsögðu þurft að vera til eigandi sem ítakið beindist gegn og hafi það í þessu tilfelli ætíð verið eigandi jarðarinnar Möðruvalla.

Loks byggir stefnandi á því að stefndi, íslenska ríkið, hafi frá öndverðu viðurkennt að umrætt land, Möðruvallaafréttur, væri háð fullkomnum eignarrétti stefnanda.  Bendir hann á að aldrei hafi komið fram athugasemdir af hálfu opinberra aðila við þeim skráningum og þinglýsingum skjala þar sem fram hafi komið að eigendur Möðruvalla hverju sinni hafi verið eigendur að afréttinum.  Með vísan til þessara skjala um eignarhald á Möðruvallaafrétti telur stefnandi ljóst að hann hafi fært fram nægar heimildir fyrir eignarhaldi sínu á Möðruvallaafrétti.

Um lagarök vísar stefnandi til 72. gr. stjórnarskrár Íslands um friðhelgi eignarréttarins, sbr. 1. gr. 1. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu um vernd eignarréttarins, sbr. lög nr. 62, 1994 um lögfestingu sáttmálans.  Enn fremur vísar hann til laga nr. 58, 1998 um þjóðlendur og til laga nr. 14, 1905 um hefð.  Þá vísar hann til meginreglna um eignar- og afnotaréttindi, sem og almennra reglna samninga- og kröfuréttar.

 

Málsástæður og lagarök stefnda.

Af hálfu stefnda er á því byggt að umþrætt landsvæði sé svæði utan eignarlanda og teljist því vera þjóðlenda í samræmi við úrskurð óbyggðanefndar, sbr. ákvæði 1. og 2. gr. laga nr. 58, 1998.  Telur stefndi fullljóst af heimildum að landsvæðið hafi aldrei verið undirorpið beinum eignarrétti, og að nýting þess svæðis hafi ekki verið með þeim hætti.  Að mati stefnda hvílir sönnunarbyrðin ótvírætt á stefnanda, að sýna fram á tilvist beins eignarréttar að landsvæðinu eða einstökum hlutum þess.

Af hálfu stefnda er um röksemdir vísað til áðurrakins úrskurðar óbyggðanefndar. Úrskurðurinn sé byggður á umfangsmikilli upplýsingaöflun og rannsóknum og sé niðurstaðan reist á kerfisbundinni leit að gögnum og skjölum frá málsaðilum sjálfum, en einnig á skýrslum sem gefnar hafa verið fyrir nefndinni.  Hafi óbyggðanefnd talið að við gildistöku laga nr. 58, 1998 hafi umþrætt landsvæði talist til afrétta samkvæmt þeirri eignarréttarlegu flokkun lands sem almennt hafi verið miðað við fram til þess tíma.  Kveðst stefndi m.a. gera niðurstöðu nefndarinnar að sinni til stuðnings sýknukröfu sinni auk annarra málsástæðna.

Af hálfu stefnda er á því byggt að samkvæmt framangreindu séð hið umdeilda svæði, Möðruvallaafréttur, svæði utan eignarlanda.

Af hálfu stefnda er til þess vísað að í landamerkjabréfi Möðruvalla frá 28. apríl 1886 sé að finna lýsingu á annars vegar merkjum heimalandsins og hins vegar merkjum afréttarlands jarðarinnar.  Álítur stefndi að hin sérstaka aðgreining milli heimalands og afréttar bendi ótvírætt til þess að svæðið hafi verið afréttarsvæði utan eignarlanda.  Bendir hann á að fyrir liggi að Möðruvellir séu landfræðilega aðskildir frá afréttarsvæðinu.  Hafi almennt verið litið svo á af hálfu dómstóla, að þegar svo hátti til bendi það ótvírætt til þess að um sé að ræða svæði utan eignarlanda.

Á því er byggt af hálfu stefnda að þótt landamerkjabréf hafi verið gert fyrir umþrætt landsvæði beri við mat slíkra bréfa að gæta að því, að landamerkjabréf feli fyrst og fremst í sér sönnun um mörk milli eigna, en í því felist á engan hátt að allt land innan merkja skuli vera óskorað eignarland.  Þrátt fyrir að þessum bréfum sé þinglýst, þá takmarkast gildi þinglýsingarinnar af því, að ekki sé unnt að þinglýsa meiri rétti en viðkomandi eigi.  Með því að gera landamerkjabréf hafi menn ekki getað einhliða aukið við land sitt eða annan rétt, sbr. m.a. niðurstöðu Hæstaréttar í málinu nr. 48/2004.

Stefnandi byggir á því að það skipti máli hvort um sé að ræða jörð í eignarréttarlegum skilningi eða annað landsvæði.  Þekkt sé að landamerkjabréf hafi ekki eingöngu verið gerð fyrir jarðir, heldur einnig fyrir önnur svæði, svo sem afréttarsvæði, sem ekki hafi tengst sérstaklega tiltekinni jörð.  Vísar stefnandi til þess að almennt feli landamerkjabréf fyrir jörð í sér ríkari sönnun fyrir því að um eignarland sé að ræða, þó með hliðsjón af eldri heimildum, enda verði við slíkt mat að meta gildi hvers landamerkjabréfs sérstaklega.

Þá telur stefndi að við mat á gildi landamerkjalýsingar svæðisins verði að horfa til þess, að ekki verði séð að landamerkjabréfið hafi verið samþykkt af umráðamönnum aðliggjandi landvæða, einkum til suðurs og austurs, enda sé landið umlukið afréttarsvæðum utan eignarlanda á þá vegu.  Telur stefndi að heimildir bendi ekki til þess að á hinu umdeilda svæði hafi nokkru sinni verið búið, þótt þar hafi e.t.v. stundum verið haft í seli.  Þykir stefnda þetta ótvírætt benda til þess að svæðið hafi eingöngu verið nýtt til sumarbeitar fyrir búfé og teljist því landvæði utan eignarlanda jarða.

Af hálfu stefnda er á því byggt að ekki sé lýst í Landnámu hversu langt upp til fjalla og inn til landsins landnám á hinu umþrætta svæði náði.  Segir stefndi að ólíklegt verði að teljast að land á þessu svæði hafi verið numið í öndverðu, einkum með hliðsjón af staðháttum og fjarlægð frá byggð, eða teljist lúta beinum eignarrétti.  Bendir stefndi á að samkvæmt dómafordæmum teljist heimildarskortur hvað þetta varðar leiða til þess að álitið sé ósannað að heiðarlönd og öræfasvæði hafi verið numin í öndverðu.  Sé það í samræmi við þá reglu sem ráðin verði af dómafordæmum Hæstaréttar, að sé deilt um upphaflegt nám lands verði aðeins stuðst við glöggar landfræðilegar heimildir, en heimildarskortur leiði til þess, að álitið sé ósannað að heiðarlönd hafi verið numin, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar í málum nr. 67/1996 (Eyvindarstaðaheiði) og áðurnefndan dóm nr. 48/2004 (Úthlíð).  Hvíli sönnunarbyrðin um slíka eignarréttarstofnun á þeim sem haldi slíku fram.

Þá byggir stefndi á því að ekki verði af heimildum annað ráðið, en að svæðið hafi eingöngu verið nýtt með afar takmörkuðum hætti, og vísar stefnandi þar um til áðurrakinna heimilda.  Þá sé svæðið umlukið eigendalausum svæðum á allar hliðar. Verði ekki annað séð en að réttur til hins umdeilda svæðis hafi upphaflega orðið til á þann veg, að landsvæði hafi verið tekið til sumarbeitar fyrir búpening og ef til vill annarrar takmarkaðrar notkunar.

Verði á hinn bóginn talið að landsvæðið hafi verið numið í öndverðu, byggir stefndi á því, að það hafi ekki verið numið til eignar heldur eingöngu til takmarkaðra nota, svo sem afréttarnota.  Vísar stefndi til þess að allt frá upphafi Íslandsbyggðar hafi menn ekki eingöngu helgað sér ákveðin landsvæði, sem háð hafi verið beinum eignarrétti, heldur einnig ítök, afrétti og öll önnur réttindi, sem einhverja þýðingu gátu haft fyrir afkomu þeirra.  Og meðan landsvæði gáfu eitthvað af sér hafi hagsmunir legið til þess að halda við merkjum réttindanna, hvers eðlis sem þau voru.  Um þetta atriði bendir stefndi m.a. á dóma Hæstaréttar í málum nr. 67/2006 (Skjaldbreiður) og nr. 27/2007 (Grænafjall).

Stefndi byggir á því til vara að verði talið að greint landsvæði kunni að hafa verið innan landnáms eða undirorpið beinum eignarrétti að hluta eða öllu leyti séu allar líkur á því að slíkt eignarhald hafi fallið niður er svæðið var tekið til takmarkaðra nota, þ.e. afréttarnota.  Og þó svo að talið yrði að til beins eignarréttar hefði stofnast í öndverðu yfir landinu þá byggir stefndi á því að ekkert liggi fyrir um að sá réttur hafi haldist í gegnum aldirnar.  Að teknu tilliti til staðhátta og fjarlægðar frá byggð áréttar stefndi þá málsástæðu að landið hafi ekki verið numið í öndverðu, eða teljist lúta beinum eignarrétti.

Af hálfu stefnanda er til þess vísað að umrætt landsvæði sé mjög víðfeðmt svæði, að mestu háslétta, og hafi leguna norður-suður.  Bendir hann á að nyrðri hluti svæðisins liggi á milli Bleiksmýrardals að austan og Eyjafjarðardals að vestan.  Teygi hið umþrætta svæði sig suður að Laugafelli samkvæmt endanlegri kröfugerð stefnanda hér fyrir dómi.  Nyrst liggi þrír dalir til suðurs og suðausturs inn til landsins; Sandárdalur nyrst, þá Hraunárdalur og loks Sölvadalur syðstur.  Ofan dalanna taki við víðfeðmt, hallalítið, öldótt og gróðursnautt land í um og yfir 1000 metra hæð yfir sjávarmáli.  Vestan til rísi Laugafell (879 m).

Stefndi áréttar að engin gögn liggi fyrir um það að umrætt svæði hafi nokkru sinni verið nýtt til annars en sumarbeitar fyrir búfé, enda um að ræða hálent og gróðursnautt öræfasvæði, sem liggi fjarri byggð.  Þá hafi fjallskil verið á hendi sveitarfélags, landsvæðið hafi ekki verið afgirt og þangað hafi búpeningur getað leitað frá öðrum svæðum án hindrana.  Bendir stefndi á að um afnot og fjallskil hafi snemma verið settar opinberar reglur, sem sveitarstjórnum hafi verið falið að annast framkvæmd á.

Stefndi byggir á því að eldri heimildir bendi til þess að jörðin Möðruvellir hafi átt afrétt á hinu umdeilda svæði, en ekki beinan eignarrétt.  Vísar stefndi þar um einkum til áðurlýsts landamerkjabréfs Möðruvalla þar sem vísað sé sérstaklega til afréttarlands jarðarinnar innan tilgreindra marka.  Þar um vísar stefndi einnig til Jarðabókar Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1712 þar sem segir um jörðina Möðruvelli:  „Afréttarland á staðurinn fram úr Sölvadal, sem heitir Sölvadalstungur, og brúkast af öllum ábúendum Möðruvallaeigna til uppreksturs fyrir lömb og geldfje og so eru þángað stundum látnir hestar á sumur.“  Í þessu samhengi bendir stefndi enn fremur á áðurraktar lögfestur frá 18. öldinni þar sem segir að afréttur hafi fylgt jörðinni Möðruvöllum frá fornu fari.  Hið sama hafi komið fram í jarðamötum jarðarinnar frá árinu 1804 og 1849, en einnig í skrá yfir afrétti og fjárréttir í Eyjafjarðarsýslu frá 1894.  Sé þetta einnig í samræmi við fasteignamat Möðruvalla frá 1916/ 1918 þar sem m.a. sé greint frá því að jörðinni fylgi upprekstrarlöndin Sölvadalur, Hraunárdalur og Hraunártungur, en að jörðin hafi ekki tekjur af þeim, enda hafi átt frían upprekstur á afrétti hennar hinar fornu hjáleigur og kirkjujarðir.  Bendir stefndi á að sama afstaða komi fram til landsvæðisins í ýmsum yngri heimildum sem hér að framan hafi verið raktar.

Af hálfu stefnda er sérstaklega vísað til áðurrakins dóms Hæstaréttar í málinu nr. 128/1967 og byggir hann á því að af þessum dómi megi ráða, að hluti hins umdeilda landsvæðis hafi verið til umfjöllunar í því máli, þ.e.a.s. landsvæði sunnan og utan landamerkja Möðruvallaafréttar, sbr. landamerkjabréf Möðruvalla frá árinu 1886.  Tekur stefndi undir ályktunarorð óbyggðanefndar að því er dóminn varðar og bendir á  að rétturinn hafi hafnað því að málsaðilar í þessu máli hefðu sýnt fram á beinan eignarrétt sinn til umrædds landsvæðis á grundvelli þeirra gagna sem þá lágu fyrir.  Álítur stefndi að dómurinn feli í sér res judicata áhrif að því er varðar eignarréttarlega stöðu svæðisins og feli dómurinn því í sér bindandi niðurstöðu um eignarréttarlega stöðu svæðisins.

Stefndi telur að allar framangreindar heimildir bendi ótvírætt til þess að umrætt landsvæði sé ekki háð beinum eignarrétti heldur sé þar um að ræða þjóðlendu, sbr. 1. gr. laga nr. 58, 1998, sem að hluta til sé háð takmörkuðum eignarrétti (upprekstrarrétti) stefnanda, sbr. c-lið 7. gr. sömu laga.

Stefndi andmælir því að skilyrði eignarhefðar séu fyrir hendi, en þar um vísar hann m.a. til áðurgreindra sjónarmiða um nýtingu lands, staðhátta og eldri heimilda.  Áréttar stefndi að nýting svæðisins hafi í aldanna rás ekki falist í öðru en sumarbeit fyrir búfénað, en hefðbundin afréttarnot geti ekki stofnað til beinna eignarréttinda yfir landi, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar í málum nr. 103/1953, 47/2007 (Bláskógabyggð) og fyrrnefndan dóm nr. 48/2004.

Stefndi andmælir þeim málatilbúnaði stefnanda að réttmætar væntingar geti verið grundvöllur fyrir eignarréttartilkalli á umræddu landsvæði.  Segir stefndi að sú regla hafi verið leidd af Landmannaafréttardómi Hæstaréttar hinum síðari, sbr. mál nr. 199/1978, að löggjafinn sé einn bær til þess að ráðstafa réttindum yfir landsvæði utan eignarlanda.  Landslög þurfi til sölu eigna ríkissjóðs.  Athafnir eða athafnaleysi starfsmanna stjórnsýslunnar geti ekki leitt af sér slík umráð nema sérstök lagaheimild hafi verið fyrir hendi, þ.m.t. það að þjóðlenda hafi verið látin af hendi.  Réttmætar væntingar geti því ekki stofnast á þeim grundvelli sem haldið sé fram af hálfu stefnanda.  Þar að auki verði væntingarnar vitanlega einnig að vera réttmætar, þ.e. menn geta ekki haft væntingar til að öðlast meiri eða frekari réttindi en þeir geti mögulega átt rétt á.  Ef því háttar þannig til, líkt og í þessu tilviki, að m.a. staðhættir, gróðurfar og nýting lands bendi ekki til beins eignarréttar, geti réttmætar væntingar ekki stofnað til slíkra réttinda.

Þá er á það bent af hálfu stefnda, að þinglýsing heimildarskjals fyrir svæði feli ekki í sér sönnun um tilvist beins eignarréttar, sbr. þá meginreglu eignarréttarins að menn geti ekki með eignayfirfærslugjörningi öðlast betri rétt en seljandi átti.

Með vísan til framangreindra atriða, hvers um sig og saman, þá telur stefndi að ekki hafi verið sýnt fram á að niðurstaða óbyggðanefndar í máli þessu, hvað varðar hið umþrætta landsvæði, sé röng.  Stefndi bendir á að ljóst sé að einstakir hlutar svæðisins séu misjafnlega fallnir til beitar.  Beitarsvæði taki þó breytingum, auk þess sem þau séu ekki endilega samfelld.  Landsvæðið verði því talið falla undir skilgreiningu 1. gr. laga nr. 58, 1998: „landsvæði … sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfénað“.  Stefndi segir að engin gögn liggi fyrir um að landið hafi haft mismunandi eignarréttarlega stöðu og byggir stefndi á því að umrætt landsvæði, svo sem það hafi verið afmarkað í kröfugerð stefnenda, sbr. og það sem segir í niðurstöðu óbyggðanefndar, teljist þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr., laga nr. 58, 1998.

Að öðru leyti mótmælir stefndi öllum sjónarmiðum og málsástæðum stefnanda, svo sem þeim er lýst í stefnu, en byggir um leið á þeim röksemdum sem lagðar voru til grundvallar í úrskurði óbyggðanefndar í máli nr. 1/2007, og krefst þess að hann verði staðfestur.  Verði því miðað við að þjóðlendulínan verði dregin með þeim hætti sem greint sé í áðurröktum úrskurðarorðum óbyggðanefndar.

Um lagarök er af hálfu stefnda vísað til almennra reglna eignarréttar og til þjóðlendulaga nr. 58, 1998.  Þá vísar hann til 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33, 1944.  Hann byggir jafnframt á meginreglum eignarréttar um nám, töku og óslitin not, sem og meginreglum um eignarráð fasteignareiganda og á almennum reglum samninga- og kröfuréttar.  Hann byggir á hefðarlögum nr. 14, 1905, en vísar einnig til laga nr. 6, 1986 um afréttarmálefni og fjallskil.  Þá vísar hann til eignarréttarreglna Grágásar og Jónsbókar og loks til laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála, þar á meðal málskostnaðarákvæða 129. og 130. gr.

 

III.

Með lögum Alþingis nr. 58, 1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, sem tóku gildi 1. júlí 1998, var sérstakri stjórnsýslunefnd, óbyggðanefnd, falið að kanna og skera úr um hvaða landsvæði innan íslenska ríkisins teljist til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda, skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur og úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna, sbr. 7. gr. laganna.

Í 1. gr. laganna er þjóðlenda skilgreind sem landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingur eða lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi.  Í lagagreininni er eignarland skilgreint sem:  „Landsvæði sem er háð einkaeignarrétti þannig að eigandi landsins fer með öll venjuleg eignaráð þess innan þeirra marka sem lög segja til um á hverjum tíma.“  Þá er afréttur skilgreindur sem: „... landsvæði utan byggðar sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé.“

Fram að gildistöku laga nr. 58, 1998 voru ýmis landsvæði á Íslandi sem enginn eigandi var að.  Með lögunum er íslenska ríkið lýst eigandi þessara svæða, auk þeirra landsréttinda og hlunninda þar, sem aðrir eiga ekki, og þau nefnd þjóðlendur.

Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til nefndra laga, sem kölluð hafa verið þjóðlendulög, segir m.a. að þjóðlendur séu landsvæði sem nefnd hafa verið nöfnum eins og hálendi, óbyggðir, afréttir og almenningur, allt að því tilskildu að utan eignarlanda sé.  Er tilgangur laganna að leysa úr þeirri óvissu sem lengi hefur verið uppi um eignarhald á ýmsum hálendissvæðum landsins.  Eigi er áskilið að landsvæði þessi séu á miðhálendinu og ber eigi að skýra ákvæðið svo þröngt að það geti ekki tekið til landsvæða annars staðar.  Til þess er að líta að þótt land í þjóðlendum sé eign ríkisins samkvæmt framansögðu getur verið að einstaklingar, sveitarfélög eða aðrir lögaðilar eigi þar takmörkuð réttindi, en lögin raska ekki slíkum réttindum.  Þannig skulu þeir sem hafa nýtt land innan þjóðlendna sem afrétt fyrir búfénað, eða haft þar önnur hefðbundin not sem afréttareign fylgja, halda þeim rétti í samræmi við ákvæði laga þar um.  Þjóðlendulögin veita þannig ekki heimild til að svipta menn eign sinni, hvorki eignarlöndum né öðrum réttindum.

Í þjóðlendulögum er ekki að finna sérstakar reglur um það hvernig óbyggðanefnd skuli leysa úr málum, þ.e. hvaða land skuli teljast eignarland og hvað þjóðlenda.  Niðurstaða ræðst því af almennum sönnunarreglum og þeim réttarreglum sem færðar eru fram í hverju einstöku tilviki.  Það eru því grundvallarreglur íslensks eignarréttar sem gilda.

 

Samkvæmt gögnum málsins var landamerkjabréf fyrir jörðina Möðruvelli í Fram-Eyjafirði gert 28. apríl 1886.  Í bréfinu er eins og hér að framan var rakið lýst merkjum jarðarinnar gagnvart nágrannabýlum, en sum þeirra voru fornar hjáleigur.  Er merkjunum þannig lýst til norðurs gagnvart Kálfagerði og Helgastöðum, en til suðausturs gagnvart Fjósakoti (Hríshól), Skriðu og Stekkjarflötum, en ,,þar fyrir ofan“, þ.e. til austurs í átt að Möðruvallafjalli, er sagt að land nefndra jarða sé óskipt, og jafnframt að merkin fari þar ,,eptir háfjallinu“. Til vesturs eru merkin miðuð við Eyjafjarðará.  Til suðurs gagnvart landnámsjörðinni (G)Núpufelli, er sagt að Núpá ráði merkjum, og er m.a. sagt að þau séu við miðjan ,,Núpárgilskjapt“. Þá segir í bréfinu um jarðeign Möðruvalla: Afrjettarland á jörðin frá Sandá, allan Sölvadal að austan og Sandárdal að vestanverðu og Hraunárdal allan báðu megin og þaðan suður á fjall, að svo nefndu „Laugafelli“. ... Einnig hafa hinar fornu hjáleigur jarðarinnar brúkað afrjettarland hennar handa geldpeningi sínum á sumrum borgunarlaust.

Fyrir dómi hefur stefnandi krafist þess að úrskurður óbyggðanefndar verði felldur úr gildi, að því er varðar afréttarland Möðruvalla, þ.e. að í Sölvadal, Sandárdal og Hraunárdal og á hálendissvæðinu þar til suðurs sé þjóðlenda, en í afréttareign jarðarinnar.  Krefst stefnandi þess að landsvæðið verði viðurkennt sem eignarland Möðruvalla, en um suðurmörkin miðar hann við Laugafell.

Í málinu er ekki ágreiningur um að Möðruvallaafréttur í Sölvadal takmarkist til norðurs við eignarland Ánastaða við Sandá í Sandárdal og fari þaðan til norðausturs og miðist þar við afréttarland Ánastaða og síðan afréttarland jarðanna Stóra-Hamars I og II og Rifkelsstaða I og II.  Þá er ekki ágreiningur um að til austurs takmarkist landsvæðið gagnvart vesturhluta Bleiksmýrardals og afréttarlands Þingeyjarsveitar við sveitarfélagsmörk og sýslumörk Eyjafjarðar- og Suður-Þingeyjarsýslna og taki m.a. mið af vatnaskilum. Til suðurs eru samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar mörk afréttarins miðuð við vatnaskil Sölvadals á hálendissvæðinu nokkuð framan fjallsbrúna, en sagt er að landsvæðið þar sunnan við sé þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr., laga nr. 58,1998.  Til vesturs er ekki ágreiningur um að mörkin fari eftir háhrygg Tungnafjalls og liggi því að eignarlandi Núpufells í Núpufellsdal, en fari síðan til norðurs og liggi að afréttarlandi Æsustaða í Sölvadal og fari eftir það til norðurs, með Sölvadalsá og allt að ármótum hennar og fyrrnefndrar Sandár.  Að því er varðar suðvesturmörk landsvæðisins er af hálfu stefnanda miðað við mörk Hólaafréttar.

 

Í úrskurði óbyggðanefndar er staðháttum umrædds landsvæðis lýst að nokkru.  Segir í úrskurðinum að landið sunnan Sandárdals, Hraunárdals og Sölvadals sé að mestu háslétta og hafi leguna norður suður.  Enn fremur segir að þar sé landið víðfeðmt, hallalítið, öldótt og gróðursnautt og liggi í um og yfir 1000 m hæð.  Vestan til rísi Laugafell (879 m) en til suðurs og suðausturs frá því liggi stórvaxnari öldur og meiri um sig, svonefndar Háöldur (767-854 m). Þá segir að Núpufellsdalur/Þormóðsstaðadalur sé vestan Fram-Sölvadals, en þar í milli sé Tungnafjall (900-1000 m).

Í Lýsingu Eyjafjarðar I, sem Steindór Steindórson náttúrufræðingur gaf út 1949, er Sölvadal lýst og þar á meðal því svæði sem afmarkað er sem Möðruvallaafréttur.  Einnig er þar vikið að Núpufellsdal/Þormóðsdal.  Segir þar m.a.:

... Sölvadaldur skerst út úr Eyjafirði fyrir sunnan Möðruvelli.  Liggur hann að mestu til suðurs, og er mjög samhliða Eyjafjarðardal.  Hann er um 25 km langur.  Dalurinn dregur nafn sitt af geltinum Sölva, sem frá var skýrt í Landnámu, og Helgi magri setti á land við Galthamar ásamt gyltu, og fann þremur vetrum síðar í Sölvadal, og voru þá sjö tugir svína.

Svo er talið, að Sölvadalur hefjist við Hlífá, þversprænu sem fellur niður í Núpá, spottakorn fyrir sunnan bæinn Stekkjarfleti.  Er dalurinn allbreiður, þegar kemur inn fyrir mynnið, og undirlendi nokkurt og grösugt víða; mest er flatlendi þó fyrir neðan Ánastaði.  …  Í dalsmynninu hefur hún (Núpá) grafið sér klettagil mikið, og rennur hún fram úr því á breiðum eyrum milli Gnúpufells og Möðruvalla.  Gil helst að henni fram eftir dalnum, allt fram hjá Sandá.  Eru þó víða í því grashvammar og brekkur, og er heyjað í sumum þeirra.  Fyrst fyrir framan Sandá fellur hún á eyrum.  Yfirleitt er Núpá ill yfirferðar og hefir löngum þótt illur farartálmi í vatnavöxtum, sakir straumhörku og stórgrýtis.  Þá er og Illagil vondur farartálmi, eins og nafnið bendir til.  …  Austurhlíð Sölvadals inn frá Hlífá heitir Finnastaðaheiði; Er þar allmikið flatlendi uppi á fjallinu upp að Efra-Fjalli;  Er þar gróið, og var heyjað þar fyrrum.  Nær hún inn að Illagilsá, sem kemur úr stuttum þverdal, er Illagilsdalur heitir.  Fjallið fyrir innan hann heitir Kerhólsöxl.  Nokkru þar fyrir innan klofnar dalurinn í tvo dali, álíka djúpa.  Heldur hinn eystri þeirra nafninu.  Skammt fyrir innan dalmótin fellur Sandá úr Sandárdal;  Rétt fyrir innan hana er foss í aðalánni, og heitir hann Sandárfoss.  Innan að honum heitir áin Núpá, en Sölvadalsá þar fyrir innan.  Enn fellur þverá að norðanverðu í Sölvadalsá og heitir hún Hrauná, rennur í stuttum dal, er ber nafn hennar, og klofnar hann fremst í Austurgil og Runa.  Allir þessir þrír afdalir eru nokkuð grónir, einkum austurhlíðar þeirra.  Fjallið vestan að Sölvadal heitir Tungnafjall, en hlíðin gegnt Hraunárdal Æsustaðatungur, en Hraunártungur framar. 

Vestari dalurinn heitir Núpufellsdalur að austanverðu, en Þormóðsstaðadalur að vestanverðu, en áin Þormóðsstaðaá.  Ná Æsustaðatungur niður að henni.

Við meðferð málsins fór dómari á vettvang ásamt lögmönnum og staðkunnugum aðilum.

 

Sölvadalur er suðaustan við höfuðbýlin í Fram-Eyjafirði, austan Eyjafjarðarár, þ.e. Núpufells, sunnan Núpár og Möðruvalla handan hennar.  Eru til heimildir um byggð í dalnum, bæði fornar og nýjar.

Vestan Núpár, nokkru fyrir sunnan dalsmynnið, er býlið Seljahlíð.  Það fór í eyði 1936, en hefur verið byggt upp aftur.  Um 2 km sunnar er býlið Eyvindarstaðir, en samkvæmt munmælum var þar til forna bænahús.  Nokkru sunnar, til móts við Ánastaðaland handan Núpár, er býlið Draflastaðir, en í landi þess er skilarétt Sölvadals að vestan.  Jörðin Þormóðsstaðir er við dalsmynni Sölvadals og Þormóðsdals, en þar eru og ármynni samnefndra áa og Núpár. Gegnt jörðinni handan Núpár er land Ánastaða, en þar til suðausturs og handan Tungnafjalls er fyrrnefndur Möðrudalsafréttur, en einnig Æsustaðastungur.  Framan Þormóðsstaða og samnefnds sels, sem er þar í túnjaðrinum, er Þormóðsstaðadalur.  Samkvæmt heimildum var Þormóðsstaðajörðin í lok 14. aldar færð undir Núpufellskirkju með gjafagerningi.  Þá segir í heimildum frá 16. öld að jörðin hafi með kaupgerningi fallið til Núpufellsjarðeiganda, en hún mun þá hafa verið í eyði.  Í Þormóðsstaðaseli mun hafa verið búið á árunum 1835 til 1909.  Samkvæmt jarðamati 1849 var Þormóðsstaðajörðin metin á 12 forn hundruð, en selið á 17 forn hundruð.

Samkvæmt Jarðabók Árna og Páls frá 1712, sem er í samræmi við síðari heimildir, tilheyrir Þormóðsstaðadalur vestan samnefndrar ár Þormóðsstöðum og nefndu seli, en austurhluti dalsins, sem nefndur er Núpufellsdalur, sbr. m.a. landamerkjabréf Núpufells frá 1892, er sagður afréttarland Núpufells.  Mörk afréttarlandsins til suðurs eru samkvæmt nefndum gögnum við fremstu dalsdrög.

Frá heimalandi Þormóðsstaða og ármótum Núpár og Sölvadalsár að dalsdrögum Þormóðsstaðadals/Núpufellsdals eru um 16 km í beinni sjónlínu, en frá bæjarhúsum Núpufells að nefndri jörð eru um 9 km í beinni sjónlínu.

Það var niðurstaða í máli óbyggðanefndar nr. 1/2008, í úrskurði 19. júní 2009, að land í Núpufellsdal/Þormóðsstaðadal væri eignarland Núpufells.

 

Möðruvellir í Eyjafirði er kirkjustaður og fornt höfuðból eins og áður er fram komið.  Samkvæmt heimildum bjuggu þar á fyrstu öldum Íslandsbyggðar og a.m.k. fram á miðaldir efnafólk.  Á 10. og 11 öld bjuggu á jörðinni m.a. áðurnefndir Eyjólfur Valgarðsson og sonur hans Guðmundur ríki, en einnig Eiríkur auðgi Magnússon og Ormur Snorrason.  Á 14. og 15. öldinni bjuggu á jörðinni Loftur Guttormsson og sonur hans Þorvarður ríki og kona hans, hustru Margrét Vigfúsdóttir, svo og dóttir þeirra og tengdasonur, Páll Brandsson sýslumaður.

Samkvæmt gögnum, þ. á m. Jarðabók Árna og Páls frá 1712, var Möðruvallajörðin um aldir metin sem mjög verðmæt jörð.  Var réttinda hennar ítrekað getið í lögfestum og jarðamötum eins og hér að framan hefur verið lýst.  Í skiptabréfi á eignum afkomenda fyrrnefnds Þorvarðar Loftsonar ríka frá 1560 er greint frá því að jörðin hafi verið metin á 140 hundruð.  Segir frá því að við skiptin hafi m.a. fylgt jörðinni fjölmargar hjáleigur.  Á meðal þeirra eru afbýli og hjáleigur sunnan Möðruvalla og austan Núpár í Sölvadal.  Eru þar á meðal jörðin Hríshóll með eyðibýlinu Skriðu, en við mynni Sölvadals jörðin Stekkjarfletir, en hún á land að Hlífá.  Þar sunnan við, í Sölvadal, er í heimildum nefnd jörðin Björk, og er sagt að þar hafi verið skógarnytjar.  Mun sá skógur hafa verið gjöreyddur fyrir 1700, en jörðin fór í eyði 1935.  Millum Hlífár og Íllagils er getið um jörðina Finnastaði, en þar mun hafa verið bænahús.  Býlið fór í eyði 1934.  Þar sunnan við, á móti landi Eyvindarstaða vestan Núpár, er jörðin Kerhóll.  Samkvæmt munnmælum voru í landi hennar kirkja og prestssetur, en samkvæmt heimildum er víst að þar var bænhús.  Í landi jarðarinnar eru tvö vöð á Núpá, en hún fór í eyði 1930.  Loks er í nefndu skiptabréfi getið um hjáleiguna Ánastaði, en land hennar hefst við Merkjahvamm og nær það suður að Sandá í Sandárdal samkvæmt landamerkjabréfi frá 1887.  Þar sunnan við er margnefndur Möðruvallaafréttur.  Við svonefndan Lækjarós í landi Ánastaða eru Réttarhólar, en milli hólanna var skilarétt fyrir Sölvadal austanverðan.  Nautahvammur er suður og fram með réttinni.  Sunnarlega í landi Ánastaða var býlið Agnúastaðir, en þar í túninu eru svonefndir Kvíhólar.  Eru heimildir um að jörðin hafi farið í eyði um 1640, en samkvæmt gögnum var landið um langa hríð nytjað af ábúendum Ánastaða.  Samkvæmt gögnum voru Agnúastaðir í byrjun 19. aldar taldir eign Ánastaða.

Samkvæmt jarðamati 1849 var jörðin Ánastaðir metin á 17 forn hundruð, Kerhóll á 12, Finnastaðir á 30, Björk á 20, Stekkjarfletir á 20 og Skriða á 10 forn hundruð.  Ítrekað kemur fram í heimildum að nefndar hjáleigujarðir eigi frían upprekstur í afrétt Möðruvalla.

Af gögnum verður ráðið að landgæðum fyrrgreindra hjáleigujarða hafi hrakað eftir því sem aldirnar liðu og hafi það ekki síst verið vegna versnandi tíðarfars en einnig sökum þess að víða er skriðu- og snjóflóðahætt í Sölvadal.  Eru m.a. heimildir um skriður í landi Bjarkar, en einnig um ægileg snjóflóð í landi Ánastaða 1871 og 1881.

Afréttir Möðruvalla eru í Jarðabók Árna og Páls nefndar Sölvadalstungur.  Að áliti dómsins má ætla að afrétturinn sé kenndur við örnefni, sem nefnast Hrauntungur, sem eru beggja vegna Sölvadalsár, framan Hraunár.  Afréttarins er ítrekað getið í heimildum, en í áðurröktu landamerkjabréfi frá 1886 er mörkum hans nánar lýst eins og áður er rakið.  Samkvæmt fyrrnefndri heimild frá miðri 20. öld eru dalir Möðruvallaafréttar nokkuð grónir, einkum austurhlíðar þeirra, en um gróðurfar almennt er það að segja að vafalaust er talið að við upphaf landnáms hafi gróðurþekja á Íslandi verið mun meiri að víðáttu og grósku en nú er.

Engar heimildir eru um byggð í afrétti Möðruvalla, en fremsta jörðin í austanverðum Sölvadal mun hafa verið fyrrnefndir Agnúastaðir, sem fór í eyði á 17. öld.  Jörðin var skammt norðan Sandárdals.

Samkvæmt örnefnaskrá Saurbæjarhrepps og skýrslu Fornleifastofnunar Íslands um menningarminjar á miðhálendinu eru örnefni í Möðruvallaafrétti sem vísa til búskaparnytja.  Þannig segir að Geldingagilshöfði sé við Sandárhóla en að Geldingagil sé á Hraunáreyrum.  Þá segir að sunnar í afréttinum sé flatlendi, en síðan taki við skriðuhryggir fram að svokölluðum Nautagarði.  Vikið er að því að munnmæli séu um að Guðmundur ríki á Möðruvöllum hafi látið menn sína hlaða garðinn.  Greint er frá því að framan við Nautagarðinn séu skriðuhryggir, en þar hjá, í nesi við ána, sé svonefndur Tjaldsteinn, og við hann sé hlaðinn grjóthringur eða byrgi, sem grasafólk hafi hlaðið eða tjaldað.

 

Frá höfuðbýlinu Möðruvöllum að norðurmörkum afréttarins, við ármót Sandár og Sölvadalsár, eru um 12 km í beinni sjónlínu.  Frá ármótunum að dalsdrögum Sölvadals eru um 12 km í beinni sjónlínu, en þaðan eru rúmir 30 km að Laugafelli.

 

Samkvæmt Landnámu námu Helgi magri og Þórunn hyrna Eyjafjörð.  Þau skiptu landi á meðal ættmenna sinna og gáfu m.a. Hrólfi syni sínum öll lönd fyrir austan Eyjafjarðará frá Arnarhváli upp ok bjó hann í Gnúpufelli og reisti þar hof mikið.  Af frásögninni má ráða að neðri mörk lands Hrólfs hafi verið um Arnarhvol, en hann heitir nú Arnarhóll, allstór hóll við Eyjafjarðará niður af býlinu Fellshlíð.  Að mati dómsins eru líkur til þess, m.a. í ljósi tilfærðra orða Landnámu, að auk austurhlíðar Eyjafjarðardalsins hafi Hrólfur fengið í sinn hlut þá dali sem ganga inn af hlíðinni og þar á meðal Mjaðmárdal og Sölvadal.  Er þetta m.a. í samræmi við áttatáknanir í fornritum, sbr. m.a. alþekktar fræðiritgerðir dr. Stefáns Einarssonar, prófessors í íslenskum fræðum, sem m.a. birtust í Skírni um miðbik síðusu aldar.

Á meðal sona Hrólfs Helgasonar var Hafliði hinn örvi, sem fyrstur er sagður hafa byggt Möðruvelli, grannjörð Gnúpufells, handan Núpár.

 

Hér að framan hefur staðháttum, byggð, gróðurfari og nýtingu verið lýst í Sölvadal, vestan og austan Núpár, en einnig þar fyrir framan.  Sölvadalurinn skiptist, eins og áður er komið fram, í tvo meginafdali, í um 300 m hæð yfir sjávarmáli.  Er annars vegar um að ræða Þormóðsdal/Núpufellsdal að vestan og hins vegar Sölvadal fremri að austan, með dalskorunum Sandárdal og Hraunárdal.  Tekur síðarnefnda landsvæðið m.a. yfir Möðruvallaafrétt.  Að mati dómsins eru landgæði sambærileg í þessum framdölum Sölvadals, og er t.d. ekki um verulegan hæðarmun eða farartálma að ræða fram að dalsdrögum þeirra.  Til þess er að líta að dalbotn Þormóðsdals/Núpufellsdals er um 3 km sunnar en botn Sölvadals hins fremri.

Af gögnum, þ. á m. skýrslum fyrir óbyggðanefnd, verður ráðið að fjallskil í Sölvadal og afdölum hans og þar fyrir framan taki fljótt af og sé lokið á einum degi, en að næsta dag séu heimalönd smöluð.

Að áliti dómsins liggur ekki annað fyrir en að landeigendur Möðruvalla hafi ásamt ábúendum fyrrum afbýla jarðarinnar nýtt Möðruvallaafrétt eftir búskaparháttum og aðstæðum á hverjum tíma, líkt og ætla má að jarðeigendur og ábúendur hafi nýtt Þormóðsdal/Núpufellsdal.

Að áliti dómsins verður í ljósi fyrrgreindrar niðurstöðu óbyggðanefndar um eignarrétt landeiganda (G)Núpufells, svo og Þormóðsstaða, að landi í Þormóðsdal/Núpufellsdal ráðið, að þar hafi ekki síst legið til grundvallar frumlandnám í upphafi Íslandsbyggðar.  Samkvæmt úrskurði nefndarinnar eru fremstu mörk eignarlandsins miðuð við dalsdrög og vatnaskil í rúmlega 900 m hæð yfir sjávarmáli.  Er um það einkum stuðst við landamerkjabréf Núpufells frá 1890 og Þormóðsstaðasels frá sama ári.  Til austurs eru í úrskurðinum mörk eignarlandsins miðuð við háhrygg Tungnafjalls, en gegnt því er það landsvæði, sem stefnandi krefst eignarréttar yfir, á Möðruvallaafrétti.

 

Þegar framangreind atriði eru virt í heild, m.a. frásögn Landnámu um landnám í Eyjafirði og hin sögulegu tengsl Möðruvalla við hjáleigurnar í Sölvadal austan ár, er að áliti dómsins líklegt að það landsvæði sem nefnt er Möðruvallaafréttur hafi verið numið við upphaf Íslandsbyggðar.  Að þessu sögðu verður að áliti dómsins ekki sú ályktun dregin að tvískipting á landi Möðruvalla, sem lýst er í landmerkjabréfi jarðarinnar frá 1886, eigi að leiða til mismunar á eignarréttarlegri stöðu jarðarinnar.  Er að því leyti m.a. horft til hins sambærilega landsvæðis í Þormóðsdal/Núpufellsdal.

Að öllu framangreindu virtu verður fallist á með stefnanda að Möðruvallaafréttur hafi tilheyrt Möðruvallajörðinni með sama hætti og annað land hennar og sé því eignarland í skilningi 1. gr. þjóðlendulaga.  Ræður því ekki úrslitum nafngift landsvæðisins.  Þykir í þessu viðfangi fært að líta til dóma Hæstaréttar Íslands, sbr. m.a. í málum nr. 536/2006, 722/2009 og 723/2009.  Hefur stefndi að áliti dómsins ekki sýnt fram á með málsástæðum sínum að það landsvæði, sem kröfugerð hans í máli þessu tekur til, og grundvallast m.a. á niðurstöðu óbyggðanefndar í máli nr. 1/2008, sé allt þjóðlenda. Er kröfum stefnda, íslenska ríkisins, að því leyti til hafnað.

Í dómum sínum hefur Hæstiréttur Íslands í sambærilegum málum margoft vikið að gildi landamerkjabréfa, sbr. m.a. mál nr. 48/2004.  Er það m.a. niðurstaða réttarins að þótt landamerkjabréf hafi verið gert fyrir svæði, beri við mat á gildi slíkra bréfa að gæta að því, að landamerkjabréf fela fyrst og fremst í sér sönnun um mörk milli eigna, en í því felst á engan hátt að allt land innan merkja skuli teljast óskorað eignarland.  Og þrátt fyrir að bréfinu hafi verið þinglýst, þá takmarkast gildi þinglýsingar af því, að ekki er unnt að þinglýsa meiri rétti en viðkomandi á, enda geti menn ekki einhliða aukið við land sitt eða annan rétt.

Eins og áður er rakið er í elstu heimildum um land Möðruvalla í nefndum afrétti kveðið á um takmörk þess til suðurs.  Í Jarðabók Árna og Páls frá 1712, en einnig í áðurrakinni lögfestu jarðarinnar frá 1755, eru mörkin sögð vera við Sandárdal og Hraunárdal og fram að dalsdrögum í Sölvadal.  Eru suðurmörkin að því leyti í samræmi við mörkin í Þormóðsdal/Núpufellsdal, sbr. fyrrgreind landamerkjabréf jarðanna Núpufells og Þormóðsstaða, en þar er eins og áður er rakið sagt að þau miðist við dalsdrög til suðurs, en að vestan við fjallið. 

Hálendissvæðin og fjöllin austan, sunnan og vestan greindra dala Möðruvallaafréttar eru samkvæmt gögnum í um 900-1000 m hæð yfir sjávarmáli.  Er fjalllendið ofan fjallsbrúnanna gróðurlaust að kalla og eru því harla skörp skil af náttúrunnar hendi milli gróðurlendis og hins ógróna fjalllendis.  Samkvæmt gögnum, sem óbyggðanefnd aflaði frá vatnamælingum Veðurstofu Íslands, eru vatnaskil í um 916 til 974 m hæð á hásléttunni framan Þormóðsdals/Núpufellsdals og Sölvadals.

Að þessu virtu, svo og röksemdum stefnda, þ. á m. um gildi landamerkjabréfa, um eignarhefð og réttmætar væntingar, er að áliti dómsins ekki unnt að fallast á með stefnanda að eignarréttur Möðruvalla nái til hálendissvæðisins austan og sunnan Sölvadals og dalverpa hans.  Ekki er ágreiningur um að mörk svæðisins til vesturs séu á háhrygg Tungnafjalls, gegnt eignarlandi Núpufells í samnefndum dal.

 

Með vísan til alls framangreinds, svo og kröfugerðar aðila í máli þessu, er það niðurstaða dómsins að fella beri úrskurð óbyggðanefndar frá 19. júní 2009, í máli nr. 1/2008, úr gildi að því er varðar mörk eignarlands Möðruvalla og þjóðlendu á lýstu svæði, sbr. a-lið 7. gr. laga nr. 58, 1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda og afrétta. 

Og samkvæmt ofansögðu er viðurkennt að neðangreint landsvæði sé háð beinum eignarrétti eiganda Möðruvalla, stefnanda, en um mörk svæðisins skal fara svo sem hér greinir, sbr. framlögð merkjakort óbyggðanefndar:  Að norðan er merkjum fylgt til suðausturs úr ármótum Sölvadalsár og Sandár (punktur 1) og er farið með Sandá til upptaka, gegnt eignarlandi Ánastaða (punktur 2) og áfram með sömu stefnu með gildrögum norðan Hraunárdals þangað til komið er til móts við drög Hraunárdalsár í um 1000 m hæðarpunkti.  Þá er farið til suðsuðvesturs í beinni línu, sem miðast við árdrög Hraunárdalsár og Sölvadalsár og í hæðarpunkt sem er hornmark við merki Núpufellsdals (punktur 7).  Þá er farið í norður eftir háhrygg Tungnafjalls (punktur 8) og allt að merkjum Æsustaðatungna (punktur 9), en síðan er farið til austurs í Sölvadalsá.  Þá er ánni fylgt til norðurs að fyrrnefndum ármótum Sandár og Sölvadalsár (punktur 1).

Sá hluti landsvæðis, sem stefnandi gerir kröfu til og liggur fyrir norðaustan, austan og suðaustan ofangreint eignarland Möðruvalla, er samkvæmt framangreindu þjóðlenda.  Eru mörk svæðisins sem hér segir:  Að norðan frá hornmarki eignarlands Ánastaða og afréttarlands sömu jarðar (punktur 2) er farið í línu með stefnu til norðausturs að hornmarki afréttarlanda Stóra-Hamars I og II og Rifkelsstaða I og II.  Þá er farið til suðausturs í sveitarfélagsmörk milli Eyjafjarðarsveitar og Þingeyjarsveitar (punktur 3).  Síðan er sveitarfélagamörkum, sem liggja nokkurn veginn á vatnaskilum milli Eyjafjarðarár og Fnjóskár, fylgt til suðurs þar til vatnaskilin fara að beygja til vesturs en frá þeim punkti er farið til norðvesturs í hornmark við merki Núpufellsdals og Sölvadals (punktur 7).  Þá er farið til norðurs og norðvesturs og fylgt áðurnefndri línu, sem fer með drögum Sölvadalsár, Hraunárdalsár og gildrögum norðan Hraunárdals, og allt að fyrrgreindu hornmarki við eignar- og afréttarland Ánastaða (punktur 2).  Sama landsvæði er í afréttareign eiganda Möðruvalla, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. laga 58,1998.

Sá hluti landsvæðis sem liggur fyrir sunnan land, sem markast frá hornpunkti Núpufellsdals og Sölvadals (punktur 7) í stefnu til suðausturs að sveitarfélagsmörkum á milli Eyjafjarðarsveitar og Þingeyjarsveitar nærri vatnaskilum, eins og lýst var hér að framan, er þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr., laga nr. 58,1998.  Er úrskurður óbyggðanefndar að því leyti staðfestur.

Málskostnaður fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun lögmanns hans, Gunnars Sólness hæstaréttarlögmanns, sem þykir eftir atvikum hæfilega ákveðin 1.129.500 krónur, og er þá virðisaukaskattur meðtalinn.  Samkvæmt 2. mgr. 127. gr. laga nr. 91, 1991 kemur aðeins í hlut dómstóla að ákveða þóknun handa lögmanni gjafsóknaraðila og á því ekki að réttu lagi að taka afstöðu til útlagðs kostnaðar hans í dómi.

Fyrir uppkvaðningu dómsins var gætt ákvæða 115. gr. laga nr. 91, 1991.

Dóm þennan kveður upp Ólafur Ólafsson héraðsdómari.

 

D Ó M S O R Ð :

Úrskurður óbyggðanefndar frá 19. júní 2009 í máli nr. 1/2008 að því er varðar mörk eignarlands afréttar Möðruvalla í Eyjafjarðarsveit og þjóðlendu er felldur úr gildi.  Er viðurkennt að neðangreint landsvæði sé háð beinum eignarrétti eiganda Möðruvalla.  Um mörk svæðisins skal fara svo sem hér greinir, sbr. framlögð merkjakort óbyggðanefndar:  Að norðan er merkjum fylgt til suðausturs úr ármótum Sölvadalsár og Sandár (punkur 1) og er farið með Sandá til upptaka, gegnt eignarlandi Ánastaða (punktur 2) og áfram með sömu stefnu með gildrögum norðan Hraunárdals þangað til komið er til móts við drög Hraunárdalsár í um 1000 m hæðarpunkti.  Þá er farið til suðsuðvesturs í beinni línu, sem miðast við árdrög Hraunárdalsár og Sölvadalsár og í hæðarpunkt sem er hornmark við merki Núpufellsdals (punktur 7).  Þá er farið í norður eftir háhrygg Tungnafjalls (punktur 8) og allt að merkjum Æsustaðatungna (punktur 9), en þaðan er farið til austurs í Sölvadalsá.  Þá er ánni fylgt til norðurs að fyrrnefndum ármótum Sandár og Sölvadalsár (punktur 1).

Sá hluti landsvæðis, sem stefnandi gerir kröfu til og liggur fyrir norðaustan, austan og suðaustan ofangreint eignarland Möðruvalla, er þjóðlenda.  Skal um mörk þess fara svo:  Að norðan frá hornmarki eignarlands Ánastaða og afréttarlands sömu jarðar (punktur 2) er farið í línu með stefnu til norðausturs að hornmarki afréttarlanda Stóra-Hamars I og II og Rifkelsstaða I og II.  Þá er farið til suðausturs í sveitarfélagsmörk milli Eyjafjarðarsveitar og Þingeyjarsveitar (punktur 3).  Síðan er sveitarfélagamörkum, sem liggja nokkurn veginn á vatnaskilum milli Eyjafjarðarár og Fnjóskár, fylgt til suðurs þar til vatnaskilin fara að beygja til vesturs en frá þeim punkti er farið til norðvesturs í hornmark við merki Núpufellsdals og Sölvadals (punktur 7).  Þá er farið til norðurs og norðvesturs og fylgt áðurnefndri línu, sem fer með drögum Sölvadalsár, Hraunárdalsár og gildrögum norðan Hraunárdals, og allt að fyrrgreindu hornmarki við eignar- og afréttarland Ánastaða (punktur 2).  Sama landsvæði er í afréttareign eigenda Möðruvalla, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr.  laga 58,1998.

Sá hluti landsvæðis sem liggur fyrir sunnan land sem markast frá hornpunkti Núpufellsdals og Sölvadals (punktur 7) í stefnu til suðausturs að sveitarfélagsmörkum á milli Eyjafjarðarsveitar og Þingeyjarsveitar nærri vatnaskilum, eins og lýst var hér að framan, er þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr., laga nr. 58, 1998.

Málskostnaður fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun lögmanns hans, Gunnars Sólness hæstaréttarlögmanns, 1.129.500 krónur.

 

 

                                                         Ólafur Ólafsson.

Dómsorðið er lesið í heyranda hljóði að viðstöddum lögmanni stefnanda Gunnari Sólnes hrl. og er honum afhent afrit dómsins.  Lögmanni stefnda var gert viðvart um uppkvaðningu dómsins með tíðkanlegum hætti.

                                                         Dómþingi slitið.

 

                                                         Ólafur Ólafsson.