- Stjórnvaldsákvörðun
- Tollskrá
D Ó M U R
Héraðsdóms Reykjavíkur 25. nóvember 2013 í máli nr. E-278/2012:
Skakkiturn ehf.
(Páll Rúnar M. Kristjánsson hdl.)
gegn
íslenska ríkinu
(Óskar Thorarensen hrl.)
Mál þetta var höfðað 20. janúar 2012 og dómtekið 7. nóvember 2013.
Stefnandi er Skakkiturn ehf., Laugavegi 182, Reykjavík en stefndi er íslenska ríkið, Arnarhvoli, 150 Reykjavík.
Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefnda verði gert að greiða stefnanda 496.321 krónu með almennum vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 16. janúar 2012 til greiðsludags. Að auki krefst stefnandi dráttarvaxta af þeirri fjárhæð, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 24. janúar 2012 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Stefndi gerir þá kröfu að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst stefndi málskostnaðar.
I.
Málavextir
Stefnandi er umboðsaðili fyrir vörur Apple fyrirtækisins á Íslandi. Meðal þeirra vara sem stefnandi flytur inn er iPod Nano en tækið gengur án ytri orkugjafa og er tengjanlegt við gagnavinnsluvél (tölvu). Um er að ræða svokallaðan MP3 tónlistarspilara sem inniheldur ýmis forrit tengd hljóðafspilun bæði fyrir hljóðbækur og tónlist og móttaka fyrir FM-útvarpssendingar, forrit tengd íþróttum og skrefamæli. Einnig er klukka. í tækinu Tækið er með myndskjá sem sýnt getur kyrrmyndir og vídeó. Þá hefur tækið tengimöguleika við aðrar Apple vörur í gegnum USB-tengi og iTunes forrit framleiðanda. Varan kemur í pakkningu með heyrnartólum og USB-snúru.
Tækið var áður flokkað í tollflokk 8521.9029 sem „myndupptökutæki eða myndflutningstæki (video), einnig með innbyggðum myndmóttakara (video tuner). Annað.“ Um svokallað afspilunartæki væri að ræða með örlitlum skjá með möguleika á myndflutningi.
Þann 1. nóvember 2011 tóku gildi lög nr. 121/2011 sem fólu m.a. í sér breytingu á tollalögum nr. 88/2005. Breytingin tók m.a. til tollskrárinnar í viðauka I við tollalögin. Opnuð voru ný tollskrárnúmer, m.a. fyrir afspilunartæki þar sem almennir tollar og vörugjöld voru felld niður. Var þetta tilkynnt með auglýsingu nr. 154/2011 um breytingu á viðauka I við tollalög nr. 88/2005. Eitt hinna nýju númera sem naut þessa hagræðis var 8519.8110 en yfirheiti þess er „hljóðupptöku- eða hljóðflutningstæki, með undir heitið, sem geta gengið án ytri orkugjafa og eru tengjanleg við gagnavinnsluvélar.“
Þann 4. nóvember 2011 sótti stefnandi um svokallað „bindandi álit tollstjóra um tollflokkun vöru“, á grundvelli 21. gr. tollalaga, m.a. fyrir iPod Nano MP3 spilarann. Með bindandi áliti tryggir innflytjandi sér fyrir fram að tollflokkun vöru sé rétt og í samræmi við lög og túlkun tollyfirvalda. Hann veit þannig við innflutning vöru hvaða gjöld teljast réttilega álögð lögum samkvæmt. Unnt er að kæra slíka ákvörðun tollstjóra til ríkistollanefndar.
Niðurstaða tollstjóra, dagsett 21. nóvember 2011, var á þá leið að tollflokka bæri iPod Nano MP3 spilarann í tollflokk 8527.1309. Byggði tollstjóri á túlkunarreglum 1 og 6 við tollskrána. Tollflokkur 8527 ber yfirheitið „móttökutæki fyrir útvarpssendingar, einnig sambyggð, í sama hylki, með hljóðupptöku- eða hljóðflutningsbúnaði eða klukku:“ undirheiti er „útvarpsviðtæki sem geta gengið án ytri orkugjafa“ en vöruliður nr. 1309 er „önnur“. Samkvæmt tollskrá ber vara sem fellur í þennan tollflokk almenna tolla og vörugjöld. Í almennum reglum um túlkun tollskrárinnar segir annars vegar í reglu 1; „Fyrirsagnir á flokkum, köflum og undirköflum eru einungis til leiðbeiningar. Í lagalegu tilliti skal tollflokkun byggð á orðalagi vöruliða, athugasemda við tileyrandi flokka eða kafla“ og brjóti það eigi í bága við orðalag vöruliða eða athugasemda skal fylgt reglum 2-6, og hins vegar segir í reglu 6; „Í lagalegu tilliti skal flokkun vara í undirliði einstakra vöruliða byggð á orðalagi undirliðanna og sérhverri tilheyrandi athugasemda við undirliði og, að breyttu breytanda, framangreindum reglum, með því fororði að aðeins jafnsettir undirliðir verða bornir saman. Viðkomandi athugasemdir við flokka og kafla gilda einnig með tilliti til þessarar reglu, nema annað leiði af orðalagi“.
Stefnandi máls þessa vildi ekki una ákvörðun tollstjóra samkvæmt bindandi áliti hans og höfðaði því þetta mál.
II.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir á því að bindandi álit tollstjóra frá 21. nóvember sl. sé rangt enda liggi rangar forsendur til grundvallar tollflokkun iPod Nano MP3 spilarans. Að auki telji stefnandi að umrædd ákvörðunartaka tollstjóra hafi verið annmörkum háð og því sé hún ógildanleg. Stefnda beri því að endurgreiða stefnanda þau gjöld sem innheimt hafi verið á grundvelli hinnar röngu ákvörðunar. Þrátt fyrir að tækið iPod Nano hafi þann eiginleika að geta numið útvarpssendingar sé sá eiginleiki langt frá því að vera það einkennandi fyrir vöruna að hann geti ráðið tollflokkun hennar. Röng tollflokkun á iPod Nano MP3 spilaranum valdi því að varan beri hærri vörugjöld en stefnandi telji rétt. Stefnandi hafi því mikla fjárhagslega hagsmuni af því að fá bindandi áliti tollstjóra hnekkt ásamt endurgreiðslu þeirra gjalda sem stefnandi hefur þegar greitt samkvæmt hinni röngu tollflokkun.
Stefnandi bendi á að með lögum nr. 121/2011 hafi verið gerðar breytingar á tollskrá sem hafi falið það í sér að tiltekin tollskrárnúmer hafi verið búin til með skilgreiningum sem áður hafi ekki verið til. Hafi þessir nýju flokkar náð m.a. til afspilunartækja sem hafi engan toll borið. Yfirlýst markmið löggjafans hafi verið að fella niður tolla á afspilunartækjum. Hafi breytingunni því fyrst og fremst verið ætlað að leiðrétta tiltekið misræmi í skattlagningu á afspilunartækjum sem sum hver séu gædd eiginleikum tölvu sem hvorki beri tolla né vörugjöld. Hafi það verið ætlun löggjafans að breytingin næði til allra afspilunartækja. Þetta megi m.a. glögglega sjá á tölvubréfi frá fjármálaráðuneytinu til efnahags- og skattanefndar þar sem umrædd útfærsla á lagabreytingunni hafi verið lögð til. Þar segist ráðuneytið veita nefndinni nánari útlistun á því hvaða tæki það séu „nákvæmlega“ sem muni heyra undir hvert og eitt tollskrárnúmer sem ráðuneytið leggi til í breytingartillögu sinni. Þar komi fram að í nýjan tollflokk 8519.8110 muni „falla iPod shuffle og iPod Nano og aðrir MP3 spilarar sem ekki séu með hörðum disk“. Stefnandi telji í ljósi þessa engan vafa leika á um að umrædd vara falli undir tollskrárnúmer 8519.8110 samkvæmt umræddri lagasetningu. Stefnandi bendi á að vara stefnanda, iPod Nano, sé afspilunartæki sem spili tónlist, gangi án ytri orkugjafa og sé tengjanleg við gagnavinnsluvélar (tölvur). Eftir að umrædd lög hafi tekið gildi hafi stefnandi mátt með réttu búast við því að afspilunartækið iPod Nano yrði fært úr fyrri tollflokki yfir í hinn nýja flokk 8519.8110. Af því hafi ekki orðið. Hins vegar hafi varan verið flutt um tollflokk í flokk 8527.1309. Stefnandi telji þessa tilfærslu í andstöðu við skýr fyrirmæli og markmið laga nr. 121/2011. Enga heimild sé að finna í lagabreytingunni til að færa afspilunartæki í aðra flokka en þá sem búnir hafi verið til með lagabreytingunni. Sú aðgerð tollstjóra að færa afspilunartækið, iPod Nano, milli tollflokka með öðrum hætti en lög hafi kveðið á um sé andstæð lögum og því ógild. Stefnandi telji að í ljósi afdráttarlausra ákvæða 40. gr. og 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, að tollflokkun geti ekki farið fram í andstöðu við skýr fyrirmæli og markmið settra laga.
Stefnandi telji að sú niðurstaða tollstjóra að flokka iPod Nano sem útvarpstæki þ.e. í tollflokk 8527.1309 sé í grundvallaratriðum röng jafnvel þó að framangreindur vilji og markmið löggjafans hefði ekki komið til. Byggi sú afstaða á því að niðurstaða tollstjóra sé, að mati stefnanda, í andstöðu við ákvæði tollskrár sem og túlkunarreglur tollskrárinnar sem birtar séu sem viðauki við tollalög nr. 88/2008. Þá sé hún einnig í andstöðu við fyrri fordæmi tollstjóra um sömu vöru og sem tollstjóri sé bundinn af. Tollflokkun skuli fara fram eftir fyrir fram ákveðnum hlutlægum mælikvörðum skv. tollskrá og túlkunarreglum hennar, sbr. viðauka I við tollalögin. Í lagalegu tilliti skuli tollflokkun byggð á orðalagi vöruliða, athugasemdum við tilheyrandi flokka eða kafla og ef það brýtur ekki í bága við orðalag vöruliða eða athugasemda skuli fylgja nánari reglum. Sé það því fyrst og fremst orðalag sem ráði tollflokkun. Stefndi telji að til greina kunni að koma að flokka vöru í tvo flokka eftir framangreindri reglu. Í túlkunarreglu 3. a komi fram hvernig skuli bregðast við þegar til álita komi að telja vörur til tveggja eða fleiri vöruliða. Í þeim tilfellum skuli vöruliður sem feli í sér nákvæmustu vörulýsinguna tekinn fram yfir vörulið með almennari vörulýsingu. Varan sem hér um ræði sé með margvíslega tæknilega eiginleika en hlutverk hennar sé að meginstefnu til að vista og spila tónlist. Varan sé afspilunartæki. Varan sé auk þess gædd margskyns hliðareiginleikum, s.s. klukku, skrefamæli, myndaskjá o.fl. Einnig geti hún numið útvarpssendingar en sá eiginleiki sé bæði almennur og fábrotinn. Það sé því nákvæmari vörulýsing að fella vöruna undir afspilunartæki. Sé þetta auk þess í samræmi við fyrri álit tollstjóra um sömu vöru. Meginregla við túlkun tollskrárinnar sé að flokka vörur eftir orðalagi vöruliðar. Orðalag þess vöruliðar þar sem stefnandi telji rétt að flokka iPod Nano geymi betri og sértækari lýsingu á vörunni en sá tollflokkur sem umrætt bindandi álit setji hana í. Af þeim sökum sé umrætt bindandi álit í andstöðu við framangreinda meginreglu sem og fyrri fordæmi.
Kröfu sína um endurgreiðslu byggir stefnandi á meginreglum kröfu- og stjórnsýsluréttar um endurgreiðslu oftekinna gjalda. Stefnandi hafi þegar flutt iPod Nano sendingar til landsins sem hafi verið tollafgreiddar í flokk 8527.1309 og gjöld greidd af þeim í samræmi við það. Greiðslukrafa stefnanda sé samtala greiðslna í samræmi við hið umdeilda bindandi álit fyrir stefnudag. Samtala gjalda sé 992.643 kr. eins og sjáist á yfirliti í stefnu. Helmingur þeirra gjalda hafi verið greiddur þann 16. janúar sl., eða 496.321 króna.
Kröfu um vexti og dráttarvexti byggir stefnandi á ákvæðum laga nr. 29/1995, þá sér í lagi 2. gr. laganna sem og 125. gr. laga nr. 88/2005, bæði með vísan til laga nr. 38/2001, sér í lagi til 1. mgr. 6. gr. laganna og 1. mgr. 8. gr. Upphafsdagur vaxta sé greiðsludagur oftekinna gjalda en upphafsdagur dráttarvaxta stefnubirtingardagur. Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og kröfu um virðisaukaskatt á málskostnað byggir hann á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Um varnarþing vísist til 3. mgr. 33. gr. einkamálalaga nr. 91/1991.
III.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi mótmælir öllum málsástæðum stefnanda sem röngum og byggir á því að umrætt álit hafi verið löglegt bæði að formi og efni. Hvorki séu skilyrði til að ógilda það né að taka kröfur stefnanda að öðru leyti til greina.
Tækið Ipod Nano hafi áður verið flokkað í 8521.9029 líkt og stefnandi taki fram. Í kjölfar setningar laga nr. 121/2011 hafi verið opnuð ný tollskrárnúmer, m.a. fyrir afspilunartæki. Við tollflokkun vörunnar hafi verið vísað í reglur 1 og 6 um túlkun tollskrárinnar. Þar segi að fyrirsagnir á flokkum, köflum og undirköflum séu einungis til leiðbeiningar. Tollflokkun skuli byggð á orðalagi vöruliða, athugasemda við tilheyrandi flokk eða kafla. Brjóti það ekki í bága við orðalag vöruliða eða athugasemda skuli fylgja meðal annars túlkunarreglu 6 við tollskrá. Þar komi fram að í lagalegu tilliti skuli flokkun vara í undirlið einstakra vöruliða byggð á orðalagi undirliðanna, sérhverri tilheyrandi athugasemd við undirliði og framangreindum túlkunarreglum. Viðkomandi athugasemdir við flokka og kafla gildi einnig með tilliti til þessarar reglu, nema annað leiði af orðalagi. Varan iPod Nano hafi ýmsa notkunarmöguleika. Það að tækið sé sambyggt útvarpi ræður hins vegar tollflokkuninni en gert sé ráð fyrir slíku tæki í tollskrárnúmeri 8527.1309. Tollflokkun og bindandi álit hafi verið gefið út samkvæmt fyrrnefndum túlkunarreglum. Farið hafi verið eftir orðalagi vöruliða og þar sem vörunni hafi verið best lýst. Varan sé nefnd í tollskrárnúmeri 8527.1309 sem móttökutæki fyrir útvarpssendingar einnig sambyggð, í sama hylki, með hljóðupptöku- eða hljóðflutningsbúnaði eða klukku og annað. Sé það álit stefnda að þar eigi að flokka iPod Nano með útvarpi. Til nánari skýringar megi geta þess að hljóðflutningstæki (MP3 spilarar) og vörur með vöruheiti iPod flokkist í mismunandi tollskrárnúmer eftir notkunarmöguleikum og orðalagi vöruliða. Þá megi einnig benda á tollflokkunarúrskurð vegna sambærilegrar vöru í vefgagnagrunni Bandarísku tolla- og landamæragæslunnar, CROSS og úrskurði vegna sambærilegra vara frá tollayfirvöldum í Slóveníu, Hollandi og Þýskalandi. Með vísan til framangreinds verði ekki fallist á það með stefnanda að tollflokkun tollstjóra á tækinu iPod Nano hafi verið röng eða skort lagastoð og sé þeim málsástæðum mótmælt sem röngum og ósönnuðum. Þvert á móti hafi ákvörðun tollstjóra byggt á skýrum túlkunarreglum tollskrár og fordæmum hér á landi og erlendis varðandi tollflokkun sambærilegra vara.
Stefndi mótmæli þeirri fullyrðingu stefnanda að tollflokkun tollstjóra hafi verið í andstöðu við skýr fyrirmæli og markmið laga nr. 121/2011. Í lögunum komi hvergi fram að flytja beri öll afspilunartæki í hin nýju tollskrárnúmer sem urðu til með lagabreytingunni. Aðeins sé gert ráð fyrir því að ákveðnar vörur sem eigi undir umrædd númer njóti hagstæðari gjalda en verið hafi. Verði ekki séð að vara sú sem deilt sé um sé þar á meðal. Mikilvægt sé að líta til frumvarps með lögunum til að hægt sé að átta sig á markmiði lagabreytingarinnar. Þar komi fram að breytingunni sé fyrst og fremst ætlað að leiðrétta tiltekið misræmi í skattlagningu á afspilunartækjum sem sum hver séu gædd eiginleikum tölvu og beri því hvorki tolla né vörugjöld. Hvergi komi fram í frumvarpinu að öll afspilunartæki eigi að falla undir nýju tollnúmerin og engin afstaða sé tekin til afspilunartækja sem jafnframt geti tekið á móti útvarpssendingum. Ekki verði því séð að skýr vilji löggjafans hafi staðið til þess að lækka eða fella niður tolla og vörugjöld af afspilunartækjum sem sambyggð séu útvarpi og sé þeirri málsástæðu stefnanda mótmælt sem rangri. Ákvörðun tollstjóra hafi því á engan hátt verið í andstöðu við fyrirmæli og markmið laga nr. 121/2011. Á því sé byggt af hálfu stefnda að álit tollstjóra hafi verið að öllu leyti í samræmi við lög.
Mótmælt sé sem röngu að niðurstaða tollstjóra hafi verið ólögmæt. Stefnandi telji í stefnu að í ljósi afdráttarlausra ákvæða 40. gr. og 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrár geti tollflokkun ekki farið fram í andstöðu við skýr fyrirmæli og markmið settra laga. Stefndi mótmæli þessari málsástæðu stefnanda og byggir á því að álit tollstjóra hafi verið fyllilega lögmætt og í samræmi við lög og hafi ekki farið í bága við stjórnarskrá Íslands. Stefndi mótmæli því sem röngu að niðurstaða tollstjóra hafi í grundvallaratriðum verið röng í andstöðu við fyrri fordæmi tollstjóra um sömu vöru. Stefndi mótmæli því að stefnandi geti sjálfur ákveðið hver sé meginvirkni vörunnar sem um ræðir. Þá sé mótmælt lýsingu stefnanda á þeim eiginleika vörunnar að geta numið útvarpssendingar. Stefndi telji að í lýsingu stefnanda á vörunni sé lítið gert úr eiginleikum vörunnar. Stefndi telji að ekki verði séð að nein rök standi til þess að ógilda bindandi álit tollstjóra um tollflokkun á vörunni iPod Nano. Stefnandi leggi fram tölvupóst frá starfsmanni ráðuneytisins til efnahags- og skattanefndar Alþingis þar sem tekið sé fram að iPod Nano eigi að falla undir tollskrárnúmerið 8519.8110 eftir að þær breytingar, sem vísað sé til í póstinum, hafi tekið gildi. Í þeim undirbúningi sem ráðuneytið hafi tekið þátt í við gerð umrædds frumvarps hafi mikið af upplýsingum og forsendum legið til grundvallar því hvernig lagabreytingin hafi verið útfærð. Ráðuneytið hafi hins vegar ekki búið yfir upplýsingum um að varan iPod Nano væri búin útvarpsmóttakara og myndi því falla í annan tollflokk. Því hafi verið gert ráð fyrir að samskonar tollflokkun gilti um hann og aðrar tónhlöður. Af þessum sökum hafi ráðuneytið sent efnahags- og skattanefnd þær upplýsingar að iPod Nano félli undir tollskrárnúmerið 8519.8110, þ.e. iPod Nano án útvarpsmóttakara. Það hafi hins vegar ekki komið í ljós fyrr en eftir að umrædd lagabreyting hafi tekið gildi að iPod Nano hafi verið búinn þessum eiginleika frá því að fimmta „kynslóð“ tækisins hafi komið út í lok árs 2009. Stefndi mótmæli fullyrðingum stefnanda um þetta atriði og byggi á því að þetta tölvubréf breyti engu í þessu máli. Stefndi mótmæli því að það hafi verið yfirlýst markmið löggjafans með þessum breytingum að fella niður tolla á afspilunartækjum og að breytingin næði til allra afspilunartækja. Þá sé á það bent að stefnandi hafi ekki borið ágreining þennan undir ríkistollanefnd.
Vegna kröfuliðar í stefnu um að stefnda verði gert að greiða stefnanda 496.321 krónu auk vaxta eins og þar séu tilgreindir þá sé á því byggt af hálfu stefnda að engin skilyrði séu til að taka þá kröfu til greina. Hvernig sem úrslit máls verði varðandi fyrsta kröfulið í stefnu sé ljóst að í niðurstöðu dómsins geti aldrei falist tollflokkun. Það sé hlutverk tollstjóra. Því sé útilokað að dómurinn geti spáð því í hvaða tollflokk varan fari kæmist hann að þeirri niðurstöðu að skilyrði væru til að ógilda bindandi álit tollstjóra. Því sé slík greiðslukrafa algerlega ódómtæk. Engar forsendur séu til að dæma þær og enginn grundvöllur. Lagagrundvöllur slíkrar kröfu sé einnig vanreifaður. Því sé mótmælt að lög nr. 29/1995 eigi við í þessu tilviki. Þá sé mótmælt tilvísun til 125. gr. laga nr. 88/2005. Stefndi mótmæli öllum málsástæðum stefnanda. Vegna málskostnaðar sé vísað til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
IV.
Niðurstaða
Ágreiningur málsins lýtur að ákvörðun tollstjóra frá 11. nóvember 2011 þar sem hann gaf bindandi álit um tollflokkun á vörunni iPod Nano, sem er með móttöku fyrir útvarpssendingar, og var tollafgreidd samkvæmt því.
Við aðalmeðferð málsins upplýsti lögmaður stefnanda að nú væru ekki greiddir almennir tollar og vörugjöld af vörunni. Hafi sú breyting orðið í kjölfar setningar laga nr. 42/2012 um breytingu á tollalögum nr. 88/2005 sem tók gildi 13. júní 2012.
Stefnandi telur umrædda tollflokkun í tollflokk 8527.1309 hafa verið ranga auk þess sem hún hafi verið í andstöðu við skýr fyrirmæli og markmið laga nr. 121/2011 um breytingu á tollalögum nr. 88/2005 o.fl. Þau gjöld sem stefnandi hafi innt af hendi hafi því verið oftekin.
Sýknukrafa stefnda byggir hins vegar á því að umrætt álit hafi verið löglegt að efni og formi. Umrædd vara sé sambyggð útvarpi og hafi það ráðið tollflokkuninni á þeim tíma.
Með lögum nr. 121/2011 um breytingu á tollalögum nr. 88/2005 o.fl. var ákveðið að almennir tollar og vörugjöld af tilteknum tollflokkum féllu niður. Í athugasemdum í frumvarpi því sem varð að lögum segir að breytingunni sé fyrst og fremst ætlað að leiðrétta tiltekið misræmi í skattlagningu á afspilunartækjum sem sum hver séu gædd eiginleikum tölvu sem hvorki beri tolla né vörugjöld. Athygli er vakin á því að fleiri vörutegundir en afspilunartæki falli undir þau tollskrárnúmer sem hér um ræðir og megi um það vísa til tollskrárinnar.
Eins og sjá má tekur umrædd breyting til þeirra afspilunartækja einna sem eru gædd eiginleikum tölvu. Áður en ofangreind lagabreyting var gerð var iPod Nano með þennan eiginleika flokkaður í tollflokk 8521.9029. Í kjölfar gildistöku laga nr. 121/2011 voru opnuð ný tollskrárnúmer og gerðar breytingar á 85. kafla tollskrár í viðauka I. við lögin.
Ipod Nano með útvarpsmóttakara kom fyrst á erlendan markað á árinu 2009. Ekki liggur ljóst fyrir af gögnum málsins hvenær tækið kom fyrst á markað hér á landi og aðilum ber ekki saman um það. Um slíkt afspilunartæki er þó ekki fjallað í frumvarpinu. Ekki er fallist á það með stefnanda að tölvupóstur fjármálaráðuneytisins til efnahags- og viðskiptanefndar, sem vísað er til í greinargerð með breytingartillögum, gefi vísbendingar um vilja löggjafans en enga skírskotun er að finna í nefndu tölvubréfi til Ipod Nano með útvarpsmóttakara. Fyrir liggur í öðrum gögnum málsins að á þeim tíma sem tölvubréfið var sent, lá ekki fyrir að varan Ipod Nano með útvarpsmóttakara hafi verið fáanleg. Þá verður á engan hátt ráðið af nefndum breytingum á tollalögum eða lögskýringargögnum að Tollstjóra hafi borið að fella öll afspilunartæki undir hin nýstofnuðu tollskrárnúmer. Er því hafnað þeirri málsástæðu stefnanda, að sú ákvörðun tollstjóra að flokka Ipod Nano, með útvarpsmóttakara með þeim hætti sem raun bar vitni, hafi verið andstæð fyrirmælum og markmiðum laga nr. 121/2011.
Stefnandi byggir auk þess á því að tollflokkun tollstjóra hafi verið röng og í andstöðu við ákvæði tollskrár og túlkunarreglur hennar.
Tollskráin hefur lagagildi og er viðauki við tollalögin nr. 88/2005. Samkvæmt 20. gr. tollalaga ber innflytjandi ábyrgð á réttri tollflokkun vöru en honum ber að færa vöru til tollflokks samkvæmt almennum reglum um túlkun tollskrárinnar í viðauka I við lögin. Við tollflokkun er notast við alþjóðlegt samræmt flokkunarkerfi yfir vörur. Leiki vafi á um tollflokkun vöru eða óski inn- eða útflytjandi eftir staðfestingu tollstjóra á tollflokkun getur hann leitað eftir bindandi áliti tollstjóra á tollflokkun hennar. Eins og rakið hefur verið leitaði stefnandi slíks álits eftir gildistöku laga nr. 121/2011. Í umsókn stefnanda er að finna vörulýsingu en þar segir m.a.: „Ipod Nano er starfrænn hljóðspilari hannaður af Apple til að geyma á og spila hljóðbækur, tónlist og podvarp og einnig til að geyma ljósmyndir. Mögulegt er að hlusta á Fm-útvarp, pedometer möguleiki og stuðningur við Nike+Ipod. Ipod Nano getur gengið án ytri orkugjafa og er tengjanlegur við ganganvinnsluvélar.“ Af lýsingunni einni verður ekki séð að einum eiginleika sé gert hærra undir höfði en öðrum enda um fjölnota tæki að ræða og einstaklingsbundið hvernig hver og einn notar það.
Túlkunarreglur tollskrár eru aðgengilegar á vef Tollstjóra og kemur skýrt fram á hverju tollflokkun sé byggð í lagalegu tilliti. Fyrirsagnir á flokkum, köflum og undirköflum eru einungis til leiðbeiningar. Tollflokkunin sjálf er afar nákvæm og er greinilegt að breyting á samsetningu eða eiginleika vöru með einhverjum hætti hefur áhrif á tollflokkun. Í þessu tilviki var, eins og áður segir, tækið Ipod Nano með útvarpsmóttakara fellt undir tollflokk með yfirheitið „móttökutæki fyrir útvarpssendingar, einnig sambyggð, í sama hylki með hljóðupptöku eða hljóðflutningsbúnaði eða klukku“.
Eins og áður segir voru með lögum nr. 42/2012 enn gerðar breytingar á tollalögum. Í nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar með breytingartillögu, sem var síðar samþykkt og felld inn í lögin, kemur fram að nefndin leggi til breytingar til samræmis við þær sem gerðar voru. með lögum nr. 121/2011 um niðurfellingu almennra tolla og vörugjalda á vörutegundir í tilgreindum tollflokkum. Í athugasemdum kemur fram að lögunum hafi einkum verið ætlað að leiðrétta tiltekið misræmi í skattlagningu afspilunartækja. Breytingartillaga nefndarinnar geri ráð fyrir því að niðurfellingin taki einnig til tónhlaða og annarra slíkra spilara sem jafnframt væru búnir útvarpsspilara.
Að mati dómsins er ljóst að löggjafinn taldi þörf á að lögfesta sérstaklega, að niðurfelling tolla og vörugjalda, tæki einnig til þeirra tækja sem þarna eru nefnd. Kemur vilji löggjafans til þess skýrt fram í ofangreindri umfjöllun. Varan Ipod Nano með útvarpsmóttakara var flutt inn og tollafgreidd í samræmi við hið bindandi álit tollstjóra áður en lög nr. 42/2012 tóku gildi. Verður ekki séð, í ljósi þess sem áður er rakið að sú ákvörðun tollstjóra hafi, eins og á stóð, verið röng eða að önnur flokkun hafi átt fremur við þar sem meginvirkni vörunnar hafi verið afspilun. Sú gjaldtaka sem átti sér stað af hálfu tollstjóra fyrir gildistöku laga nr. 42/2012 hafði því lagastoð og ber að sýkna stefnda af kröfu stefnanda.
Rétt þykir að málskostnaður á milli aðila falli niður.
Sigríður Hjaltested, héraðsdómari, kveður upp þennan dóm.
DÓMSORÐ:
Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfu stefnanda, Skakkaturns ehf. Málskostnaður fellur niður.
Sigríður Hjaltested