- Ærumeiðingar
D Ó M U R
Héraðsdóms Reykjaness mánudaginn 14. febrúar 2011 í máli nr. E-415/2010:
Helgi Rafn Brynjarsson
(Arnar Kormákur Friðriksson hdl.)
gegn
Þóru Kristínu Hjaltadóttur
(Páll Eiríkur Kristinsson hdl.)
Mál þetta, sem var tekið til dóms 21. janúar sl., var höfðað 26. janúar 2010.
Stefnandi er Helgi Rafn Brynjarsson, [...].
Stefnda er Þóra Kristín Hjaltadóttir, [...].
Dómkröfur stefnanda:
Í fyrsta lagi að eftirfarandi ummæli er birtust á vefsíðu stefndu, www.123.is/thorastina, verði dæmd dauð og ómerk:
a) Ummæli er birtust á vefmiðlinum www.123.is/thorastina þann 28. júní 2007, sem verður að telja að stefnda sem höfundur þeirra beri ábyrgð á, verði dæmd dauð og ómerk:
„Djöfulsins AULI"
b) Ummæli er birtust á vefmiðlinum www.123.is/thorastina þann 28. júní 2007, sem verður að telja að stefnda sem höfundur þeirra beri ábyrgð á, verði dæmd dauð og ómerk:
„Þessi auli hérna til vinstri heitir Helgi Rafn framkvæmdi ógeðslegan glæp."
c) Ummæli er birtust á vefmiðlinum www.123.is/thorastina þann 28. júní 2007, sem verður að telja að stefnda sem höfundur þeirra beri ábyrgð á, verði dæmd dauð og ómerk:
„Þessi drengur fann hundinn og náði, og eignaði sér hann."
d) Ummæli er birtust á vefmiðlinum www.123.is/thorastina þann 28. júní 2007, sem verður að telja að stefnda sem höfundur þeirra beri ábyrgð á, verði dæmd dauð og ómerk:
„...Þarsem að hundurinn hefur verið öskrandi í töskunni og hélt drengurinn áfram að sparka þartil það var ljóst að hundurinn væri látinn."
Í öðru lagi að stefnda verði dæmd til þess að greiða stefnanda 500.000 krónur í miskabætur með almennum vöxtum frá 28. júní 2007 til stefnubirtingardags, skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, en dráttarvexti, skv. 9. gr. laga nr. 38/2001, frá 10. ágúst 2009 og til greiðsludags.
Í þriðja lagi að stefnda verði dæmd til að greiða stefnanda 200.000 krónur til að kosta birtingu dóms í málinu, það er forsendna og dómsorðs, í einu dagblaði og beri tildæmd fjárhæð dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá dómsuppsögu til greiðsludags.
Í fjórða lagi er krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum virðisaukaskatti, og/eða samkvæmt mati réttarins.
Stefnda krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefndu málskostnað að skaðlausu samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins, að meðtöldum virðisaukaskatti.
Til vara krefst stefnda þess að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að málskostnaður verði felldur niður.
I.
Málsatvik eins og þau horfa við stefnanda eru þau helst að þann 26. júní 2007 hafi sprottið upp umræður á hinum ýmsu vefsíðum á veraldarvefnum um að hundur, sem þá hafði verið týndur í nokkurn tíma, hefði verið drepinn með hrottafengnum hætti á Akureyri helgina 15.-17. júní það ár. Daginn eftir, eða þann 27. júní 2007, hafi nafn stefnanda sem og mynd af honum verið birt á nokkrum vefsíðum og því haldið fram að hann hefði verið gerandi í hinu meinta hundsdrápi. Í kjölfarið hafi eigandi hundsins kært atvikið til lögreglu. Stefnandi hafi loks verið nafngreindur í fjölmiðlum í tengslum við málið þann 30. júní 2007.
Í kjölfar þess að nafn stefnanda bar á góma í tengslum við hvarf hundsins hafi verið ráðist að honum úr öllum áttum með rógburði, ærumeiðingum, aðdróttunum og hótunum. Nánar tiltekið hafi verið um að ræða líflátshótanir með textaskilaboðum í síma og á vefsíðu hans auk þess sem hundruð einstaklinga tóku þátt í umræðum um málið á hinum ýmsu vefsíðum. Hafi hótanirnar og ærumeiðingarnar, sem stefnda tók m.a. þátt í, verið með þeim hætti að stefnandi treysti sér ekki til að fara út úr húsi og missti í kjölfarið vinnu sína. Sú er gekk einna harðast fram gegn stefnanda í ofangreindu máli, með hótunum og aðdróttunum í hans garð, hafi verið stefnda, Þóra Kristín Hjaltadóttir. Á vefmiðli stefndu, www.123.is/thorastina, hafi stefnda haft uppi ærumeiðandi ummæli um stefnanda og aðdróttanir í hans garð. Auk þess sem stefnda birti á vefsíðunni mynd af stefnanda. Þau ummæli er stefnda hafði uppi um/gegn stefnanda og birtust á umræddri vefsíðu stefndu þann 28. júní 2007 séu eftirfarandi:
„Djöfulsins AULI"
„Þessi auli hérna til vinstri heitir Helgi Rafn framkvæmdi ógeðslegan glæp." „Þessi drengur fann hundinn og náði, og eignaði sér hann."
,,...þarsem að hundurinn hefur verið öskrandi í töskunni og hélt drengurinn áfram að sparka þar til það var ljóst að hundurinn væri látinn "
Stefnandi hafi neitað sök í málinu allt frá upphafi en engu að síður ekki getað um frjálst höfuð strokið í nokkrar vikur eða allt frá því að hann var fyrst nafngreindur í tengslum við meint hundsdráp þann 27. júní 2007 og þar til umræddur hundur sást á lífi í Fálkafelli ofan Akureyrarbæjar þann 16. júlí sama ár. Hundurinn hafi svo náðst á lífi eftir nokkurra daga leit, þ.e. þann 23. júlí 2007. Sé því ljóst að ofangreind ummæli og fullyrðingar stefndu áttu við engin rök að styðjast og þá sé því ekki nokkur vafi til staðar um tilgangsleysi þeirra ærumeiðinga og aðdróttana sem stefnda lét falla um stefnanda sem hafði ekkert sér til sakar unnið.
Með hliðsjón af því að stefnda ritaði nafn sitt við ummæli þau er birtust á heimasíðu stefndu þann 28. júní 2007, verði að telja ágreiningslaust í máli þessu að stefnda sé höfundur þeirra ummæla sem krafist sé að dæmd verði dauð og ómerk í máli þessu og bótakrafa stefnanda byggir á.
Þann 10. júlí 2009 hafi stefndu verið sent bréf þar sem skorað var á hana að axla ábyrgð á eigin ummælum og stefndu veitt færi á að ná sátt í málinu með greiðslu skaðabóta að fjárhæð krónur 500.000. Stefnda hafi ekki fallist á þær málalyktir. Þar sem sættir hafa ekki tekist í málinu sé stefnanda nú nauðsynlegt að höfða mál þetta.
II.
Málsatvik eins og þau horfa við stefndu eru þau að þann 28. maí 2007 hafi hundurinn Lúkas sloppið frá eigendum sínum á Akureyri og verið týndur um nokkurt skeið. Þann 26. júní 2007 hafi sá orðrómur komist á kreik á veraldarvefnum að hundurinn hefði verið drepinn á Akureyri helgina 15.-17. júní það ár og að myndbandsupptaka væri til af atvikinu. Líkt og fram komi í stefnu hafi nafn stefnanda og mynd verið birt víða á veraldarvefnum þann 27. júní 2007 og fullyrt að stefnandi hefði drepið hundinn. Upp hefði spunnist mikil umræða á hinum ýmsu vefsíðum og því haldið fram, líkt og áður segir, að myndbandsupptaka hefði náðst af atvikinu og að þar sæist stefnandi drepa hundinn. Þá hefði komið víða fram, m.a. í fjölmiðlum, að nokkur vitni að atvikinu hefðu gefið sig fram við lögregluna á Akureyri. Stefndu, sem sjálf hafi verið og sé hundaeigandi, hafi verið brugðið er hún las lýsingar á hundsdrápinu á veraldarvefnum og hneyksluð á því framferði sem þar var lýst. Á þeim tímapunkti höfðu myndir af stefnanda verið birtar víða og það fullyrt að vitni hefðu séð stefnanda drepa hundinn og að atvikið hefði náðst á myndbandsupptöku.
Stefnda hafi fjallað um málið á persónulegri vefsíðu sinni þann 28. júní 2007, en á síðuna skrifi hún færslur sem ætlaðar séu vinum og vandamönnum. Hafi hún tekið þar upp færslu af annarri vefsíðu og birt óbreytta, en í þeirri færslu hafi m.a. verið að finna þau ummæli sem séu tilefni málshöfðunar stefnanda. Í þeirri færslu hafi þó ekki verið að finna neinar hótanir í garð stefnanda líkt og haldið sé fram í stefnu.
Þann 29. júní 2007 hafi stefnandi komið fram í þættinum Kastljósi í Ríkissjónvarpinu og neitað sök í málinu.
Þann 23. júlí 2007 hafi hundurinn Lúkas fundist á lífi í Fálkafelli fyrir ofan Akureyri og ljóst orðið að hið meinta hundsdráp var ekki á rökum reist. Eftir að ljóst varð að hundurinn var á lífi hafi stefnda fjarlægt umrædda færslu og læst vefsíðu sinni.
Þann 10. júlí 2009, rúmum tveimur árum eftir að umrædd færsla birtist á vefsíðu stefndu, hafi henni borist bréf frá lögmanni stefnanda þar sem henni var gefinn kostur á að ljúka málinu með sátt ellegar yrði meiðyrðamál höfðað á hendur stefndu vegna tilgreindra ummæla á vefsíðu hennar þann 28. júní 2007. Fram að þeim tímapunkti hafði stefnandi engin samskipti átt við stefndu vegna ummælanna og hafi stefndu fyrst verið tilkynnt þann 10. júlí 2009 að stefnandi teldi stefndu hafa bakað sér og fjölskyldu sinni mikinn skaða, líkt og það var orðað í bréfi lögmanns stefnanda dags. 10. júlí 2009.
III.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Aðild.
Samkvæmt ákvæði 15. gr. laga nr. 57/1957 um prentrétt, og dómvenju um beitingu þess, beri höfundur einn refsi- og fébótaábyrgð á því efni og ummælum sem hann lætur frá sér, ef hann hefur nafngreint sig og sé auk þess annað hvort heimilisfastur hér á landi, þegar ritið kemur út, eða undir íslenskri lögsögu, þegar mál er höfðað. Aðild stefndu í málinu helgist af því að hún sem höfundur ummælanna hafi nafngreint sig fyrir umfjölluninni og ummælunum um stefnanda og beri því ábyrgð á þeim samkvæmt lögjöfnun frá lögum nr. 57/1957 um prentrétt, sbr. 1. tl. 15. gr. laganna, og sé því kröfum réttilega beint að henni. Varðandi ábyrgð stefndu, Þóru Kristínar Hjaltadóttur, sé þannig byggt á því að hún sem höfundur umræddra ummæla er birtust á vefsíðu stefndu, www.123.is/thorastina, þann 28. júní 2007, beri ábyrgð á ummælunum í samræmi við 15. gr. laga nr. 57/1956.
Ærumeiðingar.
Stefnandi telji að umrædd ummæli stefndu er birt voru á vefmiðli stefndu, www.123.is/thorastina, séu ærumeiðandi og til þess fallin að valda honum álitshnekki og ótta.
Í ummælum þeim er stefnda birti á vefsíðu stefndu þann 28. júní 2007 komi eftirfarandi fram:
Að stefnandi sé auli.
Að stefnandi hafi framið ógeðslegan glæp.
Að stefnandi hafi sparkað í hund þar til ljóst væri að hundurinn væri látinn.
Þegar ofangreind ummæli stefndu séu skoðuð í heild sinni og með tilliti til myndbirtingar sjáist að um sé að ræða alvarlegar aðdróttanir enda stefnandi vændur um að hafa myrt hund þann er týndist á Akureyri í júní 2007. Einnig sé stefnandi ítrekað nefndur auli og nafngreindur í tengslum við ,,ógeðslegan glæp“. Ummæli þessi hafi engan rétt átt á sér, verið ærumeiðandi og til þess fallin að kasta rýrð á stefnanda. Ekki verði annað ráðið af þessari framsetningu ummæla stefndu en að það hafi beinlínis verið markmið þeirra að lítillækka stefnanda sem og að valda honum ótta og óöryggi.
Að mati stefnanda hafi ummæli stefnda verið röng, ærumeiðandi og virðingu hans til mikils hnekkis. Þannig sé stefnandi sakaður um hundsdráp samhliða því að vera kallaður illum nöfnum. Eins og fram hafi komið hafi hundurinn fundist á lífi skömmu eftir að stefnda lét ummæli sín falla á vefmiðli stefndu þann 28. júní 2008. Hafði stefnandi því sér ekkert til sakar unnið og var því saklaust fórnarlamb ofsókna stefndu.
Ummæli stefndu, bar sem vegið er að æru og mannorði stefnanda, hafi verið aðgengileg hverjum sem lesa vildi sem jók enn á tjón og vanlíðan stefnanda. Þetta hafi leitt til þess, eins og að ofan greinir, að stefnandi taldi sig hvergi óhultan og hélt sig því heima við vegna ótta og óöryggis sem stefnda tók þátt í að mynda.
Ljóst sé að þær ærumeiðingar og aðdróttanir sem stefnda kaus að setja fram gegn stefnanda, án sýnilegra sönnunargagna eða staðfestingar á aðkomu stefnanda að hinu meinta hundsdrápi, hafa bakað stefnanda og fjölskyldu hans mikinn skaða. Ekki sé nú heldur nokkur vafi til staðar um tilgangsleysi ummælanna enda um rætnar lygar af hálfu stefndu að ræða gagnvart aðila sem hafi ekkert sér til sakar unnið. Sé stefnanda því nauðsynlegt að höfða mál á hendur stefndu til að vernda æru sína og mannorð.
Framangreint leiði til þess að fallast beri á allar fjórar kröfur stefnanda og verði nú sérstaklega fjallað um málsástæðu hverrar kröfu fyrir sig en að öðru leyti sé vísað til framangreindrar umfjöllunar.
Ómerking ummæla.
Varðandi kröfu um ómerkingu ummæla og að þau verði dæmd dauð og ómerk sé vísað í 234., 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með vísan til ofangreindra lagaákvæða beri að ómerkja ummælin fyrir dómi með vísan til 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga enda ummæli stefndu ekki á rökum reist ásamt því að vera óviðurkvæmileg, tilhæfulaus og smekklaus. Þá séu ummælin til þess fallin að sverta ímynd stefnanda, verða virðingu hans til hnekkis sem og til þess fallin að valda honum ótta og óöryggi. Stefnandi hafi því mikla hagsmuni af því að fá ummælin dæmd dauð og ómerk.
Miskabætur.
Stefnandi byggir á því að stefnda beri miskabótaábyrgð gagnvart stefnanda á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, þar sem hin opinbera umfjöllun sé ólögmæt meingerð gegn persónu stefnanda. Varðandi miskabótakröfuna sé byggt á því að ummæli stefndu, sem höfð voru uppi opinberlega á vefmiðli stefndu, hafi fengið mjög á stefnanda andlega þar sem um ærumeiðandi aðdróttanir og hótanir hafi verið að ræða, sem hvoru tveggja séu rangar og tilefnislausar og til þess fallnar að vekja ugg og ótta hjá stefnanda. Þá telji stefnandi að æra hans og virðing hafi beðið hnekki við umrædd ummæli á vefmiðlinum og með því sé verið að ráðast á persónu hans. Í öllu falli sé ljóst að þær ærumeiðingar og aðdróttanir sem stefnda kaus að setja fram gegn stefnanda, án nokkurs sjáanlegs undanfara eða sönnunargagna sem skýrt gæti tilefnislausa árás hans, hafa bakað stefnanda og fjölskyldu hans mikinn skaða. Þá sé nú ekki heldur nokkur vafi til staðar um tilgangsleysi þeirra hótana, ærumeiðinga og aðdróttana sem stefnda lét falla um stefnanda sem hafði ekkert sér til sakar unnið. Stefnandi telji því að stefnda hafi gróflega vegið að sinni persónu og æru og upplifir reiði og sárindi í garð stefndu. Krafa stefnanda um miskabætur byggi því, eins og fyrr greinir, á 26. gr. laga nr. 50/1993 þar sem m.a. komi fram að heimilt sé að láta þann sem ábyrgð ber á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns greiða miskabætur til þess sem misgert er við. Við mat á miskabótum sé einnig vísað til grunnraka að baki 234., 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga sem og grunnraka Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. 71. gr. laga nr. 33/1944, þar sem fram komi að allir skuli njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu.
Að auki verði, við ákvörðun miskabóta, að hafa í huga að þær skuli fela í sér varnaðaráhrif gegn frekari ásetningsbrotum af hálfu stefndu af þessu tagi. Sé miskabótakrafa stefnanda, að fjárhæð 500.000 krónur, því síst of há í ljósi allra atvika málsins.
Birting dóms.
Krafan um birtingu dóms byggi á 2. mgr. 241. gr. hegningarlaga. Samkvæmt því megi dæma þann, sem sekur reynist um ærumeiðandi aðdróttun, til þess að greiða þeim sem misgert var við hæfilega fjárhæð til þess að standast kostnað af birtingu dóms, atriðisorða hans eða forsendna jafnframt í fleiri en einu opinberum blöðum eða ritum, fleiri en einu. Með hliðsjón af ofangreindu lagaákvæði sem og því um hversu alvarleg meiðyrði og aðdróttanir var að ræða sé nauðsynlegt að kynna ómerkingardóminn rækilega. Krafist sé kostnaðar við birtingu í einu dagblaði en sá kostnaður geti aldrei hlaupið á lægri fjárhæð en 200.000 krónur.
Lagarök.
Vísað er til ákvæða almennra hegningarlaga nr. 19/1940, aðallega 25. kafla um ærumeiðingar og brot á friðhelgi einkalífs, sérstaklega 234., 235., 236. og 241. Þá er einnig vísað til 71. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944.
Um aðild vísast til ákvæða laga um prentrétt nr. 57/1956, aðallega 15. greinar.
Einnig er vísað til almennra reglna skaðabótaréttar og ákvæðis 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 um miskabætur.
Kröfu um dráttarvexti styður stefnandi við lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, aðallega IV. kafla, sbr. einkum 1. mgr. 8. gr. og 9. gr. laganna.
Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála. Krafan um virðisaukaskatt á málskostnað styðst við lög um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Varðandi varnarþing vísast til 32 gr. laga númer 91/1991 um meðferð einkamála.
IV.
Málsástæður og lagarök stefndu
Aðalkrafa um sýknu.
Stefnda telji að sýkna beri hana af öllum kröfum stefnanda. Ummæli þau sem talin eru upp í stafliðum a-d í stefnu hafi verið sett fram í góðri trú og fjarlægð þegar ljóst varð að ummælin voru röng. Því séu skilyrði þess að dæma stefndu til greiðslu miskabóta, birtingarkostnaðar og ómerkingu ummæla ekki fyrir hendi. Þá hafni stefnda því alfarið að ummæli í stafliðum a-d í stefnu feli í sér ærumeiðingar eða aðdróttanir í garð stefnanda í skilningi 234. gr.-236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með vísan til þess beri að sýkna stefndu af öllum dómkröfum stefnanda. Jafnframt telji stefnda að kröfur stefnanda séu niður fallnar sökum tómlætis, en stefnandi hafi höfðað málið rúmu tveimur og hálfu ári eftir að ummælin voru látin falla á vefsíðu stefndu, sem sýni að ummæli stefndu hafa ekki brunnið heitt á stefnanda.
Almenn sjónarmið.
Af hálfu stefndu er lögð áhersla á að tjáningarfrelsið njóti ríkrar verndar að íslenskum lögum sbr. 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, MSE, sem lögfestur hafi verið hér á landi sbr. lög nr. 62/1994. Verði tjáningarfrelsinu engar skorður settar nema að uppfyllt séu skilyrði 3. mgr. 73. gr. stjskr. og 2. mgr. 10. gr. MSE. Kröfur stefnanda um miskabætur, birtingarkostnað og ómerkingu ummæla stefndu verði því ekki dæmdar nema þær uppfylli umrædd skilyrði til undantekninga frá meginreglunni um óheft tjáningarfrelsi, þ.e. að þær séu nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum. Í máli þessu sem og öðrum meiðyrðamálum vegist á sjónarmið um tjáningarfrelsi og friðhelgi einkalífs. Þróun dómaframkvæmdar síðustu ár, bæði hjá íslenskum dómstólum og Mannréttindadómstóli Evrópu hafi hvað helst falist í breyttri aðferðarfræði dómstóla þegar tekist sé á við meiðyrðamál. Þróunin hafi verið á þann veg að fundið sé hæfilegt jafnvægi milli tjáningarfrelsis og friðhelgi einkalífs þar sem áhersla sé lögð á að tjáningarfrelsi verði ekki takmarkað nema nauðsyn standi til þess í lýðræðisþjóðfélagi og skipti sjónarmið um meðalhóf miklu í því sambandi. Þessu hafi fylgt aukin vernd tjáningarfrelsisins. Þróunin hafi einnig leitt til þess að tjáningarfrelsið sé orðið mun rýmra og ummæli sem talist hafi fela í sér ærumeiðingu á seinni hluta síðustu aldar séu nú talin rúmast innan marka tjáningarfrelsisins og varði hvorki refsi- né bótaábyrgð.
Þegar ummæli stefndu séu metin sé mikilvægt að gera greinarmun á staðreyndum og gildisdómum. Í gildisdómi felist mat á staðreynd en ekki miðlun staðreynda og slíkt mat hljóti alltaf að vera huglægt. Samkvæmt þessu hafi Mannréttindadómstóll Evrópu og dómstólar á Íslandi talið það óheimila skerðingu á tjáningarfrelsi að dæma mann fyrir meiðandi gildisdóm á þeirri forsendu að sannleiksgildi ummæla hans haft ekki verið staðreynt. Íslenskir dómstólar hafi skýrt gildisdóma með rúmum hætti og gengið langt í að flokka ummæli sem slík, jafnvel þó þau hafi yfirbragð fullyrðinga um staðreyndir. Þá hafi einnig verið litið á ummæli í heild sem gildisdóm þótt inn á milli séu staðhæfingar sem út af fyrir sig mætti krefjast beinnar sönnunar á. Hafi dómstólar talið ummæli vera gildisdóm þegar aðili leggur mat sitt á staðreyndir sem hann telur vera fyrir hendi og talið að við slíkar aðstæður fari menn ekki út fyrir mörk tjáningarfrelsisins.
Ummæli stefndu feli ekki í sér ærumeiðandi aðdróttun. Í stefnu séu ummæli í stafliðum a-d ekki heimfærð sérstaklega undir tiltekin ákvæði ærumeiðingarkafla hegningarlaga, en því sé haldið fram að ummælin feli í sér ærumeiðingar og aðdróttanir í skilningi 234. gr.- 236. gr. hgl. Stefnda telji ummæli þau sem dómkröfur stefnanda byggja á hvorki fela í sér ærumeiðingu í skilningi 234. gr. hgl. né aðdróttun í skilningi 235. gr. hgl. Þá hafni stefnda því alfarið að 236. gr. hgl. geti átt við um ummælin þar sem ákvæðið geri þá kröfu að ærumeiðandi aðdróttun sé höfð frammi eða borin út gegn betri vitund, en þegar stefnda setti fram ummælin hafi hún verið í góðri trú um sannleiksgildi þeirra. Þá hafni stefnda því alfarið að í ummælum hennar hafi falist hótanir í garð stefnanda, líkt og komi víða fram í stefnu.
Um einstök ummæli.
a)„Djöfulsins AULI"
Í stefnu sé hvorki rökstutt hvernig framangreind ummæli geti falið í sér ærumeiðingu eða aðdróttun né að þeim sé beint sérstaklega að stefnanda. Að mati stefndu felist hvorki í framangreindum ummælum ærumeiðing né aðdróttun heldur sé hér um að ræða gildisdóm sem falli án vafa innan marka tjáningarfrelsisins.
b)„Þessi auli hérna til vinstri heitir Helgi Rafn framkvæmdi ógeðslegan glæp"
Stefnda hafni því að í framangreindum ummælum felist ærumeiðing eða aðdróttun. Í orðinu „auli“ felist gildisdómur sem falli innan marka tjáningarfrelsisins sbr. umfjöllun að framan.Varðandi seinni hluta ummæla stefndu þá sé um að ræða gildisdóm bar sem stefnda hafi lagt mat sitt á staðreyndir sem hún taldi vera fyrir hendi og felist ekki í orðum hennar ærumeiðandi aðdróttun samkvæmt 234. gr.-236. gr. hgl.
c)„Þessi drengur fann hundinn og náði, og eignaði sér hann."
Ekki verði séð að í þessum ummælum stefndu felist ærumeiðingar eða aðdróttun í skilningi hegningarlaga. Um sé að ræða lýsingu á atburði sem stefnda taldi hafa átt sér stað og því sé um gildisdóm að ræða þar sem stefnda lagði mat sitt á staðreyndir sem hún taldi vera fyrir hendi og fólst ekki í orðum hennar ærumeiðandi aðdróttun samkvæmt 234. gr.-236. gr. hgl.
d),,...þar sem hundurinn hefur verið öskrandi í töskunni og hélt drengurinn áfram að sparka þartil það var ljóst að hundurinn væri látinn".
Því sé hafnað að í þessum ummælum stefndu felist ærumeiðingar eða aðdróttun í garð stefnanda. Líkt og fram komi í færslu stefndu hafi hún staðið í þeirri trú að myndbandsupptaka væri til af atvikinu og sé um gildisdóm að ræða þar sem stefnda lagði mat sitt á staðreyndir sem hún taldi vera fyrir hendi og fólst ekki í orðum hennar ærumeiðandi aðdróttun samkvæmt 234. gr.-236. gr. hgl.
Af framangreindu er ljóst að efnisskilyrði 234. gr., 235. gr., og 236. gr. hgl. séu ekki uppfyllt þar sem ummælin feli hvorki í sér ærumeiðingu né aðdróttun í skilningi laganna og hafi ekki verið sett fram í vondri trú. Við því sé að bæta að samkvæmt 18. gr. hgl. sé ekki refsað fyrir brot á 234. gr.-236. gr. hgl. nema ásetningur hafi verið fyrir hendi. Með vísan til alls þessa krefjist stefnda sýknu af öllum kröfum stefnanda.
Tómlæti stefnanda
Í stefnu sé krafist ómerkingar tiltekinna ummæla stefndu sem birtust á persónulegri vefsíðu hennar þann 28. júní 2007. Þá sé í stefnu krafist bóta á þeim grundvelli að ummæli stefndu hafi fengið mjög á stefnanda andlega, að æra hans og virðing hafi beðið hnekki með framsetningu ummælanna og að stefnda hafi með ummælum sínum bakað stefnanda og fjölskyldu hans mikinn skaða. Þrátt fyrir það hafi stefnandi ekkert aðhafst í málinu fyrr en rúmum tveimur árum eftir að ummælin birtust á veraldarvefnum og sýni það að ummæli stefndu lágu ekki þungt á stefnanda.
Stefnda bendi á að brot samkvæmt ákvæðum 234. gr.-235. gr. hgl. fyrnast á tveimur árum sbr. 1. tl. 1. mgr. 81. gr. hgl. Ummælin hafi verið fjarlægð af vefsíðu stefndu eftir að hundurinn fannst á lífi og vefsíðunni læst þannig að einungis þeir sem hafa ákveðið lykilorð geta skoðað síðuna. Þá hafi stefnandi fengið uppreist æru með fjölmiðlaumfjöllun eftir að hundurinn Lúkas fannst á lífi. Stefnda telji því að stefnandi hafi enga hagsmuni af því að fá dóm í málinu og að með athafnaleysi sínu hafi stefnandi sýnt að ummæli stefndu höfðu ekki þau alvarlegu áhrif á stefnanda og fjölskyldu hans sem lýst er í stefnu. Stefnda krefjist því sýknu af öllum kröfum stefnanda þar sem kröfur hans séu niður fallnar sökum tómlætis.
Um miskabótakröfu stefnanda
Stefnda telji að í ummælum í stafliðum a-d í stefnu hafi hvorki falist ærumeiðing né aðdróttun í skilningi 234. gr.-236. gr. hgl. Því séu ekki skilyrði til að dæma stefndu til greiðslu miskabóta samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. skbl. Varðandi miskabótakröfu stefnanda telji stefnda jafnframt að skilyrði b-liðar 1. mgr. 26. gr. skbl. séu ekki uppfyllt auk þess sem ólögmæt meingerð í skilningi ákvæðisins sé ekki fyrir hendi. Ákveðin skilyrði þurfi að vera fyrir hendi svo bætur séu dæmdar samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. skbl. Meðal annars þurfi ásetningur eða verulegt gáleysi að hafa verið fyrir hendi sbr. athugasemdir í greinargerð með lögum nr. 50/1993. Því fari fjarri að háttsemi stefndu hafi verið með þeim hætti að saknæmisskilyrði b-liðar 1. mgr. 26. gr. skbl. séu uppfyllt. Þá þurfi stefnandi einnig samkvæmt almennum reglum að leiða sönnur að tjóni sínu jafnvel þótt um miskabótakröfu sé að ræða. Stefnandi geri kröfu um krónur 500.000 í miskabætur án þess að rökstyðja þá kröfu eða sundurgreina fjárhæðina. Sönnunarbyrði um tjón og umfang þess hvíli á þeim sem krefst bótanna. Þá árétti stefnda að dómur um miskabætur feli í sér takmarkanir á tjáningarfrelsi stefndu og þær verði því ekki dæmdar nema sýnt sé fram á það með sannfærandi hætti að þær teljist nauðsynlegar í lýðræðisbjóðfélagi. Telji dómurinn að í einhverjum ummælum stefndu hafi falist ærumeiðing eða aðdróttun í skilningi 234. gr.-236. gr. hgl. bendi stefnda á að b-liður 1. mgr. 26. gr. skbl. sé einungis heimildarákvæði. Dómstólum sé því ekki skylt að dæma miskabætur jafnvel þótt þeir telji að öllum skilyrðum ákvæðisins og stjórnarskrárinnar sé fullnægt. Dómstólar hafi þannig svigrúm til að meta hvort aðstæður séu með þeim hætti að ekki beri að dæma miskabætur. Sjónarmið hafi verið í þróun undanfarna áratugi í þá veru að rangar fullyrðingar séu óhjákvæmilegur hluti af frjálsri umræðu og að menn verði ekki dæmdir til greiðslu bóta vegna ummæla sinna nema sannað sé að ummælin séu sett fram í vondri trú, þ.e. að menn verði ekki látnir bera ábyrgð á saklausum mistökum. Þá hafa þau sjónarmið rutt sér til rúms að þegar um sé að ræða útbreiðslu ummæla þurfi mun meira til en áður svo að útbreiðsla meiðandi ummæla varði ábyrgð.
Ummælin í stafliðum a-d í stefnu séu hluti af færslu sem stefnda tók af annarri vefsíðu og birti á sinni eigin, en af umræðum um málið bæði á veraldarvefnum og í fjölmiðlum, hafi verið fullyrt að myndbandsupptaka væri til af atvikinu þar sem stefnandi sjáist drepa hundinn. Þá hafi jafnframt verið fullyrt að vitni að atvikinu hefðu gefið sig fram við lögregluna á Akureyri. Þótt síðar hafi komið í ljós að stefnandi drap ekki hundinn og að hundurinn var í raun lifandi, þá hafi umræðan verið með þeim hætti að stefnda taldi upplýsingarnar réttar og að stefnandi hefði í raun framkvæmt verknaðinn með þeim hætti sem lýst hafði verið. Hafi stefnda því verið í góðri trú er ummælin voru látin falla á vefsíðu hennar, enda hafi stefnda ekki vitað að ásakanir á hendur stefnanda væru tilefnislausar. Tilgangur stefndu með birtingu ummælanna hafi ekki verið að særa eða lítilsvirða stefnanda heldur hafi stefnda viljað vekja athygli á málinu, sem hún taldi á grundvelli umræðna á veraldarvefnum að væri sannað. Þá verði að líta til þess að ummælin voru birt á persónulegri vefsíðu stefndu sem ætluð var vinum og vandarnönnum hennar. Útbreiðsla ummælanna hafi því verið mjög takmörkuð og í raun einungis bundin við þá sem þekktu stefndu og vissu af vefsíðu hennar. Færslan hafi verið fjarlægð af vefsíðu stefndu eftir að hundurinn fannst á lífi og vefsíðunni læst sem takmarkaði enn frekar útbreiðslu ummæla stefndu.
Þá bendi stefnda á að við mat á bótaskyldu verði að skoða ummæli stefndu í því ljósi að um var að ræða örlítið brot af þeirri miklu umræðu sem átti sér stað í tengslum við hvarf hundsins Lúkasar. Fallist dómurinn á að einhver ummæli stefndu hafi falið í sér ærumeiðingar eða aðdróttanir krefjist stefnda þess með vísan til framangreinds að hún verði sýknuð af miskabótakröfu stefnanda.
Varðandi kröfu stefnanda um greiðslu kostnaðar af birtingu dóms.
Með vísan til þess að stefnda telji að í ummælum hennar hafi hvorki falist ærumeiðing né aðdróttun krefjist hún sýknu af kröfu stefnanda um greiðslu kostnaðar við birtingu dóms opinberlega. Jafnvel þótt dómurinn fallist á að í einhverjum ummæla stefndu kunni að felast ærumeiðing eða aðdróttun krefjist stefnda sýknu af þessari kröfu stefnanda. Vísi stefnda til þess að þar sem sök stefndu sé fyrnd samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga verði hún ekki dæmd til greiðslu kostnaðar við birtingu dóms samkvæmt 2. mgr. 241. gr. hgl. sbr. 6. mgr. 82. gr. hgl.
Fallist dómurinn á kröfu stefnanda um birtingu dóms opinberlega telji stefnda að kröfu stefnanda verði fullnægt með birtingu dómsins á sama vettvangi og ummælin birtust, þ.e. á vefsíðu stefndu og því verði stefnda eðli málsins samkvæmt ekki dæmd til greiðslu kostnaðar við birtingu dómsins.
Varakrafa um verulega lækkun á kröfum stefnanda.
Komist héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að í einhverjum ummælum stefndu hafi falist ærumeiðingar eða aðdróttanir og skilyrði niðurfellingar bótaábyrgðar séu ekki fyrir hendi, krefjist stefnda verulegrar lækkunar á kröfum stefnanda með vísan til sömu sjónarmiða og rakin hafa verið. Þá sé miskabótakröfu sérstaklega mótmælt sem alltof hárri og órökstuddri með öllu. Stefnandi krefjist miskabóta að fjárhæð krónur 500.000, en sú fjárhæð sé í engu samræmi við bætur sem dæmdar hafa verið í sambærilegum málum á undanförnum árum. Stefnda hafi aðeins verið ein af fjöldamörgum sem fjölluðu um málið er það kom upp á sínum tíma. Telji stefnda að taka verði tillit til þess við ákvörðun miskabóta ef stefnandi hafi fengið tjón sitt bætt úr hendi annarra aðila sem tjáðu sig um málið á sínum tíma, en lögmaður stefnanda hafi komið fram í fjölmiðlum og tekið fram að stefnandi hafi samið um bætur við einstaka aðila. Þá vísi stefnda sérstaklega til þess að ummælin birtust á vefsíðu stefndu sem var einungis ætluð vinum og vandamönnum hennar og því hafi útbreiðsla ummælanna verið mjög takmörkuð Þá hafi ummælin verið fjarlægð eftir að hundurinn Lúkas fannst á lífi og vefsíðunni læst. Þar að auki telji stefnda að krafa stefnanda um 200.000 krónur til að standa straum af kostnaði birtingar á forsendum dóms og dómsorði sé í besta falli óeðlileg með hliðsjón af útbreiðslu ummælanna og eðli þeirra.
Lagarök.
Vísað er til ákvæða almennra hegningarlaga nr. 19/1940, aðallega 25. kafla um ærumeiðingar og brot á friðhelgi einkalífsins, sérstaklega 234. gr. , 235. gr., 236. gr. og 2. mgr. 241. gr. Þá er vísað til 18. gr., 81. gr. og 82. gr. almennra hegningarlaga.
Stefnda vísar til 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu.
Vísað er til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 sbr. lög nr. 37/1999.
V.
Aðilar málsins gáfu skýrslu við aðalmeðferð málsins auk föður stefnanda.
Samkvæmt 1. mgr. 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 eru allir frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að hver maður eigi rétt á að láta í ljós skoðanir sínar, en ábyrgjast verði hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar tálmanir á tjáningarfrelsi megi þó aldrei í lög leiða. Samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins má aðeins setja tjáningarfrelsi skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum. Tjáningarfrelsi er samkvæmt þessu mikilvæg grundvallarréttindi sem vernduð eru af stjórnarskránni og verða takmarkanir á því að eiga sér örugga stoð í settum lögum og þeim alþjóðlegu skuldbindingum um mannréttindi sem Ísland hefur gengist undir, sbr. 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, MSE, sem lögfestur var hér á landi sbr. lög nr. 62/1994. Verða tjáningarfrelsinu engar skorður settar nema að uppfyllt séu skilyrði 3. mgr. 73. gr. stjskr. og 2. mgr. 10. gr. MSE. Verður því að skýra ákvæði XXV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem fjallar um ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs með hliðsjón af þessu.
Stefnandi telur hin umstefndu ummæli stefndu vera ærumeiðandi og til þess fallin að valda honum álitshnekki og ótta. Ummælin hafi engan rétt átt á sér, verið ærumeiðandi og til þess fallin að kasta rýrð á stefnanda. Stefnandi vísar til 234., 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga og krefst þess að ummæli stefndu verði dæmd dauð og ómerk, sbr. 1. mgr. 241. gr. laganna, enda hafi ummæli stefndu ekki verið á rökum reist ásamt því að vera óviðurkvæmileg, tilhæfulaus og smekklaus og til þess fallin að sverta ímynd stefnanda, verða virðingu hans til hnekkis sem og til þess fallin að valda honum ótta og óöryggi. Vegna þessara ærumeiðandi aðdróttana sem stefnandi telur hafa falið í sér ólögmæta meingerð gegn æru hans og persónu eigi hann rétt á miskabótum samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þá gerir hann fjárkröfu á hendur stefndu vegna kostnaðar af birtingu dóms, sbr. 2. mgr. 241. gr. hegningarlaga.
Samkvæmt 234. gr. almennra hegningarlaga skal hver, sem meiðir æru annars manns með móðgun í orðum eða athöfnum, og hver, sem ber slíkt út, skal sæta sektum eða [fangelsi] allt að 1 ári. Samkvæmt 235. gr. almennra hegningarlaga þá varðar það sektum eða [fangelsi] allt að 1 ári ef maður dróttar að öðrum manni einhverju því, sem verða myndi virðingu hans til hnekkis, eða ber slíka aðdróttun út. Samkvæmt 236. gr. almennra hegningarlaga, þá varðar það fangelsi allt að 2 árum ef ærumeiðandi aðdróttun er höfð í frammi eða borin út gegn betri vitund. Sé aðdróttun birt eða borin út opinberlega, enda þótt sakaráberi hafi ekki haft sennilega ástæðu til að halda hana rétta, þá varðar það sektum eða fangelsi allt að 2 árum. Samkvæmt 1. mgr. 241. gr. laganna má í meiðyrðamáli dæma óviðurkvæmileg ummæli ómerk, ef sá krefst þess sem misgert var við. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að dæma megi þann sem sekur reynist um ærumeðandi aðdróttun, til þess að greiða þeim sem misgert var við, ef hann krefst þess, hæfilega fjárhæð til þess að standast kostnað af birtingu dóms, atriðisorða hans eða forsendna jafnframt eftir því sem ástæða þykir til í opinberu blaði eða riti, einu eða fleirum.
Samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaganna er heimilt að láta þann sem ber ábyrgð á ólögmætri meingerð gegn friði, frelsi, æru eða persónu annars manns greiða miskabætur til þess sem misgert er við.
Í máli þessu er ekki ágreiningur um aðild.
Eins og rakið er í lýsingu málavaxta að framan spruttu upp umræður þann 26. júní 2007 á hinum ýmsu vefsíðum á veraldarvefnum um að hundur, sem þá hafði verið týndur í nokkurn tíma, hefði verið drepinn með hrottafengnum hætti á Akureyri helgina 15.-17. júní það ár. Daginn eftir, eða þann 27. júní 2007, var nafn stefnanda sem og mynd af honum birt á nokkrum vefsíðum og því haldið fram að hann hefði verið gerandi í hinu meinta hundsdrápi. Í kjölfarið kærði eigandi hundsins atvikið til lögreglu. Stefnandi var loks nafngreindur í fjölmiðlum í tengslum við málið þann 30. júní 2007. Stefnda segir að upp hafi spunnist mikil umræða á hinum ýmsu vefsíðum og því haldið fram að myndbandsupptaka hefði náðst af atvikinu og að þar sæist stefnandi drepa hundinn. Þá hafi komið víða fram, m.a. í fjölmiðlum, að nokkur vitni að atvikinu hefðu gefið sig fram við lögregluna á Akureyri. Stefndu, sem sjálf hafi verið og sé hundaeigandi, hafi verið brugðið er hún las lýsingar á hundsdrápinu á veraldarvefnum og orðið hneyksluð á því framferði sem þar var lýst. Á þeim tímapunkti hafi myndir af stefnanda verið birtar víða og það fullyrt að vitni hefðu séð stefnanda drepa hundinn og að atvikið hefði náðst á myndbandsupptöku. Stefnda hafi fjallað um málið á persónulegri vefsíðu sinni þann 28. júní 2007, en á síðuna skrifi hún færslur sem ætlaðar séu vinum og vandamönnum. Hafi hún tekið þar upp færslu af annarri vefsíðu og birt óbreytta, en í þeirri færslu hafi m.a. verið að finna þau ummæli sem séu tilefni málshöfðunar stefnanda. Þann 23. júlí 2007 hafi hundurinn Lúkas fundist á lífi í Fálkafelli fyrir ofan Akureyri og ljóst orðið að hið meinta hundsdráp var ekki á rökum reist. Eftir að ljóst varð að hundurinn var á lífi hafi stefnda fjarlægt umrædda færslu og læst vefsíðu sinni.
Við samanburð á færslum stefndu á eigin vefsíðu og færslunum á öðrum vefsíðum sem stefnda kveðst hafa tekið upp óbreyttar á sína, fer ekki á milli mála að stefnda birtir færslurnar ekki óbreyttar heldur fellir einstaka orð og setningar inn í sinn eigin texta. Með færslum sínum fullyrðir stefnda að tiltekin atvik hafi átt sér stað án þess að hafa annað fyrir sér í þeim efnum en kjaftasögur á öðrum vefsíðum að því undanskildu að hundsins var sannanlega saknað. Ber stefnda því ábyrgð á orðum sínum svo sem nú verður rakið.
Verður nú fjallað um þau ummæli sem krafist er ómerkingar á svo og um miskabótakröfu stefnanda og aðrar kröfur hans.
a) „Djöfulsins auli“ Þessi ummæli fela í sér gildisdóm og er greinilega beint að stefnanda. Þótt telja megi ummæli þessi smekklaus og tilhæfulaus þykja ekki efni til að ómerkja þau og er þeirri kröfu því hafnað.
b) „Þessi auli hérna til vinstri heitir Helgi Rafn framkvæmdi ógeðslegan glæp“. Með vísan til raka varðandi lið a þykir fyrri hluti ummælanna ekki fela í sér ærumeiðingu eða aðdróttun enda felst gildisdómur í orðinu „auli“. Á hinn bóginn verður að telja síðari hluta ummælanna „framdi ógeðslegan glæp“, sem átti sér enga stoð í veruleikanum, vera til þess fallin að sverta mannorð stefnanda auk þess að vera móðgandi og meiðandi fyrir hann og honum til hnekkis, sbr. 234. og 235. gr. almennra hegningarlaga. Verða þessi tilgreindu ummæli samkvæmt lið b því dæmd dauð og ómerk samkvæmt 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga.
c) „Þessi drengur fann hundinn og náði, og eignaði sér hann“. Hér endurtekur stefnda ummæli sem fram komu á annarri vefsíðu og ætlar ummælin byggð á staðreynd sem ekki reyndist vera fyrir hendi. Þessi ummæli þykja á hinn bóginn ekki þess eðlis að ástæða þykir til að ómerkja þau og er þeirri kröfu því hafnað.
d) „...Þarsem að hundurinn hefur verið öskrandi í töskunni og hélt drengurinn áfram að sparka þartil það var ljóst að hundurinn væri látinn“. Að mati réttarins eru þessi ummæli um atvik, sem eiga sér enga stoð í raunveruleikanum, til þess fallin að sverta mannorð stefnanda auk þess að vera móðgandi og meiðandi fyrir hann og honum til hnekkis, sbr. 234. og 235 gr. almennra hegningarlaga. Verða þessi tilgreindu ummæli samkvæmt lið d því dæmd dauð og ómerk samkvæmt 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga.
Ljóst þykir að umfjöllun um stefnanda sem ætluðum geranda í hvarfi hundsins á sínum tíma hafði mikil áhrif á líf stefnanda þar til hið sanna kom í ljós. Stefnandi var nafngreindur og varð hann auk þess fyrir margskonar áreiti og hótunum. Stefnandi tók fram í skýrslu sinni við aðalmeðferðina að hann hefði ekki orðið fyrir hótunum af hálfu stefnanda.
Þegar málið er virt í heild og að teknu tilliti til þess að ekki verður talið að stefnda hafi haft einbeittan ásetning til að særa stefnanda með ummælum sínum og að önnur umfjöllun um stefnanda en umfjöllun stefndu hafi í ríkara mæli valdið óþægindum hans og ótta og í ljósi þeirrar meðalhófsreglu sem leiða má af ákvæðum stjórnarskrár og Mannréttindasáttmála Evrópu um tjáningarfrelsi, en á hinn bóginn að því virtu að ummæli stefndu voru til þess fallinn að valda stefnanda miska og að í þeim fólst þannig meingerð samkvæmt 26. gr. almennra hegningarlaga, þykir stefnandi eiga rétt á miskabótum úr hendi stefndu sem þykja hæfilega ákveðnar 200.000 krónur. Skulu miskabætur bera dráttarvexti frá uppsögu dómsins til greiðsludags. Við ákvörðun upphafstíma dráttarvaxta er tekið tillit til ákveðins tómlætis af hálfu stefnanda við að hafa uppi kröfur sínar, sem girðir þó ekki fyrir rétt hans til miskabóta
Í samræmi við niðurstöðu málsins verður stefnda dæmd til að greiða stefnanda kostnað vegna birtingar dómsins og þykir sú fjárhæð að teknu tilliti til þeirrar takmörkuðu útbreiðslu sem ætla má að ummæli stefndu hafi fengið, hæfilega ákveðin 100.000 krónur.
Eftir úrslitum málsins verður stefnda dæmd til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 4000.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari kveður dóminn upp.
Dómsorð:
Eftirtalin ummæli eru dæmd dauð og ómerk.
b) „framdi ógeðslegan glæp“
d) „...Þarsem að hundurinn hefur verið öskrandi í töskunni og hélt drengurinn áfram að sparka þartil það var ljóst að hundurinn væri látinn“.
Stefnda greiði stefnanda 200.000 krónur í miskabætur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá uppsögu dóms þessa til greiðsludags.
Stefnda greiði stefnanda 100.000 krónur til birtingar á dómsniðurstöðu.
Stefnda greiði stefnanda 400.000 krónur í málskostnað.
Finnbogi H. Alexandersson